Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/2015


Lykilorð

  • Dómsátt
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 14. janúar 2016.

Nr. 474/2015.

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

M

(Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)

 

Dómsátt. Málskostnaður. Gjafsókn.

Máli K á hendur M lauk með dómsátt milli þeirra um annað en málskostnað. Talið var rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður og að gjafsóknarkostnaður þeirra beggja fyrir réttinum greiddist úr ríkissjóði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2015. Í málinu hefur verið gerð dómsátt um annað en málskostnað, en hvor aðila krefst fyrir sitt leyti málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi hins án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.

Rétt er að málskostnaður milli aðila falli niður, en um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, og stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 800.000 krónur til hvors um sig.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. júní 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. júní sl., höfðaði stefnandi, K, [...], [...], hinn 23. janúar 2015, gegn stefnda, M, [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnanda verði með dómi einni falin forsjá dóttur málsaðila, A, til 18 ára aldurs stúlkunnar og að kveðið verði á um umgengni stúlkunnar við stefnda í samræmi við tillögur stefnanda. Verði stefnanda falin forsjá stúlkunnar er þess einnig krafist að stefnda verði gert að greiða áfram meðlag til framfærslu stúlkunnar, eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni, frá uppsögu dóms í málinu til 18 ára aldurs hennar. Enn fremur krefst stefnandi þess að verði henni falin forsjá stúlkunnar fresti áfrýjun ekki réttaráhrifum dómsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess í málinu að kröfum stefnanda um umgengni verði vísað frá dómi, en til vara krefst hann sýknu af kröfunni. Þá krefst stefndi sýknu af þeirri kröfu stefnanda að henni verði einni dæmd forsjá stúlkunnar A. Stefndi gerir einnig þá kröfu að málsaðilum verði dæmd sameiginleg forsjá stúlkunnar og að umgengni verði ákvörðuð þannig að dóttir málsaðila verði eina viku í senn hjá hvoru foreldri um sig, fjórar vikur að sumri hjá stefnda og um páska, jól og áramót til skiptis hjá stefnanda og stefnda. Að endingu krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

I

Málsaðilar bjuggu saman á árunum 2002 til 2009. Þeim fæddist dóttirin A [...] 2007. Fyrstu sambúðarár sín bjuggu aðilar í [...], en stefndi er þaðan. Árið 2007 flutti fjölskyldan til [...], þaðan sem stefnandi er ættaður.

Aðilar slitu samvistir árið 2009 og gengu í kjölfarið frá samkomulagi þess efnis að forsjá dótturinnar yrði sameiginleg með þeim, sbr. staðfestingu sýslumannsins á [...] þar um, dagsetta [...]. febrúar 2009. Hins vegar var ekki gengið frá staðfestum samningi um umgengni. Eftir sambúðarslitin bjuggu aðilar báðir áfram á [...]. Árið 2010 mun stefnandi hafa kynnst núverandi eiginmanni sínum er hann kom til starfa á [...]. Stefnandi og eiginmaður hennar eiga saman eitt barn, soninn B, sem nú er á fjórða ári. Um mitt ár 2011 fluttust málsaðilar báðir aftur til [...]. Stefndi er nú í sambúð og á hann dóttur á fyrsta ári með sambýliskonu sinni.

Stefnandi hefur til þess vísað að umgengni stefnda við dótturina hafi verið óregluleg eftir samvistarslit aðila þar sem hann hafi viljað ráða umgengninni sjálfur. Því hefur stefndi mótmælt. Stefndi segir hið rétta vera að stefnandi hafi takmarkað umgengni hans við barnið allt frá samvistarslitum aðila með vísan til þess hversu barnið væri ungt. Stefnandi hafi aldrei viljað að stúlkan hefði meira en lágmarksumgengni við stefnda. Fullyrðir stefndi í málinu að umgengni stúlkunnar við hann hafi verið regluleg frá upphafi og aldrei fallið niður.

Vorið 2014 mun stefnandi hafa leitað eftir samþykki stefnda fyrir tímabundinni dvöl dóttur aðila í [...]. Munu málsaðilar hafa fundað um þetta í kjölfarið. Nokkurs misræmis gætir í frásögnum aðila af samskiptum þeirra vegna hinna mögulegu tímabundnu flutninga stefnanda til [...] með stúlkuna. Hefur stefnandi lýst því að stefndi hafi haft fullt færi á að koma að tillögum sínum og sjónarmiðum varðandi þessar fyrirætlanir stefnanda en stefndi segir aftur á móti að honum hafi verið settir afarkostir af hálfu stefnanda.

Lögmaður stefnanda ritaði sýslumanninum í [...] bréf, en ljóst er af efni bréfsins að það er ranglega dagsett 5. mars 2013, og óskaði eftir sáttameðferð samkvæmt 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Í bréfinu kemur fram að það sé ritað þar sem stefndi hafi ekki viljað samþykkja tímabundna dvöl dóttur aðila í [...], þangað sem stefnandi og maður hennar hygðust sækja nám. Er þess óskað í bréfinu að „... sýslumaður leitist við að aðstoða aðila við að ná sáttum um tímabundna dvöl í [...] svo komist verði hjá erfiðum og kostnaðarsömum málaferlum. Jafnframt er mikilvægt að aðilar komist að samkomulagi um breytta umgengni meðan á dvöl... barnsins í [...] stendur.“

Hinn 28. apríl 2014 ritaði stefnandi undir beiðni um breytingu á forsjá stúlkunnar hjá sýslumanni. Fyrsti fundur hjá sýslumanni vegna málsins var haldinn 12. maí 2014 að stefnda fjarstöddum, sem heldur því fram að hann hafi ekki verið boðaður til fundarins. Á fundinum var bókað eftir stefnanda að stefndi hefði gefið samþykki sitt fyrir því að dóttir aðila flyttist tímabundið til [...] með móður sinni. Aðilar báðir mættu síðan á fund hjá sýslumanni 19. sama mánaðar. Á þeim fundi mun stefndi hafa sett fram ýmis mótmæli, meðal annars vegna fyrrgreindrar bókunar á fundinum 12. maí. Var stefnda veittur frestur til þess að senda sýslumanni sjónarmið sín í málinu sem hann síðan gerði með bréfi 29. maí 2014. Í bréfi stefnda til sýslumanns kom hann einnig á framfæri leiðréttingum á því sem hann segir vera fjölmargar rangfærslur í áðurnefndu bréfi stefnanda. Lögmaður stefnanda sendi lögmanni stefnda tölvubréf 11. júní 2014 þar sem sjónarmið stefnanda í málinu voru áréttuð. Fékk sýslumaðurinn í [...] afrit af því bréfi. Bréfinu var svarað 16. júní 2014 af hálfu stefnda. Sýslumaður boðaði aðila síðan til sáttafundar 14. júlí 2014 og sóttu málsaðilar báðir þann fund. Á fundinum var bókað að sættir næðust ekki á milli aðila. Í framlögðu sáttavottorði, dagsettu þann sama dag, segir meðal annars að málinu hafi verið vísað til sáttameðferðar 23. júní 2014 og að sáttameðferð hafi lokið 14. júlí sama ár.

Haustið 2014 höfðaði stefnandi einkamál gegn stefnda sem þingfest var 17. september. Voru kröfur stefnanda í því máli þær hinar sömu og hún hefur uppi í máli þessu. Stefndi tók til varna í málinu og skilaði greinargerð af sinni hálfu í þinghaldi 22. október 2014. Við fyrirtöku málsins 12. nóvember 2014 var dómkvaddur matsmaður á grundvelli matsbeiðni stefnanda og málinu síðan frestað til 14. janúar 2015 til framlagningar á matsgerð. Þann dag var þing sótt af hálfu stefnda en útivist varð af hálfu stefnanda. Krafðist stefndi þess þá að málið yrði fellt niður og honum úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda. Með úrskurði dómsins 23. janúar 2015 var málið fellt niður, stefnda úrskurðaður gjafsóknarkostnaður úr ríkissjóði og stefnanda gert að greiða í ríkissjóð 200.000 krónur í málskostnað. Með stefnu 23. janúar 2015, sem birt var stefnda samdægurs, höfðaði stefnandi síðan mál þetta samkvæmt áðursögðu.

II

Undir rekstri fyrra máls aðila, sem fellt var niður með úrskurði dómsins 23. janúar 2015, var C sálfræðingur dómkvödd til þess að framkvæma mat vegna ágreinings um forsjá dóttur málsaðila. Matsmaður hafði ekki lokið störfum er málið var fellt niður. Með matsbeiðni stefnanda, dagsettri 17. febrúar 2015, fór stefnandi þess á ný á leit við dóminn að dómkvaddur yrði matsmaður til að framkvæma mat vegna fyrrgreinds ágreinings aðila. Í þinghaldi þremur dögum síðar varð dómurinn við þeirri beiðni og var áðurnefndur sálfræðingur dómkvaddur til þess að framkvæma matið og skilaði hann matsgerð sinni 20. mars sl.

Í samantekt og niðurstöðum matsmanns kemur meðal annars fram að matsmaður telji báða foreldra hæfa til að fara með forsjá stúlkunnar A. Matsmaður segir báða foreldra sýna dóttur sinni ástríki, þeir sýni aðgát varðandi sjúkdóm stúlkunnar og tryggi öryggi hennar. Báðir aðilar hvetji og örvi telpuna á mismunandi sviðum. Þeir séu báðir metnaðarfullir fyrir hennar hönd og sýni skólastarfi hennar áhuga. Málsaðilar séu báðir reglusamir og búi dóttur sinni gott heimili. Þeim hafi farist það vel úr hendi að kenna stúlkunni góða hegðun, mannasiði og samskipti og beri stúlkan foreldrum sínum gott vitni.

Matsmaður segir tengsl stúlkunnar við foreldra sína hafa verið skoðuð með tengsla­prófi, viðtölum og athugunum. Tengsl stúlkunnar við báða aðila einkennist af ástríki og öryggi. Samkvæmt tengslaprófi mælist tengslin álíka mikil við báða foreldra. Stefnandi hafi verið meginumönnunaraðili þar sem umgengni stúlkunnar við stefnda hafi undanfarin ár verið önnur hver helgi frá föstudegi til mánudags. Stefndi skipi engu að síður stóran sess hjá stúlkunni, eins og tengslapróf hafi leitt í ljós. Það megi einnig sjá í þeim þroskaþrepum sem stúlkan hafi tekið fyrir hans tilstuðlan. Þá hafi komið fram hjá stúlkunni að hún kysi að hafa meiri umgengni við föður sinn en umgengnissamningur segi til um. Er það álit matsmanns að móðir hafi vantreyst föður að ósekju til að hafa ríkari umgengni við stúlkuna.

Við matið var af hálfu stefnda farið fram á það við matsmann að hann legði mat á þrjá möguleika varðandi búsetu stúlkunnar. Í fyrsta lagi óbreytt ástand, í öðru lagi að stúlkan flyttist til [...] með stefnanda og í þriðja lagi að stúlkan yrði eftir hér á landi hjá stefnda flyttist stefnandi til [...].

Matsmaður kveður fyrsta möguleikann hafa minnsta röskun í för með sér fyrir stúlkuna. Hún myndi þá geta verið í samskiptum við báða foreldra sína, sem hún væri tengd sterkum böndum. Einnig myndi stúlkan þá geta myndað og ræktað tengslin við nýfædda systur sína og viðhaldið nánum tengslum við bróður sinn. Segir matsmaður þroskavænlegt fyrir stúlkuna að eiga þess kost að geta alist upp með báðum systkinum sínum.

