Hæstiréttur íslands
Mál nr. 714/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. júlí sama ár um að synja því að verða við beiðni hennar um lögbann við nánar tilteknum athöfnum varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að sýslumanni verði gert að leggja á lögbann í samræmi við beiðni hennar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins barst Héraðsdómi Reykjavíkur 12. október 2016 bréf sóknaraðila frá sama degi með yfirskriftinni: „Kæra til Hæstaréttar Íslands“. Í upphafi þess var héraðsdómara í máli þessu tilkynnt að sóknaraðili kærði til Hæstaréttar úrskurð dómarans frá 28. september sama ár í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Því næst voru úrskurðarorð í þeim úrskurði tekin orðrétt upp og vísað um kæruheimild til áðurgreindra ákvæða laga nr. 31/1990 og 90/1989. Kom svo fram fyrirsögnin: „Dómkröfur“ og var meginmál bréfsins að öðru leyti svohljóðandi: „Fyrir Hæstarétti Íslands gerir sóknaraðili eftirfarandi dómkröfur: að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu verði gert að leggja á lögbann í samræmi við kröfu sóknaraðila. Þá er krafist kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila auk málskostnaðar í héraði. Sóknaraðili mun skila Hæstarétti Íslands greinargerð þegar gögn málsins hafa borist dóminum.“
Samkvæmt 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem gildir um meðferð þessa máls eftir 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, skal greina í kæru dómsathöfnina, sem kærð er, kröfu um breytingu á henni og ástæður sem kæra er reist á. Þótt tiltekið hafi verið samkvæmt framansögðu í kæru sóknaraðila að hvaða dómsathöfn hún beindist og hvers sóknaraðili krefðist fyrir Hæstarétti, var í engu greint frá ástæðum sem hún væri reist á. Úr þeim annmarka er ekki bætt með því að málsástæðum sóknaraðila sé með yfirgripsmiklum skriflegum málflutningi gerð skil í greinargerð til Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóma réttarins 7. desember 2010 í máli nr. 656/2010, 2. september 2011 í málum nr. 377/2011 og 388/2011, 7. mars 2014 í máli nr. 118/2014, 2. desember sama ár í máli nr. 753/2014, 13. júlí 2016 í máli nr. 479/2016 og 26. október sama ár í máli nr. 693/2016. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Effat Kazemi Boland, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2016.
Mál þetta, sem barst dóminum 10. ágúst 2016, var tekið til úrskurðar 20. september sl. Sóknaraðili er Effat Kazemi Boland, Vatnsstíg 16-18, kt. [...], Reykjavík. Varnaraðili er Arion banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að „héraðsdómur felli úr gildi ákvörðun sýslumanns frá 14. júlí að synja um kröfu [sóknaraðila] að leggja lögbann við því að [varnaraðili] veiti félaginu 101 Austurstræti ehf. sem rekur veitingastaðinn Austur að Austurstræti 7, 101 Reykjavík, nokkra bankaþjónustu og loki tafarlaust öllum reikningum á kennitölu 101 Austurstrætis, kt. 691211-1420“. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að „héraðsdómur leggi fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að [varnaraðili] veiti félaginu 101 Austurstræti ehf. sem rekur veitingastaðinn Austur að Austurstræti 7, 101 Reykjavík, nokkra bankaþjónustu og loki tafarlaust öllum reikningum á kennitölu 101 Austurstrætis, kt. 691211-1420“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að hin kærða ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. júlí 2016 verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
I
Málavextir
Sóknaraðili krafðist þess með beiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 7. júlí 2016 að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili veitti félaginu 101 Austurstræti ehf. nokkra bankaþjónustu og lokaði tafarlaust öllum reikningum á kennitölu félagsins hjá varnaraðila. Sýslumaður tók við lögbannsbeiðni sóknaraðila 13. júlí 2016 og með bréfi degi síðar hafnaði hann lögbannskröfunni. Í rökstuðningi sýslumanns segir að sóknaraðili hefði ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að skilyrðum 24. gr. laga nr. 21/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri fullnægt. Í kjölfar synjunar sýslumanns á lögbannskröfu sóknaraðila, sem móttekin var af lögmannsstofu sóknaraðila 19. júlí sl., beindi hann kröfu til héraðsdóms, sem móttekin var af dóminum 10. ágúst sl., um að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi, sbr. 33. gr. laga nr. 31/1990 en þá ákvörðun hafði hann tilkynnt sýslumanni 21. júlí sl.
Í lögbannsbeiðni kemur fram að sóknaraðili kveðst vera eigandi 50% hlutafjár í félaginu 101 Austurstræti ehf. sem sé rekstraraðili og handhafi rekstrarleyfis veitingastaðarins Austurs sem rekinn sé að Austurstræti 7 í Reykjavík. Þá sé hún einnig eigandi 50% eignarhlutar í félaginu Alfacom General Trading ehf. Ágreiningur sé um rekstur veitingastaðarins og eignarhald hans. Í gögnum sem send hafi verið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu komi skýrt fram að Gholamhossein Mohammed Shirazi hafi 15. febrúar 2016 selt sóknaraðila hluti sína í 101 Austurstræti ehf. sem þannig hafi orðið eigandi 50% eignarhluta í félaginu. Ásgeir Kolbeinsson sé skráður ábyrgðaraðili rekstrarleyfisins. Ágreiningur sé um stöðu hans sem framkvæmdastjóra en hann starfi þó enn sem slíkur meðan ágreiningur sé ekki til lykta leiddur. Sé tilgreint sérstaklega í fyrirtækjaskrá að ágreiningur sé um stöðu hans.
