- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Erfðaskrá
- Afhending gagna
- Sjúkraskrá
- Þagnarskylda
|
Mánudaginn 11. maí 2015. |
Nr. 275/2015.
|
A dánarbú B C og D (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn dánarbúi E (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðaskrá. Afhending gagna. Sjúkraskrá. Þagnarskylda.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A, B, C og D um að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar yrði gert að veita þeim aðgang að heilsufarsupplýsingum um F, sem lést árið 2013. Fyrir lá í málinu að dómkvaddir höfðu verið tveir öldrunarlæknar að kröfu A, B, C og D til að svara spurningum er tengdust arfleiðsluhæfi F og byggði mat þeirra á skriflegum gögnum úr sjúkraskrá hans. Umræddri matsgerð hafði verið skilað til A, B, C og D en þau ekki lagt hana fram í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og 15. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár væri það meginregla að þagnarskylda ríkti um upplýsingar um heilsufar látins manns sem væru að finna í sjúkraskrám hans og öðrum heilsufarsgögnum. Frá þeirri meginreglu væri gerð sú undantekning að mæltu ríkar ástæður með því væri heimilt að veita nánar tilgreindum aðilum aðgang að þeim og skyldi þá hafa hliðsjón af hagsmunum þeirra er aðgangs óska og vilja hins látna ef fyrir lægju upplýsingar um hann, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Var ekki talið að A, B, C og D hefðu sýnt fram á að ríkar ástæður mæltu með því að vikið yrði frá framangreindri meginreglu umfram það sem þegar hefði orðið. Samkvæmt þessu var staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að synja um aðganginn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala háskólasjúkrahúsi og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar yrði gert skylt að veita þeim aðgang að öllum heilsugögnum frá árinu 2004 um F. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Atvik málsins eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram er krafa sóknaraðila um aðgang að heilsufarsupplýsingum um F á því reist að hann hafi verið ófær um að gera erfðaskrárnar 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011 vegna andlegra annmarka. Sé þeim því nauðsynlegt að fá aðgang að umræddum upplýsingum til að leiða sönnur að framangreindri staðhæfingu sinni og vísa sóknaraðilar um rétt sinn í þeim efnum til 3. og 4. mgr. 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991. Andmæli varnaraðila við því að veittur verði aðgangur að umræddum heilsufarsupplýsingum eru reist á 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og 15. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Slíkur ágreiningur sem hér um ræðir getur komið til úrlausnar undir rekstri máls um erfðaréttindi eftir þann látna í tengslum við kröfu málsaðila samkvæmt 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
II
Í 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að sé skjal í vörslum manns sem ekki er aðili að máli geti aðili krafist þess að fá það afhent til framlagningar í máli ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Þá segir meðal annars í 2. mgr. 68. gr. laganna að verði vörslumaður skjals ekki við kröfu aðila um að láta það af hendi geti aðili lagt þau gögn sem um getur í 4. mgr. 67. gr. laganna fyrir dómara ásamt skriflegri beiðni um að vörslumaður verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi.
Samkvæmt b. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 er vitni óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komist að á annan hátt í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögfræðingur, lyfsali, læknir, prestur, sálfræðingur eða aðstoðarmaður einhvers þessara, eða í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir. Í 3. mgr. 53. gr. laganna kemur fram að telji dómari hagsmuni aðila verulega meiri af því að upplýst verði um atriði samkvæmt b. lið 2. mgr. 53. gr. laganna en hagsmuni hlutaðeigandi af því að leynd verði haldið, getur dómari eftir kröfu aðila lagt fyrir vitni að svara spurningu þótt leyfi sé ekki veitt til þess, enda feli þá svarið ekki í sér frásögn af einkahögum manns sem ekki á aðild að máli. Ef dómari telur óvíst hvort þessum skilyrðum sé fullnægt getur hann lagt fyrir vitni að tjá sér fyrst í trúnaði hvers efnis svar þess yrði.
Í 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga segir að starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skuli gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskylda haldist þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum. Mæli ríkar ástæður með því geti starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sé starfsmaður í vafa geti hann borið málið undir landlækni. Sambærilegt ákvæði er í 15. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Þar segir meðal annars að mæli ríkar ástæður með því sé umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandendum látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skuli höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann.
