Hæstiréttur íslands
Mál nr. 260/2005
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 20. október 2005. |
|
Nr. 260/2005 |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Kolbeini Hlyni Tómassyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
K játaði að hafa haft í fórum sínum 143,17 g af hassi og 2,32 g af amfetamíni. Talið var, að magn efnanna væri töluvert, en hins vegar væru engin gögn sem styddu þá fullyrðingu ákæruvalds að þau hafi verið ætluð til sölu. Gegn neitun K þótti því varhugavert að telja fram komna lögfulla sönnun þess, og var hann sýknaður af þeirri háttsemi að hafa ætlað að selja efnin í ágóðaskyni. Var refsing K ákveðin fangelsi í einn mánuð, auk þess sem efnin voru gerð upptæk. Þá krafðist ákæruvaldið upptöku á 400.000 krónum, sem K var með í vörslum sínum við handtöku. Þótti ákæruvaldið ekki hafa fært fram nægar sönnur þess að K hafi aflað peninganna með sölu fíkniefna. Var kröfu um upptöku á peningunum því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. maí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu og upptöku fjármuna og fíkniefna, en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæru um að hann hafi ætlað að selja fíkniefni í ágóðaskyni og að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á fjármunum.
Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur ákærði játað að hafa haft í fórum sínum þau 143,17 grömm af hassi og 2,32 grömm af amfetamíni, sem um getur í ákæru 15. júní 2004. Hann hefur hins vegar neitað þeim sakargiftum að hafa ætlað að selja að verulegu leyti efnin í ágóðaskyni, en sagt að hann hafi ætlað þau öll til eigin neyslu, enda hafi hann verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Magn efnanna er töluvert, en hins vegar eru engin gögn sem styðja þá fullyrðingu ákæruvalds að þau hafi verið ætluð til sölu. Gegn neitun ákærða þykir því varhugavert að telja að fram sé komin lögfull sönnun þess og verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Refsing ákærða er með hliðsjón af sakaferli hans, sem rakinn er í héraðsdómi svo og 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hæfilega ákveðin í héraðsdómi.
Ákæruvaldið hefur krafist upptöku á 400.000 krónum, sem ákærði var með í vörslum sínum við handtöku og lagt var hald á við rannsókn málsins, þar sem féð sé ágóði af fíkniefnasölu hans. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi hefur ákærði meðal annars gefið þá skýringu á handhöfn sinni á peningunum að nafngreindur vinur hans hafi endurgreitt honum þá. Hafi ákærði gengist í sjálfskuldarábyrgð á láni samkvæmt skuldabréfi fyrir þennan vin sinn og verið búinn að greiða upp bréfið. Þessi vinur ákærða var hvorki yfirheyrður hjá lögreglu né fyrir dómi. Ákærði sagði við aðalmeðferð málsins þegar honum var bent á að bréfið væri enn í vanskilum að faðir hans, sem annaðist greiðslur fyrir hann, hafi tjáð honum að hann gæti fengið ljósritið af bréfinu. Hann hafi því talið að lánið hefði verið greitt upp. Faðir ákærða var ekki leiddur fyrir dóm í tilefni af þessum framburði hans. Hann hefur neitað því að umræddir peningar séu afrakstur fíkniefnasölu. Þótt frásögn ákærða hafi verið nokkuð á reiki um skuldabréf þetta hefur ákæruvaldið ekki fært fram nægar sönnun þess að hann hafi aflað peningana, sem upptökukrafa ákæruvalds lýtur að, með sölu fíkniefna. Er kröfu um upptöku á peningunum því hafnað.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða helming sakarkostaðar í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins í dómsorði greinir. Hinn helming sakarkostnaðar skal greiða úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, Kolbeins Hlyns Tómassonar, og upptöku fíkniefna skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, 398.350 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. apríl 2005.
Mál þetta, sem var dómtekið 7. mars síðastliðinn, er höfðað með tveimur ákærum Lögreglustjórans á Selfossi. Málið var höfðað með ákæru dagsettri 15. júní 2004 á hendur ákærða, Kolbeini Hlyni Tómassyni, kt. 170767-5869, Tryggvagötu 24, Selfossi, „fyrir fíkniefnabrot með því að hafa þriðjudaginn 16. september 2003 haft í vörslu sinni í íbúð á fyrstu hæð fjölbýlishússins að Háengi 14, Selfossi, 143,17 grömm af hassi og 2,32 grömm af amfetamíni, sem ákærði framvísaði við leit lögreglu og þykja efnin að verulegu leyti hafa verið ætluð til sölu í ágóðaskyni.”
