Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2000
Lykilorð
- Manndráp
- Þjófnaður
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 18. maí 2000. |
|
Nr. 45/2000. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Þórhalli Ölver Gunnlaugssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Manndráp. Þjófnaður. Reynslulausn.
Þ var ákærður fyrir manndráp og þjófnað með því að hafa veist að A á heimili hans og banað honum með því að stinga hann með hnífi eða hnífum mörgum sinnum í brjósthol, bæði framan og aftan frá og hafa síðan slegið eign sinni á skartgripi sem geymdir voru á heimili A. Fyrir dómi neitaði Þ því að hafa banað A, en hann hafði margsinnis viðurkennt verknaðinn fyrir lögreglu. Fallist var á það með héraðsdómi að Þ hefði ekki gefið trúverðuga eða haldbæra skýringu á því, hvers vegna hann breytti framburði sínum fyrir dómi. Var niðurstaða héraðsdóms um að Þ hefði orðið A að bana staðfest. Verknaður ákærða var talinn ásetningsbrot og heimfærður til 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þ viðurkenndi þjófnað af heimili A og var það brot ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti að því er varðaði sakfellingu. Þ var talinn sakhæfur. Samkvæmt 17. gr. almennra hegningarlaga var það ekki talið hafa áhrif á ákvörðun refsingar að verknaðurinn var framinn undir áhrifum fíkniefna. Var Þ dæmdur í fangelsi í 16 ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. febrúar 2000 að ósk ákærða. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu og þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af 1. tölulið ákæru og að refsing verði milduð.
I.
Krafa ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi er á því byggð að rannsókn þess hafi ekki verið með þeim hætti að unnt hafi verið að gefa út ákæru á grundvelli hennar. Í þessu sambandi er í fyrsta lagi á það bent að ákærði hafi óskað eftir því á rannsóknarstigi málsins að fá að gefa nýja skýrslu. Hafi hann viljað lýsa sig saklausan af því að hafa af gáleysi orðið Agnari Wilhelm Agnarssyni að bana. Lögregla og ákæruvald hafi hafnað þessari ósk hans. Hafi það verið í andstöðu við ótvíræðan rétt sakbornings til þess að mega tjá sig um sakarefnið hjá lögreglu á öllum stigum rannsóknar, sbr. til dæmis 3. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999.
Áðurgreindri ósk ákærða var komið á framfæri í bréfi verjanda til lögreglustjórans í Reykjavík 25. október 1999. Var ósk ákærða hafnað með vísan til þess að málið væri komið úr höndum lögreglunnar og til ríkissaksóknara. Fram kom þó að lögreglustjóraembættið hafði eftir að málið var sent ríkissaksóknara aflað nokkurra viðbótargagna að ósk hans. Verjandi ákærða mun hafa ítrekað beiðnina um skýrslutöku með bréfi til ríkissaksóknara 1. nóvember 1999 án árangurs. Var því borið við að málið hefði verið sent til dómsmeðferðar sama dag. Með hliðsjón af 3. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 hefði verið réttara að verða við ósk ákærða og taka skýrslu af honum. Fyrirfram varð ekki fullyrt að skýrslutakan væri þýðingarlaus og gæti ekki leitt til frekari rannsóknar. Ákærði kom hins vegar fyrir dóm við þingfestingu og dró framburð sinn fyrir lögreglu til baka að hluta. Var dómur lagður á málið í því horfi. Verður ekki séð að réttarspjöll hafi af því hlotist að ekki var orðið við ósk hans.
Í öðru lagi heldur ákærði því fram að nauðsynlegt hafi verið að lögregla rannsakaði til hlítar tímasetningar, sérstaklega með tilliti til framburðar Ívars Arnar Sigþórssonar hjá lögreglu um það hvenær hann heyrði skarkala frá íbúð Agnars Wilhelms. Ekki verður annað séð en lögreglan hafi rannsakað allar tímasetningar eftir því sem tök voru á og verður ekki að því fundið að ekki varð komist lengra með þá rannsókn.
Loks telur ákærði að vettvangsrannsókn hafi ekki verið eins ítarleg og nauðsynlegt var. Vettvangsrannsókn fór fram og getur að líta afrakstur hennar og annarra rannsókna í málinu. Skorti eitthvað á þessar rannsóknir verður ekki séð að þar verði unnin bót á úr þessu. Verði hins vegar eitthvað að þeim fundið hlýtur það að skýrast ákærða í hag, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991.
Þegar framanrituð atriði eru virt þykja ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi. Aftur á móti koma ábendingar ákærða til skoðunar við efnisúrlausn málsins.
II.
Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Kemur þar fram að ákærði er borinn sökum um að hafa veist að Agnari Wilhelm á heimili hans að Leifsgötu 28, Reykjavík, aðfaranótt 14. júlí 1999 og banað honum með því að stinga hann hnífi eða hnífum mörgum sinnum í brjósthol, bæði framan og aftan frá. Hann hafi síðan slegið eign sinni á skartgripi sem geymdir voru í svefnherbergi Agnars Wilhelms. Ákærði ber við sakleysi sínu og hefur dregið til baka framburð sinn um átök milli sín og Agnars Wilhelms. Blóð sem var á fötum hans er lögregla stöðvaði hann um nóttina sé tilkomið við það að hann hafi runnið til í blóði Agnars Wilhelms og fallið ofan á hann þegar hann hafi komið að honum látnum.
Vitnið Ívar Örn taldi sig hafa heyrt hávaða frá íbúð Agnars Wilhelms um eittleytið aðfaranótt 14. júlí 1999, en hann bjó í íbúðinni fyrir ofan ásamt foreldrum sínum, vitnunum Bryndísi Gyðu Jónsdóttur og Sigþóri Guðjónssyni. Hann leit ekki á klukku en kvaðst hafa hækkað í útvarpinu og farið að sofa og ekki orðið var við frekari hávaða. Í héraðsdómi segir að hann hafi virst í miklum vafa um tímasetningar. Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála verður því mati ekki haggað. Bryndís Gyða og Sigþór vöknuðu við óvenjumikla háreysti frá íbúð Agnars Wilhelms. Telja þau að það hafi verið skömmu fyrir kl. 02.00 þessa nótt og fær það stuðning af framburði vitnisins Sigurðar J. Jónssonar sem bjó í íbúð á jarðhæðinni. Skömmu eftir að hávaðanum linnti heyrðu Bryndís Gyða og Sigþór að hurð var skellt og gengið niður stigann. Kvaðst Bryndís Gyða hafa farið fram í eldhús og litið út um gluggann og þá séð mann fara frá húsinu. Svarar lýsing hennar á manni þessum í meginatriðum til ákærða. Steig maðurinn upp í bifreið sem samkvæmt lýsingu hennar gat verið sú sama og ákærði var á. Var henni lagt þar sem hann kveðst hafa lagt þeirri bifreið. Sigþór hefur borið að hann hafi þá litið á klukku og hafi hún sýnt 02.03. Við rannsókn lögreglu taldi Bryndís Gyða sig hafa staðreynt að klukkan hefði verið fjórum mínútum of fljót.
Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa komið að Leifsgötu 28 um kl. 01.20. Fyrir lögreglu sagði hann þetta hafa verið milli 01.00 og 01.30. Samkvæmt skrá yfir hringingar úr síma Agnars Wilhelms þessa nótt var hringt í síma, sem vitnið Guðmundur Böðvarsson notaði, kl. 01.28.32 og síma vitnisins Þórðar Sigurjónssonar kl. 01.34.02. Ákærði kveðst hafa hringt í þessa síma eftir að hann hefði komið að Agnari Wilhelm látnum. Hann segist ekki hafa náð sambandi við Guðmund en skellt hafi verið á hjá Þórði. Samkvæmt lögregluskýrslu stöðvaði lögregla ákærða við hús nr. 80 við Skúlagötu kl. 02.01. Var hann þá alblóðugur. Kvaðst hann fyrir dómi hafa verið að koma beint frá Leifsgötu 28.
III.
Af ummerkjum á vettvangi má ráða að mikið hefur gengið á í stofu Agnars Wilhelms þegar honum var ráðinn bani og óhjákvæmilegt að þeir sem dvöldust í næstu íbúðum yrðu hávaða varir. Þótt ekki verði fullyrt með nákvæmni hvenær vitnin heyrðu þennan skarkala má með fullri vissu ganga út frá því að Bryndís og Sigþór hafi orðið þess vör þegar ákærði fór frá Leifsgötu 28 rétt um kl. 02.00. Þau hafa borið að það hafi verið skömmu eftir að þau hrukku upp við hávaðann. Íbúar hússins og önnur vitni hafa borið að útidyrahurð hafi alltaf verið læst. Styður þetta það að Agnar Wilhelm hafi opnað fyrir ákærða. Framburður ákærða fyrir dómi um að útidyr hafi verið opnar stangast að þessu leyti á við framburð annarra. Áfrýjandi viðurkenndi margsinnis fyrir lögreglu að hann hefði banað Agnari Wilhelm og hafði hann fyrir aðalmeðferð málsins staðfest skýrslu þess efnis fyrir dómi. Skýrslur annarra sem höfðu samband við ákærða eftir atburðinn og meðan málið var til rannsóknar styðja þá frásögn. Verður að fallast á það með héraðsdómi að ákærði hafi ekki gefið trúverðuga eða haldbæra skýringu á því, hvers vegna hann breytti framburði sínum fyrir dómi. Af því sem að framan er rakið og annars með skírskotun til héraðsdóms ber að staðfesta niðurstöðu hans um að ákærði hafi orðið Agnari Wilhelm að bana.
Þegar gögn málsins eru virt verður að leggja það til grundvallar dómi að ákærða og Agnari Wilhelm hafi orðið sundurorða og til átaka hafi komið á milli þeirra, en þeir voru báðir undir áhrifum fíkniefna. Þegar ummerki á vettvangi eru skoðuð og áverkar þeir sem voru á líki Agnars Wilhelms og hins vegar lítilfjörlegir áverkar á ákærða þykir sannað að hann hafi veist að Agnari Wilhelm á þann hátt sem í ákæru er lýst. Var aðförin hrottaleg og hlaut að leiða til dauða Agnars Wilhelms. Þessi verknaður ákærða þykir því réttilega heimfærður í héraðsdómi til 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur viðurkennt verknað samkvæmt 2. ákærulið eins og honum er þar lýst og er hann ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti að því er varðar sakfellingu.
Staðfesta ber úrlausn héraðsdóms um sakhæfi ákærða. Af læknisfræðilegum gögnum málsins má ráða að fíkniefnaneysla ákærða, samverkandi með persónuleikaröskun, sem leitt hafi af langvarandi neyslu róandi lyfja og örvandi efna, geti verið ein helsta skýring verknaðar hans. Fíkniefnaneyslan kann jafnframt að vera skýring þess að hann virtist að sögn rannsóknarlögreglunnar ekki geta gert grein fyrir átökum sínum við Agnar Wilhelm í einstökum atriðum. Samkvæmt 17. gr. almennra hegningarlaga á það ekki að hafa áhrif á refsingu ákærða að verknaðurinn var framinn undir áhrifum fíkniefna.
Ákvæði héraðsdóms um refsiákvörðun og sakarkostnað er staðfest með skírskotun til forsendna hans.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar er ákveðið í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Þórhallur Ölver Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 16 ár en til frádráttar komi óslitin gæsluvarðhaldsvist hans frá og með 18. júlí 1999.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2000.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 1. nóvember 1999 á hendur Þórhalli Ölver Gunnlaugssyni, kennitala 210458-3529, Laugavegi 145, Reykjavík, „fyrir manndráp og þjófnað aðfaranótt 14. júlí 1999 eins og hér greinir:
1. Fyrir manndráp með því að hafa veist að Agnari Wilhelm Agnarssyni fæddum
10. september 1951 á heimili hans að Leifsgötu 28, Reykjavík, og banað honum
með því að stinga hann hnífi eða hnífum mörgum sinnum í brjósthol, bæði
framan og aftan frá.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
2. Fyrir þjófnað með því að hafa, strax eftir að hann banaði Agnari Wilhelm
Agnarssyni, slegið eign sinni á skartgripi sem geymdir voru í svefnherbergi
Agnars Wilhelms að Leifsgötu 28, Reykjavík. Áætlað útsöluverð skartgripanna
er kr. 285.000.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Ákærði hefur játað þjófnað sem honum er gefinn að sök í 2. tölulið ákærunnar.
Ákærði krefst sýknu af 1. tölulið ákærunnar og að hann hljóti að öðru leyti vægustu refsingu sem lög leyfa vegna 2. töluliðar. Þá er þess krafist að gæsluvarðhald ákærða frá 18. júlí 1999 komi til frádráttar refsingu. Að lokum er þess krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þ.m.t. málsvarnarlaun.
Málavextir.
Miðvikudaginn 14. júlí 1999, kl. 02.01, stöðvuðu tveir lögreglumenn á eftirlitsferð akstur ákærða við Skúlagötu 80 í Reykjavík. Höfðu þeir veitt bifreiðinni, sem var grá Renault með skráningarnúmer VI-536, athygli þar sem henni var ekið austur Hverfisgötu og beygt til vinstri inn á Snorrabraut. Þegar farið var að ræða við ökumann, sem var ákærði í máli þessu, reyndist hann meira og minna ataður blóði, þ.e. á höndum, í andliti, á höfði, á fótum og skóm. Töldu lögreglumenn sig þegar geta séð að blóðið væri ekki úr ákærða þar sem hann var án sýnilegra áverka. Aðspurður hverju þessi útgangur sætti upplýsti ákærði að hann hefði lent í átökum við fjóra menn og gaf hann á þeim óljósa lýsingu. Kvað hann tvo þeirra hafa hlotið áverka og væri blóðið þannig til komið. Í ljós kom að ákærði var allur þurr, að undanskildu því blóði sem hann var útataður í, og þá voru föt hans óskemmd að öðru leyti. Vöknuðu því þegar grunsemdir lögreglu um að ekki væri allt með felldu. Lögregla skoðaði því vettvang þar sem meint árás hefði átt sér stað og nærliggjandi götur. Þá var farið yfir eftirlitsmyndavél fyrir svæðið en sú athugun veitti engar vísbendingar um að þessi skýring ákærða væri trúverðug. Enn fremur spurðist lögreglan fyrir á sjúkrahúsum, á leigubílastöðvum og hjá nánustu ættingjum ákærða í þeim tilgangi að finna fórnarlamb sem gerði frásögn ákærða trúverðuga en án árangurs. Ákærði var handtekinn um kl. 02.32 og honum kynnt réttarstaða sakbornings. Þá var að hans ósk haft samband við Hilmar Ingimundarson hrl. sem kom á lögreglustöðina þá um nóttina.
Í fórum ákærða við handtöku voru m.a. erlendir seðlar, gamlir íslenskir peningar, eyrnalokkur og hálsmen sem ákærði kvað allt í sinni eigu. Leit var gerð í bifreið ákærða og fannst ekkert við leitina. Rannsóknarlögreglumaður tæknideildar tók ljósmyndir af fatnaði ákærða og sýni voru tekin af því blóði sem var á líkama hans og á fötum. Þá voru föt ákærða tekin til frekari rannsóknar hjá lögreglu. Ákærði var því næst færður á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar sem vakthafandi læknir tók úr honum blóð- og þvagsýni auk þess sem læknisskoðun fór fram. Í niðurstöðu vottorðs læknisins segir að áverkar ákærða teljist „fremur yfirborðslegir og einkum skrámur á höndum, aðeins eymsli í vöðvum í mjóbaki hægra megin, sem mætti telja merki um tognun og hugsanlega sprungu í fimmta rifi hægra megin. Þó að grunur vakni um mögulegt rifbrot ”.
Ákærði var síðar vistaður í fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar máls. Þar skoðaði Lúðvík Ólafsson héraðslæknir hann með tilliti til áverka vegna hugsanlegra slagsmála. Í vottorði læknisins segir að engin merki finnist um staði sem hefði getað blætt úr. Síðan segir: „Finn mar á höfði hæ. megin á kvið, hæ. úlnlið og vi. lófa. Veruleg eymsli í vi. hluta brjóstkassa, gæti verið með sprungu í rifi og skýri það út fyrir honum en tel ekki ástæðu til frekari rannsókna.” Næsta dag, þ.e. þann 14. júlí sl, var ákærði yfirheyrður á lögreglustöðinni og honum síðan sleppt enda höfðu athuganir lögreglu engu skilað og ekki þótti stætt á að hafa ákærða lengur í haldi.
Fimmtudaginn 15. júlí kl. 12.27 tilkynnti Sigþór Guðjónsson, Leifsgötu 28, Reykjavík, til lögreglu að hann hefði áhyggjur af íbúa á næstu hæð fyrir neðan, en Sigþór býr þar ásamt konu sinni, Bryndísi Gyðu Jónsdóttur, og tveimur börnum. Kvað hann þau hjónin hafa vaknað upp við mikinn hávaða frá íbúðinni aðfaranótt 14. júlí, um kl. 02.00, en síðan þá ekki heyrt hljóð. Lögreglan fór á staðinn og hafði tal af þeim og kvað Bryndís hávaðann hafa staðið yfir í 15 mínútur og hún síðan séð mann hlaupa út og aka á brott í grárri bifreið. Gaf hún þá lýsingu á manninum, samkvæmt skýrslu lögreglu, að hann hafi verið frekar lágvaxinn og sköllóttur og henni hafi fundist sem föt hans hefðu verið mikið blóðug, sérstaklega buxurnar. Þau hjónin hefðu bankað ítrekað á dyrnar hjá nágrannanum, en enginn svarað og síminn verið á tali. Þegar lögreglumenn fóru inn í íbúðina var hurðin ekki lokuð að stöfum, þar sem dyramotta var á milli. Á ganginum var símtólið ekki á símanum, en á stofugólfinu lá maður með stóran búrhníf í brjóstinu og var hann greinilega látinn. Maður þessi reyndist vera Agnar Wilhelm Agnarsson, eigandi íbúðarinnar.
Samkvæmt sérstakri skýrslu Kristjáns Inga Kristjánssonar rannsóknarlögreglumanns, sem kom á vettvang um kl. 13.10 sama dag, voru á brjósti Agnars og höndum nokkur stungusár og stór búrhnífur á kafi í brjósti hans en við hliðina á Agnari var beyglaður, blóðugur eldhúshnífur. Undir líkinu var allstór blóðpollur. Átök hefðu greinilega átt sér stað í stofunni. Enn einn blóðugur eldhúshnífur lá við vinstri fót hans og var hnífsblaðið bogið við skaftið. Einn hnífur var á gólfi í eldhúsi, en sá hnífur var einnig blóðugur og hnífsblaðið bogið. Sjónvarp var í gangi í stofunni og sími lá á hliðinni á gangi íbúðarinnar. Í skýrslunni kemur fram að ákærði sé grunaður um verknaðinn en Kristján Ingi var einn þeirra lögreglumanna sem höfðu afskipti af ákærða sem áður hefur verið lýst. Þá þegar var héraðslæknir kvaddur til en hann ákvað að hreyfa ekki við líkinu fyrr en vettvangsrannsókn væri lokið. Í kjölfar þess hófst ítarleg rannsókn tæknideildar lögreglunnar á vettvangi.
Rannsóknastofu í réttarlæknisfræði var þann sama dag fengið blóðsýni til rannsóknar úr hinum látna sem og ákærða. Samkvæmt niðurstöðu Gunnlaugs Geirssonar prófessors, dags. 20. júlí 1999, reyndist blóð, er fannst á treyju og gallabuxum ákærða, vera úr hinum látna. Í skýrslunni kemur fram að rannsóknin hafi verið afar ítarleg og ekki ástæða til að efa, að blóðið sem fannst á fatnaði ákærða sé úr hinum látna.
Leit hófst þegar þann 15. júlí að ákærða og kom fljótlega í ljós að hann hafði farið til Kaupmannahafnar að kvöldi miðvikudagsins 14. júlí undir fölsku nafni. Föstudaginn 16. júlí sl. var gefin út handtökuskipun á ákærða og í kjölfar þess var send beiðni um framsal á honum þar sem til hans næðist og var sérstaklega óskað aðstoðar Interpol í því sambandi og lögreglunnar í Danmörku. Að morgni 18. júlí sl. var ákærði handtekinn af dönsku lögreglunni í Kaupmannahöfn og úrskurðaður samdægurs í 5 daga gæsluvarðhald. Lögreglan í Reykjavík sótti síðan ákærða til Kaupmannahafnar þann 19. júlí sl. og færði til Íslands.
Lík hins látna var krufið á Rannsóknastofu Háskólans hinn 16. júlí sl. og annaðist dr. Gunnlaugur Geirsson, prófessor í réttarlæknisfræði við Háskóla Íslands hana. Í skýrslu hans um krufningu segir m.a. á þessa leið: „Líkið er af grannholda manni, hæð 180 cm. Svo sem að ofan getur er maðurinn klæddur rauðleitri munstraðri milliskyrtu, sem er alblóðug og sjást á henni stungugöt auk þess sem eldhúshnífur stendur út úr brjóstvegg mannsins framanverðum og hefur farið í gegnum skyrtuna (sjá ella lýsingu lögreglunnar á stunguförum í fatnaði). Hann er í gráleitum brúnteinóttum buxum með brúnu belti, sem einnig eru mjög blóðugar mest ofantil og framan til en einna minnst á leggjum en engin merki eru um stungur eða aðra áverka á þeim. Á fótum eru svartir sokkar og er nokkuð blóð á iljum þeirra, sem hefur storknað og límst við gólfið Áverkar á líkinu eru mestmegnis stunguáverkar en aðeins örlar fyrir marblettum á og í kringum hægri olnboga, á kinnbeini báðum megin og nefi, þar sem er vægur roði. Ella eru áverkar á líkinu allir þess eðlis að hafa komið við það að eggvopni var beitt gegn manninum ... Sýnt þykir að mikið blóð hafi runnið frá honum í gegnum hin miklu sár á brjóstvegg. Þegar inn er komið sjást mikil ummerki eftir stungurnar (sjá lýsingu á miðmæti, hjarta og lungum) en í brjóstholinu sér að eggvopn hefur gengið í gegnum brjóstvegginn á sjö stöðum framanvert, ein stunga frá hægri síðu og ein frá vinstri síðu og tvær aftanfrá. Stungurnar hafa gengið inn í lungun og líffæri miðmætisins.”
Í niðurstöðu krufningsskýrslunnar segir svo:
„Krufningin leiddi í ljós að manninum hefur verið ráðinn bani með því að stinga hann fjölmörgum sinnum í brjóstholið, bæði framan og aftan frá. Eldhúshnífur með 20 cm löngu blaði var skilinn eftir í stungusári á miðjum brjóstkassa mannsins framanverðum. Samtals gengu 11 stungur á hol, þ.e. inn í brjóstholið en fjölmargar aðrar stungur gengu inn í mjúkvefi eða særðu hörundið. Alvarlegustu stungurnar voru þær, sem ollu rifu á hjarta og báðum meginslagæðum hjartans (lungnaslagæð og ósæð) með miklum blæðingum. Rann blóð úr manninum gegnum sárin svo sem sást á vettvangi. Auk þess, sem bæði hjarta og æðar voru löskuð og höfðu bæði lungun fallið saman. Hafa stungurnar í miðlínu, sem gengu í hjartað og æðarnar valdið dauða, en hver sem er af hinum djúpu stungum, sem gengu í gegnum brjóstvegginn og inn í lungu hefðu getað valdið blæðingum og loftbrjósti og þar með dauða. Varnarsár voru í vinstri greip mannsins, svo sem hann hefði gripið með þeirri hendi um hníf, svo og voru stungusár á vinstri handlegg en flest sár voru á brjóstveggnum framanverðum í nánd við miðlínu og á baki einnig nálægt miðlínu. Sár á höfði var framan við hægra eyra. Sennilega hefur sár á hálsi undir kjálkabarði verið veitt eftir að maðurinn var látinn. Engir áverkar voru á kvið, kynfærum, ganglimum eða hægri armi. Af áverkum á líkinu verður ekki séð hvort fleiri en einn maður var að verki eða hvort aðrir hnífar en sá sem var í líkinu voru notaðir, en ætla má að þeir mundu vera svipaðir að stærð. Ekki verður fullyrt um það í hvaða röð sárin voru veitt eða hvernig staða hins látna hefur verið gagnvart árásarmanni er stungusárin voru veitt ”
Í tengslum við krufningu framkvæmdi Þorkell Jóhannesson, prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, rannsókn á blóði og þvagi hins látna. Samkvæmt niðurstöðu hennar var staðfest að hinn látni hafði tekið amfetamín, kókaín og kannabis nokkru fyrir andlátið. Magn amfetamíns í blóði var tiltölulega lítið.
Í niðurstöðu krufningsskýrslu kemur fram að neysla þessara efna getur því ekki hafa verið meðverkandi í dauða mannsins.
Prófessor Þorkell Jóhannesson, framkvæmdi einnig að beiðni lögreglunnar rannsókn á blóð og þvagsýni úr ákærða. Samkvæmt matsgerð hans, dags. 30. ágúst 1999, reyndist etanol ekki í mælanlegu magni í blóði ákærða, en var um 11% í þvagi. Í þvaginu reyndist hins vegar amfetamín, kannabínóíðar og kókaín/benzóylekgónín. Magn amfetamíns í blóði var 105 ng/ml og magn kókaíns 50 ng/ml. Í niðurlagi segir: „Magn amfetamíns og kókaíns í blóðinu var það mikið, að það gæti samræmst því, að hlutaðeigandi væri sprautufíkill.”
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna.
Ákærði var yfirheyrður hjá rannsóknardeild lögreglu þann 20. júlí 1999. Þar skýrði ákærði svo frá, að hann hefði að kvöldi þriðjudagsins 13. júlí sl. verið staddur á veitingastöðunum Glaumbar og Amsterdam en milli klukkan 01.00 og 01.30 hafi hann farið heim til Agnars að Leifsgötu 28. Hann hafi um kvöldið verið á bifreið móður sinnar,VI-536, sem er grá að lit af gerðinni Renault.
Agnar hafi verið einn heima og hafi þeir farið að neyta fíkniefna inni í stofunni, Agnar kókaíns sem hann átti en ákærði amfetamíns sem hann átti sjálfur. Agnar hafi sett kókaínið á stofuborðið og notað hníf sem hann var með til að mynda línu sem hann síðan saug upp í sígarettu. Þeir hafi orðið hátt stemmdir af neyslunni og farið að deila um Vatnsberamálið svonefnda. Hafi ákærði gefið í skyn að Agnar hefði fengið mikið af peningum fyrir vinnu sem hann hefði ekki unnið og ætti því með réttu að skila til baka. Agnar hafi áður verið búinn að samþykkja að skila honum einhverjum peningum án þess þó að nefna fjárhæð. Í því sambandi hafði komið fram að móðir Agnars, sem var nýlátin og Agnar erfði, hafi átt peninga í þýskum banka en sending þeirra til hans hefði dregist. Ákærði lýsti því hvernig deilur milli þeirra hefðu stigmagnast í gegnum tíðina. Taldi ákærði að nú þegar Agnari gengi allt í haginn væri allt að hrynja í kringum hann, svo sem fjármálin, hjónabandið og allt saman. Deilur þeirra hafi magnast þar til Agnar hafi sagt honum að koma sér út úr íbúðinni. Hafi Agnar þá tekið hnífinn, sem hann hafði áður notað við kókaínið, og otað að andliti ákærða. Ákærði hafi þá snúið upp á handlegg Agnars og sagt honum að sleppa hnífnum, sem hann gerði, og hafi hnífurinn dottið á sófaborðið. Þeir hafi þá staðið andspænis hvor öðrum í stofunni og Agnar ítrekað að ákærði skyldi fara út úr íbúðinni sem hann neitaði. Af orðaskiptum þeirra hafi leitt að Agnar hafi rifið í peysu ákærða með báðum höndum en hann hafi tekið á móti og stympingar orðið. Þeir hafi lent á sófaborðinu þannig að hann lenti ofan á Agnari. Hafi Agnar þá verið kominn með hnífinn í hendur en honum tekist að ná hnífnum af honum. Ákærði hafi haldið á hnífnum þegar þeir ultu af sófaborðinu á stól og niður á gólf við endann á sófaborðinu með fætur fram á ganginn. Ákærði hafi legið fyrir aftan Agnar og haldið honum með hálstaki þegar Agnar hafi sagt orðrétt: „ Þórhallur, þú ert að drepa mig.” Síðan hafi Agnar orðið hreyfingarlaus og hann því sleppt hálstakinu. Ákærði kvaðst hafa reynt að tala við Agnar en án árangurs. Ákærði hafi þá séð að hann sjálfur var útataður í blóði og um leið gert sér grein fyrir að Agnar væri látinn. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með hníf í hendinni þegar hann hélt hálstaki á Agnari og ekki geta gert sér grein fyrir því hvenær hann sleppti hnífnum eða hvort hann lagði hnífnum til hans.
Ákærði kvaðst hafa staðið upp og séð að Agnar lá á bakinu og að umræddur hnífur stóð í brjósti hans. Hafi hann ýtt við Agnari með fætinum og síðan ráfað um íbúðina, m.a. inn í svefnherbergi, fram í eldhús og inn í tölvuherbergi, en hann hafi í raun ekki vitað hvað hann var að gera. Hann hafi tekið símtólið og hugleitt að hringja í lögreglu eða á sjúkrabíl en hætt við það og sleppt símtólinu. Það hafi hann gert vegna hræðslu enda hafi hann ekki hugsað rökrétt á þessum tímapunkti.
Hann hafi tekið öskju með kvenmannseyrnalokkum og hálsmeni, sem voru á náttborði í svefnherberginu, auk einhverra peninga íslenskra og erlendra. Ákærði kvaðst hafa hringt til eiginkonu sinnar stuttu eftir að hann kom til Agnars en enginn hafi svarað. Ekki kvaðst hann minnast þess að hafa hringt annað.
Í síðari skýrslum ákærða hjá lögreglu lýsir ákærði atburðum á mjög svipaðan hátt og hér hefur verið rakið, en ítarlegar. Þannig segir ákærði í skýrslu 27. júlí sl., að hann hafi gripið um vinstri handlegg Agnars, sem var örvhentur, og hnífurinn þá dottið á stofuborðið. Þegar þeir duttu báðir á stofuborðið og Agnar undir hafi hann verið kominn aftur með hnífinn og þá í hægri hönd. Aðspurður um aðra hnífa sem á vettvangi fundust kvaðst ákærði þá ekki hafa tengst þessu og einungis hafi verið einn hnífur í spilinu, þ.e. sá sem stóð í brjósti Agnars. Ákærða var þá kynnt niðurstaða prófessors Gunnlaugs Geirssonar réttarlæknis um áverka á líkinu og kvað hann það fjarstæðukennt sem í krufningsskýrslu kemur fram og ekki í samræmi við áverka á líkinu þegar ákærði yfirgaf íbúðina.
Í skýrslu ákærða hjá lögreglu 5. ágúst sl. var ákærði ítrekað spurður um þá fjóra hnífa sem talið var að tengdust verknaðinum en hann kvaðst aðeins muna eftir þeim sem var í líkinu og kvað útilokað að hann hafi notað hina hnífana. Þá sagði hann að átökin hafi einungis átt sér stað við sófaborðið, sófann og stólinn en ekki borist neitt um stofuna og ekki inn í eldhúsið. Í þeirri skýrslu gerði ákærði nánar grein fyrir hnífnum sem Agnar og hann slógust um. Kvaðst ákærði hafa náð hnífnum af Agnari er þeir lágu ofan á sófaborðinu og ákærði þá haldið með hægri hendi utan um skaftið á hnífnum. Einnig hafi hann haldið með hálstaki utan um Agnar. Agnar hafi þá tekið annað hvort utan um hnífinn eða um hendi ákærða, sem hafi rifið utan um hægri öxl Agnars og þeir þá fallið í gólfið og stóllinn oltið um leið. Aðspurður um það mikla blóð sem á honum var og reyndist vera úr Agnari, kvaðst ákærði telja að það hafi fyrst og fremst komið af gólfinu þar sem hann hafi runnið til í því þegar hann var að standa upp eftir að hafa haldið Agnari hálstaki.
Þá kom fram hjá ákærða að stóll í stofunni, sem samkvæmt ljósmynd af vettvangi liggur á hliðinni við fætur Agnars, hafi verið færður til en stólinn hafi verið við vinstri hlið hans og á hliðinni. Þá telur hann að skáphurðin á náttborðinu í svefnherbergi hafi verið lokuð en á ljósmyndum sé hún opin. Í lok skýrslunnar kvaðst hann hafa skýrt frá samkvæmt bestu vitund eins og hann mundi atburðarásina en tók fram að hann hafi verið í mjög annarlegu ástandi umrædda nótt vegna langvarandi fíkniefnaneyslu.
Í skýrslu hjá lögreglu þann 10. september sl. er ákærði spurður að því hvort hann sé banamaður Agnars. Ákærði svarar að hann hafi banað Agnari í algjörri sjálfsvörn en Agnar hafi ráðist að honum með hnífi. Þá er ákærði spurður um ummæli, sem eftir honum voru höfð í tímaritsgrein í september sl., þess efnis að hann hafi orðið Agnari að bana og kvað hann þar rétt eftir honum haft. Aðspurður hvort hann hafi veitt Agnari stungusár í bakið kvað hann svo ekki vera, a.m.k. ekki að sér meðvitandi.
Með bréfi verjanda ákærða, dags. 25. október sl., til rannsóknardeildar lögreglustjóraembættisins í Reykjavík tilkynnti ákærði að hann hefði afturkallað skýrslur sínar sem gefnar voru hjá lögreglu varðandi andlát Agnars. Var þess óskað að ákærði fengi að gefa skýrslu hjá lögreglu að nýju þar sem játning hans þar ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum. Í svarbréfi ríkissaksóknara, dags. 1. nóvember sl., kemur fram að mál ákærða hafi þann dag verið sent Héraðsdómi Reykjavíkur til dómsmeðferðar og muni ákærða þar gefast færi á að tjá sig um sakarefnið og lögreglurannsóknina.
Fyrir dómi var framburður ákærða í veigamiklum atriðum á annan veg en hann hafði skýrt frá fyrir lögreglu. Þar neitaði ákærði að hafa veist að Agnari á heimili hans aðfaranótt 14. júlí 1999 og að hafa banað honum með því að stinga hann með hnífi eða hnífum. Hins vegar játaði ákærði þjófnað á heimili Agnars eins og honum er gefið að sök í 2. lið ákærunnar.
Aðspurður fyrir dómi um ferðir sínar að kvöldi 13. júlí sl. skýrði hann svo frá að hann hafi verið staddur á veitingahúsum í miðbænum. Hann hafi verið einn á ferð og endað á Amsterdam þar sem hann hafi dvalið til kl. 01.10, en þá var húsinu lokað. Þaðan hafi hann ekið að Hverfisgötu 60, þar sem Guðmundur Böðvarsson býr, en haldið áfram þar sem hann hafi talið að Guðmundur væri ekki heima. Því næst hafi hann ekið að Leifsgötu 28 og verið kominn þangað um kl. 01.20 og lagt bifreiðinni í bílastæði fyrir ofan port hægra megin skáhallt gegnt húsinu. Ljós hafi verið í íbúð Agnars og hann því ákveðið að fara inn. Hafi hann hringt dyrabjöllunni og tekið í hurðarhúninn. Hurðin hafi opnast en hann geri sér ekki grein fyrir því hvort það hafi verið opnað fyrir honum. Agnar hafi ekki komið til að taka á móti honum eins og venja hans hafi verið. Ákærði hafi bankað ítrekað á hurðina í íbúð Agnars en síðan tekið í hurðarhúninn og gengið inn þar sem hurðin hafi verið ólæst. Hann hafi þá séð að Agnar lá á gólfinu með hnífinn í brjóstkassanum. Við þá sjón hafi hann fengið áfall og rokið að Agnari en þá runnið til í blóði og dottið ofan á hann. Hafi hann reynt að tala við Agnar og tekið um öxl hans. Eftir smástund hafi hann reynt að standa upp en dottið aftur.
Nánar aðspurður um þetta atriði lýsti ákærði því svo, að hann hafi komið vinstra megin við líkið og runnið til í blóði. Þá hafi stóll, sem ljósmynd sýni liggja á bakinu við fætur líksins, verið við hægri hlið þess þar sem blóðblettur er merktur á teikningu. Þegar ákærða var bent á að lítið blóð væri að sjá vinstra megin við líkið og hann beðinn að benda á þann stað þar sem hann rann til, breytti hann framburði sínum þannig að hann hafi komið hægra megin að líkinu.
Ákærði kvað í fyrstu ekki hafa vitað hvað hann átti að gera, en hann hafi verið búinn að neyta fíkniefna. Hann hafi svipast um í íbúðinni eftir mannaferðum en síðan gengið inn í svefnherbergi og tekið þar öskju úr kommóðuskúffu og peninga sem hann sá þar. Ætlun hans hafi verið að hringja í neyðarlínuna eða lögregluna en hann hafi hætt við það vegna ótta. Hafi hann hringt í Guðmund Böðvarsson sem ekki hafi svarað. Einnig hafi hann hringt í annað símanúmer. Hann hafi farið út skömmu síðar og í bifreiðina þar sem hann hafi setið í 7-8 mínútur. Því næst hafi hann ekið upp Leifsgötu, niður Barónsstíg, inn Hverfisgötu, inn Snorrabraut og inn á Skúlagötu þar sem hann var stöðvaður af lögreglu.
Fyrir dóminum lýsti ákærði kynnum sínum af Agnari sem hann kvað hafa staðið yfir í áratug. Hafi Agnar m.a. tekið að sér bókhald hjá fyrirtæki sem ákærði rak og hét Vatnsberinn hf. Síðan hafi það gerst að farið var að skila inn röngum virðisaukaskattskýrslum. Þetta hafi skilað fyrirtækinu að meðaltali um 350 þúsund krónum á viku og hafi Agnar fengið vikulega 60.000 krónur sem hann geymdi og nota átti ef upp um þetta kæmist. Að því er ákærði hafi best vitað hafi Agnar geymt peningana í banka í Þýskalandi og sé það sá arfur sem rætt hafi verið um að Agnar ætti í vændum þaðan. Þeir hafi ákveðið að bíða í nokkra mánuði eftir að ákærði lyki afplánun dóms, sem hann fékk vegna málefna fyrirtækisins, og síðan hafi átt að fá peningana til landsins. Fullt samkomulag hafi verið milli hans og Agnars um þessa hluti og hann hafi ekki borið neinn óvildarhug til Agnars. Kærði kvað Agnar einan geta náð peningunum og því hafi hann ekki haft ásetning að drepa Agnar.
Ákærði kvaðst hafa komið til Agnars mánudaginn 12. júlí sl. til að spyrjast fyrir um peningasendinguna og hann þá tjáð ákærða að sennilega myndu þeir koma eftir helgina.
Aðspurður fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa séð annan hníf á vettvangi en þann sem stóð í brjósti Agnars. Þá upplýsti hann að sár á handarbaki samkvæmt læknisvottorði hafi hann fengið helgina áður er hann var að flytja húsgögn.
Aðspurður fyrir dóminum hverju þessi breytti framburður sætti, gaf hann þá skýringu, að hann hafi orðið fyrir miklu áfalli við að koma að Agnari látnum. Þá hafi ástand hans verið bágborið og hann hafi verið á skilorði. Hann hafi því ákveðið í íbúð Agnars að koma sér á brott og blandast ekki inn í málið. Þegar hann var stöðvaður af lögreglu þá um nóttina hafi hann byrjað að ljúga Enn fremur hafi yfirvöld og fjölmiðlar verið búnir að ákveða að hann væri morðingi Agnars. Því hafi hann talið að erfitt yrði að fá þessu breytt. Hann væri dæmdur fyrir fram af þeim sem rannsökuðu málið.
Fyrir dóminum skýrði vitnið, Bryndís Gyða Jónsdóttir, sem býr á 3. hæð að Leifsgötu 28, fyrir ofan íbúð Agnars, svo frá að hún hafi ásamt manni sínum, Sigþóri, verið á heimilinu aðfaranótt 14. júlí sl. Vitnið kvaðst hafa verið vakandi þegar sonur hjónanna, Ívar, sem þá var 16 ára, kom heim eftir miðnættið. Vitnið sofnaði síðan en vaknaði við mikinn skarkala og eins og húsgögn væru færð til. Fór hún fram úr rúminu og taldi við athugun að lætin kæmu frá íbúð Agnars en frekar hljóðbært er í húsinu. Vitnið taldi sig hafa heyrt orðaskipti eins og „Hvað hef ég gert þér maður” eða „Hvað hef ég gert þér Guðmundur” eins og fram kom í lögregluskýrslu. Hafi vitnið ekki þekkt röddina. Þetta hafi hætt en vitnið hafi heyrt stuttu síðar að hurð í íbúð á neðri hæðinni var skellt og hún þá farið út í eldshúsgluggann sem snýr að Leifsgötu. Þá hafi hún séð mann fara út úr húsinu og inn í gráa bifreið, sem lagt var skáhallt til vinstri á móti húsinu nr. 23 við Leifsgötu. Vitnið skýrði svo frá að maðurinn hafi virst stuttur og samanrekinn og föt gráleit. Hafi hún veitt því athygli að buxur mannsins voru blettóttar og haft orð á því við mann sinn enda hafi henni dottið blóðblettir í hug. Hafi vitnið reynt að sjá bílnúmer en ekki tekist. Veður hafi verið þungbúið og rigning og rökkvað úti og lýsing ekki góð.
Í lögregluskýrslu kom fram hjá vitninu að hún hafi séð mann koma út frá útidyrunum. Hafi hann farið inn í bíl, sem vitnið taldi að hafi verið dökkgrár að lit og var með einhverskonar skott. Maðurinn hafi virst stuttur, þunnhærður, með ljóst hár eða lítið hár, jafnvel með hálfgerðan skalla. Hann hafi virst vera þrekinn en þess beri að gæta að hann hafi verið í úlpu eða jakka og því ef til vill sýnst þreknari. Þennan framburð sinn staðfesti vitnið fyrir dóminum.
Vitnið, Sigþór Guðjónsson, eiginmaður Bryndísar Gyðu, kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið hafa verið vakandi umrætt kvöld en hann hafi beðið eftir að sonur þeirra kæmi heim. Það hafi hann gert um hálfeitt og hafi hann síðan verið hálfsofnaður þegar hann hafi vaknað upp við mikinn skarkala og hávaða frá íbúð á neðri hæðinni. Það geti hafa verið skömmu fyrir klukkan tvö en vitnið kvaðst þó ekki hafa litið á klukkuna þá. Hafi hann heyrt rödd orga í síbylju en ekki hafi verið unnt að greina orð. Þegar þetta hafi staðið einhvern tíma hafi hann heyrt einhverja aðra rödd sem sagði: “vertu rólegur, vertu rólegur” en síðan hafi þetta dáið út. Hafi vitninu virst sem um tvo menn hafi verið að ræða. Þessi hávaði, sem ef til vill hafi staðið yfir í um 5 mínútur, ekki mikið meira, hafi síðan dáið út og allt orðið hljótt. Eftir smástund hafi vitnið heyrt að hurðinni á neðri hæðinni var skellt og gengið niður stigann. Eiginkonan hafi þá farið út í glugga. Vitnið kvað hana síðan hafa lýst manni sem hún sá fara frá húsinu og hafi hann verið sköllóttur, í mittisjakka og hafi buxurnar hans allar verið í blóðblettum. Vitnið kvaðst hins vegar hafa dregið þetta í efa og spurt hvort hún hefði tekið niður númerið á bifreiðinni og hafi vitnið nefnt einhverja tvo stafi. Vitnið kvaðst hafa litið á vekjaraklukkuna þegar vitnið fór út í eldhúsgluggann og hafi hún þá verið um tvö eða nánar um 02.03.
Þegar vitnið fór í vinnuna næsta dag hafi það veitt því athygli að blá motta stóð út undan hurðinni í íbúð Agnars og hafi svo einnig verið þegar vitnið kom heim aftur í hádeginu. Þá lá Morgunblað Agnars enn í ganginum. Þegar vitnið sá að allt var eins umhorfs um kvöldið hafi hann spurt eiginkonu sína, hvort hún hafi orðið vör við umgang niðri sem hún hafi ekki gert. Næsta morgun var komið annað blað til viðbótar auk þess sem mottan var enn undir hurðinni. Vakti þetta undrun hans þar sem að jafnaði var mikill umgangur um íbúð Agnars. Vitnið kvaðst því hafa hringt heim til Agnars úr vinnunni milli kl. 10 og 11 en þá hafi verið á tali. Þegar vitnið kom heim í hádeginu þann dag og allt var við það sama, fór hann að gruna að ekki væri allt með felldu og fór þá niður á lögreglustöð. Eftir ráðleggingar hélt vitnið síðan heim og hringdi þaðan til lögreglu sem kom á vettvang.
Vitnið, Ívar Örn, sonur hjónanna Bryndísar Gyðu og Sigþórs, kvaðst hafa komið heim til sín um miðnættið aðfaranótt umrædds miðvikudags. Vitnið hafi verið vakandi rúman hálftíma og m.a. hlustað á útvarp. Vitnið kvaðst skömmu eftir heimkomuna hafa heyrt hávaða úr íbúðinni að neðan en þá hafi hann hækkað í útvarpinu og farið að sofa. Hávaði þessi hafi verið meiri en venjulega hafi heyrst frá íbúð Agnars. Vitnið leit ekki á klukku en taldi ítrekað aðspurður að klukkan hafi verið um eittleytið. Eftir það hafi hann ekki heyrt meira en hann sofi fast og með útvarpið á.
Fyrir dóminum skýrði Sigurður J. Jónsson, sem býr á 1. hæð við Leifsgötu 28, þ.e. beint fyrir neðan íbúð Agnars, að hann hafi farið umrædda nótt, venju samkvæmt, að sofa um ellefuleytið. Hann hafi hins vegar vaknað við eitthvert spark og hávaða. Hann hafi verið með klukku við rúmið og taldi að hún hefði verið um tvö. Svefnherbergi vitnisins er að hluta til undir stofunni hjá Agnari. Hávaðinn hafi verið líkastur því að stappað væri í gólfið og sparkað í vegg. Þetta hafi staðið stutt yfir.
Arnþór Eyþórsson lögreglumaður, sem stöðvaði akstur bifreiðar ákærða á Skúlagötu umrædda nótt, og Steinar K. Ómarsson rannsóknarlögreglumaður, hafa báðir komið fyrir dóminn og lýst atvikinu eins og því er lýst hér í kaflanum um málsatvik. Þykir ekki ástæða til að rekja frekar framburð þeirra.
Vitnið, Þóra B. Valdimarsdóttir, skýrði dóminum frá því að hún hefði komið á heimili Agnars þriðjudagskvöldið 13. júlí sl. til að fá aðstoð við skattskýrslu. Á staðnum hafi þá verið maður sem fór skömmu síðar. Þegar vitnið fór um miðnættið hafi Agnar haft á orði að hann ætlaði að horfa á sjónvarp og fara síðan að sofa. Engin vímuefni hafi verið höfð um hönd og Agnar ekki undir áhrifum. Vitnið hafi síðan komið aftur um 15 mínútum síðar til að ná í gleraugu sem hún hafði gleymt og hafi Agnar rétt henni þau eftir að hún hringdi dyrabjöllunni.
Vitnið, Gunnlaugur Kristinn Óttarsson, bar fyrir dóminum að hann hafi heimsótt Agnar kvöldið 13. júlí sl. um kl. 21.30 og dvalið þar í um hálftíma. Vitnið kvað samskipti hans og Agnars hafa verið náin um árabil og lýsti honum sem miklum friðsemdarmanni sem aldrei lenti í átökum. Vitnið kvaðst hafa farið um kl. 23.30 en þá hafi Þóra verið á staðnum. Engin fíkniefni hafi verið höfð um hönd. Vitnið kvaðst síðan hafa komið að Leifsgötu 28 um hádegi 15. júlí en þá hafi lögregla verið á staðnum.
Vitnið, Guðmundur Böðvarsson, bar fyrir dóminum, að hann hefði þekkt Agnar yfir 20 ár og ákærða í um 10 ár. Vitnið kvaðst hafa farið til Agnars eftir kvöldmat þriðjudagsins 13. júlí sl. og hafi ákærði verið þar fyrir. Hafi hann heyrt að þeir voru að ræða um peningamál m.a. hafi hann heyrt ákærða segja “Seljum bara gullið.” Þessu tali hafi Agnar eytt. Vitnið telur að Agnar hafi skuldað ákærða peninga og hafi ákærði sagt vitninu að hann hefði greitt Agnari 700 þúsund. Vitnið kvaðst hafa hringt til Agnars þann 14. júlí sl. en þá hafi alltaf verið á tali.
Vitnið, Þórður Sigurjónsson, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa kynnst ákærða en samskipti þeirra á milli voru nánast engin Ákærði hafi hins vegar komið og heimsótt vitnið mánudaginn 12. júlí og viljað selja honum skartgripasett á 400-500 þúsund krónur. Vitnið kvaðst ekki hafa haft áhuga á þeim viðskiptum. Samkvæmt lögreglurannsókn var hringt í vitnið úr síma Agnars þann 14. júlí sl. kl. 01.34 og stóð samtalið í 42 sekúndur. Vitnið kvaðst hvorki minnast þess að hafa svarað í símann á umræddum tíma né að hafa svarað umræddu símtali.
Vitnið, Sigurður Þórðarson, skýrði svo frá fyrir dóminum að hann hafi rætt við Agnar í síma mánudaginn 12. júlí sl. Þá hafi Agnar átti von á að peningarnir, þ.e. móðurarfurinn, færu að koma. Vitnið hafði þekkt Agnar í mörg ár og lýsti honum sem hægum og rólegum meinleysingja sem útilokað væri að ætti í slagsmálum.
Vitnið, prófessor Þorkell Jóhannesson, staðfesti matsgerð sína fyrir dóminum og gerði frekari grein fyrir niðurstöðum sínum. Kvað vitnið magn amfetamíns í blóði ákærða hafi verið mikið og um 5 sinnum meira en þegar lyfið sé notað í lækningalegum tilgangi. Kókaín sé hins vegar ekki notað til lækninga. Vitnið kvað áhrif þessara efna skyld og því hafi þau samverkandi áhrif. Mest áberandi sé dómgreindarleysi, hugsanabrenglanir, sem geti leitt til ofbeldis, auk þess sem viðkomandi verði ör.
Vitnið, Bjarni Guðmundsson lögregluvarðstjóri, bar fyrir dóminum að hann hafi komið að Leifsgötu 28 þegar lögreglan var kvödd þangað um hádegið þann 15. júlí sl. Tveir lögreglumenn hafi farið inn í íbúðina og gengið úr skugga um að enginn væri þar inni. Þeir hafi ekki farið inn í stofuna og þegar ákveðið að kalla til tæknideild. Vitnið staðfesti að stóll, sem á ljósmynd er sýndur liggja við fætur líksins, hafi verið á þeim stað sem myndir sýna.
Fyrir dóminum bar vitnið, Kristján Friðþjófsson rannsóknarlögreglumaður, sem annaðist vettvangsrannsókn að hann hafi komið á staðinn um hádegi þann 15. júlí sl. ásamt fulltrúa tæknideildar, Hákoni Birgi Sigurjónssyni. Enginn hafi verið inni í íbúðinni þegar þeir komu á staðinn. Á staðnum hafi verið unnin hefðbundin vettvangsrannsókn. Tekið hafi verið sýni af fótspori, sem var á gólfflís á ganginum og það borið saman við skófar ákærða sem til var í tæknideildinni eftir rannsóknina frá 14. júlí sl. og reyndist þar vera um sama skófar að ræða. Engin merki hafi fundist um önnur skóför í íbúðinni.
Rannsakaðir hafi verið sérstaklega fjórir eldhúshnífar sem allir hafi verið blóðugir, bæði á handföngum og á blöðum þeirra, sem hafi auk þess verið bogin. Einn hafi verið í brjóstkassa Agnars og annar við hálsmál hans. Þá hafi einn hnífanna verið við fætur hans á gólfinu í stofunni og annar á gólfi í eldhúsi. Við rannsókn á hnífunum hafi fundist ógreinileg kámför en engin fingraför sem unnt hafi verið að lesa úr. Upplýsti vitnið að fingraför mynduðust af fitu og væri erfitt að lesa þau ef blóð kæmi saman við. Þá væru minni líkur en ella til að fingraför kæmu fram ef haldið væri fast utan um hlut.
Vitnið, Ingibjörg Ásgeirsdóttir rannsóknarlögreglumaður, sem einnig vann að vettvangsrannsókn, staðfesti skýrslu sína fyrir dóminum. Ekki þykir ástæða til að fjalla frekar um framburð vitnisins.
Vitnið, Gunnlaugur Björn Geirsson réttarlæknir, kom fyrir dóminn og staðfesti krufningsskýrslu frá 20. júlí 1999. Vitnið skýrði aðspurt svo frá, að sár það sem var á hálsi líksins nái inn í innri loftvegi. Ekki hafi blætt inn í það þannig að maðurinn hafi ekki andað þegar það sár var veitt. Vitnið staðfesti sérstaklega það sem fram kemur í skýrslunni að alvarlegustu sárin séu í miðlínu, sem skaði bæði hjarta og ósæð og hafi ótvírætt valdið dauða. Vitnið bar fyrir réttinum að sýni hafi verið tekin úr líkinu og send Rannsóknarstofu í lyfjafræði þar sem prófessor Þorkell Jóhannesson rannsakaði það frekar. Vitnið kvaðst einnig hafa unnið DNA rannsókn 20. júlí 1999. Tekin hafi verið sýni úr haldlögðum fötum ákærða og úr blóði Agnars og þau send í rannsókn.
Vitnið, Björgvin Björgvinsson lögreglufulltrúi, bar fyrir dóminum að eftir að lík Agnars fannst hafi þegar beinst grunur að ákærða vegna atburðarins aðfaranótt 14. júlí sl. svo og vegna tengsla ákærða við Agnar. Vitnið kvaðst hafa verið við skýrslutöku af ákærða þegar hann játaði á sig verknaðinn og hafi ákærði þá verið trúverðugur í frásögn sinni. Hann hafi hins vegar átt erfitt með að tjá sig um átökin sjálf. Þá hafi fjöldi hnífa komið ákærða á óvart. Ákærði hafi neitað að vera valdur að áverkunum en áttað sig á því að Agnar væri látinn. Bar hann við áhrifum en „lýsti atvikum eins og hann man best”.
Sigurður Páll Pálsson geðlæknir kom fyrir dóminn sem vitni og staðfesti geðrannsókn sína á ákærða. Bar vitnið að samkvæmt rannsókn sinni væri ákærði sakhæfur. Vitnið hafi hitt ákærða 6 sinnum og hafi ákærði verið búinn að játa á sig verknaðinn hjá lögreglu þegar rannsóknin fór fram. Ákærði hafi skýrt frá sjálfur og vitnið sett í skýrsluna innan gæsalappa ýmsar tilvitnanir nánast orðrétt eftir honum, s.s. “Ég varð besta vini mínum að bana. Það var enginn ávinningur að skaða hann eða drepa, nú fæ ég aldrei þá peninga.” Ákærði hafi verið samvinnuþýður og við það miðað í samtölum þeirra að verknaðurinn væri játaður. Aðspurður fyrir dóminum kvað vitnið breyttan framburð ákærða hafa komið sér á óvart.
Vitnið, Sigurður Gunnar Gunnarsson, bar fyrir dóminum að hann hefði þekkt Agnar lengi og að hann væri friðsemdarmaður.
Þá komu fyrir dóminn vitnin, Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður og Hákon Birgir Sigurjónsson rannsóknarlögreglumaður, og staðfestu skýrslur sínar fyrir dóminum. Ekki þykir ástæða til að rekja efni þeirra nánar. Þá sýndi vitnið, Hákon Birgir, myndband í réttinum sem tekið var af vettvangi.
Niðurstaða.
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa veist að Agnari Wilhelm Agnarssyni, og banað honum með því að stinga hann hnífi eða hnífum mörgum sinnum í brjósthol, bæði framan og aftan frá. Af vettvangsrannsókn lögreglu að dæma, s.s. ljósmyndum og myndbandsupptöku, má ráða að átök hafi átt sér stað í íbúðinni.
Samkvæmt vætti Þóru B. Valdimarsdóttur var hún stödd á heimili Agnars að kvöldi 13. júlí sl. en fór þaðan um miðnættið. Hafði Agnar þá á orði að hann ætlaði að horfa á sjónvarp og fara síðan að sofa. Vitnið kom aftur um 15 mínútum síðar til að ná í gleraugu sem hún hafði gleymt og færði Agnar henni þau, eftir að hún hafði hringt dyrabjöllunni. Síðan þá er ekki vitað til að nokkur hafi komið í íbúðina til Agnars fyrr en ákærði kom þangað.
Ákærði hefur borið fyrir dóminum að hann hafi komið að Leifsgötu 28 um kl. 01.20 þá um nóttina og lagt bifreið, sem hann var á, skáhallt gegnt húsinu. Hann hafi farið inn í húsið og inn í íbúð Agnars sem hafi legið þar látinn á gólfinu með hníf í brjóstkassanum.
Vitnin, Bryndís Gyða Jónsdóttir og eiginmaður hennar Sigþór Guðjónsson, sem búa beint fyrir ofan íbúð Agnars, og Sigurður J. Jónsson, sem býr í íbúðinni fyrir neðan, hafa borið fyrir dóminum að skömmu fyrir klukkan tvö aðfaranótt 14. júlí sl. hafi óvenjumikil háreysti heyrst frá íbúð Agnars. Vitnin vöknuðu við hávaðann. Er framburður þeirra samhljóða um að hávaðinn hafi staðið yfir í skamman tíma og nefnir vitnið, Sigþór, um fimm mínútur, en samkvæmt framburði þeirra var um að ræða org, spörk og hljóð eins og þegar húsgögn færast til. Stuttu eftir að hávaðanum linnti heyrðu vitnin, Bryndís Gyða og Sigþór, að hurð var skellt og gengið niður stigann og fór þá vitnið, Bryndís Gyða, fram í eldhúsglugga til að aðgæta hver væri þar á ferð. Ber vitnið, Sigþór, að hann hafi þá litið á vekjaraklukku og hún sýnt 02.03. Við athugun lögreglu, þann 20. júlí sl., kom í ljós að vekjaraklukkan reyndist þá 4 mínútum of fljót.
Framburður vitnisins, Ívars, er ekki fyllilega samhljóða þessum framburði hvað tímasetningar varðar þar sem hann taldi, ítrekað aðspurður, að hann hafi heyrt hávaða frá íbúð Agnars um eittleytið. Fyrir dóminum kom fram, að vitnið leit ekki á klukku þegar hann heyrði hávaðann frá íbúð Agnars og virtist í miklum vafa um tímasetningar. Þykir því framburður hans ekki veikja framburð áðurgreindra vitna að þessu leyti.
Vitnið, Bryndís Gyða, hefur fyrir dóminum lýst því, að hún hafi séð mann fara út úr húsinu og inn í gráleita bifreið, sem lagt hafi verið hinum megin götunnar, skáhallt á móti. Hafi vitnið reynt að ná númeri bifreiðarinnar en það hafi ekki tekist. Lýsing vitnisins á manni þessum, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi, kemur í meginatriðum heim og saman við lýsingu á ákærða þegar hann var stöðvaður af lögreglu skömmu síðar. Sérstaka athygli vitnisins vakti að buxur mannsins sýndust blettóttar. Vitnið, Sigþór, skýrði svo frá fyrir dóminum að Bryndís Gyða hafi sagt við sig þegar hún kom aftur til baka að buxur mannsins hafi allar verið í blóðblettum.
Lögregla stöðvaði ákærða kl. 02.01 við hús nr. 80 við Skúlagötu í Reykjavík og vakti útgangur hans þegar athygli lögreglu enda var ákærði allur blóðugur. Ákærði spann þegar upp sögu um átök í miðbænum sem átti að skýra ástand hans. Engu að síður fór þá um nóttina fram á vegum lögreglu viðamikil rannsókn á ákærða og athugun á hugsanlegum afbrotum því tengdum. Af ljósmyndum sem þá voru teknar af ákærða má glögglega sjá, að hann var meira og minna ataður blóði. Þannig var allur fatnaður blóðugur bæði að aftan og framan og voru sérstaklega buxur hans blóðugar á lærum og við hné. Þá voru handabök sem og lófar meira og minna vætt blóði. Blóðkám var á nefi, höku og framanverðum hálsi hans. Rannsókn sem gerð var á rannsóknarstofu staðfesti að þetta var blóð úr Agnari.
Þegar virtur er framburður vitna, þ.e. annars vegar um það hvenær maðurinn á hafa yfirgefið húsið við Leifsgötu 28 og hins vegar framburður lögreglumanna sem handtóku ákærða við Skúlagötu 80 er ljóst að skeikað getur 2-3 mínútum miðað við þann tíma sem það tekur að aka þessa leið. Dómurinn telur hins vegar, að þegar atvikalýsingin sé að öðru leyti virt, verði að leggja til grundvallar að þarna hafi verið um sama mann að ræða.
Ákærði gaf þá skýringu fyrir dóminum að hann hafi runnið til í blóði Agnars og dottið ofan á hann þegar hann kom að honum liggjandi á gólfinu í íbúðinni. Þá hafi hann runnið aftur til í blóði þegar hann reyndi að standa upp. Aðspurður kvaðst hann fyrst hafa komið vinstra megin að Agnari en breytti þeim framburði þegar honum var bent á að samkvæmt ljósmyndum að dæma, væri þeim megin lítið blóð á gólfinu. Þá kvaðst hann hafa komið að Agnari hægra megin. Ákærði hafði gert athugasemdir við staðsetningu á stól sem á ljósmynd var sýndur liggja við fætur Agnars og kvað hann stólinn hafa verið þar sem blóðblettur er sýndur á ljósmynd hægra megin við hinn látna. Samkvæmt þessu átti stóllinn að vera á þeim stað þar sem ákærði kom að Agnari og þar sem hann segist hafa dottið og fengið á sig blóðið.
Framburður ákærða fyrir dóminum um þennan þátt málsins þykir með miklum ólíkindablæ og að mati dómenda fær hann alls ekki staðist. Þá er ekki að sjá, hvorki af vettvangsrannsókn, þ.e. ljósmyndum og myndbandi, að einhver hafi runnið til í blóði á gólfinu við hægri hlið Agnars. Dómurinn hafnar því þeirri skýringu ákærða að hann hafi fengið á sig allt það blóð sem á honum var þegar lögregla stöðvaði hann, með þeim hætti sem hann hefur lýst.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu í viðurvist skipaðs réttargæslumanns síns þar sem hann lýsti atburðum á þann veg að hann hefði lent í átökum við Agnar sem lauk með því að Agnar lá á gólfinu með hníf í brjósti sér. Ekki gerði ákærði athugasemdir við þennan framburð sinn þegar hann var leiddur fyrir dómara í tilefni af kröfu um gæsluvarðhald yfir honum fyrst 20. júlí. sl., en þar staðfestir hann lögregluskýrslu, sem tekin var af honum þann sama dag og kveður þar rétt eftir sér haft. Eftir það gaf ákærði alls fjórar skýrslur hjá lögreglu án þess að framburður hans breyttist að þessu leyti. Vitnið, Björgvin Björgvinsson lögreglufulltrúi, sem var viðstaddur skýrslutöku af ákærða þegar hann játaði á sig verknaðinn, skýrði svo frá fyrir dóminum að ákærði hafi verið trúverðugur í frásögn sinni. Hann hafi skýrt frá kunningsskap sínum við Agnar og ágreiningi þeirra í milli. Hann hafi lýst aðdraganda og upphafi átakanna en átt mjög erfitt með að lýsa átökunum sjálfum.
Ákærði hefur ekki gefið neina trúverðuga eða haldbæra skýringu á því hvers vegna hann breytti framburði sínum fyrir dóminum.
Vitnið, Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, bar fyrir dóminum að við geðrannsókn á ákærða hafi hann verið búinn að játa verknaðinn hjá lögreglu og hafi það komið fram í samtölum þeirra. Þess vegna hafi hann sett í skýrslu sína beinar tilvitnanir ákærða um þá játningu.
Í málinu liggur fyrir heildstæð og ítarleg rannsókn lögreglu af vettvangi og ákærða svo og skýrslur sérfræðinga.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telst sannað að ákærði sást yfirgefa húsið nr. 28 við Leifsgötu, stuttu eftir að íbúar þar heyrðu háreysti og skarkala frá íbúð Agnars, sem benti til þess að þar hafi átt sér stað átök. Þá var ákærði handtekinn í beinu framhaldi alblóðugur eins og lýst hefur verið. Freistaði hann þess þá að leiða lögreglu á villigötur með því að spinna upp sögu um átök í miðbæ Reykjavíkur sem skýrt gæti ásigkomulag hans.
Rannsókn málsins sýndi að ákærði var við handtöku með mikið magn amfetamíns og kókaíns í blóði. Einnig hefur verið upplýst að áhrif þessara efna veldur dómgreindarleysi og hugsanabrenglun sem geti leitt til ofbeldis. Í ljós kom að ákærði hafði stolið verðmætum úr íbúð Agnars áður en hann yfirgaf hana.
Þegar virt er allt það sem hér að framan hefur verið rakið telur dómurinn sannað, að ákærði hafi gerst sekur um að hafa banað Agnari Wilhelm Agnarssyni eins og honum er gefið að sök í þessum lið ákærunnar og er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæðis.
Ákærði hefur játað þjófnað sem honum er gefin að sök í 2. lið ákærunnar. Er játning hans í samræmi við önnur rannsóknargögn málsins og brot hans þar réttilega heimfært til refsiákvæðis.
Sakhæfi ákærða.
Ákærði sætti geðheilbrigðisrannsókn Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis en hún fór fram að beiðni lögreglunnar í Reykjavík. Í skýrslu sinni, dagsettri 14. september 1999, ályktar geðlæknirinn svo um sakæfi ákærða:
„Þórhallur Ölver hefur átt við að stríða mikla fíkn í róandi lyf og örvandi efni undanfarin 15 ár. Hann er ágætlega meðvitaður um þetta vandamál en virðist lítið hafa nýtt sér eða trúað á þau meðferðarúrræði sem honum hafa boðist. Á köflum hefur hann greinileg en væg einkenni eiginlegs þunglyndissjúkdóms en er nú fyrst og fremst í mikilli lífskrísu eftir hinn voveiflega atburð. Ég tel hann nú hafa nokkuð gott innsæi á eigin hegðun hvað fíknaefnavandanum viðkemur því einlægur vilji kemur fram að fara í meðferðarprógramm eftir þær hrikalegu afleiðingar sem neyslufíknin og ölvunar ástandið hefur valdið. Merki persónuleikaröskunar koma fram og virðast hafa byrjað á barnsaldri en þróast hratt til hins verra vegna neyslunnar sérstaklega síðustu 15 árin. Telja verður að fíkniefnaneysla hans, samverkandi með persónuleikaröskun þeirri sem hann þjáist af sé helsta skýring þess glæps sem Þórhallur Ölver er sekur um og hefur viðurkennt að hafa framið.
1. Það er niðurstaða mín að Þórhallur Ölver sé sakhæfur því hann hafi verið að fullu fær á þeim tíma er verknaðurinn var framinn að stjórna gerðum sínum þrátt fyrir það að hann var undir miklum áhrifum amfetamíns og kókaíns.
2. Þunglyndið og kvíðinn sem Þórhallur Ölver á við að stríða á köflum er ekki af þeirri dýpt að hægt sé að jafna því við alvarlegan geðsjúkdóm. Á þunglyndistímabilum þarf hann þó líklega meðferð við því. Ekkert bendir til að hann hafi verið haldinn þunglyndi sem jafna má til alvarlegs geðsjúkdóms þegar verknaður var framinn. Margt bendir til að sum þunglyndis- og kvíðaeinkenni Þórhalls Ölvers séu bein afleiðing vímuefnaneyslu og séu hluti af hliðar- eða fráhvarfseinkennum eftir vímuefni. Einnig verður að telja að þunglyndis- og kvíðaeinkenni Þórhalls Ölvers sem hann sýnir við geðskoðun séu hluti af eðlilegum sálrænum viðbrögðum vegna meiriháttar áfalls sem hann hefur ekki fengið aðstoð við að vinna úr. Þórhallur Ölver er einnig lífsleiður og hvatvís. Sjálfsvígsáhætta er fyrir hendi og er aukin meðan hann heldur áfram ofneyslu vímuefna og lyfja.
3. Þórhallur Ölver greinist með mörg einkenni mikillar persónuleikatruflunar og skapagerðarbresta. Ég tel líklegt að persónuleikaeinkenni þessi valdi honum verulegum sveiflum í líðan hans og túlkun og tengslum við umhverfið. Mikilvægt er að hann fái rétta meðferð við því. Þó að geðskoðun sýni ekki nein örugg einkenni sturlunar, rugls eða ranghugmynda þá eru einstaklingar með slíka persónuleikatruflun taldir í meiri hættu til að verða „stundarbrjálaðir” og jaðarsturlunareinkenni hjá slíkum einstaklingum eru einnig þekkt.“
Vitnið, Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, sem framkvæmdi geðrannsóknina kom fyrir dóminn og gaf nánari skýringar á niðurstöðu rannsóknarinnar. Að mati dómenda er ákærði með vísan til þess sem fram hefur komið sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing.
Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ítrekað gengist undir dómsáttir, fyrir umferðarlagabrot og áfengislagabrot og fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Þá hefur hann frá árinu 1978 hlotið 9 refsidóma fyrir skjalafals, fjársvik, fjárdrátt og fyrir brot gegn umferðarlögum og gegn fíkniefnalöggjöfinni. Ákærði hlaut síðast refsidóm hinn 9. maí 1995, þá fangelsi í 3 ár fyrir brot gegn 1. mgr. 262., 248. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 153. gr. laga nr. 2/1995 en sá dómur var staðfestur í Hæstarétti hinn 23. nóvember 1995 að öðru leyti en því að fangelsisrefsing var ákveðin 2 ár og 6 mánuðir. Þá gekkst ákærði undir sátt 14. október 1997, 25.000 króna sekt fyrir eignaspjöll. Ákærði hlaut hinn 13. september 1997 reynslulausn í 2 ár á 300 daga eftirstöðvum refsingar. Ákærði hefur með þeim brotum, sem hann er nú sakfelldur fyrir, rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber að taka hana upp og dæma með máli þessu, sbr. 1. mgr. 42. gr., sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Eins og áður hefur komið fram í krufningsskýrslu var Agnar stunginn samtals 11 hnífstungum í hol, þ.e. inn í brjóstholið bæði framan og aftan. Þá var honum veitt sár á háls, sem náði inn í loftveg, eftir að hann var látinn eins og fram kom í framburði réttarlæknis fyrir dómi. Þar að auki voru á honum fjölmargar aðrar hnífstungur sem gengu inn í mjúkvefi eða særðu hörundið. Af þessu má ráða að árásin var hrottaleg og ber merki um einbeittan og styrkan vilja ákærða til að ráða Agnari bana.
Engin atriði hafa komið fram í málinu, sem styrkja þann framburð ákærða að Agnar hafi átt upptökin að átökum þeirra í milli. Þá hafa þau vitni, sem þekktu Agnar náið, borið fyrir dóminum að hann hafi verið friðsamur maður og alls ólíklegur til að beita ofbeldi.
Í málinu bendir ekkert til þess að ákærði hafi farið að Leifsgötu 28 með þeim ráðna hug að bana Agnari og verður því að ganga út frá því að ásetningur hans hafi myndast eftir að þeir fóru að deila. Engar refsilækkandi ástæður í hegningarlögum þykja eiga við um háttsemi ákærða. Það framferði hans að hafa kastað eign sinni á eigur Agnars eftir verknaðinn ber hins vegar að virða til refsiþyngingar.
Þegar það er virt sem hér hefur verið rakið ber að dæma ákærða til 16 ára fangelsisvistar.
Ákærði var úrskurðaður í Kaupmannahöfn þann 18. júlí 1999 til gæsluvarðhalds og hefur sætt gæsluvarðhaldi óslitið síðan. Frá refsingu ákærða ber að draga gæsluvarðhaldsvist með fullri dagatölu sem á dómsuppsögudegi er samtals 199 dagar.
Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 400.000 krónur.
Bogi Nilsson ríkissaksóknari ásamt Guðrúnu Sesselju Arnardóttur, fulltrúa ríkissaksóknara, fluttu málið af hálfu ákæruvaldsins.
Dómsorð:
Ákærði, Þórhallur Ölver Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 16 ár en til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist hans, samtals 199 dagar.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 400.000 krónur.