Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                              

Þriðjudaginn 25. júní 2013.

Nr. 415/2013.

A

(Guðrún Björg Birgisdóttir hrl.)

gegn

velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. 

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í eitt ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2013 þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími en kveðið er á um í hinum kærða úrskurði. Þá er gerð krafa um kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hæstaréttarlögmanns, 100.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2013.

Með beiðni, dagsettri 30. maí 2013, hefur Reykjavíkurborg, velferðarsvið krafist þess að A, kt. [...], til heimilis að [...], verði svipt sjálfræði tímabundið. Í beiðni var krafist sviptingar í tvö ár en undir rekstri málsins dró sóknaraðili úr kröfu sinni og krefst þess nú að varnaraðili verði svipt sjálfærði í 1 ár. Um grundvöll kröfunnar vísar sóknaraðili til b liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Beiðni sú um sjálfræðissviptingu varnaraðila sem hér er til meðferðar er sett fram í kjölfar nauðungarvistunar hennar á sjúkrahúsi samkvæmt ákvörðun Innanríkisráðuneytisins frá 10. maí sl. sem renna skyldi út 31. maí sl. Beiðni þessi var móttekin af héraðsdómi 30. maí sl. Hélst því nauðungarvistun varnaraðila meðan á meðferð beiðninnar fyrir dómi stóð, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 71/1997.

Með beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð B yfirlæknis á móttökudeild fíknimeðferðar á deild 33A á Landspítala-háskólasjúkrahúsi dags. 27. maí sl. Kemur m.a. fram í vottorðinu að varnaraðili eigi margra ára sögu um áfengissýki og hafi margoft farið í meðferðir á deild 33A, Vogi, Hlaðgerðarkoti og Krýsuvík. Síðustu fjögur ár hafi ástand hennar farið versnandi, stutt hafi verið á milli innlagna, auk þess sem varnaraðili hafi í fjölda skipta komið á bráðavaktir. Er því og lýst í vottorðinu að þrátt fyrir langar innlagnir á deild hafi varnaraðili farið strax í áfengisdrykkju aftur þegar hún hafi komið út og ástand verði mjög fljótt lífshættulegt. Hafi hún ítrekað orðið fyrir mjög alvarlegum meiðslum vegna áfengisdrykkju og hafi þetta ástand farið versnandi.

Kemur loks fram í vottorðinu að það sé mat læknisins að varnaraðili sé með sérlega erfiða áfengissýki sem ekki hafi svarað meðferð. Hún sé vegna þessa ófær um að ráða högum sínum.

Í málinu liggur einnig fyrir læknisvottorð C dags. 10. maí 2013, en það vottorð lá til grundvallar ákvörðun Innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun varnaraðila á sjúkrahúsi. Lýsir það vottorð heilsufari varnaraðila mjög á sama veg og það vottorð sem hér hefur verið að nokkru rakið.

B læknir gaf skýrslu fyrir dóminum, staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Varnaraðili gaf einnig skýrslu fyrir dómi.

Það er mat dómsins að framburður varnaraðila hafi ekki verið með þeim hætti að varpað hafi rýrð á réttmæti fyrirliggjandi læknisvottorðs B, eða þeirra ályktana sem þar eru dregnar um heilsufar hennar.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan og þá einkum vottorða lækna, sem og framburðar annars þeirra hér fyrir dómi, þykir hafið yfir vafa að varnaraðili er haldinn alvarlegri áfengissýki, sem er á því stigi að lífi hennar og heilsu stafar ógn af. Sjúkrasaga varnaraðili sýnir og að hún virðist ekki hafa innsæi í sjúkdóm sinn. Verður af framangreindum sökum fallist á með sóknaraðila að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. b. lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997. Verður af framangreindum ástæðum fallist á beiðni sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin með þeim fjárhæðum sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.               

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði í eitt ár.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hrl. 75.300 krónur.