Ákæruvaldið segir háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001.
Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá nr. 33-2003-47), sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á 400.000 krónum sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þá er mál höfðað á hendur ákærða með ákæru dagsettri 27. ágúst 2004, „fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 19. júní 2004 haft í vörslu sinni 0,94 grömm af amfetamíni, sem lögregla fann falið í sokk á hægri fæti ákærða við leit á honum á lögreglustöðinni á Selfossi.“
Ákæruvaldið telur brot það sem ákærða er gefið að sök í síðastnefndri ákæru varða við 2. gr, sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.
Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá nr. 33-2004-49), en lagt hafi verið hald á greind fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Mál samkvæmt fyrri ákæru var þingfest sem mál nr. S-511/2004, og síðara málið nr. S-752/2004, og var það sameinað máli nr. S-511/2004 7. mars 2005.
Ákærði kom fyrir dóm og játaði ákæru frá 27. ágúst síðastliðnum rétta. Hann játaði og vörslur hass og amfetamíns eins og honum er gefið að sök í ákæru frá 15. júní 2004, en neitaði að efnin hafi að verulegu leyti verið ætluð til sölu. Ákærði samþykkti upptöku á fíkniefnum, en hafnar að honum verði gert að sæta upptöku á 400.000 krónum.
Málavextir.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að 16. september 2003 hafi lögreglu borist áreiðanlegar upplýsingar um að talsvert magn fíkniefna væri í íbúð A við Háengi á Selfossi. Lögregla fór á vettvang, en í íbúðinni voru staddir A og ákærði í máli þessu. Framvísaði ákærði hassi, sem hann taldi vera 100 grömm, og 400.000 krónum. Voru munir þessir í jakka ákærða. A samþykkti að húsleit yrði gerð hjá honum eftir að hafa ráðfært sig við lögmann. Við leitina fannst talsvert magn fíkniefna.
Við yfirheyrslu 17. september 2003 kvaðst ákærði einnig hafa átt tvo hassmola sem voru á stofuborði, glerstauk með hvítu efni sem innihélt amfetamín og lítinn plastpoka með öðrum minni í sem einnig innihélt amfetamín. Samkvæmt sömu skýrslu voru umræddar 400.000 krónur í hvítum plastpoka. Kvaðst ákærði hafa keypt 150 grömm af hassi fyrir 225.000 krónur, 1.500 krónur fyrir grammið, og ætlað að taka efnið með sér að Kárahnjúkum þar sem hann hafði hugsað sér að fá vinnu. Kvaðst hann hafa keypt hassið laugardaginn 13. september 2003, fyrir peninga sem hann fékk hjá kunningja sínum, B. Hefði ákærði gerst ábyrgðarmaður á skuldabréfi fyrir nefndan B, borgað skuldabréfið og loks hefði B greitt ákærða skuldina. Kvaðst ákærði hafa verið eini ábyrgðarmaðurinn, en bréfið hefði verið að fjárhæð kr. 390.000, og kvaðst ákærði vera með bréfið undir höndum, væri það í Reykjavík. Hefði hann greitt bréfið upp þremur til fjórum vikum áður, þá borgað 50.000 krónur í Íslandsbanka og fengið bréfið afhent. Hefði ákærði greitt bréfið, vexti af því og rukkað B um 600.000 krónur. Hefði hann þurft að greiða vel á fimmta hundrað þúsund. Kvaðst ákærði ekki hafa selt fíkniefni og hefðu peningarnir, 400.000 krónur, ekki tengst fíkniefnaviðskiptum. Var hann síðar sama dag spurður um blöð þau sem peningarnir voru pakkaðir í. Á einu þeirra stóð skrifað með penna „174.000.-=117 greiddir þ. af .....“, var ákærði inntur eftir því hvað áletrunin þýddi. Kvaðst hann hafa fengið peningana afhenta í þessum blöðum og ekki hafa hugmynd um hver skrifaði þetta eða hvað það merkti.
Samkvæmt framlögðu bréfi frá Íslandsbanka, undirrituðu af S og dagsettu 6. apríl 2004, hafði ákærði þá greitt að minnsta kosti 300.000 krónur af bréfinu, og síðast í janúar 2003. Ekki var að sjá neina greiðslu að fjárhæð 50.000 krónur í ágúst, september eða október 2003. Ennfremur segir þar að bréfið sé í vanskilum, ekki uppgreitt og hafi því ekki verið afhent.
Framburður ákærða og vitna.