Samkvæmt vottorði frá fyrirtækjaskrá RSK vegna félagsins 101 Austurstræti ehf. frá 29. apríl 2016 sitja Ásgeir Kolbeinsson, kt. [...], Kolbeinn Pétursson, kt. [...], Gholamhossein M. Shirazi, kt. [...] og Kamran Keivanlou, kt. [...] í stjórn félagsins. Þá kemur fram að meirihluti stjórnar skrifar firma og að prókúra sé sameiginleg með þeim Ásgeiri Kolbeinssyni og Gholamhossein M. Shirazi. Þá er skráð athugasemd um að ágreiningur sé um stöðu framkvæmdastjóra félagsins.
Þann 6. maí 2016 var stofnaður veltureikningur nr. 331-26-[...] í útibúi varnaraðila samkvæmt beiðni er skrifað var undir af Ásgeiri Kolbeinssyni, Kolbeini Péturssyni og Gholam Mohammed Shirazi. Þá veitti félagið Ásgeiri Kolbeinssyni heimild til úttektar af sama reikningi 18. maí 2016 sem undirrituð var af sömu aðilum.
Í lögbannsbeiðni sóknaraðila kemur fram um tildrög og forsögu máls þessa að meðferð framkvæmdastjórans á staðnum og á fjárvörslum félagsins hafi leitt til þess að hún hafi tapað umtalsverðum fjármunum. Hafi framkvæmdastjórinn nú opnað bankareikning hjá varnaraðila án hennar aðkomu. Hún sé auk þess ekki í nokkurri aðstöðu til þess að fylgjast með gegnumstreymi fjármagns hjá félaginu. Árangurslaust fjárnám hafi verið gert 26. maí sl. hjá félaginu Austurstræti 1 ehf. að kröfu tollstjóra. Heildarskuld félagins hafi þá numið 3.500.000 krónum. Lögmaðurinn Hilmar Magnússon hrl. hafi mætt en neitað greiðslu og ekki mótmælt skuldinni. Staða skuldarinnar hjá tollstjóra sé nú 9.500.000 krónur. Til standi að taka félagið til gjaldþrotaskipta að kröfu tollstjóra.
Þá hafi 23. maí sl. verið teknar út 7.747.969 krónur af þeim reikningi sem nú sé undir merkjum félagsins 101 Austurstræti ehf. (tilvísun 1101754779) og ráðstafað inn á reikning framkvæmdastjórans sem þá hafi verið á leið til Las Vegas. Veki sérstaka furðu að þessir fjármunir hafi verið teknir út þremur dögum fyrir fyrirtöku hjá sýslumanni vegna fjárnáms þar sem áðurnefndur lögmaður hafi hafnað að greiða skuldir félagsins. Hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu nú til meðferðar kæru félagsins á hendur framkvæmdastjóranum vegna lögbrots, sbr. 4. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Fyrirsjáanlegt sé að tollstjóri muni fara fram á gjaldþrotaskipti á félaginu 101 Austurstræti 1 ehf. enda liggi fyrir að skuldir félagsins fari fram yfir 2.000.000 króna og ekki hafi verið samið um greiðslur. Verði félagið gjaldþrota sé ljóst að fjárfesting sóknaraðila í félaginu tapist með öllu. Kveðst sóknaraðili einnig benda á ákvæði 8. og 15. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þar sem fram komi að sýslumanni beri að svipta stað rekstrarleyfi sem skuldi meira en 500.000 krónur í opinber gjöld. Þegar litið sé til þessa sé ljóst að fjárfesting sóknaraðila hafi tapast.
Varnaraðili hafi verið upplýstur um stöðu mála en hann skirrst við að grípa til aðgerða. Sóknaraðila sé því nauðugur einn kostur að stöðva athafnir framkvæmdastjórans og loka fyrir þjónustu varnaraðila til félagsins með því að fara fram á lögbann samkvæmt ákvæðum laga þar um.
Þá bendir sóknaraðili á að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi kveðið upp úrskurð þess efnis að félagið 101 Austurstræti ehf. verði svipt rekstrarleyfi vegna meints brots er varði framsal á rekstrarleyfi. Réttaráhrifum þess úrskurðar hafi verið frestað en áframhaldandi brot gegn ákvæðum laga leiði til sviptingar rekstrarleyfis. Tapi félagið leyfi sínu til rekstrar sé rekstri félagsins sjálfhætt. Tapist þá allir fjármunir sem sóknaraðili hafi sett í reksturinn og ljóst sé að bætur verði illa sóttar.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili skilaði ekki greinargerð til dómsins en vísaði við munnlegan málflutning til beiðni sinnar til sýslumanns um lögbann.
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á 24. gr. laga nr. 31/1990 um lögbann. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að svipta beri félagið 101 Austurstræti ehf. rekstrarleyfi vegna framsals félagsins á rekstrarleyfi sínu til félagsins Austurstrætis 5 ehf. sem nú annist rekstur staðarins. Jafnvel þótt réttaráhrifum þess úrskurðar hafi verið frestað sé ljóst að ítrekuð brot valdi að líkindum sviptingu rekstrarleyfis.
Sóknaraðili kveðst áður hafa reynt að fá lögbann við starfsemi Austurstrætis 5 ehf. inni á veitingastaðnum sem og vegna aðkomu Borgunar hf. að málinu. Borgun hf. hafi á hinn bóginn upplýst við fyrirtöku lögbannskröfunnar að félagið hefði slitið samningi við Austurstræti 5 ehf. Hafi af þeim sökum engu réttarsambandi verið til að dreifa milli 101 Austurstrætis ehf. og Austurstrætis 5 ehf. Lögbannið hafi því ekki náð fram að ganga. Engu að síður sé Austurstræti 5 ehf. enn að störfum inni á staðnum og sjái um allt utanumhald með rekstri staðarins. Engum samningi sé til að dreifa milli 101 Austurstrætis 1 ehf. og Austurstrætis 5 ehf., enda yrði slíkur samningur ekki samþykktur af hálfu sóknaraðila.
Nú liggi fyrir að framkvæmdastjórinn, Ásgeir Kolbeinsson, hafi ítrekað reynt að stofna bankareikninga í nafni 101 Austurstrætis ehf. vegna rekstrarins. Þeim hafi jafnharðan verið lokað aftur af hálfu bankastofnana. Þá hafi aðilar reynt að breyta skráningu á stjórnarmönnum félagsins hjá Ríkisskattstjóra en því hafi verið hafnað. Þá hafi verið haldinn fundur í félaginu 6. maí sl. þar sem reynt hafi verið að skipta um stjórn. Það hafi verið gert án aðkomu sóknaraðila. Til slíks fundar verði aðeins boðað fyrir tilstilli stjórnarformanns félagsins. Stjórnarformaður félagsins 101 Austurstræti ehf. sé Kamran Keivanlou. Hann hafi ekki kallað til þessa fundar. Á fundinn hafi verið mætt af hálfu fulltrúa félagsins Alfacom General Trading ehf. sem eigi 50% hlut í félaginu en sóknaraðili hafi ekki verið látin vita þrátt fyrir að hún sé eigandi að hinum 50% eignarhlutnum í félaginu. Félagið Alfacom General Trading ehf. hafi áður verið eigandi að hlutafé 101 Austurstrætis ehf. Þar sem formskilyrðum um boðun fundar hafi ekki verið fullnægt hafi ekki verið um stjórnarfund eða hluthafafund að ræða og aðilar ráðskist með félagið sem ekki séu til þess bærir. Því séu samþykktir fundarins frá 6. maí sl. að engu hafandi.
Enn fremur kveðst sóknaraðili benda á að einstakir stjórnarmenn geti ekki samþykkt að opna bankareikninga í nafni félags heldur þurfi til þess samþykki stjórnar samkvæmt reglum varnaraðila sjálfs. Með þeim rökum beri að loka öllum reikningum sem hinn heimildarlausi fundur hafi samþykkt að opna.
Þá liggi fyrir beiðni hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti um hluthafafund í félaginu 101 Austurstræti ehf. Athafnir aðila sýni fram á tilraun þeirra til þess að útiloka aðkomu sóknaraðila sem helmingseiganda að hlutafé félagsins og svipta hana öllum ráðum yfir félaginu. Þá hafi framkvæmdastjórinn ítrekað notað reikninga félagsins Austurstrætis 5 ehf. til þess að sinna daglegum rekstri veitingarstaðarins. Rekstrarleyfið sé bundið við félagið 101 Austurstræti ehf. og framsal á leyfi sé með öllu óheimilt samkvæmt 11. gr. laga nr. 85/2007. Sala áfengis fari fram á staðnum en félagið 101 Austurstræti ehf. hafi ekki staðið yfirvöldum skil á sköttum vegna þessa. Samkvæmt ákvæðum áðurnefndra laga sé heimilt að svipta stað rekstraleyfi verði vanhöld á skattskilum. Með þessu hafi framkvæmdastjórinn stefnt rekstrarhæfi staðarins í hættu.
Sé nú svo komið að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá félaginu 26. maí 2016. Við fyrirtökuna hafi komið fram að stjórnarformaður félagsins sé Kamran Keivanlou. Lögmaðurinn Hilmar Magnússon hafi komið fram fyrir hönd félagsins og neitað að greiða skuld félagsins við tollstjóra sem sé til komin vegna vangoldinna skatta og annarra gjalda. Allar greiðslur til starfsfólks fari fram í gegnum reikninga Austurstrætis 5 ehf. sem haldi utan um greiðslur til Gildis lífeyrissjóðs og vanhöld virðist vera á réttum greiðslum. Þannig sé kennitala Austurstrætis 5 ehf., 670614-1740, notuð til allra athafna en reynt að fela þá staðreynd með því að gera það í nafni 101 Austurstrætis ehf.
Félagið 101 Austurstræti ehf. hafi til langs tíma ekki haft virka bankareikninga en það hafi nú opnað reikning hjá varnaraðila. Íslandsbanki, Landsbankinn og MP banki hafi á hinn bóginn ekki léð máls á opnun reikninga meðan ágreiningur sé í gangi. Jafnvel þótt rekstur hafi nú verið færður yfir á nafn og reikninga 101 Austurstrætis ehf. sé ljóst að framkvæmdastjórinn hafi misfarið með reksturinn þannig að sóknaraðili sem helmingseigandi rekstrarins hafi verið hlunnfarinn.
Þá skuli á það bent að varnaraðili hafi útbúið skjal til handa 101 Austurstræti ehf. þar sem heimiluð hafi verið stofnun reiknings enda lægi fyrir ákvörðun fundar stjórnar fyrir því. Slíkur fundur hafi þó ekki farið fram enda liggi fyrir beiðni hjá innanríkisráðuneytinu um að ráðuneytið standi fyrir slíkum fundi. Þá hafi fyrirtækjaskrá nú komist að þeirri niðurstöðu að virða beri að vettugi tilraunir fundar sem haldinn var 6. maí sl. til breyttrar skráningar á stjórn félagsins. Með því að fyrirtækjaskrá skrái ekki breytingu á stjórn félagsins haldi ekki þeir gerningar sem framkvæmdir voru á fundinum og voru grundvöllur fyrir opnun bankareiknings í varnaraðila. Beri því þegar af þessari ástæðu að loka þeim reikningum tafarlaust. Varnaraðila sé fullkunnugt um þær deilur sem séu innan fyrirtækisins.
Þá hafi framkvæmdastjórinn ítrekað orðið uppvís að því að fá lánaða posa frá hinum og þessum fyrirtækjum til þess að bregðast við því að hvorki 101 Austurstræti ehf. né Austurstræti 5 ehf. hafi virka þjónustusamninga við kortaþjónustufyrirtæki. Þannig hafi verið teknir í notkun inni á staðnum posar sem skráðir séu á N Club (NS Holding ehf.) og A Nightclub (Keiluhöllin, Öskjuhlíð). Hafa fyrirtækin Valitor, Korta og Borgun hf. öll brugðist við með því að loka á þessa notkun og slíta samningum við tilgreind fyrirtæki.
Með áframhaldandi leyfislausri starfsemi og misnotkun á útgefnu leyfi staðarins séu brot ítrekuð. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2007 sé leyfisveitanda heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfinu að fullu. Verði leyfishafi sviptur rekstrarleyfi geti hann ekki í fimm ár þar á eftir fengið útgefið rekstrarleyfi, sbr. f-lið 8. gr. sömu laga. Verði það niðurstaðan sé fjárhagslegum grundvelli kippt undan rekstri 101 Austurstrætis ehf. og yfirgnæfandi líkur á því að réttindi sóknaraðila fari forgörðum. Áframhaldandi aðgerðaleysi leiði til þess að staðurinn missi rekstrarleyfi sitt. Sé þess því krafist að lagt verði lögbann við því að varnaraðili annist milligöngu um eða veiti 101 Austurstræti ehf. atbeina með því að veita félaginu bankaþjónustu.
Varnaraðila hafi verið bent á brot framkvæmdastjórans án þess að hann hafi brugðist við. Meintum brotum Ásgeirs Kolbeinssonar sé því við haldið fyrir tilstuðlan varnaraðila. Þar sem áframhaldandi notkun á bankareikningum feli í sér ítrekuð brot, jafnvel þótt fyrir liggi úrskurður ráðuneytis, eigi sóknaraðili það á hættu að tapa fjárfestingu sinni á staðnum Austur. Til þess að verja fjárfestingu sína sé sóknaraðila nauðugur sá kostur að fara fram á að lögbann verði sett á milligöngu varnaraðila í málinu og að öllum reikningum á kennitölu Austurs verði tafarlaust lokað.
Í ljósi þeirrar stöðu að rekstur 101 Austurstrætis ehf. haldi nú áfram með þátttöku varnaraðila sé sóknaraðila ómögulegt að bíða dóms um réttindi sín. Næsta víst sé að áframhaldandi brot óheimils rekstraraðila muni leiða til sviptingar leyfis 101 Austurstrætis ehf. Útilokað sé að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna tryggi hagsmuni sóknaraðila.
Sýslumaður hafi áður hafnað því að taka til greina lögbannsbeiðnir sóknaraðila með þeim rökum að sóknaraðili hafi ekki gert sennilegt að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt. Þá hafi sóknaraðili áður reynt að fá lögbann á þá starfsemi sem viðgekkst inni á staðnum Austur. Krafan hafi þá beinst gegn félaginu Austurstræti 5 ehf. og Borgun hf. Málið hafi farið fyrir Hæstarétt og í dómi réttarins í máli nr. 703/2015 komi fram að félagið Alfacom General Trading ehf. hafi ekki sýnt fram á að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir ætlaða röskun hagsmuna hans tryggði ekki nægjanlega þann rétt hans sem lögbanninu væri ætlað að vernda. Lögmaður framkvæmdastjóra 101 Austurstrætis ehf. hafi mætt til gerðar hjá sýslumanni 26. maí sl. Þar upplýsti hann að félagið hefði ekki fjárhagslega burði til þess að greiða opinber gjöld sem hvíla á félaginu. Hafi því verið gert árangurslaust fjárnám hjá 101 Austurstræti ehf. Félagið hafi ekki leitað til tollstjóra með það í huga að semja um greiðslu skulda sinna og hafi tollstjóri því sent héraðsdómi beiðni um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Félagið sé á hinn bóginn í fullum rekstri og selji hverja helgi fyrir milljónir króna. Þeir fjármunir séu lagðir inn á reikning félagsins hjá varnaraðila. Framkvæmdastjórinn hafi tekið meira en 7.000.000 króna út af þeim reikningi og lagt inn á sinn persónulega reikning.
Sóknaraðila sé því nauðsynlegt að lögbann verði lagt á alla bankaþjónustu varnaraðila við 101 Austurstræti ehf. og bankareikningum verði lokað. Með því megi tryggja að fyrir hendi verði fjármunir sem félagið geti notað til þess að verjast gjaldþroti. Verði lögbanni ekki komi á sé næsta víst að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Útilokað sé að réttarreglur um refsingu og skaðabætur geti að nokkru leyti bætt það tjón sóknaraðila að tapa rekstri félagsins, með góða viðskiptavild á besta stað í miðborg Reykjavíkur.
Með vísan til gagna málsins, afriti af gerðinni frá 26. maí sl. og gjaldþrotakröfu tollstjóra, hafi sóknaraðili nú sýnt fram á og gert sennilegt að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili bendir á að samkvæmt 33. gr. laga nr. 31/1990 sé frumskilyrði þess að gerðarbeiðandi geti kært ákvörðun sýslumanns um synjun lögbanns til héraðsdóms að sýslumanni hafi verið tilkynnt um það innan viku frá því að ákvörðun gerðarbeiðanda var kunngjörð. Ekki verði séð af gögnum málsins að slíkt hafi verið gert af hálfu sóknaraðila og bresti því skilyrði fyrir því að ákvörðun sýslumanns verði kærð til héraðsdóms. Kröfunni eigi þegar af þeirri ástæðu að hafna.
Verði ekki fallist á að hafna kröfu sóknaraðila af ofangreindum ástæðum byggir varnaraðili á því að hafna verði öllum kröfum sóknaraðila vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að mati varnaraðila sé rökstuðningi fyrir aðild sóknaraðila að dómsmáli þessu verulega ábótavant. Málið eigi rætur að rekja til þjónustu varnaraðila við félagið 101 Austurstræti ehf. Sóknaraðili verði að sýna fram á að hún sé með óyggjandi hætti tengd því félagi, t.d. sem hluthafi eða stjórnamaður eða á annan hátt þannig að hún hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Varnaraðili bendir í þessu samhengi á að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 703/2015 frá 4. nóvember 2015 komi fram að Gholamhossein M. Shirazi, kt. [...] og Kamran Keivanlou, kt. [...], séu eigendur alls hlutafjár í félaginu Alfacom General Trading ehf. sem aftur sé 50% hluthafi í félaginu 101 Austurstræti ehf. Ásgeir Kolbeinsson, kt. [...] og Kolbeinn Pétursson, kt. [...], eigi svo hin 50% í 101 Austurstræti ehf. Ekkert sé vikið að eignarhluta sóknaraðila í umræddum félögum. Varnaraðili bendir á að dómur hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til hið gagnstæða sé sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Þá bendir varnaraðili á að í lögbannsbeiðni sóknaraðila sé aðild hennar rökstudd með vísun í gögn er send hafi verið atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Sé þar væntanlega verið að vísa til beiðni sóknaraðila til ráðuneytisins 28. apríl 2016 um að boða til hluthafafundar í félaginu 101 Austurstræti ehf. Ráðuneytið hafi hafnað þessari beiðni með vísan til þess að ekki lægi ljóst fyrir hverjir væru hluthafar í umræddu félagi, eins og fram komi í bréfi ráðuneytisins er fylgi lögbannsbeiðni sóknaraðila.
Þá vísar varnaraðili jafnframt til tölvupósts skráningarsviðs fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra 14. apríl 2016 til lögmanna Kamran Keivanlou og Gholamhossein M. Shirazi, tveggja stjórnarmanna í félaginu 101 Austurstræti ehf., varðandi skráningu á félaginu Alfacom General Trading ehf. sem, eins og áður sagði, er hluthafi í 101 Austurstræti ehf. Þar sé ágreiningur aðila rakinn og gerð ítarleg grein fyrir misvísandi tilkynningum sem fyrirtækjaskrá hafi móttekið varðandi félagið Alfacom General Trading ehf. Sé sú ályktun dregin af þessu að ranglega hafi verið skýrt frá högum félagins, sem sé refsivert, sbr. 126. gr. laga nr. 13/1994, um einkahlutafélög, og ríkisskattstjóri hafi í kjölfarið tilkynnt málið til lögreglu.
Að mati varnaraðila geti því varla verið „skýrt“ að Gholamhossein M. Shirazi hafi selt sóknaraðila hlut sinn í 101 Austurstræti ehf. 15. febrúar 2016 og hún þannig orðið hluthafi í félaginu þannig að réttlætt geti aðild hennar að málinu, eins og fram komi í lögbannsbeiðni sóknaraðila. Er þessu raunar þvert á móti hafnað af lögmanni Gholamhossein í tölvupósti til varnaraðila 31. ágúst sl. sem sé meðal gagna málsins. Sá einn getur með réttu höfðað mál og staðið að málsókn fyrir dómi sem er rétthafi þeirra hagsmuna sem leita á úrlausnar um. Það eigi ekki við í máli þessu og því beri að hafna kröfu sóknaraðila þegar af þessari ástæðu.
Verði ekki fallist á það byggir varnaraðili á því að skilyrði lögbanns samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt og leiði það til þess að ekki sé unnt að fallast á kröfu sóknaraðila.
Ágreiningur málsins snúist um hvort varnaraðila hafi verið heimilt að stofna til reiknings í útibúi varnaraðila í nafni félagsins 101 Austurstræti ehf. sem og hvort skilyrði til lögbanns á þjónustu varnaraðila við félagið séu uppfyllt. Varnaraðili líti svo á að lögbannsbeiðni sóknaraðila beinist að stofnun veltureiknings nr. 331-26-[...] þann 6. maí 2016 í útibúi varnaraðila sem og heimildar til úttektar á sama reikningi 18. maí 2016 sem undirrituð var af sömu aðilum.
Varnaraðili kveðst í öllu tilliti hafa unnið í samræmi við gildandi lög, verklagsreglur varnaraðila sem og opinber gögn við stofnun reikningsins enda hafi prókúruhafar og firmaritarar félagsins undirritað umsókn þar að lútandi. Bendir varnaraðili á að ekki verði betur séð en stofnun reikningsins hafi verið til hagsbóta fyrir rekstur félagsins og hún tryggi að það geti haldið úti starfsemi. Leiði af sjálfu sér að verði fallist á lögbannsbeiðni sóknaraðila sé starfsemi félagins komin í uppnám.
Varnaraðili bendir á samkvæmt vottorði frá fyrirtækjaskrá RSK vegna félagsins 101 Austurstræti ehf. frá 29. apríl 2016 sitji í stjórn félagsins eftirtaldir fjórir einstaklingar: Ásgeir Kolbeinsson, kt. [...], Kolbeinn Pétursson, kt. [...], Gholamhossein M. Shirazi, kt. [...] og Kamran Keivanlou, kt. [...]. Í sama vottorði kemur fram að meirihluti stjórnar skrifar firma og að prókúra sé sameiginleg með þeim Ásgeiri Kolbeinssyni og Gholamhossein M. Shirazi. Þá sé skráð athugasemd um að ágreiningur sé um stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Þegar óskað hafi verið eftir því af þremur stjórnarmönnum félagsins, þar af báðum prókúruhöfum þess, að stofnaður yrði veltureikningur í útibúi varnaraðila hafi slíkt verið samþykkt enda hafi bæði prókúruhafar og firmaritarar skrifað undir slíkan samning.
Auk þess bendir varnaraðili á að þrátt fyrir að þrír stjórnarmenn félagsins hafi undirritað beiðni um stofnun reiknings og heimild til úttektar af reikningi félagsins til eins stjórnarmanns, sé nokkuð augljóst að stofnun bankareiknings falli undir daglega starfsemi félagsins sem hafi þann tilgang að hafa með höndum veitingarekstur, eins og fram komi í vottorði fyrirtækjaskrár. Því dugi að prókúruhafar stofni til slíks reiknings, sbr. 52 gr. laga nr. 138/1994 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 202/2008, eins og gert hafi verið í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar fyrir dóminum. Ekki verði með neinu móti séð að undantekningar í 1.-2. tölulið áðurnefnds lagaákvæðis eigi við í þessu máli. Með vísan til alls ofangreinds sé því alfarið hafnað að einstakir stjórnarmenn geti ekki ákveðið að opna bankareikning nema gegn samþykki stjórnar. Óundirritað skjal sem sóknaraðili vísi til haggi í engu þeirri staðreynd.
Viðsemjendur félaga verði að treysta opinberum gögnum eins og tilkynningu félaga til fyrirtækjaskrár RSK um stjórn félags, prókúruhafa, hverjir hafi rétt til að rita firmað o.fl. Samkvæmt hlutafélagaskrá séu sem fyrr greinir fjórir stjórnarmenn í félaginu 101 Austurstræti ehf. og réttur til að rita firmað sé í höndum meirihluta stjórnar. Varnaraðili eigi ekki og geti ekki sett sig inn í þær deilur sem séu á milli stjórnarformanns og annarra stjórnarmanna um rekstur og eignarhald félagsins og engar formlegar sannanir, svo sem dómar, úrskurðir eða viðurkenningar, séu lagðar fram sem geti leitt til þess að skylda verði lögð á varnaraðila til þess að loka umræddum reikningsviðskiptum.
Varnaraðili bendir á að þrátt fyrir að hann samþykki að opna bankareikning fyrir umrætt félag hvíli ábyrgð á úttektum af bankareikningnum hjá firmariturum sem í þessu tilfelli hafi veitt einum stjórnarmanni, Ásgeiri Kolbeinssyni, umboð til úttekta af reikningnum. Telji sóknaraðili að umboðshafinn misfari með fjármuni félagsins og valdi félaginu með því tjóni beri firmaritarar og umboðshafinn alla ábyrgð á því. Bendir varnaraðili á að ekki sé endilega þörf á bankareikningi til þess að slíkt gæti átt sér stað.
Varnaraðili telur því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á, eða í öllu falli sé það vanreifað, að réttarreglur skaðabótaréttarins tryggi ekki nægilega hagsmuni hennar, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og af þeim ástæðum sé skilyrðum lögbanns heldur ekki fullnægt.
Varnaraðili telur lögbannskröfu sóknaraðila einnig óskýra og of víðtæka sem valdi því að ekki sé hægt að fallast á hana óbreytta. Í lögbannskröfunni sé ekkert fjallað um skilyrði þess að lögbann verði lagt á heldur sé farið vítt og breitt hvað varðar málsatvik og forsögu ágreinings hluthafa og tengdra aðila. Þá lúti krafan ekki að banni tiltekinnar athafnar, heldur leiði hún til þess, verði á hana fallist að varnaraðila sé með öllu óheimilt að veita „nokkra bankaþjónustu“ við félagið 101 Austurstræti ehf. Ekki verði séð að því sé lýst á fullægjandi hátt hver sú athöfn sé sem krafist sé að lögbann verði lagt við, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 31/1990, enda stundi varnaraðili margvíslega og fjölþætta bankaþjónustu. Varnaraðili bendir á að hann hafi starfsleyfi og stundi leyfisskyldan rekstur samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í því felist m.a. að veita einstaklingum og fyrirtækjum greiðsluþjónustu með löglega stofnuðum bankareikningum. Að mati varnaraðila sé lögbannskrafa sóknaraðila ekki tæk til meðferðar og í raun fari hún „freklega“ í bága við frelsi til atvinnu sem varið sé af 75. gr. stjórnarskrárinnar.
Samandregið kveður varnaraðili að hann hafi fylgt öllum reglum og settum lögum við stofnun bankareiknings félagsins 101 Austurstræti ehf. í útibúi varnaraðila. Samningur um stofnun bankareiknings hafi skuldbindingargildi sé hann undirritaður af prókúruhafa og meirihluta stjórnar eins og hátti til í máli þessu. Slíkur samningur geti á engan hátt falið í sér óvenjulega eða mikils háttar skuldbindingu fyrir félag. Þá hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir ætlaða röskun hagsmuna hans tryggi ekki nægilega þann rétt sem lögbanninu sé ætlað að vernda. Skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir lögbannskröfu sóknaraðila séu ekki uppfyllt og henni beri að hafna. Varnaraðili telur því að höfnun sýslumanns á lögbannsbeiðni sóknaraðila sé lögum samkvæmt og haggi málatilbúnaður sóknaraðila fyrir dómi jafnframt í engu þeirri niðurstöðu.
Vísað sé til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, auk meginreglna réttarfars um lögvarða hagsmuni sem og ákvæða laga nr. 91/1991 um aðild og málskostnað.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu, sem réttilega er borið undir dóminn á grundvelli V. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og innan þess frests og með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 33. gr. laganna, hefur sóknaraðili krafist þess að ákvörðun sýslumanns frá 14. júlí 2016 verði felld úr gildi og að dómurinn leggi fyrir sýslumann að leggja lögbann við tilteknum athöfnum varnaraðila í tengslum við bankaþjónustu hans við félagið 101 Austurstræti ehf. Varnaraðili hefur hafnað kröfu sóknaraðila m.a. á grundvelli þess að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fallist verði á kröfu hennar og með þeim rökum að skilyrði lögbanns séu ekki fyrir hendi.
Sýslumaður synjaði lögbannsbeiðninni með bréfi til sóknaraðila, 14. júlí 2016, án þess að boða aðila til fyrirtöku og endursendi sóknaraðila beiðnina ásamt fylgigögnum, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 8. gr. laga nr. 31/1990, þar sem sýslumaður taldi sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á eða gert sennilegt að skilyrðum 24. gr. áðurnefndra laga nr. 31/1990 væri fullnægt. Með tölvuskeyti til sýslumanns 21. júlí sl. tilkynnti sóknaraðili um að hún hygðist bera málið undir dómstóla.
Um skilyrði lögbanns er fjallað í 24. gr. laga nr. 31/1990 þar sem segir að heimilt sé að leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar sanni gerðarbeiðandi eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun sem ekki verður beitt nema fyrir liggi að almenn úrræði komi ekki að nægu haldi, enda sé þá fullnægt öðrum skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990.
Í málinu liggur fyrir fjöldi skjala er lúta að innri málefnum félagsins 101 Austurstræti ehf. og þeim ágreiningi er ríkir innan félagsins um stjórn þess og eignarhald auk málefna félagsins Alfacom General Trading ehf., er tengjast Kamran Keivanlou, stjórnarformanni áðurnefnds félags, og Austurstræti 5 ehf. er tengist Ásgeiri Kolbeinssyni, framkvæmdastjóra fyrstnefnda félagsins. Þá er þar einnig gögn að finna er lýsa því hvernig ágreiningur af ýmsu tagi varðandi áðurnefnd félög hefur verið til úrlausnar fyrir ýmsum stjórnvöldum. Af lestri þessara gagna er ekki varhugavert að álykta sem svo að innan félagsins ríki djúpstæður ágreiningur og að stjórn félagsins sé vart starfhæf. Í máli þessu, er lýtur að því hvort skilyrði lögbanns séu fyrir hendi, verður ekki kveðið upp úr um eignarhald á félaginu 101 Austurstræti ehf., hvernig stjórn þess er skipuð eða lögmæti ýmissa gerninga er gerðir hafa verið. Fyrir dóminum er eingöngu til úrlausnar að meta hvort skilyrðum lögbanns sé fullnægt og m.a. í því ljósi hvort sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að setja fram kröfu þar að lútandi.
Samkvæmt vottorði 29. apríl 2016 úr fyrirtækjaskrá sitja í stjórn félagsins 101 Austurstrætis ehf. Kamran Keivanlou, sem jafnframt er stjórnarformaður, Gholamhossein Mohammad Shirazi, Ásgeir Kolbeinsson og Kolbeinn Pétursson. Ásgeir er jafnframt skráður framkvæmdastjóri en ágreiningur er um stöðu hans innan félagsins samkvæmt áðurnefndu vottorði. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að fyrirtækjaskrá hefur hafnað breytingu á skráningu félagsins, sem dagsett er 6. maí 2016, þar sem stjórnarformaður er tilgreindur Gholamhossein Mohammad Shirazi en aðrir í stjórn sagðir Hamed Mohamadshirazi, Ásgeir Kolbeinsson og Kolbeinn Pétursson, á meðan innri málefni félagsins eru óleyst. Félagið Alfacom General Trading ehf. mun hafa keypt allt hlutafé í 101 Austurstræti ehf. af framangreindum Ásgeiri og Bakkagranda ehf. með kaupsamningi dagsettum 17. október 2013. Fyrir Hæstarétti er nú rekið mál í tengslum við efndir kaupsamningsins þar sem aðilar hans hafa uppi kröfur á hendur hvor öðrum vegna meintra vanefnda á samningnum.
