Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-70
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Peningaþvætti
- Ákæra
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 11. desember 2018 leitar Borgþór Friðrik Ágústsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja fyrir sitt leyti dómi Landsréttar 16. nóvember sama ár í málinu nr. 66/2018: Ákæruvaldið gegn Borgþóri Friðriki Ágústssyni og fleirum á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjaness um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tekið við poka frá einum ákærða sem hafi innhaldið allt að 17.000.000 króna í reiðufé sem leyfisbeiðandi hafi geymt og nýtt í eigin þágu og fjölskyldu sinnar þrátt fyrir að honum hafi hlotið að vera ljóst að um ólöglega fengið fé væri að ræða. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í þrjú ár.
Telur leyfisbeiðandi að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Byggir hann á því að rannsókn þess hafi verið verulega ábótavant auk þess sem ákæra hafi ekki uppfyllt skilyrði c. liðar 152. gr. sömu laga. Þá telur hann að mikilvægt sé að fá úr því skorið hvort unnt sé að sakfella fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga á þeim grundvelli að hinn ákærði hafi haft fjármuni milli handanna fyrir hið ætlaða brot en ekki eftir að það var framið. Jafnframt sé brýnt að fá úrlausn réttarins um það hvort unnt sé að sakfella fyrir brot sem annar maður hefur þegar verið dæmdur fyrir. Vísar leyfisbeiðandi í því sambandi til þess að þeir fjármunir sem hann hafi verið sakfelldur fyrir að hafa tekið við og nýtt í eigin þágu séu hluti þeirra fjármuna sem annar ákærði hafi einnig verið sakfelldur í héraði fyrir að hafa móttekið. Telur leyfisbeiðandi að málið geti haft fordæmisgildi um framangreind atriði.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og annarra ákærðu, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.