Hæstiréttur íslands

Mál nr. 245/2001


Lykilorð

  • Verðbréf
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Handveð
  • Samningur
  • Forsenda
  • Lífeyrissjóður


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. desember 2001.

Nr. 245/2001.

Hjálmar Kjartansson

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Guðmundi Franklín Jónssyni og

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Lífeyrissjóði Austurlands

(Atli Gíslason hrl.

Hrafnhildur Stefánsdóttir hdl.)

og gagnsök

 

Verðbréf. Sjálfskuldarábyrgð. Handveð. Samningur. Forsendur. Lífeyrissjóður.

H var ráðinn framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins H hf. í október 1998. Gerði G í eigin þágu og í nafni fyrirtækisins B tilboð í H hf. 12. mars 1999. Viku síðar gerðu H og G samning við lífeyrissjóðinn L um að L breytti kröfum sínum í H hf. í hlutafé, sem þeir skuldbundu sig til að kaupa eða tryggja sölu á. Þegar til kom samþykkti Fjármálaeftirlitið ekki að L eignaðist svo mikið hlutafé í H hf., sem samningur aðila gerði ráð fyrir. Var fyrrgreindum samningi þá breytt á þá leið, að G keypti framangreindar kröfur L með nánar tilgreindum skilmálum, en H skyldi vera ábyrgðarmaður á skuldabréfum sem G gaf út til fjármögnunar kaupanna. Samhliða þessu gerðu H og G samning þar sem G ábyrgðist H skaðleysi af kaupunum upp að ákveðnu marki. H var sagt upp störfum 30. júní 1999 og gerður við hann starfslokasamningur 22. september sama ár. Í framhaldi af því höfðaði H mál gegn G og L og krafðist þess aðallega að sjálfskuldarábyrgð hans á skuldabréfunum yrði dæmd ógild en til vara að G leysti hann undan ábyrgðinni eða tryggði skaðleysi hans með öðrum hætti. Ekki var fallist á málsástæður H fyrir því að ábyrgð hans væri ógild vegna brostinna forsendna. Þar sem gjalddagi skuldabréfanna var ekki fyrr en 22. mars 2005 hafði ekki enn reynt á skuldbindingu G um að tryggja skaðleysi H af viðskiptunum. Voru G og L því sýknaðir af öllum kröfum H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. júní 2001. Hann krefst þess aðallega, að sjálfskuldarábyrgð sín á níu skuldabréfum, sem gagnáfrýjandi Guðmundur F. Jónsson gaf út til gagnáfrýjanda Lífeyrissjóðs Austurlands 22. mars 1999, samtals að fjárhæð 87.809.398 krónur, verði dæmd ógild eða óskuldbindandi. Til vara krefst hann þess, að gagnáfrýjanda Guðmundi F. Jónssyni verði dæmt skylt að leysa sig undan ábyrgð á framangreindum skuldabréfum eða, sé honum það ekki unnt, að leggja fram tryggingar í formi bankaábyrgðar til tryggingar skaðleysi aðaláfrýjanda af vanskilum á skuldbindingum gagnáfrýjanda að liðnum 14 dögum frá dómsuppsögudegi, hvoru tveggja að viðlögðum 28.000 króna dagsektum. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi Guðmundur áfrýjaði héraðsdómi 9. ágúst 2001. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi Lífeyrissjóður Austurlands áfrýjaði héraðsdómi 22. ágúst 2001. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem hann krefst bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var aðaláfrýjandi ráðinn framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Handsals hf. í október 1998. Í byrjun mars 1999 kom í ljós, að eigið fé félagsins hafði rýrnað svo mjög, að það fullnægði ekki  lengur skilyrðum þágildandi 32. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, sbr. nú 42. gr. laganna. Á aðalfundi félagsins 12. mars 1999 var lagt fram tilboð um kaup á félaginu, sem gagnáfrýjandinn Guðmundur F. Jónsson gerði í eigin þágu og í nafni fyrirtækis þess, sem hann vann hjá, Burnham Securities Inc. í Bandaríkjunum.

Á þessum tíma var gagnáfrýjandinn Lífeyrissjóður Austurlands næststærsti hluthafi Handsals hf. og átti kröfur á hendur félaginu, annars vegar samkvæmt víkjandi lánum að fjárhæð 38.017.398 krónur og hins vegar vegna viðskiptaskuldar félagsins við sjóðinn að fjárhæð 42.071.576 krónur, auk þess sem sjóðurinn átti hlutafé í félaginu að fjárhæð 7.720.424 krónur. Aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandinn Guðmundur gerðu 19. mars 1999 samning við gagnáfrýjandann Lífeyrissjóð Austurlands um, að sjóðurinn breytti kröfum sínum á Handsal hf. í hlutafé, sem þeir skuldbundu sig til að kaupa eða tryggja sölu á. Átti kaupverðið að vera 87.809.398 krónur og greiðast með útgáfu skuldabréfa til 10 ára, verðtryggðum með 6% ársvöxtum, tryggðum með handveði í hlutafénu og sjálfskuldarábyrgð aðaláfrýjanda og gagnáfrýjandans Guðmundar. Sama dag skrifuðu málsaðilar undir yfirlýsingu þess efnis, að færi svo, sem vonast væri til, að Burnham Securities Inc. keypti hlut í almennum hlutaflokki í Handsali hf., þá myndu aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandinn Guðmundur stuðla að því að það keypti jafnframt sama hlutfall af því hlutafé, sem þeir höfðu keypt af gagnáfrýjandanum Lífeyrissjóði Austurlands og tækist einnig á hendur ábyrgð á kaupverði hlutanna í hlutfalli við kaup sín. Samhliða þessu gerðu aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandinn Guðmundur sama dag samning þar sem hinn síðarnefndi ábyrgðist aðaláfrýjanda skaðleysi af kaupum þeirra á hlutafénu þannig að ábyrgð hans og áhætta vegna samningsins takmarkaðist við eignarhlutdeild hans í félaginu, sem miðað var við að yrði 5%.

Þegar til kom samþykkti Fjármálaeftirlitið ekki, að lífeyrissjóðurinn eignaðist svo mikið hlutafé í Handsali hf. sem samningur aðila gerði ráð fyrir, og var honum breytt 20. mars 1999 á þann veg, að gagnáfrýjandinn Guðmundur keypti framangreindar kröfur lífeyrissjóðsins samkvæmt víkjandi láni og viðskiptaskuld, samtals 80.088.974 krónur, sem hann skyldi greiða með skuldabréfum á sama hátt og kveðið var á um hér að framan, en aðaláfrýjandi skyldi vera ábyrgðarmaður á skuldabréfunum. Gagnáfrýjandinn Guðmundur skuldbatt sig síðan til að kaupa allt að 80.000.000 krónur af nýju hlutafé í Handsali hf.

Á hluthafafundi í Handsali hf. 30. apríl 1999 var heiti félagsins breytt í Burnham International á Íslandi hf., og var gagnáfrýjandinn Guðmundur orðinn eigandi að 75% hlutafjárins. Hann framseldi síðan 36% hlutafjárins til Burnham Securities Inc.

Aðaláfrýjanda var sagt upp störfum 30. júní 1999 og gerður við hann starfslokasamningur 22. september sama ár, en skömmu áður hafði hann selt hlutabréf sín í félaginu að nafnverði 4.800.000 krónur fyrir 3.600.000 krónur. Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar upplýsingar um, að Burnham International á Íslandi hf. hafi verið svipt starfsleyfi sínu 27. nóvember 2001.

II.

Aðaláfrýjandi telur, að forsendur hans fyrir því að gangast í sjálfskuldarábyrgð á greiðslu níu skuldabréfa, sem gagnáfrýjandinn Guðmundur gaf út 22. mars 1999, hafi brostið og leiði það til þess, að sjálfskuldarábyrgðin teljist ógild eða verði metin óskuldbindandi.

Aðaláfrýjandi heldur því fram, að ein helsta forsendan fyrir því, að hann tókst á hendur sjálfskuldarábyrgðina, hafi verið sú, að í skuldabréfunum hafi verið kveðið á um, að hlutabréf gagnáfrýjandans Guðmundar í Handsali hf. væru að handveði til tryggingar skuldinni, en hann hafi mátt treysta því, að hlutabréfin yrðu til reiðu sem trygging áður en reyna myndi á greiðslu hjá sér. Hann heldur því og fram, að í raun hafi engin handveðsetning átt sér stað, enda hafi legið fyrir í nóvember 1999, tæpum átta mánuðum eftir útgáfu skuldabréfanna, að hlutabréf í  félaginu hefðu ekki enn verið gefin út. Heimild veðsala til framsals hlutafjárins hafi því verið óskert. Í málinu liggur fyrir, að hlutabréf voru gefin út í Burnham International á Íslandi hf. 6. júní 2000, eða tveimur dögum áður en mál þetta var höfðað. Hlutabréf, sem gefin voru út til gagnáfrýjandans Guðmundar og þeirra, sem leiddu rétt sinn frá honum, bera með sér, að þau standi að veði fyrir skuld hans við gagnáfrýjandann Lífeyrissjóð Austurlands samkvæmt skuldabréfunum, sem um ræðir í málinu. Var því þeirri forsendu, sem aðaláfrýjandi telur hafa verið fyrir sjálfskuldarábyrgð sinni, fullnægt við höfðun málsins, en ekki var þá enn kominn gjalddagi skuldbindinga samkvæmt skuldabréfunum, þannig að reynt hafi á ábyrgð aðaláfrýjanda fyrir greiðslu þeirra gagnstætt þeim veðréttindum í hlutabréfunum, sem þar var mælt fyrir um.  Eru því ekki efni til að fallast á málsástæðu aðaláfrýjanda, sem að þessu snýr.

 Aðaláfrýjandi heldur því jafnframt fram, að veðsetning hlutabréfanna hafi verið ólögmæt, því að hún stríði gegn 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, þar sem kveðið sé á um það, að séu réttindi ekki framseljanleg, eða einungis framseljanleg með vissum skilyrðum, gildi sömu takmarkanir hvað varðar heimild til þess að veðsetja réttindin.  Hlutabréfin í Burnham International á Íslandi hf., sem gefin voru út sem fyrr segir 6. júní 2000, bera ekki með sér neinar takmarkanir á heimild til framsals. Þótt Fjármálaeftirlitið hafi talið gagnáfrýjandanum Lífeyrissjóði Austurlands óheimilt að kaupa viðbótarhlutafé í Handsali hf., stendur ekkert því í vegi að hann geti átt handveðrétt í hlutabréfunum samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykktum sjóðsins. Er því fallist á það með héraðsdómi, að veðsetningin stangist ekki á við 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997.

Þá byggir aðaláfrýjandi á því, að rýrnun verðmætis hlutabréfanna í Burnham International á Íslandi hf., sem orðið hafi eftir gerð áðurnefndra samninga aðilanna í mars 1999, hafi það í för með sér, að forsendur hans fyrir sjálfskuldarábyrgðinni hafi brostið.  Aðaláfrýjandi átti öðrum fremur, starfa síns vegna, að geta gert sér grein fyrir því, að mikil áhætta var fólgin í því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgðina, enda var verðgildi hlutabréfanna ótryggt. Verður rýrnun verðmætis hlutabréfanna því ekki talin fela í sér brostnar forsendur fyrir loforði hans.

Aðaláfrýjandi heldur því einnig fram, að það hafi verið forsenda sjálfskuldarábyrgðar hans, að hún væri eingöngu til bráðabirgða og hafi hún aðeins átt að standa þar til nýir hluthafar kæmu að félaginu. Þá hafi það einnig verið forsenda ábyrgðar hans, að hann héldi áfram starfi sínu sem framkvæmdastjóri félagsins. Þessar forsendur hafi brostið. Gagnáfrýjandinn Guðmundur hafi vanefnt samkomulag sitt við sig þess efnis að hlutast til um, að félagið tæki þátt í skuldbindingum hans gagnvart lífeyrissjóðnum og sér hafi verið sagt upp starfinu. Telur aðaláfrýjandi, að báðum gagnáfrýjendum hafi verið ljósar þessar forsendur hans. Áritun aðaláfrýjanda á skuldabréfin var venjuleg áritun um sjálfskuldarábyrgð og kemur þar ekkert fram um, að ábyrgðin sé til bráðabirgða eða sæti einhverjum skilyrðum um störf aðaláfrýjanda hjá félaginu. Það er eðli sjálfskuldarábyrgðar, að hún skuli standa meðan skuldin er ógreidd eða þar til ábyrgðarmaðurinn kann að verða leystur undan ábyrgð. Aðaláfrýjandi hefur heldur ekki sýnt fram á, að hann hafi gert gagnáfrýjendum ljóst, að áritun hans hafi verið byggð á ofangreindum forsendum. Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á þessar málsástæður aðaláfrýjanda til stuðnings því, að sjálfskuldarábyrgðin sé ógild vegna brostinna forsendna.

III.

Varakrafa aðaláfrýjanda varðar skyldu gagnáfrýjandans Guðmundar til að leysa aðaláfrýjanda undan ábyrgð á skuldabréfunum eða, sé það ekki unnt, að tryggja skaðleysi hans gegn vanefndum á skuldbindingum þessa gagnáfrýjanda. Varakröfunni er beint að gagnáfrýjandanum Guðmundi einum, en fyrri hluta kröfunnar er ekki unnt að fullnægja nema með aðild lífeyrissjóðsins. Eins og að framan greinir ábyrgðist gagnáfrýjandinn Guðmundur aðaláfrýjanda skaðleysi hans af kaupunum á hlutabréfunum í samningi þeirra 19. mars 1999. Fyrsti gjalddagi skuldabréfanna er 22. mars 2005, er greiða skal vexti. Fallist er á það með héraðsdómi, að vegna þessa sé ekki enn kominn sá tími, að reynt geti á skuldbindingu gagnáfrýjandans Guðmundar um að tryggja skaðleysi aðaláfrýjanda af þeim viðskiptum, sem málið varðar.

Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað, en rétt þykir að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Hjálmar Kjartansson, greiði gagnáfrýjendum, Guðmundi Franklín Jónssyni og Lífeyrissjóði Austurlands, hvorum um sig samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. maí sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 8. júní 2000.

Stefnandi er Hjálmar Kjartansson, kt. 010358-4269, Stigahlíð 92, Reykjavík.

Stefndu eru Guðmundur F. Jónsson, kt. 311063-6429, 12 W. 72nd Street 17A, New York, Bandaríkjunum og Lífeyrissjóður Austurlands, kt. 450771-0589, Egilsbraut 25, Neskaupsstað.

Dómkröfur stefnanda:

Aðallega: Að sjálfskuldarábyrgð stefnanda á níu skuldabréfum er stefndi, Guðmundur F. Jónsson, gaf út til stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, þann 22. mars 1999, samtals að fjárhæð 87.809.398 kr., verði dæmd ógild.

Til vara: Að stefnda, Guðmundi F. Jónssyni, verði dæmt skylt að leysa stefnanda undan ábyrgð á níu skuldabréfum er stefndi gaf út til stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, þann 22. mars 1999, samtals að fjárhæð 87.809.398 kr., eða ef honum reynist það ekki unnt að leggja fram tryggingar í formi bankaábyrgðar til tryggingar skaðleysi stefnanda gegn vanskilum á skuldbindingum stefnda að liðnum 14 dögum frá dómsuppsögudegi, hvor tveggja að viðlögðum dagsektum 28.000 kr. á dag.

Þess er krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda.

Dómkröfur stefnda, Guðmundar Franklín Jónssonar:

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi auk fjárhæðar er jafngildi virðisaukaskattgreiðslu stefnda af málflutningsþóknuninni.

Dómkröfur stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands:

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts í samræmi við málskostnaðarreikning.

Málavextir

Í október 1998 var stefnandi ráðinn framkvæmdastjóri hjá verðbréfafyrirtækinu Handsali hf. Í byrjun mars 1999 kom í ljós að Handsal hf. fullnægði ekki lengur skilyrðum laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Hinn 5. mars 1999 var gefinn út ársreikningur félagsins sem staðfesti að eigið fé Handsals hf. sem hlutfall af áhættugrunni fór niður fyrir það lágmark sem kveðið er á um í lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Sama dag kom stefndi, Guðmundur Franklín Jónsson, á starfsstöð Handals hf. og kynnti sér starfsemi félagins. En stefndi, Guðmundur Franklín, hafði um tíma haft áhuga á að stofna til reksturs verðbréfafyrirtækis hér á landi. Stefndi, Guðmundur Franklín, bauð stefnanda með sér til New York 9. - 10. mars 1999 til þess að stefnandi kynntist starfsemi Burnham Securities Inc., en hjá því fyrirtæki vinnur stefndi, Guðmundur Franklín.

Á aðalfundi Handsals hf. 12. mars 1999 var samþykkt heimild til stjórnar félagsins til að færa niður hlutafé  félagsins en jafnframt til að auka það á ný með sölu nýrra hluta um allt að 89.930.948 kr. þannig að hlutafé félagsins yrði eftir aukninguna 120.000.000 kr. Á aðalfundinum var kynnt bréf stefnda, Guðmundar Franklín, um hugmynd að kaupum Burnham Securities Inc. á Handsali.

Hinn 19. mars 1999 undirrituðu stefnandi, stefndi, Guðmundur Franklín, og Kristín Einarsdóttir, f.h. Lífeyrissjóðs Austurlands, samning. Í samningi þessum er kveðið á um það að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, breyti kröfum sínum á Handsal hf., annars vegar samkvæmt víkjandi lánum, að fjárhæð 38.017.398 kr. og hins vegar samkvæmt viðskiptaskuld, að fjárhæð 42.071.576 kr., samtals 80.088.974 kr. eða lægri fjárhæð samkvæmt ákvörðun stefnanda og stefnda, Guðmundar Franklín, í hlutafé í Handsali hf. í væntanlegu hlutafjárútboði.  Þeir stefnandi og stefndi, Guðmundur Franklín, skuldbundu sig til þess að kaupa eða tryggja sölu á allri hlutafjáraukningu stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, ásamt þáverandi hlutafé lífeyrissjóðsins í Handsali hf., 7.720.424 kr. Kaupin skyldu fara fram fyrir lok apríl 1999 á genginu einn.

Kaupverðið var heimilt að greiða stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, með skuldabréfi eða bréfum til allt að 10 ára, verðtryggðu og með 6% vöxtum er greiðist þannig að vextir fyrstu fimm ára reiknast fyrir fram og bætast við höfuðstól en frá 6. ári greiðist vextir árlega eftir á en höfuðstóll og verðbætur skv. vísitölu neysluverðs  frá gerð samningsins í einu lagi í lok tíunda árs frá útgáfudegi. Lán þetta skyldi tryggt með handveði í hinum seldu hlutabréfum og með sjálfskuldarábyrgð stefnda, Guðmundar Franklín, og stefnanda eða með öðrum þeim hætti er stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, sættir sig við.

Sama dag og framangreindur samningur var undirritaður eða 19. mars 1999 undirrituðu málsaðilar svofellda yfirlýsingu:   "….. Komi til þess sem allir aðilar framangreinds samnings vænta, að Burnham Securities inc. (BSI) kaupi hlut í almennum hlutaflokki í Handsali hf. sem að er stemmt að stofnaður verði þá munu GFJ og HKj. hlutast til um að BSI kaupi þá jafnframt hlutfallslegan hlut í framangreindum hlutum sem LA hefur selt þeim GFJ og HKj. og takist jafnframt á hendur persónulega ábyrgð á kaupverði hlutanna a.m.k. í hlutfalli við kaup sín."

19. mars 1999 undirrituðu stefnandi og stefndi, Guðmundur Franklín, samning um bakábyrgð stefnda, Guðmundar Franklín, við stefnanda samhliða gerð kaupsamnings þeirra við stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, dags. sama dag, um hlutafé og væntanlega hlutafjáraukningu stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, í Handsali hf.  Með samningi þessum skuldbatt stefndi, Guðmundur Franklín, sig til að ábyrgjast stefnanda skaðleysi af framangreindum kaupum og ábyrgð við stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, og aðra hluthafa Handsals  hf., þannig að ábyrgð og áhætta stefnanda vegna samningsins takmarkist við hlutfallslega hlutdeild hans í almennum hlutaflokki sem að var stefnt að stofnaður yrði í Handsali hf., enda yrði þá eignahlutdeild stefnanda í þeim hlutum sem keyptir væru af stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, hlutfallslega sú sama. Miðað var við að eignarhluti stefnandi yrði 5%. Í samningnum segir að samkomulagið sé byggt á því að miðað sé við að Burnham Securities inc. eignist allt að 75% af almennum hlutum í Handsali hf. og taki jafnframt á sig hlutdeild í ofangreindum kaupum og skuldbindingum í sama hlutfalli en aðild BSI sé þó ekki forsenda samkomulagins.

Daginn eftir, 20. mars 1999, var gerður viðauki við samning stefnanda og stefnda, Guðmundar Franklín, við stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, vegna þess að Fjármálaeftirlitið taldi sjóðinn ekki hafa heimildir til fjárfestinga í Handsali hf. Samkvæmt þessum viðauka varð úr að stefndi, Guðmundur Franklín, keypti áðurgreindar kröfur stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, og greiddi með umsömdum skuldabréfum. Stefndi, Guðmundur Franklín, skyldi vera greiðandi bréfanna en stefnandi ábyrgðarmaður. Jafnframt skuldbatt stefndi, Guðmundur Franklín, sig til að kaupa allt að 80.000.000 kr. af nýju hlutafé í Handsali hf. í væntanlegu útboði. Í lok viðaukans segir svo: "Að öðru leyti er samningur aðila frá 19. mars síðastliðnum og viðaukar er honum fylgja í fullu gildi." Undir viðauka þennan rita þeir stefndi, Guðmundur Franklín, Kristín Einarsdóttir f.h. stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, og stefnandi.

Þann 22. mars 1999 voru skuldabréfin níu gefin út og kaupin frágengin. Sjö skuldabréf eru að fjárhæð 10.000.000 kr. hvert en eitt að fjárhæð 10.088.974 kr. og eitt að fjárhæð 7.720.424 kr. Skuldari bréfanna er stefndi, Guðmundur Franklín, kröfuhafi er stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, og sjálfskuldarábyrgðaraðili stefnandi. Vottur að undirskriftum aðila er Guðjón Á. Jónsson hrl. Með skuldabréfunum er kröfuhafa sett að handveði hlutabréf í Handsali hf. að nafnverði 100% af höfuðstól bréfanna. Fjármálaeftirlitinu var tilkynnt um kaupin samdægurs.

Að ósk stefnda, Guðmundar Franklín, var boðað var til hluthafafundar í Handsali hf. 30. apríl 1999. Í fundarboði segir að stefndi, Guðmundur Franklín, sé  nú eigandi um 75% hlutafjár í félaginu. Með bréfi, undirrituðu af stefnanda f.h. Burnham International á Íslandi hf., til Hlutafélagaskrár, dags. 18. maí 1999, var tilkynnt að nafni Handsals hf. hafi verið breytt í Burnham International á Íslandi hf. (Burnham International Iceland Ltd.). Stjórnarmönnum hafi verið fjölgað úr þremur í sjö en engir varamenn. Nýir menn voru kosnir í stjórn þar sem allir stjórnar- og varastjórnarmenn höfðu sagt af sér störfum fyrir félagið. Formaður stjórnar var kjörinn Jon M. Burnham.

Hinn 30. júní 1999 var stefnanda sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra Burnham International á Íslandi hf. Stefnandi seldi hlutabréf sín í félaginu að nafnverði 4.800.000 kr. fyrir 3.000.000 kr.  hinn 9. sept. 1999. Hinn 22. september 1999 var gerður starfslokasamningur við stefnanda.

Í bréfi Guðjóns Ármanns Jónssonar hrl. til lögmanns stefnanda, dags. 16. nóv. 1999, kemur m.a. fram að ekki hafi verið gefin út hlutabréf vegna hlutafjáraukningar. Stefnandi, þá framkvæmdastjóri, hafi tekið af skarið með að beðið yrði með útgáfu hlutabréfa, meðal annars þar sem stutt væri í rafræna skráningu hlutabréfa. Tilkynning um framsal á hlutafé til Burnham Securities o.fl. hafi borist skrifstofu lögmannsins frá stefnanda.

Hinn 6. júní 2000 var gefið út hlutabréf í Burnham International á Íslandi hf. að fjárhæð 44.609.398 kr. á nafn stefnda, Guðmundar Franklín.  Hlutabréfið var veðsett stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, skv. viðauka, dags. 20. mars 1999, við samning, dags. 19. mars sama  ár, og níu veðskuldabréfum, útgefnum 22. mars 1999, samtals að fjárhæð 87.809.398 kr. Sama dag var gefið út hlutabréf í félaginu að fjárhæð 43.200.000 kr. á nafn Burnham Financial Group, New York. Bréf þetta er með samskonar áritun um veðsetningu til stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, og hlutabréfið til stefnda, Guðmundar Franklín.

Með bréfi, dags. 29. nóv.1999 samþykkti stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, beiðni stefnanda um að leysa til sín á uppreiknuðu verði skuldabréfin níu sem stefndi, Guðmundur Franklín, gaf út og stefnandi er sjálfskuldarábyrgðar maður að. Ekki varð af því að stefnandi leysti skuldabréfin til sín.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ábyrgð stefnanda gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, til hagsbóta fyrir stefnda, Guðmund, sé fallin niður hafi hún einhvern tímann stofnast efnislega. Fyrir því telur stefnandi að séu eftirtaldar ástæður:

Brostnar forsendur.

Stefnandi hafi gengist í ábyrgð á skuldbindingum stefnda, Guðmundar F. Jónssonar, gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, á þeim grundvelli að sú ábyrgð stefnanda væri einvörðungu til bráðabirgða þar til stefnda, Guðmundi, hefði gefist ráðrúm til að fá fleiri fjárfesta í lið með sér, einkum Burnham Securities Inc. í Bandaríkjunum. Þessari ábyrgð hafi ljóslega verið ætlað að standa þar til hlutafjáraukningu í Handasali hf. væri lokið í maí 1999 en ekki lengur. Að henni afstaðinni skyldi ábyrgð stefnanda vera í samræmi við eign hans í félaginu. Stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, hafi verið kunnugt um þessa forsendu stefnanda allt frá öndverðu og geti því ekki byggt á ábyrgðaryfirlýsingu stefnanda sem hafi falist í nafnritun hans á skuldabréfin níu  þar sem þessi forsenda sé brostin.

Á lista yfir hluthafa Burnham International á Íslandi hf., eftir að nafni Handsals hf. var breytt í lok maí 1999, komi fram að tveir hluthafar auk stefnda, Guðmundar, hafi á þessum tíma verið orðnir eigendur að þeim hlutum sem stefndi, Guðmundur, hafi keypt einn af stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, eða greitt fyrir með skuldajöfnuði á móti kröfum sem hann hafi keypt af sjóðnum. Hvorugur þessara aðila, Burnham Securities Inc., né Jón Birgir Jónsson, hafi undirgengist ábyrgð á fjárskuldbindingum stefnda, Guðmundar, gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, og ljóst sé af fullyrðingum stefnda, Guðmundar, að svo muni ekki verða að óbreyttu. Stefndi, Guðmundur, hafi öðlast yfirráð fyrir hlutafélaginu og hafi þegar selt meirihluta þess hlutafjár til annarra tengdra aðila og hafi þannig haft persónulegan fjárhagslegan ávinning af sölunni nú þegar án þess að efna skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda. Þá hafi stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, ekki heldur gert neinn reka að því að hinir nýju hluthafa yfirtækju samningsskyldur stefnanda gagnvart honum sem stefndi, Guðmundur, hafi þó sérstaklega ráðgert.

Af hálfu stefnanda feli það jafnframt í sér brostna forsendu er stefndi, Guðmundur, hafi látið segja stefnanda upp störfum án nokkurra efnislegra forsendna nánast strax og stefndi, Guðmundur, hafi náð yfirráðum í félaginu. Þannig hafi grundvallarforsenda stefnanda brostið fyrir því að stuðla að kaupum stefnda, Guðmundar, á Handsali hf., þ.e. að veita sölu félagsins brautargengi í því markmiði að hagur þess yrði sem mestur og tryggja sjálfum sér um leið gott starf og arðbært til framtíðar. Forsendubrestur þessi sé þeim mun augljósari ef bornir séu saman þeir hagsmunir sem í húfi hafi verið. Stefndi, Guðmundur, hafi öðlast yfirráð yfir fyriræki sem honum sé tækt að reka eða ráðstafa með sölu til annarra aðila og fénýta sér þar með. Öndvert séu síðan einvörðungu þeir hagsmunir stefnanda að hafa trygga atvinnu. Ljóst sé að þótt stefnandi hafi lagt traust sitt á að stefndi, Guðmundur, og þó einkum Burnham Securities Inc. hefðu burði til að standa að rekstri fyrirtækisins af myndarskap þá hafi aldrei staðið til af hans hálfu að takast á hendur fjárskuldbindingar næstu tíu árin, sem hafi verið langt umfram þann hag sem hann hafi haft af og langt umfram aflahæfi hans. Um það hafi báðum stefndu verið fullkunnugt er gengið var frá samningum milli aðila 19. - 22. mars 1999. Stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi haft mikinn hag af því að stefnandi tækist á hendur ábyrgð á skuldbindingum stefnda, Guðmundar, svo síður yrði gerð athugasemd um lánveitingu stefnda, Lífeyrissjóðsins, til stefnda, Guðmundar, sem hafi verið í ósamræmi við VII. kafla laga nr. 129/1997, þó svo að hún kæmi í stað óreiðuskulda Handsals hf. við Lífeyrissjóðinn, er hafi falist í viðskiptaskuld án trygginga og víkjandi láni, sem hafi verið í enn frekara ósamræmi við réttarheimildir sjóðsins. Með vísan til þessarar grandsemi beggja stefndu geti hvorugur þeirra byggt rétt á þeim gerningum sem gerðir voru 19.- 20. mars, gagnvart stefnanda að brostnum forsendum hans fyrir samningsgerðinni.

Það sé algerlega óvíst hvernig til takist um rekstur hlutafélagsins á næstu 10 árum en byrjunin á rekstri þess undir stjórn stefnda, Guðmundar, lofi ekki góðu. Þannig muni félagið hafa verið rekið með tapi á árinu 1999 auk þess sem þegar liggi fyrir að markaðsvirði hlutafjár félagsins hafi rýrnað um 25%. Sú rýrnun ein og sér ætti að vera fullnægjandi til gjaldfellingar skuldabréfanna sem gefin voru út. Þannig sé óvíst hvort hið veðsetta hlutafé verði nokkurs virði að 10 árum liðnum takist kröfuhafanum að ná höndum yfir það í samræmi við efni skuldabréfanna. Þá hafi stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, ekki gert neinn reka að því að nýta sér heimild 9. tl. skuldabréfanna um gjaldfellingu þrátt fyrir ótvíræða heimild til beitingar vanefndaúrræða við þessar aðstæður.

Veðsetning hlutafjárins, sem gangi framar sjálfskuldarábyrgð stefnanda, hafi verið grundvallarforsenda fyrir ábyrgðarskuldbindingu hans. Rúmu ári eftir gerð samninga aðila og útgáfu skuldabréfanna hafi ekki enn verið fullnægt hugtaksskilyrðum handveðsetningar hlutabréfanna sem skuldabréfin kveði á um. Fyrir liggi að hlutabréfin hafi ekki verið gefin út og vandkvæði muni vera á því. Á meðan svo sé ástatt sé ekkert sem hindri stefnda, Guðmund, í að hlutast til um að Burnham International á Íslandi taki hlutaskrána í eigin vörslur og ráðstafi síðan hlutafé félagsins að vild án þess að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, geti rönd við reist. Sé þannig veðsetning hlutanna mikilli óvissu háð en grandsemi vörsluhafa hlutaskrárinnar ein og sér veiti stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, engan rétt gegn ráðstöfun hlutafjárins, sem færi í bága við veðsetningu þess. Liggi enda fyrir að ekkert hafi verið gert til að upplýsa kaupendur hlutafjár um veðsetningu þess. Stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, njóti því ekki þeirra réttinda sem skuldabréfin kveði á um. Sjóðurinn hafi ekki handhöfn hlutabréfanna. Veðsetning þessi á hlutafénu hafi, auk áðurgreindra forsendna, verið forsenda þess að stefndi áritaði skuldabréfin um sjálfskuldarábyrgð. Þar sem þessi handveðsetning sé ekki til staðar sé sú forsenda brostin.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið sé ótvírætt að verulegar forsendur stefnanda fyrir að takast á hendur fyrrnefnda ábyrgðarskuldbindingu gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, séu brostnar. Þannig hafi það verið ákvörðunarástæða stefnanda sem lífeyrissjóðnum hafi verið fullkunnugt um að ábyrgð þessi stæði einungis stutt eða þar til fleiri fjárfestar kæmu til liðs við stefnda, Guðmund. Þar sem forsendan hafi brostið séu samningar aðila, um sjálfskuldarábyrgð stefnanda, ógildir, sbr. einnig 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Vanefndir stefnda, Guðmundar F. Jónssonar.

Stefnda, Guðmundi, beri að efna samning aðila frá 19. mars 1999 réttilega. Ljóst sé af þeim samningi og þeim gögnum sem hafi legið gerð  hans til grundvallar að ábyrgð stefnanda hafi verið ætlað að standa þar til nýir hluthafar kæmu til liðs við stefnda, Guðmund. Ábyrgðin hafi ekki átt að vera umfram hlutafjáreign stefnanda sem miðað hafi verið við að yrði 5% af afstaðinni hlutafjáraukningu í Handsali hf.. Stefndi, Guðmundur, hafi ekki gert neinn reka að því að efna samning aðila og leysa stefnanda undan ábyrgð þrátt fyrir ótvíræða samningsskyldu. Þvert á móti hafi hann beinlínis lýst því yfir að stefnandi sé og verði bundinn af ábyrgð sinni í 10 ár.

Sé næsta augljóst af samningum sem gerðir voru og gögnum sem hafi legið fyrir við samningsgerðina að stefndi, Guðmundur, hafi aldrei ætlað að efna samning sinn við stefnanda réttilega. Hafi þessi stefndi því brotið gegn 30. og 33. gr. samningalaga nr. 7/1936 við gerð samninganna. Stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, hafi verið kunnugt um það á hvaða forsendum stefnandi ritaði undir ábyrgðarskuldbindingar sínar og geti því ekki byggt rétt á þeim þar sem þessi stefndi hafi verið grandsamur um svik stefnda, Guðmundar, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936.

Samningar aðila hafi allir gert ráð fyrir aðild Burnham Securities Inc. að kaupum á hlutafé Handsals hf. Stefndu sé ekki tækt að bera fyrir sig að hið erlenda félag hafi skipt um skoðun eða fallið frá ráðagerð sinni sem hafi meðal annars birst í bréfi félagsins, dags. 17. mars 1999.  Þess sé sérstaklega getið í samningi stefnanda og stefnda, Guðmundar, frá 19. mars 1999, að skuldbinding stefnda, Guðmundar, til að leysa stefnanda úr ábyrgð sé ekki háð aðild Burnham Securities Inc. Stefnda, Guðmundi,  hafi borið að gera það allt að einu.

Vanefndir stefnda, Guðmundar, séu með vísan til framanritaðs ótvíræðar enda efndatími tvímælalaust kominn. Samningur hans og stefnanda hafi augljóslega gert ráð fyrir að ábyrgð stefnanda stæði skamma hríð en honum sé ótækt að bíða allt að 10 árum eftir því að í ljós komi hvort stefndi, Guðmundur, hyggist eða geti greitt fjárskuldbindingar sínar gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands. Stefndi, Guðmundur, hafi þegar selt hluta af hlutabréfum sínum í Burnham International á Íslandi hf., en hann sé jafnframt búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann  hafi að mestu alið manninn um árabil. Þannig sé öldungis óvíst hvort hann verði tiltækur hérlendis er skuldbindingarnar falla í gjalddaga auk þess sem ekkert liggi fyrir um að hann sé eignamaður eða þess umkominn að greiða kröfur stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands. Það sé bersýnilega ósanngjarnt og í andstöðu við 36. gr. laga nr. 7/1936 að binda allt aflahæfi stefnanda næstu tíu árin við fjárhagsskuldbindingu sem sé langt umfram aflahæfi og hann hvorki hafi né hafi haft fjárhagslegan ávinning af.

Rökstuðningur fyrir varkröfu stefnanda:

Fari svo að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, verði sýknaður af kröfum stefnanda er þess krafist að stefnda, Guðmundi, verði dæmt skylt að hlutast til um að stefnandi verði leystur undan ábyrgð gagnvart lífeyrissjóðnum í samræmi við samningsskyldu stefnda. Reynist stefnda, Guðmundi, ekki unnt að fá stefnanda leystan undan  ábyrgð á umræddum skuldabréfum vegna afstöðu kröfuhafa er þess krafist að honum verði dæmt skylt að tryggja stefnanda skaðleysi af ábyrgðarskuldbindingu hans með því að afla bankaábyrgðar, þ.e. að bankastofnun ábyrgist efndir stefnda, Guðmundar, á fjárskuldbindingum hans gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands.

Málsástæður stefnanda fyrir varakröfu séu fyrirliggjandi vanefndir stefnda, Guðmundar, á samningi hans og stefnanda frá 19. mars 1999 og brostnar forsendur stefnanda. Séu það sömu málsástæður og raktar voru varðandi aðalkröfu.

Dagsektir:

Þess er krafist, verði fallist á varakröfu, að dæmt verði að efna beri skyldur samkvæmt dómsorði að viðlögðum dagsektum. Dómkröfur stefnanda feli í sér skyldu til athafna og beri því stefnanda nauðsyn á úrræðum til að knýja á um efndir í samræmi við dómsorð. Fjárhæð dagsektarkröfu taki mið af tvöfaldri fjárhæð vaxta á dag af samanlagðri fjárhæð skuldabréfanna sem stefnandi sé í ábyrgð fyrir. Sé þess því krafist að dæmt verði að til greiðslu dagsekta komi að liðnum 14 dögum frá dómsuppsögudegi.

Um varnarþing málsins hafi verið samið, sbr. yfirlýsingu aðila, dags. 19. mars 1999, og 4. mgr. 32. gr. og 35. gr. laga nr. 91/1991.

Um skyldu stefndu er auk tilgreindra lagaákvæða vísað til meginreglna samningaréttar um brostnar forsendur og um það er varðar efndir samnings aðila er vísað til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi gerðra samninga.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er studd með vísan til laga nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefnanda að veðsetning hlutabréfanna sé ólögmæt skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Guðmundar F. Jónssonar

Aðalkrafa stefnanda sé að sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfunum níu á dskj. nr. 15 - 23 verði dæmd ógild.  Við umfjöllun um það hvort einhver ógildingarástæða sé fyrir hendi verði að hafa í huga að skuldabréfin séu viðskiptabréf.  Viðskiptabréf stofni rétt eftir hljóðan sinni.  Þau séu framseljanleg og framsalshafi eignist þann rétt sem bréfið segi framseljanda eiga.

Stefnandi hafi haldið því fram að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi gert það að skilyrði fyrir viðskiptum aðila að stefnandi tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfunum.  Stefnda, Guðmund, reki ekki minni til að slíkt skilyrði hafi verið sett fram af hálfu lífeyrissjóðsins, enda vandséð að sjóðurinn hafi verið í nokkurri aðstöðu til að gera slíka kröfu til stefnanda.  Það hafi komið stefnda, Guðmundi, mjög á óvart að stefnandi skyldi takast á hendur þessa sjálfskuldarábyrgð.  Svo sem fram komi hjá stefnanda sjálfum sé slík ábyrgð langt umfram aflahæfi hans.  Það sé ótrúlegt að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi talið sig vera í betri aðstöðu með sjálfskuldarábyrgð einstaklings á bréfunum og það einstaklings sem ekki hafi verið aðili að þessum viðskiptum.  Hér verði að hafa í huga að bréfin séu samtals að fjárhæð tæplega 89 milljónir króna.  Svo sem fram komi í greinargerð stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, hafi sjóðurinn ekki gert kröfu til þess að stefnandi tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð á bréfunum.

Staðreynd málsins sé að stefnandi hafi tekist á hendur fyrirvaralausa sjálfskuldarábyrgð.  Það hafi hann gert af fúsum og frjálsum vilja. Hann sé viðskiptamenntaður og hafi mátt gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem því fylgir að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð.  Það að væntingar stefnanda í þessu sambandi eða þessu tengt hafa ekki gengið eftir geri það ekki að verkum að stefnandi eigi kröfu til þess að sjálfskuldarábyrgð hans verði felld niður eða að stefndi, Guðmundur, leysi hann undan henni með einhverjum bankaábyrgðum.  Samningar aðila standi ekki til slíks. Ef það hefði verið skilyrði af hálfu stefnanda þá hefði honum borið að ganga frá því með samningum.  Stefnanda hafi staðið það næst.

Stefnandi haldi því fram að sjálfskuldarábyrgð hans á skuldabréfunum níu hafi einvörðungu verið til bráðabirgða. Hvernig stefnandi hafi hugsað sér að láta áritun sína um sjálfskuldarábyrgð á bréfin standa tímabundið og hvernig breyta ætti bréfunum til að fella sjálfskuldarábyrgð stefnanda niður sé óljóst.  Stefnandi sé viðskiptafræðimenntaður og hafi starfað innan verðbréfageirans. Honum hljóti að hafa verið ljóst hvað fólst í því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð.

Stefnandi haldi því jafnframt fram að það feli í sér brostna forsendu fyrir sjálfskuldarábyrgð hans að honum var sagt upp stöðu framkvæmdastjóra Burnham International á Íslandi hf.  Það komi hvergi fram í gögnum málsins að það hafi verið skilyrði fyrir því að stefnandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð að hann héldi framkvæmdastjórastöðunni.  Hafi slíkt verið raunveruleg forsenda fyrir þeirri ákvörðun stefnanda að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð þá hafi það staðið honum næst að ganga frá því með skriflegum hætti og fá alla aðila málsins til að fallast á þessa forsendu hans.  Þá sé þessi fullyrðing stefnanda undarleg í ljósi þess að Burnham International á Íslandi hf. sé ekki aðili að samningum þeim sem lagðir hafa verið fram  í málinu.  Jafnframt sé rétt að hafa í huga að Burnham International á Íslandi hf. sé hlutafélag og það sé stjórn í hlutafélögum sem sjái um að ráða og reka framkvæmdastjóra þeirra. Jafnvel þótt stefndi, Guðmundur, og stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, annars vegar og stefnandi hins vegar hefðu gert með sér samning um framkvæmdastjórastöðu stefnanda þá hefði Burnham International á Íslandi hf. ekki verið bundið af slíkum samningi.  Slík samningsgerð hafi ekki verið á valdi viðsemjenda stefnanda.  Þetta hafi stefnandi átt að vita sem framkvæmdastjóri hlutafélags.  Fullyrðing stefnanda um að þetta hafi verið forsenda af hans hálfu endurspegli ótrúlega skammsýni af hans hálfu. Stefnanda hafi hlotið að vera ljóst að stjórn hlutafélagsins sem hann starfaði hjá væri alltaf heimilt að segja honum upp starfi.

Ástæða þess að stefnandi var látinn fara frá fyrirtækinu hafi verið, að hinni nýju stjórn félagsins, sem kjörin var á aðalfundi 30. apríl 1999, hafi fljótlega orðið ljóst að hann réð engan veginn við starfið.  Stjórn félagsins hafi því tekið þá ákvörðun að segja honum upp starfi 30. júní 1999, svo sem stjórnin hafi haft fulla heimild til að gera.  Uppsögnin hafi verið gerð með hagsmuni félagsins í huga.

Stefnandi haldi því fram að stefndi, Guðmundur, hafi ekki efnt samning aðila frá 19. mars 1999.  Sá samningur kveði ekki á um tímamörk.  Samkvæmt samningnum ábyrgðist stefndi, Guðmundur, skaðleysi stefnanda af kaupum stefnda, Guðmundar, á hlutabréfunum og ábyrgðinni við stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands.  Stefnandi hafi ekki enn orðið fyrir tjóni.  Það að stefnandi hafi ákveðið að selja hlutbréf sín í Burnham International á Íslandi hf. sé þessu máli óviðkomandi.  Það hvorki flýti efndatíma samningsins né felli sjálfskuldarábyrgð stefnanda úr gildi.

Það hafi ekki enn reynt á það hvort stefndi, Guðmundur, standi við greiðslur gagnvart Lífeyrissjóði Austurlands.  Þá komi fram í samningnum að aðild Burnham Securities Inc. sé ekki forsenda samnings Guðmundar og stefnanda.  Það að Burnham Securities Inc. ætti að taka á sig hlutdeild í skuldbindingum hafi ekki heldur verið  forsenda samnings stefnda, Guðmundar, og stefnanda.  Samninginn verði að túlka eftir orðanna hljóðan.  Efndatími hans sé ekki kominn og engar forsendur, sem kalli á breytingar á honum.

Í yfirlýsingunni frá 19. mars 1999 sé fjallað um að stefnandi og stefndi, Guðmundur, skuli hlutast til um að Burnham Securities Inc. takist á hendur persónulega ábyrgð á kaupverði hlutanna.  Það hafi Burnham ekki gert, enda Burnham ekki aðili að þessari yfirlýsingu og vandséð hvernig hægt sé að skylda þriðja aðila til að taka á sig slíka ábyrgð.  Stefnanda hafi hlotið að vera þetta ljóst, enda sé einvörðungu kveðið á um það í yfirlýsingunni að stefnandi og stefndi, Guðmundur Franklín, skuli í sameiningu hlutast til um að Burnham geri þetta.  Ef það hefði verið skilyrði fyrir sjálfskuldarábyrgð stefnanda að Burnham gengi í slíka ábyrgð, þá hefði honum borið að afla samþykkis Burnham fyrir því.  Það hafi staðið stefnanda næst að gera slíkt.

Stefnandi hafi haldið því fram að veðsetning hlutafjárins hafi verið grundvallarforsenda fyrir ábyrgðarskuldbindingu hans.  Svo sem fram komi í skjölum málsins hafi hlutabréfin verið veðsett stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands. Þessari grundvallarforsendu stefnanda hafi því verið fullnægt.

Þar sem í stefnu er fjallað um brostnar forsendur stefnanda sé bent á að það sé algjörlega óvíst hvernig til tekst með rekstur hlutafélagsins næstu tíu árin.  Það gildi sennilega um öll hlutafélög landsins að óvíst sé hvernig rekstur þeirra verður eftir tíu ár.  Stefnandi bendi á að byrjunin á rekstri Burnham International á Íslandi hf. undir stjórn stefnda, Guðmundar, svo sem það er orðað í stefnunni, lofi ekki góðu.  Svo sem fram komi í árshlutauppgjöri fyrir félagið, dags. 30. júní 2000, sé hagnaður fyrstu sex mánuði ársins 85.582.315 kr.  Á sama tíma árið áður, en þá hafi félagið verið undir stjórn stefnanda, hafi verið tap á rekstri félagsins upp á 32.387.694 kr.  Byrjunin lofi því góðu og verðmæti hlutabréfanna hafi aukist.  Hitt sé svo annað mál að allir þeir sem komu að þessum viðskiptum hafi eða hafi mátt gera sér grein fyrir því að þeir voru að taka talsverða áhættu.  Mesta áhættan sé hjá stefnda, Guðmundi.

Um frekari rök fyrir kröfum stefnda, Guðmundar, er vísað til greinargerðar stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, eftir því sem við á.

Með vísan til alls ofanritaðs beri að sýkna stefnda, Guðmund, af öllum kröfum stefnanda.

Varðandi lagarök er vísað til almennrar reglu samningaréttarins um að samningar skuli standa.  Samningar verði ekki ógiltir nema vanefndir séu verulegar eða verulegar samningsforsendur bresti.  Slíkt eigi ekki við í þessu máli.  Þá er því mótmælt að ákvæði samningalaga nr. 7/1936, sem stefnandi vitnar til, eigi við um réttarsamband aðila.

Varðandi málskostnaðarkröfuna er vísað til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefndi, Guðmundur, sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.  Krafa um greiðslu er jafngildir virðisaukaskattsgreiðslu hans af málflutningsþóknuninni byggist á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Því sé stefnda, Guðmundi, nauðsynlegt að fá úrskurð fyrir virðisauka-skattsgreiðslunni úr hendi stefnanda.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands

Lífeyrissjóður Austurlands byggir sýknukröfu sína á því að forsendur samninga málsaðila hafi staðist í einu og öllu og að öll lagarök skorti til að ógilda sjálfskuldarábyrgð stefnanda samkvæmt aðalkröfu hans. Stefnandi hafi gengist undir óskilyrta og fyrirvaralausa sjálfskuldarábyrgð á níu skuldabréfum útgefnum af meðstefnda til stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands.  Ábyrgð hans hafi hvorki verið til bráðabirgða né bundin þeirri forsendu gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, að aðrir aðilar, hugsanlegir síðari kaupendur hlutabréfa í Handsali hf., yfirtækju ábyrgð stefnanda. Stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, hafi verið fullkomlega ókunnugt um þessar meintu forsendur stefnanda, sem reyndar stangist á við samninga aðila, sbr. dskj. nr. 8, 9, 10 og 13.   Hugsanlegar vanefndir meðstefnda, Guðmundar Franklíns Jónssonar, gagnvart stefnanda séu stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, óviðkomandi og séu ekki til þess fallnar að hafa áhrif á réttarsamband stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, og stefnanda samkvæmt skuldabréfum þeim sem um er deilt.  Slíkar vanefndir, sem stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, dragi stórlega í efa að séu fyrir hendi, réttlæti ekki ógildingu sjálfsskuldarábyrgðar stefnanda.  Meintar vanefndir meðstefnda séu í besta falli til þess fallnar að baka meðstefnda skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda.  Stefnandi hafi hins vegar ekki orðið fyrir fjártjóni.  Þá sé fjarri sanni, eins og haldið er fram í stefnu, að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi átt að gera reka að því að nýir hluthafar yfirtækju ábyrgð stefnanda.  Um það hafi  aldrei verið samið.

Kröfur sínar byggir stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, einnig á því að forsendu fyrri ógildingarkröfu stefnanda megi fyrst og fremst rekja til óviðkomandi atvika sem upp komu eftir að viðskiptin áttu sér stað, einkum samskiptaörðugleika stefnanda og meðstefnda sem leiddu til starfsloka stefnanda hjá Handsali.  Stefnandi haldi því nú fram að það hafi verið grundvallarforsenda hans fyrir viðskiptum málsaðila.  Sú forsenda, sem stefnandi upplýsi eftir á, geti aldrei réttlætt ógildingu ábyrgðar stefnanda á skuldabréfum stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands.  Til þess verði einnig að líta, að stefnandi hafi sérþekkingu á sviði viðskipta, sér í lagi viðskipta sem urðu rót að máli þessu.  Nægi að vísa til ráðningarsamnings stefnanda við Handsal hf. og starfslýsingar  í þessu sambandi.  Stefnandi hafi borið fulla ábyrgð á öllum viðskiptum aðila og átt frumkvæði að þeim.  Hafi stefnandi gert vond viðskipti, þrátt fyrir viðskiptaþekkingu sína, geti það ekki leitt til ógildingar á sjálfskuldarábyrgð gagnvart þriðja aðila.  Þar geti stefnandi einungis kennt sjálfum sér um.  Einnig skjóti það skökku við að stefnandi rökstyðji kröfur sínar með því að ábyrgð hans sé algjörlega á skjön við hagsmuni hans en á sama tíma bjóðist hann til að innleysa skuldabréfin, sem hann hafi reyndar ekki staðið við.

Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi haft mikinn hag af því að stefnandi tækist á hendur ábyrgð á skuldbindingum meðstefnda svo síður yrði gerð athugasemd við lánveitingar stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, til meðstefnda.  Handsal hf. hafi tekið að sér vörslu fjár fyrir stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, og við það hafi stofnast skuldir sem Fjármálaeftirlitinu hafi verið fullkunnugt um. Hafi það auk þess fylgst grannt með samningum aðila og ekki gert athugasemdir.  Enn fráleitari séu fullyrðingar stefnanda um grandsemi stefndu.  Þeim er mótmælt sem fullkomlega röngum og tilhæfulausum. Stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi ekki haft minnstu ástæðu til að beita vanefndaúrræðum samkvæmt ákvæðum umræddra skuldabréfa.  Til vanefnda hafi ekki komið.  Það sé auk þess algjörlega á valdi stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, að taka ákvörðun þar að lútandi og geti aldrei orðið vatn á myllu stefnanda í máli þessu.

Ein grundvallarforsenda málssóknar stefnanda sé að hlutabréf í Handsali hf. hafi ekki verið gefin út.  Stefnandi geti ekki að mati stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, borið slíka forsendu fyrir sig hvað ábyrgð hans varðar og reyndar sé það svo að hlutabréfin hafi verið gefin út og afhent stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, og samningar aðila að fullu efndir að þessu leyti.  Reyndar hafi hagsmunir stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, ætíð verið tryggðir frá samningsgerð aðila af Guðjóni Ármanni Jónssyni hrl., vörsluhafa hlutaskrár Handsals hf. Njóti stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, allra þeirra réttinda sem samningar málsaðila stefndu að.  Hafi aldrei verið minnsta ástæða til að vantreysta lögmanni Handsals hf. sem hafi rækt hlutverk sitt í hvívetna og séð til þess að samningar aðila gengju eftir.  Til þess hafi þurft ákveðið ráðrúm sem stefnanda hafi verið fullkunnugt um.  Stefnandi hafi engar kröfur gert í þessu sambandi eða fyrirvara fyrr en eftir að starfslokasamningur við hann var gerður. Starfslokasamninginn undirriti stefnandi fyrirvaralaust um sjálfsskuldarábyrgð sína sem og aðra samninga málsins og hafi  aldrei séð ástæðu til að gera grein fyrir meintum samningsforsendum sínum.  Mætti ætla, út frá sérþekkingu stefnanda, að hann hefði gert fyrirvara eða gert grein fyrir meintum samningsforsendum sínum strax fyrir eða við samningsgerð aðila eða í síðasta lagi við undirritun starfslokasamnings ef þeir hefðu átt við rök að styðjast á því tímamarki þegar hann gekkst undir ábyrgð sína gagnvart stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands.  Stefnandi verði að bera halla af þessu og öðru tómlæti sínu.

Að gefnu tilefni í stefnu og endurteknum fullyrðingum þar er mótmælt þeim fullyrðingum stefnanda að stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, hafi verið kunnugt um meintar samningsforsendur stefnanda og að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi verið grandsamur um það sem stefnandi kjósi að kalla svik meðstefnda, Guðmundar F. Jónssonar.  Þessar fullyrðingar séu ekki aðeins rangar og tilhæfulausar heldur séu ummæli um svik beinlínis ámælisverð.  Það hafi ekki verið forsenda samninga aðila að Burnham Securities Inc. kæmi að málinu, það sé skýrt tekið fram í baksamningi stefnanda og meðstefnda.

Varakröfu sinni beini stefnandi einhverra hluta vegna að meðstefnda einum.  Hugsanlegur dómur á grundvelli þessarar kröfu sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, og verði ekki fullnægt.  Samningi aðila samkvæmt skuldabréfunum á dskj. nr. 15 til 23 verði ekki breytt einhliða af stefnanda og meðstefnda og breyti þar engu þótt dómur gengi stefnanda í vil um varakröfu hans.  Samningsatbeina stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, þurfi óhjákvæmilega til.  Verði ekki betur séð en að þessi málatilbúnaður stefnanda varði frávísun ex officio.

Um frekari rök fyrir kröfum sínum vísar Lífeyrissjóður Austurlands til greinargerðar meðstefnda eftir því sem við á.

Almennar tilvísanir stefnanda til lagaraka réttlæti ekki kröfugerð hans. Af hálfu stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, er vísað til reglna samningaréttar um ákvörðunarástæður samninga og að samningar verði ekki ógiltir nema vanefndir séu verulegar eða verulegar samningsforsendur bresti sem samningsaðilar höfðu fyrir augum við samningsgerð og gerðu grein fyrir.  Samningar aðila hafi gengið eftir og sé kröfugerð stefnanda andstæð þeirri meginreglu samningalaga að samninga beri að halda.  Því er eindregið mótmælt að ákvæði samningalaga nr. 7/1936, sem stefnandi vitnar til, eigi við um réttarsamband málsaðila.  Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988, en stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.

Við munnlegan málflutning var málsástæðu stefnanda, á því byggðri að veðsetning hlutabréfanna væri ólögmæt, mótmælt sem of seint fram kominni.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi stefnandi og stefndi, Guðmundur Franklín Jónsson, Kristín Einarsdóttir, fyrrum starfsmaður stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, og fyrrum stjórnarformaður Handsals hf., Gísli Marteinsson, fyrrum framkvæmdarstjóri stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, og Guðjón Ármann Jónsson hrl.

Niðurstaða

Sjálfskuldarábyrgðin sem stefnandi krefst ógildingar á er sjálfskuldarábyrgð á viðskiptabréfum. Um slík bréf gilda sérstakar reglur. Viðskiptabréf stofna rétt eftir hljóðan sinni. Með sjálfskuldarábyrgðinni ábyrgist stefnandi eiganda skuldabréfanna greiðslu þeirra enda þótt hinn endanlegi greiðandi sé útgefandinn, stefndi, Guðmundur Franklín. Samningar skuldara og sjálfskuldarábyrgðarmanns hafa ekki áhrif á greiðsluskyldu gagnvart grandlausum kröfuhafa.

Fullyrðingar stefnanda um að það hafi verið að kröfu stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, að hann gerðist sjálfskuldarábyrgðarmaður að skuldabréfunum níu hafa ekki stuðning af framburði vitna málsins.

Fram kom hjá Kristínu Einarsdóttur, fyrrum starfsmanni stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, og fyrrum stjórnarformanni Handsals hf., að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi aldrei sett það skilyrði að stefnandi væri ábyrgðarmaður á skuldabréfunum. Kristín kvaðst ekki vita af hverju stefnandi gerðist ábyrðarmaður á skuldbréfunum. En hún kvaðst vita að einhver samningur hafi verið gerður á milli þeirra stefnanda og stefnda, Guðmundar Franklín.

Fram kom hjá Gísla Marteinssyni, fyrrum framkvæmdastjóra stefnda, Lífeyrssjóðs Austurlands, að honum væri ekki kunnugt um að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi sett það skilyrði að stefnandi gerðist sjálfskuldaábyrgðaraðili á skuldabréfin. Stefnandi hafi ekki talað um það við sig að ábyrgðin væri tímabundin að einhverju leyti.

Fram kom hjá Guðjóni Ármanni Jónssyni hrl. að hann hafi verið lögmaður Handsals hf. á árinu 1999 þegar viðskipti þau sem málið er af risið áttu sér stað. Guðjón sagði að skrifstofa sín vinni enn fyrir Burnham International á Íslandi hf. en það geri einnig fleiri lögmenn. Lögmannsstofa Guðjóns er vörsluaðili hluthafaskrár Burnham International á Íslandi hf.

Guðjón kvaðst hafa litið á stefnanda sem félaga stefnda, Guðmundar Franklín, í kaupum á félaginu og stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, sem hinn eiginlega seljanda. Væntingar hafi verið til þess að Burnham Securitas myndi koma að þessu máli en það hafi ekki verið forsenda fyrir því sem menn voru að gera. Guðjón taldi að á skuldabréfin væri skráð rétt dagsetning. Guðjón kvaðst ekki minnast þess að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi krafist þess að stefnandi tækist á hendur sjálfskuldaábyrgð á skuldabréfinum, en hann taldi það hafa varðað lífeyrissjóðinn nokkru hvernig bréfin voru úr garði gerð. Upphaflega hafi verið ætlunin að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, breytti kröfum sínum á Handsal hf., samtals 80.088.974 kr. í hlutafé í félaginu í væntanlegu hlutafjárútboði. Hlutafé þetta skuldbundu þeir stefnandi og stefndi, Guðmundur Franklín, sig til þess að kaupa eða tryggja sölu á allri hlutafjáraukningu stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands. Af þessu hafi ekki orðið vegna þess að Fjármálaeftirlitið hafi lagst á móti því að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, yrði ráðandi eignaraðili í Handsali hf. Jón Finnbogason lögfræðingur, starfsmaður Handsals hf., hafi útbúið skuldabréfin. Að málinu hafi einnig komið endurskoðendur félagsins.

Með vísan til þess sem hér var rakið telst ósannað að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, hafi krafist þess að stefnandi gerðist sjálfskuldarábyrgðaraðili að skuldabréfunum. Enda  óljóst hvernig lífeyrissjóðurinn hefði getað gert þessa kröfu. Jafnframt er ósannað að stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, hafi verið kunnugt um forsendur stefnanda fyrir sjálfskuldarábyrgðinni.

Áritun stefnanda á skuldabréfin níu er venjuleg áritun sjálfskuldar-ábyrgðarmanns. Ekkert er í árituninni um að hún sé til bráðabirgða, tímabundin eða sæti einhverjum skilyrðum. Ekkert er um það í skjölum málsins að forstjórastaða stefnanda hjá Handsali hf. væri forsenda fyrir sjálfskuldarábyrgðinni.

Í skjölum málsins, þ.e. yfirlýsingu aðila á dskj. 9, dags. 19. mars 1999, segir m.a.: "Komi til þess sem allir aðilar framangreinds samnings vænta, að Burnham Securities inc. (BSI) kaupi hlut í almennum hlutaflokki í Handsali hf. sem að er stemmt að stofnaður verði þá mun GFJ og HKj. hlutast til um að BSI kaupi þá jafnframt hlutfallslegan hlut í framangreindum hlutum sem LA hefur selt þeim GFJ og HKj. og takist jafnframt  á hendur persónulega ábyrgð á kaupverði hlutanna a.m.k. í hlutfalli við kaup sín."

Sama dag undirrituðu aðilar samning sem liggur fyrir sem dskj. 10. Þar ábyrgist stefndi, Guðmundur Franklín, stefnanda skaðleysi af kaupsamningi þeirra við stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, um hlutafé og væntanlega hlutafjáraukningu lífeyrissjóðsins í Handsali hf. þannig að ábyrgð og áhætta stefnanda vegna samningsins takmarkist við hlutfallslega hlutdeild hans í almennum hlutaflokki. Miðað var við að eignarhluti stefnanda yrði 5%. Í samningi þessum segir jafnframt að miðað sé við að Burnham Securities inc. (BSI) eignist allt að 75% af almennum hlutum í Handsali hf. og taki jafnframt á sig hlutdeild í ofangreindum kaupum og skuldbindingum í sama hlutfalli en aðild BSI sé þó ekki forsenda samkomulags þessa.

Þá er yfirlýsingar þessar voru gerðar var ætlunin að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, breytti kröfum sínum á hendur Handsali hf. í hlutafé sem þeir stefnandi og stefndi, Guðmundur Franklín, myndu kaupa. Af þessu varð ekki vegna afstöðu Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaðan varð sú að stefndi, Guðmundur Franklín, keypti einn kröfur stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, á hendur Handsali hf., samtals að fjárhæð 80.088.974 kr., svo og hlut lífeyrissjóðsins í Handsali hf. að fjárhæð 7.720.424 kr. Fyrir þetta greiddi stefndi, Guðmundur Franklín, með skuldabréfunum níu samtals að fjárhæð 87.809.398 kr., sem stefnandi gerðist sjálfskuldarábyrgðarmaður að, þrátt fyrir þá breytingu sem  orðin var, þ.e. að stefnandi var ekki lengur aðili að kaupunum.

Með framangreindum kröfum greiddi stefndi, Guðmundur Franklín, hlutabréf að sömu fjárhæð í Handsali hf. Eftir þau kaup var stefndi, Guðmundur Franklín, orðinn eigandi að stærstum hluta hlutafjár í Handsali hf. Í fundarboði til hluthafafundar í Handsali hf. sem haldinn var 30. apríl 1999 segir að stefndi, Guðmundur Franklín sé eigandi að um 75% hlutafjár í félaginu. Í skjölum málsins kemur fram að á fundi þessum var nafni Handsals hf. breytt í Burnham International á Íslandi hf. Sjö menn voru kosnir í stjórn, þ.á m. Jon M. Burnham, Burnham Securities Corp. Á hluthafalista Burnham International hf. frá 3.júní 1999 er Burnham Securities Inc. skráð fyrir 36% hlut í félaginu.

Hér fyrir dómi bar stefndi, Guðmundur Franklín, að Burnham Securities Inc. hafi ekki greitt neitt fyrir hlut sinn í Burnham International hf. Stefndi, Guðmundur Franklín, kvaðst hafa  ánafnað Burnham Securities Inc. 36% hlutann í félaginu. Hann kvaðst hafa talið sig heppinn að fá að nota nafnið Burnham International á félagið.

Hvernig sem viðskiptum stefnda, Guðmundar Franklín, er háttað við vinnuveitanda sinn, Burnham Securities inc., þá sýnir það sem rakið hefur verið hér að framan að þá er stefnanda var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra Burnham International á Íslandi hf., hinn 30. júní 1999, var Burnham Securities Inc. þegar skráður að 36% hlut í félaginu. Ekkert er fram komið um að stefnandi hafi gert kröfur vegna meintrar bráðabirgðasjálfskuldarábyrgðar þá er honum var sagt upp störfum og ekkert er á slíkt minnst í starfslokasamningi stefnanda, dags. 22. sept. 1999.

Fallast ber á það með stefnanda að það sé óvíst hvernig til tekst um rekstur Burnham International á Íslandi hf. en þeirri óvissu mátti stefnandi gera sér grein fyrir áður en hann gekkst undir sjálfskuldarábyrgðina.

Af hálfu stefnanda er því enn fremur haldið fram að veðsetning hlutafjárins sem gangi framar sjálfskuldarábyrgð stefnanda hafi verið grundvallarforsenda fyrir ábyrgðarskuldbindingu hans. Í skjölum málsins kemur fram að hlutabréfin hafa verið sett stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, að handveði og eru bréfin árituð þar að lútandi.

Ekki er á það fallist með stefnanda að sjálfskuldarábyrgð stefnanda sé ógild með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Er þá m.a. litið til menntunar stefnanda og fyrri starfa en fram kom hjá honum við skýrslugjöf hér fyrir dómi að eftir að hann lauk prófi í viðskiptafræði hafi hann farið í framhaldsnám og tekið MBA próf. Haustið 1996 tók stefnandi til starfa hjá DeCode genetics, skráð í Delver og haustið 1998 tók hann við framkvæmdastjórastöðu hjá Handsali hf.

Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefnanda að veðsetning hlutabréfanna sé ólögmæt skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997. Þessa málsástæðu þykir bera að skilja þannig að þar sem Fjármálaeftirlitið hafi hafnað því að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, mætti eignast meira í Handsali hf. en lífeyrissjóðurinn átti fyrir viðskipti þau sem málið er af risið sé veðsetning hlutabréfanna ólögmæt. Þar sem veðsetning hlutabréfanna sé ólögmæt þá sé sjálfskuldarábyrgðin ógildanleg.

Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram gögn frá Fjármálaeftirlitinu varðandi það að stefnda, Lífeyrissjóði Austurlands, sé óheimilt að hafa hin umræddu hlutabréf að handveði. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er svohljóðandi: "Þegar réttindi eru háð þeim takmörkunum að þau eru ekki framseljanleg, eða einungis framseljanleg með vissum skilyrðum, gilda sömu takmarkanir hvað varðar heimild til þess að veðsetja réttindin." Hlutabréfin bera ekki með sér neinar takmarkanir á framsali. Enda þótt Fjármálaeftirlitið hafi ekki samþykkt að stefndi, Lífeyrissjóður Austurlands, keypti meirihluta hlutafjár í Handsali hf. þá er ekki þar með sagt að lífeyrissjóðnum sé óheimilt að eiga handveðrétt í bréfunum og þá um leið að ganga að veðinu verði um greiðslufall að ræða.

Samkvæmt framangreindum samningi á dskj. 10 ábyrgðist stefndi, Guðmundur Franklín, stefnanda skaðleysi af kaupum stefnda, Guðmundar Franklín, á hlutabréfunum og ábyrgðinni við stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands. Stefnandi hefur enn ekki orðið fyrir tjóni vegna sjálfsábyrgðarinnar. Á það mun væntanlega ekki reyna fyrr en kemur að fyrsta gjalddaga skuldabréfanna, þ.e. 22. mars 2005, er greiða skal vexti.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið eru stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna forfalla dómarans sem er Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Guðmundur F. Jónsson og Lífeyrissjóður Austurlands, eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, Hjálmars Kjartanssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.