Hæstiréttur íslands
Mál nr. 206/2005
Lykilorð
- Sifskaparbrot
- Börn
- Miskabætur
- Réttargæslumaður
|
|
Fimmtudaginn 23. mars 2006. |
|
Nr. 206/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Sifskaparbrot. Börn. Miskabætur. Réttargæslumaður.
X var ákærður fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa svipt A fyrrum eiginkonu sína, valdi og umsjá barns þeirra með því að fara með það til Frakklands og halda því þar. Með úrskurði héraðsdóms, sem féll rúmum átta mánuðum áður, hafði A verið falin forsjá barnsins til bráðabirgða og foreldrum verið bannað að fara með það úr landi. Óumdeilt var að X fór með barnið til Frakklands án samráðs við A og talið var sannað að honum hefði verið kunnugt um úrskurð héraðsdóms. Þótt gögn málsins bentu til þess að andlegu ástandi barnsins hefði verið áfátt þegar það sætti læknisskoðun í Frakklandi, var ekki fallist á að háttsemi X hefði verið honum refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing X ákveðin skilorðsbundið fangelsi í tíu mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2005 samkvæmt ósk ákærða. Hann krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, þyngingar á refsingu hans og greiðslu miskabóta samkvæmt ákæru.
Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins, en til vara að honum verði ekki gerð refsing í málinu. Þá krefst hann þess að miskabótakröfu verði vísað frá dómi eða hafnað.
Með dómi Hæstaréttar 10. febrúar 2005 í máli nr. 279/2004 var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. janúar 2004 um að A, fyrrum eiginkona ákærða, skyldi fara með forsjá barns þeirra. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður úrskurður áfrýjunardómstóls í Frakklandi 31. janúar 2006 þar sem vísað var frá dómi gagnkvæmum kærum ákærða og fyrrum eiginkonu hans vegna brottnáms barnsins frá Íslandi og Frakklandi. Fram er komið að ákærði hyggst freista þess að fá úrskurð dómstólsins endurskoðaðan.
Ákærði hefur haldið því fram að honum hafi verið nauðugur sá kostur að fara með barn sitt til Frakklands. Þótt gögn málsins bendi til þess að andlegu ástandi barnsins hafi verið áfátt þegar það sætti læknisskoðun í Frakklandi, er fallist á með héraðsdómi að háttsemi ákærða hafi ekki verið honum refsilaus samkvæmt ákvæði 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Með þeim rökum sem fram koma í héraðsdómi, en einkum með hliðsjón af refsimörkum 193. gr. almennra hegningarlaga, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Þykir mega binda refsingu hans almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Með háttsemi þeirri sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu A samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Verður því staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um miskabætur.
Fyrir héraðsdómi var nafngreindur hæstaréttarlögmaður skipaður réttargæslumaður fyrir A. Ákæruvaldið hefur fallið frá kröfu um að ákærða verði gert að greiða þóknun vegna skipaðs réttargæslumanns en ekki var fullnægt skilyrðum 44. gr. b., sbr. 1. mgr. 44. gr. c., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, svo sem þeim var breytt með 14. gr. laga nr. 36/1999, til skipunar hans. Fellur þessi hluti sakarkostnaðar á ríkissjóð. Ákærði verður dæmdur til að greiða annan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun á báðum dómstigum, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur skal vera óraskað.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.048.240 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 996.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 22. apríl 2003 á hendur X, kt. [...], Reykjavík, „fyrir sifskaparbrot með því að hafa frá 3. september 2001 til 26. mars 2002 svipt A, kennitala [...], valdi og umsjá yfir dóttur þeirra C, kennitala [...], með því að fara með stúlkuna til Frakklands og halda henni þar hjá sér. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2001 var móðurinni falin forsjá stúlkunnar til bráðabirgða og foreldrum bannað að fara með stúlkuna úr landi.
Telst þetta varða við 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá tjónsdegi og skaðabóta að fjárhæð 660.000, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga hafi krafan ekki verið greidd innan mánaðar frá því hún var kynnt ákærða.”
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna.
Málavextir.
Málavextir eru þeir helstir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2001 var A, fyrrum eiginkonu ákærða, úrskurðuð forsjá dóttur hennar og ákærða, C, til bráðabirgða. Á sama tíma var að kröfu ákærða lagt farbann á barnið. Þann 5. september 2001 kærði A brottnám barnsins úr landi og þar með sviptingu á forræði hennar yfir barninu. Samkomulag hefði orðið með lögmönnum þeirra kæranda og ákærða að ákærði fengi að hafa dóttur sína hjá sér frá föstudeginum 31. ágúst 2001 til þriðjudagsmorguns 4. september s.á. Hefði ákærði síðan hringt í kæranda kl. 15.00 4. september 2001 og tilkynnt henni að hann væri með C í Frakklandi og að hann hyggðist láta dæma í málinu í Frakklandi.
Kærandi fór til Frakklands 25. mars 2002 og flutti C með sér út úr landinu sama dag en flaug með hana til Íslands 1. apríl s.á.
Við meðferð málsins fyrir dóminum krafðist ákærði þess að málinu yrði vísað frá dómi. Þann 4. október 2004 var kveðinn upp úrskurður þar sem frávísunarkröfunni var hafnað sem og kröfu hans um að málinu yrði frestað ótiltekið. Þá hafnaði dómurinn kröfu ákærða um að dómari málsins viki sæti í úrskurði dagsettum 18. janúar sl.
Í málinu liggja frammi íslenskar þýðingar þriggja vottorða F. Ducrocq geðlæknis og yfirlæknis göngudeildar barna vegna geðrænna áfalla á héraðs- og háskólasjúkrahúsi [...] í Frakklandi. Fyrsta vottorðið er dagsett 29. nóvember 2001 en þar kemur fram að læknirinn hafi haft C til viðtalsmeðferðar frá 17. september 2001. Eftir komu C til Frakklands þremur mánuðum fyrr hafi hún greinilega verið mörkuð af nýorðnum alvarlegum áföllum. Síðan segir í íslenskri þýðingu:
„Fjöldi einkenna sem fram komu á (viðtals)fundunum með C, en einnig fyllilega samkvæm atriði sem faðirinn hafði skýrt frá, minntu sterklega á samhengi sjúkdómseinkenna sem flokkast undir bráðastreituástand í kjölfar áfalla: svefntruflanir, skapgerðartruflanir, hegðunar- og hátternisvandamál. Úr þessum truflunum dró mikið eftir því sem á viðtalsfundina leið þar sem barnið fjarlægðist greinilega áfallið eða áföllin sem það hafði orðið fyrir á Íslandi, og komu þar til jákvæð áhrif af því að andrúmsloft öryggisleysis var horfið. C liður betur núna en ástand hennar útheimtir áframhaldandi sálræna meðferð til þess að koma í veg fyrir röskun á tilfinningalegum þroska hennar og fyrirbyggja þannig að upp komi sálsýki. Þetta jafnvægi er hinsvegar viðkvæmt og ég hef verulegar áhyggjur af þeim stjórnsýslu- og lagaflækjum sem uppi eru nú, þar sem tilteknir þættir vekja ugg varðandi endurnýjuð samskipti C við móður sína á Íslandi, samskipti sem mér virðast við núverandi aðstæður hugsanlega geta haft afar skaðleg áhrif á heilsu barnsins.”
Í vottorði sama læknis dagsettu 28. mars 2003 kemur fram að læknirinn hafi hitt C reglulega frá september 2001 fram í mars 2002. Þar segir meðal annars í íslenskri þýðingu: „Um leið og ég sá hana fyrst 11. september 2001, hitti ég fyrir telpu með augljós sálsýkisfræðileg sjúkdómseinkenni: hún kveið aðskilnaði, sýndi merki um afturför í hegðun, hélt í sér hægðum, hafði raskanir á persónuleika og svefni, einkenni sem fengu mig strax til að hugsa til sjúkdómafræði geðrænna áfalla. Sjúkdómseinkennin löguðust hratt en það benti eindregið til að fjölskylduaðstæður væru traustar, veittu aðhald og öryggiskennd þrátt fyrir einstætt foreldri, því að C bjó á þeim tíma með föður sínum einum. C svaf betur, hún hélt ekki lengur jafn fast í föður sinn, hægðir urðu eðlilegar og samskipti við hana urðu auðveldari. Þessum eindregna bata á sjúkdómseinkennunum ásamt vaknandi geðrænu og tilfinningalegu jafnvægi var kollvarpað í janúar 2002, þegar C var aftur látin hafa samband við mömmu sína. Nokkur hegðunarröskun kom fram en mildaðist síðan.”
Í þriðja vottorði sínu dagsettu 28. apríl 2003 lýsir F. Ducrocq því að hann hafi fengið fyrstu viðvörun vegna C í gegnum starfsbróður sinn Eric Debievre lækni sem hefði hringt í hann 6. september 2001 til að fá tíma vegna bráðatilfellis á göngudeild og hefði Debievre læknir lýst áhyggjum sínum af aðstæðum stúlkunnar. Hefði vottorðsgjafi tekið á móti barninu 11. september 2001 enda talið óhjákvæmilegt að hefja fljótt reglulega meðferð fyrir C.
Einnig liggur frammi í málinu vottorð dr. Agnesar Agnarsdóttur, sálfræðings, dagsett 7. júní 2004, vegna kæranda málsins, A. Þar kemur fram að A hafi sótt 12 viðtöl hjá sálfræðingnum með reglulegu millibili frá 7. maí 2003 og standi meðferð enn yfir. A hefði verið vísað í meðferðina af Bertrand Lauth, sérfræðingi í barnageðlækningum, vegna viðvarandi tilfinningalegs álags sem leitt hafi af deilu við fyrrverandi eiginmann hennar, ákærða í máli þessu.
Er greint frá því að A hafi orðið fyrir endurteknum alvarlegum áföllum sem tengst hafi þessari deilu, flótta hennar með barnið í kvennaathvarf og brottnám ákærða á barninu til Frakklands og flótti A með barnið heim frá Frakklandi. Þessir atburðir, deilur og stöðug streituvekjandi áreiti af hálfu ákærða virðist hafa valdið A alvarlegu tilfinningalegu álagi sem augljóslega hafi verið til staðar í upphafi meðferðar. Álagseinkenni hafi komið fram í kvíða, sem lýsti sér í höfuðverk, vöðvaspennu, svefntruflunum, martröðum, stöðugri hræðslu og áhyggjum af dótturinni og séu þetta eðlileg tilfinningaleg viðbrögð við ógnvekjandi utanaðkomandi ástandi sem rekja megi til forsjárdeilunnar.
Loks kemur fram í vottorðinu að A gangi nú vel að höndla daglegt líf og sinna dóttur sinni á fullnægjandi hátt, hún nýti sér sálfræðimeðferð en hins vegar torveldi það mjög meðferðina að ekkert lát virðist á streituvöldum sem tengist undangenginni forsjárdeilu og því sé A haldin viðvarandi ótta við að ákærði nemi dóttur þeirra á brott öðru sinni.
Loks liggur frammi vottorð Bertrand Lauth, barna- og unglingageðlæknis, dagsett 10. maí 2004 þar sem fram kemur að A var mánaðarlega í eftirliti hjá vottorðsgjafa á tímabilinu frá maí 2001 til ágúst 2002. Þar segir að skyndilegur og langvarandi aðskilnaður A og ungrar dóttur hennar hafi haft skaðleg áhrif á andlegt ástand móðurinnar. Síðan segir: „Strax eftir að barninu var rænt komu fram kvíða- og streituröskunareinkenni hjá A ásamt svefntruflunum sem voru ekki til staðar hjá henni áður. Þetta ástand hefur haft skaðandi áhrif á félags- og atvinnulíf A sem þurfti að fara á lyfjameðferð í júní 2002.”
Verður nú rakinn framburður vitna fyrir dóminum. Ákærði gaf ekki skýrslu fyrir dóminum þar sem hann viðurkennir ekki lögsögu íslenskra dómstóla í málinu.
A, fyrrverandi eiginkona ákærða og móðir C, gaf vitnaskýrslu fyrir dóminum. Hún kvað ákærða hafa haft barnið hjá sér helgina 31. ágúst til 4. september 2001 en hún hefði komist að því hjá dagmömmu telpunnar síðarnefndan dag að ákærði hefði tilkynnt að telpan kæmi ekki til dagmömmunnar þar sem þau feðgin væru í fríi. Hún hefði frétt hjá yfirmanni ákærða að ákærði væri farinn til Frakklands með barnið. Síðar hefðu nágrannar ákærða sagt henni að sendiferðabifreið hefði komið að íbúðinni um þremur dögum fyrir brottför feðginanna og þegar vitnið kom í íbúðina síðar í mánuðinum hefði hún verið tóm. Vitnið kvaðst hafa kært brottnám barnsins til lögreglu hér á landi 5. september en síðan kært ákærða til ríkissaksóknara í [...] í Frakklandi 20. sama mánaðar. Hinn 12. október hefði gengið úrskurður í [...] þar sem staðfest var að telpan yrði afhent vitninu. Ákærði hefði kært þann úrskurð og vitnið kvaðst hafa farið til Frakklands um jólin og leitað til lögfræðings þar. Hún hefði dvalið ytra í 3 vikur en ekki fengið að sjá telpuna fyrr en 11. janúar 2002 eftir að þarlendur dómari í hjónaskilnaðarmáli þeirra hjóna hafði mælt fyrir um það. Þá hefði hún hitt telpuna tvisvar sinnum á róluvelli eftir það að ákærða og öðrum viðstöddum. Kvaðst vitnið hafa beðið ákærða að koma aftur til Íslands með C en hann neitað því. Næst hefði vitnið farið út til að hitta dóttur sína eina helgi í febrúar og síðast í lok mars. Þann 26. mars hefði hún fengið að hitta C en þá hefði hún verið búin að ákveða að taka telpuna með sér aftur til Íslands. Hefði hún komist á brott með hana með aðstoð manns, sem hún vildi ekki nafngreina, sem hefði ekið þeim yfir til Belgíu og síðan hefðu þær mægður farið heim til Íslands.
Aðspurð um líðan barnsins áður en ákærði fór með það úr landi, kvað vitnið telpuna alltaf hafa átt við hægðavandamál að stríða og ætti enn. Telpunni hefði hins vegar liðið vel hjá sér og hjá dagmömmunni sumarið 2001 en hún vaknaði enn tvisvar á nóttu eins og hún hefði alltaf gert. Vitnið kvað sér hafa liðið mjög illa eftir að ákærði nam telpuna á brott og hefði hún leitað sér aðstoðar hjá geðlæknum enda hefði hún stöðugt verið hrædd um að telpan yrði aftur tekin frá henni. Vitnið kveðst njóta aðstoðar sálfræðings og muni gera áfram.
Agnes Agnarsdóttir, sálfræðingur í bráðamóttöku geðsviðs Landspítala háskólasjúkrahúss, gaf vitnaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti vottorð sitt dagsett 7. júní 2004. Kvað hún A enn vera í viðtalsmeðferð hjá sér en hún ætti erfitt með svefn og væri hrædd um að ákærði færi með C af landi brott á ný. Aðspurð um vitneskju hennar um atvik 9. júlí 2004 þegar A kom með C á vinnustað ákærða, kvað vitnið A hafa hringt til sín niðurbrotin þennan dag og sagst hafa afhent ákærða telpuna þar sem sýslumaður hefði tekið ákvörðun um að ákærði fengi að umgangast hana án eftirlits. A hefði verið í miklu tilfinningalegu uppnámi og hefði hún ekki talið sig ráða við aðstæður lengur. Taldi vitnið um eðlileg viðbrögð A að ræða sem hefði á þessum tíma fundið til mikils vonleysis.
D gaf vitnaskýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða áður en þau ákærði og A kynntust. Hefðu tekist með þeim vitninu og ákærða góð kynni í tengslum við nemendaskipti. Vitnið kvaðst hafa kynnst A þegar hún kom sem skiptinemi í skóla þar sem vitnið stundaði kennslustörf. Þau ákærði og A hefðu hist heima hjá vitninu og gifst og eignast dótturina C. Kvaðst vitnið hafa fylgst náið með lífi þeirra hjóna og talið þau samrýnd allt þar til X upplýsti að svo væri ekki. Síðan hefði A farið orðalaust að heiman með barnið í nokkrar vikur og hefði ákærði haft af því miklar áhyggjur. Eftir þetta hefði ákærði fengið að sjá telpuna stopult og haft áhyggjur af heilsufari hennar, m.a. hægðavandræðum. Vitnið kvaðst hafa stutt ákærða í forræðisdeilunni vegna þess að honum hefði alltaf þótt sem C væri einkennilega hræðslugjörn og kvíðin en hins vegar hefði henni liðið mun betur þegar hún væri ein með ákærða. Ákærði hefði alltaf sinnt telpunni mun meira þegar vitnið hitti þau saman, ákærða og A, og því hefði vitnið talið betri kost fyrir telpuna að vera hjá ákærða. Vitnið kvað ástæðuna fyrir því að ákærði hefði farið með barnið til Frakklands hafa verið þá að láta lækni í Frakklandi skoða telpuna. Hefði vitnið skilið þá aðgerð ákærða þannig að um neyðarráðstöfun væri að ræða og hefði ákærði haft í huga að vera tímabundið í Frakklandi.
Vitnið kvaðst ekki hafa fylgst með því hvort ákærði hefði talað um að láta sérfræðinga á Íslandi skoða telpuna og mundi ekki hvort svo hefði verið. Kvað vitnið ákærða hafa talið að illa væri með C farið og að hún þyrfti að fara í læknisskoðun. Aðspurður kvað vitnið að verið gæti að þeir ákærði hefðu rætt að þessi utanferð ákærða með stúlkuna gæti varðað við lög en það hefði þá verið nefnt sem fáránlegur möguleiki. Þá taldi vitnið einnig að verið gæti að þeir ákærði hefðu rætt niðurstöðu bráðabirgðaforsjárúrskurðarins en sérstaklega aðspurður minntist hann þess þó ekki að þeir hefðu rætt farbannsákvæðið.
E kom fyrir dóminn sem vitni. Hún kvaðst hafa kynnst ákærða árið 1985 áður en hann kynntist A. Hefði sambúð þeirra ákærða og A virst vera afar góð þar til í febrúar 2001 en um það leyti hefðu verið komnir upp miklir erfiðleikar í hjónabandinu. Í apríl sama ár hefði ákærði sagt vitninu frá því að C hefði fengið martraðir á nóttunni en á þeim tíma hefði ákærði ekki grunað A um neitt. Hins vegar hefði hann haft áhyggjur af því hvernig A brást við þegar telpan vaknaði á nóttunni. Ákærði hefði sagt vitninu frá því að sálfræðingur sem þau leituðu til hefði sagt að það væri ekkert að telpunni en það væri eitthvað mikið að hjá öðru hvoru foreldrinu. A hefði á þessum tíma átt erfitt en hefði þó ekki leitað sér aðstoðar fyrr en síðar þrátt fyrir að ákærði hefði hvatt hana til þess.
Ákærði hefði rætt um það við vitnið í ágúst 2001 að hann væri að hugsa um að fara með C til Frakklands og þá hefðu þau rætt niðurstöðu bráðabirgðaforsjárúrskurðarins frá í júlí sama ár. Vitnið kvaðst hafa ráðið ákærða frá því að fara með telpuna af landi brott en hann hefði sagst ekki vilja bregðast barninu í neyð, þrátt fyrir að honum væri kunnugt um að það gæti bakað honum refsiábyrgð. Kvað vitnið C hafa liðið mjög illa, hún hefði verið dauf og þvinguð og hún brosti aldrei. Þegar ákærði hefði komið einn með C til vitnisins í apríl hefði telpan hins vegar verið glöð og leikið sér. Aðspurð kvaðst vitnið minna að ákærði hefði ekki farið með C til sérfræðinga hér á landi. Vitnið kvað ákærða hafa haft opinn farmiða þegar hann fór af landi brott umrætt sinn en hefði ekki minnst á það hvenær hann kæmi til baka en hann hefði þó ætlað að koma aftur til Íslands og einungis farið með telpuna til Frakklands til að forða henni frá erfiðum aðstæðum.
Niðurstaða.
Óumdeilt er að ákærði fór með dóttur sína C til Frakklands í byrjun september 2001. Með framburði A, fyrrverandi eiginkonu ákærða og móður C, og gögnum málsins er í ljós leitt að ákærði hafði ekki samráð við hana um ferðina. Þá liggur fyrir að A var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2001 úrskurðuð forsjá C til bráðabirgða og var þá jafnframt lagt farbann á barnið að kröfu ákærða.
Ákærði kom fyrir dóminn 11. desember 2003 og neitaði sakargiftum og hafnaði framkomnum bótakröfum. Hins vegar vildi ákærði ekki gefa skýrslu fyrir dóminum þar sem hann var mótfallinn því að málið væri rekið fyrir íslenskum dómstólum. Sýknukröfu sína byggir ákærði á því að það hafi verið neyðarúrræði ákærða að nema telpuna á brott til að gæta hagsmuna hennar. Þá er á því byggt að ósannað sé að ákærði hafi vitað um niðurstöðu úrskurðarins um bráðabirgðaforsjá og farbann.
Í framangreindum bráðabirgðaforsjár- og farbannsúrskurði frá 13. júlí 2001 kemur fram að tengsl C og A, móður hennar, hafi verið eðlileg og órofin frá fæðingu telpunnar og hafi þau verið telpunni sérstaklega mikilvæg og var móðurinni því úrskurðuð forsjá telpunnar til bráðabirgða. Ekkert er fram komið í þessu máli um að móðirin hafi verið ófær um að annast dóttur sína eða að hún hafi á einhvern hátt unnið gegn hagsmunum hennar. Samkvæmt vottorðum læknisins F. Ducroqc, sem rakin eru hér að framan, var það niðurstaða hans að hjá C hefði í byrjun september 2001 mátt greina bráðastreituástand í kjölfar áfalla, svefntruflanir, skapgerðartruflanir, hegðunar- og hátternisvandamál. Með vísan til framlagðra gagna í málinu, einkum sálfræðigagna úr forsjárdeilumáli milli ákærða og A, verður ekki ráðið með óyggjandi hætti að framangreind einkenni verði einvörðungu rakin til atriða er varða A. Þá verður framburður vitnanna D og E fyrir dóminum um hjónaband ákærða og A, heilsu A og ástand C ekki talinn staðfesta með nokkurri vissu að ástand telpunnar hafi verið með þeim hætti að unnt sé að líta svo á að ákærði hafi numið telpuna á brott í þeim tilgangi að vernda hagsmuni hennar gegn yfirvofandi hættu., sbr. ákvæði 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekkert í málinu bendir til þess að ákærði hafi leitað til heilbrigðisyfirvalda eða annarra yfirvalda hér á landi vegna þess vanda sem hann taldi dóttur sína eiga við að stríða.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. júlí 2001 um bráðabirgðaforsjá og farbann á C var kveðinn upp samkvæmt 3. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Í gögnum málsins er að finna bréfasendingar milli lögmanna aðila þess máls sem fjalla um tilhögun umgengni ákærða við dóttur sína. Þá er komið fram hjá vitnunum D og E að ákærði ræddi við vini sína sumarið 2001 um afleiðingar þess að fara úr landi með telpuna í trássi við úrskurðinn. Því er ljóst að ákærði vissi um niðurstöðu framangreinds úrskurðar og gerði sér grein fyrir því að brottnám telpunnar gæti varðað hann viðurlögum en eins og fram kom hjá vitninu E fyrir dóminum tók ákærði ákvörðun um brottnámið þrátt fyrir að honum væri fyllilega ljóst að sú háttsemi gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir hann að lögum. Athæfi ákærða verður talið vera í samræmi við efnislýsingu 193. gr. almennra hegningarlaga og verknaðarlýsingu í ákæru en þar er á báðum stöðum notuð orðin vald og umsjá sem telja verður að svari til forsjár í skilningi barnalaga. Samkvæmt öllu framansögðu telst sannað að ákærði framdi það brot sem hann er ákærður fyrir af ásetningi. Er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Með broti sínu braut ákærði freklega gegn rétti móður C. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Mál þetta hefur dregist vegna ýmissa atvika sem ákærða verður ekki að öllu leyti kennt um. Að öllu framanrituðu virtu og með tilliti til þess að langur tími er liðinn frá framningu brotsins þykir rétt að fresta framkvæmd refsivistarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu A hefur þess verið krafist að ákærði greiði henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá því mánuði eftir að krafan var kynnt ákærða til greiðsludags og skaðabætur vegna beins fjártjóns að fjárhæð 660.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá því mánuði eftir að krafan var kynnt ákærða til greiðsludags. Þá er krafist lögmannskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Ljóst er og sýnt fram á með gögnum að athæfi ákærða hefur valdið bótakrefjanda miska og ber ákærða því að greiða henni miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og beri þær vexti samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 4. september 2001 til 11. janúar 2004 en dráttarvexti samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hins vegar þykir krafa um bætur vegna beins fjártjóns ekki nægilega studd gögnum og verður henni því vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 520.000 krónur, og réttargæslulaun til Daggar Pálsdóttur hrl., 150.000 krónur.
Ragnheiður Harðardóttir, saksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 4. september 2001 til 11. janúar 2004 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Skaðabótakröfu vegna beins fjártjóns er vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 520.000 krónur, og réttargæslulaun Daggar Pálsdóttur hrl., 150.000 krónur.