Hæstiréttur íslands
Mál nr. 273/2013
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Miski
- Varanleg örorka
- Matsgerð
- Fyrirvari
- Vextir
- Fyrning
Skaðabætur. Líkamstjón. Miski. Varanleg örorka. Matsgerð. Fyrirvari. Vextir. Fyrning.
A höfðaði mál gegn V hf. vegna tjóns sem hann varð fyrir í bifhjólaslysi. Ekki var deilt um bótaskyldu V hf. og hafði félagið greitt A bætur sem hann hafði tekið á móti með fyrirvara. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skýra yrði fyrirvarann til samræmis við efni bréfs A til V hf. þar sem krafist hafði verið bóta meðal annars með fyrirvara um að A teldi miskastig of lágt metið í álitsgerð örorkunefndar og að hann hygðist láta dómkveðja matsmenn til að láta meta það. Var því ekki talið að móttaka A á greiðslum frá V hf. síðar og orðalag fyrirvara, sem A hafði þá gert, kæmi í veg fyrir að hann gæti látið reyna á mat á miska fyrir dómi. Fyrir lágu tvær álitsgerðir örorkunefndar um varanlegan miska og varanlega örorku A og matsgerð dómkvaddra matsmanna um sömu atriði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það væri hlutverk dómstóla á grundvelli mats á gildi þessara sönnunargagna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að skera úr ágreiningi aðila um varanlegan miska og varanlega örorku A vegna slyssins. Þótti matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna ítarlegar rökstudd en síðari álitsgerð örorkunefndar og var matsgerðin því lögð til grundvallar. Greiðsla V hf. á skaðabótum til A þótti ekki fela í sér viðurkenningu á kröfu um vexti á bótakröfuna þannig að greiðslan hefði rofið fyrningu vaxtakröfunnar, en skýrt hafði komið fram hjá V hf. að félagið liti á greiðslu hvers bótaþáttar sem endanlega af sinni hálfu. Var því talið að hluti kröfu um vexti væri fyrndur. Í samræmi við þetta var fallist á hluta krafna A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2013. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 26.660.737 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. febrúar 2012 til greiðsludags, til vara 25.427.198 krónur með dráttarvöxtum frá 1. júlí 2011 til greiðsludags, en að því frágengnu 17.063.065 krónur með dráttarvöxtum frá 2. febrúar 2012 til greiðsludags, allt að frádregnum 17.053.922 krónum sem stefndi innti af hendi 30. maí 2013. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að hann verði dæmdur til að greiða áfrýjanda 436.625 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. mars 2012 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram lagði örorkunefnd tvívegis mat á varanlegan miska og varanlega örorku áfrýjanda vegna slyssins sem hann varð fyrir 3. júlí 2006. Í fyrri álitsgerð nefndarinnar 26. janúar 2010 komst hún að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski áfrýjanda væri 60 stig og varanleg örorka hans 50%. Í síðari álitsgerð örorkunefndar 25. maí 2011 vísaði hún til fyrri álitsgerðar sinnar og til greinargerðar B, sérfræðings í heila- og taugafræðum, frá 15. nóvember 2010, en hann hafi álitið varanlegan miska áfrýjanda þar vanmetinn. Í þessari síðari álitsgerð taldi nefndin þó ekki ástæðu til að breyta fyrri niðurstöðu sinni um miska, en í niðurlagi álitsgerðarinnar var komist svo að orði: „Tjónþoli var 22 ára á slysdegi. Tjónþoli lauk ekki grunnskóla en fór eftir námið að vinna líkamlega erfið störf. Tjónþoli hefur ekki unnið launuð störf eftir slysið. Tjónþoli er í tölvunarfræðinámi og reiknar með að ljúka því námi eftir eitt ár. Örorkunefnd telur tjónþola ekki vera færan um að ganga til líkamlegra erfiðra starfa og að það sé fyrirséð að hann geti ekki unnið við það sem hann er að læra til. Örorkunefnd telur þannig að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið hjá tjónþola vegna afleiðinga slyssins frá því örorkunefnd sagði álit sitt á því með álitsgerðinni þann 26. janúar 2010.“ Í framhaldi af þessum rökstuðningi taldi nefndin að varanleg örorka áfrýjanda vegna afleiðinga slyssins væri 75%.
