Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2010
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Samningur
- Starfslok
- Loforð
- Trúnaðarskylda
- Sératkvæði
Fimmtudaginn 21. október 2010.
Nr. 13/2010. EJS ehf.
(Anton B. Markússon hrl.)
gegn
Jóni Viggó Gunnarssyni
(Hulda R. Rúriksdóttir hrl.)
Ráðningarsamningur. Samningur. Starfslok. Loforð. Trúnaðarskylda. Sératkvæði.
Gerður var starfslokasamningur við J, þáverandi forstjóri E, 26. september 2008 og lét J af störfum samdægurs. Með vísan til ráðningarsamnings J var í samningnum kveðið á um bann við samkeppni og því að J sinnti öðrum störfum án samþykkis E fram til 31. mars 2009. Með bréfi 18. desember 2008 veitti stjórnarformaður E skilyrt leyfi til handa J þess efnis að honum væri heimilt að taka að sér tímabundið starf fyrir C. Með bréfi 12. febrúar 2009 afturkallaði E framangreint samþykki sitt með vísan til þess að J hefði brotið gegn ráðningarsamningi og samkomulagi um starfslok. J höfðaði mál þetta á hendur E til heimtu vangoldinna launa og hlunninda samkvæmt starfslokasamningi þeirra í millum. Deila aðila laut einkum að því hvort E hefði verið heimilt að afturkalla samþykki sitt. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að E hefði ekki haft skyldu til þess að verða við ósk J um að mega taka að sér störf hjá C. E hefði engu að síður orðið við því en bundið samþykki sitt skilyrðum sem lutu meðal annars að því að stefndi ynni ekki fyrir samkeppnisaðila E eða tengd félög. Heimild E til afturköllunar réðist af því hvort skilyrði fyrir samþykki E hefðu verið brotin af hálfu J. E lagði fram útprentun á tölvupóstum sem hann taldi sýna að J hefði ætlað sér að vinna fyrir félagið X sem hefði ætlað að starfa í samkeppni við E. Í málinu lægi fyrir að J hefði staðfastlega mótmælt því að framangreindir tölvupóstar stöfuðu frá sér eða hefði verið beint til sín og fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu E að ekki væri vitað neitt um uppruna þeirra. Með vísan til þessa og gegn andmælum J yrðu tölvupóstarnir ekki lagðir til grundvallar við úrlausn málsins. Þar sem E lagði ekki fram frekari gögn málatilbúnaði sínum til stuðnings var niðurstaða Hæstaréttar sú að E hefði ekki tekist sönnun um að honum hefði verið heimilt að afturkalla samþykki sitt fyrir því að J ynni hjá C og var krafa J því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi var ráðinn forstjóri áfrýjanda frá 7. apríl 2006. Þá var gerður ráðningarsamningur við hann sem endurnýjaður var með nýjum samningi 1. mars 2008. Í 3. mgr. 5. gr. síðarnefnda samningsins kom fram að stefnda væri óheimilt að sinna öðrum störfum en samningurinn kvæði á um meðan hann væri í gildi nema með samþykki stjórnar áfrýjanda. Í 7. gr. samningsins lofaði stefndi að gæta fyllstu þagmælsku um öll atriði sem hann fengi vitneskju um í starfi sínu og vörðuðu áfrýjanda. Samkvæmt 8. gr. samningsins skuldbatt stefndi sig í eitt ár eftir að störfum hans lyki hjá áfrýjanda meðal annars til að vinna ekki hjá samkeppnisaðila áfrýjanda og vinna ekki hliðstæð eða samsvarandi störf fyrir aðra en áfrýjanda. Segði áfrýjandi stefnda upp störfum gæti áfrýjandi ákveðið einhliða að greiða honum laun í allt að 12 mánuði og væri þá stefnda óheimilt að vinna í samkeppni við áfrýjanda. Stefndi hefði þó enga vinnuskyldu fyrir áfrýjanda á þeim tíma.
Áfrýjandi gerði starfslokasamning við stefnda 26. september 2008 og lét stefndi af störfum sama dag. Í samningnum var tekið fram að stefndi hefði ekki frekari viðveruskyldu hjá áfrýjanda en yrði til ráðuneytis og upplýsingagjafar á uppsagnarfresti væri eftir því leitað fram til 31. mars 2009. Áfrýjandi lofaði meðal annars að greiða stefnda full mánaðarlaun fram til 31. mars 2009 og orlofsinneign. Þá var tekið fram að í samræmi við 3. mgr. 5. gr. ráðningarsamningsins frá 1. mars 2008 væri stefnda óheimilt að sinna öðrum störfum án samþykkis áfrýjanda fram til 31. mars 2009. Greiðslur launa og annarra hlunninda samkvæmt þessum samningi skyldu falla niður ef starfsmaður hæfi önnur störf á þeim tíma án samþykkis áfrýjanda. Trúnaðarskyldur stefnda samkvæmt 7. gr. ráðningarsamningsins voru áréttaðar. Loks var tekið fram að áfrýjandi hygðist ekki nýta þann rétt sem kveðið væri á um í 3. mgr. 8. gr. ráðningarsamningsins um launagreiðslu í 12 mánuði í kjölfar uppsagnar. Aðilar væru sammála um að samkeppnishömlur sem tilgreindar væru í 8. gr. ráðningarsamningsins ættu við fram til 31. mars 2009 eða meðan starfsmaður fengi laun greidd frá áfrýjanda.
Áfrýjandi ritaði stefnda bréf 10. desember 2008 og bar honum á brýn að hafa veitt aðila, sem ynni að tilboðsgerð í hlutafé áfrýjanda, upplýsingar um fjárhags- og rekstrarleg málefni þess. Þá hefði áfrýjandi ennfremur fyrir því heimildir að stefndi hefði ítrekað átt samskipti við birgja án þess að leita samþykkis áfrýjanda áður. Stefndi vísaði þessu á bug. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi bar stefndi að fjárfestir, sem hefði verið að hugleiða kaup á hlutafé í áfrýjanda, hefði komið að máli við sig. Stefndi kveðst þá hafa haft samband bæði við forstjóra og stjórnarformann Teymis, sem var eigandi áfrýjanda, og stjórnarformaður Teymis talið að ræða bæri málið við sig og hefði verið haldinn einn fundur. Stefndi kveðst ekki hafa veitt neinar upplýsingar um áfrýjanda. Um samskipti við birgja bar stefndi að hann hefði starfað lengi á þessum vettvangi og væri því vinur margra sem störfuðu hjá birgjum áfrýjanda.
Stefndi ritaði stjórnarformanni áfrýjanda bréf 13. desember 2008 og óskaði eftir samþykki hans fyrir því að honum væri heimilt að taka að sér tímabundið starf hjá Capacent ehf. Í bréfinu var lýsing á þeim verkefnum sem heyrðu undir hið nýja starf. Stjórnarformaður áfrýjanda ritaði stefnda bréf 18. desember 2008 þar sem honum voru heimiluð störf hjá Capacent ehf. með skilyrðum sem greint var frá í fjórum liðum. Fyrsta skilyrðið laut að því að ekki væri unnið fyrir samkeppnisaðila áfrýjanda, móðurfélags þess eða dótturfélög. Annað skilyrðið varðaði áframhaldandi trúnað um upplýsingar sem hann hefði fengið í starfi sínu hjá áfrýjanda. Þriðja skilyrðið var að um tímabundna ráðningu væri að ræða og hið fjórða að sími, bifreið og nettenging eða annað sem stefndi hafði frá áfrýjanda væru ekki notuð í þágu nýs vinnuveitanda. Þá sagði í 5. tölulið: „Áskilinn er réttur til að afturkalla þessa heimild með skriflegri tilkynningu án sérstaks fyrirvara sé tilefni til að ætla að þeim skilyrðum sem hér eru fram sett eða ákvæðum ofangreindra samninga hafi ekki verið fylgt.“
Áfrýjandi krafðist þess 10. febrúar 2009 að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að stefndi hæfi störf hjá einkahlutafélaginu XA, kæmi fram fyrir hönd félagsins, kynnti það eða sinnti nokkrum öðrum verkefnum fyrir það. Lagðar voru fram útprentanir á ætluðum tölvupóstsamskiptum stefnda og sex annarra nafngreindra manna sem áfrýjandi taldi sýna að tilgangurinn með stofnun XA ehf. væri að fara í samkeppni við áfrýjanda. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði lögbannskröfu áfrýjanda 23. febrúar 2009 þar sem félagið hefði ekki sýnt fram á að stefndi hefði þegar hafist handa um eða yfirvofandi væri sú háttsemi sem lögbanns væri krafist við.
Áfrýjandi ritaði stefnda bréf 12. febrúar 2009 og kvaðst hafa undir höndum trúverðug gögn sem bentu eindregið til þess að stefndi hefði brotið gróflega gegn ráðningarsamningi sínum og samkomulagi um starfslok. Með vísan til 5. töluliðs í bréfi áfrýjanda til stefnda 18. desember 2008 afturkallaði áfrýjandi heimild sína fyrir því að stefndi starfaði hjá Capacent ehf. Áfrýjandi ritaði stefnda annað bréf 24. febrúar 2009 og tilkynnti honum að hætt yrði að greiða honum laun frá og með 13. febrúar 2009 þar sem stefndi hefði ekki hætt störfum hjá Capacent ehf. Taldi áfrýjandi sér þetta heimilt með vísan til ákvæða starfslokasamnings stefnda.
II
Stefndi krefur áfrýjanda um vangoldin laun og hlunnindi samkvæmt starfslokasamningi áfrýjanda við stefnda 26. september 2008. Stefndi telur að samkvæmt efni samþykkis áfrýjanda 18. desember 2008 hafi áfrýjanda ekki verið heimilt að afturkalla það þar sem ekkert af hinum tilgreindu fjórum skilyrðum hafi verið brotið.
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að þar sem hann hafi veitt stefnda réttindi langt umfram skyldu með bréfi sínu 18. desember 2008 sé einboðið að honum hafi verið í sjálfsvald sett, án nokkurra afskipta stefnda, að meta hvort skilyrði til afturköllunar væru uppfyllt samkvæmt því bréfi. Þá vísar áfrýjandi til útprentaðra tölvupósta sem hann telur stefnda ýmist sendanda eða móttakanda að. Verði af þeim ráðið að stefndi hafi misnotað og hagnýtt sér trúnaðarupplýsingar og atvinnuleyndarmál áfrýjanda. Hafi áfrýjanda því verið heimilt að afturkalla það samþykki sem hann veitti stefnda 18. desember 2008 til að vinna hjá Capacent ehf.
III
Deila málsins lýtur einkum að því hvort áfrýjanda hafi verið heimilt að afturkalla samþykki sitt fyrir því að stefndi ynni í uppsagnarfresti hjá Capacent ehf. að því viðlögðu að launagreiðslur féllu niður til stefnda skipaðist hann ekki við ákvöð áfrýjanda.
Áfrýjandi gerði starfslokasamning við stefnda 26. september 2008. Þá veitti áfrýjandi skriflegt samþykki fyrir því 18. desember 2008, með vísan til ráðningarsamnings og starfslokasamnings stefnda, að hann tæki við starfi hjá Capacent ehf. að uppfylltum fjórum skilyrðum. Úrslit málsins ráðast af skýringu á þessum löggerningum.
Eins og rakið er hér að framan gerði áfrýjandi starfslokasamning við stefnda þar sem kveðið var svo á að með vísan til 3. mgr. 5. gr. ráðningarsamnings væri stefnda óheimilt að sinna öðrum störfum án samþykkis áfrýjanda til 31. mars 2009. Tekið var fram að greiðslur launa og annarra hlunninda samkvæmt samningnum skyldu falla niður ef stefndi hæfi önnur störf á þeim tíma án samþykkis áfrýjanda. Þegar stefndi óskaði eftir því við áfrýjanda 13. desember 2008 að mega taka að sér störf hjá Capacent ehf. hafði áfrýjandi samkvæmt þessu engar skyldur til þess að verða við því. Áfrýjandi varð engu að síður við óskum stefnda 18. desember 2008 og batt samþykki sitt skilyrðum sem fram voru sett í fjórum liðum. Eftir að framangreint samþykki áfrýjanda, sem einnig fól í sér loforð, var komið til vitundar stefnda var áfrýjandi bundinn við það. Ræðst því heimild áfrýjanda til afturköllunar af því hvort skilyrði fyrir samþykki hans hafi verið brotin.
Í 1. tölulið í bréfi áfrýjanda til stefnda 18. desember 2008 er samþykki áfrýjanda bundið þeim skilyrðum að stefndi vinni ekki fyrir samkeppnisaðila áfrýjanda, Teymis eða dótturfélaga Teymis, eða að vörum eða verkefnum sem kunni að vera eða sé ætlað að vera í samkeppni við þau félög eða þær vörur sem þau bjóða. Áfrýjandi hefur lagt fram útprentun á tölvupóstum sem hann telur sýna að stefndi hafi ætlað sér að vinna fyrir XA ehf. sem hafi ætlað að starfa í samkeppni við áfrýjanda.
Stefndi hefur bæði fyrir sýslumanni við fyrirtöku lögbannskröfu áfrýjanda og í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi staðfastlega mótmælt því að umræddir tölvupóstar ýmist stafi frá sér eða hafi verið beint til sín. Tölvupóstarnir bera sjálfir með sér að hafa hvorki verið sendir af né mótteknir á netföng starfsmanna áfrýjanda heldur eru þeir skráðir á netföng á „gmail.com“ og „hotmail.com“.Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður áfrýjanda því svo að þessir tölvupóstar hefðu fundist á borði forstjóra áfrýjanda í byrjun febrúar 2009. Hvorki væri vitað neitt um uppruna þeirra né hver hefði lagt þá á borð forstjórans. Að þessu athuguðu og gegn andmælum stefnda verða þessir tölvupóstar ekki lagðir til grundvallar við úrlausn málsins. Þar sem áfrýjandi hefur heldur ekki fært fram önnur gögn er sýna fram á að stefndi hafi gerst brotlegur við þau skilyrði sem fram koma í bréfi áfrýjanda 18. desember 2008, hefur áfrýjandi ekki fært sönnur á að skilyrði hafi verið uppfyllt til þess að honum væri heimilt að afturkalla samþykki sitt fyrir því að stefndi ynni hjá Capacent ehf. Verður krafa stefnda því tekin til greina og niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, EJS hf., greiði stefnda, Jóni Viggó Gunnarssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Um málavexti vísast til atkvæðis meirihluta dómenda. Eins og þar greinir deila málsaðilar einkum um það hvort áfrýjanda hafi verið heimilt að afturkalla samþykki sitt í bréfi 18. desember 2008 fyrir því að stefndi ynni í uppsagnarfresti hjá Capacent hf. að því viðlögðu að launagreiðslur féllu niður til stefnda skipaðist hann ekki við ákvöð áfrýjanda.
Áfrýjandi hefur um þetta meðal annars vísað til tölvubréfa máli sínu til stuðnings sem hann kveður ýmist stafa frá stefnda eða hafa verið send til hans. Í þeim er fjallað um undirbúning að stofnun fyrirtækis í samkeppni við áfrýjanda. Stefndi hefur ekki byggt á því að gögnin séu frá honum komin en fengin með ólögmætum hætti, heldur neitar hann að gögnin stafi frá honum. Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda bera tölvubréfin sjálf með sér að hafa hvorki verið send af né móttekin á netföng starfsmanna áfrýjanda heldur eru þau skráð á netföng á „gmail.com“ og „hotmail.com“. Er eitt þeirra netfanga sem þar kom fram „jon.viggo.gunnarsson@gmail.com“. Þá er í gögnum málsins tölvubréf er varðar annað málefni en hér er til umfjöllunar og kvað stefndi fyrir dómi að um sé að ræða bréf sent úr sínu netfangi „jon.viggo.gunnarsson@gmail.com“. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur vegna dómsmála er tveir fyrrum starfsmenn áfrýjanda höfðuðu gegn honum. Fyrir Hæstarétti kom fram hjá lögmönnum málsaðila að endurritin bæru með sér að verið væri að inna þessa starfsmenn eftir efni þeirra tölvubréfa sem einnig liggja frammi í þessu máli. Tölvubréf þessi eru frá þeim tíma er uppsagnarfrestur stefnda stóð yfir. Samkvæmt áðurnefndum endurritum staðfestu þessir fyrrum starfmenn áfrýjanda að bréfin vörðuðu meðal annars samskipti þeirra við stefnda um undirbúning að stofnun nýs fyrirtækis. Fram kom hjá öðrum þessara starfsmanna að tölvubréfin hefðu fundist á borði forstjóra áfrýjanda í byrjun febrúar 2009. Þrátt fyrir að endurrit þessi varði önnur mál en það sem er hér til meðferðar verður ekki litið fram hjá þessum gögnum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt starfslokasamningi stefnda 26. september 2008 var áfrýjanda óskylt að verða við bréflegri ósk stefnda 13. desember 2008 um að hann fengi að halda launum sínum í uppsagnarfresti hæfi hann störf annars staðar. Það gerði hann eigi að síður með bréfinu 18. desember 2008. Niðurstaða málsins veltur hvorki á túlkun á ráðningar- né starfslokasamningi stefnda, heldur efni síðastnefnds bréfs sem var ívilnandi gerningur er fól í sér betri rétt stefnda til handa en honum bar samkvæmt starfslokasamningnum. Í fimmta lið bréfsins segir: „Áskilinn er réttur til að afturkalla þessa heimild með skriflegri tilkynningu án sérstaks fyrirvara sé tilefni til að ætla að þeim skilyrðum sem eru fram sett eða ákvæðum ofangreindra samninga hafi ekki verið fylgt.“ Af orðalagi þessu og að teknu tilliti til þess sem að framan greinir verður ráðið að áfrýjandi áskilji sér rétt til að meta sjálfur hvort fram kæmi „tilefni til að ætla“ að stefndi fylgdi ekki skilyrðum sem honum voru sett í bréfinu. Í þessu ljósi verður ekki talið að áfrýjandi þurfi með óyggjandi hætti að sanna að stefndi hafi brotið gegn starfslokasamningi aðila. Af því sem fram er komið í málinu mátti áfrýjandi telja sig hafa tilefni til að ætla að stefndi hafi ekki fullnægt þessum áskilnaði. Því gat áfrýjandi fellt niður heimild til handa stefnda til vinnu hjá þriðja aðila að viðlögðum launamissi „án sérstaks fyrirvara“ eins og kveðið var á um í bréfi hans 18. desember 2008. Samkvæmt öllu framanrituðu tel ég að sýkna beri áfrýjanda af kröfu stefnda og að dæma eigi stefnda til greiðslu málskostnaðar á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. nóvember 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóni Viggó Gunnarssyni, kt. 011069-5339, Njarðargötu 47, Reykjavík, gegn EJS ehf., kt. 610502-2530, Grensásvegi 10, Reykjavík, með stefnu sem birt var 3. apríl 2009.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.697.423 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 1. mars 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Auk þess krefst stefndi þess í báðum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Stefnandi, Jón Viggó Gunnarsson, var forstjóri stefnda, EJS ehf., frá 7. apríl 2006. Aðilar gerðu með sér nýjan starfssamning 1. mars 2008. Þar segir í 7. gr.: „Jón Viggó skal að viðlögum drengskap sínum gæta fyllstu þagmælsku um öll atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og varðar félagið t.d. viðskiptakjör, fjárhagsstöðu, afkomu- og framlegðartölu. Er Jóni Viggó óheimilt að gera öðrum en stjórn félagsins grein fyrir slíkum upplýsingum. Jón Viggó heitir því að fara með alla vitneskju sem hann fær í starfi, sem trúnaðarmál, einnig eftir að hann lætur af störfum hjá félaginu.“ Í 8. gr. samningsins segir: „Jón Viggó skuldbindur sig í eitt á eftir að störfum hans lýkur hjá félaginu að
8.1. vinna ekki fyrir samkeppnisaðila félagsins.
8.2. vinna ekki hliðstæð eða samsvarandi störf fyrir aðra aðila en félagið.
8.3. taka ekki að sér hliðstæð eða samsvarandi verk og félagið sinnir.
8.4. stofna ekki fyrirtæki í sömu starfsgrein og félagið, eiga ekki beint eða
óbeint í slíku félagi eða vera í stjórn þess. Sama gildir um stofnun,
eignaraðild og stjórnsetu í félögum (hlutafélögum, sameignarfélögum)
sem eru með hliðstæðan eða skyldan rekstur.
Ofangreint gildir segi Jón Viggó sjálfur upp störfum. Segi félagið honum upp störfum, getur félagið ákveðið einhliða að greiða honum laun allt að 12 mánuði og er þá Jóni Viggó óheimilt að vinna í samkeppni við félagið í samræmi við ofangreint. Jón Viggó hefur þó enga vinnuskyldu fyrir félagið á þeim tíma. Brjóti Jón Viggó gegn tilgreindum ákvæðum um bann við samkeppni getur félagið krafist þess að lögbann verði lagt á störf hans hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík, auk þess sem félagið getur krafið Jón Viggó um févítisgreiðslu að fjárhæð kr. 100.000 fyrir hvern þann dag sem brot varir. Hafi brot hafist, en látið er af þeim, upphefur það ekki rétt félagsins til að krefjast févítisgreiðslu fyrir þann dag/þá daga, sem brot haf varað. “
Jón Viggó annars vegar og EJS ehf. og Teymi hf. hins vegar, sömdu um starfslok Jóns Viggós hjá félaginu [um bæði félögin er að ræða]. Þar segir: „Starfsmaðurinn lætur af störfum hjá félaginu þann 26. september 2008 og hefur ekki frekari viðveruskyldu hjá félaginu en verður til ráðuneytis og upplýsingagjafar á uppsagnarfresti sé eftir því kallað fram til 31. mars 2009. Félagið greiði starfsmanninum full mánaðarlaun fram til 31. mars 2009. - Í viðauka við ráðningarsamning frá 7. mars 2008 er kveðið á um árangurstengdar launagreiðslur fyrir rekstrarárið 2008. Aðilar eru sammála að ekki kemur til greiðslna samkvæmt þeim viðauka í ljósi rekstrarárangurs félagsins. Engar bónusgreiðslur eru greiddar fyrir rekstrarárið 2009. Samningur starfsmanns og móðurfélags um kauprétt frá 13. desember 2006 fellur niður við gildistöku samnings þessa sbr. ákvæði 5.1. í samningnum. Tímabilið frá til 31. mars 2009 heldur starfsmaðurinn öðrum umsömdum kjörum en launum þ.e. greiðslu símakostnaðar og bílafríðindum sbr. gr. 3.3, 3.4 og 3.5 í ráðningarsamningi. Starfsmaður fær að halda fartölvu og GSM síma til eignar. Þann 1. apríl 2009 mun starfsmaður láta af hendi bifreið sem hann hefur til umráða ásamt öðrum búnaði í eigu félagsins. Með ofangreindum greiðslum hefur félagið að fullu staðið í skilum gagnvart starfsmanninum með laun, orlof, hlunnindi og aðrar greiðslur hverju nafni sem þær nefnast. skuldi starfsmaðurinn félaginu er því heimilt að draga þær skuldir frá launum. Sbr. 3. mgr. 5. gr. ráðningarsamnings er starfsmanni óheimilt að sinna öðrum störfum án samþykkis félagsins fram til 31. mars 2009. Greiðslur launa og annarra hlunninda skv. þessum samningi falla niður ef starfsmaður hefur önnur störf á þeim tíma án samþykkis félagsins. Vakin er athygli á 7. gr. ráðningarsamnings varðandi trúnað og meðferð upplýsinga sem starfsmaður hefur aflað eða fengið vitneskju um í starfi sínu og að sú trúnaðarskylda gildir jafnframt eftir að starfsmaður lætur af störfum hjá félaginu. Félagið hyggst ekki nýta þann rétt sem kveðið er á um í 3. mgr. 8. gr. ráðningarsamnings um launagreiðslur í 12 mánuði í kjölfar uppsagnar. Aðilar eru sammál um að samkeppnishömlur sem tilgreindar eru í 8. gr. ráðningarsamnings eigi við fram til 31. mars 2009 eða meðan starfsmaður fær laun greidd frá félaginu.“
Í myndriti af bréfi Óskars Norðmann hdl. f.h. EJS ehf., dags. 10. desember 2008, til Jóns Viggós, sem lagt var fram ásamt greinargerð stefnda á dómþingi 19. maí 2009, segir m.a.: „Forsvarsmenn EJS hafa fyrir því heimildir að þú hafir brotið alvarlega gegn ákvæðum ráðningarsamnings og samkomulagi aðila um starfslok þín hjá félaginu. Þannig hefur þú staðfest í samtala við núverandi framkvæmdastjóra EJS að hafa veitt aðila, sem vann að tilboðsgerð í hlutafé í félaginu, upplýsingar um fjárhags- og rekstrarleg málefni þess. Þá hefur félagið ennfremur fyrir því heimildir að þú hafi ítrekað átt samskipti við birgja án þess að leita samþykki félagsins áður. Það er afstað EJS að með framangreindu háttarlagi hafir þú brotið gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sem á þér hvílir samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings og samkomulags um starfslok. Þá felist jafnframt í háttarlagi brot á uppsagnarfresti nema til komi samþykki félagsins. Af hálfu EJS er litið svo á að brot þín séu svo alvarleg að forsendur samkomulags um starfslok hafi í reynd brostið. Grundvallast sú afstaða annars vegar í eðli brota sem umræðir og hins vegar í því að ekki verður séð að þú getir, eftir þann trúnaðarbrest sem að framan er lýst, uppfyllt þær skyldur sem á þér hvíla samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi um starfslok að vera félaginu til ráðuneytis og upplýsingagjafar á uppsagnarfresti. Í ljósi alvarleika framangreindra brota hefur EJS nú til skoðunar þann möguleika að rifta samkomulagi aðila um starfslok frá septembermánuði s.l. Þá hefur félagið ennfremur til skoðunar hvort skaðabótaskylda kunni að hafa stofnast með framangreindu háttarlegi þínu. Á þessu stigi máls áréttar félagið skyldur þínar samkvæmt ráðningarsamningi og áðurnefndu samkomulagi um starfslok og skorar á þig að virða ákvæði þeirra í einu og öllu. Skal í því sambandi sérstaklega árétta að þér er með öllu óheimilt að veita upplýsingar um fjárhags- og rekstrarleg málefni EJS sem og að hafa samband við birgja án þess að leita samþykkis félagsins áður.“
Í myndriti af bréfi Bjarna Birgissonar, stjórnaformanns EJS ehf., til Jóns Viggós, dags. 18. desember 2008, dskj. nr. 5, segir: „Vísað er til ráðningarsamnings milli þín og EJS ehf. dags. 1. mars 2008 og samnings um starfslok þín sem forstjóra EJS dags. 26. sept. 2008. Í ofangreindum samningum kemur fram að greiðslur launa á uppsagnarfresti (fram til 31. mars 2009) falla niður ef þú hefur önnur störf á þeim tíma án samþykktar félagsins. Í framhaldi af og með vísan til beiðni þinnar dags. 13.12.2008 um tímabundin störf á uppsagnarfresti eru þér hér með heimiluð þau störf [sem] þar er lýst fyrir Capacent hf. með eftirtöldum skilyrðum:
1. Ekki sé unnið fyrir samkeppnisaðila EJS, Teymis eða dótturfélaga Teymis, eða að vörum eða verkefnum sem kunna að vera eða ætlað er að vera í samkeppni við þau félög eða þær vörur sem þau bjóða. Óskað er eftir að þú upplýsir stjórnarformann EJS um þau tilvik þar sem vafi kann að leika á að svo sé.
2. Engar upplýsingar um rekstur, áætlanir, starfsmenn eða viðskiptavini Teymis né heldur önnur gögn sem kunna að tengjast þínu fyrra starfi hjá EJS séu látnar af hendi til vinnuveitanda (Capacent) eða viðskiptavina hans, tengdra félaga eða samstarfsaðila.
3. Um sé að ræða tímabundna ráðningu eða reynslutíma.
4. Hlunnindi sem EJS greiðir fyrir á uppsagnarfresti s.s. sími, rekstur bifreiðar, nettenging eða annað verði ekki nýtt í þágu nýs vinnuveitanda. Greiði nýr vinnuveitandi fyrir sambærileg hlunnindi samhlið uppsagnarfresti sé EJS tilkynnt um það og þú samþykkir að samsvarandi greiðslur til þín frá EJS geti þá fallið niður.
5. Áskilinn er réttur til að afturkalla þessa heimild með skriflegri tilkynningu án sérstaks fyrirvara sé tilefni til að ætla að þeim skilyrðum sem hér eru fram sett eða ákvæðum ofangreindra samninga hafi ekki verið fylgt.
Vakin er athygli á að þessi heimild fellir ekki úr gildi með nokkrum hætti trúnað eða skyldur þínar samkvæmt ráðningarsamningi eða starfslokasamningi sem vísað er til hér að ofan.“
Með bréfi 10. febrúar 2009 til sýslumannsins í Reykjavík krafðist EJS ehf. að sýslumaðurinn legði lögbann við því að Jón Viggó hæfi störf hjá XA ehf. og kæmi fram fyrir hönd XA ehf., kynnti það eða sinnti nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, hvort sem væru launuð eða ólaunuð. Einnig að lagt yrði lögbann við því að Jón Viggó hefði samband við viðskiptamenn EJS ehf., þar á meðal birgja EJS ehf. og erlenda samstarfsaðila, þar með talið starfsmenn þeirra og/eða veita þeim nokkra þjónustu eða upplýsingar um starfsemi EJS ehf. eða XA ehf., hvort heldur sem væri gegn gjaldi eða ekki, og hvort sem væri sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Þá var þess krafist að lögbannið gilti til 31. mars 2009, en þá lyki samningssambandi EJS ehf. og Jóns Viggós samkvæmt ráðningarsamningi þeirra í milli.
Með bréfi 12. febrúar 2009 til Jóns Viggós afturkallaði EJS ehf. heimild Jóns Viggós til að starfa fyrir Capacent ehf. Og í öðru bréfi EJS ehf. sama dag til Jóns Viggós var vísað til bréfs EJS ehf. til hans, hinn 10. desember 2008, og greint m.a. frá því að í ljós hefði komið að allt frá síðastliðnu hausti hefði hann í félagi við sex „aðra starfsmenn/fyrrverandi starfsmenn“ EJS ehf. unnið markvisst og skipulega að því að safna saman og koma undan margvíslegum trúnaðargögnum og viðskipta-, rekstrar- og atvinnuleyndarmálum sem tilheyrðu EJS ehf. Tilgangurinn hafi verið að afla fyrirtæki, sem hann hefði átt þátt í að koma á fót, XA ehf., viðskipta á kostnað EJS ehf. Fyrir lægi að hann og vitorðsmenn hans hefðu ítrekað haft samband við viðskiptamenn og birgja EJS ehf. í því skyni að ná til viðskiptasambanda EJS ehf. Í bréfinu er lýst yfir að EJS ehf. áskilji sér allan rétt til að krefja hann um skaðabætur fyrir allt það tjón sem rekja mætti til vanefnda á ráðningarsamningi og starfslokasamningi hans.
Með bréfi 16. febrúar 2009 var síðarnefndu bréfi svarað af hálfu Jóns Viggós. Þar greinir frá því m.a. að Jón Viggó hafni og mótmæli „öllum þeim órökstuddu og ósönnuðu fullyrðingum sem fram koma í bréfi þessu“. Hann hafi framfylgt öllum ákvæðum samningsins og haft í heiðri öll ákvæði, lögfest sem ólögfest, um trúnað gagnvart EJS ehf. Hann hafi hins vegar sannanir um vafasöm vinnubrögð EJS ehf. sem vegið hefðu að starfsheiðri og æru hans eftir starfslok hans. Áskilji hann sér allan rétt í þeim efnum.
Með úrskurði sýslumanns, hinn 23. febrúar 2009, var lögbannskröfu EJS ehf. hafnað. Taldi sýslumaðurinn að EJS ehf. hefði ekki sannað eða gert sennilegt að Jón Viggó hafi hafið, eða yfirvofandi væri, athöfn sem bryti gegn lögvörðum rétti EJS ehf.
Lögmaður EJS ehf. sendi Jóni Viggó bréf, hinn 24. febrúar 2009. Þar segir: „Með ábyrgðarbréfi dag. 12. febrúar sl. afturkallaði umjóðandi minn heimild þína til að starfa fyrir Capacent ehf. meðan á uppsagnarfresti þínum stendur, eða fram til 31. mars 2009. Um heimild umbjóðandi míns til þess vísast til 5. töluliðs meðfylgjandi bréfs dags. 18. desember 2008. Af þinni hálfu hefur því ekki verið lýst yfir að þú hafir hætt störfum hjá Capacent ehf. eða hyggist á annað borð gera það. Enn fremur liggur fyrir samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Capacent ehf. að þú starfar enn hjá fyrirtækinu þrátt fyrir að samþykki umbjóðanda míns liggi ekki fyrir. Því er ljóst að ákvæði 11. gr. starfslokasamnings þíns við umbjóðanda minn dags. 26. september 2008 eiga við, en þar segir: „Sbr. 3. mgr. 5. gr. ráðningarsamningsins er starfsmanni óheimilt að sinna öðrum störfum án samþykkis félagsins fram til 31 mars 2009. Greiðslur launa og annarra hlunninda skv. þessum samningi falla niður ef starfsmaður hefur önnur störf á þeim tíma án samþykkis félagsins.“ Til viðbótar við launagreiðslur frá umjóðanda mínum fellur samkvæmt þessu einnig niður réttur þinn til greiðslu símakostnaðar, ADSL-heimatengingar og bílafríðindi, samanber greinar 3.3, 3.4 og 3.5 í ráðningarsamningi þínum dags 1. mars 2008. Með hliðsjón af ofangreindu er þess óskað að þú gerir ráðstafandir til að skila bifreið sem þú hefur til umráða frá félaginu í síðasta lagi þann 27. febrúar 2008 (svo). Launa- og hlunnindagreiðslur munu falla niður frá og með 13. febrúar 2008, eða þeim degi þegar þér barst ábyrgðarbréfið þar sem heimild þín til að starfa hjá Cpacent ehf. var afturkölluð. Að öðru leyti en að ofan greinir er starfslokasamningur þinn við umjóðanda minn í fullu gildi, einkum hvað varðar trúnaðarskyldu þína og ákvæði um samkeppnishömlur.“
Af hálfu Jóns Viggós er því lýst að hann hafi fengið laun samkvæmt starfslokasamningi allt til loka janúar. En 1. mars sl. hafi hann einungis fengið 43% af mánaðarlaunum sínum vegna febrúarmánaðar auk bifreiðahlunninda. Á launaseðli vegna janúarmánaðar 2009 séu „fyrirframgreidd laun“ að fjárhæð 116.412 kr. dregin frá launagreiðslum án frekari skýringar en hann hafi aldrei fengið greidd slík laun.
Kröfu sína sundurliðar Jón Viggó með eftirgreindum hætti:
57% fullra mánaðarlauna vegna febrúarmánaðar 2009 798.000 kr.
Full mánaðarlaun vegna marsmánaðar 2009 1.400.000 kr.
Vangreitt orlof 288.930 kr.
Vangreidd bifreiðahlunnindi 210.493 kr.
Samtals 2.697.423 kr.
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefnandi byggi á því að riftun á starfslokasamningi hans sé ólögmæt. Stefndi hafi samþykkt að stefnandi ynni hjá Capacent hf. á uppsagnarfresti hinn 18. desember 2008, sbr. dskj. nr. 5. Stefndi hafi aldrei haldið fram að stefnandi hefði ekki staðið við þau skilyrði sem sett voru fyrir samþykkinu. Stefndi hafi beðið sýslumann um lögbann vegna þess að stefnandi væri með ólögmætum hætti að vinna gegn stefnda með væntanlegri stofnun fyrirtækisins XA ehf., en ekki að hann væri að brjóta starfslokasamninginn með vinnu hjá Capacent hf.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt starfslokasamningi beri honum full mánaðarlaun til loka marsmánaðar 2009. Þá kom fram í samningnum að orlofsinneign við lok hans sé 35,4 dagar. Í hverjum mánuði sé að meðaltali 21,67 vinnudaga/orlofsdaga. Því sé krafist 2.287.0033 kr. (1.400.000 / 21,67 dagar * 35,4 orlofsdagar). Þá er byggt á því að stefnandi hafi ekki fengið „fyrirframgreidd laun“.
Um réttarheimild vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar og samningalaga nr. 7/1936. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Kröfu um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefndi byggir á því að hafi hvorki rift starfslokasamningnum við stefnanda né vanefnt hann. Þvert á móti hafi stefnandi vanefnt samninginn með því að starfa án samþykkis stefnda hjá Capacent hf. Þannig hafi stefnandi í samræmi við ákvæði starfslokasamningsins fyrirgert rétti til launa og annarra umsaminna hlunninda.
Þá er byggt á því að stefndi hafi heimilað stefnanda að starfa hjá Capacent hf. með skilyrði að heimild til afturköllunar án fyrirvara yrði beitt, færi svo að stefndi hefði ástæðu til að ætla að stefnandi fylgdi ekki ákvæðum ráðningar- og/eða starfslokasamningsins. Stefnandi hafi virt að vettugi ákvæði starfslokasamningsins sem bönnuðu honum að starfa annars staðar til 31. mars 2009 og afsalað sér þannig rétti til launa og hlunninda á tímabilinu 13. febrúar til 31. mars 2009.
Þá er byggt á því að stefndi hafi staðið skil á öllum orlofsgreiðslum sem stefnandi vann sér inn fram til 13. febrúar 2009. Vísað er til þess að í hverjum orlofsdegi séu 7, 5 klst. Miðað við 31. mars 2009 og fullar efndir stefnanda hefði orlofsinneign hans verið 265,5 klst. Við greiðslu launa fyrir október 2008 hafi stefnandi sérstaklega óskað eftir að fá 149 klst. af orlofsinneign greiddar fyrir fram. Orðið hafi verið við þeirri ósk. Eftir það hefði orlofsinneign stefnanda numið 116,5 klst. miðað við fullar efndir. Þegar launa- og hlunnindagreiðslur féllu niður, hinn 13. febrúar 2009, hefði stefnandi unnið sér 86,49 klst., sem hann hafi fengið greiddar inn á reikning sinn hinn 8. apríl 2009, sbr. dskj. nr. 22. Þá segir í greinargerð stefnda: „Stefnandi gerir auk þess kröfu til endurgreiðslu á „fyrirframgreiddum launum“ að fjárhæð kr. 116.412 sem var dregið frá launum stefnanda samkvæmt launaseðli janúarmánaðar 2009. Á dómskjali nr. 23 sem er útprentun úr bókhaldi stefnda sést hvernig þessi fjárhæð er tilkomin. Eins og þar má sjá fékk stefnandi útborgað alls kr. 833.923 vegna desember 2008, en sú fjárhæð hefði átt að vera kr. 735.511. Mismunurinn er kr. 98.412. Sú fjárhæð samanstendur af flugmiðakaupum kr. 79.510 (dskj. nr. 25) og ofgreiddum launum kr. 18.902. Jafnfram var dregið frá launum stefnanda kr. 18.000 vegna reiknings frá Spöl hf. vegna aksturs um Hvalfjarðargöngin (dskj. nr. 26) á bifreið í eigu stefnda, en þá fjárhæð ber stefnanda að greiða en ekki stefnda. Alls var því dregið frá janúarlaununum kr. 98.412 (79.510 + 18.902) + kr. 18.000 sem gera samanlagt kr. 116.412. Ástæða þess að stefnanda bar upphaflega að greiða umræddan flugmiða að fjárhæð kr. 79.510 var sú að stefnandi skilaði ekki inn dánarvottorði til að réttlæta endurgreiðslu flugmiðans, en dauðsfall hafði orðið í fjölskyldu stefnanda sem gerði það að verkum að flugmiðinn var ekki nýttur. Stefnandi skilaði hins vegar inn slíku vottorði eftir útgáfu launaseðilsins vegna janúarmánaðar og á hann því vissulega rétt á endurgreiðslu, kr. 79.510 auk dráttarvaxta. Hinn 15. maí 2009 endurgreiddi stefndi kr. 79.510 auk dráttarvaxta frá 3. febrúar til 15 maí 2009 (kr. 5.428) sbr. dskj. nr. 24. “
Um réttarheimildir vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttarins, einkum til meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga. Málskostnaðarkrafa sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða: Stefnandi, Jón Viggó Gunnarsson, bar fyrir rétti að hann væri rekstrarverkfræðingur að mennt. Rekstur EJS ehf. væri fyrst og fremst sala á tölvubúnaði og þjónusta tengd því. Síðasta starf hans fyrir EJS ehf. hafi verið framkvæmdastjórn; hann hafi verið forstjóri félagsins í tæp þrjú ár. Þar áður hafi hann verið framkvæmdastjóri sölusviðs og framkvæmdastjóri launasviðs. Hann hafi verið sölustjóri, en byrjað sem ráðgjafi og verkefnastjóri og þá verið með hugbúnaðarsvið, en það hafi verið selt í burtu til Hugar á árinu 2001. Eftir að það var selt þá hafi félagið eingöngu selt tölvubúnað og staðlaðan hugbúnað.
Lagt var fyrir Jón Viggó dskj. nr. 4, samningur vegna starfsloka hans hjá EJS ehf., dags. 26. september 2008. Jón Viggó sagði að samningur þessi hefði verið gerður í mestu sátt. Mikill vilji hefði verið hjá báðum aðilum til að ganga frá starfslokum á sómasamlegan hátt. Af hálfu EJS ehf. hafi verið vilji til að tryggja honum í sex mánuði, eða til 31. mars 2009, öll þau laun og fríðindi sem hann hafði fengið sem forstjóri.
Lagt var fyrir Jón Viggó dskj. nr. 5., bréf stefnda til hans, dags. 18. desember 2008. Jón Viggó sagði að það hefði verið ljóst að Capacent hf. hafði áhuga á að ráða hann til starfa þegar hann hitti forsvarsmenn þess í nóvember 2008. Þeir hefðu viljað ráða hann í tímabundið starf en þar sem hann hafi verið bundinn af starfslokasamningi við stefnda þá hafi hann talið rétt að tala við Bjarna Birgisson, stjórnarformann stefnda, um þetta. Hann hafi komið að máli við Bjarna og Bjarni tekið vel í þetta. Hann hefði einnig talað við Árna Pétur Jónsson, forstjóra Teymis, um þetta og Þórdísi Sigurðardóttur, stjórnarformann Teymis á þessum tíma. Þau hefðu tekið mjög vel í þetta. Úr þessum viðræðum hefði þetta skjal [dskj. nr. 5] orðið til þar sem honum er heimilað að vinna fyrir Capacent.
Jón Viggó sagði að Capacent væri ráðgjafafyrirtæki í fjármálum, stefnumótun, starfsmannastjórnun og ráðgjöf því tengdu. Capacent væri einnig í ráðningum og rannsóknum; það væri fyrst og fremst þremur viðskiptasviðum. Hann hafi átt að koma þarna inn vegna reynslu sinnar af sölustjórnun sem hann hafði öðlast hjá EJS ehf., að taka ákveðin skref í því að samræma söluaðgerðir Capacent ráðgjafamarkaðinum, ásamt tilfallandi verkefnum, vegna þess að forráðamenn Capacent höfðu fundið fyrir samdrætti. Þetta hefði átt að vera verkefni hans í fimm eða sex mánuði. Síðan í apríl eða maí hefðu þeir ætlað að taka stöðuna á því hvort þeir væru á réttu róli með þetta sem þeir voru að gera, hvort þeir væru að ná markmiðum og hvort þeir myndu ráða hann áfram.
Jón Viggó sagði að starf hans hjá Capacent hefði verið ólíkt starfi hans hjá EJS ehf. Verkefnastjórnunarþátturinn hafi ef til vill verið sameiginlegur en að öðru leyti hefði hann verið að takast á við ný og spennandi verkefni. Hann hefði m.a. verið að sinna virðisritunarprófun fyrir HS orku og HS veitu, sem var alveg nýtt fyrir hann. Þá hefði hann komið að stefnumótun fyrir nokkur fyrirtæki. Hann hafi til að mynda stjórnað vinnustofum hjá símanum og Skipti; þetta hafi verið verkefni sem hann hefði aldrei unnið hjá EJS ehf.
Jón Viggó kvaðst hafa starfað hjá Capacent til 31. ágúst 2009.
Lagt var fyrir Jón Viggó dskj. nr. 18, sem er myndrit af bréfi Óskars Norðmann hdl. f.h. EJS ehf. til hans, dags. 10. desember 2008. Jón Viggó sagði að í nóvember 2008 hafi hann verið í samskiptum við Bjarna Birgisson. Bjarni hefði haft samband við hann og beðið hann að kasta ljósi á nokkur mál sem tengdust innheimtu krafna fyrir Landspítalann, einhver kaup á búnaði hjá fjarskiptafélagi, sem væri að hefja störf á Íslandi, og einhver fleiri smámál. Bjarni hefði beðið hann að hitta Magnús Norðdahl, forstjóra EJS ehf. Hann hefði mætt á fund annan eða þriðja desember með Magnúsi og búist við að Bjarni myndi einnig mætta á fundinn, en hann hafi ekki verið þar. Magnús og hann hefðu farið yfir þessi mál sem tengdust LSH og umræddu fjarskiptafélagi og öðrum smámálum. Þeir hefðu leyst hratt og vel úr þeim og hann látið í té upplýsingar eins og honum hefði verið skylt samkvæmt starfslokasamningnum. Fljótlega hafi samræða þeirra þó snúist að allt öðrum efnum sem honum hefði ekki fundist viðeigandi. Í fyrsta lagi um verkefni Magnúsar. Hann hafi farið að orða mál tengd samskiptum hans [Jóns Viggós] við starfsmenn og birgja. Hann hafi talið sig hafa sannanir eða útskrift á símtölum og hann gæti séð á notkun síma hans [Jóns Viggós] að hann hefði verið í samskiptum við birgja og starfsmenn EJS ehf. einhverjum mánuðum áður. Kvaðst Jón Viggó hafa sagt Magnúsi að það tengdist bara starfslokum hans vegna þess að hann hefði verið lengi í þessum bransa og þekkti mjög marga starfsmenn og marga birgja; margt af þessu fólki væru vinir hans. Hann hefði sagt Magnúsi að þetta fólk hefði sent honum SMS eða hringt til sín og hann hringt til baka; hann hefði ágæt samskipti við það, en kvaðst hafa sagt Magnúsi að hann myndi hætta því. Ef Magnús teldi það óviðeigandi þá myndi hann gera það. Hann hefði sagt Magnúsi að margir hefðu hringt í sig og beðið um meðmæli og greinilegt væri að órói væri í mannskapnum; einhverjir að fara. Hann gæti gert það sem hann vildi með þessar upplýsingar. Magnús hefði ekki verið sáttur við þess svör hans, reiðst og sagt að hann [Jón Viggó] skyldi ekki ljúga svona upp í opið geðið á sér. Augljóst væri hvað hann væri að gera, best væri fyrir hann að viðurkenna að hann ætlaði að ráða allan þennan mannskap eða hafa leiðinleg og óæskileg áhrif á þessa starfsmenn í fyrirtækinu. Kvaðst Jón Viggó þá hafa sagt Magnúsi að þetta væri bull og vitleysa og beðið hann að gæta orða sinna. Ef Magnús hefði eitthvað út á hann að setja væri best að Bjarni Birgisson ræddi beint við hann um þetta, þar sem Bjarni hefði verið yfirmaður hans, en Magnús væri eftirmaður hans og gæti ekki verið með ásakanir í hans garð. Við þessi orð hefði samtali hans og Magnúsar lokið.
Jón Viggó kvað Bjarna hafa haft símsamband við hann seinna um daginn. Bjarni hafi spurt um þau orð hans á fundinum með Magnúsi að hann hefði hitt fjárfesta sem hefðu áhuga á að kaupa EJS ehf. og gefið fjárfesti upplýsingar um rekstur EJS ehf. Kvaðst Jón Viggó - bæði á fundinum með Magnúsi og í símtalinu við Bjarna - hafa neitað því að hafa upplýst fjárfesti um rekstur EJS ehf. Bjarni hefði sagt honum að þörf væri á að leysa þetta mál; mikill hiti væri kominn í það og stjórnarmenn ætluðu að ræða þetta sín í milli. Stuttu síðar hefði Bjarni hringt til hans sagt honum að stjórnin hefði ákveðið að fá Fulltingi til að búa til áminningu þar sem þeir ætluðu að reifa málið og vildu að hann kvittaði undir það. Kvaðst Jón Viggó síðan hafa hitt Bjarna á skrifstofu hans í Kögun, þar sem Bjarni er framkvæmdastjóri. Þar hafi þeir farið yfir þetta mál og þar hafi Bjarni beinlínis sagt að hann hefði ekki annað úrræði en að láta hann hafa þetta bréf til að róa framkvæmdastjóra EJS ehf. en hann væri greinilega mjög æstur yfir þessu öllu saman. Kvaðst Jón Viggó þá hafa sagt að hann myndi kvitta fyrir móttöku bréfsins en mótmæla innihaldi þess. Bjarni hefði sagt að hann myndi rífa þetta bréf í apríl. Það hefði enga þýðingu.
Jón Viggó kvaðst við svo búið hafa haldið að þessu væri lokið. EJS ehf. hafi haldið áfram að greiða honum laun en svo hafi þetta komið upp með Capacent og hafi hann rætt við Bjarna, sem ekki hafi haft neitt á móti því að hann færi að vinna hjá Capacent. Vinna hans hjá Capacent hafi ekki verið tengd á nokkurn hátt við fyrri ásakanir Magnúsar Norðdahl.
Lagður var fyrir Jón Viggó tölvupóstur sem fram kemur á dskj. nr. 27. Lögmaður hans bað hann að segja frá því hvað gerðist á milli hans og EJS ehf. á tímabilinu 18. desember 2008 þegar bréfið var skrifað [dskj. nr. 5.] og 6. febrúar 2009 þegar honum barst þessi tölvupóstur. Jón Viggó sagði að framan af hafi engin samskipti verið milli hans og EJS ehf. Hann hafi tekið eftir því að á launaseðlinum fyrir janúar voru dregnar af honum 116.000 kr. Hann hafi haft samband við fjármálastjóra EJS ehf., Önnu Maríu, og beðið um skýringar á þessu. Komið hefði í ljós að fjárhæðin var fyrir flugmiða, sem haldið var fram að hann ætti að greiða, en í maí 2008 hefði eiginmaður móður hans andast. Hann hefði verið á leiðinni til Bretlands og því miður ekki getað farið þá ferð. Þurft hefði að skila dánarvottorði til að fá miðann endurgreiddan. Um það hefði málið snúist. Í hreingerningum hjá EJS ehf. í desember hafi verið ákveðið að gjaldfæra hann um þessa fjárhæð. Hann hafi mótmælt því. Mál hafi verið í vinnslu en Anna María ítrekað sagt honum að hann yrði að ræða þetta við Magnús; hún hefði ekkert um þetta að segja. Hann hefði sagt henni að þetta væri ekki rétt aðferð til að ljúka svona máli, náð í dánarvottorð og sent það samdægurs til Önnu Maríu og síðan ekki haft nein samskipti við EJS ehf., en búist við að fá þetta greitt. Hinn 6. febrúar 2009 hefði honum borist tölvupóstur, sem lagður var fram í réttinum í dag [dskj. nr. 27.], um að EJS ehf. ætlaði ekki að halda áfram að greiða ADSL tenginguna sem klárlega væri inni í starfslokasamningi og ráðningarsamningi. Skömmu síðar hafi hann komist að því að kortið, sem hann notaði fyrir kaup á bensíni eða olíu á bílinn, var óvirkt. Hann hafi haft samband við þjónustuver N1 sem er viðskiptaaðilinn og honum tjáð að kortinu hefði verið lokað að beiðni Önnu Maríu. Þetta hafi verið fyrstu merki þess að EJS ehf. ætlaði ekki að standa við síðustu mánuði af starfslokasamningnum.
Lögmaður stefnanda vísaði til þess að síðan hafi lögbannsbeiðni verið lögð fram hjá sýslumanni og sýslumaður síðan hafnað henni, en á dskj. nr. 19. væru tölvupóstar sem lagðir hefðu verið fram um leið og lögbannsbeiðnin. Skjalið lagði lögmaðurinn fyrir Jón Viggó og bað um álit hans á efni þess. Jón Viggó sagði að þetta hefði verið mál sem varðaði nokkra einstaklinga sem voru hættir eða að hætta hjá EJS ehf. Tveir hefðu verið leiddir fyrir sýslumann í Hafnarfirði og nokkrir fyrir sýslumanninn í Reykjavík. Beðið hefði verið um lögbann á starfsemi félags, sem hann kannaðist ekkert við og vissi ekkert um. Af einhverjum ástæðum hefði verið bundinn saman pakki sem fór fyrir sýslumann og þar á meðal hafi verið tölvupóstar sem sagt var að hann hefði skrifað, en hann kannist ekkert við, enda hafi hann ekki komið nálægt máli sem reynt var að reifa í þessu sambandi og var það hreinlega hrakið fyrir sýslumanni á sínum tíma. Talið hefði verið að enginn fótur væri fyrir því.
Lögmaður stefnandi lagði fyrir Jón Viggó tvö bréf, sem bæði eru dagsett 12. febrúar, dskj. nr. 7 og 8. Vísaði lögmaðurinn til þess að bréfin hefðu verið birt áður en beiðnin var lögð fyrir sýslumanninn í Reykjavík. Annars vegar væri boðun um að lögbann sé að fara af stað og hins vegar að segja Jóni Viggó að þeir ætli að hætta að borga honum. Og spurt var, hvort einhver samskipti hefðu verið milli hans og forsvarsmanna EJS ehf. í sambandi við þessi bréf. Jón Viggó neitaði því.
Jón Viggó sagði að ljóst hefði verið að forsvarsmenn EJS ehf. ætluð ekki að standa við gerða samninga, málið væri orðið innheimtumál, vegna þess að þeir höfðu einfaldlega hætt að greiða ADSL, bensínkort eða hlunnindi sem starfslokasamningur kvað á um. Enga þýðingu hafði því haft fyrr hann að tala við þá. Umræðan yrði að fara fram milli lögmanna aðila.
Lögmaður stefnda spurði Jón Viggó, hvernig honum hefði orðið við, þegar honum var tilkynnt í september 2008 að hann ætti ekki að gegna áfram starfi framkvæmdastjóra. Jón Viggó kvaðst hafa tekið því vel. Ákvörðunin hefði ekki komið honum á óvart. Samskiptaörðugleikar hefðu verið milli hans og stjórnar EJS ehf. í töluverðan tíma. Mikill áherslumunur á rekstri og stefnumótum félagsins. Stjórnin hafi ekki verið sammála því sem hann lagði til um stefnumótun félagsins. Hann hefði viljað fara út í það að skipta félaginu meira upp í rekstrareiningar, sem betra væri að hafa stjórn á, vegna þess að starfsemin hjá EJS ehf. væri með ólíka þætti. Stór hluti af viðskiptunum væri um einmenningstölvur, fartölvur og prentara og svoleiðis hluti; ákveðna þjónustu og sölumennsku tengdri því, sem væri allt annars eðlis en starfsemi við sölu á stórum og þungum netbúnaði eða búnaði inn í gagnaver. Skort hefði á þekkingu og getu hjá EJS ehf. á því síðarnefnda þó að þjónustuþekkingin væri góð. Hann hefði á þeim tíma lagt til að starfsemi félagsins yrði að minnst kosti skipt í þrennt. Af viðræðum við stjórn félagsins hafi honum orðið ljóst að menn voru ekki á því. Ef til vill hafi hann ekki gert sér almennilega grein fyrir stöðu Teymis hf. Greinilega hafi enginn vilji eða geta verið til að taka ákvarðanir á þessum tíma. Teymi hafi orðið fyrir töluverðum skakkaföllum og áfalli í mars 2008, þegar krónan féll í fyrra skiptið. Þá hafi eigið fé þurrkast út.
Eftir að hann hætti störfum hjá EJS ehf. í september 2008 kvaðst Jón Viggó hafa tekið því rólega í nokkra mánuði. Hann hafi hvorki haft áhuga á eigin rekstri né rekstri með öðrum á sambærilegu sviði og EJS ehf. var á. Það hafi ekki komið til skoðunar. Fjárfestir hefði hins vegar komið að máli við hann og verið að íhuga kaup á EJS ehf., og spurt hann, hvort hann vildi vera með í því. Hann hefði játað því, en umræða um öll atriði varðandi það hefði ekki farið fram. Hann hefði strax lýst yfir að hann myndi hvorki starfa sem framkvæmdastjóri, forstjóri né stjórnarmaður í því félagi. Maður þessi hefði komið að máli við hann í nóvember 2008. Þegar þetta gerðist hefði hann talað við Árna Pétur Jónsson, forstjóra Teymis hf., og Þórdísi, sem er stjórnarformaður Teymis hf., um þetta mál og spurt, hvaða leið hann ætti að fara í þessu. Þórdís hefði sagt honum að ræða við hana um þetta mál. Hann hefði spurt hvers vegna hann ætti ekki að ræða við Bjarna Birgisson um þetta, en þá hafi hún sagt honum að Bjarni vissi ekki að EJS ehf. væri til sölu.
Lögmaður stefnda vísaði til dskj. nr. 18. sem áður er getið, og benti á að hann hefði mótmælt efni þess munnlega við Bjarna Birgisson og spurði hvort hann hefði aldrei séð ástæðu til að mótmæla efni þess formlega. Jón Viggó sagði að svo hafi ekki verið eftir að þeir töluðu saman. Ljóst hafi verið að Bjarna fannst bréf þetta þarflaust.
Lögmaður stefnda vísaði til dskj. nr. 5. sem áður er getið, benti á að í bréfinu væru 5 töluliðir og spurði hvort efni þeirra hefði verið rætt við hann. Jón Viggó játaði því. Jón Viggó kvaðst hafa farið yfir efni bréfsins með Bjarna Birgissyni. Hann kvaðst ekki hafa talið þessa fyrirvara óeðlilega og ekki haft neitt við þá að athuga.
Lögmaður stefnda vísaði til dskj. nr. 19. sem áður er getið og spurði hvort hann hefði skoðað allt efni skjalsins. Jón Viggó kvaðst hafa gert það. Hann kvaðst ekki hafa séð þennan tölvupóst fyrr en hann var lagður fram í lögbannsmálinu í febrúar. Hann hefði hvorki skrifað neitt af honum né fengið neitt af honum sent á netfang sitt. Jón Viggó sagði að netfang sitt væri jon.viggo.gunnarsson@gmail.com. Hann kvaðst ekki segja hvers vegna netfang hans væri að finna á dskj. nr. 19. Með því myndi hann vafalaust sakfella einhvern um það sem hann væri ekki viss um að væri satt, en satt væri að hann hefði ekki ritað þessi bréf.
Ingvi Þór Elliðason bar símleiðis fyrir rétti að hann hafi starfað sem framkvæmdastjóri hjá Capacent. Hann staðfesti að hafa sent Magnúsi Steinari Norðdahl framkvæmdastjóra tölvupóst 19. febrúar 2009 þar sem hann staðfesti að Jón Viggó Gunnarsson starfi enn hjá Capacent. Ingvi Þór sagði að Jón Viggó hefði starfað hjá Capacent sem rekstrar- og tækniráðgjafi. Hann hafi hafið störf hjá fyrirtækinu 3. desember 2008 og verið ráðinn til reynslu til 1. apríl. Samningurinn hefði síðar verið framlengdur og að lokum hefði hann hætt í lok júní. Jón Viggó hefði ekki haft sérstök hlunnindi hjá Capacent. Hann hefði fengið 300 km á mánuði í bílastyrk og greiddan einhvern símakostnað.
Gerð er grein fyrir atvikum að baki máli og ágreiningsefni í því hér að framan. Ljóst er að stefndi, EJS ehf., telur sér heimilt að skerða starfslokasamning félagsins við stefnanda, Jón Viggó Gunnarsson, á tilgreindum forsendum og af tilgreindum ástæðum. Staðhæft er að EJS ehf. hafi hvorki rift samningnum né vanefnt hann. Þvert á móti hafi Jón Viggó vanefnt samninginn með því að starfa án samþykkis EJS ehf. hjá Capacent hf. og fyrirgert þannig rétti sínum til launa og annarra umsaminna hlunninda.
Á hinn bóginn segir í bréfi frá lögmanni EJS ehf. til Jóns Viggós, hinn 12. febrúar 2009, að félagið hafi undir höndum trúverðug gögn sem bendi eindregið til þess að Jón Viggó hafi brotið gróflega gegn ráðningarsamningi og starfslokasamningi aðila. Með vísan til ákvæðis 5. töluliðs í bréfi Bjarna Birgissonar, stjórnarformanns EJS ehf., þar sem EJS ehf. sé áskilinn réttur til að afturkalla þessa heimild með skriflegri tilkynningu án sérstaks fyrirvara ef tilefni sé til að ætla að þeim skilyrðum sem þar er greint frá hefði ekki verið fylgt. EJS ehf. afturkalli samþykki um að Jón Viggó starfi tímabundið hjá Capacent ehf. meðan á uppsagnarfresti standi, eða til 31. mars 2009.
Í umræddu bréfi Bjarna Birgissonar, sem dagsett er 18. desember 2008, heimilar hann Jóni Viggó að starfa tímabundið hjá Capacent hf. með ákveðnum skilyrðum. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að Jón Viggó hafi ekki staðið við þau skilyrði sem Bjarni Birgisson setti honum þar. Aftur á móti kemur fram í öðru bréfi lögmanns EJS ehf. til Jóns Viggós, hinn. 12. febrúar 2009, ásökun um að Jón Viggó hafi í félagi við sex starfsmenn eða fyrrverandi starfsmenn EJS ehf., allt frá haustinu 2008, unnið markvisst og skipulega að því að safna saman og koma undan margvíslegum trúnaðar og viðskipta-, rekstrar- og atvinnuleyndarmálum sem tilheyrðu EJS ehf. í þeim tilgangi að afla fyrirtæki, sem Jón Viggó eigi þátt í að koma á fót, XA ehf., viðskipta á kostnað EJS ehf. Þá liggi fyrir að Jón Viggó og vitorðsmenn hans hefðu ítrekað haft samband við viðskiptamenn og birgja EJS ehf. í því skyni að ná til sín viðskiptasamböndum EJS ehf.
Af hálfu EJS ehf. hefur ekki verið sannað að Jón Viggó hafi brotið trúnað sinn við EJS ehf. Tilefnislaust og óheimilt var því fyrir EJS ehf. að skerða starfsloksamninginn við Jón Viggó.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnað allt eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, EJS ehf., greiði stefnanda, Jóni Viggó Gunnarssyni, 2.697.423 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 1. mars 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 505.470 krónur í málskostnað.