Sóknaraðili kveðst vera eigandi 50% eignarhluta í félaginu 101 Austurstræti ehf. sem hún hafi eignast með framsali frá Gholamhossein Mohammed Shirazi samkvæmt kaupsamningi þar um 15. febrúar 2016. Þá kveðst hún einnig vera eigandi 50% eignarhluta síns í félaginu Alfacom General Trading ehf.
Til að skýra aðild sína að málinu hefur sóknaraðili lagt fram afrit úr hlutaskrá félagsins er gefa til kynna að 11. desember 2014 hafi hlutafé í félaginu 101 Austurstræti ehf. að helmingi verið í eigu Gholamhossein Mohammed Shirazi á móti helmingi í eigu Bakkagranda ehf. og Ásgeirs Kolbeinssonar. Samkvæmt þessum sömu gögnum er sóknaraðili tilgreindur eigandi helmingshlutafjár á móti Bakkagranda ehf. og Ásgeiri Kolbeinssyni 15. febrúar 2016. Fram kom fyrir dóminum að gögn þessi séu færð af stjórnarformanni félagsins, Kamran Keivanlou, en ekki stjórn þess. Þá hefur sóknaraðili einnig lagt fram samning frá 15. febrúar 2016 sem undirritaður er af hálfu sóknaraðila sem kaupanda og af Kamran Keivanlou fyrir hönd Gholamhossein Mohammed Shirazi sem seljanda að því er virðist samkvæmt umboði frá 18. október 2013. Fram kemur í gögnum málsins að áhöld eru um hvort nefndur Kamran hafi heimild til að selja hluti í félaginu fyrir hönd Gholamhossein á grundvelli áðurnefnds umboðs. Umboðið liggur ekki fyrir í gögnum málsins. Þá er einnig í gögnum málsins vikið að umboði frá 16. október 2013 en það liggur heldur ekki fyrir í gögnum málsins og óljóst hvort um eitt og sama umboðið er að ræða. Þá verður ekki skýrlega ráðið af gögnum málsins að áðurnefndur kaupsamningur hafi verið lagður fyrir stjórn félagsins eins og kveðið er á um í samþykktum þess.
Gögn málsins gefa til kynna að Kamran Keivanlou hafi þann 11. nóvember 2015 selt sóknaraðila 50% í félaginu Alfacom General Trading ehf. Þó gefa gögn málsins einnig til kynna að á árinu 2013 hafi Kamran Keivanlou selt Gholamhossein alla hlutina í félaginu Alfacom General Trading ehf. og hinn síðarnefndi hafi því á árinu 2013 átt alla eignarhlutina í áðurnefndu félagi. Ekki er á hinn bóginn að finna upplýsingar í gögnum málsins um að nefndur Gholamhossein hafi selt Kamran einhverja hluti í félaginu á ný áður en kom að fyrrnefndri sölu 11. nóvember 2015. Þá gefa gögn málsins til kynna að Alfacom General Trading ehf. hafi þann 11. desember 2014 selt Gholamhossein 50% eignarhlut sinn í 101 Austurstræti ehf. og að Gholamhossein hafi selt þá hluti í félaginu áfram til sóknaraðila 15. febrúar 2016 eins og áður sagði.
Í málinu liggur því fyrir fjöldi gagna þar sem rakin eru kaup og sala hluta í félaginu Alfacom General Trading ehf. og á hlut þess félags í félaginu 101 Austurstræti ehf. Upplýsingar þessar eru mjög misvísandi. Virðist hér um fjölda gerninga að ræða sem að nokkru rekast þó hver á annan þegar litið er til þess hvaða hluti er verið að sýsla með og hvenær. Þannig virðist Kamran Keivanlou selja Gholamhossein alla sína hluti í félaginu Alfacom General Trading ehf. í tvennu lagi á árinu 2013. Gholamhossein virðist þá einn eigandi að félaginu en á árinu 2014 hafi allir hlutir Alfacom í 101 Austurstræti ehf. verið seldir Gholamhossein og hann svo selt sóknaraðila umrædda hluti á árinu 2016. Í gögnum málsins er að finna tölvupóst frá lögmanni Gholamhossein þar sem brigður eru bornar á áðurnefnda gerninga á árinu 2014 og 2016. Þá kemur einnig fram í gögnum málsins að lögmaður Kamran Keivanlou hafi talið samning frá 4. október 2013 óumdeildan þar sem Kamran selur Gholamhossein síðari 50% í Alfacom General Trading ehf. Af þessu öllu leiðir að sóknaraðili hefur, að mati dómsins, ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að þjónusta varnaraðila, sem krafist sé lögbanns á, brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hennar þannig að talið verði að hún hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og geti beint kröfu til dómsins um lögbann, líkt og greinir í kröfu hennar. Er kröfunni því þegar af þeirri ástæðu hafnað, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989. Koma því efnisleg sjónarmið og málsástæður aðila ekki til frekari skoðunar af hálfu dómsins.
Með hliðsjón af úrslitum málsins ber sóknaraðila að greiða varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 31. ágúst sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Effat Kazemi Boland, um að felld verði gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. júlí sl. um að synja beiðni hennar um lögbann og jafnframt hafnað kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni hennar.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað.