Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2012


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Tryggingarbréf
  • Riftun
  • Nákomnir


                                     

                                     

Miðvikudaginn 19. desember 2012.

Nr. 320/2012.

Íslandsbanki hf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

þrotabúi Stefáns H. Hilmarssonar

(Grímur Sigurðsson hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Tryggingarbréf. Riftun. Nákomnir.

Þrotabú S krafðist þess að rift yrði með dómi veðrétti Í hf. samkvæmt tveimur tryggingarbréfum með veði í tiltekinni fasteign. Byggði þrotabúið kröfu sína annars vegar á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hins vegar á ákvæðum 141. gr. sömu laga. Hæstiréttur féllst ekki á það með þrotabúi S að þrotamaður hefði verið nákominn B, síðar Í hf., og yrði riftun ráðstafananna því ekki reist á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991. Taldi Hæstiréttur að ráðstafanirnar gætu að efni til fallið undir 141. gr. laganna og að löglíkur væru fyrir því að þær teldust ótilhlýðilegar. Þá hefðu þær verið B til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leitt til þess að eignir þrotamanns hefðu ekki verið til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Hins vegar hefði þrotabúinu ekki tekist sönnun um að þrotamaður hefði verið ógjaldfær á þeim tíma sem tryggingarráðstafanirnar fóru fram og var því ekki fullnægt skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun þeirra. Var Í hf. því sýknaður af kröfu þrotabúsins. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2012. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Bú Stefáns H. Hilmarssonar var tekið til gjaldþrotaskipta 9. júlí 2010 að undangenginni árangurslausri kyrrsetningargerð, en frestdagur við skiptin er 21. maí sama ár. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst þrotamaður hafa á árinu 1986 byrjað viðskipti við Sparisjóð vélstjóra, sem eftir samruna við aðra sparisjóði varð Byr sparisjóður, en sá sparisjóður var síðar yfirtekinn af áfrýjanda máls þessa. Þáverandi vinnuveitandi þrotamanns, Endurskoðun hf., var með viðskipti við Sparisjóð vélstjóra og stofnaði þrotamaður launareikning í sparisjóðnum. Sjóðurinn veitti honum lán til fasteignakaupa á árunum 1989, 1998 og 2004 og loks 2006 vegna kaupa hans á fasteigninni Laufásvegi 68 í Reykjavík. Sparisjóðurinn veitti þrotamanni tvívegis lán á árinu 2006, samtals að höfuðstól 70.000.000 krónur, til að fjármagna greiðslu útborgunar vegna kaupa á síðastgreindri fasteign. Lánin voru tryggð með 1. og 2. veðrétti í eigninni.

Þrotamaður var fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Baugs Group hf. á árunum 2007 til 2009, en bú þess félags var tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Á þessum tíma hélt þrotamaður áfram viðskiptum við sparisjóðinn, átti þar meðal annars reikning nr. [...]-26-[...]60, sem laun hans voru greidd inn á og annan reikning nr. [...]-26-[...]17 sem hann kvaðst í skýrslu fyrir dómi hafa notað sem ,,framkvæmdareikning“ vegna viðhalds og endurbóta á Laufásvegi 68 sem hefðu staðið yfir frá sumri og fram á vetur 2008. Hann kveður þessar framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar með því hann hafi yfirdregið síðarnefnda bankareikninginn og haft til þess heimild sparisjóðsins, en þá hafi ekki verið sérstök trygging fyrir því láni sem hann stofnaði þannig til. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hafði þrotamaður á árunum 2004 til 2007 staðið í miklum fjárfestingum í ýmsum hlutafélögum einkum Baugi Group hf.

Þrotamaður gaf út tryggingarbréf 9. febrúar 2009 til tryggingar skuld allt að 27.500.000 krónur og annað 7. júlí sama ár til tryggingar skuld allt að 10.000.000 krónur auk verðbóta, vaxta og kostnaðar. Bæði tryggingarbréfin voru með veði í Laufásvegi 68, hið fyrrnefnda á 3. veðrétti en hið síðarnefnda á þeim 4.

Bæði bréfin áttu að standa til tryggingar á öllum skuldum þrotamanns við sparisjóðinn, en ekki er um það deilt að tilefni útgáfu þeirra var sá yfirdráttur sem þrotamaður hafði stofnað til á framangreindum bankareikningum.

Sama dag og síðara tryggingarbréfið var gefið út, 7. júlí 2009, samþykkti sparisjóðurinn að veita þrotamanni lán að fjárhæð 32.500.000 krónur og var skilyrði lánveitingarinnar að lánsféð yrði notað til að greiða upp yfirdráttarskuldina á báðum reikningunum. Runnu 4.975.000 krónur þann 28. júlí 2009 inn á reikning nr. [...]-26-[...]60 og 27.342.000 krónur sama dag inn á reikning nr. [...]-26-[...]17 og var yfirdráttarskuldin á báðum reikningum greidd að fullu með þessum hætti.

Svo sem fyrr greinir var bú þrotamanns tekið til gjaldþrotaskipta 9. júlí 2010. Mál þetta er höfðað til riftunar á veðrétti sem stofnað var til með framangreindum tveimur  tryggingarbréfum að fjárhæð 27.500.000 krónur útgefnu 9. febrúar 2009 og 10.000.000 krónum útgefnu 7. júlí sama ár. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi hefur þrotabúið höfðað tvö önnur riftunarmál sem bæði tengjast fasteigninni Laufásvegi 68. Ekki þarf að reifa kröfur og atvik í þeim málum.

II

Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því að stofnun veðtryggingar á 3. og 4. veðrétti í fasteigninni Laufásvegi 68 samkvæmt tryggingarbréfum 9. febrúar 2009 og 7. júlí sama ár hafi átt sér stað eftir að stofnað var til skulda þeirra, sem tryggja skyldi með hinu veðsetta. Veðsetningin hafi í báðum tilvikum verið til hagsbóta fyrir áfrýjanda, sem hafi verið nákominn þrotamanni. Tryggingarbréfunum hafi verið þinglýst 12. febrúar og 24. júlí 2009 og það verið innan 24 mánaða fyrir frestdag. Þar sem skilyrðum 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um að veðrétturinn hafi verið stofnaður til tryggingar skuld, sem áður hafði verið stofnað til, sé fullnægt, séu ráðstafanirnar riftanlegar samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Sé fullnægt því skilyrði málsgreinarinnar að þrotamaður hafi verið nákominn Byr sparisjóði, enda hafi áfrýjandi ekki sýnt fram á að þrotamaður hafi verið gjaldfær og verið það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna.

Í öðru lagi reisir stefndi kröfu sína um riftun á því að ráðstöfunin hafi á ótilhlýðilegan hátt verið Byr sparisjóði til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leitt til þess að eignir þrotamanns hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, enda hafi þrotamaður verið ógjaldfær og sparisjóðurinn vitað eða mátt vita um ógjaldfærni hans og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstafanirnar töldust ótilhlýðilegar. Þar sem stefndi telur þessum skilyrðum fullnægt séu ráðstafanirnar riftanlegar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991.

Stefndi telur að áfrýjandi beri sönnunarbyrði fyrir því að þrotamaður hafi verið gjaldfær þegar ráðstafanirnar fóru fram, en bendir þrátt fyrir það á ýmis atriði, sem hann telur að sýni að þrotamaður hafi ekki verið gjaldfær á þeim tíma. Úrskurður um gjaldþrotaskipti hafi verið kveðinn upp 9. júlí 2010 og kröfulýsingarfresti lokið 19. september sama ár. Lýstar kröfur í þrotabúið hafi verið 3.750.271.661 króna. Samkvæmt skattframtali þrotamanns 2009 vegna tekjuársins 2008 hafi skuldir hans 31. desember 2008 verið 863.561.231 króna, en helstu eignir hans hafi verið hlutabréf í félögum sem hefðu orðið ógjaldfær á árinu 2008 og bú þeirra verið tekin til gjaldþrotaskipta á árinu 2009. Það ár hafi bú Baugs Group hf. til dæmis verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af þessu sé ljóst að skuldir þrotamanns hafi verið langtum meiri en tekjur hans gátu staðið undir á árinu 2008. Hafi hann að líkindum verið ógjaldfær þegar um mitt ár 2008 er Baugur Group hf. hafi orðið ógjaldfært.

III

Áfrýjandi andmælir kröfu stefnda um riftun ráðstafana. Hann hafnar því að þrotamaður hafi verið nákominn Byr sparisjóði. Miða verði við efni 3. gr. laga nr. 21/1991 á þeim tíma, sem ráðstafanirnar fóru fram. Kveður áfrýjandi að fullnægja hefði þurft því skilyrði að þrotamaður eða einhver honum nákominn hefði þurft að eiga verulegan eignarhlut í Byr sparisjóði. Þrotamaðurinn hafi aldrei átt neinn stofnfjárhlut í Sparisjóði vélstjóra eða öðrum sparisjóðum sem við samruna urðu að Byr sparisjóði. Hið sama eigi við um nákomin skyldmenni hans. Hann hafi aldrei setið í stjórn Byrs sparisjóðs eða þeirra sparisjóða sem mynduðu hann. Hagar hf. sem verið hafi dótturfélag Baugs Group hf. á þessum tíma hafi átt 1,327% hluta af stofnfé Byrs sparisjóðs og verið fimmtándi stærsti stofnfjáreigandinn í sjóðnum. Stærstu einstöku stofnfjáreigendur í sjóðnum hafi átt á bilinu 4,0 til 7,7% af stofnfé hans. Þáverandi fjármálastjóri Haga hf., Jóhanna Waagfjörð, hafi setið eitt ár í stjórn Byrs sparisjóðs og látið af stjórnarsetu í maí 2009. Þrotamaður sé ekki nákominn Jóhönnu Waagfjörð og hafi ekki haft neitt boðvald yfir stjórnendum eða starfsmönnum Haga hf. Bendir áfrýjandi á að þegar síðara tryggingarbréfið hafi verið gefið út í júlí 2009 hafi Baugur Group hf. verið til gjaldþrotaskipta, sem hafi byrjað 13. mars það ár.

Áfrýjandi fullyrðir að lánafyrirgreiðsla sú, sem þrotamaður naut hjá Byr sparisjóði hafi grundvallast á áratuga viðskiptasambandi hans við sjóðinn og forvera hans. Lánveitingar til hans hafi farið eftir venjulegum leiðum innan sparisjóðsins. Fráleitt sé að ætla að einstakir stjórnarmenn í Byr sparisjóði hafi haft áhrif á þessar ákvarðanir. Af framangreindum ástæðum hafi þrotamaður ekki verið nákominn Byr sparisjóði og verði því riftun ráðstafana ekki reist á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991.

Áfrýjandi hafnar því einnig að 141. gr. laga nr. 21/1991 geti verið grundvöllur riftunar þeirra ráðstafana sem um ræðir. Stefndi hafi með engum hætti sýnt fram á ógjaldfærni þrotamanns þegar hann veitti þær tryggingar sem krafist sé riftunar á. Þrotamaður hafi haft áratuga löng viðskipti við sparisjóðinn og forvera hans án nokkurra áfalla, hann sé viðskiptafræðingur og hafi verið endurskoðandi og farið til stjórnunarstarfa hjá 365 miðlum ehf. eftir að Baugur Group hf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki hafi verið ástæða til, og ekki tíðkað almennt, að krefja einstaklinga eins og þrotamann um skattframtal til upplýsingar um eignastöðu.

Áfrýjandi kveður stefnda hafa sönnunarbyrði fyrir því að þrotamaður hafi verið ógjaldfær þegar ráðstafanirnar voru gerðar og fyrir því að öðrum skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið fullnægt. Sú sönnun hafi ekki tekist hjá stefnda.

IV

Ágreiningslaust er í málinu að ráðstafanir þær, sem kröfur stefnda lúta að, hafi falist í því að þrotamaður hafi gefið út tryggingarbréfin tvö í því skyni að tryggja skuld, sem áður hafði verið stofnað til. Er heldur ekki um það deilt að ráðstafanir þessar falla innan efnis 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, en eru gerðar utan þeirra fresta, sem fyrir er mælt um í þeirri málsgrein. Stefndi reistir því kröfu sína um riftun ráðstafana í fyrsta lagi á 2. mgr. 137. gr. laganna. Hann telur þrotamann hafa verið nákominn Byr sparisjóði þegar ráðstafanirnar voru gerðar og að áfrýjandi hafi ekki fært sönnur að því að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær og verið það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna.

Eins og fram er komið var þrotamaður fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Baugs Group hf. Hann var staðgengill forstjóra félagsins og tengiliður við stjórn þess. Hann hafði yfirumsjón með bókhaldi og fjárreiðum félagsins og sá að auki um samskipti við lánastofnanir og aðra lánardrottna félagsins. Auk þess stýrði hann daglegum rekstri þess í Reykjavík. Þrotamaður átti hlut í Baugi Group hf. 31. desember 2008 sem var að nafnverði 7.552.225 krónur en heildarnafnverð hlutafjár félagsins var á sama tíma 9.846.508 sterlingspund. Þrotamaður átti ekki stofnfé í Byr sparisjóði og heldur ekki í þeim sparisjóðum sem mynduðu hann. Ósannað er að nokkur sem honum var persónulega nákominn hafi átt stofnfé í sparisjóðnum. Þrotamaður sat ekki í stjórn Byrs sparisjóðs og enginn honum nákominn. Fyrir liggur að Hagar hf., sem var dótturfélag Baugs Group hf., átti 1,327% hluta stofnfjár í Byr sparisjóði og að fulltrúi þess félags sat í stjórn sparisjóðsins frá apríl 2008 til maí 2009. Hagar hf. laut sérstakri stjórn og hafði sérstakan framkvæmdastjóra. Því er ekki haldið fram að einhver nákominn þrotamanni hafi verið í stjórn Haga hf. eða verið þar framkvæmdastjóri.

