Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 17. janúar 2012.

Nr. 41/2012.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Eva Hrönn Jónsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. janúar 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að því verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um símasamskipti varnaraðila við brotaþola í aðdraganda þess að hún varð fyrir hrottalegri líkamsárás 22. desember 2011. Einnig liggja fyrir upplýsingar um samskipti varnaraðila við aðra sakborninga, bæði rétt fyrir og eftir árásina. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til þess sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er fallist á með héraðsdómi að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geti fangelsisrefsingu og að rannsóknarhagsmunir standi til að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. janúar 2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að [X] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 19. janúar 2012, kl. 16.00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að aðfaranótt 22. desember sl. hafi lögregla fengið tilkynningu um að fara að [...] í [...] vegna slagsmála. Fram hafi komið í tilkynningunni að meðvitundarlaus einstaklingur væri í íbúðinni. Þegar lögregla hafi komið inn í íbúðina hafi hún séð hvar [Z] lá meðvitundarlaus á gólfinu við sjónvarpsrýmið. Þegar lögregla hafi athugað lífsmörk hafi [Z] komið til meðvitundar en ekki getað svarað spurningum. Hafi hún verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar. Töluvert hafi verið af blóði inni í íbúðinni ásamt hárlokkum úr [Z].

Lögregla hafi rætt við vitnið [Y] á vettvangi og hafi hann tjáð lögreglu að hann hefði verið í heimsókn hjá [Z] þegar tveir menn og ein kona hefðu ráðist inn í íbúðina. Honum hefði verið ýtt út úr íbúðinni og hann læstur úti. Hefði hann verið fyrir utan íbúðina í smá tíma og síðan séð árásáraðilana yfirgefa hana og læsa á eftir sér. Þá hefði hann bankað á hurðina og [Z] komið alblóðug og skríðandi til dyra og opnað fyrir honum. Hefði hann í kjölfarið farið og fengið að hringja í neyðarlínuna hjá nágrönnum þar sem árásaraðilarnir höfðu tekið símann hans. [Y] kvað annan karlmanninn hafa verið lítinn, hálf sköllóttan með rauðbirkið hár, en konan hefði verið með sítt, dökkt hár og heiti [W]. Í greinargerðinni segir að [Y] hafi ekki getað lýst þriðja aðilanum þar sem hann hefði verið með eitthvað fyrir andlitinu. Kvað hann fólkið hafa flúið af vettvangi á rauðri bifreið af gerðinni Toyota Corolla Station. Í greinargerðinni segir að lögregla hafi í kjölfarið farið að [...] í Reykjavík þar sem [W], sé skráð með lögheimili. Þar fyrir utan hafi staðið rauð Toyota Corolla Station bifreið sem [T], sé skráður fyrir. Hafi þau [W] og [T] verið handtekin þar.

Þá segir í greinargerð að samkvæmt skýrslum, sem teknar hafi verið af brotaþola, hafi hún tjáð lögreglu að hún hefði verið í íbúð sinni ásamt [Y] og [Ú] þegar tveir karlmenn og ein kona hefðu allt í einu ruðst inn í íbúðina. Hefðu það verið [W] og [T] og með þeim annar karlmaður sem brotaþoli kvaðst ekki vita hver væri þar sem hann hefði verið með hulið andlit. Fólkið hefði ýtt [Y] út úr íbúðinni og síðan hefðu þau öll þrjú ráðist á hana. Kvaðst hún hafa verið slegin nánast strax í rot, sparkað hefði verið í hana liggjandi, bæði í höfuð og líkama og hún tekin kverkataki. Kvað hún þau hafa lamið sig með plastkylfu, reynt hefði verið að klippa af henni fingurinn með klippum auk þess sem hníf hefði verið beitt. Einnig hefði hún verið beitt grófu kynferðisofbeldi og hótunum.

Í greinargerðinni segir að samkvæmt læknisvottorði hafi brotaþoli verið lurkum lamin um allan líkamann, bæði á höfði, brjóstkassa, kvið og baki. Þá hafi hún verið með sjáanlega áverka á andliti og höfði og verið með einhverja skallabletti á þessu svæði. Einnig hafi hún verið aum alls staðar í andliti og upp á höfuðleður og með eymsli niður á hálsinn beggja vegna við þreifingu. Yfirborðsmar  hafi verið á hægra kjálkabarði og á hálsinum hægra megin og eymsli verið víðs vegar um líkamann. Hægra megin á baki hafi verið áverkar sem gætu samrýmst því að vera bitfar. Þá hafi verið 2 cm alldjúpur skurður á hægri vísifingri, sem samræmist því að vera eftir klippur.

Þá segir að í vottorði neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota komi fram að áverkar á endaþarmi og leggöngum samrýmist því að brotaþoli hafi verið beitt því kynferðisofbeldi sem hún hafi lýst.

Í greinargerðinni segir að þegar brotaþoli hafi verið spurð út í mögulegar ástæður árásarinnar í skýrslutöku hafi hún borið um það að hún hefði verið í símasambandi við [X], kvöldið fyrir árásina. Ástæða þess hafi verið sú að hún hafi lent upp á kant við [W] sem hún viti að sé í góðu sambandi við [X]. Hún segi að í samtali þeirra hafi [X] vænt hana um að vera að hóta sér eða einstaklingum sem hann láti sig varða. Hún hafi ekki áttað sig á því að í orðum hennar hafi falist hótanir. Hún hafi því spurt hvort hann tæki því þannig að hún væri að hóta honum, konu og börnum. Hann hafi þá ítrekað að hún væri að hóta fjölskyldunni. Brotaþoli hafi tekið því að hann ætti við að hún væri að hóta félögum í [...]. Brotaþoli kveður [X] hafa kvöldið fyrir árásina hótað sér símleiðis að félagar í [...] myndu valda henni líkamlegum skaða. Brotaþoli kvaðst ekki telja vafa leika á um að árásin, sem hún hefði orðið fyrir, hefði kærði [X] látið framkvæma.

Af símagögnum sem lögregla hafi aflað sjáist að kærði hafi verið í símasamskiptum við brotaþola seint að kvöldi 21. desember sl.

Í greinargerðinni segir að lögregla hafi undir höndum gögn, sem sýni samskipti á milli tveggja annarra sakborninga í málinu hinn 21. desember sl., þar sem fram komi að [...] ætli væntanlega að koma með og hitta brotþola en hún eigi ekki að vita af því. Telji lögregla ljóst að hér sé verið að tala um kærða en hann sé einnig þekktur sem [...].

Samkvæmt símagögnum, sem lögregla hafi aflað, hafi kærði verið í miklum símasamskiptum við aðra sakborninga í málinu, sem nú sitji í gæsluvarðhaldi, bæði fyrir og eftir árásina. Þá hafi hann um nóttina og eftir árásina verið í símasamskiptum við þann sem tekið hafi við grímunni og kylfunni, sem notuð hafi verið í árásinni og lögregla hafi fundið við húsleit hjá honum.

Í síma [W] hafi sést að hún hafði sent nokkrum félögum sínum SMS-skeyti þar sem hún hafi tilkynnt að gefið hefði verið út “veiðileyfi” á [Z].

Ljóst sé af símagögnum og framburðarskýrslum, sem gefnar hafi verið við rannsókn málsins, að [W] og [T] hafi komið við heima hjá kærða rétt fyrir árásina.

Í greinargerðinni segir að kærði hafi alfarið neitað aðild að málinu. Hann hafi kannast við að hafa verið í símasambandi við brotaþola, en að hann hafi aldrei hafa hótað henni og þekki lítið til hennar. Þá hafi kærði kannast við samskipti við kærðu [T] og [W]. Erindi þeirra við sig hafi verið að fá ráðleggingar varðandi mótorhjólið, sem brotaþoli hafi átt að hafa tekið frá [W] og að hann hafi lánað þeim bíl.

Þá segir í greinargerðinni að lögregla hafi rökstuddan grun um að kærði eigi aðild að málinu og að hann sé sá sem skipulagt hafi og stýrt atburðarásinni. Skýringar kærða séu ekki trúverðugar og fái ekki staðist í ljósi framburðar annarra og rannsóknargagna almennt. Sakborningar í málinu tengist samtökunum [...] eða svokölluðum stuðningsklúbbum.

Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við aðra sakborninga sem í gæsluvarðhaldi sitji framið brot gegn 231. gr. , 2. mgr. 218. gr., og 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varði brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 194. gr. allt að 16 ára fangelsi. Um sé að ræða mjög fólskulega atlögu þar sem ruðst hafi verið inn á heimili brotaþola og ráðist þar á hana með sérstaklega hættulegri aðferð, en bareflum, garðklippum og hnífi hafi verið beitt og sparkað hafi verið í hana liggjandi, auk þess sem hún hafi verið beitt grófu kynferðisofbeldi.

Í greinargerðinni segir að rannsókn málsins sé ekki lokið og sé hún í fullum gangi. Lögregla þurfi nú að rannsaka þátt kærða í málinu. Taka þurfi skýrslu af bæði sakborningum og vitnum hvað þátt hans varði, svo og að vinna úr rannsóknargögnum.

Afar mikilvægt sé að kærði geti ekki rætt við þá, sem taka þurfi skýrslur af og haft áhrif á framburð þeirra. Að mati lögreglu sé því alveg ljóst að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins. Málið sé afar umfangsmikið og hafi undið upp á sig við rannsóknina. Nauðsynlegt sé fyrir lögreglu að fá svigrúm til þess að rannsaka alla anga þess.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði er undir rökstuddum grun um brot, sem varðað getur fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er ekki lokið. Hætta þykir á því að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og samseka gangi hann laus. Með vísan til framangreinds, alvarleika brotsins og rannsóknarhagsmuna þykir því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, [X], sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. janúar 2012, kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.