Hæstiréttur íslands

Mál nr. 615/2007


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Slysatrygging
  • Fyrning


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. júní 2008.

Nr. 615/2007.

Ívan G. N. Brynjarsson

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Líkamstjón. Slysatrygging. Fyrning.

Í varð fyrir slysi 1. júní 1999 þegar hann var við störf sem stýrimaður á fiskiskipi. Samkvæmt skilmálum, sem giltu um slysatryggingu Í, fyrndist krafa á grundvelli hennar á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, þegar vátryggði fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, sbr. 29. gr. áðurgildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Talið var að Í hafi hlotið að vera ljóst ekki síðar en þegar honum var vísað til sérfræðings í bæklunarlækningum 23. nóvember 2001 að hann hafi hlotið varanleg mein af slysinu. Því til samræmis varð að líta svo á að á árinu 2002 hafi hann átt þess kostað gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Var krafa Í því fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. nóvember 2007 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 993.074 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 10. maí 2003 til 2. febrúar 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Samkvæmt gögnum málsins varð áfrýjandi fyrir slysi 1. júní 1999 þegar hann var við störf sem stýrimaður á fiskiskipi, en hann féll þá við í slöngubáti, sem var á leið milli skipa úti á rúmsjó, og fékk við það högg á hægri olnboga og miklar kvalir í öxl. Áfrýjandi hafði á þeim tíma frjálsa slysatryggingu hjá stefnda. Áfrýjandi leitaði til heimilislæknis eftir lok veiðiferðar og sótti eftir ábendingu hans meðferð hjá sjúkraþjálfa frá haustinu 1999. Fékk áfrýjandi ekki bata af þessu og vísaði heimilislæknirinn honum haustið 2001 til sérfræðings í bæklunarlækningum, sem reyndi meðferð með sterasprautum, en gerði loks liðspeglun á öxl áfrýjanda 12. mars 2004. Kom þá í ljós gamall áverki á liðböndum í öxlinni, sem leitast var við að ráða bót á. Áfrýjandi tilkynnti stefnda 31. mars 2004 um framangreind atvik og krafðist greiðslu úr slysatryggingu sinni. Aflað var mats tveggja lækna 9. mars 2006 á tímabundnum og varanlegum afleiðingum slyssins, svo og álits örorkunefndar 8. ágúst sama ár. Í matinu var talið að heilsufar áfrýjanda eftir slysið hafi orðið stöðugt 22. júlí 1999, en 1. október sama ár í áliti örorkunefndar. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 25. apríl 2007 til heimtu bóta úr fyrrnefndri slysatryggingu.

Samkvæmt skilmálum, sem giltu um slysatryggingu áfrýjanda, fyrndist krafa á grundvelli hennar á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, þegar vátryggði fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, sbr. 29. gr. áðurgildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Í áliti örorkunefndar var haft eftir áfrýjanda að liðspeglunaraðgerð 12. mars 2004 hafi engu breytt um líðan hans, sem í aðalatriðum hafi verið eins frá hausti 1999. Í málinu hefur ekki verið leitað mats á því hvenær áfrýjanda hefði fyrst getað verið tímabært að láta meta afleiðingar slyssins. Á hinn bóginn liggur fyrir að heimilislæknir hafi um tveggja ára skeið beint áfrýjanda í sjúkraþjálfun sökum þess að þá var talið að hann hafi hlotið tognun á öxl, en þegar sýnt þótti að árangur fengist ekki af því var honum vísað til sérfræðings í bæklunarlækningum 23. nóvember 2001. Ekki síðar en á því tímamarki hlaut áfrýjanda að vera ljóst að hann hafi hlotið varanleg mein af slysinu. Því til samræmis verður að líta svo á að á árinu 2002 hafi áfrýjandi átt þess kost að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Samkvæmt þessu var krafa áfrýjanda fallin niður fyrir fyrningu þegar mál þetta var höfðað og verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

                                        Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2007.

Mál þetta, sem var dómtekið 9. október sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ívan G N Brynjarssyni, Hraungerði 7, Akureyri á hendur Vátrygginga-félagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík með stefnu birtri  25. apríl 2007.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 993.074 kr. auk 4.5% ársvaxta frá 10. mars 2003 til 2. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni,  skv. III. kafla  vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Til vara gerir stefndi þær kröfur að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.