Að beiðni áfrýjanda voru dómkvaddir tveir sérfróðir menn til að leggja mat á varanlegan miska og varanlega örorku hans. Í matsgerð þeirra 14. desember 2011 var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski áfrýjanda teldist hæfilega metinn 65 stig og varanleg örorka 65%. Sú niðurstaða var ítarlega rökstudd í matsgerðinni, þar á meðal voru þar rakin þau margvíslegu heilsufarsvandamál sem áfrýjandi byggi við vegna slyssins. Tekið var fram að við mat á varanlegum miska af þess völdum hafi verið höfð hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar og þætti miskinn hæfilega metinn 65 stig með því að leggja saman stig vegna þeirra mörgu áverka sem áfrýjandi hafi orðið fyrir. Álitu matsmenn að tjón vegna slyssins væri ekki með þeim hætti að það ylli sérstökum erfiðleikum í lífi áfrýjanda sem ástæða væri til að meta til miska umfram þann miska sem metinn væri samkvæmt fyrrgreindri miskatöflu. Í matsgerðinni sagði síðan: „Við mat á varanlegri örorku samkvæmt skaðabótalögum ber að meta hver sé hin varanlega skerðing á getu tjónþola til tekjuöflunar vegna afleiðinga slyssins. Umrætt mat fer eftir fjárhagslegum mælikvarða. Við það ber að líta til þeirrar andlegu og líkamlegu færnisskerðingar sem viðkomandi hefur hlotið í kjölfar slyssins og síðan til þeirra kosta sem tjónþoli er talinn hafa til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann vinni við. Þó verður að gera þá kröfu til tjónþola að hann takmarki tjón sitt eins og kostur er ... Við umrætt mat er litið til aðstæðna tjónþola og afleiðinga slyssins. [Áfrýjandi] er 28 ára gamall, nemandi í tölvunarfræði, en fyrir slys það sem hér er til skoðunar ... hafði hann starfað sem ófaglærður […] ... og einnig eitthvað gripið í akstur. [Áfrýjandi] var ómenntaður, en hafði þó tekið meira próf bílstjóra árið 2002. Ljóst er að við slysið ... má segja að fyrri tilvera hans hafi gjörsamlega hrunið. Matsmenn hafa metið varanlegan miska vegna slyssins til 65 stiga ... Matsmenn telja einnig augljóst að afleiðingar slyssins muni hafa mikil áhrif á möguleika [áfrýjanda] til að afla sér vinnutekna í framtíðinni og varanleg örorka því veruleg. Þó svo að honum hafi orðið vel ágengt í námi því er hann hefur lagt stund á frá 2008 í tölvunarfræði og þar hilli undir námslok, má sömuleiðis ljóst vera að hvernig matsbeiðanda muni farnast á vinnumarkaði takist honum að ljúka náminu er hins vegar algerlega óskrifað blað og ljóst að þar kann að vera við ramman reip að draga og mörgum spurningum ósvarað hvað það varðar. Allur vafi í þeim efnum hlýtur að metast matsbeiðanda í hag ...“ Að öllum gögnum virtum og að teknu tilliti til aldurs áfrýjanda, eðli áverkanna sem hann hafi hlotið, menntunar hans, starfsreynslu og skyldu til að takmarka tjón sitt töldu matsmenn að þegar eingöngu væri litið til slyssins hafi áfrýjandi orðið fyrir skerðingu á getu til að afla tekna og að varanleg örorka hans teldist hæfilega metin 65%.
