Hæstiréttur íslands

Mál nr. 173/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                         

Fimmtudaginn 29. apríl 1999.

Nr. 173/1999.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Þorsteinn Hjaltason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðahaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 25. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. apríl 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 1. maí nk. kl. 14. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins bárust lögreglunni á Akureyri upplýsingar 16. apríl 1999 um kynferðislegar athafnir varnaraðila gagnvart stúlkum, sem fæddar eru á árunum 1984 og 1985. Barnaverndaryfirvöld gerðu frumathugun á málinu. Síðan var óskað eftir lögreglurannsókn vegna ætlaðra kynferðisafbrota varnaraðila gegn nánar tilteknum stúlkum. Lögregluskýrslur voru teknar af stúlkunum að viðstöddum fulltrúum barnaverndaryfirvalda og hafa þær verið lagðar fram í málinu.

Að virtum gögnum málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, og þannig framið verknað, sem fangelsisrefsing er lögð við. Eru því fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. laga nr. 19/1991. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. apríl 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær, barst dóminum með bréfi sýslumannsins á Akureyri dagsettu í gær, þar sem hann krefst þess að X verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í eina viku til laugardagsins 1. maí n.k. á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.

Kveður hann kærða hafa verið handtekinn kl. 15:20 þann 23. apríl s.l.

Kveður hann kærða grunaðan um brot á 202. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa áreitt kynferðislega a.m.k. þrjár stúlkur, sem þá hafi verið 13 – 14 ára gamlar. [...] Framangreindar stúlkur hafi verið færðar til yfirheyrslu vegna málsins og hafi þær nefnt nöfn tveggja manna á svipuðum aldri og kærði sé, sem þær saki um einhvers konar kynferlisatferli við þær. Ekki sé búið að finna örugglega út um hvaða menn sé að ræða.

Rannsókn brota þessara sé á frumstigi og veruleg hætta sé á að kærði hafi áhrif á rannsóknina og vitnisburði stúlknanna ef hann fær að ganga laus á meðan á frumrannsókninni stendur og sé þar sérstaklega vísað til þessarar hættu vegna þess hve stúlkurnar eru ungar. Einnig sé talin hætta á að hann hafi áhrif á gang rannsóknarinnar ef hann fengi að ganga laus meðan þáttur sökunauta hans sé rannsakaður.

Stúlkur þær er að framan eru nefndar hafa gefið skýrslur í Barnahúsinu í Reykjavík og eru úrdrættir úr skýrslum þeim lagðar fram hér í málinu. Í yfirheyrslum þessum skýra allar stúlkurnar frá atvikum í samskiptum sínum við kærða, sem vekja rökstuddar grunsemdir um að hann kunni að hafa með atferli sínu brotið gegn 202. gr. almennra hegningarlaga. Þá koma fram í skýrslunum nöfn nokkurra vitna og manna, sem framburður stúlknanna vekur grun um að hafi gerst brotlegir við framangreinda hegningarlagagrein með atferli sínu gagnvart þeim. Eftir er að yfirheyra þetta fólk.

Fallast ber á þá staðhæfingu gæsluvarðhaldsbeiðanda að hætta geti verið á að kærði hafi áhrif á framburð þeirra vitna, sem eftir er að yfirheyra, einkum stúlkna sem þar eru nefndar og verður samkvæmt framangreindu fallist á að skilyrði framangreindrar greinar laga nr. 19, 1991 til gæsluvarðhaldsvistar sé fullnægt.

Með vísan til framangreinds ber að taka kröfu gæsluvarðhaldsbeiðanda til greina þannig að úrskurða ber kærða til gæsluvarðhaldsvistar í allt að 6 daga eða til laugardagsins 1. maí n.k. kl. 14:00.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi í allt að 6 daga eða til kl. 14:00 1. maí n.k.