Hæstiréttur íslands
Mál nr. 751/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 12. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. nóvember 2017 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í 30 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og ,,þóknunar til skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti er greiðist úr ríkissjóði.“
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að öðru leyti en því að ekki voru efni til að dæma lögmanni varnaraðila þóknun úr ríkissjóði, þar sem hann hafði ekki verið skipaður talsmaður varnaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Af fyrrgreindri ástæðu verður lögmanni þeim, er gætir hagsmuna varnaraðila hér fyrir dómi, ekki dæmd þóknun úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því er varðar þóknun lögmanns varnaraðila, Sveitarfélagsins Árborgar, úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, A, Jóns Páls Hilmarssonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. nóvember 2017.
Með beiðni, dagsettri 28. ágúst 2017, óskaði Sigurður Sigurjónsson hrl. eftir því fyrir hönd sóknaraðila, Félagsþjónustu Sveitarfélagsins Árborgar, kt. [...], Ráðhúsinu, Austurvegi 2, Selfossi, að varnaraðili, A, kt. [...], óstaðsettur í hús á Selfossi, en með dvalarstað í fangelsinu Litla Hrauni, verði sviptur sjálfræði sínu tímabundið til fjögurra ára.
Með beiðni, dags. 2. nóvember 2017, óskaði sóknaraðili eftir því að varnaraðili yrði jafnframt sviptur fjárræði tímabundið til fjögurra ára.
Fyrri beiðnin var þingfest 7. september 2017. Þann 12. september 2017 var dómkvaddur matsmaður B geðlæknir til að meta hvort varnaraðili sé fær um að ráða persónulegum högum sínum sbr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Mál vegna seinni beiðninnar var þingfest 3. nóvember 2017 og sameinað þessu máli.
Af hálfu varnaraðila er báðum beiðnum mótmælt og þess krafist að öllum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila verði hafnað. Til vara krefst varnaraðili þess að lögræðissviptingum verði markaður skemmri tími.
Af hálfu beggja er krafist þóknunar úr ríkissjóði.
Aðalmeðferð fór fram fimmtudaginn 16. nóvember 2016 og gáfu þá skýrslur fyrir dóminum varnaraðili og B dómkvaddur matsmaður. Var málið svo tekið til úrskurðar.
Málavextir
Í beiðni sóknaraðila segir að varnaraðili afpláni nú refsingu í fangelsinu Litla Hrauni. Hann eigi langa sögu um áfengisfíkn, óreglu og afbrot í tengslum við áfengissögu.
Vegna bágborins ástands og heilsufars varnaraðila hafi öldrunarlæknir verið fenginn til að leggja mat á andlega og líkamlega heilsu varnaraðila. Í niðurstöðum hans segi að varnaraðili hafi þunga áfengissögu að baki. Allt yfirbragð sé líkt og við Wernicke Korsakoff með skertu skammtímaminni, íspuna með megaloman yfirbragði og áberandi dómgreindar- og innsæisleysi. Að auki stirðleiki, hæging í hreyfingum og göngulagstruflanir.
Segir að læknar meti varnaraðila þannig að hann sé með alvarlega áfengissýki og heilabilun, sennilega bæði Wernicke Korsakoff og framheilaskaða (vasculer). Fangelsislæknar segi að ástandið versni dag frá degi, afbrot hans verði alvarlegri og hann geti ekki samlagast eða spjarað sig úti í samfélaginu. Hann þurfi meðhöndlun á viðeigandi stofnun. Varnaraðili hafni allri samvinnu um slíkt enda hafi hann ekki innsæi í líkamlegt og andlegt ástand sitt. Hann sé því með öllu ófær um að ráða persónulegum högum sínum.
Segir í beiðninni að hægt sé að staðfesta að um heilabilun sé að ræða með klárum framheilaeinkennum en sértæk greining sé erfiðari og greinilega blönduð mynd. Hann fái því greininguna ótilgreind heilabilun.
Samkvæmt upplýsingum lækna sem skoðað hafi varnaraðila og annast þá séu ekki líkur til bata. Ekki séu til sértækar aðferðir til lækninga eða meðferðar og horfur til skemmri og lengri tíma séu bágbornar. Lokað hjúkrunarheimili þar sem varnaraðili fengi viðeigandi aðhlynningu sé því eina úrræðið, en varnaraðili hafi með öllu hafnað slíku enda hafi hann ekkert innsæi í ástand sitt.
Núverandi heilsufar varnaraðila sé þannig að hann sé alveg ófær um að ráða hagsmunum sínum sjálfur. Um lagarök vísar sóknaraðili til a liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en um tímalengd til álits sérfræðinga um bágbornar batahorfur og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997. Vegna aðildar sóknaraðila er vísað til d liðar 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997 og um málskostnað til 1. mgr. 17. gr. laganna og vegna varnarþings vísar sóknaraðili til 9. gr. sömu laga.
Í kröfu um fjárræðissviptingu vísar sóknaraðili til þess að í matsgerð B komi fram að til staðar séu gögn undanfarin 2 ár um skerta hugræna getu með minnistruflunum og íspuna þar sem varnaraðili fylgi umræðunni án þess að átta sig á staðreyndum. Matsmaður telji varnaraðila hafa væntingar til sjálfs sín sem ekki séu í samræmi við stöðu hans. Ljóst þyki að þó að varnaraðili hafi verið edrú um 9 mánaða skeið í fangelsi þá sé hann enn verulega skertur. Myndgreiningarrannsóknir af höfði bendi til þess að horfur séu slæmar. Skoðun samrýmist því að varnaraðili sé kominn með heilabilun í samræmi við álit öldrunarlæknis. Telja verði yfirgnæfandi líkur á því að hann hefji drykkju um leið og hann komi úr fangelsi. Sú neysla samhliða vitrænni skerðingu sem hann búi við muni leiða til þess að hann lendi í vandræðum með að sinna athöfnum daglegs lífs og stefni sjálfum sér og öðrum í voða líkt og hann hafi sögu til áður.
Þá segir í beiðni um fjárræðissviptingu að grunur sé um að óráðvandir aðilar hafi notfært sér þetta ástand varnaraðila til að hafa af honum fé. Hann sé ekki fær um að taka fjárhagslegar ákvarðanir. Því sé farið fram á fjárræðissviptingu þar sem ekki séu líkur til að varnaraðili nái þeirri heilsu sem þurfi til að hann geti sjálfur sinnt fjármálum sínum.
Vegna fjárræðissviptingarkröfu vísar sóknaraðili til a liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sem og áður talinna ákvæða.
Með beiðnum fylgdu gögn sem ekki verða sérstaklega rakin umfram það sem þörf krefur í forsendum og niðurstöðum.
Forsendur og niðurstaða
Aðild sóknaraðila byggir á d lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/1997.
Í niðurstöðum matsgerðar B, dómkvadds matsmanns, segir að varnaraðili sé áfengissjúklingur til áratuga og hafi ítrekað verið til meðferðar vegna þess. Miðað við framlögð gögn hafi hann verið útigangsmaður í á annan áratug. Ljós sé að hann hafi á köflum verið hætt kominn vegna þess. Hann hafi verið með drykkjulæti og verulegar hegðunartruflanir, ógn og ofbeldi samfara þessu. Síðast liðin 2 ár séu gögn til staðar um skerta hugræna getu með minnistruflunum og íspuna þar sem hann fylgi umræðunni án þess að átta sig á staðreyndum. Hann hafi væntingar til sjálfs sín sem ekki séu í samræmi við þá stöðu sem hann sé í og rökstyðji hann þær væntingar með tilvísun í stöðu hans sem kornungs manns, en ekki í þá stöðu sem hann sé nú í. Ljóst sé að þó að varnaraðili hafi verið edrú í þessari dvöl í fangelsi í 9 mánuði þá sé hann enn verulega skertur. Myndgreiningarrannsóknir af höfði bendi til þess að horfur séu slæmar. Skoðun matsmannsins samrýmist því að hann sé kominn með heilabilun í samræmi við álit öldrunarlæknis í framlögðum gögnum. Ljóst sé að bindindi til margra ára sé eina vonin til að þetta ástand versni ekki frekar, heldur mögulega skáni eitthvað. Þá verði miðað við fyrri sögu að telja yfirgnæfandi líkur til að varnaraðili fari aftur að drekka um leið og hann komi úr fangelsi og að sú neysla samhliða vitrænni skerðingu sem varnaraðili búi við muni leiða til þess að hann lendi í vandræðum að sinna athöfnum daglegs og stefni sjálfum sér og öðrum í voða. Ljóst sé að svipting sjálfræðis án þess að til staðar sé lokað hjúkrunarheimili til að taka við varnaraðila muni ekki tryggja öryggi hans. Verði hann í opnu úrræði þá muni hann fljótt lenda í erfiðleikum vegna hugrænnar skerðingar sinnar og alvarlegrar drykkjusýki. Það sé álit matsmannsins að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum og mælir hann með sviptingu sjálfræðis í 4 ár.
Í læknisvottorði C öldrunarlæknis um varnaraðila segir í niðurstöðum að varnaraðili eigi þunga áfengissögu að baki. Allt yfirbragð sé líkt og við Wernicke Korsakoff með skertu skammtímaminni, íspuna með megaloman yfirbragði og áberandi dómgreindar- og innsæisleysi. Að auki stirðleiki, hæging í hreyfingum og göngulagstruflanir. Niðurstöður á TS mynd og SPECT séu í góðu samræmi við einkennin. Framheilaeinkenni séu áberandi sbr. það sem áður segi og lacunur í basal ganglia geti gefið extrapyrimidal einkenni eins og hann sé með. Þetta útiloki þó ekki Wernicke. Ekkert Alzheimer mynstur sé til staðar og sá sjúkdómur sé nánast útilokaður. Ekki sé til sértæk meðferð en þetta ásamt áfengissýki bendi til að horfur til bæði skemmri tíma og lengri séu bágbornar. Hægt sé að staðfesta að um heilabilun sé að ræða með klárum framheilaeinkennum en sértæk greining sé erfiðari og greinilega blönduð mynd. Varnaraðili fái því greininguna ótilgreind heilabilun.
Við aðalmeðferð lýsti varnaraðili því að hann vildi fara í áfengismeðferð í Hlaðgerðarkoti og halda sig frá áfengi með stuðningi AA samtakanna. Hann kvaðst vilja fá sér vinnu, mögulega við [...], en varnaraðili á sögu sem [...]. Kvaðst ekki verða í vandræðum með að spjara sig og kvaðst hafa verið á fylliríi aðeins nokkrar vikur áður en hann hóf núverandi afplánun, en áður hafi hann verið í vinnu. Var að mati dómsins augljóst að varnaraðili gerði afar lítið úr vanda sínum, en hann er þekktur drykkju- og útigangsmaður á [...] til margra ára.
B geðlæknir og dómkvaddur matsmaður gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og staðfesti framangreinda matsgerð sína. Lýsti hann því að varnaraðili væri að sínu mati ófær um að ráða persónulegum högum sínum og ættu í rauninni bæði a og b liður 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 við um varnaraðila. Væri að mati hans mjög brýnt að tryggja að varnaraðili kæmist ekki í áfengi þegar hann losnaði úr fangelsi. Þá kvað matsmaður að hugmyndir varnaraðila og væntingar hans væru óraunhæfar. Þá kvaðst matsmaðurinn telja batahorfur varnaraðila litlar, en mögulega gætu þó orðið framfarir hjá varnaraðila á tveimur árum, en það væri að mati matsmanns lágmarkstími. Þá kvaðst matsmaður ekki sjá að vægari úrræði mættu koma að haldi, en fyrirsjáanlegt væri að ef varnaraðili færi í áfengismeðferð án sjálfræðissviptingar þá myndi hann fljótlega hverfa þaðan og taka upp drykkju sem yrði honum til skaða. Aðspurður taldi matsmaður að þó hann hefði ekki verið beðinn um að meta getu varnaraðila til að annast um fjármál sín, þá væri líklegt væri að geta hans til þess væri skert og að hann væri ófær um það.
Að mati dómsins er hafið yfir vafa að varnaraðili er vegna andlegrar skerðingar og drykkjusýki ófær um að ráða persónulegum högum sínum sbr. a og b liði í 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Er brýn þörf vegna heilsufars og velferðar varnaraðila sjálfs að hann verði sviptur sjálfræði, en að mati dómsins er ljóst að meðferð muni ekki koma að haldi án sjálfræðissviptingar og koma þá ekki vægari úrræði til álita. Ber að svipta varnaraðila sjálfræði sínu, en nægilegt þykir að sjálfræðissvipting vari í 30 mánuði að virtum framburði hins dómkvadda matsmanns.
Við aðalmeðferð málsins kom fram að varnaraðili er öryrki og á litlar sem engar eignir. Af hálfu sóknaraðila hefur verið vísað til þess að grunur leiki á að óráðvandir aðilar hafi notfært sér það. Um þetta liggur ekkert fyrir. Líklegt má telja að varnaraðili búi við verulega skerta getu til að ráða fé sínu, en á hinn bóginn þykir ekkert hafa komið fram í málinu um að á þessu stigi standi brýn þörf til þess að varnaraðili verði sviptur fjárræði sínu, enda eignalaus öryrki eins og áður segir. Verður kröfu um fjárræðissviptingu hafnað.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og skipaðs talsmanns sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði ásamt aksturskostnaði verjandans, svo sem í úrskurðarorði greinir. Við ákvörðun þóknana hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í 30 mánuði.
Kröfu sóknaraðila, Sveitarfélagsins Árborgar, um að varnaraðili verði sviptur fjárræði, er hafnað.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., kr. 846.300, sem og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Páls Hilmarssonar hdl., kr. 423.708, auk aksturskostnaðar verjandans, kr. 8.142.