Hæstiréttur íslands

Mál nr. 408/2016

Kristrún Ólöf Jónsdóttir Þorsteinn Hjaltested Vilborg Björk Hjaltested Marteinn Þ. Hjaltested Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)
gegn
Markúsi Ívari Hjaltested Sigríði Hjaltested (Valgeir Kristinsson hrl.), Karli Lárusi Hjaltested Sigurði Kristjáni Sigurðssyni Hjaltested (Sigmundur Hannesson hrl.) og Hansínu Sesselju Gísladóttur dánarbúi Finnborgar Bettýjar Gísladóttur Guðmundi Gíslasyni Margréti Margrétardóttur Gísla Finnssyni og Elísu Finnsdóttur (Óskar Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Erfð

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr nánar greindum ágreiningi málsaðila sem reis við opinber skipti á dánarbúi S. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki hafi verið kveðið á um það í erfðaskrá M að eignaréttur að fasteigninni Vatnsenda skyldi vera séreign S þótt sá réttur hafi verið bundinn margvíslegum kvöðum. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var staðfest sú niðurstaða hans að beinn eignarréttur að fasteigninni hefði verið hjúskapareign S og við fráfall hans hefði M, eftirlifandi eiginkona hans, eignast helming af eigninni að viðbættum 1/3 hluta af hinum helmingnum á grundvelli 1. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að þegar skiptum á dánarbúi M var lokið hefði þessum eignarhluta ekki verið skipt milli erfingja hennar og því einungis unnt í þessu máli að kveða á um það að hann skyldi koma í hlut dánarbúsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2016 þar sem leyst var úr nánar greindum ágreiningi málsaðila sem reis við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að beinum eignarétti að jörðinni Vatnsenda í Kópavogsbæ verði skipt milli lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested með þeim hætti að 1/3 hluti „renni til afkomenda Margrétar Hjaltested, ekkju Sigurðar“ og 2/3 hlutar „til barna Sigurðar ... að jöfnu.“ Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Markús og Sigríður kærðu úrskurðinn fyrir sitt leyti 26. maí 2016 og krefjast þess að þeim verði hvoru um sig „úrskurðaður 10% arfur í stað 6,67%.“ Varnaraðilarnir Karl og Sigurður kærðu úrskurðinn fyrir sitt leyti með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 26. maí 2016. Þeir krefjast þess „að dánar- og félagsbúi foreldra þeirra ... verði skipt milli lögerfingja þeirra“ þannig að í hlut hvors þeirra komi 17,1428%. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested 13. nóvember 1966 og er skiptum á dánarbúi hans ólokið. Síðari eiginkona Sigurðar, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, andaðist 31. mars 2004 og mun skiptum á dánarbúi hennar hafa lokið 6. apríl sama ár sem eignalausu.

Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 23. gr. laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna, sem í gildi voru meðan á hjúskap þeirra Sigurðar og Margrétar stóð, var arfur séreign annars hvors hjóna að því tilskildu að arfleifandi hefði sett slíkt ákvæði í erfðaskrá. Ekki var kveðið á um það í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 að eignarréttur að fasteigninni Vatnsenda skyldi vera séreign Sigurðar þótt sá réttur væri bundinn margvíslegum kvöðum. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða hans að beinn eignarréttur að fasteigninni hafi verið hjúskapareign Sigurðar og við fráfall hans hafi Margrét, eftirlifandi eiginkona hans, eignast helming af eigninni að viðbættum 1/3 hluta af hinum helmingnum á grundvelli 1. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þar sem hún hafði ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn féll þessi eignarhluti, alls 2/3 hlutar af beinum eignarrétti að fasteigninni, til dánarbús hennar þegar hún lést.

Þegar skiptum á dánarbúi Margrétar lauk var þessum eignarhluta ekki skipt milli erfingja hennar. Af þeim sökum er einungis unnt í þessu máli að kveða á um það að hann skuli koma í hlut dánarbúsins, en óhjákvæmilegt er að endurupptaka skipti á búinu samkvæmt 26. gr. laga nr. 20/1991 í því skyni að úthluta honum til erfingja hinnar látnu.

Við skipti á dánarbúi Sigurðar skal fara eftir reglum I. kafla erfðalaga, að teknu tilliti til þess sem að framan segir eins og nánar greinir í dómsorði. Fyrir liggur að sóknaraðilinn Kristrún fékk 19. janúar 2000 leyfi til setu í óskiptu búi eftir lát eiginmanns síns, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að hún sitji enn í hinu óskipta búi og hafi því eignarráð á fjármunum þess samkvæmt 12. gr. erfðalaga. Í samræmi við það verður henni einni dæmdur sá hluti úr dánarbúinu sem kom í hlut Magnúsar við andlát föður hans.

Eftir öllum atvikum verður málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður felldur niður.

Dómsorð:

Við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested skal eignum skipt þannig að í hlut dánarbús Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested komi 2/3 hlutar og í hlut sóknaraðilans Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur og varnaraðilanna Markúsar Ívars Hjaltested, Sigríðar Hjaltested, Karls Lárusar Hjaltested og Sigurðar Kristjáns Sigurðssonar Hjaltested komi 1/15 hluti til hvers þeirra um sig.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2016.

I.

Með bréfi skiptastjóra, dagsettu 13. júlí 2015, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness sama dag, var ágreiningi aðila við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, fædds 11. júní 1916, sem síðast var til heimilis að Vatnsenda í Kópavogi og andaðist hinn 13. nóvember 1966, skotið til héraðsdóms til úrlausnar með vísan til 3. mgr. 53. gr., sbr. 1. mgr. 122. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Málið var þingfest 18. september 2015 og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 5. apríl 2016.

Sóknaraðilar eru Kristrún Ólöf Jónsdóttir, kt. 270643-4779, Vatnsenda, Kópavogi, Þorsteinn Hjaltested, kt. 220760-5619, Vatnsenda, Kópavogi, Vilborg Björk Hjaltested, 280862-3399, Logasölum 7, Kópavogi, Marteinn Þ. Hjaltested, kt. 050664-5709, Hestheimum, Rangárþingi ytra, og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested, kt. 140472-5149, Logasölum 9, Kópavogi.

Varnaraðilar eru Markús Ívar Hjaltested, kt. 020744-3169, Norðurbraut 25, Hafnarfirði, Sigríður Hjaltested, kt. 040451-4639, Danmörku, Sigurður Kristján Hjaltested, kt. 050262-4139, búsettur erlendis, Karl Lárus Hjaltested, kt. 300663-4869, Ósabakka 9, Reykjavík, Hansína Sesselja Gísladóttir, kt. 110343-2139, Tryggvagötu 6, Reykjavík, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, kt. 040345-3539, Austurbrún 6, Reykjavík, Guðmundur Gíslason, kt. 261047-3659, Heiðargerði 5, Vogum, Margrét Margrétardóttir, kt. 011155-2439, Rauðagerði 16, Reykjavík, Gísli Finnsson, kt. 221187-2559, Álfkonuhvarfi 31, Kópavogi og Elísa Finnsdóttir, kt. 170980-2019, Naustabryggju 11, Reykjavík.

Sóknaraðilar krefjast þess að kvaðabundnum beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda í Kópavogsbæ verði skipt milli lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested með svofelldum hætti: 1/3 hluti kvaðabundins beins eignarréttar renni til afkomenda Margrétar Hjaltested, ekkju Sigurðar, og 2/3 hlutar kvaðabundins beins eignarréttar renni til barna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að jöfnu. Einnig að við skipti á kvaðabundnum beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda taki sóknaraðilar hann að arfi í svofelldum hlutföllum: Kristrún Ólöf Jónsdóttir erfi 2/45 hluta og Þorsteinn Hjaltested, Vilborg B. Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested erfi hvert um sig 1/45 hluta.

Þá er gerð krafa um að varnaraðilum verði gert in solidum að greiða sóknaraðilum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Endanlegar dómkröfur varnaraðilanna Markúsar Ívars og Sigríðar eru þær aðallega að arfi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested verði skipt milli lögerfingja hjónanna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur með þeim hætti að helmingur eigna renni til afkomenda Sigurðar Kristjáns Hjaltested og helmingur til afkomenda Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested þannig að hlutur varnaraðila Markúsar Ívars verði 10% og hlutur Sigríðar 10%.

Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts að mati dómsins úr hendi þeirra erfingja sem gera andstæðar dómkröfur í málinu. Málskostnaðarkrafan beinist þannig að sóknaraðilum og afkomendum Margrétar Guðmundsdóttur, öðrum en bræðrunum Karli og Sigurði.

Varnaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus krefjast þess að dánar- og félagsbúi foreldra þeirra, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, verði skipt milli lögerfingja þeirra í eftirgreindum arfshlutföllum (prósentuhlutföllum):

                Aðallega:                                                                       Til vara:

                Magnús Hjaltested (db.)               10,0000               Magnús Hjaltested (db.)              6,6668

                Markús Ívar Hjaltested                10,0000               Markús Ívar Hjaltested               6,6668

                Sigríður Hjaltested                         10,0000               Sigríður Hjaltested                        6,6668

                Sigurður Kr. Hjaltested                 17,1428               Sigurður Kr. Hjaltested              16,1898

                Karl Lárus Hjaltested                    17,1428               Karl Lárus Hjaltested                16,1898

                Hansína S. Gísladóttir                     7,1428               Hansína S. Gísladóttir                 9,5230

                Finnborg B. Gíslad. (db.)                 7,1428               Finnborg B. Gíslad. (db.)             9,5230

                Guðmundur Gíslason                      7,1428               Guðmundur Gíslason                   9,5230

                Margrét Margrétardóttir                  7,1428               Margrét Margrétardóttir              9,5230

                Gísli Finnsson                                    3,5714               Gísli Finnsson                                4,7615

                Elísa Finnsdóttir                               3,5714               Elísa Finnsdóttir                            4,7615

                                                                        100,0000                                                                    100,0000

 

Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

Varnaraðilar Hansína Sesselja Gísladóttir, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir, Gísli Finnsson og Elísa Finnsdóttir krefjast þess að við skipti á dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested skuli arfur milli erfingja skiptast í eftirgreindum hlutföllum:

Varnaraðilar Sigurður Kristján Sigurðsson Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested taki hvor um sig 16,19% arfs.

Varnaraðilar Hansína Sesselja, dánarbú Finnborgar Bettýjar, Guðmundur og Margrét Margrétardóttir taki hvert um sig 9,52% arfs.

Varnaraðilar Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested taki hvort um sig 6,67% arfs.

Varnaraðilar Gísli og Elísa Finnsbörn taki hvort um sig 4,76% arfs.

Sóknaraðili Kristrún Ólöf Jónsdóttir taki 2,22% arfs.

Sóknaraðilar Þorsteinn Magnússon Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður K. Hjaltested taki hvert um sig 1,11% arfs.

Þá er þess krafist að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðilum málskostnað in solidum að skaðlausu að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

II.

Með bréfi Jóns Auðuns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, dags. 13. júlí 2015, skiptastjóra í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem andaðist 13. nóvember 1966 og var síðast til heimilis að Vatnsenda við Elliðavatn, var ágreiningi erfingja um arfskipti vísað til Héraðsdóms Reykjaness til úrlausnar.

Í bréfi skiptastjóra segir m.a. að eftir að ljóst hafi orðið að hinum beina eignarrétti yfir jörðinni skyldi ráðstafað á grundvelli lögerfðalaga en ekki erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi skiptastjóri á ný óskað eftir því að einstakir erfingjar Sigurðar Kristjáns Hjaltested lýstu arfstilkalli sínu og rökstyddu það.

Kröfulýsingar hafi legið fyrir á skiptafundi í búinu 30. júní 2015. Ljóst sé að þær samræmist ekki og að mikið beri á milli. Ágreiningur aðila snúi annars vegar að því hvort ekkja Sigurðar, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, hafi við andlát hans átt að taka búshluta af hinum beina eignarrétti eða ekki. Hins vegar snúi ágreiningurinn að því hvort beita eigi ákvæðum 1. málsliðar 19. gr. erfðalaga við skiptin, en fyrir liggi að Margrét sótti ekki um leyfi til setu í óskiptu búi eftir lát manns síns. Ljóst sé að niðurstaðan varðandi bæði þessi atriði ráði miklu um hvernig þeim hagsmunum sem um sé höndlað í búinu verði ráðstafað. Skiptastjóri hafi reynt að jafna ágreining aðila en án árangurs.

Með vísan til 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 3. mgr. 53. gr. sömu laga, krafðist skiptastjóri þess að Héraðsdómur Reykjaness tæki til meðferðar og leysti úr framangreindum ágreiningi erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Fram kemur í lok bréfsins að skiptastjóri teldi óþarft að hann ætti beina aðild að meðferð málsins, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991.

Málavextir eru þeir að með erfðaskrá, dagsettri 4. janúar 1938, mælti Magnús Einarsson Hjaltested svo fyrir að allar eignir hans, fastar og lausar, skyldu að honum látnum ganga að erfðum til bróðursonar hans, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sbr. 1. gr. erfðaskrárinnar. Samkvæmt ákvæðum erfðaskrárinnar var eignarréttur Sigurðar að jörðinni Vatnsenda háður margvíslegum kvöðum.

Samkvæmt a-lið 1. gr. erfðaskrárinnar mátti Sigurður Kristján Hjaltested ekki selja jörðina Vatnsenda, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem næmi 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þyrfti, eða nauðsynlegra varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri. Samkvæmt b-lið 1. gr. var og gert að skilyrði að Sigurður skyldi búa á eigninni sjálfur.

Samkvæmt 3. gr. erfðaskrárinnar skyldi jarðeignin að Sigurði Kristjáni látnum ganga að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg. Væri sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.frv., koll af kolli, þannig að ávallt fengi aðeins einn maður allan arfinn.

Í 4. gr. erfðaskrárinnar var kveðið á um að ef einhver erfingjanna hætti búskap á Vatnsenda missti hann rétt sinn samkvæmt erfðaskránni og sá næsti tæki við. Í 6. gr. sagði að sérhver erfingi sem fengi erfðarétt samkvæmt arfleiðslugjörningnum væri skyldugur til að halda öll þau skilyrði sem Sigurði Kristjáni Hjaltested væru sett með honum og gæta þeirra takmarkana sem samningurinn hefði inni að halda.

Magnús lést 31. október 1940 og tók Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested, sem var fæddur 11. júní 1916, arf í samræmi við erfðaskrána, en sá síðarnefndi var bróðursonur þess fyrrnefnda. Erfðaskránni virðist hafa verið þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar að jörðinni Vatnsenda, sbr. dóm Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014.

Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona hans var Sigurlaug Árnadóttir, en börn þeirra eru Magnús Hjaltested, fæddur 1941, Markús Ívar Hjaltested, fæddur 1944 og Sigríður Hjaltested, fædd 1951. Sigurður Kristján og Sigurlaug skildu á árinu 1956. Við skilnaðinn skiptust eignir svo á milli þeirra að í hlut Sigurlaugar kom lausafé og innbú, en aðrar eignir, sem og skuldir, komu í hlut Sigurðar Kristjáns.

Sigurður Kristján kvæntist að nýju og var seinni kona hans Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested. Þeirra börn eru Sigurður Kristján Hjaltested, fæddur 1962, og Karl Lárus Hjaltested, fæddur 1963. Fyrir átti Margrét börnin Hansínu Sesselju Gísladóttur, fædda 1943, Finnborgu Bettý Gísladóttur, fædda 1945, Guðmund Gíslason, fæddan 1947, Finn Gíslason, fæddan 1949, og Margréti Margrétardóttur, fædda 1955.

Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested lést 13. nóvember 1966 og var dánar- og félagsbú hans og eftirlifandi eiginkonu hans Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested tekið til opinberra skipta 25. febrúar 1967. Við skiptin reis ágreiningur um ráðstöfun jarðarinnar Vatnsenda og var rekið mál fyrir dómi til að leysa úr honum. Þar krafðist Magnús Sigurðsson Hjaltested þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði talin „gild í öllum greinum“ og að hún veitti honum „óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi með öllum gögnum og gæðum, þar á meðal rétt til leiguafgjalda af sumarbústaðarlöndum jarðarinnar.“ Þessu andmælti Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested fyrir sína hönd og ófjárráða barna sinna og Sigurðar, þ.e. varnaraðilanna Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar, og krafðist þess að jörðinni yrði ráðstafað „eftir almennum skiptareglum erfðalaga“.

Með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 var úrskurður skiptadóms Kópavogs frá 24. júlí 1967 staðfestur, en í forsendum úrskurðarins kom fram að niðurstaða málsins væri sú að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested væri einum erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda. Í úrskurðarorði sagði að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested væri eftir látinn föður sinn áskilinn réttur til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir væru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938.

Fyrir skiptadómi Kópavogs var því meðal annars haldið fram af hálfu Margrétar, ekkju Sigurðar, vegna sjálfrar sín og ófjárráða barna sinna, að tilgangur Magnúsar Einarssonar Hjaltested með erfðaskránni hefði verið að gera jörðina Vatnsenda að ættaróðali í merkingu óðalslaga og að ekkja óðalsseta nyti því ábúðar á óðalinu að maka sínum látnum.

Um þetta sagði í úrskurði skiptadóms Kópavogs 24. júlí 1967 að heimildarlaust væri að draga þá ályktun að hér hefði verið um stofnun óðalsbýlis að ræða, enda vantaði mikið á að reglum um þau væri fylgt í erfðaskránni. Því yrði ekki ályktað gegn skýrum orðum erfðaskrárinnar að eftirlifandi maka landseta samkvæmt erfðaskránni væri áskilin búseta á jörðinni eftir lát hans.

Með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 var staðfest sú ákvörðun skiptaráðanda á skiptafundi 7. maí 1968 að afhenda umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda til elsta sonar Sigurðar Kristjáns, Magnúsar Hjaltested, og með því sem henni fylgdi og fylgja bæri samkvæmt þeim réttindum sem honum sem erfingja væru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938.

Þá var með dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp sama dag eða 30. maí 1969, í máli nr. 117/1968 staðfestur úrskurður fógetadóms Kópavogs 25. júní 1968 með vísan til forsendna hans og forsendna dóms Hæstaréttar í málinu nr. 99/1968, um að Margrét Hjaltested, ekkja Sigurðar Kristjáns Hjaltested, skyldi borin út af jörðinni Vatnsenda ásamt öllu sem henni tilheyrði, svo og hver sá sem leiddi þar dvöl sína frá rétti hennar. Með dómum þessum féllst Hæstiréttur því ekki á kröfur Margrétar, fyrir sína hönd og ófjárráða barna sinna, um að henni bæri réttur samkvæmt ábúðarlögum til að sitja jörðina Vatnsenda eftir lát eiginmanns síns.

Fram kemur í fyrri dómsúrlausnum Hæstaréttar varðandi jörðina Vatnsenda að dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968 hafi verið þinglýst 25. febrúar 1971 á jörðina Vatnsenda sem eignarheimild Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Jafnframt kemur þar fram að skipti dánar- og félagsbúsins hafi verið tekin fyrir í 35 þinghöldum í skiptarétti Kópavogs á tímabilinu frá 25. febrúar 1967 til 26. maí 1970, en þar á eftir í einu þinghaldi 15. maí 1972. Af gögnum þessum verði ráðið að eignir dánarbúsins, að frátöldum réttindum yfir Vatnsenda, hafi að meginstefnu til verið bifreið með skrásetningarnúmerinu Y 8, bústofn, innanstokksmunir, greiðsla að fjárhæð 2.000 krónur frá Sparisjóði Kópavogs og réttindi samkvæmt leigusamningum um sumarbústaðalóðir í landi jarðarinnar. Um ráðstöfun þessara eigna kemur fram í gögnunum að Margrét hafi boðist til að kaupa búfénað og lausafjármuni búsins fyrir matsverð, sem hafi verið samþykkt, en andvirði þeirra verðmæta hafi ekki verið innheimt nema að litlu leyti. Þá hafi Magnús fengið afhenta 50 leigusamninga um sumarhúsalóðir og eftir það hafi skiptaráðandi talið tekjur af leigunni dánarbúinu óviðkomandi. Þá hafi sonur Margrétar, varnaraðilinn Guðmundur Gíslason, boðist til að leysa til sín bifreiðina Y 8 gegn greiðslu matsverðs, en ekkert liggi þó fyrir um afdrif bifreiðarinnar. Þá liggi ekkert fyrir um greiðslu á lýstum kröfum í búið. Loks séu ekki til nein gögn um að skiptunum hafi verið lokið.

Magnús Sigurðsson Hjaltested lést 21. desember 1999. Eftirlifandi maki hans er sóknaraðili Kristrún Ólöf Jónsdóttir og eru börn þeirra aðrir sóknaraðilar málsins, þau Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested.

Fram kemur dómum Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 og 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 að sóknaraðilinn Kristrún hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi 19. janúar 2000. Sóknaraðilar hafi síðan gert skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000 þess efnis að jörðin Vatnsendi í Kópavogi skyldi færð af nafni Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltested á grundvelli áðurnefndrar erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938, að undanskilinni spildu sem Kópavogsbær hafði tekið eignarnámi og hafði ekki hefði verið þinglýst á jörðina. Erfingjar lýstu því jafnframt yfir að enginn ágreiningur væri meðal þeirra um að jörðin samkvæmt ofanskráðu félli óskipt til Þorsteins Hjaltested, og hefði engin áhrif á arfstilkall hans úr hinu óskipta búi. Jafnframt var þess óskað að þinglýstu leyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dags. 19. janúar 2000, til setu í óskiptu búi á jörðina Vatnsenda, yrði aflýst og skyldi búsetuleyfið leiðrétt til samræmis við kvaðir áðurgreindrar erfðaskrár. Þessari yfirlýsingu hafi verið þinglýst 12. desember 2000 og hafi varnaraðilinn Þorsteinn verið sagður „þinglýstur eigandi“ jarðarinnar Vatnsenda í þinglýsingarvottorði frá 11. janúar 2012.

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, ekkja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, lést 31. mars 2004 og lauk skiptum á búi hennar 6. apríl sama ár.

Tvö barna Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested eru látin. Sonur hennar, Finnur Gíslason, lést 27. janúar 2005 og eru börn hans varnaraðilarnir Gísli Finnsson og Elísa Finnsdóttir. Þá lést dóttir Margrétar, Finnborg Bettý Gísladóttir, 13. nóvember 2015 og tók dánarbú hennar þá við aðild að málinu, en skiptum á dánarbúi hennar mun ekki vera lokið.

Varnaraðilarnir Sigurður Kristján og Karl Lárus höfðuðu 10. mars 2007 mál á hendur varnaraðilanum Þorsteini og kröfðust þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 yrði „felld úr gildi þannig að eignum sem erfðaskráin kveður á um verði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga“. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 5. október 2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 6. nóvember sama ár í máli nr. 560/2007.

Varnaraðilarnir Sigurður Kristján, Karl Lárus og Sigríður kröfðust þess 23. desember 2008 að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta. Með úrskurði héraðsdóms 29. september 2009 var þeirri kröfu hafnað og var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar 13. nóvember sama ár í máli nr. 599/2009. Í dóminum var vísað til þess að sóknaraðilarnir reistu kröfu sína á því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem hófust 25. febrúar 1967, hafi aldrei verið lokið. Væri sú ályktun rétt stæðu opinberu skiptin enn yfir, sbr. 148. gr. laga nr. 20/1991. Við svo búið væri útilokað að taka dánarbúið með dómsúrlausn aftur til opinberra skipta.

Með beiðni til héraðsdóms 3. febrúar 2011 leituðu sóknaraðilarnir Sigurður Kristján, Karl Lárus, Sigríður og Markús Ívar eftir því að skipaður yrði skiptastjóri til að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Var krafan tekin til greina með dómi Hæstaréttar 24. ágúst sama ár í máli nr. 375/2011.

Í kjölfarið var Jón Auðunn Jónsson hrl. skipaður sem skiptastjóri til að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested, sbr. bókun í þingbók Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2011.

Við skiptameðferðina kom upp ágreiningur meðal lögerfingja um hvort jörðin Vatnsendi í Kópavogi væri meðal eigna búsins. Með dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 var fallist á kröfur allra varnaraðila um að svo væri eða eins og segir í dómsorði: „Við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested telst beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi enn vera á hendi dánarbúsins.“

Skiptastjóri leitaði 6. sama mánaðar eftir því að dóminum yrði þinglýst á jörðina Vatnsenda, sem sýslumaðurinn í Kópavogi varð við, en þó þannig að ekki var hróflað við þeirri skráningu í fasteignabók að varnaraðilinn Þorsteinn væri þinglýstur eigandi jarðarinnar. Ágreiningur um þetta var borinn undir dóm, en honum lauk með dómi Hæstaréttar 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013, þar sem lagt var fyrir sýslumann að færa í fasteignabók nafn dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem eiganda jarðarinnar.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 var frumvarp skiptastjóra til úthlutunar fellt úr gildi, en í frumvarpinu var lagt til grundvallar að ráðstafa skyldi beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda í samræmi við fyrirmæli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, þ.e. til elsta sonar Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, Þorsteins Hjaltested. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að ráðstafa skyldi beinum eignarréttindum að jörðinni Vatnsenda til lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga.

III.

Sóknaraðilar benda á að í II. kafla erfðalaga nr. 8/1962 sé fjallað um óskipt bú, en til óskipts bús teljist einungis hjúskapareignir beggja hjóna, svo og séreignir sem samkvæmt ákvæðum laga eða kaupmála eigi að hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu, sbr. 11. gr. laganna.

Eftir andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi ekkja hans, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, ekki sótt um leyfi til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum og sameiginlegum niðjum sínum og hins látna. Dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta að kröfu Margrétar 25. febrúar 1967. Skiptaráðandi yfir dánarbúinu hafi farið með forræði eigna búsins upp frá því.

Í 2. mgr. 19. gr. erfðalaga sé fjallað um hvernig skipta beri dánarbúi þegar skipti fari fram eftir lát beggja hjóna, en þegar svo standi á falli niður lögmæltur erfðaréttur hins langlífara eftir hið skammlífara.

Í dómi Hæstaréttar 15. nóvember 2006 í máli nr. 547/2006 hafi með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verið staðfest sú niðurstaða hans að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga ætti ekki við um skipti í því dánarbúi sem ágreiningur hafi staðið um. Í forsendum úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. september 2006 komi eftirfarandi fram:

„Það ákvæði 19. gr. erfðalaga sem um er deilt í máli þessu er í II. kafla erfðalaga sem er um óskipt bú. Þykir því verða við það að miða að búsetuleyfi sé almennt forsenda fyrir því að 19. gr. eigi við.  Fyrir liggur að A hafði ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi þegar hann lést skömmu eftir andlát B. Samkvæmt því er það niðurstaða dómsins að ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga eigi ekki við um skipti á dánarbúi B og A.“

Í dómi Hæstaréttar 5. nóvember1992 í máli nr. 361/1992 hafi hins vegar þótt rétt að beita 2. mgr. 19. gr. erfðalaga við skipti á dánarbúi. Í málinu hafi atvikum verið háttað á þann veg að langlífari maki hafði ekki sótt um leyfi til setu í óskiptu búi eftir þann skammlífari. Þá höfðu ekki heldur farið fram skipti á dánarbúi þess skammlífari. Hafði langlífari makinn því farið með öll umráð eigna búsins í tæp 10 ár með sama hætti og hefði hann fengið leyfi til setu í óskiptu búi.

Á þeim tíma sem liðið hafi frá andláti Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested á árinu 1966 þar til langlífari maki hans Margrét G. Hjaltested lést á árinu 2004 hafi hún ekki farið með nein umráð yfir jörðinni Vatnsenda. Umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda hafi verið afhent Magnúsi Hjaltested, elsta syni Sigurðar, með bókun á skiptafundi 7. maí 1968. Auk þess hafi ekki verið skilyrði fyrir því að jörðin Vatnsendi gæti verið eign í fjárfélagi Margrétar og Sigurðar vegna fyrirmæla í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938.

Margrét, ekkja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, hafi aldrei haft á sinni hendi kvaðabundinn beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda. Eina eignarheimildin að jörðinni sem Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested hafi framvísað hafi verið erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, en Sigurður hafi þinglýst henni sem eignarheimild.

Eignarréttur Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að jörðinni Vatnsenda, sem hann hafi fengið að arfi samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938, hafi verið háður margvíslegum kvöðum sem í meginatriðum hafi verið fólgnar í banni við ráðstöfun jarðarinnar með löggerningi í lifanda lífi erfingjans og takmörkun á heimild hans til að veðsetja hana, svo og skyldu hans til að hafa búsetu á jörðinni og reka þar búskap. Auk þessa hafi sú kvöð falist í ákvæðum erfðaskrárinnar að erfinginn mætti ekki ráðstafa jörðinni að sér látnum með erfðagerningi.

Sóknaraðilar telja að kvaðabundinn beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda feli hvorki í sér umráðarétt, afnotarétt né rétt til arðs af jörðinni Vatnsenda. Í forsendum dóms Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 komi eftirfarandi fram:

„Af þeim ákvæðum erfðaskrárinnar sem hér um ræðir, verður skýrlega ráðið að vilji Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi staðið til þess að jörðin Vatnsendi yrði til afnota um ókominn tíma einum manni í senn af ætt sinni fyrir búskap, sá maður hefði að öðru leyti arð af henni innan þeirra marka sem kvaðir samkvæmt erfðaskránni gæfu svigrúm til og þessi réttindi yfir jörðinni færðust síðan mann fram af manni eftir þeim reglum sem erfðaskráin setti. Af þessum arfleiðsluvilja leiddi ekki óhjákvæmilega að beinn eignarréttur að jörðinni þyrfti að fara á hverjum tíma saman við handhöfn þessara réttinda.“

Af öllu framangreindu megi ráða að réttur Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, ekkju Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, til beinna eignarréttinda Sigurðar að fasteigninni Vatnsenda hafi verið svo veikur að hún hefði ekki getað öðlast hjúskaparrétt í eignarréttindunum meðan Sigurður lifði.

Með úrskurði skiptadóms Kópavogs 24. júlí 1967, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968, hafi því verið hafnað að með erfðaskránni hafi verið stofnað til óðalsbýlis á jörðinni Vatnsenda. Þá hafi með dómum Hæstaréttar 30. maí 1969 í málum nr. 99/1968 og 117/1968 því verið slegið föstu að ekkjan Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested gæti ekki reist rétt sinn á ábúðarlögum.

Í forsendum dóms Hæstaréttar 3. maí 2012 í máli nr. 701/2012 komi fram að ekki sé deilt um að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda hafi færst fyrir arf í hendur Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, „þótt sá réttur hafi eftir áðurgreindum ákvæðum erfðaskrárinnar verið háður margvíslegum kvöðum.“

Vegna hinna margvísulegu kvaða sem lagðar hafi verið á arf Sigurðar samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, sbr. framangreint, verði að telja að um eignarréttindi sé að ræða sem maki geti ekki öðlast hjúskaparrétt yfir. Samkvæmt ákvæðum og fyrirmælum erfðaskrárinnar hafi Sigurði í lifanda lífi verið bannað að ráðstafa á nokkurn hátt beinum eignarétti sínum með löggerningi.

Í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1923 hafi komið fram að ef annað hjóna ætti réttindi sem eigi mætti afhenda kæmu reglurnar um hjúskapareign að svo miklu leyti til framkvæmda, sem þær færu eigi í bága við sérreglur þær sem um þau réttindi giltu.

Af þessu lagaákvæði leiði að kvaðabundinn beinn eignarréttur Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að jörðinni Vatnsenda meðan hann lifði hafi ekki talist til hjúskapareignar hans, heldur sé um sérstök kvaðabundin eignarréttindi að ræða sem um gildi sérreglur samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested.

Eins og áður greini hafi forræði Sigurðar yfir hinum beinu kvaðabundnu eignarréttindum verið mjög takmarkað. Samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar hafi verið lagt bann við því að Sigurður ráðstafaði hinum kvaðabundna beina eignarrétti með löggerningum í lifanda lífi og takmarkanir hafi verið á heimild hans til veðsetningar. Með öðrum orðum hafi Sigurði verið óheimilt að ráðstafa kvaðabundnum beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda til þriðja manns, hvort heldur með afsali, kaupmála eða annars konar löggerningum. Þá hafi beinn eignarréttur og önnur réttindi sem hann hafi haldið á í lifanda lífi ekki getað orðið andlag fyrir skuldheimtumenn hans að ganga að. Um hafi verið að ræða persónubundin réttindi sem lotið hafi sérreglum samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár. Af þessum sökum hafi ekki í lifanda lífi Sigurðar getað myndast hjúskaparréttur í þessum réttindum, enda hafi honum verið óheimilt að láta réttindin af hendi. Hafi ekkja Sigurðar, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, því ekki átt rétt á búshluta í beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda.

Viðurkennt hafi verið af Margréti, ekkju Sigurðar, að fyrirmæli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested giltu um jörðina Vatnsenda í lifanda lífi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þetta komi fram í greinargerð sem lögð hafi verið fram af hennar hálfu í skiptarétti Kópavogs 29. maí 1967, en þar segi m.a.: 

„Því er ekki mótmælt, að erfðaskráin, sem fyrir liggur í málinu hafi haft að gegna síðasta vilja Magnúsar Einarssonar Hjaltested og að formlega séð hafi hún haft gildi, enda leiddi Sigurður heitinn erfðarétt sinn til þeirrar heimildar.“

Sóknaraðilar telja að ráðstafa skuli beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda til lögerfingja samkvæmt 2. gr. erfðalaga þannig að Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, ekkja Sigurðar, erfi 1/3 hluta beins eignarréttar, en 2/3 hlutar beins eignarréttar erfi börn Sigurðar að jöfnu.

Samkvæmt því skiptist arfur að kvaðabundnum beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda með svofelldum hætti:

Í hlut afkomenda

Í hlut afkomenda

Sigurðar 2/3 hlutar

 Margrétar 1/3 hluti

 

Sigurður Kristján S. Hjaltested

  1/21

 

 

 

4,76%

Karl Lárus Hjaltested

 

  1/21

 

 

 

4,76%

Hansína S. Gísladóttir

 

  1/21

 

 

 

4,76%

Finnborg B. Gísladóttir

 

  1/21

 

 

 

4,76%

Guðmundur Gíslason

 

  1/21

 

 

 

4,76%

Margrét Margrétardóttir

 

  1/21

 

 

 

4,76%

Börn Finns Gíslasonar:

 

 

 

 

 

 

Gísli Finnssn

 

  1/42

 

 

 

2,38%

Elísa Finnsdóttir

 

  1/42

 

 

 

2,38%

 

 

 

Sigurður Kristján S. Hjaltested

 

 

  2/15

 

13,33%

Karl Lárus Hjaltested

 

 

 

  2/15

 

13,33%

Markús Ívar Hjaltested

 

 

 

  2/15

 

13,33%

Sigríður Hjaltested

 

 

 

  2/15

 

13,33%

Maki og börn Magnúsar Hjaltested:

 

 

 

 

 

Kristrún Ólöf Jónsdóttir

 

 

 

  2/45

 

4,44%

Þorsteinn Hjaltested

 

 

 

  1/45

 

2,22%

Vilborg Hjaltested

 

 

 

  1/45

 

2,22%

Marteinn Þ Hjaltested

 

 

 

  1/45

 

2,22%

Sigurður Kristján M. Hjaltested

 

 

  1/45

 

2,22%

100,00%

Til viðbótar því sem að framan greini sé á því byggt að við andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi engin fjárhagsleg réttindi fylgt beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda. Eigandi kvaðabundins beins eignarréttar að Vatnsenda geti hvorki nýtt jörðina Vatnsenda né haft af henni arf. Í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested komi fram með skýrum hætti vilji hans til þess að jörðin Vatnsendi verði til afnota um ókominn tíma einum manni í senn af ætt hans og sá maður hafi af jörðinni allan arð sem ákvæði erfðaskrárinnar mæli fyrir um.

Fræðimenn hafi skilgreint beinan eignarrétt svo að hann sé einkaréttur ákveðins aðila, eigandans, til að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut innan þeirra marka sem þessum rétti séu sett í lögum og af óbeinum réttindum annarra aðila sem stofnað hafi verið til yfir hlutnum. Vegna kvaðabindingar samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar haldi rétthafi samkvæmt henni á hverjum tíma á öllum veigamestu eignarheimildum yfir jörðinni Vatnsenda.

Sem fyrr greini hafi því verið slegið föstu með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1969 í máli nr. 110/1967 að Magnús Einarsson Hjaltested hafi getað svo bindandi sé tekið ákvörðun um hvert réttindi yfir jörðinni ættu að renna að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested látnum.

Þessi réttindi séu nú á hendi Þorsteins Magnússonar Hjaltested og sé eignarhaldi hans á þessum fjárhagslegu réttindum til jarðarinnar Vatnsenda þinglýst sem eign hans, sbr. dóm Hæstaréttar 12. mars 2015 í máli nr. 167/2015.

Loks vísa sóknaraðilar til greinargerðar sinnar um skiptingu arfs sem sé á meðal gagna málsins.

Auk áðurgreindra lagaákvæða vísa sóknaraðilar til laga nr. 91/1991 og er um málskostnaðarkröfu vísað til 130. gr. þeirra laga.

IV.

Varnaraðilarnir Markús Ívar og Sigríður benda á að eftir andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi málaferlum og ágreiningi á milli ekkju hans, Margrétar, og elsta sonar, Magnúsar, um afnot og umráð jarðarinnar að Vatnsenda, lyktað með því að Magnús hafi með dómi Hæstaréttar fengið umráð og afnot jarðarinnar, en Margrét hafi fengið í sinn hlut innbú og lausafé. Hún hafi síðan verið borin út af jörðinni með útburðargerð, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 117/1968. Af þeim dómum sem fallið hafi á þessum tíma verði ályktað að kröfu Margrétar um setu í óskiptu búi eftir Sigurð hafi verið hafnað, en ekki hafi verið gefið út búsetuleyfi henni til handa.

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested hafi látist 31. mars 2004 og hafi skiptum á dánarbúi hennar lokið skömmu eftir útför. Við skipti á dánarbúi hennar hafi ekki verið getið um kröfu dánarbús hennar í bú skammlífari maka. Frá því að Margrét heitin lést séu liðin 11 ár og tæp 40 ár hafi liðið frá andláti Sigurðar til andláts Margrétar. Ekki sé vitað til þess að hún hafi nokkru sinni gert tilkall til þriðjungs arfs af eignum eiginmanns síns.

Í forsendum dóms Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 komi fram að þar sem ekki sé mælt fyrir um afdrif beinna eignarréttinda yfir jörðinni Vatnsenda í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested verði að ráðstafa þeim til lögerfingja eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga.

Jörðin hafi verið hjúskapareign Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem skipta beri samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparréttarins. Í II. kafla erfðalaga nr. 8/1962 sé fjallað um óskipt bú og í 1. málslið 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé mælt fyrir um að lögmæltur erfðaréttur hins langlífara eftir hið skammlífara falli niður þegar skipti fari fram eftir lát beggja hjóna.

Þá vísa varnaraðilar til dómafordæma á þessu sviði, aðallega dóms Hæstaréttar 5. nóvember 1992 í máli nr. 361/1992 þar sem talið hafi verið að beita ætti 2. mgr. 19. gr. erfðalaga þrátt fyrir að búsetuleyfi hefði ekki verið gefið út til langlífari maka. Í því tilviki hafi um 10 ár liðið frá andláti hins skammlífari til andláts hins langlífari maka, en hann hafi haft umráð eignanna með sama hætti og orðið hefði ef hann hefði fengið slíkt leyfi.

Í dómi Hæstaréttar 15. nóvember 2006 í máli nr. 547/2006 hafi hins vegar verið talið að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga ætti ekki við þar sem langlífari makinn hafði ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi þegar hann lést skömmu eftir andlát skammlífari makans, en aðeins hafi hafi liðið um einn og hálfur mánuður frá andláti hins skammlífari.