Fari stúlkan hins vegar utan með stefnanda muni hún eiga þess kost að takast á við nýjar aðstæður og læra nýtt tungumál sem vissulega geti verið þroskavænlegt fyrir hana. Fórnarkostnaðurinn sé aftur á móti sá að umgengni við föður, systur og stjúpmóður muni minnka verulega vegna landfræðilegrar fjarlægðar. Til að viðhalda nánum tengslum sé samvera nauðsynleg. Því þyrfti að tryggja eins mikla samveru stúlkunnar við föðurfólk hennar og kostur sé.

Þriðja möguleikann kveðst matsmaður ekki telja góðan kost fyrir stúlkuna. Sú aðstaða hefði verulega röskun í för með sér fyrir stúlkuna þar sem hún hafi frá fyrstu tíð átt sitt aðalheimili hjá stefnanda og undanfarin ár alist upp með bróður sínum.

III

Stefnandi reisir kröfu sína um forsjá stúlkunnar A á 34. gr. barnalaga nr. 76/2002. Í 1. mgr. 34. gr. segi að þegar foreldra greini á um forsjá barns skeri dómari úr málinu með dómi, hafi sátt ekki tekist um forsjá þess. Í 2. mgr. segi enn fremur að dómari kveði á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni sé fyrir bestu. Í athugasemdum með 34. gr. þess frumvarps, sem orðið hafi að barnalögum, hafi verið tiltekin þau lykilsjónarmið sem dómari skuli hafa í huga við ákvörðun um forsjá barns. Þau sjónarmið snúi að hæfi foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengslum barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, svo eitthvað sé nefnt.

Krafa stefnanda um að henni verði einni falin forsjá dóttur aðila sé reist á því að hún sé hæfari til að fara með forsjá barnsins en stefndi. Stúlkan hafi sterkari tengsl við hana en stefnda og stefnandi sé betur í stakk búinn en stefndi til þess að búa barninu nauðsynlegan stöðugleika. Þá hafi stefnandi sýnt að hún hafi allt frá upphafi virt rétt barnsins til umgengni við stefnda og staðið við þá samninga sem aðilar hafi gert um umgengni.

Stefnandi segir það vera stúlkunni fyrir bestu að hún fari með forsjá stúlkunnar, enda sé stefnandi hæfari en stefndi til þess. Stúlkan sé með sykursýki og hafi stefnandi borið ábyrgð á meðferð sjúkdómsins og séð um öll samskipti tengd honum. Stefndi hafi hins vegar ekkert spurt stefnanda út í sjúkdóminn og viti hún ekki til þess að stefndi hafi aflað sér upplýsinga um hann.

Heimilislíf stefnanda taki mið af þörfum stúlkunnar vegna sjúkdómsins. Þá njóti stefnandi stuðnings tengdaforeldra sinna, sem búi í sama húsi og fjölskyldan, en tengdafaðir stefnanda sé [...] og tengdamóðir hennar sé [...] er starfi sem lektor í [...] við Háskóla Íslands. Hafi stefnandi af því áhyggjur að stefndi taki ekki tillit til sjúkdóms stúlkunnar þegar hún sé í umgengni hjá honum. Nefnir stefnandi í því sambandi viðfangsefni stúkunnar meðan á dvöl hennar stendur hjá stefnda, sem og mataræði.

Hæfi stefnda til að forgangsraða þörfum stúlkunnar fram yfir eigin þarfir og skortur hans á innsýn í þarfir hennar sjáist best á því að hann hafi bannað stúlkunni að kalla fósturföður sinn pabba og foreldra hans afa og ömmu. Sú framkoma stefnda sýni best hversu óöruggur hann sé um stöðu sína gagnvart stúlkunni. Þá telji stefnandi synjun stefnda á beiðni stefnanda um leyfi fyrir dvöl stúkunnar í [...] einnig bera vott um skort á skilningi hans á þörfum barnsins. Önnur atriði sem beri vott um skort á innsýn stefnda í þarfir stúlkunnar séu röng viðbrögð stefnda þegar bróðir stefnda hafi komið drukkinn inn á heimili hans um miðja nótt og viðbrögð stefnda í kjölfar þess að hann og stúlkan komu að föður stefnda látnum.

Við mat á foreldrahæfi verði að líta til andlegs og líkamlegs heilbrigðis aðila og persónulegra eiginleika þeirra. Kveðst stefnandi hafa áhyggjur af andlegri heilsu stefnda, sem hún segir hafa tollað illa í vinnu. Vísar stefnandi einnig til þess að stefndi hafi tjáð henni að hann hafi ekki mikinn metnað í lífinu, hvorki varðandi peninga né vinnu. Nefnir stefnandi þann möguleika að stefndi sé haldinn þunglyndi. Segir stefnandi umönnun dóttur aðila koma að mestu í hlut sambýliskonu stefnda þegar stúlkan dvelji í umgengni hjá stefnda. Sjálfur geri stefndi lítið með stúlkunni.

Stefnandi segir stúlkuna vera mun tengdari sér en stefnda, enda hafi stefnandi haft veg og vanda af uppeldi stúlkunnar allt frá fæðingu hennar og lengst af verið eini umönnunaraðili hennar. Samband stúlkunnar við B bróður sinn sé mjög náið. Þá hafi stúlkan notið fósturs eiginmanns stefnanda sem gengið hafi stúlkunni í föðurstað frá því að hún var þriggja ára gömul. Stúlkan hafi jafnframt náð góðu sambandi við tengdaforeldra móður sinnar.

Þá vísar stefnandi til þess að stúlkan búi nú við öryggi og stöðugleika og engin ástæða sé til þess að raska þeim högum barnsins. Stefnandi njóti öflugs stuðnings fjölskyldu sinnar jafnt sem tengdafjölskyldu. Allt það fólk myndi þéttriðið öryggisnet um fjölskylduna. Aðstaða stefnda að þessu leyti sé önnur og verri.

Verði stefnanda falin forsjá stúlkunnar muni það tryggja áframhaldandi samskipti stúlkunnar og stefnda. Stefnandi hafi ávallt lagt ríka áherslu á að barnið hafi reglulegt samband við stefnda, meðal annars á þeim tímabilum sem hann hafi sýnt tómlæti gagnvart umgengni við stúlkuna. Þá hafi stefnandi ávallt staðið við samninga um umgengni og muni hún að sjálfsögðu gera það áfram á meðan fjölskyldan búi í [...].