Málavextir.

Stefnandi starfaði sem yfirstýrimaður á b.v. Sléttbak EA – 304 (1351). Hinn 1. júní 1999 varð stefnandi fyrir óhappi er hann var staddur um borð í slöngubát úti á rúmsjó á leið milli b.v Sléttbaks EA  og b.v Akureyrinnar EA – 110 (1369). Ekki var siglt í land fyrr en 10 dögum seinna er veiðiferðinni lauk.

Hinn 9. júní 1999 leitaði stefnandi símleiðis til heimilislæknis síns, en hitti sama lækni á stofu  12. september 1999. Hinn 23. nóvember 2001 var stefnanda vísað til bæklunarlæknis, sem framkvæmdi aðgerð á stefnanda 12. mars 2004.

Hinn 31. mars 2004 tilkynnti hann stefnda um slysið og krafðist bóta. Stefndi hafnaði kröfunni, þar sem meira en fjögur ár væru liðin frá slysdegi.

Með bréfi 1. apríl 2005 mótmælti stefnandi afstöðu stefnda um fyrningu og ítrekaði kröfu sína með bréfi 17. maí 2005.

Með bréfi dags. 15. júní 2005 hafnar stefndi kröfu lögmanns stefnanda á grundvelli fyrningar og þess, að mat á varanlegri örorku stefnanda hafi átt að fara fram fyrir 1. júní 2002.

Hinn 9. mars 2006 er dagsett matsgerðs tveggja lækna á slysi stefnanda fyrir slysatryggingar atvinnurekanda hans.

Samkvæmt matsgerð örorkunefndar, dagsettri 8. ágúst 2006, gat stefnandi ekki vænst frekari bata eftir 1. október 1999. Er það stöðugleikatímapunktur vegna afleiðinga slyss stefnanda hinn 1. júní  1999 og hefur því mati ekki verið hnekkt.

Á árinu 2007 fóru fram bréfaskipti milli málsaðila og hafnaði stefndi ávallt bótum. Af þeim ástæðum telur stefnandi fullreynt að stefndi fáist til að greiða stefnanda slysabætur úr einkatryggingu stefnanda og því er til þessa máls stofnað.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi mótmælir fullyrðingu stefnda um fyrningu á bótakröfu hans. Stefnandi viðurkennir að meira en fjögur ár voru liðin frá slysinu og þar til stefnandi tilkynnti stefnda um slysið, en telur að miðað við fjölmörg dómafordæmi teljist fyrningarfresturinn ekki hefjast fyrr en tjónþoli eigi þess raunhæfan kost að gera kröfu um bætur fyrir varanlega örorku eða öllu heldur í upphafi næsta árs eftir að örorkumat liggur fyrir. Samkvæmt því ættu lok fyrningarfrestsins að hafa verið í árslok 2008.

Stefnandi varð fyrir slysi 1. júní 1999. Örorkunefnd telur stöðuleika hans vera 1. október 1999. Á næstu misserum eftir slysið er stefnandi í læknismeðferðum, sjúkraþjálfun og síðar í sprautumeðferð. Hinn 12. mars 2004 gerir bæklunarlæknir á honum aðgerð eftir að í ljós hafði komið ástand stefnanda við axlaspeglun fyrr í sama mánuði og raunverulegar afleiðingar slyssins. Þegar stefnandi kemur úr uppskurðinum gerir hann sér grein fyrir því, að hann verði fyrir varanlegri örorku og eigi þar af leiðandi rétt á slysabótum úr einkaslysatryggingu sinni. Þá eða hinn 31. mars 2004 tilkynnir hann stefnda um slysið og stöðu mála. Kröfu stefnanda er þá synjað af hálfu stefnda á þeim forsendum að krafa hans sé fyrnd.

Stefnandi leggur ríka áherslu á þá staðreynd, að hann hafði lengi framan af enga hugmynd um það, að hann ætti rétt á slysabótum úr einkaslysatryggingu sinni. Honum var fyrst kunnugt um það er hann þurfti að gangast undir uppskurð 12. mars 2004, en í þeim mánuði tilkynnti hann stefnda um slysið með bótakröfu í huga. Fram að þeim tíma var stefnandi undir læknishendi og látinn gangast undir sjúkraþjálfun og sterasprautur af því að einkenni slyssins voru ekki komin fram.  Þá gerðu læknar stefnanda sér ekki grein fyrir því hvað var að stefnanda og fyrir alvarleika slyssins, sem ekki kom í ljós fyrr en við axlaspeglunina í mars 2004. Eru samkvæmt því ekki fram komin haldbær rök fyrir því að tímabært hafi verið að leggja mat á varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda fyrr en gert var.

Í málinu er ekki deilt um hvenær stöðugleikapunkturinn varð heldur hvaða þýðingu hann hafði um upphafstíma fyrningar í merkingu fyrningar- og skaðabótalaga.

Stefnandi telur, að a.m.k fái það ekki staðist að telja upphaf fyrningarfrestsins varðandi bótakröfu stefnanda vera frá þeim sama tíma og læknar telja heilsu hans stöðuga, þ.e. 1. október 1999, eða  u.þ.b fjóru og hálfu ári áður en það uppgötvast hve alvarleg meiðsli stefnanda voru vegna slyssins 1. júní 1999. Stefnandi telur það ekki fá staðist að krafa byrji að fyrnast mörgum árum áður en hún verður til.

                Þá verður líka að leggja áherslu á það, að stefnandi átti þess ekki raunhæfan kost að krefjast slysabóta fyrr en örorkustig hans hafði verið metið, sem er að jafnaði ári eftir slys eða uppskurðinn, sem gerður var á stefnanda 12. mars 2004. Örorkumat tveggja lækna lá fyrst fyrir 9. mars 2006 og síðan yfirmat örorkunefndar 8. ágúst 2006 og hefði þá í raun átt að telja upphaf fyrningarfrestsins frá og með næstu áramótunum, þ.e áramótunum 2006/2007.

Eftir að matsgerð örorkunefndar frá 8. ágúst 2006 lá fyrir, átti stefnandi þess fyrst raunhæfan kost að leita fullnustu kröfu sinnar á hendur stefnda en þá fyrst lá fyrir, hver örorka hans væri í stigum talið og um leið, hver bótakrafa hans gæti orðið. Stefndi var ávallt látinn fylgjast með framvindu mála varðandi meðferð á slysi stefnanda. Stefnandi telur því kröfu sína ekki fyrnda.

Um sundurliðun bótakröfunnar tekur stefnandi fram að í álitsgerð örorkunefndar frá 8. ágúst 2006 er hefðbundin læknisfræðileg örorka ekki metin. Samkvæmt upplýsingum stefnda, í bréfi hans frá 6. mars 2007, er miðað við, að væri hefðbundin læknisfræðileg örorka 20 stig (miski í álitsgerð örorkunefndar er 20 stig), þá yrði bótafjárhæðin um 1.168.322 kr. (20 : 1.168.322= 58.416 kr/pr. örorkustig).

Miskastig stefnanda var ákvarðað 17 stig og væntanlega stig varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Krafa stefnanda er því 993.074 kr. (17 x 58.416 kr.).

Um lagarök er vísað til almennra reglna skaðabótaréttar og reglu um vinnuveitendaábyrgð. Um vexti og dráttarvexti vísast til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað vísast til 130. gr. nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Sýknukrafa stefnda er annars vegar reist á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 29. gr. eldri laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 og 13. gr. sameiginlegra skilmála stefnda. Hins vegar á því að stefnandi eigi ekki bótarétt úr slysatryggingu sinni hjá stefnda þar sem hann hafi fallið niður þremur árum eftir slysið 1. júní 1999, sbr. 4. gr. þágildandi vátryggingarskilmála slysatryggingar félagsins.

Samkvæmt þágildandi 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga glataði kröfuhafi rétti sínum á hendur vátryggjanda, að fjórum árum liðnum frá lokum þess almanaksárs þegar kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Samkvæmt almennum reglum kröfu- og skaðabótaréttar ber að líta svo á að krafa stefnanda hafi stofnast á slysdegi og hann þá fengið vitneskju um hana. Þá er stefnanda ekki hald í því að bera fyrir sig að honum hafi ekki verið kunnugt um efni samnings málsaðila fyrr en löngu síðar.

Stefndi telur að miða beri við að stefnandi hafi getað leitað fullnustu kröfu sinnar eftir að einkenni vegna slyss voru komin fram. Voru einkenni stefnanda vegna slyssins að fullu komin fram 1. október 1999, sbr. álitsgerð örorkunefndar.

Krafa stefnanda á hendur stefnda var fyrnd áramótin 2003/2004. Byggir það á því að heilsufar stefnanda var orðið stöðugt 1. október 1999, sbr. álitsgerð örorkunefndar, en því mati hefur ekki verið hnekkt. Á þeim degi átti stefnandi þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar enda var ekki þeirra breytinga að vænta eftir það sem haft gæti áhrif á heilsufar hans. Var á þeim degi mögulegt að ákvarða tjón hans vegna slyssins 1. júní 1999. Var krafa stefnanda fyrnd 1. janúar 2004 enda hafði krafa hans hvorki verið viðurkennd né dómsmál höfðað til innheimtu kröfunnar fyrir þann tíma, sbr. 1. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.

Stefndi mótmælir því að byggt verði á því að stefnandi hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar árið 2000 vegna ákvæða vátryggingarskilmála um að örorku megi fyrst meta ári eftir slys. Stefndi bendir þó á að krafan væri engu að síður fyrnd þótt miðað yrði við að stefnandi hefði fyrst mátt leita fullnustu kröfu sinnar árið 2000 enda hafði krafa stefnanda hvorki verið viðurkennd né dómsmál höfðað til innheimtu kröfunnar fyrir áramótin 2004/2005, sbr. 1. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.

Stefndi tekur fram að tilkynning til hans um kröfu rýfur ekki fyrningarfrest, sbr. 1. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Sama er að segja um önnur samskipti málsaðila eftir að stefnda var tilkynnt um kröfuna. Þá hefur öflun sönnunargagna um kröfu eða fjárhæð hennar, s.s. með örorkumatsgerðum, ekki áhrif á lengd eða slit fyrningarfrests enda engin ákvæði að finna um slíkt í þágildandi lögum nr. 20/1954 né í lögum nr. 14/1905.

Stefndi ber ekki ábyrgð á því að meiðsl stefnanda voru ekki rétt greind eða meðhöndluð. Getur stefndi ekki borið hallann af því að læknar stefnanda greindu meiðsl hans ekki með réttum hætti. Getur slíkt ekki haft áhrif á upphafstíma fyrningarfrests hvað stefnda varðar.

Stefnandi telur að samkvæmt fordæmum Hæstaréttar beri að miða við að stefnandi hafi mátt leita fullnustu kröfu sinnar eftir að stöðugleikatímamarki var náð. Er stefnanda í sjálfsvald sett hvenær hann fer í örorkumat.  Ef lagt væri til grundvallar að hann gæti fyrst leitað fullnustu kröfu sinnar eftir að niðurstöður slíks mats lægju fyrir gæti stefnandi í raun ráðið því hvenær fyrning kröfu hans hæfist. Slíkt gengur í alla staði gegn grunnrökum reglna um fyrningu, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda in fine. Ber að miða við að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt þann 1. október 1999, sbr. álitsgerð örorkunefndar en engra gagna nýtur við í málinu sem hnekkja því mati og er staðhæfingum stefnanda um annað mótmælt sem ósönnuðum. Við stöðugleikatímapunkt hafi stefnandi getað aflað sér sönnunar um tjón sitt og leitað fullnustu kröfu sinnar. Ber stefndi ekki ábyrgð á störfum lækna sem meðhöndluðu stefnanda né getur það breytt upphafi fyrningarfrests þótt stefnanda hafi ekki auðnast að tryggja sér sönnun um afleiðingar slyssins fyrr en löngu eftir að krafa hans á hendur stefnda var fyrnd. Getur stefndi ekki borið hallann af meintri villu stefnanda um möguleika hans á að leita fullnustu kröfunnar. Matið á því hvenær stefnanda var mögulegt að leita fullnustu kröfu sinnar er í senn almennt og hlutlægt og ber að miða við stöðugleikatímamark í því sambandi. Önnur nálgun græfi stórlega undan því réttaröryggi sem skuldurum er búið með skýrum og fyrirsjáanlegum fyrningarreglum en auk þess eiga reglurnar að vera kröfuhöfum hvatning til að gæta réttar síns.

Stefndi mótmælir því að fjögurra ára fyrningarfrestur 29. gr. laga nr. 20/1954 verði talinn hefjast við síðara tímamark en 1. janúar 2000. Verði talið að miða beri við síðara tímamark telur stefndi að krafa stefnanda hafi alltént verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað en krafa stefnanda hefur aldrei verið viðurkennd af stefnda.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að stefnandi hafi misst bótarétt samkvæmt skilmálum slysatryggingar hjá stefnda þar sem ekki hafi farið fram mat á varanlegri örorku innan þriggja ára frá slysdegi.

Samkvæmt ákvæði í 4. gr. vátryggingarskilmála slysatryggingar sem í gildi var á slysdegi ber að meta varanlega örorku innan þriggja ára frá slysi. Rökin fyrir þessari tilhögun eru m.a. þau að eftir því sem lengra líður frá slysi er erfiðara að gera greinarmun á afleiðingum slyssins og fyrra heilsufari en auk þess kunna önnur slys eða atvik að hafa komið til líði langur tími frá því að slys varð þar til örorka er metin. Slíkt gerir allt mat á þeirri örorku sem vátryggður á að fá bætta til muna erfiðara. Þá gera skilmálar vátryggingarinnar ráð fyrir að hugsanlegar breytingar á ástandi vátryggðs eftir að þrjú ár eru liðin frá slysi hafi engin áhrif á skyldu vátryggðs til að gangast undir mat á varanlegri örorku í skilningi skilmála áður en þrjú ár eru liðin frá slysi.

Ljóst er að þegar stefnandi var fyrst metinn til örorku vegna slyssins með matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Yngva Ólafssonar, dagsettri 9. mars 2006, var frestur til að fá örorku metna samkvæmt vátryggingarskilmálum stefnda löngu liðinn. Hefur stefnandi því glatað möguleikanum á að sýna fram á kröfu sína gagnvart stefnda og á hann því enga kröfu vegna slyssins á hendur stefnda. Leiðir það enda með rökréttum hætti af ákvæðum skilmálanna samkvæmt meginreglu samningaréttar um að samningsákvæði beri að túlka þannig að þau hafi áhrif og komist til framkvæmda. Er skilmálaákvæði þetta til komið með gildum rökum. Hefur stefnandi ekki fært nein rök fram um það hvers vegna hann ætti að vera óbundinn af nefndu skilmálaákvæði. Er ákvæðið hvorki óvenjulegt né óeðlilegt.

Stefndi tekur fram að stefnandi hafi lent í tveimur öðrum slysum frá slysinu hinn 1. júní 1999, en slíkt styður enn frekar þá niðurstöðu stefnda að örorka verði ekki metin þegar meira en þrjú ár eru liðin frá slysi þar sem illmögulegt er nú að ákvarða hvaða líkamseinkenni má rekja til slyssins. Þar sem það var ekki gert fellur bótaréttur niður enda er sú niðurstaða eina leiðin til þess að skilmálaákvæðið fái virkni. Ber að skoða ákvæðið sem umsaminn frest til handa vátryggðum, það er stefnanda, til að afla sér sönnunar um tjón eða bótarétt. Fái vátryggður ekki nýtt þennan frest, af ástæðum sem vátryggjanda verður ekki kennt um, fellur bótaréttur niður. Rann frestur stefnanda, til þess að meta örorku sína vegna slyssins, og fá hana bætta samkvæmt vátryggingarskilmálum stefnda, út 1. júní 2002 og glataði hann um leið rétti sínum til bóta úr slysatryggingu hjá stefnda, sbr. 4. gr. skilmála slysatryggingar nr. SS10.

Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi glatað kröfu sinni vegna tómlætis og vegna þess að lögbundinni og samningsbundinni tilkynningarskyldu hafi ekki verið sinnt, sbr. 2. tl. 11. gr. vátryggingarskilmála slysatryggingar, sem í gildi voru á slysdegi, og þágildandi 21. gr. laga nr. 20/1954.

Varakröfu sína um lækkun dómkrafna stefnanda byggir stefndi á því að hefðbundin læknisfræðileg örorka samkvæmt vátryggingarskilmálum hafi ekki verið metin í álitsgerð örorkunefndar sem stefnandi byggi kröfur sínar á. Byggja beri á matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Yngva Ólafssonar en þar kemur fram að hefðbundin læknisfræðileg örorka sé metin 15%. Telur stefndi að krafa stefnanda ætti að þessu leyti að vera 876.240 kr. (15 x 58.416 kr.) og er þá miðað við kröfu stefnanda um 58.416 kr. fyrir hvert örorkustig.

Þá byggir stefndi varakröfu um lækkun dómkrafna stefnanda einnig á því að lækka beri kröfu stefnanda að álitum vegna dráttar á að tilkynna félaginu um slysið, sbr. 2. tl. 11. gr. vátryggingarskilmála slysatryggingar, sem í gildi voru á slysdegi, og þágildandi 21. gr. laga nr. 20/1954. Við það kann stefndi að hafa glatað möguleikum á að kanna tildrög slyssins og afleiðingar þess með öruggum hætti. Er ómögulegt að stefndi beri hallann af því að stefnandi sinni ekki lög- og samningsbundnum skyldum í þessum efnum.

Verði fallist á kröfu stefnanda um bætur samkvæmt skilmálum slysatryggingar er vaxtakröfu mótmælt. Þá er dráttarvaxtakröfu mótmælt. Málskostnaðarkrafa í aðalkröfu er grundvölluð á ákvæði 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og í varakröfu á 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstaða.

                Samkvæmt 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga fyrnast kröfur  á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, samanber og 13. gr. sameiginlegra skilmála stefnda.

Ágreiningslaust er að stefnandi varð fyrir slysi 1. júní 1999 og stofnast þá krafa hans. Hann var þá úti á sjó og kom í land tíu dögum seinna.  Þá hringdi hann til heimilislæknis síns en hitti hann ekki á stofu fyrr en 12. september 1999. Var hann sendur í sjúkraþjálfun og sprautumeðferð.  Í nóvember 2001 var stefnanda vísað til bæklunarlæknis sem framkvæmdi liðspeglun á stefnanda 12. mars 2004.  Í kjölfar hennar var hann óvinnufær til 30. apríl 2004. Stefnda er fyrst tilkynnt um slysið 30. mars 2004 eða tæpum fimm árum eftir að slysið átti sér stað og rúmum tveimur árum eftir að stefnandi fór til bæklunarlæknisins. 

Stefnandi byggir á því að honum var það ekki ljóst fyrr en með örorkumati að hann hefði orðið fyrir tjóni og upphaf fyrningarfrestsins sé því áramótin 2006/2007.  Við það tímamark verði að miða. Að mati dómsins heldur þessi röksemd ekki, því samkvæmt henni getur stefnandi ráðið því hvenær hann óskar eftir mati og þar með hvenær fyrningarfrestur hefst. Þá leiðir vanþekking stefnanda á tryggingum sínum ekki til þess að hann njóti frekari réttar en lög eða tryggingaskilmálar kveða á um né heldur verður stefndi látinn bera ábyrgð á ætluðum seinagangi eða mistökum við  læknismeðferð stefnanda.

Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir um afleiðingar slyssins. Önnur, dags 9. mars 2006, gerð af tveimur bæklunarlæknum. Þar er stöðugleikapunktur settur 22. júlí 1999. Hitt er yfirmat örorkunefndar, dags 8. ágúst 2006, og samkvæmt því er stöðugleikapunkturinn 1. október 1999. Stendur óhaggað að fjórir læknar og lögmaður hafa metið það svo að á árinu 1999 mátti stefnandi ekki vænta frekari bata. Í lok þess árs, þ.e. áramótin 1999/2000 hófst fyrningarfresturinn því og krafan var þar af leiðandi fyrnd um áramótin 2003/2004. 

Eins og að framan greinir var stefnda ekki tilkynnt um kröfuna fyrr en 30. mars 2004, þ.e. eftir að fyrningarfresti lauk. Krafan hefur því aldrei verið viðurkennd af stefnda og var fyrnd er mál þetta var höfðað 25. apríl 2007.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Haraldsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Unnur Erla Jónsdóttir hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                                              DÓMSORÐ

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Ívans G N Brynjarssonar.

Málskostnaður fellur niður.