Í báðum ofangreindum dómum hafi verið lögð áhersla á að búsetuleyfi hins langlífara væri skilyrði þess að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga ætti við. Slíku hafi ekki verið til að dreifa varðandi Margréti Guðmundsdóttur við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Beiðni hennar um setu í óskiptu búi hafi verið hafnað með dómi og því hafi hún ekki farið með nein umráð dánarbús Sigurðar heitins eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar máli nr. 117/1968, sem heimilað hafi útburð á henni af jörðinni.

Af öllu ofangreindu verði ályktað og á því byggt að erfðaréttur Margrétar eftir Sigurð sé niður fallinn og að við skipti á eignum dánarbúsins beri að fara eftir almennri reglu 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 þannig að 50% jarðarinnar komi í hlut fimm barna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og því komi 10% í hlut hvers þeirra um sig. Skipta beri því beinum eignarrétti að jörðinni með eftirfarandi hætti:

Magnús Hjaltested (db.)                                                 10,0000 %

Markús Ívar Hjaltested                                                  10,0000 %

Sigríður Hjaltested                                                           10,0000 %

Sigurður Kristján Hjaltested                                           17,1428 %

Karl Lárus Hjaltested                                                      17,1428 %

Hansína Sesselja Gísladóttir                                            7,1428 %

Finnborg Bettý Gísladóttir (db.)                                       7,1428 %

Guðmundur Gíslason                                                        7,1428 %

Margrét Margrétardóttir                                                    7,1428 %

Finnur Gíslason (db.)                                                         7,1428 %

Kröfum afkomenda Margrétar um þriðjungsarfshluta úr búshluta eiginmanns hennar, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sé mótmælt. Benda varnaraðilar á að í greinargerð varnaraðila Hansínu Sesselju o.fl. sé viðurkennt að Margrét hafi ekki setið í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Eins og áður greini sé búsetuleyfi hins vegar algjör forsenda þess að 19. gr. erfðalaga geti átt við. Þá sé því mótmælt að miða eigi skiptin við það tímamark er skipti á dánar- og félagsbúinu hófust hinn 25. febrúar 1967.

Þá sé mótmælt röksemdum sóknaraðila um að jörðin hafi verið séreign Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og hafi því ekki átt undir helmingaskiptareglu hjúskaparréttar. Bent er á að í erfðaskrá sé ekki kveðið á um að jörðin skuli vera séreign. Kröfur sóknaraðila sem taki mið af framangreindu stangist á við lögerfðareglur og XIV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þá sé skýringu þeirra á 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 hafnað.

V.

Varnaraðilarnir Sigurður Kristján og Karl Lárus árétta að úrlausn þessa máls lúti einvörðungu að því að fá úr því skorið hverjir standi til arfs og á hvern hátt skuli skipta arfi milli erfingjanna í dánar- og félagsbúi foreldra varnaraðila, þ.e. hver arfshlutföllin skuli vera við skiptin.

Í endurriti fundargerðar skiptafundar í dánarbúinu, dags. 30. júní 2015, sem fylgt hafi með bréfi skiptastjóra til dómsins, segi m.a.:

„Markmið fundarins er að skilgreina hverjir telji til arfs eftir hinn látna og í hvaða hlutföllum“.

Í dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 sé m.a. fjallað ítarlega um frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúinu, túlkun erfðaskrárinnar og eignarrétt. Í niðurlagi dómsins segi m.a.:

„Ákvæði laga nr. 20/1991 standa því í vegi að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested geti átt sér tilvist um ókominn tíma í því skyni að hafa á hendi bein eignarréttindi yfir jörðinni Vatnsenda. Með því að ekki er mælt fyrir í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested um afdrif þeirra réttinda verður að ráðstafa þeim til lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga. Þegar af þessari ástæðu verður að fella úr gildi frumvarp skiptastjóra 15. apríl 2014 til úthlutunar úr dánarbúinu þannig að farið verði með það upp frá þessu út frá þessum forsendum og eftir þeim aðferðum, sem fyrr hefur verið getið, áður en frumvarp verður gert á ný til úthlutunar.“

Varnaraðilar telja að við ákvörðun skiptahlutfalla þurfi í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eigi við í málinu.

Þrátt fyrir að skipti eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested hafi byrjað áður en Margrét féll frá og þrátt fyrir að liðið hafi tæp 40 ár á milli andláts Sigurðar og andláts Margrétar, en rúm 10 ár séu liðin frá andláti Margrétar, sé á því byggt af hálfu varnaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar að tilgreint ákvæði 2. mgr. 19. gr. erfðalaga eigi hér við.

Afstaða varnaraðila í þessu efni fái stoð í dómi Hæstaréttar Íslands 5. nóvember 1992 í máli nr. 361/1992. Í máli þessu hafi verið talið að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga ætti við þó svo að búsetuleyfi hafi ekki verið gefið út til langlífari maka, sem látist hafi tæpum 10 árum á eftir þeim skammlífari.

Í dómi réttarins 15. nóvember 2006 í máli nr. 547/2006 hafi á hinn bóginn ekki verið talið að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga ætti við. Í forsendum héraðsdómsins, sem hvað þennan þátt málsins varðaði hafi verið staðfestur í Hæstarétti, segi: „...þykir því við það að miða að búsetuleyfi sé almennt forsenda fyrir því að 19. gr. eigi við. Fyrir liggur að A hafði ekki fengið leyfi til setu í óskiptu búi þegar hann lést skömmu eftir andlát B“.

Á því sé byggt af hálfu varnaraðila að skipta beri dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga nr. 8/1962 til framangreindra lögerfingja þeirra Sigurðar og Margrétar, að teknu tilliti til þess að erfðaréttur hins langlífari, Margrétar, eftir hið skammlífara, Sigurð, falli niður samkvæmt 2. mgr. 19. gr. erfðalaga samkvæmt framansögðu. Á því sé byggt af hálfu varnaraðila að skiptahlutföll verði ákvörðuð eftir almennum reglum, þ.e. að jöfnu milli lögerfingja þeirra Sigurðar og Margrétar hvors um sig, sbr. 2. gr. svo og 6. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Með öðrum orðum að skipta beri hjúskapareignum eins og þær hafi verið eftir fráfall Margrétar, þ.e. langlífari maka, í tvo jafna hluti þar sem andlag arfs fyrir hvorn erfingjahópinn um sig sé fundið. Margrét taki ekki arf eftir Sigurð með vísan til 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga. Þegar búið er að skipta í tvo jafna stofna gangi hvor stofn til lögerfingja hvors um sig án tillits til þess hversu margir erfingjar eru í hvorum erfingjahópi. Beri því að beita stofnreglum lögerfða við skiptingu arfs, en ekki höfðatölureglu.

Verði á það fallist að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga eigi hér við fari um skiptingu arfs og arfshlutföll samkvæmt aðalkröfu.

Verði ekki á það fallist að 1. málsliður 2. mgr. 19. gr. erfðalaga eigi við fari hins vegar um skiptingu arfs og arfshlutföll samkvæmt varakröfu.

Hvað varðar málatilbúnað sóknaraðila kveðast varnaraðilar gera þá athugasemd að ekki verði séð að ákvæði hjúskaparlaga víki til hliðar ákvæðum erfðalaga um lögerfðir.

Hvað varðar lagarök vísa varnaraðilar til erfðalaga nr. 8/1962, einkum I. kafla laganna, þ.e. 2. og 6. gr., svo og 19. gr. laganna.

Um málskostnaðarkröfu er m.a. vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

VI.

Varnaraðilar Hansína Sesselja, dánarbú Finnborgar Bettýjar, Guðmundur, Margrét, Gísli og Elísa benda á að málatilbúnaður sóknaraðila sé um margt mótsagnakenndur og óskýr. Þannig fjalli greinargerð þeirra aðeins að litlu leyti um sakarefni málsins, þ.e. arfstilkall einstakra lögerfingja í dánar- og félagsbúið.

Kröfugerð sóknaraðila lúti ekki að viðurkenningu á arfstilkalli við skipti á dánar- og félagsbúinu, heldur að því að dómstólar gefi bindandi fyrirmæli um skiptingu tiltekinnar eignar búsins milli lögerfingja. Fyrir slíkri dómsúrlausn sé engin lagaheimild, enda væri þá óútkljáð hvernig aðrar eignir búsins, s.s. kröfur á hendur Kópavogsbæ og sóknaraðila Þorsteini Hjaltested, myndu skiptast milli lögerfingjanna.

Málatilbúnaður sóknaraðila virðist byggjast á því að tiltekin eign dánarbúsins hafi ekki tilheyrt fjárfélagi hjónanna, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested. Þrátt fyrir það eigi þessi sama eign að koma til skipta að Sigurði Kristjáni látnum þannig að ekkja hans fái 1/3 hluta eignarinnar, sbr. 2. gr. laga nr. 8/1962. Erfitt sé að átta sig á þessum málatilbúnaði. Meðan ekki sé til staðar kaupmáli eða séreignir annars hjóna leiði af ákvæðum laga að eignir þeirra teljast hjúskapareignir, sbr. þágildandi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1923, sbr. nú 54. gr. laga nr. 31/1993. Sé málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti með öllu tilhæfulaus, enda gildi helmingaskiptaregla hjúskaparréttar um skiptin, sbr. þágildandi 18. gr. laga nr. 20/1923, sbr. nú 103. gr. laga nr. 31/1993.

Lagt sé í mat hins virðulega dóms hvort rétt sé af þessum sökum að vísa máli þessu frá dómi, enda sé kröfugerð og málatilbúnaður sóknaraðila vart í þeim búningi að samræmist 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 og 2. mgr. 131. gr. sömu laga.

Öllum öðrum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila sé sérstaklega mótmælt, svo og tilraunum þeirra til einhliða rangfærslna á atvikum og staðreyndum málsins.

Þann 25. febrúar 1967 hafi dánar- og félagsbú hjónanna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested verið tekið til opinberra skipta í skiptarétti Kópavogs.