Í stefnu lagði stefnandi til að umgengni stefnda við stúlkuna yrði þannig háttað að stúlkan dveldi með föður sínum í þrjár til fjórar vikur í sumarleyfi, önnur hver jól frá 20. desember til 27. desember og önnur hver áramót frá 27. desember til 4. janúar og í öllum páskaleyfum á meðan hún dveldi í [...]. Að dvölinni þar lokinni yrði umgengni óbreytt frá því sem hún hafi verið. Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi hins vegar fram nýjar tillögur að umgengni stúlkunnar við stefnda. Eru þær tillögur stefnanda mun ítarlegri og kveða á um meiri umgengni stúlkunnar við stefnda en þær eldri, einkum og sér í lagi á árunum 2016 til 2018.

Stefnandi segir að sú niðurstaða að fela henni einni forsjá stúlkunnar myndi tryggja stöðugleika í lífi stúlkunnar. Stúlkan búi við sterk fjölskyldutengsl beggja fjölskyldna og njóti vegna veikinda sinna sérstakrar umönnunar stefnanda, stjúpföður og tengdaforeldra, sem öll hafi sinnt daglegum þörfum hennar. Flytji fjölskyldan tímabundið til [...] muni stúlkan vissulega skipta um ytra umhverfi, innritast í nýjan skóla og þurfa að kveðja vini sína tímabundið, en innra umhverfi hennar verði eftir sem áður óbreytt og þá verði hún áfram í góðu sambandi við stefnda. Kveðst stefnandi ekki í vafa um að stúlkan muni ráða við breytingar samfara tímabundnum búferlaflutningum til [...], enda sé hún heilsteypt, opið, jákvætt og samviskusamt barn sem búi yfir óvenjumiklum styrk. Þá bendir stefnandi sérstaklega á að tengdafaðir hennar gegni hlutastarfi í [...] og því ferðist hann og kona hans oft þangað. Enn fremur sé móðurbróðir eiginmanns stefnanda búsettur í [...], en frá heimili hans sé um þriggja klukkustunda akstur frá fyrirhuguðum dvalarstað fjölskyldunnar. Þá starfi uppkominn sonur tengdaforeldra stefnanda sem [...] í [...]. Allir þessir aðilar hafi boðist til þess að vera fjölskyldunni innan handar ytra. Bendir stefnandi og á að á fyrirhuguðum dvalarstað fjölskyldunnar starfi eitt færasta sykursýkisteymi [...].

Vísað er til þess af hálfu stefnanda að við mat á því hvenær stöðugleika í lífi stúlkunnar verði raskað eða ógnað verði að greina á milli innra og ytra umhverfis barnsins. Fari svo að stefnda verði falin forsjá stúlkunnar muni það hafa í för með sér breytingar á umhverfi hennar, bæði því innra og því ytra. Stúlkan yrði skilin frá því fólki sem staðið hafi henni næst frá fæðingu. Þá þyrfti hún að aðlagast nýjum skóla, en flyttist hún til stefnda þyrfti hún að innritast í [...] á [...].

Stefnandi segir sameiginlega forsjá ekki þjóna hagsmunum stúlkunnar lengur. Ástæða þess að aðilum hafi auðnast að fara sameiginlega með forsjána sé sú að lítið hafi reynt á samskipti aðila þar sem stefndi hafi látið stefnanda eftir uppeldi barnsins. Stefndi hafi hvorki sýnt mikinn áhuga á umönnun stúlkunnar né nánari samvistum við hana. Þá hafi stefndi sýnt sinnuleysi gagnvart veikindum stúlkunnar. Það hafi ekki verið fyrr en stefnandi hafi þurft að reiða sig á samþykki stefnda fyrir tímabundinni dvöl stúlkunnar í [...] sem stefndi hafi séð ástæðu til að beita foreldravaldi sínu, án þess þó að meta fyrst hvort það þjónaði hagsmunum barnsins. Ástæður þær sem stefndi beri fyrir sig standist að mati stefnanda ekki nánari skoðun að því athuguðu að flutningur til stefnda í annað sveitarfélag myndi hafa í för með sér breytingar á umhverfi, skóla og fjölskyldulífi stúlkunnar. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að forsendur fyrir sameiginlegri forsjá séu brostnar, enda virðist sem stefndi hiki ekki við að beita áhrifum sínum án þess að meta fyrst hvort það þjóni hagsmunum stúlkunnar.

Forsjárkröfu sína segir stefnandi byggjast á V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 31. gr., sbr. 34. gr. laganna, sem og öðrum ákvæðum barnalaga, meginreglum þeirra og undirstöðurökum.

Kröfu um greiðslu meðlags kveður stefnandi reista á 4. mgr. 34. gr., sbr. 57. gr., barnalaga nr. 76/2003.

Stefnandi kveðst gera kröfu um málskostnað úr hendi stefnda eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, en í málinu liggi fyrir gjafsóknarleyfi stefnanda til handa. Hvað málskostnaðarkröfuna varði bendi stefnandi sérstaklega á að hún sé ekki virðisauka­skattsskyldur aðili, sbr. ákvæði laga nr. 50/1988.

IV

Verða nú raktar helstu málsástæður stefnda. Stefndi kveðst telja að krafa stefnanda um umgengni sé ódómtæk. Sú meginregla gildi að dómkrafa í dómsmáli verði að vera svo skýr að taka megi hana upp í dómsorð. Krafa stefnanda sé hins vegar sú að kveðið verði á um umgengni stúlkunnar við stefnda í samræmi við tillögur stefnanda. Þessar tillögur hafi ekki verið reifaðar í stefnu heldur lagðar fram mun síðar, alltof seint að áliti stefnda, eða við upphaf aðalmeðferðar. Með kröfunni, svo sem hún birtist í stefnu, yrði stefnanda selt sjálfdæmi um það hvaða umgengni ætti að gilda hverju sinni. Það sé ótækt. Krafa stefnanda um umgengni, eins og hún sé sett fram í stefnu, sé í andstöðu við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan sé ódómtæk og því beri að vísa henni frá dómi.

Stefndi segir það mat sitt að enginn raunverulegur ágreiningur sé uppi milli aðila um forsjá stúlkunnar A. Í gildi sé staðfest samkomulag um að forsjá stúlkunnar skuli vera sameiginleg með aðilum. Engin efni séu til að breyta því fyrirkomulagi. Stefndi telji upplýst að einungis eitt búi að baki kröfu stefnanda um breytingu á forsjá barnsins. Hagsmunir barnsins ráði þar ekki för. Að baki kröfunni búi eingöngu áhugi stefnanda á því að búa tímabundið í [...]. Það eitt sé fráleitt næg ástæða til þess að fella niður samkomulag aðila um sameiginlega forsjá. Slík niðurstaða gengi meðal annars gegn þeirri meginreglu lögfræðinnar að samningar skuli standa. Ótækt sé að fá samning um forsjá felldan úr gildi af þeirri ástæðu einni að hann henti öðrum aðilanum ekki tímabundið. Þar sem engar forsendur séu til þess að breyta hinu umsamda fyrirkomulagi krefjist stefndi þess að kröfu stefnanda verði hafnað og að dómurinn kveði á um og staðfesti að forsjá málsaðila yfir stúlkunni skuli vera sameiginleg, svo sem verið hafi frá fæðingu hennar, sbr. 3. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. 

Krafa stefnanda sé sett fram líkt og ekkert samkomulag liggi fyrir um forsjá og að nauðsynlegt sé að velja annað hvort foreldrið til að fara með forsjá stúlkunnar, sbr. réttarástandið fyrir gildistöku laga nr. 61/2012. Með þeim lögum hafi dómara hins vegar verið veitt heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá. Krafa stefnanda styðjist einkum við þá málsástæðu að dæma beri henni einni forsjá þar sem hún sé hæfari til að fara með forsjá stúlkunnar en stefndi. Stefndi mótmæli því sem röngu og bendi auk þess á að sú málsástæða eigi einfaldlega ekki við þar sem aðilar fari nú þegar saman með forsjá stúlkunnar og hafi það fyrirkomulag gefist mjög vel. Ágreiningslaust sé að stúlkan geti verið áfram með lögheimili hjá móður sinni, kjósi hún að búa hér á landi, án þess að gera þurfi breytingar á forsjá. Breyting á forsjá til samræmis við kröfur stefnanda sé mun síðri kostur fyrir alla hlutaðeigandi.

Stefndi mótmæli umfjöllun í stefnu um sykursýki stúlkunnar. Sú umfjöllun eigi ekkert erindi inn í málið. Stefndi þekki sjúkdóm stúlkunnar mjög vel. Engin vandamál hafi komið upp í tengslum við sjúkdóminn vegna mataræðis stúlkunnar þegar hún hafi dvalið hjá stefnda. Fullyrðingum í stefnu um slæmt mataræði stúlkunnar hjá stefnda vísi stefndi á bug sem ósönnum og ómálefnalegum. Ekkert liggi annað fyrir en að stefndi sé fullfær um að annast stúlkuna með tilliti til sjúkdóms hennar. Þá geri stefndi margt uppbyggilegt með stúlkunni og hafi ofan af fyrir henni með fjölbreyttum hætti.

Fullyrðingum í stefnu um andlega vanheilsu stefnda kveðst stefndi vísa á bug sem rakalausum, ósönnum og meiðandi. Jafnframt sé alrangt að umönnun stúlkunnar komi að mestu í hlut sambýliskonu stefnda. Hvað varðar atvinnu stefnda þá vísar hann meðal annars til þess að hann hafi lokið námi í [...] 2013. Að námi loknu hefði hann verið atvinnulaus um skeið á erfiðu atvinnusvæði en byrjað í góðri vinnu haustið 2014. Bendir stefndi á að stefnandi hafi sjálf lítið unnið síðustu 4-5 ár og hafi undanfarin misseri búið með stúlkuna inni á tengdafólki sínu.

Stefndi kveðst búa við hinar ágætustu aðstæður. Sambýliskona hans sé vel menntuð. Þau hafi eignast barn í desember 2014 og hjá þeim séu allar aðstæður hinar bestu fyrir A til að koma um helgar eða dvelja til lengri tíma. Nefnir stefndi sérstaklega að það hafi verið að kröfu stefnanda sem umgengni hans við stúlkuna hafi ekki verið meiri en raun beri vitni. Stefndi myndi sjálfur gjarnan vilja hafa meiri umgengni við dóttur sína. Sú málsástæða stefnanda að stúlkan hafi aldrei dvalið lengur en í 14 daga í einu hjá stefnda sé afar ómálefnaleg í ljósi þess að síðasta sumar hafi stefnandi sjálf óskað eftir því að þeim mánuði, sem barnið hafi átt að vera hjá stefnda, yrði skipt í tvennt þar sem stefnandi hafði gert ráðstafanir varðandi stúlkuna, án samráðs við stefnda.

Stefndi telji einnig mjög ómálefnalega þá málsástæðu í stefnu að stefnandi fái stuðning frá tengdaforeldrum sínum sem búi í sama húsi og fjölskyldan. Með þessum orðum sé því með mjög settlegum hætti lýst að stefnandi og maður hennar búi inni á foreldrum mannsins. Umfjöllun í stefnu um menntun tengdaforeldra stefnanda kveður stefndi þessu máli með öllu óviðkomandi.

Stefndi bendir á að því fylgi ábyrgð að eiga barn með öðrum einstaklingi. Valkostir stefnanda í lífinu takmarkist af þeim aðstæðum. Svo virðist sem stefnandi skilji ekki að það sé ekki sjálfsagður hlutur að hún flytjist með stúlkuna af landi brott af þeirri ástæðu einni að hana langi sjálfa að búa tímabundið erlendis. Stefndi telji flutninga ekki þjóna best hagsmunum stúlkunnar, enda hafi hún það mjög gott hér á landi.

Af hálfu stefnda er mótmælt frásögnum í stefnu af atvikum tengdum andláti föður stefnda og því er bróðir stefnda ruddist inn til hans um nótt. Lýsingar stefnanda á þessum atvikum í stefnu segir stefndi vera grófa afbökun á staðreyndum. Verið sé að reyna að sverta stefnda að ósekju.

Stefndi kveðst mótmæla því að stúlkan sé mun tengdari stefnanda en stefnda. Stefndi hafi alltaf verið nálægur í lífi stúlkunnar og meðal annars búið í tvö ár á [...] eftir að aðilar málsins slitu samvistir, einungis til að vera nálægt stúlkunni. Stúlkan þekki stefnda mjög vel og tengsl þeirra feðgina séu náin. Þá sé fráleitt og rangt að halda því fram að núverandi eiginmaður stefnanda hafi gengið stúlkunni í föðurstað frá þriggja ára aldri hennar. Vera megi að tengsl stúlkunnar við tengdaforeldra stefnanda, þar sem stefnandi búi með barnið, séu góð en það séu ekki haldbær rök til stuðnings forsjárkröfu stefnanda.

Fullyrðingu stefnanda þess efnis að telpan búi við öryggi og stöðugleika og að engin ástæða sé til að raska þeim högum stúlkunnar segir stefndi vera í meira lagi undarlega. Stefndi hafi engan hug á því að raska högum stúlkunnar. Þar sé alfarið við stefnanda að sakast.

Samanburð á fjölskylduneti stefnanda og stefnda kveður stefndi bæði óþarfan og ósanngjarnan. Ekki sé ljóst hvaða tilgangi lýsing á fjölskylduaðstæðum stefnanda hér á landi þjóni í ljósi þess að markmið stefnanda sé að flytja til [...]. Í stefnu sé reynt að bregðast við þeirri óþægilegu staðreynd með því einkum að benda á að móðurbróðir eignmanns stefnanda, sem telpan hafi aldrei hitt, búi í nokkurra klukkustunda fjarlægð frá fyrirhuguðum dvalarstað þeirra í [...]. Ekki sé hins vegar ljóst hvaða stuðningur felist í því. Þá sé rangt að tengsl stefnda við systkini hans séu veik. Samskipti þeirra systkina séu þvert á móti góð.

Stefndi kveðst ekki með nokkru móti fá skilið þá fullyrðingu í stefnu að verði stefnanda einni falin forsjá stúlkunnar muni það tryggja áframhaldandi samskipti milli stúlkunnar og stefnda. Með öðrum orðum, að best sé að tryggja áframhaldandi samskipti stúlkunnar og stefnda með því að fella niður sameiginlega forsjá og fela stefnanda einni forsjána. Fullyrðing þessi sé engum rökum studd og mótmæli stefndi henni sem rakalausri og ómálefnalegri. Augljóst sé að mati stefnda að besta leiðin sé sú að forsjá stúlkunnar verði, hér eftir sem hingað til, sameiginleg með aðilum, enda hafi ekki verið nokkur ágreiningur um það fyrirkomulag fyrr en stefnanda hafi dottið í hug að flytja tímabundið erlendis. Þá hafi fyrirkomulagið að mati stefnanda skyndilega orðið algerlega óviðunandi.

Hvernig það eigi að tryggja stöðugleika í lífi stúlkunnar umfram núverandi fyrirkomulag að fela stefnanda einni forsjá hennar segir stefndi vera algerlega á huldu. Þá geti það ekki verið rök fyrir því að taka af stefnda forræðið að almennt sé betra að búa í [...] en á Íslandi. Jafnframt bendir stefndi á að veruleg óvissa myndi fylgja því fyrir stúlkuna að flytjast til [...] og óvíst sé hvernig hún myndi aðlagast lífinu þar.

Af hálfu stefnanda sé fullyrt að sameiginleg forsjá stefnanda og stefnda þjóni ekki lengur hagsmunum dóttur aðila. Þeirri fullyrðingu kveðst stefndi hafna alfarið. Enn fremur haldi stefnandi því ranglega fram að forsendur fyrir sameiginlegri forsjá séu brostnar. Ítrekar stefndi að afstaða hans sé einfaldlega sú að það þjóni ekki hagsmunum stúlkunnar að flytjast tímabundið til [...]. Aðrir og betri kostir séu í boði. Áréttar stefndi að hagsmunir stúlkunnar hafi ekkert með þá afstöðu stefnanda að gera að vilja flytja með stúlkuna til [...]. Í þessu sambandi bendir stefndi og á að í bréfi stefnanda til sýslumannsins í [...] 5. mars 2014 segi beinlínis að ef stefndi muni ekki fallast á flutning dóttur aðila til [...] muni stefnandi höfða forsjármál gegn honum í því skyni að fá sér einni dæmda forsjá stúlkunnar. Í bréfinu sé ekkert talað um að forsendur fyrir sameiginlegri forsjá séu brostnar vegna einhverra atvika er varði stefnda. Þá sé ekkert fram komið í málinu sem styðji það að stefndi sé óhæfur forsjáraðili, heldur þvert á móti.

Stefndi kveðst gera kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, en í málinu liggi fyrir gjafsóknarleyfi stefnda til handa. Hvað málskostnaðarkröfuna varði bendi stefndi sérstaklega á að hann sé ekki virðisauka­skattsskyldur aðili, sbr. ákvæði laga nr. 50/1988.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til ákvæða barnalaga nr. 76/2003, 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

V

Samkvæmt 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 er foreldrum skylt að leita sátta samkvæmt greininni áður en höfðað er mál um forsjá barns. Vottorð um sáttameðferð er gilt í sex mánuði eftir útgáfu þess, sbr. ákvæði 7. mgr. greinarinnar.