II
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms ákvað stefndi að una niðurstöðu hans. Í samræmi við það innti stefndi 30. maí 2013 af hendi til áfrýjanda greiðslu á hinni dæmdu fjárhæð, að meðtöldum málskostnaði, samtals 17.053.922 krónur. Í tölvubréfi lögmanns áfrýjanda til stefnda sagði að greiðslan væri ófullnægjandi og tekið væri við henni með „öllum fyrirvörum ... þ.m.t. vaxtaútreikningi.“
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt nýtt skjal sem er bréf til stefnda 12. febrúar 2012 þar sem lögmaður áfrýjanda krafði stefnda um skaðabætur vegna áðurgreinds slyss. Í bréfinu sagði meðal annars: „Við bótunum verður tekið með fyrirvara þar sem umbj.m. telur miskastig og varanlega örorku of lágt metna í álitsgerð Örorkunefndar og hyggst láta dómkveðja matsmenn til þess að meta miskastig, varanlega örorku o.fl.“ Þegar stefndi greiddi áfrýjanda bætur 28. maí 2010 var ritaður fyrirvari á kvittun fyrir móttöku á bótum vegna þjáninga, varanlegs miska og varanlegrar örorku, auk þess sem handskrifað var fyrir ofan undirritun lögmanns áfrýjanda á þá kvittun að tekið væri við bótunum með fyrirvara eins og nánar er rakið í héraðsdómi.
III
Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu, að teknu tilliti til þeirra gagna sem lögð höfðu verið fram í héraði, að ekki yrði fallist á með áfrýjanda að ofangreindur fyrirvari á kvittun fyrir móttöku á skaðabótum hefði náð til greiðslu vegna varanlegs miska og því hefði hann tekið fyrirvaralaust við þeim bótum. Sé hins vegar litið til bréfsins, sem stefnda var sent 12. febrúar 2010 og gerð hefur verið grein fyrir að framan, verður að skýra fyrirvarann sem gerður var af hálfu áfrýjanda við móttöku bóta rúmum þremur mánuðum síðar til samræmis við efni þess bréfs. Þar var meðal annars tekið fram að við bótunum yrði tekið með fyrirvara þar sem áfrýjandi teldi miskastig of lágt metið í álitsgerð örorkunefndar og hygðist láta dómkveðja matsmenn til þess að meta það. Af þeim sökum verður litið svo á að áfrýjandi hafi tekið við bótum vegna varanlegs miska með fyrirvara á sama hátt og bótum vegna varanlegrar örorku.
Eins og áður greinir mat örorkunefnd það svo í síðari álitsgerð sinni 25. maí 2011 að varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins 3. júlí 2006 væri 60 stig og varanleg örorka hans 75%. Mat hinna dómkvöddu manna var á hinn bóginn að varanlegur miski væri 65 stig og varanleg örorka 65%. Það er hlutverk dómstóla á grundvelli mats á gildi þessara sönnunargagna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að skera úr ágreiningi aðila um þessi tvö atriði. Er fallist á með héraðsdómi að niðurstaða hinna dómkvöddu manna um varanlega örorku áfrýjanda sé mun ítarlegar rökstudd í matsgerð þeirra en mat örorkunefndar í síðari álitsgerð sinni. Sama máli gegnir um niðurstöðuna um varanlegan miska áfrýjanda. Samkvæmt því verður matsgerðin lögð til grundvallar að því er bæði þessi atriði varðar þannig að varanlegur miski áfrýjanda af völdum slyssins telst vera 65 stig og varanleg örorka hans 65%.
Staðfest er sú afstaða héraðsdóms að greiðsla stefnda á skaðabótum til áfrýjanda hafi ekki falið sér viðurkenningu á kröfu um vexti á bótakröfu hans þannig að greiðslan hafi rofið fyrningu vaxtakröfunnar, en skýrt kom fram hjá stefnda að hann liti á greiðslu hvers bótaþáttar 28. maí 2010 sem endanlega af sinni hálfu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. mars 2011 í máli nr. 341/2010. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að vextir sem bótakrafan bar til 7. febrúar 2008 séu fyrndir. Sömuleiðis að dráttarvextir af kröfunni skuli reiknaðir frá 7. mars 2012, en þá var mánuður liðinn frá því að fullmótuð krafa áfrýjanda, sem meðal annars er reist á fyrrnefndri matsgerð dómkvaddra manna, var kynnt stefnda með birtingu héraðsdómsstefnu.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir er fallist á varakröfu stefnda, sem miðast við hækkun varanlegs miska áfrýjanda úr 60 stigum í 65 stig, þó með þeirri breytingu að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ber að greiða 4,5% ársvexti af bótafjárhæðinni frá 7. febrúar 2008 til 7. mars 2012.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. Þá verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, A, 436.625 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. febrúar 2008 til 7. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Stefndi greiði áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.