Samkvæmt 138. gr. laga nr. 31/1993 gildi ákvæði XX. kafla laga nr. 20/1991 um opinber fjárskipti milli hjóna sem ólokið hafi verið við gildistöku laganna. Þá hafi III. kafli laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna m.a. verið felldur úr gildi með lögum nr. 31/1991. Af því leiði að ákvæði laga nr. 31/1991 um fjárskipti hjóna gildi við hin opinberu skipti sem fari fram samkvæmt XX. kafla laga nr. 20/1991.

Samkvæmt 103. gr. laga nr. 31/1991 eigi maki eða dánarbú hans tilkall til helmings af hjúskapareign hins. Sambærilegt ákvæði hafi verið í 18. gr. laga nr. 20/ 1923, en það hafi verið svohljóðandi:

„Nú er hjúskap eða fjárfélagi hjóna slitið [...] og getur þá hvort þeirra eða erfingjar þess krafist helmings af hreinni hjúskapareign beggja hjóna [...]“

Fyrir andlát Sigurðar Kristjáns hafi heildareignir hans og Margrétar því skipst með þeim hætti að 50% hafi tilheyrt Sigurði Kristjáni og 50% Margréti.

Óumdeilt sé að ekki hafi verið til staðar kaupmáli eða skráðar séreignir með öðrum hætti í fjárfélagi hjónanna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested. Leiði þá af meginreglu 17. gr. laga nr. 20/1923, sbr. nú 54. gr. laga nr. 31/1993, að allar eignir þeirra teljist hjúskapareignir. Vísað sé til þess sem áður greini að það sakarefni sem hér sé til úrlausnar sé arfstilkall lögerfingja, en ekki hvort einstakar eignir hafi tilheyrt fjárfélagi hjónanna Sigurðar Kristjáns og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested.

Nauðsynlegt sé þó að taka fram að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda tilheyri dánar- og félagsbúinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012, og að þeim rétti skuli ráðstafa samkvæmt lögerfðareglum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 15. mars 2015 í máli nr. 751/2014. Af þessu leiði að réttindin séu framseljanleg í eðli sínu og falli því sjálfkrafa til fjárfélags hjónanna. Virðist sóknaraðilar í nokkurri villu í málatilbúnaði sínum um þessi efni, enda gildi annað um önnur takmörkuð og skilyrt réttindi tengd jörðinni, eins og komi t.d. fram í síðarnefnda dóminum, þ.e. um hin takmörkuðu og skilyrtu afnotaréttindi sem sóknaraðili Þorsteinn Hjaltested nýti nú á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 1938.

Málatilbúnaður sóknaraðila sé að þessu leyti beinlínis rangur. Þá sé því sérstaklega mótmælt að öll fjárhagsleg réttindi tengd jörðinni Vatnsenda hafi samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested verið afhent Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested og síðar sóknaraðila Þorsteini. Sé í þessum efnum vísað t.d. til dóms Hæstaréttar Íslands frá 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012, en þar segi m.a.:

„..liggur samkvæmt áðursögðu fyrir að andvirði eigna [dánar- og félagsbúsins] án tillits til skulda var mun meira en nam kostnaði af útför þess látna.“

Af tilvitnuðum orðum dómsins er ljóst að jafnvel þótt eina eign búsins sé beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda, eins og málatilbúnaður sóknaraðila miðast við, þá hafa þau réttindi ótvírætt fjárhagslegt gildi.

Í kröfugerðum annarra varnaraðila máls þessa sé á því byggt að arfstilkall Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested eftir eiginmann sinn Sigurð Kristján hafi fallið niður við andlát Margrétar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 8/1962. Þessum málatilbúnaði sé alfarið hafnað.

Óumdeilt sé að skipti á dánar- og félagsbúinu hafi hafist 25. febrúar 1967. Eins og greini að framan hafi skiptin legið niðri frá árinu 1972 til ársins 2011, en þá hafi Hæstiréttur Íslands kveðið upp dóm 24. ágúst 2011 í máli nr. 375/2011 þess efnis að skipa skyldi skiptastjóra til að „ljúka skiptunum“. Þá standi engin lagaheimild til að hefja hina formlegu skiptameðferð að nýju, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014.

Óumdeilt sé að þegar dánar- og félagsbúið hafi verið tekið til opinberra skipta 25. febrúar 1967 hafi Margrét átt erfðatilkall eftir eiginmann sinn, sbr. II. kafla laga nr. 8/1962. Af því leiði að erfðaréttur þessi hafi ekki getað fallið niður þrátt fyrir að skiptameðferðin drægist úr hófi, enda hafi skipti dánarbúsins staðið yfir allan þennan tíma, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 13. nóvember 2009 í máli nr. 599/2009. Standi þannig engin lagaheimild til að raska því nú hverjir séu lögerfingjar dánarbúsins og hvert sé arfstilkall hvers og eins, enda hafi átt að útkljá slík ágreiningsefni þegar við upphaf skiptameðferðarinnar, sbr. 14. gr. laga nr. 3/1878 og 53. gr. laga nr. 20/1991, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands 1. september 2003 í máli nr. 242/2003.

Óumdeilt sé einnig í málinu að Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested hafi ekki notið leyfis til setu í óskiptu búi, sbr. II. kafla laga nr. 8/1962. Fyrrnefnt ákvæði 2. mgr. 19. gr. laganna sé einmitt í kafla laganna um óskipt bú og geti því samkvæmt efni sínu aðeins gilt ef slíkt búsetuleyfi hefur verið gefið út. Sé í þeim efnum vísað til dóms Hæstaréttar Íslands 15. nóvember 2006 í máli nr. 547/2006 þar sem úrskurður héraðsdóms um 1. málslið 2. mgr. 19. gr. erfðalaga hafi verið staðfestur með vísan til forsendna. Þær forsendur hafi orðrétt verið þessar:

„Það ákvæði 19. gr. erfðalaga sem um er deilt í máli þessu er í II. kafla erfðalaga sem er um óskipt bú. Þykir því verða við það að miða að búsetuleyfi sé almennt forsenda fyrir því að 19. gr. eigi við.“

Því sé alfarið hafnað að dómar Hæstaréttar Íslands 5. nóvember 1992 í máli nr. 361/1992 og 24. mars 1980 í máli nr. 28/1980 hafi fordæmisgildi við úrlausn máls þessa. Í báðum tilvikum hafi langlífari makinn farið með umráð eigna óskipts bús í áraraðir, án þess að fá útgefið leyfi til setu í óskiptu búi. Hafi í báðum dómum verið talið að réttarstöðu viðkomandi yrði jafnað við setu í óskiptu búi og því skyldi beita ákvæði 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 um skiptin. Sú aðstaða sé hins vegar alls kostar óskyld þeim atvikum sem uppi séu í þessu máli. Í fyrsta lagi hafi kröfu Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested um setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested verið hafnað á sínum tíma. Í öðru lagi hafi elsta syni Sigurðar Kristjáns verið afhentar allar helstu eignir búsins og Margrét borin út af jörðinni Vatnsenda, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968. Liggi þannig fyrir að bæði hafi því verið hafnað að ákvæði II. kafla erfðalaga gætu gilt um búið og sömuleiðis að Margrét hefði umráð eigna búsins áfram. Séu því engin tilefni til annars en að hafna því að 2. mgr. 19. gr. erfðalaga geti átt við í því tilviki sem hér er til úrlausnar.

Áður sé rakið að ákvæði 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé í kafla laganna um óskipt bú og geti því eðli máls samkvæmt ekki átt við um það dánar- og félagsbú sem hér sé til skiptameðferðar. Því til viðbótar verði að líta til orðalags ákvæðisins sjálfs þar sem segi: „Nú fara skipti fram eftir lát beggja hjóna ...“. Þetta orðalag hljóti eðli málsins samkvæmt að taka til þess tímamarks þá er skiptin hefjast. Að öðrum kosti gæti arfstilkall breyst mikið undir skiptameðferðinni sjálfri og einstakir erfingjar haft af því mikla fjárhagslega hagsmuni að tefja skiptameðferðina og þá jafnvel um leið að auka eigið arfstilkall.

Eins og áður greini sé óumdeilt að skipti á dánar- og félagsbúinu hafi hafist 25. febrúar 1967. Hafi Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested þá notið réttmæts arfstilkalls í 1/3 hjúskapareignar látins eiginmanns síns, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þ.e. af helmingshlutdeild hans í félagsbúi þeirra hjóna. Geti sú réttarstaða ekki hafa breyst núna 48 árum síðar þó að skipti búsins hafi dregist úr öllu hófi.

Með vísan til skiptareglna sifjaréttarins og ákvæða laga nr. 8/1962, einkum 1. mgr. 2. gr. laganna, skyldi arfur eftir Sigurð Kristján skiptast með þeim hætti að eftirlifandi ekkja, Margrét, fengi 33,33% af eignum hans eða alls 66,67% af heildareignum búsins að meðtöldum þeim helmingi félagsbúsins sem hún hafi átt sjálf. Eftirlifandi börn Sigurðar Kristjáns, þ.e. Magnús og varnaraðilarnir Markús Ívar, Sigríður, Sigurður Kristján og Karl Lárus, skyldu saman erfa 2/3 hluta eigna hans og fá hvert í sinn hlut 6,67% af heildareignum Sigurðar Kristjáns og Margrétar, sbr. töflu B:

Tafla B: Skipting eigna og arfs eftir andlát Sigurðar Kristjáns 13. nóvember 1966

 

Sigurður Kristján

Margrét

Samtals

 

 

50,00%

 

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested (maki SKLH)

 

16,67%

 

Magnús Sigurðsson Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

Markús Ívar Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

Sigríður Hjaltested (dóttir SKLH)

6,67%

 

 

Sigurður Kristján Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

Karl Lárus Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

 

33,33%

66,67%

100,00%

Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi látist 21. desember 1999. Komi 6,67% hlutur hans því til skipta milli eftirlifandi eiginkonu hans, sóknaraðila Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, sem taki einn þriðja hluta, og fjögurra barna hans sem skipti tveimur þriðju hlutum sín á milli. Þau séu sóknaraðilarnir Þorsteinn Magnússon Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður K. Hjaltested. Fái hvert þeirra um sig 1,11% af heildareignum dánar- og félagsbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, en Kristrún Ólöf 2,22%, sbr. töflu C, sem sýni skiptingu eigna og arfs eftir andlát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested 21. desember 1999.

Tafla C. 