Ákvæði 4. og 5. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 um hagsmunalega nákomna, eins og texti þeirra var þegar tryggingarráðstafanirnar voru gerðar, miðar samkvæmt orðum sínum við að maður, eða annar honum nákominn, þyrfti að eiga verulegan hlut í félagi til þess að teljast nákominn því. Sömu skilyrði um verulegan eignarhlut eru sett þegar metið er hvort félög gætu verið nákomin. Í 6. tölulið 3. gr. laganna er mælt fyrir um að maður og félag eða stofnun séu nákomin hvort öðru ef um sambærileg tengsl er að ræða og lýst er í öðrum töluliðum greinarinnar. Á þeim tíma sem hér skiptir máli fólst í tilvísun 6. töluliðar 3. gr. til sambærilegra tengsla að einkum væri átt við eignatengsl. Ekki var útilokað að önnur tengsl, hvort sem þau væru til viðbótar eignatengslum eða ekki, gætu leitt til þess að maður og félag eða tvö félög teldust nákomin, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. október 1996 í málinu nr. 2/1996, sem birtur er á síðu 2684 í dómasafni það ár. Samkvæmt framansögðu var hvorki um eignatengsl né bein stjórnunartengsl að ræða milli þrotamanns og Byrs sparisjóðs. Stefndi hefur teflt fram þeim rökum, sem héraðsdómur féllst á, að annars konar stjórnunartengsl milli þrotamanns og Baugs Group hf. annars vegar og fjölda annarra félaga, sem hafi átt stofnfé í Byr sparisjóði, hefðu verið slík að fullnægt væri skilyrðum 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991. Hver svo sem tengsl þeirra félaga, sem tilgreind eru í hinum áfrýjaða dómi og Baugs Group hf. hafa verið er ósannað að þrotamaður hafi haft þá stöðu, hvort sem litið yrði til eignatengsla eða stjórnunartengsla, að sambærilegt geti talist við þá aðstöðu sem kveðið var á um í 4. og 5. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991. Verður þess vegna að hafna því að þrotamaður hafi verið nákominn Byr sparisjóði. Samkvæmt þessu verður riftun ráðstafananna ekki reist á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991.

Í öðru lagi reisir stefndi kröfu sína um riftun á 141. gr. laga nr. 21/1991. Kveður hann öllum skilyrðum til að beita þeirri grein vera fullnægt. Ekki er ágreiningur um að ráðstafanir þær, sem riftunar er krafist á, geti að efni til fallið undir 141. gr. laganna. Það er skilyrði fyrir beitingu þessarar greinar til að rifta ráðstöfunum þrotamanns að þær hafi verið ótilhlýðilegar. Þess var áður getið að ágreiningslaust væri með aðilum að þær ráðstafanir sem um ræðir væru riftanlegar samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laganna ef tímafrestir stæðu því ekki í móti. Við slíkar aðstæður eru löglíkur fyrir því að ráðstafanir teljist almennt ótilhlýðilegar og verður það lagt til grundvallar hér. Þá er það skilyrði samkvæmt 141. gr. að ráðstöfun þurfi að vera Byr sparisjóði til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og hafa að auki leitt til þess að eignir þrotamanns yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Verður einnig fallist á að báðum þessum skilyrðum sé fullnægt í málinu. Jafnframt þarf samkvæmt greininni að fullnægja því skilyrði að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar, auk þess sem Byr sparisjóður þarf að hafa verið grandsamur um ógjaldfærnina og aðrar þær ástæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

Stefndi hefur sönnunarbyrði fyrir því að þrotamaður hafi veri ógjaldfær í febrúar 2009 og í júlí sama ár þegar tryggingarráðstafanirnar fóru fram. Hann hefur upplýst að lýstar kröfur í þrotabúið hafi verið 3.750.271.661 króna, en kröfulýsingarfresti lauk 19. september 2010. Ekkert liggur fyrir um hvernig þessi fjárhæð er saman sett. Þá er óumdeilt að samkvæmt skattframtali þrotamanns 2009 námu tilgreindar skuldir hans þar 31. desember árið áður 863.561.231 krónu. Eignir voru sagðar vera 151.288.414 krónur. Í skýrslu fyrir dómi kvað þrotamaður skýringu á hárri fjárhæð skulda á skattframtalinu vera þá, að sér hafi verið skylt að telja til skulda kauprétti sem hann hafi átt í Baugi Group hf. en hann hafi þó ekki verið persónulega ábyrgur fyrir greiðslu þessara skulda. Þá kemur fram á skattframtalinu að hluti eigna þrotamanns voru hlutabréf í ýmsum félögum og kvað þrotamaður í skýrslu sinni fjárhæð þeirra vera talda fram miðað við nafnverð bréfanna. Þótt ljóst sé að mörg þessara félaga hafi lent í fjárhagsvandræðum og sum verið tekin til gjaldþrotaskipta síðar liggja engar upplýsingar fyrir um raunverulegt verðmæti þessara hlutabréfa á þeim tíma sem hér skiptir máli. Verður að ætla að auðvelt hefði verið að færa sönnur á raunverulega skuldastöðu þrotamanns og verðmæti eigna hans miðað við 9. febrúar og 7. júlí 2009 með matsgerð dómkvadds manns. Það hefur ekki verið gert og skortir með öllu sönnun á eigna- og skuldastöðu hans á þeim tíma, sem máli skiptir til þess að geta slegið því föstu að hann hafi verið ógjaldfær þegar tryggingarráðstafanirnar voru gerðar. Samkvæmt þessu er ekki sannað að fullnægt sé því skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 að þrotamaður hafi verið ógjaldfær þegar ráðstafanir þær, sem riftunar er krafist á, fóru fram og verður riftun því ekki reist á greininni.

Með vísan til alls framangreinds verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Íslandsbanki hf., skal vera sýkn af kröfu stefnda, þrotabús Stefáns H. Hilmarssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.°

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 12. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þb. Stefáns Hilmars Hilmarssonar, Borgartúni 26, Reykjavík á hendur Íslandsbanka hf., áður Byr hf., Borgartúni 18, Reykjavík, með stefnu birtri 15. september 2011.

Stefnandi krefst þess, að rift verði með dómi veðrétti stefnda samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 9.2.2009, að fjárhæð 27.500.000 króna, með veði í Laufásvegi 68, 101 Reykjavík fnr. 200-9250.

Þá krefst stefnandi þess, að rift verði með dómi veðrétti stefnda samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 7.7.2009, að fjárhæð 10.000.000 króna, með veði í Laufásvegi 68, 101 Reykjavík fnr. 200-9250.

Þess er krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir

Stefán Hilmar Hilmarsson hóf viðskipti sín við Sparisjóð vélstjóra fyrir tæpum þremur áratugum er hann hóf störf hjá Endurskoðun hf., síðar KPMG. Endurskoðunarfyrirtækið var með öll sín bankaviðskipti hjá Sparisjóði vélstjóra og var stofnaður launareikningur fyrir Stefán í kjölfarið. Sparisjóður vélstjóra og síðar Byr sparisjóður komu að fjármögnun á fernum fasteignakaupum Stefáns í gegnum tíðina. Fyrst voru fjármögnuð kaup hans á Frostafold 5 árið 1989. Síðar fjármagnaði sjóðurinn kaup Stefáns á Gerðhömrum 28 eða haustið 1998, síðan Brautarholti 2 í ágúst 2004 og loks Laufásvegi 68 árið 2006. Þá tók Stefán að láni tuttugu milljónir króna hjá Byr til að fjármagna útborgun kaupverðs eignarinnar. Lánið var tryggt með 1. veðrétti í eigninni. Á árinu 2007 tók Stefán 50 milljóna króna lán til að fjármagna lokagreiðslu kaupverðsins og voru efndir þess tryggðar með 2. veðrétti eignarinnar. Sumarið 2008 réðst hann í endurbætur á húsinu utanverðu auk almenns viðhalds innandyra. Tryggði hann sér framkvæmdafjármögnun hjá Byr. Stefndi kveður að framkvæmdirnar hafi verið fjármagnaðar í gegnum tékkareikning sem veitt var stighækkandi heimild til að yfirdraga. Hins vegar hafi í byrjun ekki verið til staðar formleg trygging fyrir yfirdráttarláninu.

Á árunum 2007 til 2009 var Stefán fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Baugs Group hf. Hinn 13. mars 2009 var bú Baugs Group hf. tekið til gjaldþrotaskipta.

Hinn 9. júlí 2010 var bú Stefáns tekið til gjaldþrotaskipta, en á árunum 2004 til 2008 hafði Stefán ráðist í umfangsmiklar persónulegar fjárfestingar, m.a. í Baugi Group hf. og BGE eignarhaldsfélagi ehf., sem leiddu meðal annars til þess að hann varð ógjaldfær.

Skiptastjóri rannsakaði fjárreiður þrotabúsins. Hinn 18. september 2008 hafði Stefán selt Vegvísi ehf., sem mun vera nátengt honum, fasteignina Laufásveg 68, Reykjavík, fnr. 200-9250 á 150.000.000 kr. Samkvæmt kaupsamningi skyldi Vegvísir ehf. taka við greiðslu áhvílandi veðskulda að fjárhæð 83.704.466 krónur og greiða Stefáni lokagreiðslu hinn 18. september 2009 að fjárhæð 66.295.534 krónur. Stefnandi telur þennan lánasamning vera til málamynda. Um ágreining þennan er fjallað í málinu nr. E-4270/2011.

Hinn 1. febrúar 2009 gaf Vegvísir ehf. út tvö tryggingarbréf til handhafa, hvort um sig 60.000.000 króna, samtals 120.000.000 króna með veði í fasteigninni að Laufásvegi 68 á 4. og 5. veðrétti. Eftir þá ráðstöfun var fasteignin veðsett fyrir 190.000.000 króna auk vaxta. Stefnandi telur að fyrrnefnd tvö tryggingarbréf til handhafa, samtals 120.000.000 króna, séu málamyndagerningar. Um ágreining þennan er fjallað í málinu nr. E-4288/2011.

Ágreiningur þessa máls lýtur að því að hinn 9. febrúar 2009 gaf Stefán út tryggingarbréf sem hvíldi á 3. veðrétti að Laufásvegi 68. Bréfið var til tryggingar skuld að fjárhæð 27.500.000 krónur. Á þeim tíma skuldaði Stefán Byr hf. 25.000.000 króna í yfirdráttarlán á reikningi nr. [...]-26-[...]17 hjá Byr hf. og 4.657.488 krónur í yfirdráttarlán á reikningi nr. [...]-26-[...]60 hjá Byr hf., samtals 29.657.488 krónur.

Hinn 7. júlí 2009 gaf Stefán út annað tryggingarbréf til handa Byr hf. að fjárhæð 10.000.000 króna. Á þeim tíma námu yfirdráttarlán Stefáns hjá Byr hf. á framangreindum reikningum samtals 32.272.627 krónur. Bréfinu var einnig þinglýst á fasteignina að Laufásvegi 68.

Sama dag eða 7. júlí 2009 fékk Stefán lán hjá Byr hf. að fjárhæð 32.500.000 krónur. Skilyrði fyrir lánveitingunni var að lánsfjárhæðin yrði notuð til uppgreiðslu yfirdráttarláns Stefáns hjá Byr hf. á reikningum nr. [...]-26-[...]17 og nr. [...]-26-[...]60. Samkvæmt lánssamningnum voru tryggingar fyrir láninu og þar með yfirdráttarlánunum fyrrnefnd tryggingarbréf dags. 9. febrúar 2009 og 7. júlí 2009, bæði með veði í Laufásvegi 68.

Hinn 28. júlí 2009 voru yfirdráttarlán Stefáns hjá Byr hf. á báðum framangreindum reikningum greidd upp.

Stefnandi telur ljóst að stofnun veðréttarins skv. fyrrnefndum tryggingarbréfum átti sér stað eftir að Stefán hafði stofnað til skulda við Byr hf. Þannig stofnaði hann til yfirdráttarskulda við Byr hf. á margra mánaða tímabili fyrir veðsetninguna. Stefnandi telur að lánveitingarnar og veðsetningar í kjölfarið fari í bága við XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir gþl.). Stefnandi höfðar því þetta riftunarmál á hendur Byr hf. vegna þeirra. Í fyrirtöku 12. janúar 2012 tilkynnti lögmaður stefnda að Íslandsbanki hf. tæki við aðild málsins af Byr hf.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Í fyrsta lagi vísar stefandi til 137. gr. gþl. Stefnandi byggir kröfur sínar um riftun á því að stofnun umræddra veðrétta, samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 9. febrúar 2009, að fjárhæð 27.500.000 krónur, og tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 7. júlí 2009, að fjárhæð 10.000.000 króna, með veði í Laufásvegi 68, 101 Reykjavík fnr. 200-9250, hafi átt sér stað eftir að stofnað hafi verið til skulda þrotamanns við Byr hf.

Veðrétturinn hafi verið settur til hagsbóta fyrir Byr hf., sem var nákominn Stefáni, innan tuttugu og fjögurra mánaða frá frestdegi, sbr. 1. og 2. mgr. 137.gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Líkt og að framan greinir hafi Stefán hinn 9. febrúar 2009 gefið út tryggingarbréf þar sem hann hafði skuldbundið sig til að greiða Byr hf. 27.500.000 krónur. Bréfinu hafi verið þinglýst á fasteignina að Laufásvegi 68. Hinn 9. febrúar 2009 hafi Stefán skuldað Byr hf. 25.000.000 króna í yfirdráttarlán á reikningi nr. [...]-26-[...]17 hjá Byr hf., og 4.657.488 krónur í yfirdráttarlán á reikningi nr. [...]-26-[...]60 hjá Byr hf., samtals 29.657.488 krónur. Auk þess hafi Stefán gefið út, hinn 7. júlí 2009, tryggingarbréf þar sem hann hafi skuldbundið sig til að greiða Byr hf. 10.000.000 króna. Á þeim tíma hafi yfirdráttarlán Stefáns hjá Byr hf. á framangreindum reikningum numið samtals 32.272.627 krónum. Bréfinu hafi verið þinglýst á fasteignina að Laufásvegi 68.

Hinn 7. júlí 2009 hafi Stefán fengið lán hjá Byr hf. að fjárhæð 32.500.000 krónur. Skilyrði lánveitingarinnar frá Byr hf. hafi verið að lánsfjárhæðin yrði notuð til uppgreiðslu yfirdráttarláns Stefáns hjá Byr hf. á reikningum nr. [...]-26-[...]17 og nr. [...]-26-[...]60. Samkvæmt lánssamningnum hafi tryggingar fyrir láninu og þar með yfirdráttarlánunum verið fyrrnefnd tryggingarbréf, dags. 9. febrúar 2009 og 7. júlí 2009, bæði með veði í Laufásvegi 68.

Af þessu sé ljóst að veðréttur hafi verið veittur vegna eldri skuldar Stefáns vegna yfirdráttarlána hans hjá Byr hf. Í lánssamningi, dags. 7. júlí 2009, komi fram að Stefán hafi fengið lán hjá Byr hf. gagngert til þess að greiða eldri yfirdráttarlán hjá Byr hf. Lánssamningurinn hafi því verið skuldbreyting á eldri skuld Stefáns við bankann en ekki falið í sér nýja lánveitingu.

Tryggingarbréf, dags. 9. febrúar 2009 og 7. júlí 2009, sem þinglýst hafi verið á Laufásveg 68, séu því aðeins til komin vegna eldri skulda, yfirdráttarlána, Stefáns hjá Byr hf. Veðsetningar Stefáns hafi leitt til minni fullnustumöguleika annarra kröfuhafa í þrotabúið. Þá hafi Stefán verið ógjaldfær þegar veðréttindin hafi verið veitt. Beri því að rifta veðréttindum skv. tryggingarbréfunum.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að fyrrnefndar tvær veðsetningar þrotamanns hafi verið ráðstöfun, sem á ótilhlýðilegan hátt hafi verið Byr hf. til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leitt til þess, að eign þrotamanns hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Eign búsins hafi rýrnað sem nemi fjárhæð tryggingarbréfanna. Vegna náinna tengsla og langvarandi lánveitinga Byrs hf. til þrotamanns hafi þeim verið eða mátt vera ljós bágur fjárhagur þrotamanns og að veðsetningin væri til þess fallin að rýra möguleika annarra kröfuhafa til fullnustu og teldist því ótilhlýðileg, samkvæmt 141. gr. gþl.

Samkvæmt 141. gr. gþl. megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaðurinn verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða hafi mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem hafi leitt til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Stefnandi telur öll framangreind skilyrði ákvæðisins uppfyllt.

Stefanndi tekur fram að samkvæmt 2. mgr. 137. gr. og 141 gr. laga nr. 21/1991 verður ráðstöfun rift nema leitt verði í ljós að Stefán H. Hilmarsson hafi verið gjaldfær þegar veðsetningarnar hafi farið fram.

Mat á því hvort Stefán hafi ekki getað staðið í skilum við lánardrottna sína þegar skuldir þeirra hafi fallið í gjalddaga ráðist af heildarmati ýmissa atriða eins og t.d. fjárhæðum krafna, gjalddaga krafna, lausafjárstöðu Stefáns, eignastöðu hans, hversu auðvelt hafi verið að koma eignum í verð, hvort eignir hafi verið bundnar kvöðum, væntanlegum framtíðartekjum og fleiri atriðum.

Af framangreindum lagaákvæðum og dómaframkvæmd sé ljóst að stefndi, sem riftunarþoli, beri sönnunarbyrðina fyrir því að Stefán hafi verið gjaldfær þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað. Í því samhengi sé áréttað að almennt sé talið að mat skuldarans sjálfs á eigin eignum verði ekki lagt til grundvallar þegar eignastaða hans sé könnuð.

Þrátt fyrir að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir gjaldfærni vill stefnandi þó benda á ýmis atriði sem sýni fram á að Stefán hafi ekki verið gjaldfær þegar ráðstöfun hafi farið fram.

Stefán hafi, eins og áður segir, verið aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri Baugs Group hf. á árunum 2007–2009. Stefán hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 9. júlí 2010. Lýstar kröfur í þrotabú hans hafi verið 3.750.271.661 króna sem sýni hve miklar skuldir hans hafi verið.

Samkvæmt skattframtali Stefáns 2009 vegna ársins 2008 hafi skuldir hans verið 863.561.231 króna. Á sama tíma hafi helstu eignir Stefáns verið hlutabréf í hlutafélögum sem hafi orðið ógjaldfær á árinu 2008 og gjaldþrota árið 2009; t.d. hafi Baugur Group hf. orðið gjaldþrota árið 2009, eins og áður segi.

Af þessu megi ljóst vera að skuldir Stefáns hafi verið langtum meiri en tekjur hans gátu staðið undir á árinu 2008. Stefán hafi því að öllum líkindum verið ógjaldfær á sama tíma og Baugur Group hf. hafi verið ógjaldfær, þ.e. um mitt ár 2008.

Stefnandi byggir á því að Byr hf. hafi verið nákominn Stefáni H. Hilmarssyni í skilningi 3. gr. gþl. Sé þar sérstaklega vísað til 4., 5. og 6. tl. ákvæðisins.

Eins og áður segi hafi Stefán verið einn æðsti stjórnandi Baugs Group hf. á Íslandi, fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri félagsins. Baugur Group hf. hafi átt á árunum 2008–2009 verulegan og ráðandi hlut í Högum hf. Hagar hf. hafi verið dótturfélag Baugs Group hf. á þessum tíma.

Þegar umræddar veðsetningar hafi átt sér stað hafi Hagar hf. verið á meðal stærstu stofnfjáreigenda í Byr hf., með 1,3% eignarhlut. Hagar hf. hafi auk þess átt einn mann í fimm manna stjórn Byrs hf. Þá verði að líta til þess að Baugur Group hf. hafi átt ráðandi hlut í FL Group hf. sem aftur hafi átt ráðandi hlut í Glitni banka hf. Glitnir hafi einnig verið á meðal stærstu stofnfjáreigenda í Byr hf. á þessum tíma, með 2% eignarhlut.

Veruleg og náin tengsl hafi auk þess verið milli Baugs Group hf. og flestra af stærstu stofnfjáreigendum Byrs hf., þ.m.t.:

  • Imons ehf. með 7,6% eignarhlut (eigandi Magnús Ármann, viðskiptafélagi fyrirsvarsmanna Baugs Group),
  • Sunda ehf. með 5,8% eignarhlut (meðfjárfestir Baugs Group í ýmsum verkefnum),
  • Fjárfestingarfélagsins Kletts ehf. með 3,4% eignarhlut (dótturfélag Baugs Group ehf.),
  • Fjárfestingafélagsins Prímuss ehf. með 3,1% eignarhlut (eigandi Hannes Smárason, meðfjárfestir Baugs Group í ýmsum verkefnum),
  • Sólstafa ehf. með 1,9% eignarhlut (eigandi Þorsteinn M. Jónsson, meðfjárfestir Baugs Group í ýmsum verkefnum),
  • Fons ehf. með 1,4% eignarhlut (eigandi Pálmi Haraldsson, meðfjárfestir Baugs Group í ýmsum verkefnum) og
  • Glitnis eignarhaldsfélag ehf., með 1,3% hlut (dótturfélag Glitnis banka hf.).

Stefán hafi því verið í þeirri stöðu hjá Baugi Group hf. og Högum hf. að hann hafi getað haft veruleg áhrif á ákvarðanatöku hjá Byr hf.

Auk þess hafi Byr hf. verið stór lánardrottinn Stefáns. Í aðdraganda umræddra veðsetninga hafi Stefán ítrekað fengið há lán hjá Byr hf. til ýmissa persónulegra þarfa. Af bankareikningum Stefáns hjá Byr hf. megi ráða að Stefán hafi á árunum 2008 til 2009 verið fjárhagslega háður lánafyrirgreiðslu hjá Byr hf. sem teljist því nákominn Stefáni skv. 3. gr. gþl.

Málsástæður og lagarök stefnda

Dómkrafa stefnanda um riftun á veðréttindum stefnda á grundvelli 137. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 byggist á þeirri grundvallarforsendu að Byr hf. og Stefán Hilmar Hilmarsson, hafi verið nátengdir í skilningi 3. gr. sömu laga. Þetta sé fráleitt og eigi sér hvorki stoð í staðreyndum málsins né heldur samræmist þetta skilgreiningu lagagreinarinnar.

Ákvæðum 3. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið breytt með lögum nr. 95/2010 en þau hafi tekið gildi hinn 15. júní 2010. Samkvæmt 22. gr. þeirra laga verði hinni breyttu reglu hins vegar ekki beitt til skilgreiningar á orðinu nákomnir að því leyti sem reynt geti á merkingu þess varðandi atvik sem gerðust fyrir gildistöku laganna. Við mat á því hvort Stefán Hilmarsson hafi verið nákominn Byr hf. þegar stofnað hafi verið til veðsetningar á fasteign hans, verði því að styðjast við orðalag greinarinnar eins og það hafi verið fyrir þessa breytingu.

Þriðji töluliður greinarinnar hafi hljóðað þannig: „Mann og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hlut í.“ Samkvæmt 1. og 2. tl. ákvæðisins teljast einstaklingar nákomnir ef þeir eru hjón eða búa í óvígðri sambúð, eru skyldir í beinan legg eða fyrsta til hliðar, blóðskyldir eða tengdir í gegnum ættleiðingu eða fóstur.

Til þess að Stefán geti talist hafa verið nákominn Byr hf. þegar hann veðsetti sjóðnum fasteign sína, hefði hann eða maður honum nákominn, í skilningi ákvæðisins, þurft að hafa verið eigandi að verulegum hluta í sjóðnum.

Eitt af hugtaksskilyrðum greinarinnar sé að um „verulegan“ eignarhlut sé að ræða. Það hugtak þarfnast varla skýringar en orðabókarskýringin er „talsverður“ eða „sem um munar.“ Í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2010 sé nákominn talinn sá sem eigi eða ráði yfir 20% í fyrirtækinu og virkur eignarhlutur í fjármálafyrirtæki sé hlutdeild í félagi sem nemi 10% eða meira af hlutafé eða stofnfé fyrirtækisins.

Fræðimenn séu einnig sammála um að eitt af hugtaksskilyrðum 3. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé að þessar aðstæður, sem leiði til þess að maður eða félag teljist nákominn, verði að vera til staðar þegar ráðstöfun eigi sér stað, þannig að þessi aðstaða hafi eða hefði getað ráðið því að ráðstöfunin hafi verið gerð.

Ekkert af þessum atriðum, þessum hugtaksskilyrðum 3. gr. gjaldþrotaskiptalaganna, sé fullnægt varðandi tengsl Stefáns og Byrs. Stefán hafi aldrei verið skráður eigandi að stofnfjárhlutum í Sparisjóði vélstjóra, Sparisjóði Hafnarfjarðar, Sparisjóði Kópavogs, Sparisjóði Norðlendinga eða Byr hf. Hið sama gildi um maka hans, niðja og skyldmenni í fyrsta legg til hliðar. Hvorki Stefán né nákomnir ættingjar hans hafi átt félög sem aftur hafi átt stofnfé í þessum sjóðum.

Stefán hafi aldrei setið í stjórn fyrrgreindra sparisjóða, né heldur nokkur nákominn honum í skilningi gjaldþrotaskiptalaga. Hann hafi aldrei setið í stjórn neinna félaga sem hafi átt stofnfé í þessum sparisjóðum né hafi hann verið við stjórnvölinn í slíkum félögum.

Hagar hf. sem hafi verið dótturfélag Baugs hf. á þeim tíma hafi átt 1,327% í Byr og verið fimmtándi stærsti stofnfjáreigandinn í sjóðnum. Stærstu einstöku stofnfjáreigendurnir hafi átt á bilinu 4,0 til 7,7% í sjóðnum. Hagar hf. hafi því verið tiltölulega smár stofnfjáreigandi í þeim samanburði og auðvitað víðs fjarri að félagið hafi átt verulegan hlut í sjóðnum. Samkvæmt almennum reglum hefði félagið ekki átt tilkall til stjórnarmanns í sparisjóðnum. Engu að síður hafi Jóhanna Waagfjörð, þáverandi fjármálastjóri Haga hf., náð kjöri í stjórn Byrs í apríl 2008. Hún hafi setið í stjórninni í eitt ár og hætt á aðalfundi sjóðsins hinn 13. maí 2009.

Seta Jóhönnu í stjórn Byrs eru einu hugsanlegu tengslin sem hægt sé að finna á milli Stefáns og Byrs, en þau séu ótrúlega fjarlæg. Engin fjölskyldutengsl séu á milli þessara aðila. Stefán, sem hafi þá verið fjármálastjóri Baugs Group hf., hafði engin völd eða áhrif yfir starfsmönnum eða stjórnendum Haga enda sé þar um að ræða félag sem lúti sjálfstæðri stjórn og forstjóra sem stjórni daglegum rekstri þess.

Í þessu sambandi sé einnig mikilvægt að hafa í huga að Baugur Group hf. hafi verið orðinn gjaldþrota, eða 13. mars 2009, þegar gengið hafi verið frá síðara tryggingarbréfinu og skuldabréfinu fyrir tékkareikningsskuldinni. Hagar hf. hafi þá heldur ekki lengur átt mann í stjórn Byrs.

Eins og fyrr segi sé það hugtaksskilyrði 3. gr. gjaldþrotaskiptalaganna að þær aðstæður sem valdi því að menn, eða maður og félag, teljast nákomnir, verða að vera til staðar þegar ráðstöfun sé gerð. Tengslin verði einnig að vera þess eðlis að þau hefðu getað mótað ákvarðanatöku aðila. Fyrir liggi að ákvarðanir um lánveitingar til Stefáns hafi farið venjubundnar leiðir innan Byrs hf. Þær hafi verið teknar og framkvæmdar í samræmi við lánareglur sparisjóðsins en lánanefnd hafi lokasvarið í þessum efnum. Í lánanefnd Byrs á þessum tíma hafi enginn setið sem talist gæti nákominn Stefáni Hilmarssyni.

Fyrirgreiðslan hafi verið veitt á grundvelli áratuga góðra viðskipta aðila og hinir lánuðu fjármunir hafi verið tryggðir með traustum veðum í fasteign lántakans. Fráleitt sé að ætla að einstakir stjórnarmenn Byrs hf. hafi haft áhrif á þessar ákvarðanir. Ákvarðanir um slíkar lánveitingar séu ekki á valdsviði stjórnar og væri það í raun skýrt brot bæði á lánareglum, starfsreglum stjórnar og fyrirmælum FME ef stjórnarmaður sparisjóðs hefði afskipti af slíkum málum.

Um hugsanlega riftun á veðréttindum Byrs hf. í Laufásvegi 68 gildi því ákvæði 1. mgr. 137. gr. gþskl. en ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi ekki við. Samkvæmt því sé riftun á þessum réttindum ekki heimil en þinglýsing síðara tryggingarbréfsins og útgáfa skuldabréfsins hafi farið fram tæpu ári fyrir frestdag við skiptin en hann hafi verið 21. maí 2010. Sú ráðstöfun þrotamannsins að veita stefnda veðrétt í fasteign sinni sé því augljóslega ekki riftanleg á grundvelli þessa ákvæðis laganna.

Umrædd ráðstöfun sé heldur ekki riftanleg á grundvelli 141. gr. laganna. Stefnandi hafi alls ekki sýnt fram á að Stefán hafi verið ógjaldfær þegar hann hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá Byr hf. og heldur ekki þegar hann hafi veitt honum veðrétt í eign sinni til tryggingar skuldunum. Eins og fyrr sagði hafði Stefán verið með lýtalaus viðskipti við Byr hf. og forvera hana svo áratugum skipti. Engar vísbendingar hafi verið um annað en að svo yrði áfram. Stefán sé viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi og eigi að baki farsælan feril í því starfi. Hann hafi að auki tekið við stjórnunarstöðu hjá 365 miðlum ehf. eftir að Baugur hafi orðið gjaldþrota í mars 2009.

Ólíkt því sem gildi um fyrirtæki í rekstri hafi það aldrei tíðkast að bankar eða sparisjóðir hér á landi krefjist þess að fá að sjá skattframtöl einstaklinga sem þeir eigi í viðskiptum við. Til grundvallar lánveitingunni hafi því fyrst og fremst legið mat starfsmanna Byrs á viðskiptavininum, áratuga löngum viðskiptum hans við Sparisjóðinn og þeim tryggingum sem hann hafi boðið í fasteigninni. Það blasi enda við að ef Byr hf. hefði verið ljóst að Stefán væri ógjaldfær á árinu 2009, þá hefði það verið fráleitt, og brot á öllum reglum, að veita honum milljóna fyrirgreiðslu til viðbótar því sem hann áður hafi skuldað.

Það sé stefnanda að sanna að riftunarskilyrði 141. gr. gþl. hafi verið til staðar þegar umræddar ráðstafanir hafi verið gerðar á vormánuðum 2009. Slík sönnun liggi ekki fyrir í málinu og í raun ekkert sem bendi til þess að starfsmönnum Byrs hf. hefði átt að renna það í grun að Stefán Hilmarsson væri ekki gjaldfær. Skilyrðum ákvæðisins sé því ekki fullnægt.

Niðurstaða

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. júlí 2010 var bú Stefáns Hilmars Hilmarssonar tekið til gjaldþrotaskipta. Kröfulýsingarfresti í búið lauk 19. september 2010. Stefna málsins var birt 15. september 2011 eða innan lögbundins málshöfðunarfrests.

Stefnandi byggir kröfur sínar um riftun á því að stofnun umræddra veðrétta, samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 9. febrúar 2009, að fjárhæð 27.500.000 krónur, og tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 7. júlí 2009, að fjárhæð 10.000.000 króna, með veði í Laufásvegi 68, Reykjavík fnr. 200-9250, hafi átt sér stað eftir að stofnað hafi verið til skulda þrotamanns við Byr hf. og um sé að ræða riftanlega ráðstöfun samanber 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig er byggt á 141. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. má krefjast riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar. Það sama á við ef slíkum réttindum er ekki þinglýst eða þau eru ekki tryggð á annan hátt gegn fullnustugerðum án ástæðulauss dráttar eftir að skuldin varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má krefjast riftunar á veðrétti, eða öðrum tryggingarréttindum sem hafa verið sett til hagsbóta fyrir nákomna, sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag og ákvæði 1. mgr. eiga að öðru leyti við, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna.

Ágreiningslaust er að uppfyllt er það skilyrði ákvæðisins að fyrst var stofnað til skuldarinnar og að veðrétturinn var ekki stofnaður fyrr en eftirá. Nefnd tryggingarbréf eru gefin út 9. febrúar 2009 og 7. júlí 2009. Þau eru til komin vegna yfirdráttarlána á reikningum nr. [...]-26-[...]17 og [...]-26-[...]60 hjá Byr hf. Stefán stofnaði til yfirdráttarins á margra mánaða tímabili fyrir veðsetninguna.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 2. mgr. 137. gr. gjaldþrotalaganna. Til þess að ákvæðið eigi við þarf tryggingarrétturinn að vera settur til hagsbóta fyrir nákomna. Stefnandi vísar hér til 6. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og heldur því fram að Byr hf. hafi verið nákominn Stefáni Hilmarssyni í skilningi ákvæðisins. Í 6. tl. er vísað til manna, félaga og stofnana sem eru í sambærilegum tengslum og um ræðir í 1.–5. tölul. greinarinnar. Álitamál er hér hvort einungis eigi að miða við eignartengsl svo sem gert ert í 4. og 5. tl. 3. gr. eða hvort um annars konar tengsl geti verið að ræða. Í hrd. 1996:2684, Þrotabú Hafarnarins gegn Olíufélaginu hf., var deilt um hvort H og O væru nákomnir í skilningi 3. gr. gþl. Þar segir að orðin „sambærileg tengsl“ verði einkum skýrð svo, að þar sé átt við verulegan eignarhlut. Síðan segir í dóminum: „Á annað verði þó einnig að líta, svo sem stöðu aðilja og áhrif þeirra við þá ákvarðanatöku, sem til álita er. Stefndi átti samkvæmt framansögðu töluverðan hlut í Haferninum hf., einkum í samanburði við langflesta aðra hluthafa. Er ljóst, að hann naut áhrifa í stjórn félagsins umfram eignarráð sín, en ekki skiptir máli, þótt stefndi hafi í því efni notið atbeina Landsbankans. Hann hlaut að mega sín mikils við ákvarðanir stjórnar félagsins um skuldaskil. Þegar litið er til þessara atriða í heild, verður að telja, að stefndi og Haförninn hf. hafi verið nákomnir í skilningi 6. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991.“ Af þessum dómi verður dregin sú ályktun að líta verði heildstætt á atburðarásina þegar metið er hvort um nákomna aðila er að ræða eða ekki, en ekki einungis til eignatengsla.

Fyrir liggur að Stefán Hilmarsson átti ekki hlut í Byr hf. Hann var hins vegar fjármálastjóri Baugs Group hf. í Reykjavík og staðgengill forstjóra. Hann hafði yfirumsjón með bókhaldi og fjárreiðum félagsins auk þess sem hann sá um samskipti við lánastofnanir og lánardrottna félagsins. Þá stýrði hann daglegum rekstri félagins og annaðist fjármálin. Stefán hafði því tögl og haldir í stjórnun eins stærsta félags landsins.

Baugur Group hf. var á árunum 2008-2009 með verulegan og ráðandi hlut í Högum hf. Hagar hf. voru á meðal stærstu stofnfjáreigenda í Byr hf. Baugur Group hf. átti einnig ráðandi hlut í Glitni banka hf. sem var einnig meðal stærstu stofnfjáreigenda í Byr hf. Þá voru einnig sambærileg tengsl milli Baugs Group hf. og flestra af stærstu stofnfjáreigendum Byrs hf., til dæmis Imons ehf., Sunds ehf., Fjárfestingafélagsins Kletts ehf., Fjárfestingafélagsins Prímusar ehf., Sólstafa ehf., Fons ehf., og Glitnis eignarhaldsfélags ehf. Lætur nærri að hér sé um 25% af stofnfjáreign Byrs hf. og þessi hópur hafi haft tvo stjórnarmenn í Byr.

Eins og að framan greinir voru tryggingarbréfin gefin út vegna yfirdráttar á tveimur tékkareikningum Stefáns hjá Byr. Um óvenjulega háa yfirdráttarheimild var að ræða en samtals eru tryggingarbréfin að fjárhæð 37.500.000 krónur. Álykta verður að Stefán hafi notið sérstaklega góðrar fyrirgreiðslu hjá Byr. Fyrirliggjandi reikningsyfirlit tékkareikninganna sýna að yfirdrátturinn hafi að mestu leyti verið notaður vegna daglegrar neyslu Stefáns og fjölskyldu hans en ekki til endurbóta Laufásvegar 68.

Þegar málið er virt í heild sinni, það er starf Stefáns fyrir Baug Group hf., eignarhald fyrirtækjahópsins og tengslin við Baug Group hf., og Byr hf., sú fyrirgreiðsla sem Stefán fékk hjá Byr hf. er litið svo á að fullnægt sé skilyrði 2. mgr. 137. gr. gþl. að tryggingarrétturinn hafi verið settur til hagsbóta fyrir nákomna, þ.e. Byr.

Þegar litið er til fyrirliggjandi skattframtala Stefáns 2009 og 2010, þar sem skuldir eru mörgum sinnum hærri en eignir, sem og til launa Stefáns á þessu tímabili, og einnig haft til hliðsjónar að fjárhæð lýstra krafna í bú hans var rúmlega 3,7 milljarðar, þá verður  að telja að Stefán hafi ekki verið gjaldfær og er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 137. gr. gþl.

Með vísan til þess sem að framan greinir er krafa stefnanda tekin til greina. Eftir þessar niðurstöðu og samkvæmt 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Rift er veðrétti stefnda, Íslandsbanka hf., samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 9.2.2009, að fjárhæð 27.500.000 krónur, með veði í Laufásvegi 68, 101 Reykjavík, fnr. 200-9250 og veðrétti stefnda, Íslandsbanka hf., samkvæmt tryggingarbréfi nr. [...], útgefnu 7.7.2009, að fjárhæð 10.000.000 króna, með veði í Laufásvegi 68, 101 Reykjavík fnr. 200-9250.

Stefndi, Íslandsbanki hf. greiði stefnanda, þb. Stefáns H. Hilmarssonar, 1.000.000 kr. í málskostnað.