III
Af ákvæðum 12. gr. laga nr. 74/1997 og 15. gr. laga nr. 55/2009 leiðir að sú meginregla gildir samkvæmt íslenskum rétti að þagnarskylda ríkir um upplýsingar um heilsufar látins manns sem er að finna í sjúkraskrám hans og öðrum heilsugögnum. Frá meginreglunni er gerð sú undantekning, að mæli ríkar ástæður með því er heimilt að veita nánar tilgreindum aðilum aðgang að slíkum upplýsingum, og skal þá hafa hliðsjón af hagsmunum þeirra er aðgangs óska og vilja hins látna, ef fyrir liggja upplýsingar um þann vilja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. nóvember 1994 í máli nr. 456/1994 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 2417. Ákvæði laga standa samkvæmt þessu því ekki í vegi að sóknaraðilum verði veittur aðgangur að sjúkraskrám F ef þeir sýna fram á að þeir hafi af því ríka hagsmuni að fá upplýsingarnar, sbr. síðastgreind lagaákvæði, enda séu hagsmunir þeirra af því að fá upplýsingarnar verulega meiri en hagsmunir F af því að leynd verði haldið, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.
Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um það hver var vilji F til þess að aðgangur yrði veittur að heilsufarsupplýsingum um hann að honum látnum. Hins vegar er fram komið, eins og greinir í hinum kærða úrskurði, að 14. febrúar 2014 voru að kröfu sóknaraðila dómkvaddir tveir öldrunarlæknar til að svara fjórum spurningum er tengdust arfleiðsluhæfi F, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Var matsmönnum falið að svara í fyrsta lagi hvernig heilsufar F hafi verið á tímabilinu 1. janúar 2004 til andlátsdags [...]. júní 2013. Í öðru lagi hvort gera megi ráð fyrir því að hann hafi verið fær til að taka ákvarðanir vegna fjármála sinna á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til andlátsdags. Í þriðja og fjórða lagi hvort gera megi ráð fyrir því að hann hafi gert sér grein fyrir efni erfðaskráa þeirra sem hann gerði 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011 á þeim tíma sem þær voru gerðar.
Meðal gagna málsins er fundargerð matsfundar sem haldinn var 17. mars 2014. Sagði þar að matsmenn hefðu útskýrt hvernig þeir hygðust vinna að málinu með það að augnamiði að svara þeim spurningum sem fram komu í matsbeiðni. Þá sagði að matsmenn „gerðu grein fyrir því að matið byggði á skriflegum gögnum úr sjúkraskrá á Landspítala og Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Einnig færðu matsmenn fram rök fyrir því að matið tæki mið af tímabilinu 1. janúar 2008 til og með 12. maí 2011, en þá var þriðja erfðaskráin gerð.“ Hinir dómkvöddu matsmenn munu hafa skilað sóknaraðilum matsgerð sinni en eins og greinir í hinum kærða úrskurði hafa sóknaraðilar ekki lagt hana fram í málinu. Af framangeindu leiðir að sóknaraðilar munu hafa undir höndum matsgerð þar sem byggt var á upplýsingum um heilsufar F sem fengnar voru úr sjúkraskrám. Þegar til þessa er litið þykja sóknaraðilar í því hagsmunamati sem fram fer samkvæmt framansögðu ekki hafa sýnt fram á að ríkar ástæður mæli með því að vikið verði frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 12. gr. laga nr. 74/1997 og 15. gr. laga nr. 55/2009, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, umfram það sem þegar er orðið. Verður því hafnað beiðni þeirra um frekari aðgang að heilsufarsupplýsingum um F. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.
Eftir framangreindum úrslitum verður sóknaraðilum sameiginlega gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, A, dánarbú B, C og D, greiði sameiginlega varnaraðila, dánarbúi E, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2015.
Sóknaraðilar hafa krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur kveði upp úrskurð þess efnis að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala − háskólasjúkrahúsi og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar verði gert skylt að veita þeim aðgang að öllum heilsufarsgögnum, frá árinu 2004 að telja, um F, síðast til heimilis að [...], [...]. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 9. desember sl. var kröfu sóknaraðila hafnað. Sóknaraðilar skutu þeim úrskurði til Hæstaréttar sem með dómi uppkveðnum 10. febrúar sl. ómerkti úrskurðinn og vísaði málinu heim til löglegrar meðferðar. Eftir að varnaraðili hafði lagt fram greinargerðir í málinu var það flutt að nýju um framangreinda kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá gerir hann kröfu um málskostnað úr hans hendi. Var málið tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 12. mars sl.
Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...]. september 2013, var dánarbú F, sem lést [...]. júní 2013, tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra dánarbúsins 8. október 2013 var ágreiningi um gildi tveggja erfðarskráa sem F heitinn gerði, 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011, vísað til héraðsdóms. Með erfðaskránum ánafnaði hann eigum sínum til E. E lést eftir að bú F var tekið til skipta og hefur dánarbú hennar nú tekið við aðild málsins, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar eru fjögur af sex systkinum. Eru þeir jafnframt lögerfingjar hins látna. Sóknaraðilinn B andaðist í byrjun þessa árs. Hefur dánarbú hans tekið við rekstri málsins, sbr. framangreint lagaákvæði.
Sóknaraðilar krefjast þess að framangreindar erfðaskrár F frá 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011, verið metnar ógildar og við skipti á dánarbúinu skuli erfðaskrá hans frá 17. ágúst 1988 lögð til grundvallar um erfðaréttindi. Með þeirri erfðaskrá arfleiddi hann varnaraðila að þriðjungi eigna sinna en aðrar eignir hans áttu að renna til lögerfingja hans. Sóknaraðilar telja að hinn látni hafi verið ófær um að gera erfðaskrárnar frá 2008 og 2011 vegna andlegra annmarka. Hinn 14. febrúar 2014 voru, að kröfu sóknaraðila, dómkvaddir tveir öldrunarlæknar til að svara fjórum spurningum er tengdust arfleiðsluhæfi hins látna, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Sóknaraðilar hafa ekki lagt fram matsgerð þeirra. Í greinargerð varnaraðila, sem lögð var fram 25. febrúar sl., krefst hann þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Í þinghaldi 5. september sl. settu sóknaraðilar fram kröfu um að úrskurðað yrði um heimild þeim til handa til að afla heilsufarsgagna um hinn látna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala − háskólasjúkrahúsi og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Í samráði við dóminn sendi lögmaður sóknaraðili sömu aðilum bréf þar sem þess var óskað að þeir afhentu sóknaraðilum umrædd gögn. Í skriflegum svörum þeirra til lögmannsins kemur fram að þeir telji sér ekki heimilt að afhenda umbeðin gögn. Í svarbréfi heilsugæslunnar kemur fram að hún geti ekki veitt ættingjum hins látna aðgang að sjúkraskrá nema að undangengnum dómsúrskurði. Í svarbréfi Landspítalans kemur m.a. fram að skv. lögum nr. 55/2009 um sjúkraskrár og svo lögum nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga sé tekið fram að þagnarskylda falli ekki niður við andlát. Sé óheimilt að afhenda afrit af sjúkraskrám nema ef fyrir liggur skýr vilji hins látna eða aðrar sérstakar aðstæður. Taldi spítalinn eðlilegt að óska eftir úrskurði dómara í þessum efnum. Í svari Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar kemur fram að heimþjónustu Reykjavíkur sé óheimilt að afhenda óviðkomandi aðilum upplýsingar úr sjúkraskrárkerfinu Sögu sem notað sé fyrir alla heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. heimahjúkrun. Við fyrirtöku málsins staðfestu fulltrúar Landspítalans og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar framangreinda afstöðu. Af hálfu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var ekki sótt þing þrátt fyrir lögmæta boðun.
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að þeim sé nauðsynlegt að fá aðgang að læknisfræðilegum gögnum um hinn látna til þess að leggja fram til stuðnings málstað sínum um að hann hafi skort arfleiðsluhæfi. Kröfu sinni til stuðnings vísa þeir til 3. og 4. mgr. 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þau byggi kröfur sínar á því að heilsufar hins látna hafi verið svo slæmt þegar hann hafi gert þær erfðaskrár sem um sé deilt að hann hafi ekki verið til þess hæfur. Sóknaraðilar vísa til þess að aðilar fari með forræði á sakarefninu. Sé það þeirra að afla sönnunargagna og ákveða á hvaða gögnum þau byggi mál sitt skv. 44. gr. og 46. gr. laga nr. 91/1991. Þótt fyrir liggi að sóknaraðilar hafi óskað eftir matsgerð um hæfi hins látna til að gera hinar umdeildu erfðaskrár komi það ekki í veg fyrir að þeim verði veittur aðgangur að umbeðnum gögnum. Þá skipti það ekki máli þótt um sé að ræða sérfræðigögn enda liggur ekkert fyrir um það á þessu stigi hvort dómari muni kalla sérfróða meðdómendur til setu í dóminum.
Varnaraðili mótmælir fram kominni kröfu en hann telur að lög standi ekki til þess að verða við kröfunni. Vísar hann til þess að vörslumönnum skjalanna yrði ekki skylt að svara spurningum um þau, sbr. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Þá væri vörslumönnunum ekki skylt að afhenda skjölin án tillits til málsins, sbr. 15. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Varnaraðili vísar enn fremur til þess að sóknaraðilar þurfi að afla mats sérfróðs manns til stuðnings þeirri kröfu sinni að hinar umdeildu erfðaskrár verði dæmdar ógildar. Hafi þeir því ekki hagsmuni af því að fá gögnin afhent. Sóknaraðilar hafi ekki gert sennilegt að F hafi skort hæfi til að gera erfðaskrárnar og virðist sem sérfróðir matsmenn hafi ekki verið á þeirri skoðun en matsmennirnir hafi haft læknisfræðileg gögn undir höndum við mat sitt.
Niðurstaða
Í máli þessu krefjast sóknaraðilar aðgangs að heilsufarsgögnum um hann. Fyrir liggur að vörsluaðilar gagnanna hafa synjað sóknaraðilum um afhendingu þeirra. Sóknaraðilar byggja á því að þeir hafi ríka hagsmuni af því að fá umrædd heilsufarsgögn afhent til þess að leggja fram til stuðnings málstað sínum um að F hafi skort hæfi til að gera tilteknar erfðaskrár, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Um heimild til aðgangs að sjúkraskrárupplýsingum látins manns gildir ákvæði 15. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár, sbr. 3. gr. laga nr. 6/2014. Þar kemur fram að mæli ríkar ástæður með því sé umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skuli höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óski eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann. Synji umsjónaraðili sjúkraskrár um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis skv. 15. gr. a. Í nefndu ákvæði, sem bætt var inn í lögin með 4. gr. laga nr. 6/2014, er mælt fyrir um heimild til að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta eða synjun um að fá afhent afrit af henni undir embætti landlæknis. Sama gildir um synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um að veita nánum aðstandanda aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings eða synjun um að fá afhent afrit af henni. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir embættisins um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra. Þá er í 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga kveðið á um að starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skuli gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þagnarskyldan helst þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum. Mæli ríkar ástæður með því getur starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sé starfsmaður í vafa getur hann borið málið undir landlækni.
Til stuðnings kröfu sinni um afhendingu umræddra heilsufarsupplýsinga vísa sóknaraðilar til 3. og 4. mgr. 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 3. mgr. 67. gr. laganna segir að sé skjal í vörslum manns sem er ekki aðili að máli, geti aðili krafist þess að fá það afhent til framlagningar í máli ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Í 68. gr. laganna kemur fram að ef vörslumaður skjals verður ekki við kröfu aðila um að láta það af hendi geti aðili lagt þau gögn, sem getur í 4. mgr. 67. gr., fyrir dómara, ásamt skriflegri beiðni um að vörslumaður verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi. Heilsufarsgögn þau sem sóknaraðilar leitast eftir að fá afhent innihalda upplýsingar um einkahagi F sem þeim sem trúað var fyrir þeim væri ekki skylt að svara spurningum um, sbr. b-lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 74/1997. Þar sem svör vörslumannanna myndu fela í sér frásögn af einkahögum manns, sem ekki á aðild að málinu, þ.e. F, væri dómara ekki heimilt að brjóta hina skýru þagnarskyldu á bak aftur og leggja fyrir viðkomandi að svara spurningum um heilsufar hans, sbr. 3. mgr. 53. gr. sömu laga. Skortir því lagastoð fyrir því að dómari geti, með vísan til 68. gr. laganna, mælt fyrir um að vörslumönnum heilsufarsupplýsinga um F sé skylt að afhenda þær sóknaraðilum. Að auki er óhjákvæmilegt að líta til þess að sóknaraðilar hafa ekki leitt að því líkur að umrædd gögn hafi þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Í því samhengi verður að horfa til þess að sóknaraðilar hafa þegar fengið dómkvadda tvo sérfræðinga til að meta arfleiðsluhæfi F. Matsgerðin hefur ekki verið lögð fram en fullyrðingum varnaraðila um að hún liggi fyrir hefur ekki verið ekki mótmælt af hálfu sóknaraðila. Telji sóknaraðilar matsgerðina ekki þjóna þeirra málstað er þeim sú leið fær að krefjast yfirmats þar sem tekin verða til endurmats þau atriði sem áður hafa verið metin, sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991. Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu sóknaraðila því hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisúrlausnar.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, dánarbús B, C og D, þess efnis að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala − háskólasjúkrahúsi og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar verði með úrskurði gert skylt að veita þeim aðgang að heilsufarsgögnum um F.