Svo sem rakið er í kafla I hér að framan gaf sýslumaðurinn í [...] út sáttavottorð 14. júlí 2014 varðandi deilu málsaðila um forsjá stúlkunnar A. Í vottorðinu segir meðal annars að málinu hafi verið vísað til sáttameðferðar 23. júní 2014 og að sáttameðferð hafi lokið 14. júlí sama ár. Rétt rúmum tveimur mánuðum síðar, eða hinn 16. september 2014, höfðaði stefnandi einkamál gegn stefnda. Voru kröfur stefnanda í því máli þær hinar sömu og hún hefur uppi í máli þessu. Af ástæðum sem áður var getið var málið fellt niður með úrskurði dómsins 23. janúar 2015 og höfðaði stefnandi mál þetta samdægurs. Ljóst er að þann dag voru liðnir sex mánuðir og níu dagar frá útgáfu sáttavottorðsins.

Samkvæmt ofansögðu höfðaði stefnandi mál þetta sama dag og fyrra forsjármál aðila var fellt niður. Undir rekstri eldra málsins var C sálfræðingur dómkvödd til þess meðal annars að meta persónulega eiginleika og hagi hvors foreldris um sig, forsjárhæfi þeirra og tengsl stúlkunnar við foreldra. Þegar málið var fellt niður 23. janúar 2015 hafði dómkvaddur matsmaður ekki lokið við matsgerð. Allri upplýsingavinnu var hins vegar nánast lokið, rætt hafði verið við málsaðila og stúlkuna, heimili aðila höfðu verið sótt heim og rætt hafði verið við kennara stúlkunnar, sbr. framlagt bréf matsmanns frá 27. janúar sl. Í bréfi matsmanns segir einnig að matsmaður hafi reifað möguleika á sáttum við málsaðila. Að þessum sérstöku aðstæðum virtum þykir ákvæði 7. mgr. 33. gr. a. barnalaga ekki geta leitt til þeirrar niðurstöðu að vísa beri máli þessu frá dómi.

Þegar foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns sker dómari úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist, sbr. 1. mgr. 34. barnalaga nr. 76/2003.  Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar kveður dómari á um hvernig forsjá barns eða lögheimili verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Ber dómara meðal annars að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska, allt sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Þá getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins, sbr. 3. mgr. 34. gr. laganna. Við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara, auk atriða sem nefnd eru í 2. mgr., að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga.

Stefna málsins verður ekki skilin öðruvísi en svo að stefnandi telji stefnda standa henni töluvert að baki hvað forsjárhæfni varðar en svo sem ráða má af kafla III hér að framan vísaði stefnandi í stefnu til ýmissa atriða sem hún taldi því til stuðnings að fela bæri henni einni að fara með forsjá dóttur málsaðila. Í munnlegum málflutningi var hins vegar afar lítið vikið að þessum atriðum af hálfu lögmanns stefnanda.

Eins og áður hefur komið fram var C sálfræðingur dómkvödd undir rekstri málsins til þess meðal annars að meta persónulega eiginleika og hagi hvors aðila um sig, forsjárhæfni þeirra og tengsl dóttur þeirra við foreldra sína. Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns kemur meðal annars fram sú niðurstaða að matsmaður telji málsaðila báða hæfa til að fara með forsjá stúlkunnar. Aðilar báðir sýni dóttur sinni ástríki, þeir sýni aðgát varðandi sjúkdóm stúlkunnar og tryggi öryggi hennar. Báðir aðilar hvetji og örvi telpuna á mismunandi sviðum. Þeir séu báðir metnaðarfullir fyrir hennar hönd og sýni skólastarfi hennar áhuga. Málsaðilar séu báðir reglusamir og búi dóttur sinni gott heimili. Þeim hafi farist það vel úr hendi að kenna stúlkunni góða hegðun, mannasiði og samskipti og beri stúlkan foreldrum sínum gott vitni. Tengsl stúlkunnar við báða aðila segir matsmaður einkennast af ástríki og öryggi og samkvæmt tengslaprófi mælist tengslin álíka mikil við báða foreldra. Ljóst sé að stefnandi hafi verið meginumönnunaraðili stúlkunnar þar sem umgengni hennar við stefnda hafi undanfarin ár verið önnur hver helgi. Stefndi skipi engu að síður stóran sess hjá stúlkunni, eins og tengslapróf hafi leitt í ljós. Það megi einnig sjá í þeim þroskaþrepum sem stúlkan hafi tekið fyrir hans tilstuðlan. Þá hafi komið fram hjá stúlkunni að hún kysi að hafa meiri umgengni við föður en umgengnissamningur segi til um.

Ekkert hefur komið fram í málinu sem fær hnekkt niðurstöðum matsmanns og verða þær því lagðar til grundvallar við úrlausn málsins. Að öllu framangreindu sögðu þykir dómnum augljóst að framlögð matsgerð sé ekki til stuðnings áðurröktum málatilbúnaði stefnanda. Þvert á móti má af matsgerðinni ráða að málsaðilar báðir séu vel hæfir til þess að fara með forsjá stúlkunnar. Þykir raunar mega kveða svo fast að orði að umræddur málatilbúnaður stefnanda fái þar enga stoð. Þannig verður ekki annað séð en stefndi taki fullt tillit til sjúkdóms stúlkunnar og sinni uppeldi hennar með ágætum á meðan hún dvelst hjá honum. Þá verður ekki séð að stefndi sé að einhverju leyti andlega vanheill, svo sem vikið er að í stefnu.

Dómurinn telur ljóst að virtum gögnum málsins og framburði aðila og vitna fyrir dómi að í rauninni hafi einungis ein meginástæða verið fyrir því að stefnandi ákvað að höfða mál þetta og gera þá kröfu að henni yrði einni falin forsjá stúlkunnar. Hún er sú að stefndi hefur ekki viljað samþykkja að stúlkan flytjist tímabundið af landi brott til [...] þar sem stefnandi hyggur á nám. Í ljósi alls þess sem að framan er rakið og að gættum áður tilvitnuðum ákvæðum barnalaga verður að mati dómsins ekki með nokkru móti réttlætt að svipta stefnda forsjá stúlkunnar á þeim grunni. Hvað þá þegar við bætist sú niðurstaða matsmanns, sbr. þær þrjár sviðsmyndir sem fyrir hann voru lagðar og getið er í kafla II hér að framan, að minnsta röskun hafi í för með sér fyrir stúlkuna að búa áfram hér á landi hjá móður sinni. Þá niðurstöðu rökstyður matsmaður með þeim hætti að þannig myndi stúlkan geta verið í samskiptum við báða foreldra, sem hún væri tengd sterkum böndum. Einnig myndi stúlkan þá geta myndað og ræktað tengslin við nýfædda systur sína og viðhaldið nánum tengslum við bróður sinn, en matsmaður telur þroskavænlegt fyrir stúlkuna að eiga þess kost að alast upp með báðum systkinum sínum.

Fullyrðing stefnanda um að það myndi tryggja best öryggi og stöðugleika fyrir stúlkuna að fela stefnanda einni forsjá hennar er haldlaus í ljósi þeirrar fyrirætlunar stefnanda að fara með stúlkuna úr landi í nokkur ár. Jafnframt er vandséð hvaða vægi tengslanet stefnanda hér á landi getur haft við úrlausn málsins í ljósi þeirra áforma stefnanda. Þá verður ekki séð hvernig það myndi tryggja áframhaldandi samskipti stúlkunnar og stefnda að færa forsjána alfarið til stefnanda.

Með vísan til alls framangreinds er það álit dómsins að ekki sé nein ástæða til þess að gera breytingu á forsjá stúlkunnar heldur sé hagsmunum stúlkunnar best borgið með því að málsaðilar fari áfram sameiginlega með forsjá hennar og að lögheimili hennar verði hjá stefnanda, svo sem verið hefur frá því aðilar slitu sambúð sinni.

Í ljósi alls þess sem rakið er að framan þykir rétt að umgengni stúlkunnar við stefnda skuli vera þannig háttað að annan hvern fimmtudag sæki hann stúlkuna í skóla og skili henni þangað aftur á mánudagsmorgni. Stúlkan skal dveljast hjá stefnda í fjórar vikur á hverju sumri og til skiptis hjá málsaðilum um páska, jól og áramót. Skal stúlkan dveljast hjá stefnda jólin 2015 og páskana 2016 o.s.frv.

Að þessu sögðu þykja engin efni til þess að kveða sérstaklega á um frávísun umgengniskröfu stefnanda í dómsorði.

Stefnandi hefur krafist þess að stefnda verði gert að greiða meðlag með barninu, eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni frá uppsögu dóms og til 18 ára aldurs stúlkunnar. Með vísan til 1. mgr. 53. gr. og 6. mgr. 57. gr. laga nr. 76/2003, verður stefndi dæmdur til að greiða meðlag með stúlkunni til fullnaðs 18 ára aldurs hennar. Skal fjárhæð meðlags nema einföldum barnalífeyri eins og hann er ákveðinn af Trygginga­stofnun ríkisins hverju sinni, sbr. 3. mgr. 57. gr.

Að atvikum öllum virtum og í ljósi þess að í fyrra máli aðila, sem fellt var niður með úrskurði dómsins 23. janúar 2015, var stefnanda gert að greiða málskostnað í ríkissjóð þykir rétt að fella málskostnað nú niður með heimild í 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 76/2003.

Stefnanda var veitt gjafsókn til reksturs máls þessa fyrir héraðsdómi með bréfi innanríkis­ráðuneytisins 17. mars 2015. Allur gjafsóknar­kostnaður stefnanda, þar með talin ­þóknun lögmanns hennar, Katrínar Theódórsdóttur hdl., greiðist því úr ríkissjóði, en þóknunin þykir að virtu umfangi málsins og að teknu tilliti til tímaskráningar lögmannsins hæfilega ákveðin 892.800 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Stefnda var veitt gjafsókn til reksturs máls þessa fyrir héraðsdómi með bréfi innanríkis­ráðuneytisins 13. maí sl. Allur gjafsóknar­kostnaður stefnda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Gunnars Inga Jóhannssonar hrl., greiðist því úr ríkissjóði, en þóknunin þykir að virtu umfangi málsins og að teknu tilliti til tímaskráningar lögmannsins hæfilega ákveðin 595.200 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Tekið skal fram að við ákvörðun þóknunar lögmanna aðila er meðal annars litið til vinnu þeirra við fyrra mál aðila.

Áfrýjun dóms þessa frestar ekki réttaráhrifum hans.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal og Guðrúnu Oddsdóttur sálfræðingum.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, M, skal sýkn af kröfu stefnanda, K, um að henni verði einni dæmd forsjá dóttur málsaðila, A.

Stefnandi og stefndi skulu fara sameiginlega með forsjá A til 18 ára aldurs stúlkunnar, en lögheimili hennar skal vera hjá stefnanda.

Umgengni A við stefnda skal vera þannig háttað að annan hvern fimmtudag sæki hann stúlkuna í skóla og skili henni þangað aftur á mánudagsmorgni. Stúlkan skal dveljast hjá stefnda í fjórar vikur á hverju sumri og til skiptis hjá málsaðilum um páska, jól og áramót. Skal stúlkan dveljast hjá stefnda jólin 2015 og páskana 2016 o.s.frv.

Stefndi greiði meðlag með stúlkunni til fullnaðs 18 ára aldurs hennar. Skal fjárhæð meðlagsins nema einföldum barnalífeyri eins og hann er ákveðinn af Trygginga­stofnun ríkisins hverju sinni

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Katrínar Theódórsdóttur hdl., 892.800 krónur að virðisauka­skatti meðtöldum. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Gunnars Inga Jóhannssonar hrl., 595.200 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.