Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 26. mars 2002. |
|
Nr. 148/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík |
|
|
(Egill Stephensen saksóknari) |
|
|
gegn |
|
|
X |
|
|
(enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hæstarétti hefur ekki borist greinargerð frá varnaraðila. Verður að ætla að hann kæri til að fá úrskurð héraðsdómara felldan úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2002.
Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. apríl 2002, kl. 16.00
[ . . . ]
Lögreglan kveður að verið sé að rannsaka ætluð brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsisrefsingu ef sannist. Rannsókn málsins sé skammt á veg komin og ef kærði gengi nú laus gæti hann torveldað mjög þá rannsóknarvinnu sem enn er ólokið.
Lögregla styður kröfuna við heimild í a-lið 1. mgr. 103.gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
Lögreglan reisir kröfu sína um gæsluvarðhald kærða á því að hann eigi aðild að innflutningi á því mikla magni fíkniefna sem lagt hefur verið hald á. Kærði neitar allri aðild sinni að þessum innflutningi. Rannsóknargögn málsins, sem lögð hafa verið fyrir dóminn og samskipti kærða við Y sem nú sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins, þykja renna stoðum undir grun um aðild kærða að þeim innflutningi.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ætla verður að kærði geti torveldað rannsókn þess ef hann gengur laus. Með vísan til þess og rannsóknargagna málsins er fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald kærða samkvæmt a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt. Krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi verður tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni vera til að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. apríl nk. kl. 16.00