Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2016

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Grímur Hergeirsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. apríl 2016 þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 25. maí 2016. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. apríl 2016.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...] til lögheimilis að [...], [...], verði með úrskurði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir dómstólum ef til útgáfu ákæru kemur fram til þess að héraðsdómur er kveðinn upp í málinu, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 25. maí nk. kl. 16:00.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfunni verði hafnað, en til vara að beitt verði vægari úrræðum, þ.e. tryggingu eða að farbanni verði markaður skemmri tími.

Í kröfu lögreglustjóra segir að Lögreglan á Suðurlandi hafi undanfarnar vikur haft til rannsóknar meint brot varnaraðila gegn 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ýmsum ákvæðum laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Þann 18. febrúar 2016 hafi lögregla farið til [...] og gert húsleit á þrem stöðum vegna gruns um svo kallað vinnumansal á vegum fyrirtækisins [...]., kt. [...], en varnaraðili sé eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann hafi verið handtekinn þann sama dag og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna í tvær vikur. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, 4. mars 2016, í málinu R-36/2016 hafi varnaraðila verið gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til 1. apríl 2016 á grundvelli almannahagsmuna. Með dómi Hæstaréttar Íslands, 9. mars 2016, í málinu nr. 177/2016 hafi varnaraðila verið gert að sæta farbanni í stað áframhaldandi gæsluvarðhalds allt til föstudagsins 1. apríl 2016 kl. 16.

Rannsókn málsins sé enn ólokið en hafi til þessa miðað vel. Lögreglu þyki nú ljóst að varnaraðili liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið sérlega alvarleg brot gagnvart tveimur konum og frjálsræði þeirra. Með áður nefndum dómi Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 177/2016, hafi rétturinn staðfest það mat lögreglu að rökstuddur grunur væri fyrir hendi í málinu. Umrædd brot gegn 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geti varðað allt að tólf ára fangelsi, teljist sök sönnuð.

Varnaraðili sé með ríkisfang á [...] en hafi verið búsettur hér á landi um nokkurra ára skeið. Hann hafi afar takmörkuð tengsl við Ísland ef frá sé talið að eiginkona hans og barn, sem einnig séu með ríkisfang á [...] séu búsett hér á landi sem stendur. Fyrir liggi að eiginkonan hafi farið fram á skilnað við varnaraðila auk þess sem varnaraðili sæti nú fimm mánaða nálgunarbanni gagnvart henni skv. dómi Hæstaréttar Íslands, 18. mars 2016, í málinu nr. 219/2016, vegna ítrekaðs heimilisofbeldis.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlegar sakir varnaraðili sé grunaður um, teljist að mati lögreglu uppfyllt skilyrði til að honum verði áfram bönnuð för af landinu á meðan á rannsókn málsins stendur hjá lögreglu og eftir atvikum mál hans er til meðferðar hjá dómstólum ef til útgáfu ákæru kemur, enda megi ætla að varnaraðili muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess farið á leit að varnaraðila verði gert að sæta farbanni þannig að honum sé bönnuð för frá Íslandi, eins og að framan greinir.

Forsendur og niðurstaða

Með vísan til ofangreinds og þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu verður fallist á það með lögreglustjóra að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um brot 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar er meðal annars fjallað um svokallaða nauðungarvinnu, en brot gegn þeirri lagagrein geta varðað fangelsi allt að tólf árum. Rannsókn málsins mun vera langt komin og að sögn fulltrúa lögreglustjóra er gert ráð fyrir að málið verði sent héraðssaksóknara til ákærumeðferðar við lok næstu viku eða upphaf þar næstu viku.

Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að séu uppfyllt skilyrði gæsluvarðhalds skv. 1. eða 2. mgr. 95. gr. laganna þá geti dómari, í stað þess að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, bannað sakborningi brottför af landinu. Í 1. mgr. 95. gr. laganna segir að heimilt sé að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þess verði að vera fyrir hendi eitthvert af nokkrum skilyrðum, þ. á m. skv. b-lið ákvæðisins að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.

Samkvæmt framansögðu er varnaraðili, sem er eldri en 15 ára, undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari sem hefur afar takmörkuð tengsl við Ísland. Eru skilyrði laga til þess að varnaraðili sæti farbanni þannig uppfyllt. Fram kom í máli lögmanns sem sótti þing í fjarveru skipaðs verjanda varnaraðila að varnaraðili hafi ekki aðgang að fé til að setja tryggingu, en auk þess þykir trygging ekki vernda nægilega þá hagsmuni sem farbanni er ætlað að tryggja. Verður því fallist á kröfu um farbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja vera efni til þess að marka farbanni skemmri tíma en krafist er.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi meðan máli hans er ólokið, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 25. maí 2016 kl. 16:00.