Hæstiréttur íslands
Mál nr. 390/2008
Lykilorð
- Skaðabætur
- Sakarskipting
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2009. |
|
Nr. 390/2008. |
Gunnar Þór Ólafsson(Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Guðmundi Guðmundssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu (Jakob R. Möller hrl.) |
Skaðabætur. Sakarskipting. Sératkvæði.
GÓ krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu GG vegna tjóns sem hann varð fyrir við að golfkúla sem GG sló lenti í hægra auga GÓ með þeim afleiðingum að rifa kom á augað við höggið og augntóftarbein brotnaði. Hæstiréttur taldi að þótt fallast mætti á það, sem segði í forsendum héraðsdóms um viðhorf um vægara sakarmat við iðkun golfíþróttarinnar og raunar íþrótta almennt, væri ekki unnt að fallast á að þau viðhorf leiddu til þess að sök yrði ekki lögð á GG. Var þá haft í huga að GÓ hefði verið staddur nánast beint í skotlínu GG, GÓ hlyti að hafa séð GG þegar hann sló og auðvelt hefði verið að gera honum og félögum hans viðvart áður en slegið var. Þá taldi Hæstiréttur ekki unnt að fallast á málflutning GG um að sjónarmið um áhættutöku leiddu til þess að hann yrði ekki gerður bótaábyrgur fyrir tjóni GÓ, en litið hefði verið til slíkra sjónarmiða við sakarmatið. Var því fallist á með GÓ að GG bæri fébótaábyrgð á tjóni hans. Hæfilegt þótti að GÓ bæri helming tjóns síns, þar sem hann hefði ekki uppfyllt nægilega aðgæslukröfur sem gerðar hefðu verið til hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2008. Hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni, sem áfrýjandi varð fyrir 16. nóvember 2002 við að golfkúla sem stefndi sló á golfvelli Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ lenti í hægra auga áfrýjanda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.
Fyrir Hæstarétt var lagður uppdráttur af golfvelli Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ, sem var sagður gerður eftir loftmynd, tekinni á slysárinu 2002. Á uppdráttinn voru auðkenndir þeir staðir á þriðju og fjórðu brautum vallarins sem skipta máli við úrlausn málsins. Voru aðilar sammála um staðsetningu þeirra. Áður en munnlegur málflutningur hófst fyrir Hæstarétti gengu dómarar og málflytjendur á vettvang slyss áfrýjanda, sbr. niðurlagsákvæði 2. mgr. 103. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu stefnda var meðal annars byggt á því að við mat á sök stefnda yrði að skoða „innbyrðis staðsetningu“ aðila þegar óhappið varð. Taldi stefndi að áfrýjandi hefði ekki verið í „svokallaðri skotlínu“ fyrir golfhöggið sem slysinu olli. Við úrlausn um þetta var í hinum áfrýjaða dómi tekin afstaða til þess hvort stefndi hefði slegið höggið af svonefndum sumarteig fjórðu brautar golfvallarins eða vetrarteig. Liggur fyrir að áfrýjandi hefði verið nokkurn veginn í beinni skotlínu ef slegið hefði verið af sumarteignum en lítið eitt til hliðar ef slegið hefði verið af vetrarteig. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um að áfrýjanda hafi ekki tekist sönnun um að stefndi hafi slegið höggið af sumarteignum og beri því að leggja til grundvallar að slegið hafi verið af vetrarteignum.
Af uppdrættinum sem lagður var fyrir Hæstarétt verður ráðið að stefnan frá höggstaðnum að þeim stað þar sem áfrýjandi stóð var varla nema um 10-15 gráður frá því sem telja má eðlilega eða æskilega höggstefnu við upphafshögg stefnda frá vetrarteig fjórðu brautar. Það verður því ekki fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að hér hafi verið um að ræða „talsvert frávik“ frá slíkri stefnu. Fyrir liggur í málinu að fjarlægðin milli þessara tveggja staða er 60-80 metrar svo sem lagt er til grundvallar í héraðsdómi. Golfhóparnir tveir vissu hvor af öðrum. Teigur fjórðu brautar stendur nokkru hærra en völlurinn fyrir neðan, þar sem áfrýjandi stóð. Virðist stefndi hafa ætlað slá bolta sinn hátt yfir og lítið eitt til hliðar við áfrýjanda og félaga hans. Eftir vettvangsgöngu Hæstaréttar og raunar miðað við gögn málsins er ekki vafi á að ekkert bar í milli stefnda og áfrýjanda þegar höggið var slegið. Þeir gátu því séð hvor til annars. Þó að fallast megi á það sem segir í forsendum hins áfrýjaða dóms um meginviðhorf við sakarmat við iðkun golfíþróttarinnar, og raunar íþrótta almennt, er ekki unnt að fallast á, eins og þetta mál liggur fyrir, að þau viðhorf leiði til þess að sök verði ekki lögð á stefnda. Er þá haft í huga að áfrýjandi var staddur nánast beint í skotlínu hans, stefndi hlaut að hafa séð áfrýjanda þegar hann sló og auðvelt var að gera honum og félögum hans viðvart, áður en slegið var.
