Hæstiréttur íslands
Mál nr. 677/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Verðbréfaviðskipti
- Neytendakaup
- Galli
- Tómlæti
|
|
Föstudaginn 30. nóvember 2012. |
|
Nr. 677/2012. |
Niels Kári Nielsen (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Hjördís E. Harðardóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Verðbréfaviðskipti. Neytendakaup. Galli. Tómlæti.
N lýsti skaðabótakröfu við slitameðferð K hf. sem slitastjórn K hf. hafnaði og var þeim ágreiningi vísað til úrlausnar héraðsdóms í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu hélt N því fram að hann hefði orðið fyrir tjóni er hann keypti skuldabréf í útibúi K hf. í Færeyjum árið 2007 og að hið meinta tjón mætti rekja til þess að starfsmenn K hf. hefðu með misvísandi og villandi upplýsingum, selt honum bréf útgefin af L en ekki K hf. Talið var að N hefði þegar í janúar 2008 fengið upplýsingar um að K hf. væri ekki útgefandi bréfanna en hann hafði hins vegar ekki lýsti kröfu sinni á hendur K hf. fyrr en tæpum tveimur árum síðar. Var þá löngu liðinn frestur sá sem N hafði samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003 til að tilkynna K hf. að hann hygðist bera það fyrir sig að hafa ekki fengið í hendur þau skuldabréf sem hann taldi sig hafa keypt. Vegna þessa tómlætis hafði hann glatað rétti sínum til að krefjast skaðabóta úr hendi K hf. og var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu N því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2012, þar sem hafnað var að viðurkenna nánar tilgreinda kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði krafa hans að fjárhæð 8.439.712 krónur, að frádregnum 290.156 krónum, viðurkennd sem almenn krafa. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins keypti sóknaraðili skuldabréf fyrir milligöngu útibús varnaraðila í Færeyjum 27. júní 2007 og var kaupverð þeirra 49.871,25 evrur, að meðtalinni söluþóknun. Kveðst sóknaraðili hafa talið að um væri að ræða skuldabréf, útgefin af varnaraðila. Í árslok 2007 seldi varnaraðili starfsemi sína í Færeyjum til Eik Banka P/F sem tók í kjölfarið við rekstri hans þar.
Sóknaraðili gaf aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi þar sem hann var spurður hvenær hann hafi fengið upplýsingar um að fyrrgreind skuldabréf væru ekki gefin út af varnaraðila, heldur Lehman Brothers Treasury Co. B.V. Sóknaraðili svaraði að hann hafi „í janúar“ fengið hringingu frá ráðgjafa sem áður starfaði í útibúi varnaraðila en hafði flust yfir til Eik Banka P/F. Hafi ráðgjafinn upplýst sóknaraðila um að verðbréfasjóður hans myndi flytjast yfir til bankans, „en hins vegar tæki þetta hálft ár þar sem sjóðurinn væri í Hollandi.“ Eftir um það bil hálft ár hafi hann séð „þessa afurð í heimabanka sínum og þá stóð þar Lehman Brothers“. Nánar tiltekið kvað sóknaraðili það hafa „verið í janúar 2008“ sem ráðgjafinn hafi haft samband. Aðspurður hvort sóknaraðili hafi séð um mitt ár 2008 í heimabanka sínum að bréfin væru „Lehman bréf“ svaraði hann: „Já það hlýtur að vera þetta var hálfu ári eftir að Eik banki keypti Kaupþing.“ Þá gaf fyrrum starfsmaður varnaraðila í Færeyjum skýrslu fyrir héraðsdómi sem vitni. Spurður hvenær viðskiptavinir varnaraðila, þar á meðal sóknaraðili, hafi fengið upplýsingar um hver væri raunverulegur útgefandi skuldabréfanna taldi hann að þeir „hafi væntanlega fengið bréf um þetta í janúar [2008], það voru sjö mánuðir frá því að þessi afurð var seld í Kaupþingi þar til að tilkynning barst viðskiptavinum í Eik banka.“ Samkvæmt framburði vitnisins, sem styðst að nokkru leyti við aðilaskýrslu sóknaraðila, verður að leggja til grundvallar við úrlausn þessa máls að hann hafi í janúar 2008 fengið upplýsingar um að varnaraðili væri ekki útgefandi bréfanna, heldur einhver annar, væntanlega þá þegar eða í síðasta lagi um mitt ár 2008 að það væri hollenskt félag, Lehman Brothers Treasury Co. B.V.
Sóknaraðili lýsti kröfu í þrotabú Lehman Brothers Holdings Inc. vegna áðurnefndra skuldabréfa, en að hans sögn ábyrgðist það félag kröfu hans á hendur Lehman Brothers Treasury Co. B.V. Hefur krafa sóknaraðila í þrotabú fyrrnefnda félagsins verið viðurkennd og þegar fengist greitt upp í hana. Er sú upphæð dregin frá kröfu sóknaraðila samkvæmt kröfugerð hans.
Sóknaraðili lýsti kröfu á hendur varnaraðila 18. desember 2009 um greiðslu á 49.871,25 evrum vegna skuldabréfanna, sem hann kvaðst hafa keypt í þeirri trú að þau væru gefin út af varnaraðila, en svo hefði ekki verið. Síðar breytti sóknaraðili kröfufjárhæðinni í 8.439.712 krónur í samræmi við 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Ekki verður séð af gögnum málsins að sóknaraðili hafi fyrr en í desember 2009 beint kröfu að varnaraðila vegna kaupa á skuldabréfunum. Þá bera gögnin heldur ekki með sér að sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðila með öðrum hætti að hann hygðist leita réttar síns gagnvart honum út af því að hann hefði fengið í hendur önnur skuldabréf en þau sem hann taldi sig hafa keypt fyrir milligöngu varnaraðila.
II
Sóknaraðili keypti áðurnefnd skuldabréf sem einstaklingur fyrir milligöngu útibús varnaraðila í Færeyjum. Hér var því um að ræða neytendakaup, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Í 1. mgr. 27. gr. þeirra laga segir að ef söluhlutur er gallaður beri neytanda að tilkynna seljanda um að hann muni bera gallann fyrir sig án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var. Frestur neytanda til að leggja fram kvörtun er aldrei styttri en tveir mánuðir frá því að hann varð galla var.
Sóknaraðili reisir kröfu sína á hendur varnaraðila á því að starfsmenn hans hafi sýnt af sér saknæma háttsemi „þegar þeir í orði kveðnu seldu sóknaraðila skuldabréf sem skyldu útgefin af Kaupþingi hf.“, en nýttu þess í stað fjármuni hans til kaupa á skuldabréfum, útgefnum af Lehman Brothers Treasury Co. B.V. Þar með beri varnaraðili skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann hafi orðið fyrir af þessum sökum.
Eins og rakið er í kafla I verður að líta svo á að sóknaraðili hafi þegar í janúar 2008 fengið upplýsingar um að varnaraðili væri ekki útgefandi skuldabréfanna, heldur einhver annar. Sem fyrr segir lýsti sóknaraðili ekki kröfu sinni á hendur varnaraðila fyrr en 18. desember 2009. Var þá löngu liðinn sá frestur er sóknaraðili hafði samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 48/2003 til að tilkynna varnaraðila að hann hygðist bera það fyrir sig að hafa ekki fengið í hendur þau bréf sem hann hafi talið sig hafa keypt. Vegna þessa tómlætis hefur sóknaraðili glatað rétti til að krefjast skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna kaupa á skuldabréfunum og ber þegar af þeirri ástæðu að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Niels Kári Nielsen, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. september sl., var þingfest 7. nóvember 2011.
Sóknaraðili er Niels Kári Nielsen, Undir Gráasteini 70, Þórshöfn, Færeyjum.
Varnaraðili er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að skaðabótakrafa hans að fjárhæð 8.439.712 kr. (EUR 49.871,25) ,,með kröfunúmerið 20091228-0872, verði viðurkennd og samþykkt efni sínu samkvæmt við slitameðferð Kaupþings hf., en kröfunni var lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fyrir slitastjórn varnaraðila með kröfulýsingu dags. 18.12.2009, allt að frádregnum kr. 290.156 krónum (USD 2.304,84) sem sóknaraðili fékk greiddar upp í kröfuna úr þrotabúi Lehman Brothers Holding Inc. þann 02.05.2012“.
Sóknaraðili féll frá varakröfu sem gerð hafði verið í greinargerð
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður milli aðila.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að meðtöldum virðisaukaskatti, eða samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik
Á árinu 2007 keypti sóknaraðili skuldabréf úr flokki sem nefndist ,,KB EUR Bankar 2010 11.07.2010/KB bankar 10“, í gegnum útibú varnaraðila í Færeyjum. Nafnverð bréfanna var 45.000 evrur á genginu 110 eða samtals 49.500 evrur. Varnaraðili seldi starfsemi sína í Færeyjum 31. desember 2007, Eik banka sem í kjölfarið tók yfir allan rekstur varnaraðila í Færeyjum.
Eftir að varnaraðili seldi útibú sitt í Færeyjum Eik banka upplýsti Eik banki sóknaraðila um að skuldabréfin væru í raun ekki Kaupþings bréf, heldur skuldabréf skráð sem ,,Sx7P/Lehman 10 emtn“ útgefin innan Lehman Brothers Group. Í framburði Reimund Langaard, fyrrum starfsmanns varnaraðila í Færeyjum, kom fram að hann teldi að þeir viðskiptavinir sem keypt hefðu þessi bréf, hefðu verið upplýstir um það í janúar 2008, að skuldabréfin væru bréf útgefin af Lehman Brothers. Sóknaraðili kvaðst hafa séð það í heimabanka sínum um mitt árið 2008, að um væri að ræða bréf frá Lehmhan Brothers, en ekki bréf útgefin af varnaraðila. Bú Lehman Brothers Treasury CO B.V, dótturfélags Lehman Brothers Holding Inc, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði ,,Amsterdam district court“ 8. október 2008 og lýsti sóknaraðili þeirri kröfu sinni sem mál þetta er sprottið af og var krafa hans samþykkt að fjárhæð 63.859,76 Bandaríkjadala. Fyrir liggur að honum var úthlutað upp í kröfu sína 2.304,84 Bandaríkjadölum 30. ágúst 2012.
Hinn 9. október 2008 sagði stjórn varnaraðila af sér og með vísan til ákvæða laga nr. 125/2008 skipaði Fjármálaeftirlitið bankanum skilanefnd. Skilanefnd tók strax við öllum heimildum stjórnar varnaraðila. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 samkvæmt heimild í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, en við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, þar á meðal um meðferð krafna og meðferð ágreiningsmála fyrir dómstólum
Fresti til að lýsa kröfum á hendur varnaraðila lauk 30. desember 2009, en sóknaraðili lýsti kröfu sinni 18. desember 2009. Með bréfi varnaraðila 2. júlí 2010 var kröfu sóknaraðila hafnað, þar sem varnaraðili taldi ekki sýnt fram á að um bótaskylt atvik hefði verið að ræða. Fundir til jöfnunar ágreinings voru haldnir 17. maí 2011, 23. júní 2011 og 28. september 2011. Þar sem ekki reyndist unnt að jafna ágreining um viðurkenningu kröfunnar á framangreindum fundum var ágreiningsefninu vísað til dómsins eftir ákvæðum 171. gr. laga nr. 21/1991.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur aðili málsins og vitnið Reimund Langaard.
Sóknaraðili kvaðst fyrir dómi vera varkár fjárfestir og kvað að hann hefði aldrei keypt skuldabréf útgefin af Lehman Brothers, ef honum hefðu staðið þau til boða. Hann taldi sig vera að fjárfesta í öruggum bréfum og taldi sig hafa keypt skuldabréf útgefin af varnaraðila. Hann kvaðst hafa fengið tilkynningu í heimabanka sinn um miðbik ársins 2008 frá Eik banka, þar sem fram kom að bréf þau sem hann keypti hafi verið bréf í Lehman Brothers Treasury.
Vitnið Reimund Langaard, fyrrum starfsmaður varnaraðila í Færeyjum, kvað að kynningarefnið, sem er að finna á dómskjali 23 hafi verið eina kynningarefnið á þeim fjárfestingarkosti sem sóknaraðili keypti og mál þetta er sprottið af. Hann kvaðst sjálfur hafa talið að sá hluti fjárfestingarinnar sem vera átti skuldabréf, væri fjárfesting í dönskum ríkisskuldabréfum og taldi öruggt að þeir Færeyingar sem keyptu bréfin á þeim tíma hafi einnig talið sig vera að kaup dönsk ríkisskuldabréf. Sú hefði hins vegar ekki verið raunin. Hann kvað að á þeim tíma er sóknaraðili keypti bréf sín hefði ástandið á Íslandi verið þannig að menn hefðu ekki þorað að kaupa skuldabréf útgefin af varnaraðila heldur hafi bankinn keypt bréf útgefin af Lehman Brothers. Þeir sem keyptu bréfin hefðu hins vegar ekki verið upplýstir um það fyrr en eftir að Eik banki í Færeyjum keypti útibú varnaraðila í Færeyjum. Viðskiptavinirnir hefðu því talið að þeir hefðu keypt dönsk ríkisskuldabréf, eða bréf útgefin af varnaraðila, þar sem í texta greiðslukvittunar stóð nafn varnaraðila, Kaupþing.
Ágreiningur málsins snýst um það hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila og ef svo er, hver sé fjárhæð þeirrar kröfu. Ágreiningslaust er að starfsmenn varnaraðila í Færeyjum fjárfestu í skuldabréfum útgefnum af Lehman Brothers Treasury fyrir sóknaraðila. Þá liggur jafnframt fyrir að þær glærur sem fyrir liggja í málinu í ljósriti, voru notaðar til kynningar á þessum fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini varnaraðila.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst hafa verið í þeirri góðu trú að hann hefði keypt Kaupþings skuldabréf og hafi sú vissa byggst á upplýsingum og kynningu sem starfsmenn varnaraðila hafi veitt. Varnaraðili hafi komið fram gagnvart hinum færeysku fjárfestum skilyrðislaust og án nokkurs fyrirvara, eins og bankinn væri útgefandi þeirra skuldabréfa sem seld hafi verið. Skaðabótakrafa sóknaraðila jafngildi upphaflegu kaupverði bréfanna í evrum, eða 49.871.25 evrum.
Sóknaraðili kveður að hann hafi verið blekktur í viðskiptum sínum við varnaraðila. Starfsmenn varnaraðila hafi mögulega talið að ekki skipti máli fyrir færeysku fjárfestana hvort skuldabréfin væru í raun útgefin af varnaraðila eða af Lehman Brothers Group, en það hafi verið alrangt. Sóknaraðili hefði aldrei sjálfviljugur keypt skuldabréf útgefin af Lehman Brothers Group. Fyrir liggi í skjölum málsins staðfesting frá varnaraðila á þeim viðskiptum sem fram hafi farið 27. júní 2007. Ekki verði lesið af skjalinu að um hafi verið að ræða viðskipti með skuldabréf, útgefin af Lehman Brothers Group. Þvert á móti beri skjalið öll merki þess að um hafi verið að ræða viðskipti með skuldabréf útgefin af varnaraðila. Í hópi færeysku fjárfestanna hafi verið sparisjóðir og opinberir sjóðir. Það hafi beinlínis verið í andstöðu við fjárfestingastefnu þessara aðila að fjárfesta í ótryggum bréfum eins og þeim sem útgefin hafi verið af Lehman Brothers Group, bandarískri bankasamsteypu.
Sú staðreynd að varnaraðili var með starfsemi í Færeyjum hafi skipt sóknaraðila verulegu máli, þegar ákvörðun var tekin um kaup á skuldabréfum sem ætlað var að varnaraðili hefði gefið út. Kaup á skuldabréfum útgefnum af bandarískri bankasamsteypu hafi verið sóknaraðila fjarlæg, enda hafi slíkt aldrei verið fært í tal. Sóknaraðili sé einstaklingur, með enga sérstaka þekkingu eða kunnáttu á sviði verðbréfaviðskipta. Því hafi sóknaraðili mátt treysta því að starfsmenn varnaraðila gerðu honum fullnægjandi grein fyrir því ef eitthvað annað lægi að baki skuldabréfaflokknum ,,KB EUR Bankar 2010 11.07.2010/KB bankar 10“, en skuldabréf útgefin af varnaraðila. Upplýsingar frá starfsmönnum varnaraðila hafi verið villandi og ekki borið það með sér að í raun væri um að ræða skuldabréf í flokki Sx7P/Lehman 10 emtn“ sem útgefin hafi verið af Lehman Brothers Group. Starfsmenn varnaraðila hafi þannig verið í yfirburðastöðu gagnvart sóknaraðila þegar viðskiptin hafi átt sér stað. Þeir hafi með einföldum hætti getað tryggt vitneskju sóknaraðila um hvaða skuldabréf var verið að selja, en hafi ekki gert það. Þess í stað hafi starfsmenn varnaraðila leynt mikilvægum staðreyndum fyrir sóknaraðila, í því skyni að fá hann til að kaupa skuldabréf sem þeir vissu, eða máttu vita að sóknaraðili sóttist ekki eftir. Misgjörðir starfsmanna varnaraðila hafi orðið til þess að sóknaraðili eigi nú ekki beina kröfu á varnaraðila á grundvelli Kaupþings skuldabréfa, heldur skaðabótakröfu. Háttsemin, þar sem villandi og misvísandi upplýsingum hafi verið haldið að sóknaraðila við sölu verðbréfa í Færeyjum sumarið 2007, kunni að leiða til tjóns, ef minna fáist upp í kröfu sóknaraðila vegna skuldabréfa, útgefnum af Lehman Brothers Group, en fengist ef hann ætti kröfu á varnaraðila eins og upphaflega hafi staðið til. Háttsemi starfsmanna varnaraðila hafi verið á ábyrgð varnaraðila og varði hann bótaskyldu, leiði háttsemin að endingu til tjóns fyrir sóknaraðila. Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi haldið því fram að sóknaraðili geti ekki sýnt fram á neitt tjón, þar sem hann eigi nú kröfu á hendur Lehman Brothers, í stað þess að eiga kröfu á varnaraðila. Báðir þessir aðilar undirgangist nú slitameðferð. Til að uppfylla tjónstakmörkunarskyldu sína, hafi sóknaraðili lýst kröfu í bú Lehman Brothers, en óvíst sé hversu mikið fáist greitt upp í kröfu sóknaraðila. Raunverulegt tjón sóknaraðila sé mismunur af því sem fáist upp í kröfu sóknaraðila frá búi Lehman Brothers og því sem sóknaraðili eigi rétt til upp í kröfu sína, væri um að ræða skuldabréf útgefin af varnaraðila.
Þær málsástæður varnaraðila að taka beri frá fé til að efna þær kröfur, sem óvissar eru, þegar lyktir máls liggi fyrir, sbr. 1. mgr. 156. gr., og 157. gr., sbr. og 1. mgr. 163. gr. sömu laga, eiga við um varakröfu sóknaraðila, sem hann hefur fallið frá.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili hefur fallið frá þeirri málsástæðu að hafna beri kröfum sóknaraðila á grundvelli aðildarskorts.
Varnaraðili kveður að hafna beri kröfu sóknaraðila þar sem skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum tjóni sem varnaraðili beri ábyrgð á.
Skaðabótakrafa sóknaraðila virðist byggja á því að sóknaraðili hafi verið blekktur í viðskiptum sínum við varnaraðila. Það sé þó ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti sóknaraðili hafi verið blekktur og hann leggi ekki fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni. Varnaraðili mótmælir því að starfsmenn hans hafi blekkt sóknaraðila til að kaupa skuldabréf útgefin af Lehman Brothers Treasury, undir því yfirskini að hann væri að kaupa skuldabréf, útgefin af varnaraðila. Fái varnaraðili ekki séð hvaða hag félagið ætti að hafa haft af því selja skuldabréf annarra banka undir ,,fölsku“ yfirskini. Þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að kaupnóta á dómskjali 10 beri þess merki að vera vegna skuldabréfs, útgefnu af varnaraðila, er mótmælt. Á þessu dómskjali komi fram með skýrum hætti ISIN númer bréfsins, sem sé auðkenni skuldabréfsins. Auðkennisnúmer skuldabréfsins staðfesti að það sé gefið út af Lehman Brothers Treasury í Hollandi og hafi sóknaraðili getað kynnt sér þá staðreynd, t.d. með því að fletta ISIN númerinu upp í leitarvél á netinu. Heitið KB EUR Bankar vísi ekki til þess að um sé að ræða Kaupþings skuldabréf, heldur snúi það að heiti bréfsins í kerfum varnaraðila. Það sé því ljóst að umrætt dómskjal beri ekki augsýnilega með sér að vera vegna Kaupþings skuldabréfs og sé heldur ekki villandi á neinn hátt, enda sé skilmerkilega kveðið á um ISIN númer á skjalinu. Því er mótmælt að varnaraðili hafi vafið skuldabréfum, útgefnum af Lehman Brothers, inn í skuldabréfaflokk varnaraðila.
Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að skuldabréfaflokkurinn hafi verið gefinn út af Lehman Brothers Group án þess að tilgreint væri nákvæmlega hvaða félag innan Lehman samstæðunnar hafi gefið út skuldabréfaflokkinn. Skuldabréfin hafi ekki verið gefin út af hinu bandaríska móðurfélagi, Lehman Brothers Holdings Inc., heldur af sjálfstæðu, hollensku dótturfélagi, Lehman Brothers Treasury. Það félag hafi verið sett í gjaldþrotameðferð samkvæmt úrskurði héraðsdóms í Amsterdam, 8. október 2008. Rétt sé þó að geta þess að Lehman Brothers Holding hafi borið ábyrgð á skuldbindingum hins hollenska dótturfélags og því eigi kröfuhafar skuldabréfaflokksins bæði kröfu á Lehman Brothers Treasury og Lehman Brothers Holding.
Þá kröfu verði að gera til sóknaraðila að hann hafi kynnt sér sjálfstætt umræddan fjárfestingarkost og vegið hann og metið. Hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að kynna sér útgáfulýsingu skuldabréfaflokksins og leita sér ráðgjafar vegna fjárfestingarinnar, ef hann teldi þörf á. Hefði sóknaraðila þá verið ljóst frá upphafi hver útgefandi skuldabréfanna var, og hvaða skilmálar gilt hafi um útgáfuna. Geti sóknaraðili ekki varpað allri ábyrgðinni af kaupunum á varnaraðila, enda hafi sóknaraðili mátt vita að í fjárfestingu í skuldabréfum felist nokkur áhætta. Liggi ekki annað fyrir í málinu en að sóknaraðili hafi tekið upplýsta ákvörðun um að fjárfesta í viðkomandi skuldabréfaflokki.
Þá verði að horfa til þess að sóknaraðili hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að fjárfesta í skuldabréfum sem varnaraðili hafi selt og geti hann ekki átt kröfu á hendur varnaraðila sökum þess að útgefandi skuldabréfsins hafi verið annar en sóknaraðili hafi talið hann vera. Verði að gera þá eðlilegu kröfu til sóknaraðila, sem fjárfestis, að hann kynni sér sjálfstætt þá fjárfestingarkosti sem honum standi til boða og taki upplýsta ákvörðun í framhaldinu. Eigi það sérstaklega við, ef sóknaraðli hafi verið með fyrirfram mótaða stefnu eða forsendur í fjárfestingum sínum. Þá er á það bent að mynt skuldabréfs hafi ekkert með það gera hver útgefandi þess sé. Í þessu sambandi megi geta þess að varnaraðili hafi gefið út skuldabréf í mismunandi mynt, t.a.m. í evrum, svissneskum frönkum, jenum, bandarískum og kanadískum dollurum og pundum. Því sé fráleitt að sóknaraðili hafi talið sig vera að kaupa skuldabréf af varnaraðila, sökum þess að mynt skuldabréfsins hafi verið í evrum. Þegar allt framangreint er virt, telji varnaraðili ljóst að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt, þar sem varnaraðili hafi ekki sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi og þá hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á tjón sem leiða eigi af slíkri háttsemi.
Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sem ósannaðri að forsenda fyrir kaupum hans væri að útgefandi skuldabréfanna væri með starfsemi í Færeyjum. Ekkert liggi fyrir um þessa meintu forsendu sóknaraðila við kaupin á skuldabréfunum, eða að varnaraðila hafi átt að vera kunnugt um hana. Ætla verði að kjörin á skuldabréfunum í samanburði við aðra fjárfestingarkosti hafi ráðið mestu um það að sóknaraðili hafi ákveðið að fjárfesta í þeim.
Í greinargerð varnaraðila er byggt á því að málatilbúnaður sóknaraðila í máli þessu sé verulega vanreifaður. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn um kynningu starfsmanna varnaraðila á fjárfestingarkostum. Ekki komi fram hvenær kynning hafi átt sér stað, hver hafi staðið að kynningu eða hvort um eitt skipti eða ítrekuð samskipti aðila hafi verið að ræða. Þetta grundvallaratriði í málatilbúnaði sóknaraðila sé svo vanreifað að varnaraðili eigi örðugt með að halda uppi fullnægjandi vörnum hvað þetta varði. Þá kveður varnaraðili að málið sé að öðru leyti vanreifað af hálfu sóknaraðila, þar sem hið meinta tjón sé hvorki nægjanlega afmarkað né hin meinta bótaskylda háttsemi og orsakatengsl milli hennar og tjónsins. Útreikningur tjóns sóknaraðila liggi ekki fyrir.
Kröfu sóknaraðila sé lýst sem almennri kröfu, en hvergi sé að því vikið að krafan sé bundin skilyrðum. Þá hafi sóknaraðili ekki borið fyrir sig að krafan væri skilyrt á þeim þremur ágreiningsfundum sem haldnir hafi verið um kröfuna. Það sé fyrst í greinargerð sóknaraðila sem hann haldi því fram að krafan sé skilyrt og háð því hver afdrif kröfu hans í bú Lehman Brothers verði.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að kröfu sóknaraðila um skaðabætur vegna meints tjóns sem sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir, er hann keypti verðbréf í útibúi varnaraðila í Færeyjum árið 2007. Hið meinta tjón kveður sóknaraðili að sé að rekja til þess að starfsmenn varnaraðila hafi, með misvísandi og villandi upplýsingum, selt sér bréf útgefin af bandarísku bankasamsteypunni, Lehman Brothers Holding Inc., í Bandaríkjunum, en ekki verðbréf, útgefin af varnaraðila sem sóknaraðili hafi talið að hann hefði keypt.
Gögn, sem ekki lágu frammi, er greinargerðir aðila voru lagðar fram, hafa nú verið lögð fram, en greinargerð varnaraðila er því marki brennd, að gögn þessi lágu ekki fyrir við skil greinargerðar hans. Meðal annars er ljósrit af glærum til kynningar á þeim fjárfestingarkosti sem sóknaraðili keypti umrætt sinn. Þá hafa nú verið lögð fram gögn um samþykkt kröfu sóknaraðila í bú Lehman Brothers Treasury, hollensks dótturfélags Lehman Brothers Holding Inc., og innborgun inn á kröfu hans. Skuldabréf þau sem um ræðir í máli þessu njóta ábyrgðar af hálfu Lehman Brothers Holding Inc.
Í kaupnótu bréfa þeirra sem sóknaraðili keypti umrætt sinn kemur fram að hann hafi keypt ,,KB EUR Bankar 2010 11.07.2010, KB bank 10“ með ISIN kóða XS0309103546. Sóknaraðili kvaðst fyrir dómi ekki hafa slegið inn svokölluðum ISIN kóða, til þess að sannreyna að hann hefði keypt bréf útgefin af varnaraðila, en hann kvaðst hafa staðið í þeirri trú að hann hefði keypt slík skuldabréf.
Fyrir dómi kvað vitnið Reimund Langaard, fyrrverandi starfsmaður í útibúi varnaraðila í Færeyjum, að þeir sem keyptu bréf, samsvarandi bréfum sóknaraðila, hefðu ekki fengið vitneskju um að þeir hefðu í raun keypt bréf útgefin af Lehman Brothers Treasury, fyrr en eftir að Eik banki í Færeyjum hafði yfirtekið starfsemi varnaraðila í Færeyjum.
Ef skoðað er það efni sem notað var til kynningar á umræddum fjárfestingarkosti kemur í ljós að ekkert í því efni gefur tilefni til að ætla að fyrirhugað sé að kaupa bréf útgefin af hollensku dótturfélagi bandaríska bankans Lehman Brothers Holdings Inc., þ.e Lehman Brothers Treasury. Þá gefur kaupnóta sú sem sóknaraðili fékk í hendur við kaupin ekki tilefni til að ætla að hann hafi keypt bréf í þeim banka, jafnvel þótt unnt hafi verið að staðreyna svokallaðan ISIN kóða og komast þannig að því að keypt höfðu verið bréf, útgefin af Lehman Brothers Treasury. Sóknaraðili hefur sjálfur sagt að það hafi ekki verið vilji hans, sem varkárs fjárfestis að kaupa önnur skuldabréf en bréf þau sem getið sé um í kynningarefni bankans á þessum fjárfestingarkosti og liggur frammi í málinu. Hins vegar er ekkert annað fram komið um þann vilja sóknaraðila. Þá ber og að líta til þess að sóknaraðili fékk vitneskju um að hann hefði keypt bréf í Lehman Brothers Treasury, með tilkynningu Eik banka þar um til hans, um miðbik ársins 2008. Gat þá sóknaraðili takmarkað það tjón sem hann taldi sig hafa orðið fyrir, með því að selja umrædd bréf, en það gerði hann ekki.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að starfsmenn varnaraðila í Færeyjum hafi valdið sér tjóni sem varnaraðili beri skaðabótaábyrgð á, með því að selja honum önnur skuldabréf en þau sem kynnt voru fyrir honum sem öruggur fjárfestingarkostur. Krafa hans er byggð á reglu íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna. Í henni felst að vinnuveitandi beri ábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur með saknæmum og ólögmætum hætti. Frumskilyrði þess að á skaðabótaskyldu verði fallist, er að tjón hafi orðið og að tjónið og umfang þess teljist sannað, en markmið skaðabóta er að gera tjónþola eins fjárhagslega settan og tjónið hefði ekki orðið.
Í máli þessu er fram komið að sóknaraðili lýsti kröfu í bú Lehman Brothers Treasury og að krafa hans var samþykkt. Hann hefur þegar fengið greidda fyrstu úthlutun upp í þá kröfu. Þá liggur fyrir í gögnum málsins á dómskjali 19, hvert verðmæti krafna á hendur þrotabúi Lehman Brothers Treasury er og upplýsingar er benda til þess að aukin viðskipti verði með skuldabréf á hendur því félagi, þar sem óvissa um endanlegt endurheimtuvirði þeirra sé nú minni en áður.
Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því hvert tjón hans er, en eins og fyrr greinir er krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, skaðabótakrafa að ákveðinni fjárhæð, að frádregnu því sem hann hefur þegar fengið greitt úr búi Lehman Brothers Treasury. Með öllu er óljóst hversu hátt hlutfall kröfu hans í bú Lehman Brothers Treasury verður greitt út til hans og því er óljóst hvert endanlegt umfang tjóns hans verður, eða hvort hann verði fyrir nokkru tjóni vegna þeirrar háttsemi starfsmanna varnaraðila að selja honum skuldabréf útgefin af Lehman Brothers Treasury.
Þegar af þessari ástæðu verður kröfu sóknaraðila hafnað og breytir því engu í því sambandi hvort starfsmenn varnaraðila hafi við sölu á umræddum bréfum til sóknaraðila sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, með villandi eða misvísandi upplýsingum um það hver væri raunverlegur útgefandi bréfa þeirra sem sóknaraðili keypti.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jóhannes Albert Sævarsson hæstaréttarlögmaður.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Þröstur Ríkharðsson héraðsdómslögmaður.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, Niels Kára Nielsen, sem lýst var við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings hf., að höfuðstólsfjárhæð 8.439.712 krónur er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.