Hæstiréttur íslands
Mál nr. 95/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
Nr. 95/1999. |
Fimmtudaginn 11. mars 1999. Ríkislögreglustjóri (Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi) gegn X (Hilmar Magnússon hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. og B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X, erlendur ríkisborgari búsettur á Íslandi, var grunaður um stórfelld brot gegn 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa innleyst falsaða tékka og ráðstafað andvirði þeirra. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að skilyrðum samkvæmt a. og b. lið1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt til að verða við kröfu um að X sætti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Í hinum kærða úrskurði er gerð ítarleg grein fyrir sakargiftum á hendur varnaraðila og þeim rökum, sem sóknaraðili styður þær við. Má fallast á að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot, sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fullnægt skilyrðum a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 1999.
Ár 1999, föstudaginn 5. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi:
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísan til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að X, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi frá lokum fyrra gæsluvarðhalds 4. mars 1999, kl. 16:00, til 25. mars 1999, kl. 16:00.
Ríkislögreglustjóri kveður málavexti vera þá, að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vinni nú að rannsókn meintra fjársvika og skjalafals kærða X vegna þriggja tékka, sem voru gefnir út á nafn Í... ehf./I... LTD, sem hann innleysti eða reyndi að innleysa í Íslandsbanka hf.
[...]
Með vísan til rannsóknargagna og í ljósi þeirra upplýsinga, sem fram hafa komið við skýrslutökur í málinu, bæði í framburði kærða og annarra, sem yfirheyrðir hafa verið vegna þess, þykir sýnt að mál þetta kann að vera mun umfangsmeira en upphaflega var talið. Má fallast á þau sjónarmið ríkislögreglustjóra, að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, gangi hann laus. Þá þykir ekki trúverðugur framburður hans fyrir dómi, þegar krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald var tekin fyrir, að hann muni ekki reyna að komast úr landi, enda þykir ekki loku fyrir það skotið, að honum tækist það, þrátt fyrir að persónuskilríki hans séu í vörslum lögreglu. Er krafa ríkislögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald því tekin til greina með vísan til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991. Rétt þykir þó að ákveða, að gæsluvarðhaldið vari eigi lengur en til fimmtudagsins 18. mars næstkomandi kl. 16:00.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæzluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. mars næstkomandi kl. 16:00.