Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-11

Jóhann Þorvarðarson (Stefán Geir Þórisson lögmaður)
gegn
F.S. Torgi ehf. (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignasala
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Með beiðni 3. janúar 2020 leitar Jóhann Þorvarðarson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. desember 2019 í málinu nr. 125/2019: Jóhann Þorvarðarson gegn F.S. Torgi ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. F.S. Torg ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu söluþóknunar og greiðslu skaðabóta vegna starfa starfsmanns gagnaðila sem falið var að selja fasteign í eigu foreldra hans að Austurgerði í Reykjavík. Bróðir leyfisbeiðanda ritaði undir kaupsamning vegna sölunnar 21. janúar 2014 samkvæmt umboði, þar sem fasteignin var seld á 61.000.000 krónur. Söluverðið féll leyfisbeiðanda og þremur systkinum hans í arf við skipti á dánarbúi foreldra þeirra. Leyfisbeiðandi byggir á því að fasteignin hafi verið seld undir markaðsverði vegna ófullnægjandi vinnubragða gagnaðila. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda. Undir rekstri málsins fyrir Landsrétti aflaði leyfisbeiðandi matsgerðar þar sem fram kom að í janúar 2014 hefði markaðsvirði fasteignarinnar verið 72.900.000 krónur og hæfilegt söluverð hennar því vanmetið um 13.000.000 króna.

Landsréttur staðfesti fyrrgreinda niðurstöðu héraðsdóms en taldi þó að vinnubrögð gagnaðila við verðmat á fasteigninni hefðu ekki fullnægt þeim kröfum sem gera hafi mátt til hans og að hæfilegt söluverð hefði verið vanmetið. Var einkum vísað til þess af hálfu leyfisbeiðanda að sá starfsmaður gagnaðila sem skoðaði eignina hafi á þeim tíma ekki verið löggiltur fasteignasali. Þessi málsástæða var talin komast að í málinu þar sem leyfisbeiðandi hefði fyrst fengið vitneskju um þetta eftir að dómur gekk í héraði. Hins vegar var talið að sönnun lægi ekki fyrir um að leyfisbeiðandi hefði orðið fyrir tjóni sem rekja mætti til saknæmrar háttsemi starfsmanna gagnaðila. Vísað var til þess að fasteignin hefði frá ársbyrjun 2013 fram í september sama ár verið auglýst til sölu hjá annarri fasteignasölu á 72.000.000 króna en hefði smám saman lækkað í 67.000.000 króna, án þess að tilboð bærist í eignina. Var því talið liggja fyrir að ekki hefði reynst unnt að selja eignina á verði sem væri sambærilegt því sem matsmaður lagði til grundvallar í matsgerð sinni. Söluverð fasteignarinnar hefði falið í sér óverulegt frávik frá því verði sem sannanlega hefði verið reynt að selja hana á án árangurs, auk þess sem seljendur eignarinnar hefðu verið grandsamir um að verðmæti hennar kynni að vera umtalsvert hærra en verðmat gagnaðila gaf til kynna. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði þar sem hann taldi gagnaðila bera skaðabótaábyrgð og að bætur skyldu ákvarðaðar að álitum 2.000.000 króna.

Leyfisbeiðandi byggir á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um ábyrgð fasteignasala. Þá byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til meðal annars um mat á meintri grandsemi seljenda um að verðmat gagnaðila kynni að vera rangt og afleiðingar þess. Enn fremur hafi verið litið framhjá gildi upplýsinga á þeim tíma við verðlagningu fasteigna og þeirrar staðreyndar að sérbýli höfðu hækkað í verði milli árshelminga umrætt ár. Af þessum sökum hafi Landsréttur ranglega metið áhrif fyrra söluferlis í málinu. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að fyrrnefnt sératkvæði sé í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar um réttarstöðu tjónþola vegna ólögmætrar háttsemi sérfræðinga í störfum sínum. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.

            Eins og hér hagar til og að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, né að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá eru ekki efni til að beita heimild 4. málsliðar sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.