Ekki er unnt að fallast á málflutning stefnda um að sjónarmið um áhættutöku leiði til þess að hann verði ekki gerður bótaábyrgur fyrir tjóni áfrýjanda. Sjónarmið sem að þessu lúta hafa fyrst og fremst áhrif á sakarmatið að framan og hefur þar verið litið til þeirra. Samkvæmt framansögðu verður fallist á með áfrýjanda að stefndi beri fébótaábyrgð á tjóni hans.
Svo sem áður sagði vissi áfrýjandi af ráshópi stefnda og jafnframt að sá hópur hafði lokið við að leika þriðju holu og var kominn á teig þeirrar fjórðu. Áfrýjandi hafði slegið boltann sinn á svæði milli brautanna og var því miklu nær skotlínu af fjórða teig en annars hefði verið. Hann hafði óskerta sjónlínu að þeim stað þar sem stefndi sló. Leikreglur í golfi gera ráð fyrir, eins og í héraðsdómi greinir, að sá sem leikur holu með hærra númeri njóti forgangs gagnvart þeim sem á eftir honum leika. Við þessar aðstæður verða gerðar aðgæslukröfur til áfrýjanda, sem hann sinnti ekki nægilega umrætt sinn. Þykir hæfilegt að láta hann af þessum sökum sjálfan bera helming tjóns síns.
Miðað við þessi málsúrslit og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda upp í málskostnað hans í héraði og fyrir Hæstarétti fjárhæð sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndi, Guðmundur Guðmundsson, beri skaðabótaábyrgð á helmingi þess tjóns sem áfrýjandi, Gunnar Þór Ólafsson, varð fyrir 16. nóvember 2002 á golfvelli Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ, þegar stefndi sló golfbolta sem lenti í hægra auga áfrýjanda.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Viðars Más Matthíassonar
Ég tel að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm með vísan til forsendna hans. Þá tel ég að áfrýjandi eigi að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. f.m., er höfðað 11. júní 2007 af Gunnari Þór Ólafssyni, Eikjuvogi 13 í Reykjavík, á hendur Guðmundi Guðmundssyni, Sjávargrund 13B, Garðabæ.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem stefnandi varð fyrir 16. nóvember 2002 við það að golfkúla sem stefndi sló á golfvelli Kjalar í Mosfellsbæ lenti í hægra auga stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara að sök verði skipt og málskostnaður felldur niður.
Stefnandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.
I.
Málavextir eru þeir helstir að 16. nóvember 2002 var stefnandi að spila golf á golfvelli Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ. Voru hann og þrír meðspilarar hans þátttakendur í móti sem fór fram á vellinum þennan dag. Var stefnandi að ganga að vetrarflöt á þriðju braut vallarins þegar stefndi sló upphafshögg af 4. teig, en þessar brautir liggja að hluta til samsíða. Mun fjarlægðin á milli aðilanna hafa verið 60-80 metrar. Höggið mistókst. Tók kúlan sveig yfir til vinstri og lenti í hægra auga stefnanda. Kom rifa á augað við höggið og augntóftarbein brotnaði. Í aðgerð sem framkvæmd var sama dag var gert að meiðslum stefnanda eftir föngum. Áverkinn var hins vegar það mikill að í dag skynjar stefnandi eingöngu ljós með auganu og telst því blindur á því. Telur augnæknir mjög ólíklegt að breyting verði hér á.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut með framangreindum hætti. Stefndi hafnar því að ábyrgð á tjóni stefnanda verði felld á hann.
II.
Að því er málsatvik varðar er í stefnu vísað til þess að í skýrslu lögreglumanns, sem kom á vettvang skömmu eftir slysið, komi fram að stefndi hafi slegið upphafshögg sitt á 4. teig vallarins með svokölluðum „dræver“, en slík kylfa sé nánast eingöngu notuð við upphafshögg þar sem markmiðið er að slá sem allra lengst og fastast. Í skýrslunni sé haft eftir stefnda að höggið hafi misheppnast og að hann hafi slegið kúluna um 70 metra þar sem hún hafnaði á stefnanda. Þá beri stefnda og tveimur mönnum sem voru með honum saman um það, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni, að stefndi hafi vitað af stefnanda og staðsetningu hans áður en höggið reið af, það er að stefnandi hafi verið í sömu eða svipaðri stefnu og fyrirhugað högg. Þeir hefðu þrátt fyrir þetta talið að stefnandi og félagar hans væru það langt í burtu að óhætt væri að slá.
Stefnandi hafi verið algerlega óviðbúinn og ekki vitað af kúlunni eða orðið hættunnar að öðru leyti var fyrr en kúlan skall í andliti hans. Í áðurnefndri lögregluskýrslu segi ranglega að stefndi og félagar hans hafi kallað viðvörunarorðið „fore“ meðan kúlan var enn í loftinu á leið að stefnanda. Hið rétta sé að viðvörunarkallið barst ekki fyrr en eftir að kúlan hafði skollið í andliti stefnanda og hann fallið á jörðina.
Í stefnu er þessu næst vikið að afleiðingum þess að golfkúlan lenti í hægra auga stefnanda. Hann hafi þegar verið fluttur á sjúkrahús. Augað hafi verið illa sprungið og augntóftarbein brotið. Í aðgerð sem framkvæmd var samdægurs hafi verið gert að meiðslum stefnanda eftir föngum. Ljóst hafi verið að mikil hætta væri á sjónhimnulosi, sem hafi í för með sér sjónmissi. Við eftirlit nokkrum dögum síðar hafi slíkt sjónhimnulos komið í ljós. Hafi stefnandi gengist undir ýmsar aðgerðir vegna meiðsla sinna meðan hann lá á sjúkrahúsi eftir atburðinn. Síðan sjúkrahúsvist lauk hafi hann þurft að vera undir stöðugu eftirliti. Skynji hann einungis ljós með auganu og telst því blindur á því. Að mati augnlæknis sé mjög ólíklegt að stefnandi fái sjónina á ný.
Stefnandi byggir á því að líkamstjón hans sé bein og sennileg afleiðing af gáleysi stefnda þegar hann sló kúluna umrætt sinn þannig að hún hafnaði í auga stefnanda. Um rök fyrir ábyrgð stefnda er bæði vísað til almennra varúðarsjónarmiða og eðlis máls, sem og sérstakra varúðarreglna sem felist í alþjóðlegum og íslenskum reglum um golfiðkun.
Í fyrsta lagi vísar stefnandi til þess að golfkúlur séu eða geti að minnsta kosti verið hættulegar heilsu manna þegar þær eru slegnar. Þær falli því undir hættuleg tæki sem almennt séð sé nauðsynlegt að meðhöndla með varúð. Sérstaklega eigi þetta við um högg af því tagi sem stefndi sló umrætt sinn og með þeirri gerð af kylfu sem hann sló með. Geysilegur kraftur sé í kylfuhausnum og golfbolta á flugi, nægilegur til að valda alvarlegum áverka. Í gögnum málsins, nánar tiltekið í bæklingi Golfsambands Íslands sem heitir Golf með skynsemi eykur ánægjuna, komi fram að golfboltinn vegi um 46 grömm og nái hraðanum 260 km/klst., eða 65 m/sek. fyrst eftir höggið. Það geti þannig verið lífshættulegt að fá golfkúlu í sig og henni fylgi algengasta og alvarlegasta hættan við golfiðkun. Almenn og eðlileg varúðarskylda gagnvart öðrum leikmönnum verði af þessum sökum lögð á þá sem leika golf, einkum og sér í lagi við högg af því tagi sem stefndi sló umrætt sinn, þar sem miklu afli er beitt, slegið er langt og svigrúm bæði stærra fyrir hugsanleg mistök sem og hættan meiri á slysum af þeirra völdum, meðal annars vegna þess að tiltölulega stærra svæði er undir sem hættusvæði við höggið.
Í öðru lagi er sérstaklega byggt á að stefndi hafi vitað af stefnanda og þannig gert sér grein fyrir því að hann væri í sömu eða svipaðri stefnu og stefndi beindi fyrirhuguðu höggi. Þrátt fyrir þessa vitneskju hafi stefndi slegið kúluna án frekari athugunar eða aðgæslu og í trausti þess að stefnanda væri ekki hætta búin af því þar sem hann væri utan hættusvæðis vegna höggsins. Það mat stefnda hafi verið rangt, svo sem áþreifanlega hafi komið í ljós. Leiði þetta eitt og sér til þess að stefndi verði að bera ábyrgð á því hverjar afleiðingarnar af þessu ranga mati hans á aðstæðum urðu, sem stefnandi telur að meta verði stefnda til stórkostlegs gáleysis. Í framangreindum bæklingi og í kafla um öryggisatriði sé sérstök áhersla á það lögð að aldrei eigi að slá of snemma. Komi þar fram að kylfingur skuli ekki slá ef minnsta hætta er á að boltinni hitti einhvern. Sömu sjónarmið komi fram í Reglum fyrir golfleik, en þar sé meðal annars mælt fyrir um það að allt svæðið fyrir framan leikmann sem ætlar að fara að slá sé hættusvæði. Af orðalaginu sé ljóst að hættusvæðið afmarkist þannig að átt sé við allt að því 180 gráður fyrir framan kylfinginn, enda sé tekið sérstaklega fram að kylfingur geti jafnvel hitt boltann svo skakkt að hann fljúgi nær hornrétt til hliðar og í allt aðra átt en ætlað var. Kylfingur verði við mat sitt á því hvort honum sé rétt og óhætt að slá að taka tillit til alls þessa svæðis. Hann stoðar ekki að bera fyrir sig síðar að boltinn hafi farið meira eða minna í aðra átt en ætlað var, þar sem hann veit eða má vita, samkvæmt framangreindu, að alltaf sé hætta á að slíkt geti gerst. Ábyrgð á því að tryggja öryggi vegna högga hverju sinni hvíli á þeim kylfingi sem slær, enda standi það honum næst að tryggja slíkt öryggi og hann eigi auðveldast með það.
Í þriðja lagi er bent á að stefndi hafi ekkert vitað um yfirvofandi hættu fyrr en kúlan hæfði hann. Hann hafi hvorki gert sér grein fyrir höggi stefnda né orðið kúlunnar var áður en hún skall í andliti hans. Hann hafi því verið gjörsamlega óviðbúinn tjónsatburðinum og ekkert ráðrúm haft til að verja sjálfan sig með einhverjum ráðum. Tekur stefnandi sérstaklega fram í þessu sambandi að ranghermt sé í fyrirliggjandi lögregluskýrslu að stefndi og félagar hans hafi kallað viðvörunarorðið „fore“ meðan kúlan var í enn í loftinu. Er að auki bent á að út frá algengum hraða golfkúlu við upphafshögg samkvæmt framansögðu og áætlaðri fjarlægð milli stefnda og stefnanda, um 70 metrar samkvæmt lögregluskýrslu, megi ljóst vera að samanlagt ráðrúm stefnda til þess að kalla og stefnanda til að bregðast við sé aðeins um 1 sekúnda. Sú staðreynd geri það í fyrsta lagi afar ósennilegt að stefndi og þeir sem með honum voru hafi náð að kalla áður en kúlan hæfði stefnanda. Og jafnvel þó svo hefði verið sé í öllu falli útilokað að stefnandi hefði haft ráðrúm til að bregðast við slíku kalli.
Í fjórða lagi er öllum fullyrðingum stefnda um áhættutöku stefnanda og eigin sök hans alfarið hafnað og þeim mótmælt. Sérstaklega er á það bent að golf verði tæplega talið til íþróttagreina sem eru þess eðlis að falla undir áhættutökureglur á grundvelli þess að um sé að ræða líkamlega snertingu og jafnvel átök, en út frá þessu sé gengið í mannhelgisbálki Jónsbókar.
Áður hafi verið rökstutt að það hafi engin áhrif á sakarmat í málinu þó svo að kúlan hafi ekki farið nákvæmlega þangað sem stefndi ætlaði og að ábyrgð á því að tryggja öryggi vegna höggsins hvíli á stefnda, en ekki stefnanda. Þá hafi því verið lýst að viðvörunarkallið „fore“ hafi ekki verið gefið áður en kúlan hæfði stefnanda. Í öllu falli hafi ráðrúm til þess að gefa slíka viðvörun verið hlutlægt séð því sem næst ekkert og því annars vegar ólíklegt að náðst hafi að gefa það og hins vegar útilokað fyrir stefnanda að bregðast við því jafnvel þó svo hefði verið.
Stefnandi vísar til réttarreglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og annarra almennra ólögfestra reglna skaðabótaréttar. Meðal annars er byggt á ólögfestum sjónarmiðum um aukna ábyrgð og strangara sakarmat vegna notkunar hættulegra tækja. Stefnandi vísar einnig til ákvæða og meginreglna skaðabótalaga nr. 50/1993.
III.
Um málavexti er í greinargerð vísað til þess að hinn umrædda dag hafi stefndi verið að taka þátt í golfmóti og verið í holli með þremur öðrum leikmönnum, þeim Gísla Sveinssyni, Sverri Björnssyni og Friðjóni Þórarinssyni. Stefnandi hafi verið í holli á eftir þeim ásamt tveimur meðspilurum. Stefndi og meðspilarar hans hafi verið staddir á teig fjórðu brautar þegar slysið varð, en stefnandi verið að ganga að vetrarflöt þriðju brautar, sem líklega hafi á þessum verið staðsett aðeins til hliðar við sumarflöt þriðju brautar. Stefnandi hafi ekki verið í skotlínu stefnda og ekki fylgst með öðrum hollum. Mikil pressa sé jafnan á golfurum að halda almennilegum spilhraða og eigi það sérstaklega við um golfmót. Í þessu tilviki hafi til viðbótar þessu verið fyrir hendi pressa frá holli stefnanda um að stefndi og þeir sem voru með honum í holli spiluðu hratt. Þegar stefndi sló upphafshögg sitt af fjórða teigi hafi ekki sést til stefnanda vegna kletta eða steina sem eru rétt framan við teiginn. Stefndi hafi slegið þetta högg með 3-tré golfkylfu. Höggið hafi ekki heppnast sem skildi og golfkúlan farið til hliðar og beint í áttina að stefnanda, sem allt í einu hafi birst við hornið á klettunum eða steinunum. Samkvæmt lögregluskýrslu hefðu stefndi og meðspilarar hans kallað „fore“, svo sem siðareglur geri ráð fyrir. En allt kom fyrir ekki og hafi stefnandi fengið golfkúluna í annað augað.
Hinn 30. maí 2006, eða þremur og hálfu ári eftir slysið, hafi lögmaður stefnanda sent réttargæslustefnda bréf, þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu á því að tjón stefnanda yrði greitt úr F+ tryggingu stefnda Guðmundar hjá réttargæslustefnda. Ekki hafi fylgt rökstuðningur um af hverju vátryggingin ætti að bæta tjón stefnanda. Í svarbréfi réttargæslustefnda 6. júní 2006 var tekið fram að stefndi Guðmundur hafi verið ábyrgðartryggður hjá réttargæslustefnda í gegnum F+ trygginguna. Þá var bótaskyldu hafnað á grundvelli þeirra gagna um slysið sem lögð höfðu verið fram. Ekki hafi heyrst meira frá stefnanda eða lögmanni hans fyrr en mál þetta höfðað með birtingu stefnu 11. júní 2007.
Aðalkrafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á því að ekki hafi verið sýnt fram á það með lagalega fullnægjandi hætti að stefndi hafi viðhaft slíka háttsemi að hann sé skaðabótaskyldur samkvæmt íslenskum lögum. Íslenskur skaðabótaréttur byggi á sakarreglunni, það er að aðili verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars nema tjónið verði rakið til sakar hans. Sönnunarbyrðin fyrir því að stefndi sé skaðabótaskyldur að íslenskum lögum hvíli á stefnanda og sé því hafnað sem ósönnuðu að rekja megi slysið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Um óhapp eða eigið gáleysi stefnanda hafi verið að ræða og enginn annar en stefnandi geti borið ábyrgð á því. Bent sé á eftirfarandi atriði þessu til stuðnings.
Hafa verði í huga að margir tjónaatburðir gerast á hverjum einasta degi á Íslandi. Með því að taka þátt í samfélagi manna sé okkur ljóst að það er ýmislegt sem getur farið úrskeiðis sem leiðir til tjóns. Það sé ekki þar með sagt að slíkum tjónsatburði fylgi ávallt að til skaðabótaskyldu stofnist. Í þessu máli sé það einmitt svo að stefnandi verði að bera tjón sitt sjálfur. Er því þannig mótmælt af hálfu stefnda að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þegar slysið varð. Um óhapp hafi verið að ræða eða gáleysi stefnanda sjálfs. Við mat á saknæmi í þessu máli verði að skoða innbyrðis staðsetningu stefnanda og stefnda. Stefnandi hafi ekki verið í svokallaðri skotlínu stefnda og því hafi verið óhætt fyrir stefnda að slá upphafshöggið af teig fjórðu brautar. Er því mótmælt sem fram kemur í stefnu að stefnandi hafi verið í sömu eða svipaðri stefnu og fyrirhugað högg stefnda. Það sé alfarið ósannað. Því er sérstaklega hafnað sem rökleysu að golfkylfa sé hættulegt tæki. Allir hlutir séu hættulegir ef þeir eru notaðir á hættulegan hátt, en sömu hlutir séu skaðlausir séu þeir notaðir á réttan hátt. Stefndi hafi notað kylfu sína með réttum hætti í umrætt sinn og séu andstæðar fullyrðingar ósannaðar með öllu.
Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt bæklingnum Golf með skynsemi eykur ánægjuna, en Golfsamband Íslands hafi gefið hann út, komi fram að hópar (holl) sem eru lengra komnir eigi forgangsrétt. Orðrétt segi svo um þetta: „Stundum kemur fyrir að tveir hópar leika nálægt hver öðrum, t.d. þegar teigar liggja saman eða leikmaður hefur slegið yfir á ranga braut. Almenna umferðarreglan er sú að þeir sem lengra eru komnir í leiknum, þ.e. eru að leika á braut með hærra númeri, eiga forgangsrétt.“ Miðað við þetta hafi stefnanda borið að víkja fyrir og fylgjast með höggum þeirra sem voru á undan honum, enda virðist sem hann hafi verið kominn nærri fjórðu brautinni. Það hafi hann ekki gert. Stefndi hafi á hinn bóginn hagað sér eins og hinn góði og gegni golfari hefði gert við sömu aðstæður, það er hann sló upphafshöggið þar sem hann taldi það óhætt. Miðað við fjarlægð, staðsetningar og aðrar aðstæður hefðu allir golfarar slegið þetta upphafshögg á þessum tímapunkti. Ekkert óvenjulegt eða afbrigðilegt hafi verið við það að slá kúlunni á þeim tíma sem stefndi gerði það.
Stefndi telur ósannað að hafi hafi brotið gegn golf- og siðareglum eða almennum varúðarskyldum með því að slá margumrætt upphafshögg. Reglan um að ekki skuli slá ef minnsta hætta er á að boltinn hitti einhvern gangi ekki upp. Það sé alltaf hætta á því að boltinn geti farið í einhvern eins og vellir á Íslandi eru hannaðir. Brautir liggi oft mjög nærri hvor annarri og því sé ómögulegt að framfylgja þessari reglu til fullnustu nema hreinlega að stöðva rennsli leiksins, en það væri í andstöðu við meginregluna um hraðan golfleik. Í fyrrnefndum bæklingi sé sérstakur kafli helgaður spilhraða. Þar komi fram að eitt af helstu vandamálum golfíþróttarinnar í dag sé hægur leikur. Ef byggja ætti á túlkun stefnanda varðandi það hvenær slá megi golfhögg á golfvelli og litið til hönnunar golfvalla á Íslandi megi vera ljóst að hér yrði ekki slegið eitt einasta golfhögg.
Um mat á saknæmi stefnda er í greinargerð vísað til þess að á umræddum golfvelli hafi ekki verið gefið til kynna með merkingum eða á annan hátt að kylfingar þyrftu að viðhafa sérstaka aðgæslu á 3. og 4. braut vallarins.
Stefndi staðhæfir að hann og meðspilarar hans hafi kallað „fore“ eins og golfreglur gera ráð fyrir þegar þeir sáu í hvað stefndi. Hvort stefnandi hafi heyrt viðvörunarorðin eða ekki sé annað mál.
Þá telur stefndi að þótt komist yrði að því að hann hafi brotið gegn tilteknum golf- og/eða siðareglum leiði það eitt og sér ekki sjálfkrafa til skaðabótaskyldu. Annað og meira þurfi til að koma. Reglurnar séu auðvitað eingöngu til leiðbeiningar og hafi ekki lagagildi. Þær séu ekki skráðar hátternisreglur.
Ennfremur sé hér til þess að líta að í íslenskum og erlendum skaðabótarétti hátti þannig til að verði tjón við íþróttaiðkun þá fari ekki fram hefðbundið sakarmat heldur vægt sakarmat. Um þetta séu fræðimenn og dómstólar sammála. Samkvæmt reglunni um vægt sakarmat vegna tjóns við íþróttaiðkun dugi það ekki til sakaráfellis að farið sé út fyrir mörk hins hefðbundna háttsemisramma, heldur þurfi tjónið að stafa af ofsafenginni háttsemi eða algeru tillitsleysi. Gildi þessi regla einnig fyrir golfíþróttina, enda sé ekkert sem bendi til þess að hún eigi eingöngu að gilda um svokallaðar „kontaktíþróttir“. Aðrar íþróttir geti verið hættulegar eða skapað ákveðna áhættu fyrir þátttakendur þótt ekki sé um „kontaktíþrótt“ að ræða.
Í öðru lagi er aðalkrafa stefnda um sýknu byggð á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til skaðabóta vegna reglunnar um áhættutöku. Reglan um áhættutöku standi sjálfstæð sem ábyrgðarleysisregla, en sé ekki hluti af sakarmati. Með þátttöku sinni í golfleiknum (golfmótinu) hafi stefnandi hlotið að gera sér grein fyrir því að sú hætta væri til staðar að hann fengi golfkúlu í sig og reyndar að sérstök hætta væri á því í ljósi aðstæðna. Reglan um áhættutöku gildi um golfíþróttina. Hafi það verið staðfest í norrænni dómaframkvæmd, enda sé það fyllilega eðlilegt í ljósi hættueiginleika golfboltans og þeirrar hættu sem skapast þegar hann er sleginn, jafnan með miklum krafti. Stefnandi hafi tekið þessa áhættu, eins og allir aðrir golfarar, og verði að bera hana sjálfur. Reglan um áhættutöku gildi óháð því hvort stefndi hafi viðhaft saknæma háttsemi eða ekki. Í öllu falli verði reglunni ekki vikið til hliðar nema háttsemi hafi verið verulega fjarri því sem kallast getur hefðbundin háttsemi við tilteknar aðstæður.
Verði fallist á það með stefnda að stefnandi hafi tekið áhættu með því að taka þátt í golfleiknum (golfmótinu) sé ljóst að skaðabótaskylda sé ekki fyrir hendi, ábyrgð gagnvart þeim sem fyrir tjóni varð falli niður í heild sinni en ekki að hluta. Það séu engin rök fyrir því að þeir sem vita af sértækri hættu við rækslu starfs eða iðkun íþrótta eigi að fá hlutfallslegar bætur frá aðila sem varð valdur að tjóni sem tjónþoli gat allt eins búist við.
Einn angi af reglunni um áhættutöku birtist í 13. kafla Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281. Hér sé þó um að ræða sjálfstæða málsástæðu. Í síðasta málslið kaflans segir orðrétt: „Nú gengr maðr til leiks, fangs eða skinndráttar at vilja sínum, þá ábyrgist hann sik sjálfr at öllu, þó at hann fái mein af eða skaða af.“ Þessi regla sé í gildi í dag. Hún sé einnig í algjörum samhljómi við regluna um áhættutöku við íþróttaiðkanir og gildi þá einu hvaða íþrótt það er sem á í hlut. Samkvæmt þessu ákvæði sé ljóst að stefnandi eigi ekki skaðabótakröfu á hendur stefnda, heldur hafi hann ábyrgst sig sjálfur þegar hann ákvað að taka þátt í golfleiknum (golfmótinu). Ekkert í ákvæðinu útiloki að það eigi við um umrætt slys stefnanda.
Í þriðja lagi teflir stefndi fram þeirri málsástæðu fyrir sýknukröfu að eigi umrætt atvik að teljast skaðabótaskylt að íslenskum rétti sé ljóst að það muni hafa víðtæk áhrif á golfíþróttina eins og hún er stunduð í dag. Það hafi verið talið hagur fyrir samfélagið að fólk stundi íþróttir af ýmsu tagi og sé það meðal annars ein röksemdin fyrir vægu sakarmati við íþróttaiðkun. Verði önnur viðmið tekin upp geti hæglega komið til þess en að fólk taki ekki áhættuna af því að stunda íþróttir.
Í aðalkröfu gerir stefndi kröfu um að honum verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um saknæma háttsemi stefnda hafi verið að ræða og að reglan um áhættutöku eða vægt sakarmat breyti því mati ekki, sé ljóst að stefnandi verði að bera hluta tjóns síns vegna eigin sakar. Varakrafa stefnda um að sök verði skipt er byggð á þessu. Með vísan til röksemda í aðalkröfu varðandi meinta saknæma háttsemi stefnda megi ljóst vera að stefnandi hafi gert sér fulla grein fyrir því að hann setti sjálfa sig í hættu með því að fylgjast ekki með hollinu á undan þrátt fyrir forgangsrétt þess. Hann hefði átt að fylgjast með, enda hljóti hann að hafa séð kylfingana á teig fjórðu brautar. Það hafi einnig verið mjög varhugavert hjá honum að gæta ekki sérstaklega að sér við þær aðstæður sem hér voru og einkanlega í því ljósi að búið hafi verið að færa flöt þriðju brautar nær fjórðu brautinni.
IV.
Svo sem fram er komið hefur stefnandi höfðað mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns sem hann hlaut 16. nóvember 2002 þegar golfkúla, sem stefndi sló á golfvelli Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ, Hlíðavelli, lenti í hægra auga hans.
Brautir númer 3 og 4 á Hlíðavelli liggja á kafla samsíða. Er slegið til suðurs af teig 3. brautar og hallar hún talsvert upp á við. Af teig 4. brautar er slegið til norðurs og liggur hún austan megin við 3. brautina og hallar niður á við. Þegar stefnandi varð fyrir því líkamstjóni sem málið tekur til var hann á leið að vetrarflöt 3. brautar, sem á þessum tíma var staðsett austan við sumarflöt þeirrar brautar og þar með nær 4. brautinni. Er ekki ágreiningur í málinu um það hvar stefnandi var staddur þegar golfkúlan, sem stefndi sló, lenti í hægra auga hans, en atvik hafa að þessu leyti verið leidd í ljós með framburði aðila og vætti vitna. Samkvæmt því mun stefnandi hafa átt 30-40 metra ófarna til suðurs að vetrarflöt 3. brautar. Verður af framburði hans og vitna ráðið að hann hafi verið staddur lítið eitt austan við ímyndaða miðlínu á milli teigs og flatar. Má leggja til grundvallar við úrlausn málsins að fjarlægð á milli aðila hafi verið 60-80 metrar. Rétt ofan við sumar- og vetrarflöt 3. brautar er lár klettur og er sumarteigur fyrir 4. braut staðsettur austast á honum. Er nokkur hæðarmunur á milli teigsins og brautarinnar framundan. Fleiri teigar eru síðan austan við þennan sumarteig og þar með fjær 3. brautinni. Er einn þeirra og sá sem er næstur honum í aðeins minni hæð. Aðrir teigar fyrir þess braut liggja síðan enn neðar eftir því sem norðar dregur, en sá neðsti (rauður teigur) er á móts við vetrarflöt 3. brautar. Þaðan sér því vel yfir alla 3. brautina. Upphafshögg stefnda á 4. teig heppnaðist ekki sem skyldi og fór kúlan yfir til vinstri, það er til vesturs, miðað við eðlilega og rétta höggstefnu. Lýsti stefndi högginu svo að það hafi verið óvenjulegt, kúlan hafi farið „yfir til vinstri og skrúfar sig niður til vinstri“. Sú aðstaða er hins vegar uppi í málinu að því er þetta frávik varðar að menn greinir á um það af hvaða teig stefndi sló.
Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á sakarreglunni. Reglan tekur mið af því hvað teljast má eðlileg og forsvaranleg háttsemi á viðkomandi sviði. Sem endranær er álitaefnið það hvort stefnda hafi borið að ganga fram með öðrum hætti en hann gerði og þá í ljósi allra aðstæðna og hvaða kröfur hafi með réttu mátt gera til hans svo sem á stóð.
Á þeim tíma sem um ræðir í málinu voru málsaðilar engir nýgræðingar í golfi. Hafði stefnandi stundað íþróttina frá árinu 1994 og var með 25 í forgjöf, en forgjöf stefnda var heldur lægri, eða í kringum 20. Tveir af þremur meðspilurum stefnda höfðu slegið upphafshögg af 4. teig þegar kom að honum. Bar þeim saman um að ekkert hafi hindrað þá í að slá sín upphafshögg og að þeir hafi enga hættu skynjað. Framburður stefnda var á sama veg að því er hans upphafshögg varðar. Hann hafi fyrst gert sér grein fyrir hættunni þegar hann fylgdist með flugi kúlunnar og þá séð að hún stefndi í átt að stefnanda. Fyrr hafi hann ekki orðið var við stefnanda eða gert sér grein fyrir að einhver hætta gæti verið samfara upphafshöggi hans. Hann hafi þó vitað af stefnanda og að þriggja eða fjögurra manna holl væri á eftir þeim. Vitnisburður þeirra þriggja manna sem voru í ráshópi með stefnda var mjög á sama veg að þessu leyti og að þeir hafi þannig ekki skynjað hættu fyrr en eftir að stefndi hafði slegið upphafshögg sitt. Voru tveir þeirra helst á því að stefnandi hafi komið úr hvarfi á þeim tíma sem leið meðan stefndi undirbjó sig fyrir högg sitt og sló það.
Stefnandi hefur skýrt svo frá að hann hafi séð til stefnda og meðspilara hans á sumarteig 4. brautar og þá haft orð á því að honum findist skrýtið að slegið væri þaðan. Hann hafi hins vegar ekki séð þá slá. Því er áður lýst hvar stefnandi var staddur þegar golfkúla stefnda skall á andliti hans. Við þessar aðstæður og svo sem stefnandi hefur sjálfur lýst þeim var fullt tilefni til þess fyrir hann að gæta sérstakrar varúðar.
Flest bendir til þess að stefndi og meðspilarar hans hafi kallað viðvörunarorðið „fore“ þegar þeim varð ljóst að kúlan stefndi í átt að stefnanda. Því verður hins vegar ekki slegið föstu að stefnandi hafi heyrt það og í öllu falli þykir mega ganga út frá því í ljósi aðstæðna að hann hafi ekkert ráðrúm haft til að bregðast við því.
Þegar skorið er úr um það af hvaða teig stefndi sló í umrætt sinn er fyrst til þess að líta að vitnið Gísli Sveinsson, sem var í ráshópi með stefnda, var afdráttarlaus í þeim vitnisburði sínum að ekki hafi verið slegið af teignum sem er uppi á klettinum, heldur af vetrarteig austan hans. Vitnisburður Hauks Hafsteinssonar, sem var framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Kjalar á þessum tíma og var í ráshópi sem kom næstur á eftir ráshópi stefnanda, var á sama veg. Samræmist þetta viðtekinni tilhögun þegar golf er leikið hér á landi að vetrarlagi, það er að aðalteigar vallar séu þá ekki notaðir. Þessu til viðbótar kemur svo að það yrði að teljast harla óvenjuleg ráðstöfun í ljósi afstöðunnar á milli þess sumarteigs 4. brautar, sem hér um ræðir, og vetrarflatar 3. brautar, hafi sumarteigurinn verið notaður, enda hefði það haft stóraukna hættu í för með sér. Það sem hins vegar mestu skiptir í þessu sambandi er að aðstæður á þeim hluta vallarins sem hér um ræðir og lýsing vitna á atvikinu þykja renna stoðum undir það að ekki hafi verið slegið af sumarteignum, heldur af vetrarteig austan hans, sem að auki hafi þá verið staðsettur álíka langt til suðurs og sumarteigurinn. Er að þessu virtu og í ljósi framburðar stefnda lagt til grundvallar dómi að hann hafi slegið umrætt högg sitt frá þeim stað eða lítið eitt norðan við hann. Af þessu og öðru því sem rakið hefur verið og fram er komið í málinu má ljóst vera að um talsvert frávik frá eðlilegri höggstefnu var að ræða.
Með sama hætti og við á um margar aðrar íþróttagreinar fylgir ákveðin tjónshætta iðkun golfíþróttarinnar, svo sem þetta mál sýnir. Nægir í þeim efnum að vísa til þess hvernig golfkúlan er úr garði gerð og þess hraða sem hún getur náð, einkum fyrst eftir að hún er slegin. Fjölmörg önnur atriði koma hér til. Ákveðin hætta er því jafnan fyrir hendi þegar golf er leikið og án þess að hún geti talist fyrirsjáanleg eða nálæg. Þegar bætur eru sóttar á grundvelli sakarreglunnar vegna slysa sem verða við íþróttaiðkun hafa verið gerðar vægari kröfur við sakarmat en almennt gilda og á það bæði við um mörk þess hlutlæga háttsemisramma sem almennt er viðurkenndur og huglægra þátta. Er það mat dómsins að þessi sjónarmið eigi við um golfíþróttina, enda þótt henni verði að þessu leyti ekki að fullu jafnað við ýmsar aðrar íþróttagreinar þar sem tekist er á í návígi og mikil líkamleg snerting er stór hluti af leiknum. Við sakarmat í málinu er réttmætt og eðlilegt að hafa í huga viðteknar reglur um golfleik sem gilda hér á landi og sem meðal annars hafa þann tilgang að stuðla að öryggi þeirra sem íþróttina iðka, en þær miða einnig að því að leikurinn hafi eðlilegan framgang. Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni réttarins árið 2001, blaðsíðu 4134. Reglur þessar eru meðal annars tíundaðar í framlögðu riti, Golf með skynsemi eykur ánægjuna, sem Golfsamband Íslands hefur gefið út. Þar á meðal er sú regla, sem telja verður að sé öllum kunn sem einhverja reynslu hafa af golfiðkun, að þeir sem lengra eru komnir í leiknum, þ.e. eru að leika braut með hærra númeri, eigi forgangsrétt.
Ýmislegt bendir til þess að málsaðilar hefðu getað séð hvor til annars í aðdraganda höggs stefnda. Við það verður á hinn bóginn að miða að þeir hafi í reynd ekki gert það.
Með vísan til alls þess sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins að ekki séu efni til að líta svo að aðstæður hafi verið með þeim hætti í umrætt sinn að það verði metið stefnda til sakar að hafa slegið upphafshögg sitt. Höggið mistókst hrapallega, en til bótaábyrgðar getur ekki stofnast á þeim grunni. Verður ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt þessu ekki felld á stefnda. Er hann því sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta ásamt meðdómsmönnunum Björgvini Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni og Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Guðmundur Guðmundsson, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Þórs Ólafssonar.
Málskostnaður fellur niður.