Ákærði, Kolbeinn Hlynur Tómasson, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa neytt nokkuð mikilla fíkniefna á þeim tíma sem um ræðir, en hann hefði verið nýbúinn að missa vinnuna á sjónum. Taldi hann sig hafa notað að meðaltali 5-7 grömm af kannabis á dag. Ákærði kvaðst hafa fengið fíkniefnin sem um ræðir daginn áður en hann var tekinn með þau. Hefði hann keypt 150 grömm af hassi. Kvaðst ákærði hafa borgað 1.200 krónur fyrir grammið, og væri það lægra en venjulegt verð vegna þess hversu mikið hann hefði keypt. Ella hefði gramm af efninu kostað 2.000 krónur. Hefði hassið verið í plötum. Ákærði kvað þau 143 grömm sem fundust á ákærða hafa verið til eigin nota. Ákærði kvaðst hafa verið á leið að Kárahnjúkum, en bróðir ákærða hefði útvegað honum vinnu þar fyrir verktakafyrirtæki, væri ákærði með vinnuvélaréttindi. Ákærði kvaðst ekki hafa farið að Kárahnjúkum meðal annars vegna peningaleysis. Hefði hann ekki átt fyrir því sem hann þurfti að ganga frá áður en hann fór, og því lagst í þunglyndi og enn meiri fíkniefnaneyslu. Kvaðst hann ekki hafa verið búinn að reikna út hversu lengi þetta magn dygði en hafa reiknað með þriggja mánaða úthaldi í Kárahnjúkum. Ákærði kvaðst ekki hafa dreift eða selt fíkniefni á þessum tíma.
Aðspurður kvaðst ákærði hafa framvísað 400.000 krónum vegna þess að peningarnir hefðu verið á sama stað og hassið. Ákærði kvaðst ekki hafa séð sérstaka ástæðu til að láta lögregluna hafa peningana, heldur hefði lögreglan spurt hvað væri þarna og ákærði sagt að það væru 400.000 krónur. Ákærði kvaðst aðeins hafa framvísað öllu því sem hefði verið í jakkanum hans. Hefði féð verið greiðsla B til ákærða fyrir skuldabréf sem ákærði skrifaði upp á fyrir hann. Ákærði kvaðst hafa borgað af bréfinu fyrir B, og passað að hver greiðsla væri færð á reikning hjá sér svo ákærði gæti krafið hann aftur. Kvaðst hann vera búinn að borga allt bréfið. Ákærði staðfesti það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu, að hann hefði borgað Íslandsbanka 50.000 krónur. Ákærði kvaðst hafa bréfið undir höndum en ekki vera með það með sér. Ákærði kvaðst vera búinn að borga bréfið núna, en ekki muna hversu mikið hann hefði verið búinn að greiða þá. Skjal það frá Íslandsbanka, sem greint er frá að ofan var borið undir ákærða. Ákærði sagði þá að faðir hans væri með skuldabréfið. Um það að síðasta greiðsla frá ákærða hefði verið í janúar 2003, sagði hann að þjónustufulltrúinn hefði þá ekki greitt 50.000 króna greiðsluna. Hefðu ef til vill ekki verið til peningar til þess. Kvaðst hann nú ekki hafa séð bréfið sjálfur. Kvað hann það ekki hafa verið rétt hjá sér sem eftir honum er haft í lögregluskýrslu að hann hefði bréfið og það væri í Reykjavík.
Jón Hlöðver Hrafnsson, rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóminn. Hann ritaði frumskýrslu lögreglu, og staðfesti hann skýrslu sína. Vitnið kvað ástæðu þess að farið var í Háengi umrætt sinn hafa verið þá að þeir hefðu haft afskipti af pilti nokkrum og þá haft fregnir um að ákærði væri staddur í íbúð A. Hefðu þeir verið að leita að ákærða. Vitnið kvað lögreglumennina hafa verið þrjá saman. Væri íbúðin á fyrstu hæð og hefðu þeir farið inn um svalirnar og hitt þar fyrir A og ákærða. Voru ákærði og A spurðir hvort þeir væru með fíkniefni og gefinn kostur á að framvísa því sem þeir væru með. Þá hefði ákærði sagst vera með fíkniefni og peninga, í sömu orðum, og framvísað þessu. Vitnið kvað hafa verið grun um að ákærði væri að dreifa eða selja fíkniefni.
Niðurstaða.
Ákærði neitar að fíkniefnin sem á honum fundust hafi verið ætluð til sölu og mótmælir að honum verði gert að sæta upptöku á 400.000 krónum.
Um töluvert magn fíkniefna er að ræða. Ákærði skýrir fé það sem hann hafði undir höndum með því að hann hafi verið búinn að greiða upp skuldabréf fyrir annan mann, og fengið það greitt til baka umrætt sinn. Hefur framburður hans breyst, þar eð hann hefur ýmist haldið því fram að bréfið væri uppgreitt og hann hefði það undir höndum sjálfur, að faðir hans hefði bréfið og ákærði aldrei séð það og að ef til vill hefði hann ekki verið búinn að greiða það. Um lokagreiðslu bréfsins, að fjárhæð 50.000 krónur, sagði hann loks að þjónustufulltrúinn hefði ekki greitt þessa fjárhæð, en samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka fór sú greiðsla aldrei fram. Þykja skýringar ákærða á því hvaðan 400.000 krónur í reiðufé komu vera ótrúverðugar. Ekki hafa komið fram neinar aðrar skýringar á þessu fé en að það hafi verið vegna skuldabréfsins, en nægilega sannað þykir að peningarnir hafi ekki verið til komnir vegna skuldabréfs þess sem ákærði heldur fram. Til stuðnings því að peningarnir hafi tengst fíkniefnaviðskiptum hefur og verið lagt fram bréf sem peningum var pakkað inn í og er þar að finna útreikninga er virðast tengjast fíkniefnasölu. Þykir með vísan til þess sem að framan greinir vera nægilega sannað að fé það sem ákærði hafi verið með hafi tengst fíkniefnaviðskiptum hans.
Sannað er að peningar þeir sem ákærði var með í reiðu fé hafi verið til komnir vegna fíkniefnaviðskipta. Vitnið Jón Hlöðver bar að upplýsingar hefðu verið um það að ákærði stundaði fíkniefnaviðskipti, og leitað hefði verið að honum vegna þess. Ákærði var með töluvert magn fíkniefna undir höndum, en skýringar hans á því eru ekki trúverðugar, að hann hafi verið á leið í Kárahnjúka, en þangað fór hann ekki og gat ekki heldur sagt fyrir hvern hann ætlaði að vinna. Kvað hann ástæðu þess að hann fór ekki til vinnu vera fjárskort, en þrátt fyrir þetta var hann með tæpa hálfa milljón króna í reiðufé með sér og nýbúinn að eyða rúmlega 200 þúsundum í hass. Þykir því ekki varhugavert, gegn neitun ákærða, að telja nægilega sannað að hann hafi ætlað efnin sem hann var með í fórum sínum að verulegu leyti til sölu í ágóðaskyni.
Ákærði hefur játað vörslur fíkniefna sem honum eru gefnar að sök í ákæru frá 27. ágúst 2004.
Hefur ákærði því gerst sekur um brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru og þar eru réttilega færð til refsiákvæða.
Ákærði hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði sjö sinnum áður verið fundinn sekur um refsivert brot. Fyrst var ákærði 14. september 1984, dæmdur í fangelsi í einn mánuð, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. 27. júní 1985 var hann dæmdur í fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. 8. desember 1994 var ákærði dæmdur til að greiða 30.000 króna sekt fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf. 28. september 1995 gekkst hann undir 30.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga og var sviptur ökurétti í fjóra mánuði. 6. apríl 1998 var ákærða gert að greiða 25.000 króna sekt fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf. 9. október 1998 gekkst hann undir 27.500 króna sekt fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf. Loks var ákærði dæmdur í fangelsi í þrjá mánuði fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf 24. mars 2004.
Brot ákærða samkvæmt ákæru frá 15. júní 2004 var framið fyrir síðastgreindan dóm, en brot samkvæmt síðari ákæru eftir dóminn. Er refsing ákærða því hegningarauki að hluta til, og verður ákveðin með vísan til 77.og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar ákærða þykir verða að líta til þess að það er sannað að hann ætlaði fíkniefni þau sem hann var með undir höndum til sölu, og að 400.000 krónur í reiðufé tengdust fíkniefnaviðskiptum. Þyki einnig mega hafa hliðsjón af því að töluvert langur tími er liðinn, einkum frá því að fyrra brot ákærða var framið. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð.
Þá skal ákærði sæta upptöku til ríkissjóðs á 143,17 grömmum af hassi, 3,26 grömmum af amfetamíni, og 400.000 krónum.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Brynjars Níelssonar hrl., 80.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
Dómsorð:
Ákærði, Kolbeinn Hlynur Tómasson, sæti fangelsi í einn mánuð.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 143,17 grömm af hassi, 3,26 grömm af amfetamíni, og 400.000 krónur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 80.000 krónur í þóknun til handa skipuðum verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl.