Hæstiréttur íslands

Mál nr. 486/2016

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
Y (Bjarni Hauksson hrl.) og X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður),
(Oddgeir Einarsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur

Reifun

Y og X voru sakfelldir fyrir kynferðisbrot samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í félagi og með ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við A sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Við ákvörðun refsingar var litið til 1., 2., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og var refsing þeirra ákveðin fangelsi í þrjú ár. Þá var þeim gert að greiða hvor fyrir sitt leyti A 1.000.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2016 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærði Y krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Ákærði X krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Brotaþoli, A, krefst þess að ákærðu verði hvorum um sig gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.  

I

Með ákæru ríkissaksóknara 23. febrúar 2016 voru ákærðu bornir sökum um nauðgun með því að hafa í félagi aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014 „í svefnherbergi á heimili ákærða Y að [...], Reykjavík, með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við [A] ... en ákærðu þvinguðu hana með ofbeldi inn í svefnherbergið og héldu henni niðri meðan á kynferðismökunum stóð, nýttu sér yfirburði sína vegna aðstöðu- og aflsmunar og notfærðu sér að hún gat ekki spornað við háttseminni sökum ölvunar. Við þetta hlaut [A] marbletti á upphandleggjum, hægri framhandlegg og hægri sköflungi.“ Var brot ákærðu talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í hinum áfrýjaða dómi var talið ósannað að ákærðu hafi beitt brotaþola ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu. Hins vegar voru ákærðu í héraðsdómi sakfelldir fyrir nauðgun samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að ákærðu hafi bæði nýtt sér yfirburði sína gagnvart brotaþola og notfært sér ástand hennar til að ná fram kynmökunum, enda þótt þeim væri ljóst að brotaþoli gæti ekki spornað við þeim sökum ölvunar. Varði sú háttsemi bæði við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

II

Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi og er þar rakinn framburður ákærðu og vitna. Varðandi framburð ákærða X er þess að gæta að hann skýrði svo frá fyrir dómi að á einhverju tímamarki hefði brotaþoli snúið sér við „og fór í aðra stellingu og bað Inga Björn um að halda áfram að gera það sem hann hafði verið að gera áður, hafa við hana mök.“

Við skýrslutöku hjá lögreglu 27. apríl 2014 var ákærði X spurður um aðkomu sína að kynmökunum umrætt sinn og svaraði: „Já, hún gæti líka hafa sett liminn á mér upp í sig ... Já, hún gerði það ... Snemma í þessu ... var hann bara byrjaður að ríða henni sko, og þá bað hún mig um að koma og ég tók út á mér liminn og hún setti hann upp í [sig] í augnablik.“ Aðspurður hvort hann hafi sett liminn á sér upp í hana í augnablik svaraði ákærði: „Já, og þá bað hún strax um að við myndum skipta um sko stöðu, að ég myndi, ég átti að fara að ríða henni og hún ætlaði að sjúga hann sko ... það byrjaði bara á því að ég lá uppi í rúmi og þau byrjuðu sko og ég var bara með typpið í munninum á henni skilurðu ... Ég gæti hafa tekið niður um mig buxurnar á þessum tímapunkti þarna ... Eina sem ég kannast við ... er þetta sem ég sagði, annar með typpið í munninum og hinn á milli lappanna, það er eina sem ég kannast við“. Við skýrslutöku hjá lögreglu 13. nóvember 2014 kvaðst ákærði aðspurður hafa verið á hnjánum þegar brotaþoli veitti honum munnmök en ekki vita hvar hann hefði haft hendurnar. Spurður um munnmökin skýrði ákærði á svipaðan veg fyrir dómi: „Sko ég man það ekki, hvort að hann hafi farið inn eða ekki. Ég get ekki sagt til um það ... ég fór úr skyrtunni og tók buxurnar niður á hné ... Ég krýp við hliðina á henni ... Hún ... tók fullan þátt í öllum athöfnunum. Eins og ég segi, hún tók utan um liminn á mér og setti hann upp í munninn á sér og hún var alltaf með fullri rænu.“

Varðandi framburð brotaþola er þess að gæta að fyrir dómi skýrði hún svo frá að ákærði X hefði á einhverjum tíma sagt að hann ætlaði „að koma eða brunda, ég man ekki nákvæmlega orðalagið lengur, yfir ... hausinn á þér eða hárið á þér eða eitthvað svoleiðis.“ Einnig bar brotaþoli fyrir dómi að hún hefði hvorki fundið „sokkabuxurnar sem ég var í né gat ég bara líkamlega komið mér í sokkabuxurnar. Bæði út af bakinu á mér, ég var mjög aum og illt þegar að ég vaknaði. Og vildi bara komast í föt.“ Þá skýrði hún svo frá að hún hafi talið að áform væru uppi um að ákærði X ætlaði að láta sig hverfa af vettvangi og því hafi hún lokað þá inni í svefnherberginu til að hindra það.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið það sem fram kemur á myndskeiðum þeim sem fyrir liggja í málinu og ákærði X tók upp á farsíma sinn að kynmökunum loknum. Á fyrsta myndbandinu heyrist brotaþoli tala í síma og biðja viðmælandann um að sækja sig en hún viti ekki hvar hún sé stödd. Ákærði Y heyrist þá segja að hún sé að [...] og í framhaldinu má heyra ákærða X hvísla að ákærða Y: „Við erum tveir og hún er að fara að kæra okkur, ég er að segja þér það, mundu bara þú varst að ríða henni, öll sagan, nema ég var bara í stofunni á móti. Ég bakka alla þína sögu upp.“ Á fjórða myndbandinu sést brotaþoli liggja ein í rúmi ákærða Y og ákærði X heyrist segja: „Af hverju ert þú að segja við vin þinn að við séum búnir að rífa þig úr að neðan? Bubbi og þú voruð að ríða skilurðu.“ Í framhaldinu sést hvar brotaþoli reisir sig upp og spyr: „Er það, vorum við að ríða?“

Í greinargerð ákærða X fyrir Hæstarétti var skorað á ákæruvaldið að láta rannsaka lífsýni sem fundust á vettvangi í því skyni að staðfest yrði hvort þar væri sæði úr öðrum hvorum ákærða og þá hvorum. Ákæruvaldið taldi ekki efni til að fallast á áskorun ákærða þar sem tilvist sæðis í rúmfötum og handklæði hefði ekki þýðingu varðandi sönnun þess hvort viðkomandi hefði haft samræði við brotaþola umrætt sinn. Á hinn bóginn taldi ákæruvaldið ástæðu til að senda til DNA-greiningar annars vegar þrjú lífsýni sem fundust á brotaþola við réttarfræðilega skoðun á henni á neyðarmóttöku Landspítalans 27. apríl 2014 og hins vegar tvö lífsýni af getnaðarlimum ákærðu sem varðveitt höfðu verið við réttarfræðilega skoðun á þeim sama dag. Samkvæmt sérfræðiskýrslu Nationellt forensiskt centrum í Svíþjóð og greinargerð lögreglu sem bárust réttinum 9. júní 2017 reyndust sáðfrumur í öllum þremur sýnum af brotaþola vera úr ákærða Y. Þá leiddi greining á stroksýnum af báðum ákærðu í ljós að þau innihéldu DNA-snið frá brotaþola.

III

Ákærðu neita sök og hafa lýst því svo að þeir hafi umrætt sinn báðir haft  kynmök við brotaþola en það hafi verið með fullu samþykki hennar. Því neitar brotaþoli. Til frásagnar um það sem gerðist eru aðeins ákærðu og brotaþoli og stendur þar orð gegn orði.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi staðhæfði brotaþoli bæði fyrir dómi og hjá lögreglu að sökum ölvunar myndi hún atvik mjög lítið og einungis brot af atburðarásinni frá því hún fór í leigubifreiðinni frá skemmtistaðnum [...] og þar til hún varð þess áskynja að ákærðu höfðu haft við hana kynmök. Myndskeið þau úr leigubifreiðinni sem nánar er lýst í héraðsdómi bera þess augljós merki að brotaþoli var þar verulega ölvuð og við það að sofna. Sama marki brennd eru myndskeið úr síma ákærða X sem eins og fyrr segir voru tekin að kynmökunum afstöðnum og er augljóst af þeim að brotaþoli var mjög ölvuð og hafði ekki hugmynd um hvar hún var stödd. Þá er til þess að líta að samkvæmt mælingum sem nánari grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi var magn alkóhóls í blóði brotaþola á þeim tíma sem hér skiptir máli um 2,3‰. Er fallist á með héraðsdómi að út frá þeirri mælingu einni hafi brotaþoli verið talsvert ölvuð. Héraðsdómur mat framburð brotaþola í heild trúverðugan en tilgreindi nánar atriði sem rýrðu trúverðugleika framburðar beggja ákærðu um tiltekin atriði málsins. Framburður brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu um ölvunarástand sitt umrætt sinn á samkvæmt því sem áður er rakið ótvíræða stoð í gögnum málsins. Eru engin efni til annars en að staðfesta mat héraðsdóms í þeim efnum og verður framburður brotaþola því lagður til grundvallar um það atriði.

Í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007, segir að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skuli sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007 er ákvæði þetta meðal annars skýrt svo að aðalatriði kynferðisbrots sé að brotið sé gegn sjálfsákvörðunarrétti manna varðandi kynlíf, frelsi þeirra og friðhelgi. Í samræmi við það sjónarmið sé í frumvarpinu lagt til að dregið verði úr áherslu á verknaðaraðferðir og megináherslan lögð á það að með brotunum séu höfð kynmök við þolanda án hans samþykkis og þannig brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi hans í kynlífi. 

Samkvæmt framburði ákærða Y fyrir dómi hafði hann samræði við brotaþola og samkvæmt framburði ákærða X fyrir dómi og við skýrslutöku hjá lögreglu höfðu þau að minnsta kosti munnmök. Að þessu gættu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á það mat héraðsdóms að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að til að ná fram kynmökunum hafi ákærðu nýtt sér ástand brotaþola, sem vegna ölvunar hafði enga burði til að veita samþykki sitt. Í því sambandi er einnig að líta til þess mikla aðstöðu- og aflsmunar sem var með brotaþola og ákærðu umrætt sinn. Kynmökunum náðu þeir tveir fram samtímis og í sameiningu á heimili annars þeirra, brotaþoli þekkti þá ekki neitt og hún var sér þess ekki meðvitandi hvar hún var stödd. Brutu ákærðu þannig gróflega gegn kynfrelsi brotaþola og gerðust með þeirri háttsemi sekir um ólögmæta nauðung samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar er ósannað að ástand brotaþola hafi verið með þeim hætti að brot ákærðu verði heimfærð til 2. mgr. sömu lagagreinar.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um refsingu ákærðu.

Krafa brotaþola um miskabætur að fjárhæð 4.000.000 krónur er reist á 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brotaþoli hefur kosið að haga kröfugerð sinni þannig að hún krefur hvorn ákærðu um helming þeirrar fjárhæðar en hefði samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar að réttu lagi átt að krefja þá báða óskipt um alla fjárhæðina. Með því að kröfugerð brotaþola eins og hún er fram sett hefur ekki sætt andmælum af hálfu ákærðu verður að líta svo á að fyrir liggi samþykki þeirra fyrir jafnri skiptingu bótafjárhæðar komi til greiðslu bóta. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að brotaþoli eigi rétt til miskabóta úr hendi ákærðu og þykja þær hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur úr hendi hvors ákærðu um sig með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu.

Ákærðu, Y  og X, greiði hvor fyrir sitt leyti brotaþola, A, 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærðu greiði hvor fyrir sitt leyti málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Bjarna Haukssonar og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, 744.000 krónur til hvors þeirra. Ákærðu greiði óskipt þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur. Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins, 81.885 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2016

                Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 27. febrúar 2016 á hendur Y, kennitala [...], [...], Reykjavík og X, kennitala [...], [...], Reykjavík fyrir nauðgun með því að hafa í félagi, aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014, í svefnherbergi á heimili ákærða Y að [...], Reykjavík, með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við A, kennitala [...], en ákærðu þvinguðu hana með ofbeldi inn í svefnherbergið og héldu henni niðri meðan á kynferðismökunum stóð, nýttu sér yfirburði sína vegna aðstöðu- og aflsmunar og notfærðu sér að hún gat ekki spornað við háttseminni sökum ölvunar. Við þetta hlaut A marbletti á upphandleggi, hægri framhandlegg og hægri sköflung.

                Er brot ákærðu talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði Y  verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta, skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. apríl 2014 en síðan dráttarvexti, samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Af hálfu brotaþola er þess jafnframt krafist að ákærði X verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. apríl 2014 en síðan dráttarvexti samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Ákærðu neita sök. Af hálfu verjenda er aðallega krafist sýknu, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess krafist að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, ellegar að skaðabætur verði lækkaðar. Loks er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014 fékk lögregla, þá nótt kl. 05.04, tilkynningu um að fara að [...] í Reykjavík vegna hugsanlegs kynferðisbrots. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að er lögreglu hafi borið að garði hafi hún hitt fyrir X , annan ákærðu í máli þessu, og B. Þeir hafi verið fyrir utan [...]. Brotaþoli hafi staðið frammi í anddyri íbúðarinnar í [...] ásamt C og D. Y , einnig ákærður í máli þessu, og E hafi verið inni í stofu. Fram kemur að brotaþoli hafi greint frá því að hún hafi þetta kvöld verið að skemmta sér á skemmtistaðnum [...] í Kópavogi. Hafi hún verið þar með vinum sínum. Hún hafi drukkið mikið af áfengi og orðið viðskila við vini sína en hitt ákærðu á skemmtistaðnum. Hún myndi ekki eftir því hvernig ákærðu hefðu fært hana upp í leigubifreið fyrir utan staðinn en skyndilega hafi hún verið komin inn í ókunnugt hús. Þar hafi ákærðu gripið í báða handleggi brotaþola og við það hafi armbönd hennar slitnað. Þeir hafi farið með hana nauðuga inn í svefnherbergi í íbúðinni og ýtt henni á rúmið. Hún hafi sagt þeim að láta sig í friði og reynt að sparka í þá. Ákærðu hafi leyst skóreimar hennar og tekið hana úr stígvélum. Því næst hafi þeir rifið hana úr sokkabuxum er hún var í. Ákærði X hafi glennt fætur hennar sundur og haft við hana samfarir. Brotaþoli hafi reynt að komast í burtu en þá hafi ákærði X stungið getnaðarlim sínum í munn hennar og í sama mund hafi ákærði Y hafið samfarir við hana. Stuttu síðar hafi ákærði hætt og hún þá komist í burtu. Síminn hennar hafi hringt og hafi hún fundið hann á gólfinu. Fyrrum sambýlismaður hennar, B, hafi verið í símanum og hafi hún beðið hann um aðstoð.

                Í frumskýrslu kemur fram að ákærði X hafi greint lögreglu frá því að brotaþoli hafi farið með ákærðu heim og hafi hún viljað hafa samfarir við þá. Ákærði hafi fyrst haft samfarir við hana og hún síðan haft við hann munnmök. Er meðákærði hafi haft samfarir við brotaþola hafi ákærði tekið það upp á farsíma. Fram kemur að ákærði Y hafi ekki viljað tjá sig um málið. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu ræddi hún við önnur vitni á vettvangi. Ákærðu hafi verið handteknir og færðir á lögreglustöð þar sem þeir hafi verið vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Brotaþoli hafi verið flutt á neyðarmóttöku.

                Á meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola á neyðarmóttöku. Samkvæmt skýrslunni mætti brotaþoli á neyðarmóttöku kl. 6.50 að morgni sunnudagsins 27. apríl 2014. Fram kemur að hún hafi greint frá því að hún hafi verið að skemmta sér kvöldið áður með fyrrverandi eiginmanni sínum og barnsföður. Hún hafi farið út að reykja og allt í einu viljað fara heim. Hún hafi farið inn í leigubifreið með tveimur mönnum sem hún hafi aldrei séð áður og farið heim til annars þeirra. Þegar þangað kom hafi ákærði X rifið í handlegg hennar og dregið hana inn í svefnherbergi. Þar hafi hann ýtt henni á rúmið, dregið niður um hana sokkabuxur og tekið hana úr stígvélunum sem hún hafi verið í. Meðákærði hafi ekkert gert eða sagt. Hann hafi horft á. Ákærði X hafi náð brotaþola úr stígvélum og ýtt samfellu er hún hafi verið í upp að brjóstum. Hann hafi haft samfarir við hana um leggöng á meðan ákærði Y hafi horft á. Hann hafi hætt og sagt við ákærða Inga Björn að hann skyldi hafa samfarir við brotaþola. Ákærði Y hafi þá haft við hana samfarir. Ákærði X hafi á sama tíma stungið lim sínum í munn hennar. Ákærði Y hafi hvað eftir annað spurt hvort ekki væri allt í lagi en brotaþoli alltaf sagt nei og að það væri ekki allt í lagi. Brotaþoli hafi legið sem lömuð í rúminu og því ekki getað spornað við athöfnum ákærðu þrátt fyrir að hún reyndi það. Henni hafi verið haldið niðri í rúminu með hendur upp yfir höfuð og hafi hún ekkert getað gert. Ákærðu hafi síðan hætt. Hún vissi ekki hvort þeir hefðu haft sáðlát eða hvort verjur hefðu verið notaðar. Hún hafi náð að rísa á fætur og séð að jakki hennar og veski hafi legið á gólfinu. Hún hafi tekið annan ákærðu hálstaki upp við vegg en hann hafi sagt að hann hefði tekið atvikið upp á myndband. Hafi hún náð að komast á salernið og læsa sig þar inni. Þar hafi hún hringt í fyrrverandi eiginmann sinn og síðan á lögregluna. Á meðan hafi ákærði X hringt á lögregluna. Í skýrsluna er skráð um ástand við skoðun að brotaþoli hafi verið eirðarlaus. Hún hafi verið mjög drukkin en samt komið vel fyrir og verið samvinnuþýð. Hafi hún gefið góða sögu en talað hratt og virkað æst á köflum. Hún hafi sagt að hún gerði sér ekki alveg grein fyrir því sem gerst hefði. Í þeim hluta skýrslunnar sem varðar áverka og önnur verksummerki kemur fram að brotaþoli hafi verið með marbletti á hægri og vinstri handleggjum innanverðum, 10x3 og 10x2 cm að stærð. Geti það samrýmst þeirri frásögn brotaþola að henni hafi verið haldið. Þá hafi brotaþoli verið með marbletti á framhandlegg yfir hægri úlnlið og innanvert á framhandlegg. Geti það samrýmst þeim framburði brotaþola að togað hafi verið í úlnliði hennar. Loks hafi brotaþoli verið með tvo marbletti á hægri sköflungi ofanverðum. Gætu þeir hafa hlotist þegar verið var að reyna að losa brotaþola úr stígvélum. Í niðurstöðu læknis kemur fram að brotaþoli hafi virkað trúverðug. Engin áverkamerki hafi sést á kynfærum. Sýni hafi verið tekin til sæðisleitar. 

                Á meðal gagna málsins eru skýrslur tæknideildar lögreglu vegna rannsóknar málsins. Þar er meðal annars að finna ljósmyndir er teknar voru á neyðarmóttöku af áverkum brotaþola. Þá voru teknar ljósmyndir af fatnaði brotaþola og fatnaði er ákærðu klæddust umrædda nótt. Þá rannsakaði lögregla vettvang að [...] og eru ljósmyndir úr íbúðinni á meðal gagna málsins. Ákærðu gengust undir réttarlæknisfræðilega skoðun í framhaldi af handtöku. Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir af ákærðu og áverkum er þeir greindust með. Samkvæmt skýrslunni um réttarlæknisfræðilega skoðun greindist ákærði Y með nýlega bandlaga roðabletti á hægri úlnlið. Voru fjórir nýir marblettir handarbaksmegin á vinstri úlnlið. Örfínt sár, skurður eða rispa um 2 mm að lengd, var á vinstri úlnlið með blóðstorku í. Fram kemur að ákærði X hafi greinst með áverka á hálsi. Hafi ákærði sagt að þeir væru til komnir vegna átaka við elsta son hans, þann 25. apríl 2014. Um hafi verið að ræða nýleg mör á hálsi. Þau hafi verið rauð, flest ílöng, líkast til eftir átök. Gætu þau verið innan við eins sólahrings gömul. Eitt slíkt hafi verið framan á bringu. Marrákir hafi verið á báðum úlnliðum, hugsanlega eftir handjárn. Þau hafi verið nýleg, innan við sólahrings gömul.

                Tekið var þvagsýni úr brotaþola kl. 07.30 að morgni sunnudagsins 27. apríl 2014, sem í mældust 2.40 o/oo alkóhóls. Blóðsýni var tekið úr brotaþola sama morgun kl. 07.00 er í mældust 1,88 o/oo alkóhóls. Annað blóðsýni var síðan tekið kl. 8.00 er í mældust 1,69 o/oo alkóhóls. Í niðurstöðu matsgerðar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, frá 15. maí 2015, kemur fram að niðurstöður mælinga í blóði og þvagi brotaþola sýndu að hún hefði verið ölvuð, þegar sýni voru tekin. Niðurstöður mælinga bentu til þess að styrkur etanóls í blóði hafi verið fallandi á þeim tíma, en það styddi niðurstaða úr síðara blóðsýni.

Að því er ákærðu varðar kemur fram að þvagsýni hafi verið tekið úr ákærða Y í framhaldi af handtöku og hafi magns alkóhóls í því reynst vera 0,30 o/oo og í blóðsýni sem tekið hafi verið á sama tíma 0,39 o/oo. Í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að ákærði hafi verið undir vægum áhrifum áfengis er sýni hafi verið tekin. Að því er ákærða X varðar kemur fram að þvagsýni hafi verið tekið úr honum í framhaldi af handtöku og hafi magn alkóhóls í því reynst vera 1,30 o/oo og í blóðsýni sem tekið hafi verið á sama tíma 0,97 o/oo. Í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis er sýni hafi verið tekin. Niðurstöður mælinga bendi til þess að styrkur etanóls í blóði hafi náð hámarki.

                Heimilislæknir hefur 18. apríl 2016 ritað læknisvottorð vegna brotaþola. Fram kemur að hún hafi átt við stoðkerfisvandamál að stríða í allmörg ár, en um hafi verið að ræða vefja- og slitgigt. Hafi hún lent í slæmu brjósklosi fyrir tæpum 10 árum og farið í 2 aðgerðir á einu ári. ,,[...]“ hafi verið að há henni og óljóst ofnæmi. Einnig sé saga um sykursýkistýpu 2, astma, offitu og langvarandi þreytu og slappleika. Samhliða versnandi bakverkjum og andlegrar vanlíðunar í kjölfar árásar í [...] 2014 hafi kvíði heltekið brotaþola og hún átt við svefnvandamál að stríða. Hún hafi þurft mikla aðstoð heima við síðastliðnar vikur og þurft hjólastól til að komast á milli í verstu köstum.

                Sálfræðingur hefur 16. desember 2014 ritað vottorð um skoðun og viðtöl við brotaþola. Fram kemur að brotaþola hafi verið vísað til sálfræðingsins í sálfræðilegt mat og áfallahjálp hjá sálfræðihjálp neyðarmóttökunnar 27. apríl 2014. Hafi sálfræðingurinn rætt við brotaþola, fyrst þann 28. apríl 2014 og í framhaldi hitt hana tíu sinnum fram til 14. nóvember 2014. Í samantekt kemur fram að allt viðmót brotaþola bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi í ætluðu kynferðisbroti. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að brotaþoli þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar ætlaðs brots. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem séu þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða hafi samsvarað vel frásögn hennar í viðtölum. Hún hafi virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Formleg meðferð við áfallastreitueinkennum sé hafin og árangur hafi verið góður. Hún hafi verið samstarfsfús í viðtölum og lagt sig fram um að sinna krefjandi verkefnum. Einnig hafi hún haft góðan stuðning sem skipti máli í þessari vinnu. Gert sé ráð fyrir að brotaþoli haldi áfram meðferðarvinnu og þurfi mögulega frekari stuðning að formlegri meðferð lokinni. Ekki sé hægt að segja með vissu hver áhrif ætlaðs kynferðisbrots verði þegar til lengri tíma sé litið en ljóst þyki að atburðurinn hafi haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola. Sami sálfræðingur hefur ritað annað vottorð, þann 19. apríl 2016, vegna hennar. Í því vottorði kemur fram að brotaþoli hafi lokið sérhæfðri meðferð vegna áfallastreituröskunarinnar þann 16. janúar 2015 og hafi hún verið í eftirfylgd eftir það. Hún hafi haldið bata sínum vel þar til ljóst hafi verið að ákæra yrði gefin út í málinu og að hún yrði að koma fyrir dóminn. Síðan þá hafi andlegri líðan og líkamlegri heilsu brotaþola hrakað mikið að sögn hennar. Í viðtali þann 19. apríl 2016 hafi brotaþoli lýst mikilli vanlíðan vegna væntanlegrar aðalmeðferðar málsins. Hún komist reglulega í uppnám og eigi þá erfitt með að ná stjórn á líðan sinni. Áfallastreitueinkenni hafi aukist verulega miðað við lok meðferðarinnar.

                Á meðal rannsóknargagna málsins eru myndskeið úr myndavélakerfi leigubifreiðar, sem ákærðu og brotaþola var ekið í frá skemmtistaðnum [...] í Kópavogi að [...], aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014. Samkvæmt gögnum málsins fóru ákærðu og brotaþoli inn í leigubifreiðina kl. 03.59 um nóttina og voru komin á áfangastað kl. 04.05. Á myndskeiði sést að brotaþoli sest inn í framsæti leigubifreiðarinnar en ákærðu setjast í aftursætið. Fer annar ákærðu þess á leit að þeim sé ekið að [...] í Reykjavík. Brotaþoli spyr hvort það sé fínn staður. Ákærði X segir að þeir séu á leið þangað og ráði brotaþoli hvort hún komi með eða ekki. Brotaþoli spyr á ný hvort þetta sé fínn staður og svara ákærðu því játandi. Brotaþoli kveðst draga það í efa og spyr enn á ný hvort þetta sé fínn staður og svarar leigubifreiðastjórinn því játandi. Ákærðu segja að þeir séu á leið þangað og geti brotaþoli tekið leigubílinn þaðan. Ákærði X spyr brotaþola að því hvort hún sé að sofna og svarar hún því neitandi. Hún spyr ákærðu hvort þeir séu að sofna. Ákærði X segir að ef brotaþoli sofni fái hann leigubifreiðastjórann til að aka henni heim. Umræður halda áfram um það hvort brotaþoli sé að sofna. Brotaþoli spyr hvað myndi gerast ef hún sofnaði. Ákærði X segir þá að hann myndi fá leigubifreiðastjórann til að aka henni heim. Brotaþoli segist ekki ætla að borga fyrir leigubílinn. Í framhaldi verða umræður um húðflúr á handleggjum hennar. Hún kveðst síðan ætla að taka leigubifreiðina heim. Er leigubifreiðin kemur að [...] afhendir ákærði Y bílstjóranum greiðslu fyrir fargjaldinu.

                Á meðal rannsóknargagna málsins eru myndskeið úr farsíma sem ákærði X afhenti lögreglu í framhaldi af handtöku. Fyrsta myndskeiðið er tekið sunnudaginn 27. apríl, kl. 04.51 og stendur það í 55 sekúndur. Á því sést brotaþoli standa við svaladyr þar sem hún er að reykja og tala í síma. Er hún klædd í síðan kjól sem nær niður fyrir mið læri. Fer brotaþoli þess á leit við viðmælanda sinn að hann nái í sig. Hún kveðst ekki vita hvar hún sé stödd. Ákærði Y svarar því til að þau séu að [...]. Af hljóðupptöku heyrist er ákærði X hvíslar að ákærða Y að þeir séu tveir og að brotaþoli hyggist kæra þá. Eigi meðákærði að muna að meðákærði hafi haft samfarir við brotaþola og að ákærði hafi verið í stofunni á móti. Muni ákærði styðja sögu hans.

                Myndskeið númer tvö er tekið upp kl. 04.52 um nóttina og stendur það í 35 sekúndur. Í því sést brotaþoli liggja uppi í rúmi en með fætur niður á gólf. Er hún klædd í svartan kjól sem dregist hefur upp á læri. Ákærði X segir henni að þau séu að [...]. Hún spyr hvar þetta sé og endurtekur ákærði X að um sé að ræða [...]. Hann bætir því við að enginn sé búinn að rífa brotaþola úr að neðan. Brotaþoli spyr hvort enginn sé búinn að rífa sig úr að neðan og ákærði endurtekur að enginn sé búinn að rífa hana úr að neðan. Hún segir nei og tekur ákærði undir það. Hún endurtekur þá að enginn sé búinn að rífa hana úr að neðan. Ákærði X segir þá við hana að hún sé til dæmis lögst upp í rúm hjá ákærða Y og að það sé enginn búinn að rífa hana úr að neðan. Brotaþoli umlar eitthvað í framhaldi og biður ákærði X hana að hætta þessu bulli og að hún skuli biðja vin sinn um að sækja sig.

                Myndskeið númer þrjú er tekið upp kl. 04.53 og stendur í 13 sekúndur. Í því sést brotaþoli liggja uppi í rúmi og tala í síma. Myndskeið númer fjögur er tekið upp kl. 04.55 og stendur í 2 mínútur og 21 sekúndu. Á því sést brotaþoli liggja uppi í rúmi. Ákærði X spyr hana af hverju hún segi við vin sinn að þeir hafi rifið hana úr að neðan. Hún og ákærði Y hafi haft samfarir. Brotaþoli spyr hvort það hafi verið þannig. Ákærði X spyr þá hvað þau hafi verið að gera og hún spyr á móti, ákærða X, hvað hann hafi verið að gera. Þá spyr ákærði hvað hún og ákærði Y hafi verið að gera. Brotaþoli endurtekur spurninguna og spyr ákærða hvað hann hafi verið að gera. Ákærði kveðst hafa verið góður og spyr brotaþola aftur hvað hún og meðákærði hafi verið að gera. Hún segir þá að ákærði hafi ekki verið góður. Ákærði X endurtekur spurninguna um hvað hún og meðákærði hafi verið að gera. Hún megi ekki segja við vin sinn að hún hafi verið rifin úr að neðan eins og það hafi verið eitthvað slæmt. Brotaþoli segir nei og biður ákærða um að slökkva ljósið. Hann svarar því játandi og segir það ekki þýða neitt. Hún endurtekur að hann eigi að slökkva ljósið. Hann kveðst munu gera það en endurtekur að hún megi ekki segja svona hluti. Hún segir þá að ákærði X sé ekki saklaus. Ákærði kveður það vel geta verið og kveður hana heldur ekki vera saklausa. Hún segir nei og síminn hennar hringir. Ákærði segir þá við brotaþola að hún megi ekki saka fólk um eitt eða neitt. Hún svarar viðmælanda í síma og segir að hún sé í [...]. Ákærði X spyr brotaþola hvort viðmælandi hennar sé að spyrja hvort eitthvað slæmt sé í gangi. Hún kveðst ekki vita það. Ákærði X spyr hana þá hvort eitthvað slæmt sé í gangi. Viðmælandi hennar heyrist spyrja hvort það sé samkvæmi. Hún svarar því játandi og biður viðmælanda sinn um að koma í samkvæmið. Ákærði X segir henni að segja viðmælanda sínum að hún sé hress með að vera í samkvæmi hjá meðákærða Y og það eigi ekki að hljóma niðurdrepandi. Hún segir þá að hún sé mjög hress. Ákærði X segir þá við hana að það nenni enginn að koma í samkvæmi til meðákærða ef það sé niðurdrepandi. Ákærði Y segir þá að annað sé bara vitleysa. Hún segist þá vera mjög hress.

                Myndskeið númer fimm er tekið upp kl. 04.57 og stendur í 1 mínútu og 9 sekúndur. Ákærði X spyr brotaþola hvað hún segi. Heyra má brotaþola snökta. Ákærði spyr hvort ekki sé allt í lagi og hvort hann eigi að hringja á leigubíl. Hún svarar því neitandi. Hann spyr hana á ný hvort ekki sé allt í lagi. Hún spyr ákærðu hvort þeir séu tilbúnir að hjálpa henni í. Ákærði X segist geta það en spyr áfram hvort ekki sé allt í lagi og að hann geti hringt á leigubíl. Hún svarar því neitandi. Ákærði endurtekur enn á ný spurninguna um hvort ekki sé allt í lagi. Hún spyr þá hvort hún megi fara í og svarar ákærði X því játandi. Brotaþoli segir þá að ákærðu hafi rifið hana úr sokkabuxum og að hún viti ekki hvar þær séu. Ákærði X segir þá að enginn hafi rifið hana úr einu né neinu. Hann spyr á ný hvort hann eigi að hringja á leigubíl.

                Myndskeið númer sex er tekið upp kl. 04.58 og stendur í 19 sekúndur. Ákærði Y segist ekki sjá hvernig þetta snúi. Ákærði X spyr hana hvort hún vilji ekki vera nærbuxnalaus. Hún spyr ákærða hvort hann vilji ekki vera nærbuxnalaus.

                Myndskeið númer sjö er tekið upp kl. 05.01 og stendur í 2 mínútur og 11 sekúndur. Brotaþoli er að tala í síma og býður viðmælanda sínum að koma inn. Hún leiðbeinir viðmælanda og segir að hún sé í [...]. Ákærði X biður brotaþola um að hætta þessu. Hún spyr þá hvort hún eigi að hætta og svarar ákærði því játandi. Hún segir honum þá að hann eigi ekki að vera að rífa sig og hann svarar henni að hún skuli hætta þessu bulli, hann nenni ekki að hlusta á þetta. Það heyrist þegar hurð er lokað. Ákærði X segir þá að nú hafi hún lokað þau inni í herbergi. Hún svarar því játandi, að hún sé búin að loka ákærðu inni. Ákærði X biður brotaþola að opna og kveðst vera farinn. Hún er á sama tíma að tala í síma og spyr hvar D sé. Viðmælandi hennar heyrist spyrja hvort hún sé viss um að hún sé í [...]. Ákærði X kveðst munu opna fyrir manninum en hún svarar því neitandi. Ákærði kveður manninn þá ekki komast inn þar sem það sé læst. Hún ítrekar að hann sé ekkert að fara. Hann skipar henni þá að fara frá hurðinni því hann nenni ekki að standa í þessu. Hún segir þá viðmælanda sínum að þetta sé í [...] og að hann eigi að koma núna. Eftir nokkurt þras biður ákærði X meðákærða að toga brotaþola frá hurðinni, því hann nenni ekki að standa í þessu. Hún skorar þá á ákærðu að reyna að toga sig frá. Ákærði X biður hana þá að leyfa sér að tala við vin hennar. Hún spyr af hverju og hvort ákærði ætli að segja vini hennar hvað hann hafi gert við hana.

                Á meðal rannsóknargagna málsins er upplýsingaskýrsla vegna myndbands-upptöku fyrir utan skemmtistaðinn [...] í Kópavogi. Samkvæmt myndskeiði úr eftirlitsmyndavélakerfinu má sjá brotaþola koma út af skemmtistaðnum aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014, kl. 03.40. Hún sest á bekk rétt við inngang skemmtistaðarins. Í sama mund kemur ákærði Y út af skemmtistaðnum og fer beint til hennar. Hann stendur fyrir framan hana og þau reykja bæði. Klukkan 03.41 kemur ákærði X út af skemmtistaðnum og gengur fram hjá brotaþola og ákærða Y. Hann snýr við og stoppar til hliðar við þau reykjandi. Skömmu síðar stendur brotaþoli á fætur en sest fljótlega aftur. Ákærði X gengur frá en snýr síðan við og fer aftur til brotaþola og ákærða Y. Þau ræða saman í nokkra stund. Hún stendur þá aftur á fætur og gengur ásamt ákærðu í átt frá skemmtistaðnum. Þeir eru hvor sínum megin við hana.  

                Tekin var skýrsla af ákærðu báðum hjá lögreglu 27. apríl 2014. Þá var tekin skýrsla af ákærða Y hjá lögreglu, 4. nóvember 2014 og ákærða X, 13. nóvember 2014. Þeir gáfu báðir skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði Y kvað meðákærða vera vin sinn frá unga aldri. Ákærðu hafi verið að skemmta sér á skemmtistaðnum [...] í Kópavogi aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014. Um nóttina hafi ákærði farið út til að reykja. Fyrir utan hafi hann hitt brotaþola, en hana hafi ákærði ekki þekkt fyrir. Þau hafi rætt saman og hafi tal þeirra borist að því hvort þau ættu að taka saman leigubíl. Það hafi orðið úr og þau, ásamt meðákærða, farið saman inn í leigubíl fyrir utan staðinn. Ákærði hafi á þeim tímapunkti verið á leið heim til sín í [...] í Reykjavík. Umræðan í leigubifreiðinni hafi hins vegar þróast á þá leið að þau færu öll heim til ákærða, en hann hafi boðið brotaþola heim til sín. Hann kvaðst ekki muna hvernig það hafi komið til að meðákærði hafi einnig farið heim til hans. Hann kvaðst hafa drukkið töluvert þetta kvöld og um nóttina. Hafi hann verið talsvert ölvaður er þau voru í leigubifreiðinni. Brotaþoli hafi einnig verið talsvert ölvuð þessa nótt. Hann myndi þó ekki sérstaklega eftir ástandi hennar í leigubifreiðinni eða hvort hann hafi á einhverjum tímapunkti verið að spyrja hana um það hvort hún væri að sofna. Hann kvaðst hins vegar muna eftir umræðu um húðflúr sem brotaþoli hafi verið með. Leigubifreiðin hafi síðan stöðvað fyrir framan [...]. Þau hafi öll farið inn í íbúð ákærða, sem sé 3ja herbergja íbúð í kjallara raðhúss. Hafi yngri bróðir ákærða verið í einu herbergja íbúðarinnar, sennilega sofandi. Í stofu íbúðarinnar hafi ákærði kysst brotaþola. Hann myndi ekki hvort meðákærði hafi einnig kysst hana. Ákærðu báðir og brotaþoli hafi síðan farið inn í svefnherbergi í íbúðinni. Brotaþoli hafi ekki verið þvinguð til að fara inn í herbergið og þau hafi öll verið fullklædd. Ákærði og brotaþoli hafi haldið áfram að kyssast inni í herberginu. Eitthvað hafi verið í gangi á milli þeirra þó að hann myndi atburðarásina ekki í smáatriðum. Ákærði hafi ekki verið að huga að því sem meðákærði var að gera á þessum tíma. Hann hafi farið úr fötum, sem og meðákærði og brotaþoli hafi beðið um aðstoð við að fara úr reimuðum stígvélum sem hún hafi verið í. Brotaþoli hafi þá setið á rúmi í herberginu og kvaðst ákærði hafa losað reimarnar á stígvélunum. Hann myndi ekki eftir því hvort hún hafi hreyft athugasemdum við því að hann losaði reimarnar. Hann kvaðst einnig hafa aðstoðað hana við að fara úr sokkabuxum. Hann myndi ekki hvernig það hafi komið til. Í kjölfar þessa hafi hann og brotaþoli stundað kynlíf. Hún hafi beðið hann að sleikja kynfæri sín og eitt hafi síðan leitt af öðru. Ákærði hafi lagst ofan á hana og haft samræði við hana um leggöng. Á þeim tíma hafi meðákærði verið kominn við höfuð brotaþola og hún sennilega haft munnmök við hann. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hún hafi haft munnmök við sig. Hann hafi ekki séð til annarra athafna meðákærða, svo sem hvort hann hafi haft samræði við brotaþola og ekki sagðist hann muna eftir einhverjum flengingum í þessum athöfnum. Á einhverjum tímapunkti hafi hún beðið hann um að skipta um stöðu. Hann myndi hins vegar ekki eftir því að þau hafi skipt um stöðu. Hann hafi að lokum haft sáðlát í leggöng brotaþola og með því lauk samræði þeirra. Á þeim tímapunkti hafi hún beðið hann um að ná fyrir sig í handklæði, sem og að hafa við sig munnmök. Hann kvaðst ekki muna hvort meðákærði hafi verið inni í herberginu allan þann tíma sem á kynlífsathöfnum ákærða og brotaþola stóð. Á meðan á athöfnum stóð hafi hún aldrei beðið hann að hætta. Hafi ákærði einhverju sinni spurt hana hvort allt væri í lagi. Hann hafi spurt af tillitssemi við hana, en þau hafi ekki þekkst fyrir þennan atburð. Henni hafi á engan hátt verið haldið eða hún streist á móti kynlífsathöfnum. Honum hafi fundist hún vera þátttakandi í athöfnum. Ákærði kvaðst muna eftir að sími hennar hafi hringt alloft á meðan á athöfnum stóð og fundist undarlegt að hún skyldi ekki svara. Allt hafi verið í stakasta lagi er samförum þeirra lauk. Sími hennar hafi hringt og hún síðan beðið hann að svara. Hann hafi sagt viðmælandanum hvar þau væru til húsa. Í framhaldi hafi ákærði rétt brotaþola símann. Á þeim tímapunkti hafi þau verið komin inn í stofu eða verið við svalahurð í stofu. Ákærði myndi ekki hvar meðákærði var á þeim tíma. Allt hafi breyst við þetta símtal og í framhaldi þess hafi hún ásakað þá um að hafa beitt sig ofbeldi og rætt um nauðgun. Hún hafi verið ölvuð á þeirri stundu. Hann myndi ekki hvort hún hefði grátið á þeim tímapunkti eða verið reið.

                Einhverju síðar hafi vinir hennar komið á staðinn og þá hafi allt farið í háaloft. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því er meðákærði hafi tekið atburði upp á myndavél í síma í íbúðinni þessa nótt. Símtöl hennar við vin sinn hafi sennilega verið fleiri en eitt um nóttina. Þrír vinir hennar hafi síðan komið á staðinn. Ákærði kvaðst muna eftir að brotaþoli hafi varnað þeim för um húsið og staðið í vegi fyrir því að unnt væri að opna fyrir vinum hennar. Er vinirnir hafi komið hafi hún og ákærðu verið búin að klæða sig. Hún hafi óskað eftir aðstoð ákærðu við að klæða sig en hann myndi ekki eftir því hvort hann hefði aðstoðað hana í því skyni. Er vinir hennar hafi komið í íbúðina hafi hún orðið mjög æst og það hefðu orðið töluverð læti. Hún hafi öskrað og verið alveg brjáluð. Vinur brotaþola, B, hafi haldið í brotaþola en hún hafi reynt að sparka í og kýla meðákærða. Ákærði kvaðst hafa rætt við vini hennar og enginn æsingur verið á milli þeirra.Vinir B hafi sagt við ákærða að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem B væri í vandræðum með hana. Ákærði hafi ekki sagt mönnunum frá því hvað nákvæmlega hefði gerst í íbúðinni. Meðákærði hafi óskað eftir því að lögregla kæmi á staðinn vegna ásakana brotaþola. Lögregla hafi mætt á staðinn og ákærðu verið handteknir í framhaldi. Ákærði kvaðst muna eftir því að meðákærði hafi rætt um, eftir að ásakanir brotaþola voru komnar fram, að þeir ættu að haga sögu sinni þannig að einungis ákærði hefði haft samræði við brotaþola. Hafi honum fundist þetta góð ákvörðun í ljósi þess að meðákærði hafi verið með konu og átt börn. Á þessum tíma hafi þeir ekki áttað sig á alvarleika málsins. Af þessum ástæðum hafi hann greint frá því við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann einn hafi haft samfarir við brotaþola. 

                Við yfirheyrslu lögreglu, þann 27. apríl 2014, greindi ákærði Y meðal annars frá því að hann hefði kysst brotaþola inni í stofu í [...]. Þau tvö hafi í framhaldi farið út á svalir til að reykja en fljótlega eftir það farið inn í svefnherbergi. Meðákærði hafi ekki komið inn í herbergið á þeim tímapunkti og kvaðst ákærði ekki muna eftir því að meðákærði hafi komið inn í herbergið síðar. Inni í herberginu hafi brotaþoli lagst á bakið og beðið ákærða um að hafa við sig munnmök. Þau hafi í framhaldi haft samfarir um leggöng og hann haft sáðlát inn í leggöngin. Meðákærði hafi væntanlega verið inni í stofu á meðan. Að samförum loknum hafi hún beðið hann aftur um að hafa við sig munnmök. Hann kvaðst telja að hún hafi verið samþykk samförum og hann hafi spurt hana uppi í rúmi hvort ekki væri allt í lagi. Hún hafi tekið þátt í samræðinu. Er framburður meðákærða hjá lögreglu, um að hann hafi einnig verið inni í herberginu og tekið þátt í kynlífinu, var borinn undir ákærða kvaðst hann ítreka að hann myndi ekki eftir meðákærða inni í herberginu. Hann gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 10. nóvember 2014. Er ákærði var spurður að því hverjir hafi verið inni í herberginu að stunda kynlíf kvaðst hann ekki muna það ljóst. Væri áfengisástand hans þessa nótt meðal annars ástæðan fyrir því að hann myndi þetta óljóst.

                Ákærði X kvaðst hafa þekkt meðákærða frá því þeir voru ungir. Aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014 hafi ákærðu verið að skemmta sér á skemmtistaðnum [...] í Kópavogi. Ákærðu hafi farið út af staðnum um nóttina og hann séð meðákærða ræða við brotaþola þar fyrir utan. Ákærði hafi gengið til þeirra og spurt meðákærða hvort hann væri kominn ,,á sjens“. Brotaþoli hafi sagt já við því og að hún ætlaði með meðákærða heim. Þau hafi þrjú farið saman og tekið leigubíl. Ákærðu hafi setið aftur í bifreiðinni en brotaþoli verið í farþegasæti frammí. Ákærði myndi ekki eftir um hvað þau hefðu rætt á leiðinni né myndi hann hvort hann hefði spurt hana að því á leiðinni hvort hún væri að sofna. Er þau hafi komið upp í [...] hafi þau öll farið inn í íbúð meðákærða. Þau hafi farið beint inn í svefnherbergi. Þar hafi brotaþoli reynt að kyssa ákærða en hann beygt sig frá. Brotaþoli hafi síðan kysst meðákærða. Myndi hann eftir því að meðákærði hafi aðstoðað brotaþola að afklæðast stígvélum er hún hafi verið í. Hann myndi ekki hvort hún hafi beðið meðákærða að aðstoða sig við að komast úr sokkabuxum. Meðákærði hafi sennilega afklæðst að fullu en ákærði farið úr skyrtu og dregið buxur niður að hnjám. Hann myndi næst eftir sér við höfuðlag brotaþola, sem legið hafi uppi í rúmi. Hann hafi beðið hana um að hafa við sig munnmök. Á sama tíma hafi meðákærði haft samræði við hana. Hún hafi veitt ákærða munnmök í stuttan tíma, en hann ekki fengið lim sinn til að rísa. Hann kvaðst hafa spurt hana að því hvort þetta væri í lagi og hún svarað því játandi. Hann hafi borið upp spurninguna þar sem aðstæður hafi verið asnalegar, líkt og í klámmynd. Það hafi verið undarlegt að þau væru í þessari stöðu. Eftir þetta hafi brotaþoli beðið ákærðu um að skipta þannig að ákærði hefði samfarir við hana en hún hefði munnmök við meðákærða. Hafi ákærði kropið milli fóta hennar en ekki náð að láta lim sinn rísa. Honum hafi því ekki tekist að hafa samræði við hana um leggöng. Meðákærði hafi á þeirri stundu verið við höfuð brotaþola. Er ákærði hafi horfið frá hafi hún snúið sér við og farið á fjóra fætur og beðið meðákærða að hafa við sig samræði þannig. Ákærði kveðst þá hafa farið út úr herberginu. Brotaþoli hafi ekki verið beitt neinu ofbeldi á meðan hann hafi verið inni í herberginu og á engan hátt verið haldið; hún hafi verið þátttakandi í athöfnum. Þá hafi honum ekki fundist sem hún væri með skerta rænu sökum áfengisáhrifa. Hann myndi ekki eftir neinum flengingum í herberginu þessa nótt né eftir því að hafa komið við brjóst brotaþola eða að hafa strokið henni. Eins kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa gefið meðákærða fyrirmæli í athöfnunum. Er ákærði hafi komið fram hafi hann farið inn í herbergi til bróður meðákærða, sem hafi verið sofandi. Bróðirinn hafi vaknað og sagt ákærða að fara. Hann hafi farið að svalahurð í stofu og farið að reykja. Meðákærði hafi komið til hans og sagt honum að brotaþoli hafi verið að tala við einhvern í síma og sagt að hún hefði verið beitt ofbeldi. Ákærði hafi ekki heyrt það símtal sjálfur. Brotaþoli hafi í því komið fram og farið inn á baðherbergi. Þeir hafi rætt saman um þetta og er hún kom fram aftur hafi ákærði spurt hana að því hvort hún sakaði þá um ofbeldi. Hún hafi ekki svarað því og þau hafi gengið út á svalir til meðákærða þar sem þau hafi öll verið að reykja. Ákærði hafi aftur spurt brotaþola að því hvað henni gengi til en hún hafi aldrei svarað honum beint, hvað það varðaði, hvort hún teldi sig hafa verið beitta ofbeldi. Ákærði kvaðst í framhaldi hafa hringt á lögregluna þar sem uppi hafi verið slíkar ásakanir á hendur þeim. Hann kvaðst hafa verið drukkinn þessa nótt. Enginn hafi hins vegar verið áberandi ölvaður og brotaþoli ekki ölvaðri en þeir. Ákærði kvaðst þá hafa ákveðið að taka upp á síma sinn samtöl þeirra við brotaþola um nóttina í þeim tilgangi að sýna fram á sönnur þess að það væri verið að bera þá röngum sökum. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hún hafi óskað eftir aðstoð við að komast í fötin sín. Síðar um nóttina hafi þrír menn komið til að sækja hana. Áður en þeir komu hafi andrúmsloftið verið rólegt, en samt smávægilegur ,,kýtingur“. Er mennirnir komu hafi brotaþoli orðið æst og reynt að sparka í ákærða og slá til hans. Eins hafi hún grátið. Mennirnir hafi þurft að halda aftur af henni. Hann kvaðst á þeim tímapunkti hafa farið út úr íbúðinni þar sem hann hafi ekki viljað nein slagsmál. Barnsfaðir hennar hafi verið þar úti. Ákærði hafi sagt honum að brotaþoli bæri ákærðu röngum sökum. Barnsfaðir brotaþola hafi sagt að lögregla myndi meta þetta. Er lögregla kom hafi ákærðu verið handteknir og færðir á lögreglustöð. Ákærði kvaðst við réttarlæknisfræðilega skoðun hafa greinst með áverka á hálsi, bringu og á höndum. Hafi áverkar á hálsi og bringu komið til vegna átaka hans og sonar hans skömmu áður, en þeir feðgar hafi verið í ,,gamnislag“. Áverkar á höndum væru eftir handjárn lögreglu. Ákærði kvaðst óljóst muna eftir samtali ákærðu á myndskeiði þar sem hann segir að þeir skuli hafa söguna þannig að ákærði Y hafi einn verið með brotaþola. Honum hafi ekki dottið í hug að gert yrði mál úr þessu og hreinlega ekki áttað sig á út í hvað þeir voru komnir. Næsta dag hafi hann áttað sig á alvarleika málsins. Hafi ákærði um nóttina hugsað sér að halda sig sem mest frá málinu.

                Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 27. apríl 2014. Við það tækifæri greindi hann meðal annars frá því að meðákærði og brotaþoli hafi verið í samförum í svefnherbergi íbúðarinnar. Hafi ákærði fíflast í kringum þau og meðal annars kysst brotaþola, flengt meðákærða á rassinn, klappað honum og klappað brotaþola. Hann hafi kannski klipið í brjóst brotaþola eða eitthvað svoleiðis. Hafi þeir margspurt hana hvort ekki væri allt í lagi og hún ávallt svarað því játandi. Hún hafi einnig sett lim ákærða upp í sig og beðið um það. Á meðan hafi meðákærði verið í samförum með henni. Hún hafi viljað að þeir skiptu um hlutverk. Hann hafi hins vegar ekki getað haft samræði við hana um leggöng þar sem honum hafi ekki risið hold. Hún hafi einungis legið á bakinu í rúminu í athöfnunum. 

                Brotaþoli hefur lýst atvikum þannig að hún hafi verið að skemmta sér á skemmtistaðnum [...] í Kópavogi aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014. Á staðnum hafi einnig verið fyrrum sambýlismaður hennar og tveir vinir hans. Brotaþoli hafi verið að dansa inni á staðnum en þar hafi meðal annars einnig verið að dansa ákærði, Y. Hún hafi veitt honum athygli þar sem hann hafi verið með hettu yfir höfuð sér. Hann hafi síðan horfið af dansgólfinu. Brotaþoli kveðst hafa náð í jakka sinn og veski þar sem hún hafi ætlað út að reykja. Hún hafi gripið þessa hluti og farið út. Ákærðu hafi verið fyrir utan staðinn. Þeir hafi sagt að þeir ætluðu að taka leigubíl og spurt brotaþola hvort hún vildi ekki koma með þeim. Hún hafi sagt já við því. Hún hafi verið mjög ölvuð en myndi þó eftir þessu. Hún hafi ekki verið með pening meðferðis og eftirá kvaðst hún telja að það hafi verið ástæðan fyrir því að hún hafi farið upp í leigubíl með ákærðu. Í hennar huga hafi það verið hugsunin að komast heim til sín. Hún sagðist lítið muna eftir ferðinni í leigubílnum. Hafi henni liðið eins og hún væri á leið heim til sín. Minni hennar hafi verið mjög gloppótt. Næst myndi hún eftir sér við tröppur í íbúð ákærðu. Þá myndi hún eftir því að hún hafi ætlað að reykja, en ekki eftir því hvort af því hefði orðið. Eins og áður sagði kvaðst brotaþoli muna atvik mjög gloppótt á þessum tíma. Hún myndi t.a.m. ekki eftir átökum við ákærðu. Þrátt fyrir það hafi hún greinst með mar og áverka á neyðarmóttöku næsta morgun, en áverka þessa hafi hún ekki verið með fyrir. Hún hafi sennilega verið ,,alveg úti“ vegna áfengisáhrifa en það væri mjög óvenjulegt hvað hana varðaði. Hafi ástæðan sennilega verið sú að brotaþoli hafi drukkið mikið áfengi á sama tíma og hún hafi tekið mjög sterk verkjalyf vegna bakverkja sem hafi hrjáð hana. Það næsta er brotaþoli myndi væri að sími hennar hafi hringt. Þá myndi brotaþoli eftir því að annar ákærðu, ákærði X, hafi meira stjórnað öllu. Hafi hann sagt meðákærða að gera hitt og þetta. Hann hafi sagt meðákærða að hann skyldi núna hafa samfarir við hana. Myndi hún eftir að ákærði hafi sagt eitthvað eins og hvort henni fyndist ekki gott að láta ákærða Inga Björn hafa við sig samfarir og einnig spurt hana hvort ekki væri allt í lagi. Hún hafi sagt nei við því. Brotaþoli kvaðst muna eftir því að á einhverjum tíma hafi ákærði X verið við höfuð hennar og reynt að setja getnaðarlim sinn upp í hana. Hafi hún velt höfði sínu undan. Ákærði hafi sagt að hann ætlaði að koma yfir höfuð brotaþola og hár. Eins myndi brotaþoli eftir því að ákærði X hafi haft samfarir við hana og einnig að ákærði Y hefði haft samfarir við hana. Næst myndi hún eftir því að hún hafi verið uppi í rúmi í svefnherberginu og ákærðu verið komnir fram. Hún hafi áttað sig á því að eitthvað mikið hafi gengið á. Hún hafi verið án klæða að neðan. Hún hafi verið í samfellu, sem búið hafi verið að setja upp á brjóst. Hún hafi reynt að klæða sig í nærbuxur en það ekki tekist. Hún hafi verið öll aum. Hún hafi viljað klæða sig en ekki getað það og hún hafi verið búin að missa þvag í rúmið. Hún kvaðst muna eftir að hafa verið í reimuðum stígvélum þessa nótt. Hún myndi hins vegar ekki eftir því hvernig hún hafi farið úr þeim. Hafi einhver verið búinn að eiga við reimarnar á stígvélunum; það hafi ekki þurft að gera þar sem stígvélin hafi verið með rennilás. Hún myndi eftir því að hafa svarað símanum, sem hafi hringt. Í símanum hafi verið B, fyrrum sambýlismaður hennar. Hún hafi reynt að koma B í skilning um að það væri ekki allt í lagi hjá sér. Hún hafi verið hrædd, verið í íbúð með tveimur mönnum sem hún hafi ekki þekkt. Að öðru leyti myndi hún ekki eftir því að hafa verið að tala í síma. Næst myndi hún eftir því að ákærði X hafi sagt að hann væri búinn að hringja á lögregluna. Hún hafi talið að í gangi væru áform um að ákærðu ætluðu að láta sig hverfa. Það eina sem brotaþoli hafi hugsað hafi verið að halda þeim á staðnum þar til lögregla eða vinir hennar kæmu. Hún hafi fundið fyrir auknum krafti, nokkurs konar adrenalínsáhrifum, sem leitt hafi til þess að henni hafi tekist að halda þeim báðum á staðnum. Á meðan á því stóð hafi hún verið með B í símanum. Hafi ákærði X reynt að fara, en honum ekki tekist það. Annar ákærðu hafi verið að stæra sig af því að hafa tekið eitthvað upp á síma og hótað að dreifa því. Hann hafi látið hana standa í þeirri trú að kynlífsathafnirnar hafi verið teknar upp. Hún hafi reiðst við þetta og reynt að ráðast á þá. B og vinir hans hafi síðan komið á staðinn og B spurt hvað væri í gangi. Ákærði X hafi sagt kynlíf. B hafi þá sagt að brotaþoli væri ekki í ástandi til að stunda kynlíf. Ákærði X hafi þá farið að tala um þetta myndband. Lögregla hafi mætt á staðinn síðar um nóttina. Í kjölfarið hafi brotaþoli verið flutt á neyðarmóttökuna. Hún kvaðst ekki sjálfviljug hafa tekið þátt í kynlífsathöfnum með ákærðu þessa nótt. Hún hafi verið það ölvuð að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum. Hún hafi allan tímann legið á bakinu og ekki getað spornað við neinu og ekki farið yfir á magann eða á fjóra fætur í rúminu. Hún kvaðst hafa upplifað mikla skömm eftir atburðinn og sótt tíma hjá sálfræðingi í 1 ár eftir atvikið. Líkamlega hafi hún átt við erfiðleika að etja eftir atvikið en hún hafi verið rúmliggjandi í 6 vikur, þar sem hún hafi glímt við mikinn sársauka í baki.

                B, fyrrum sambýlismaður brotaþola, kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum [...] umrædda nótt. Hann hafi ekki drukkið áfengi þessa nótt. Rétt um klukkan 4 um nóttina hafi brotaþoli komið til B og sótt jakka sinn og veski. Hún hafi ætlað út að reykja og þá hafi hún verið verulega ölvuð. Eftir um 15 mínútur hafi B verið farið að lengja eftir henni og farið út. Þá hafi brotaþoli verið farin. Hann hafi í framhaldi reynt að hringja í brotaþola því hún hafi ekki verið í því ástandi að geta farið ein heim, auk þess sem hún hafi ekki verið með neina fjármuni meðferðis til að greiða fyrir leigubíl. Hafi B verið hissa á því að hún hafi verið farin. B kvaðst hafi hringt og brotaþoli svarað símanum seint og um síðir. Hafi hann heyrt að eitthvað skrýtið var í gangi, en hún hafi ekki svarað spurningum hans beint heldur með skrýtnum hætti. B hafi fundist sem hún gæti ekki sagt í símann það sem hún vildi segja. Hann hafi fengið leiðbeiningar um hvernig hann ætti að komast til hennar og verið kominn þangað fljótlega eftir að hann náði sambandi við hana. Þá hafi um klukkustund verið liðin frá því brotaþoli hvarf. B hafi átt nokkur símtöl við hana á leiðinni til hennar. Hún hafi augljóslega verið í mikilli geðshræringu og mjög hrædd. Hafi virst eins og hún þyrði ekki að segja eins og var. Annar ákærðu hafi svarað í símann er B hafi fyrst náð í gegn og hafi honum fundist það skrýtið. B kvaðst hafa verið þeirrar skoðunar að hún hafi ekki verið í ástandi til að fara heim með einum eða neinum þessa nótt. Er B hafi komið á staðinn hafi brotaþoli verið fáklædd. Hún hafi ekki vitað hvar sokkabuxur sínar eða stígvél væru. Þessir  hlutir hafi fundist inn í svefnherbergi í íbúðinni og hafi B fundist merkilegt að rennilás á stígvélunum var uppi. Brotaþoli hafi brugðist þannig við að hún hafi orðið reið og skeytt skapi sínu á ákærðu. Hafi hún reynt að ráðast á þá og sparka í þá. B hafi spurt hvað væri í gangi og þeir sagt kynlíf. Hafi B spurt þá hvort þeir teldu að brotaþoli væri í ástandi til að stunda kynlíf. Þeir hafi verið að stæra sig af því að vera með upptökur. Ákærðu hafi sagt að þeir væru búnir að hringja í lögreglu. Það hafi B fundist einkennilegt. Hann hafi einnig ákveðið að hringja í lögregluna. Er lögregla kom á staðinn hafi hún skipt hópnum upp. Brotaþoli hafi verið flutt á neyðarmóttöku um nóttina. Hún hafi átt mjög erfitt fyrst eftir þennan atburð og verið hrædd við að fara út, sem ekki hafi verið henni líkt. Hún og B ættu tvö börn saman. Þau væru vinir og fengi B að gista á sófa í stofu hjá henni þegar hann væri í bænum. Ætlunin hafi verið að B og brotaþoli yrðu samferða heim til hennar þessa nótt.

                Tveir vinnufélagar B, er samferða voru honum þessa nótt, komu fyrir dóminn. Var framburður þeirra á þann veg að þeir hefðu hitt B á skemmtistaðnum [...] umrædda nótt. B hafi ekið bifreið og þeir fengið far með honum af staðnum um nóttina. Á leiðinni heim hafi B sagt að hann þyrfti að koma við í [...] og sækja brotaþola og þeir farið þangað. B hafi beðið félagana um að koma með sér inn þar sem það gæti orðið eitthvað vesen. Þeir hafi hitt fyrir tvo drengi og brotaþola sem hafi verið grátandi. Hafi virst sem brotaþoli og drengirnir væru að rífast. Drengirnir hafi verið rólegir. Fram hafi komið að þeir væru búnir að hringja á lögregluna. Stuttu síðar hafi lögregla komið á staðinn. Annar vinnufélaga B bar að ekki hafi neitt komið fram um meint atvik næturinnar. Hinn vinnufélaginn bar að brotaþoli hafi talað um að drengirnir hafi átt eitthvað við hana gegn vilja hennar. Brotaþoli hafi verið nokkuð ölvuð er þeir hafi komið á staðinn. Þeir hafi sennilega ekki rætt neitt við brotaþola á skemmtistaðnum [...] þessa nótt. 

                Fyrir dóminn kom leigubifreiðastjóri er ók ákærðu og brotaþola upp í [...] umrædda nótt. Kvaðst hann muna óljóst eftir ferðinni, en hann hafi ekið tveimur drengjum og einni stúlku á staðinn. Drengirnir hafi verið klúryrtir og ágengir á leiðinni en stúlkan svarað fyrir sig. Þau hafi öll verið drukkin en stúlkan mjög ölvuð. Hún hafi bullað talsvert. Í fyrstu hafi honum fundist þetta grunsamlegur túr, tveir grunsamlegir strákar og sjúskuð stelpa. Þegar hann hafi séð hvernig þeir létu þegar stúlkan hafi sagt að hún vildi heim hafi hann ekki séð neitt athugavert við þetta og ekki velt því meira fyrir sér.

                Bróðir ákærða Y kvaðst hafa verið sofandi heima í [...] þessa nótt. Hann hafi vaknað við umgang fyrir utan hurð herbergisins og heyrt bróður sinn ræða við einhvern frammi. Hann hafi sofnað aftur en vaknað á ný er ákærðu hafi komið inn í herbergi til hans til að fíflast. Hann hafi sofnað aftur en á ný vaknað við mikinn umgang. Hafi hann farið fram og þá hafi töluvert af fólki verið á staðnum. Hafi hann heyrt að lögregla væri á leiðinni.

                Læknir er framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærðu staðfesti að ákærði X hafi verið með nýlega áverka á hálsi og bringu við skoðun. Hafi þeir virst vera um sólahrings gamlir. Væri ekki útilokað að þeir væru eftir hálstak. Áverkar á úlnlið ákærða, sem og á ákærða Y, hafi getað verið eftir handjárn.

                Sálfræðingur er ritað hefur sálfræðivottorð vegna brotaþola greindi frá því að hún væri í eftirfylgni um þessar mundir, en það kæmi til vegna framvindu málsins. Hafi verið ákveðið að sálfræðingurinn hitti brotaþola á ný í apríl 2016 í viðtölum, en brotaþoli hafi fengið bakslag eftir að hafa náð töluverðum bata. Staða hennar væri ekki góð um þessar mundir. Hún hefði þó nýtt sér bjargráð sín. Væri brotaþoli orðin viðbrigðin en hún væri með alvarleg áfallastreitueinkenni. Brotaþoli ætti sér aðra og fyrri áfallasögu, sem hún hefði tekist á við áður en hún hafi lent í þeim áföllum sem mál þetta væri sprottið af. Hafi sálfræðingurinn ekki fundið fyrir áhrifum þessara fyrri áfalla í meðferðinni, þó svo alltaf væri sá möguleiki að fyrri áföll gætu gert síðari áföll erfiðari.

Læknir á neyðarmóttöku staðfesti réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola, en brotaþoli hafi komið á deildina kl. 6.50 að morgni sunnudagsins 27. apríl 2014. Fyrsta blóðsýni hafi verið tekið úr brotaþola kl. 7.00. Hafi læknirinn tekið niður í skýrsluna þá frásögn er brotaþoli hafi verið með. Hafi brotaþoli verið drukkin við komu á neyðarmóttöku. Hún hafi verið trúverðug í frásögn sinni og hafi áverkar er brotaþoli hafi greinst með samrýmst því að brotaþola hafi verið haldið niðri.  

Læknir er ritað hefur læknisvottorð vegna brotaþola greindi frá því að hún hafi orðið fyrir líkamsárás í lok árs 2013. Hafi hún komið á heilsugæslustöð vegna versnandi bakverkja. Hún hafi verið rúmliggjandi vegna brjóskloss og tekið verkjalyf vegna þess. Hafi læknirinn skoðað brotaþola 23. apríl 2014, en þá hafi hún verið búin að vera heima mjög slæm í baki. Hún hafi fengið ávísað sterkum verkjalyfjum eins og Parkodín Forte. Illa fari saman að drekka áfengi ofan í slík lyf. Geti það leitt til þess að viðkomandi verði mjög ,,dröggaður“.

Deildarstjóri á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði gerði grein niðurstöðum úr áfengismælingum úr blóði og þvagi brotaþola og ákærðu. Fram kom að styrkur áfengis í blóði og þvagi brotaþola hafi verið fallandi. Út frá endurteknum mælingum væri hægt að reikna styrk áfengis aftur í tíma. Í tilviki brotaþola mætti ganga út frá því að ef brotaþoli hafi hætt að drekka áfengi um kl. 4.00 aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014 mætti reikna brotthvarfshraða þannig út að styrkur áfengis um kl. 5 þessa nótt hafi verið um 2,3 o/oo alkóhóls. Magn alkóhóls væri skilgreint þannig að væri það á bilinu 2 – 2,5 o/oo væri viðkomandi talsvert ölvaður. Ef komið væri fram yfir það væri viðkomandi mikið ölvaður. Inntaka sterkra verkjalyfja gæti aukið áhrif áfengis þannig að viðkomandi yrði sljórri. Ekki væri hægt að reikna út með sama hætti áfengi í blóði ákærðu þar sem ekki hafi verið tekin tvö blóðsýni með ákveðnu millibili. Mælingar gæfu þó til kynna að ákærðu hafi verið undir vægum áhrifum áfengis.

Lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins komu fyrir dóminn og staðfestu þátt sinn í rannsókn þess. Fram kom hjá lögreglumönnum er komu á vettvang að brotaþoli hafi verið grátandi er lögreglu bar að garði. Hafi framburður brotaþola verið nokkuð skýr. Fram kom hjá rannsóknarlögreglumanni er kom á vettvang að armband er brotaþoli hafi lýst að hafi slitnað af henni á vettvangi hafi ekki fundist.

Niðurstaða:

                Ákærðu er gefið að sök kynferðisbrot gagnvart brotaþola framið aðfaranótt sunnudagsins 27. apríl 2014 á heimili ákærða Y að [...] í Reykjavík. Í ákæru er miðað við að ákærðu hafi gerst sekir um nauðgun með því að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola og að ákærðu hafi þvingað hana með ofbeldi inn í svefnherbergi íbúðarinnar og haldið henni niðri á meðan á kynferðismökum stóð, nýtt sér yfirburði sína vegna aðstöðu- og aflsmunar og notfært sér að brotaþoli gat ekki spornað við háttseminni sökum ölvunar. Er brot ákærðu talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærðu neita báðir sök. Hafa þeir lýst því að þeir hafi umrætt sinn báðir haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola, en það hafi verið með fullu samþykki brotaþola. Hafi hún verið þátttakandi í athöfnunum.

Til frásagnar um það sem gerðist umrætt sinn að [...] eru aðeins ákærðu og brotaþoli. Bróðir ákærða Y var í íbúðinni þessa nótt, lengst af sofandi og gat því aðeins borið um atvik eftir hið ætlaða kynferðisbrot ákærðu.

Við mat á sök ákærðu er til þess að líta að framburður þeirra hefur ekki verið á einn veg undir meðförum málsins. Að því er ákærða Inga Björn varðar er til þess að líta að framburður hans sætti veigamiklum breytingum frá því hann gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu allt þar til hann gaf skýrslu við meðferð málsins fyrir dóminum. Þannig greindi ákærði frá því í fyrstu skýrslutöku sinni að hann hafi einn haft samræði við brotaþola og hafi meðákærði ekki verið inni í herberginu á sama tíma. Breytti engu er lögregla bar undir ákærða að meðákærði bæri á þann veg að meðákærði hefði einnig haft samræði við brotaþola. Skýrsla þessi var tekin í beinu framhaldi af dvöl ákærða í fangageymslu þar sem hann var vistaður eftir handtöku. Er ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglu nokkrum mánuðum síðar kvaðst ákærði ekki viss um hvort meðákærði hafi verið inni í herberginu á þessum tíma. Kvað hann óminni þessu tengt reist á áfengisástandi sínu. Er ákærði kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins lýsti hann því hins vegar að meðákærði hafi allan tímann verið inni í herberginu og einnig haft samræði við brotaþola. Fyrir dómi skýrði ákærði þennan breytta framburð sinn þannig að hann hafi í upphafi viljað hlífa meðákærða sem væri fjölskyldumaður. Að því er skýringu ákærða á áfengisástandi sínu í síðari skýrslu varðar er til þess að líta að ákærði var undir vægum áfengisáhrifum er blóðsýni var tekið úr honum undir morgun þessa nótt. Mældust einungis 0,30 o/oo alkóhóls í þvagi og 0,39 o/oo blóði. Rýrir allt ofangreint trúverðugleika framburðar ákærða.  

Að því er ákærða X varðar er til þess að líta að ákærði greindi frá því í fyrstu yfirheyrslu lögreglu að hann hefði verið að fíflast í kringum meðákærða og brotaþola inni í herberginu. Hafi hann flengt meðákærða, auk þess sem hann hafi komið við brjóst brotaþola og strokið henni. Eins hafi hann gefið meðákærða fyrirmæli um kynlífsathafnirnar. Er ákærði gaf skýrslu fyrir dómi kvað hann ekkert af þessu eiga við rök að styðjast. Þá greindi hann frá því fyrir dómi að brotaþoli hafi snúið sér við í rúminu og farið á fjóra fætur. Hafi brotaþoli beðið ákærða um að hafa við sig samfarir í þeirri stöðu. Er ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu kvað hann brotaþola hafa legið á bakinu allan tímann. Allt framangreint rýrir trúverðugleika framburðar ákærða.

Þá er til þess að líta að ákærði X tók myndskeið upp á síma sinn þessa nótt. Í því fyrsta segir hann við meðákærða að brotaþoli muni ætla að kæra þá fyrir kynferðisbrot. Leggur hann til að ákærðu sammælist um framburð sinn á þann hátt að einungis ákærði Y hafi haft samræði við brotaþola þessa nótt. Engin ástæða var til þess að ákærðu sammæltust fyrirfram um framburð sinn hefðu þeir engu að leyna.  

Að því er brotaþola varðar er til þess að líta að hún hefur að mati dómsins verið trúverðug í framburði sínum undir meðförum málsins. Hefur hún bæði hjá lögreglu sem og fyrir dómi staðhæft að hún muni atvik mjög lítið sökum ölvunar. Mundi hún einungis brot úr atburðarásinni, allt frá því hún varð ákærðu samferða í leigubílnum frá skemmtistaðnum [...], allt þar til hún varð þess áskynja í [...] að ákærðu hefðu haft við hana samræði. Framburður brotaþola að þessu leyti hefur stoð í gögnum málsins. Þannig ber myndskeið úr myndavél úr leigubifreið sem ákærðu og brotaþoli fóru með þessa nótt þess skýr merki að brotaþoli var mjög ölvuð. Bera svör hennar og athugsemdir við spurningum ákærðu vitni um þetta, auk þess sem augljóst er að brotaþoli er við það að sofna í bifreiðinni. Leiddi það til þess að ákærðu spurðu hana ítrekað í bifreiðinni hvort hún væri nokkuð að sofna. Þá bera myndskeið úr síma ákærða X þess merki að brotaþoli var mjög ölvuð í [...]. Kemur fram að hún er illa áttuð og án nærfatnaðar og sokkabuxna, sem hún að eigin sögn gat ekki klætt sig í sökum ástands síns. Loks er til þess að líta að samkvæmt mælingu á alkóhóli í blóði og þvagi brotaþola hefur magn alkóhóls í henni á þessum tíma verið um 2,3 o/oo alkóhóls. Út frá því einu telst hún hafa verið talsvert ölvuð. Brotaþoli ber að hún hafi tekið sterk verkjalyf og drukkið áfengi ofan í þau. Heilsugæslulæknir hefur staðfest að brotaþoli hafi fengið ávísað sterkum verkjalyfjum skömmu áður, sem styður þann framburð brotaþola. Deildarstjóri á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hefur síðan stutt þann framburð heilsugæslulæknisins að þetta fari ekki vel saman og geti leitt til enn meiri sljóleika en ella.

Þegar allt ofangreint er virt telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi nýtt sér ölvunarástand brotaþola þessa nótt og haft við hana samræði og önnur kynferðismök. Brotaþoli hefur ekki getað lýst því hvort eða á hvern hátt ákærðu, annar eða báðir, hafi beitt hana líkamlegu ofbeldi við athafnirnar heldur dregið ályktanir af marblettum sem hún sannanlega bar. Fyrir dómi dró hún nokkuð úr framburði sínum hvað þetta atriði varðar. Þar sem þannig háttar til og í ljósi neitunar ákærðu verður ekki talið sannað að ákærðu hafi beitt brotaþola ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Ákærðu nýttu sér hins vegar yfirburði sína og notfærðu sér ástand brotaþola enda þótt þeim væri ljóst að brotaþoli gat ekki spornað við háttseminni sökum ölvunar. Í því felst ólögmæt nauðung og ofbeldi í víðtækri merkingu. Að því gættu verða ákærðu sakfelldir fyrir nauðgun samkvæmt 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.     

Ákærði Y er fæddur í [...] 1982 og ákærði X í [...] 1982. Sakaferill ákærðu hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Ákærðu hafa hér að framan verið sakfelldir fyrir nauðgun. Nýttu þeir sér ölvunarástand brotaþola og höfðu við hana samræði og önnur kynferðismök þar sem báðir tóku á sama tíma þátt í athöfnum en brotaþoli gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Eiga ákærðu sér engar málsbætur. Með hliðsjón af því, sbr. og 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr., og 2. mgr.,  70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærðu hvors um sig ákveðin fangelsi í 3 ár. Í ljósi alvarleika brotsins eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna, þó svo nokkuð sé um liðið síðan brotið átti sér stað.

               Brotaþoli krefst miskabóta úr hendi ákærða Y að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta og samsvarandi fjárhæðar úr hendi ákærða X. Til stuðnings miskabótakröfunni er vísað til þess að brot ákærðu hafi verið alvarleg og haft alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Brotaþoli hafi verið í meðferð vegna áfallastreituröskunar frá því brotið átti sér stað. Hún hafi einangrað sig félagslega og ekki getað sinnt aukastarfi þar sem hún hafi átt erfitt með að vera í kringum fólk, auk þess sem hún hafi átt erfitt með að treysta fólki. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Brot ákærðu hefur valdið brotaþola miska, svo sem sálfræðivottorð í gögnum málsins ber með sér. Á hún rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærðu á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykja þessar bætur hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur úr hendi hvors ákærðu um sig. Þá fjárhæð greiði ákærðu brotaþola, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 27. apríl 2014 til 4. desember 2014 að því er ákærða Y varðar, en til 13. desember 2014 að því er ákærða X varðar, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þessum dögum til greiðsludags. 

Ákærðu greiði sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærði, Y, sæti fangelsi í 3 ár.

                Ákærði, X , sæti fangelsi í 3 ár.

                Ákærði Y greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. apríl 2014 til 4. desember 2014, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. 

                Ákærði X greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 27. apríl 2014 til 13. desember 2014, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.     

                Ákærðu greiði sameiginlega 1.374.349 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns 757.020 krónur. Til viðbótar greiði ákærði Y málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 1.800.480 krónur og ákærði X málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Inga Ingvarssonar héraðsdómslögmanns, 2.088.780 krónur.