Sigurður Kristján

Margrét

Samtals

 

 

50,00%

 

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested (maki SKLH)

 

16,67%

 

Magnús Sigurðsson Hjaltested (sonur SKLH)

 

 

 

Kristrún Ólöf Jónsdóttir (maki MSH)

2,22%

 

 

Þorsteinn Magnússon Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

 

Vilborg Björk Hjaltested (dóttir MSH)

1,11%

 

 

Marteinn Þ. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

 

Sigurður K. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

 

Markús Ívar Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

Sigríður Hjaltested (dóttir SKLH)

6,67%

 

 

Sigurður Kristján Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

Karl Lárus Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

 

33,33%

66,67%

100,00%

 

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested hafi látist 31. mars 2004. Skiptist 66,67% heildareigna dánar- og félagsbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og hennar því á milli lögerfingja hennar, sem hafi verið sjö börn hennar, þ.e. Hansína Sesselja, Finnborg Bettý og Guðmundur og Finnur Gíslabörn, Margrét Margrétardóttir, Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested. Skyldu því 9,52% heildareigna koma í hlut hvers þeirra, en tveir þeir síðarnefndu séu jafnframt synir Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og hafi því fyrir verið með 6,67% heildareigna hvor, sbr. framangreint, og erfi því samtals 16,19% heildareigna búsins. Að öðru leyti sé vísað til töflu D um skiptingu arfs eftir andlát Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested 31. mars 2004.

 

Tafla D. 

Sigurður Kristján

Margrét

Samtals

Hansína Sesselja Gísladóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

 

Finnborg Bettý Gísladóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

 

Guðmundur Gíslason (sonur MGH)

 

9,52%

 

Margrét Margrétardóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

 

Finnur Gíslason (sonur MGH)

 

9,52%

 

 

 

 

 

Magnús Sigurðsson Hjaltested (sonur SKLH)

 

 

 

Kristrún Ólöf Jónsdóttir (maki MSH)

2,22%

 

 

Þorsteinn Magnússon Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

 

Vilborg Björk Hjaltested (dóttir MSH)

1,11%

 

 

Marteinn Þ. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

 

Sigurður K. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

 

Markús Ívar Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

 

Sigríður Hjaltested (dóttir SKLH)

6,67%

 

 

Sigurður Kristján Hjaltested (sonur SKLH og MGH)

6,67%

9,52%

Karl Lárus Hjaltested (sonur SKLH og MGH)

6,67%

9,52%

 

33,33%

66,67%

100% 

 

Finnur Gíslason hafi látist 27. janúar 2005. Skiptist arfshlutur hans, 9,52% af heildareignum dánar- og félagsbúsins, á milli barna hans tveggja, Gísla Finnssonar og Elísu Finnsdóttur, og fái hvort um sig því 4,76% af heildareignum búsins, sbr. töflu E, sem sýni skiptingu arfs eftir andlát Finns Gíslasonar 27. janúar 2005.

Tafla E. 

Sigurður Kristján

Margrét

Samtals

Hansína Sesselja Gísladóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

Finnborg Bettý Gísladóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

Guðmundur Gíslason (sonur MGH)

 

9,52%

Margrét Margrétardóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

Finnur Gíslason (sonur MGH)

 

 

 

Gísli Finnsson (sonur FG)

 

4,76%

Elísa Finnsdóttir (dóttir FG)

 

4,76%

 

 

 

 

Magnús Sigurðsson Hjaltested (sonur SKLH)

 

 

 

Kristrún Ólöf Jónsdóttir (maki MSH)

2,22%

 

Þorsteinn Magnússon Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

Vilborg Björk Hjaltested (dóttir MSH)

1,11%

 

Marteinn Þ. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

Sigurður K. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

Markús Ívar Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

Sigríður Hjaltested (dóttir SKLH)

6,67%

 

Sigurður Kristján Hjaltested (sonur SKLH og MGH)

6,67%

9,52%

Karl Lárus Hjaltested (sonur SKLH og MGH)

6,67%

9,52%

 

33,33%

66,67%

100,00%

 

Sem fyrr greini hafi Finnborg Bettý Gísladóttir látist 13. nóvember 2015. Til arfs eftir hana standi sonur hennar, Róbert Fragapane, og renni 9,52% arfshlutur Finnborgar Bettýjar því til hans. Að teknu tilliti til þessa séu núverandi arfshlutföll í dánar- og félagsbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested með eftirgreindum hætti, sbr. töflu F:

Tafla F. 

Sigurður Kristján

Margrét

Samtals

Hansína Sesselja Gísladóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

9,52%

Finnborg Bettý Gísladóttir (dóttir MGH)

 

 

 

Róbert Fragapane (sonur FBG)

 

9,52%

9,52%

Guðmundur Gíslason (sonur MGH)

 

9,52%

9,52%

Margrét Margrétardóttir (dóttir MGH)

 

9,52%

9,52%

Finnur Gíslason (sonur MGH)

 

 

 

Gísli Finnsson (sonur FG)

 

4,76%

4,76%

Elísa Finnsdóttir (dóttir FG)

 

4,76%

4,76%

 

 

 

 

Magnús Sigurðsson Hjaltested (sonur SKLH)

 

 

 

Kristrún Ólöf Jónsdóttir (maki MSH)

2,22%

 

2,22%

Þorsteinn Magnússon Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

1,11%

Vilborg Björk Hjaltested (dóttir MSH)

1,11%

 

1,11%

Marteinn Þ. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

1,11%

Sigurður K. Hjaltested (sonur MSH)

1,11%

 

1,11%

Markús Ívar Hjaltested (sonur SKLH)

6,67%

 

6,67%

Sigríður Hjaltested (dóttir SKLH)

6,67%

 

6,67%

Sigurður Kristján Hjaltested (sonur SKLH og MGH)

6,67%

9,52%

16,19%

Karl Lárus Hjaltested (SKLH og MGH)

6,67%

9,52%

16,19%

 

33,33%

66,67%

100,00%

Til stuðnings máli sínu kveðast varnaraðilar vísa til erfðalaga nr. 8/1962, einkum 2. gr. og II. kafla laganna, sérstaklega 19. gr. Þá vísi varnaraðilar til laga nr. 20/ 1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 53. gr., 78., 130., 131., 148. gr. og XX. kafla laganna, svo og laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl. Einnig vísi varnaraðilar til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. einkum 54., 103. og 138. gr. laganna, og eldri laga um réttindi og skyldur hjóna nr. 20/1923, einkum 17. og 18. gr. Hvað kröfugerð sóknaraðila snerti sé vísað til meginreglna einkamálaréttarfars og 80. og 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafan sé byggð á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt sé byggð á ákvæðum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

VII.

Með dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 var frumvarp skiptastjóra 15. apríl 2014 í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Hjaltested fellt úr gildi, en í frumvarpinu var eins og áður greinir lagt til grundvallar að ráðstafa skyldi beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda til sóknaraðila Þorsteins Hjaltested.

Í forsendum dómsins segir að við úrlausn málsins verði að taka mið af því að Hæstiréttur hafi með dómum 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967, 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 og 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 tekið bindandi afstöðu til ýmissa atriða við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.

Þannig leiði af fyrstnefnda dóminum að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 ráði því, svo langt sem hún kann að ná, hvernig farið verði með réttindi yfir jörðinni Vatnsenda við skipti á dánarbúi Sigurðar, enda hafi í dóminum meðal annars verið leyst úr því að erfðaskráin væri gild, hún gæti að lögum gilt við skipti eftir þann sem hlotið hefur arf eða önnur réttindi samkvæmt henni, engu breyti í því sambandi að sá látni láti eftir sig skylduerfingja og að kvaðir á réttindum sem erfðaskráin taki til hafi ekki fallið niður á grundvelli 3. mgr. 50. gr., sbr. 52. gr. erfðalaga við andlát Sigurðar.

Þá hafi með dóminum 30. maí 1969 verið staðfest ákvörðun um að dánarbúið afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“ og að þessi réttindi hafi upp frá því ekki verið á hendi dánarbúsins. Þá segir í dóminum að því verði hvergi fundinn staður í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested að útlagning þessara réttinda geti af nokkurri ástæðu gengið til baka og þau runnið aftur til dánarbúsins.

Loks hafi því verið slegið föstu með dóminum 3. maí 2013 að beinn eignarréttur að Vatnsenda væri enn á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.

Þá segir í dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 að þegar leyst sé úr því hvert beinn eignarréttur að Vatnsenda eigi að renna við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested verði í ljósi þess sem að framan greinir að leggja til grundvallar að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested ráði þar för að því marki sem ákvæði hennar geti talist taka afstöðu til þess. Leggja verði til grundvallar að beinn eignarréttur að Vatnsenda hafi flust til Sigurðar við skipti á dánarbúi Magnúsar Einarssonar Hjaltested svo sem byggt hafi verið á í dómi Hæstaréttar 3. maí 2013.

Í öðru lagi verði að gæta nánar að því að með erfðaskránni hafi verið lagðar ýmsar kvaðir á arfinn, sem hún hafi fært Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested, að því er varðaði jörðina Vatnsenda. Með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 hafi ekki aðeins verið slegið föstu að Magnús Einarsson Hjaltested hafi getað svo bindandi væri tekið ákvörðun um hvert réttindi yfir jörðinni ættu að renna að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested látnum, heldur jafnframt að kvaðirnar skyldu standa áfram. Af arfleiðsluvilja Magnúsar Einarssonar Hjaltested, sem skýrt yrði ráðinn af ákvæðum erfðaskrárinnar, leiddi hins vegar ekki óhjákvæmilega að beinn eignarréttur að jörðinni þyrfti að fara á hverjum tíma saman við handhöfn þessara réttinda.

Í dóminum kemur síðan fram að meginreglur íslensks erfðaréttar um arfleiðsluvilja, svo og um gildi og framkvæmd erfðaskráa, leiði til þeirrar niðurstöðu að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested verði skýrð þannig að réttindi, sem hún veiti rétthöfum að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested liðnum, séu bundin við þau sem þar sé berum orðum mælt fyrir um, og þau nái þar með ekki til beinna eignarréttinda yfir jörðinni Vatnsenda. Niðurstaða dómsins var því sú að þar sem ekki væri mælt fyrir í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested um afdrif beinna eignarréttinda yfir jörðinni Vatnsenda yrði að ráðstafa þeim til lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga.

Í máli þessu er í fyrsta lagi um það deilt hvort beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda hafi tilheyrt fjárfélagi hjónanna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested og hafi því átt að koma til skipta á milli dánarbús Sigurðar og eftirlifandi eiginkonu hans Margrétar samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparréttarins eða hvort telja beri að hinn beini eignarréttur að jörðinni falli undir 2. mgr. 17. gr. þágildandi hjúskaparlaga nr. 20/1923, sbr. nú 57. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, og komi því ekki undir skipti á fjárfélagi hjónanna, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 102. gr. sömu laga.

Í öðru lagi er um það deilt hvort ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eigi við í málinu og hvort líta beri svo á að arfstilkall Margrétar eftir eiginmann sinn Sigurð Kristján hafi fallið niður við andlát Margrétar.

Óumdeilt er að 25. febrúar 1967 hófust opinber skipti á dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og eftirlifandi eiginkonu hans Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að við skiptin krafðist Margrét þess að öllum eignum dánar- og félagsbúsins yrði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga, enda væru forsendur fyrir gildi og framkvæmd erfðaskrárinnar brostnar að hluta til.

Samkvæmt 138. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 gilda ákvæði XX. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. við opinber fjárskipti milli hjóna sem ólokið var við gildistöku laganna. Við gildistöku laga nr. 31/1993 féllu og úr gildi lög nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna, sbr. 140. gr. þeirra, en nánar tilgreind ákvæði eldri laga skyldu þó gilda um kaupmála og samninga hjóna, skuldbindingar þeirra og tekjur af séreign sem stofnað hefði verið til eða myndast fyrir gildistöku laganna. Samkvæmt framangreindu gilda ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993 við hin opinberu skipti sem fara fram samkvæmt XX. kafla skiptalaga nr. 20/1991.

Óumdeilt er að ekki var til staðar kaupmáli eða skráðar séreignir með öðrum hætti í fjárfélagi hjónanna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested. Leiðir því af meginreglu 54. gr. laga nr. 31/1993, sbr. áður 17. gr. laga nr. 20/1923, að allar eignir þeirra töldust hjúskapareignir.

Eins og áður greinir var það niðurstaða dóms Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 að skýra bæri erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested með þeim hætti að réttindi, sem hún veitti rétthöfum að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested liðnum, væru bundin við þau réttindi, sem þar væri berum orðum mælt fyrir um, þ.e. í meginatriðum kvaðabundin réttindi til umráða og afnota af jörðinni, og að réttindi samkvæmt erfðaskránni næðu þar með ekki til beinna eignarréttinda yfir jörðinni Vatnsenda. Yrði því að ráðstafa þeim til lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga. Með hliðsjón af framangreindu er ekki fallist á með sóknaraðilum að bein eignarréttindi yfir jörðinni Vatnsenda geti talist til persónubundinna réttinda samkvæmt 57. gr. laga nr. 31/1993, sbr. áður 2. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1923, sem heimilt sé að halda utan skipta samkvæmt 102. gr. sömu laga. Ljóst er að hinum persónubundnu réttindum samkvæmt áðurgreindri erfðaskrá var ráðstafað á árinu 1968 í samræmi við ákvæði hennar til elsta sonar Sigurðar Kristjáns, Magnúsar Hjaltested, og eru nú á hendi elsta sonar hans, sóknaraðilans Þorsteins Hjaltested.

Samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1991 á hvor maki um sig eða dánarbú hans tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins, en sambærilegt ákvæði var í 18. gr. laga nr. 20/1923. Við skipti á dánar- og félagsbúi því sem um ræðir í málinu átti Margrét, eftirlifandi eiginkona Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, því tilkall til þess að hjúskapareignum þeirra hjóna yrði skipt samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, þ.e. hún átti rétt til helmingshlutdeildar í félagsbúinu.

Fyrir liggur að Margréti Guðmundsdóttur Hjaltested var ekki veitt leyfi til setu í óskiptu búi eftir mann sinn, Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested, sbr. II. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þá liggur fyrir að frá andláti Sigurðar Kristjáns á árinu 1966 þar til Margrét lést á árinu 2004 fór Margrét ekki með nein umráð yfir eignum búsins, enda voru umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda afhent elsta syni Sigurðar Kristjáns, Magnúsi, með bókun á skiptafundi vorið 1968. Með hliðsjón af framangreindu og dómum Hæstaréttar 15. nóvember 2006 í máli nr. 547/2006 og 5. nóvember 1992 í máli nr. 361/1992 kemur því ekki til álita að beita ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 19. gr. erfðalaga við skiptin, enda er umrædd 19. gr. í II. kafla erfðalaga sem fjallar um óskipt bú.

Eins og áður greinir er óumdeilt að opinber skipti á dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns og eftirlifandi eiginkonu hans Margrétar hófust 25. febrúar 1967 og lágu niðri frá árinu 1972 til ársins 2011 er Hæstiréttur kvað upp dóm 24. ágúst 2011 í máli nr. 375/2011 þess efnis að skipa skyldi skiptastjóra til ljúka skiptum á búinu. Er skiptin hófust átti Margrét erfðatilkall eftir mann sinn, sbr. I. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þykja engin rök standa til þess að erfðaréttur hennar hafi fallið niður þrátt fyrir að dregist hafi úr hófi að ljúka skiptum á búinu. Samkvæmt 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skyldi Margrét erfa 1/3 hluta eigna látins eiginmanns síns, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þ.e. 1/3 hluta af helmingshlutdeild hans í félagsbúi þeirra hjóna.

Með vísan til alls framangreinds, helmingaskiptareglu hjúskaparréttarins og I. kafla erfðalaga nr. 8/1962 skyldi arfur eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested því skiptast með þeim hætti að eftirlifandi ekkja, Margrét, fengi 33,33% af eignum hans, þ.e. af helmingshlutdeild hans í félagsbúi þeirra hjóna eða alls 66,67% af heildareignum búsins að meðtöldum þeim helmingi félagsbúsins sem hún átti sjálf. Eftirlifandi börn Sigurðar Kristjáns, þ.e. Magnús og varnaraðilarnir Markús Ívar, Sigríður, Sigurður Kristján og Karl Lárus, skyldu saman erfa 2/3 hluta eigna föður síns og fá hvert í sinn hlut 6,67% af heildareignum.

Magnús Sigurðsson Hjaltested lést 21. desember 1999. Kemur 6,67% hlutur hans því til skipta milli eftirlifandi eiginkonu hans, sóknaraðila Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, sem tekur einn þriðja hluta, og fjögurra barna hans sem skipti tveimur þriðju hlutum sín á milli. Sóknaraðilarnir Þorsteinn Magnússon Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður K. Hjaltested fá því hvert um sig í sinn hlut 1,11% af heildareignum dánar- og félagsbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, en Kristrún Ólöf 2,22%.

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested lést 31. mars 2004. Skiptist 66,67% heildareigna dánar- og félagsbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og hennar því á milli lögerfingja hennar, sem voru sjö börn hennar, þ.e. Hansína Sesselja, Finnborg Bettý og Guðmundur og Finnur Gíslabörn, Margrét Margrétardóttir, Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested. Skulu því 9,52% heildareigna koma í hlut hvers þeirra, en tveir þeir síðarnefndu eru jafnframt synir Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og voru fyrir með 6,67% heildareigna hvor, sbr. framangreint, og erfa því samtals 16,19% heildareigna búsins.

Finnur Gíslason lést 27. janúar 2005. Skiptist arfshlutur hans, 9,52% af heildareignum dánar- og félagsbúsins, á milli barna hans tveggja, Gísla Finnssonar og Elísu Finnsdóttur, og fær hvort um sig því 4,76% af heildareignum búsins.

Finnborg Bettý Gísladóttir lést 13. nóvember 2015, en dánarbú hennar er enn undir skiptum og rennur arfur sem henni hefði borið því inn í dánarbú hennar.

Samkvæmt framangreindu eru dómkröfur varnaraðilanna Hansínu Sesselju Gísladóttur, dánarbús Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundar Gíslasonar, Margrétar Margrétardóttur, Gísla Finnssonar og Elísu Finnsdóttur og varakröfur varnaraðilanna Sigurðar Kristjáns Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested teknar til greina að öllu leyti.

Með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 131. gr. laga nr. 20/1991, er sóknaraðilum gert að greiða óskipt varnaraðilum Markúsi Ívari Hjaltested, Sigríði Hjaltested, Sigurði Kristjáni Sigurðssyni Hjaltested og Karli Lárusi Hjaltested hverju fyrir sig 250.000 krónur í málskostnað og varnaraðilum Hansínu Sesselju Gísladóttur, dánarbúi Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundi Gíslasyni, Margréti Margrétardóttur, Gísla Finnssyni og Elísu Finnsdóttur hverju fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Við uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 131. gr. laga nr. 20/1991.

Úrskurðarorð:

Við skipti á dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested skal arfur milli erfingja skiptast í eftirfarandi hlutföllum:

Varnaraðilar Sigurður Kristján Sigurðsson Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested taki hvor um sig 16,19% arfs.

Varnaraðilar Hansína Sesselja Gísladóttir, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundur Gíslason og Margrét Margrétardóttir taki hvert um sig 9,52% arfs.

Varnaraðilar Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested taki hvort um sig 6,67% arfs.

Varnaraðilar Gísli Finnsson og Elísa Finnsdóttir taki hvort um sig 4,76% arfs.

Sóknaraðili Kristrún Ólöf Jónsdóttir taki 2,22% arfs.

Sóknaraðilar Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested taki hvert um sig 1,11% arfs.

Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðilunum Markúsi Ívari Hjaltested, Sigríði Hjaltested, Sigurði Kristjáni Sigurðssyni Hjaltested og Karli Lárusi Hjaltested hverju fyrir sig 250.000 krónur í málskostnað og varnaraðilunum Hansínu Sesselju Gísladóttur, dánarbúi Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundi Gíslasyni, Margréti Margrétardóttur, Gísla Finnssyni og Elísu Finnsdóttur hverju fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað.