Hæstiréttur íslands

Mál nr. 461/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 9. júlí 2013.

Nr. 461/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „allt til föstudagsins 12. júlí kl. 16:00“ og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Að virtum rannsóknargögnum málsins verður ekki talið sýnt að þau brot, sem varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa framið, muni aðeins hafa í för með sér skilorðsbundna fangelsisrefsingu, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 12. júlí 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. júlí kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að krafan um gæsluvarðhald varði fjögur lögreglumál. Þau séu:

                1. Mál lögreglu nr. 007-2013-35064, innbrot og þjófnaður að [...] [...]. / Föstudaginn 5. júlí sl. hafi lögregla verið kölluð til að íbúðarhúsinu að [...] á [...], en þar hefði verið spenntur upp gluggi og stolið þaðan m.a. myndavél og linsum, að verðmæti 650.000 kr. skartgripum, mótorhjólafatnaði, mótorhjóli ásamt lyklum, íslenskum þjóðbúning og hnífum, samtals að verðmæti 1.350.000 kr. Samkvæmt upplýsingum vitnis sem lögregla hafi talað við mun aðili hafa bankað að [...] að morgni 5. júlí og sagst vera að leita af bifreið vinar síns. Vitnið hafi lýst aðilanum nokkuð skilmerkilega.

                2. Mál lögreglu nr. 007-2013-34939, þjófnaður þann 4. júlí sl. á veski að [...] í Reykjavík, sem m.a. hafi innihaldið greiðslukort á nafni A og skartgripi (2 hringa) en þar hefði verið farið heimildarlaust inn í anddyri og veskinu stolið.

                3. Mál lögreglu nr. 007-2013-34395, innbrot og þjófnaður þann 1. júlí sl. að [...] ,[...], þar sem spenntur hafi verið upp gluggi og peningum stolið, um 240.000 kr.-

                4. Mál lögreglu nr. 007-2013-3523. Þá hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi fengið tilkynningu um bifreiðina [...] þar sem aðili væri akandi um með rafstuðsbyssu og hafi bifreiðin verið stöðvuð við [...] í Reykjavík. Kærði hafi verið einn í bifreiðinni og hafi hann verið með rafstuðsbyssuna hægra megin við sig í ökumannssætinu. Kærði hafi einnig verið grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, en Toxcuptest hafi gefið það til kynna. Í bifreiðinni hafi fundist munir sem tengst hafi innbrotinu að [...] og [...], m.a. bíllyklar og greiðslukort sem þar hafi verið stolið. Einnig hafi fundist loftskammbyssa í aftursæti og ónýtur peningaskápur með byssukúlu, jafnframt peningamaskína úr hraðbanka, auk íþróttatösku með kúbeini og slaghamri. Á kærða hafi einnig fundist 100.000 kr. í reiðufé. Kærði hafi í kjölfarið í gærkvöldi verið handtekinn kl. 22.00.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur einnig fram að tekin hafi verið skýrsla af kærða, sem neiti sök, og hafi hann gefið misvísandi skýringar á vörslu þessara muna sem fundist hafi í bifreiðinni. Lögreglan telji nauðsynlegt að fá ráðrúm til að kanna það nánar og eftir atvikum að endurheimta frekara þýfi úr ofangreindum innbrotum. Að mati lögreglu sé einnig nauðsynlegt að taka frekari skýrslu af kærða og eftir atvikum vitnum en kærði hafi ekki gefið haldbærar skýringar á tilvist þessa þýfis sem verið hafi í bifreið kærða. Kærði neiti sök er varði ætluð innbrot og kannist ekki við að hafa verið hér á ferð eða tengjast málinu að öðru leyti. Þyki því brýnt, með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuddum grunsemdum lögreglu, að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en lögreglan telji verulega hættu á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif, eftir atvikum á aðra samseka og vitni fái hann að fara frjáls ferða sinna.

                Til rannsóknar í máli þessu sé ætlað brot talið vera gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og/eða eftir atvikum 254. gr. sömu laga, einnig brot á vopnlögum og umferðalögum. Brotist hafi verið inn á heimili að [...], [...] og [...] og verðmætum stolið. Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að málinu samkvæmt rannsókn lögreglu. Það sé því að mati lögreglu brýnt og nauðsynlegt, með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti, að kærði verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 12. júlí kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

Eins og að framan er rakið fundust í fórum kærða munir sem lögregla segir vera úr tveimur innbrotum sem að framan er nánar lýst. Kærði hefur að sögn lögreglu ekki getað gefið trúverðugar skýringar á því af hverju hann hafi haft þessa muni í vörslum sínum. Með vísan til þessa sem og nánari lýsingar á atvikum í greinargerð lögreglustjóra sem rakin er hér að framan þykir sýnt að kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Verður ekki fallist á það með verjanda kærða að hér skipti máli, eða að leggja þurfi mat á það á þessu stigi, hvort sakarefnið sem slíkt gefi tilefni til að ætla að kærði hlyti óskilorðsbundna fangelsisrefsingu yrði hann sakfelldur. Fyrir liggur að rannsókn lögreglu er á frumstigi og er fallist á með lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá er og fallist á að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarhaldi, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Verða kröfur lögreglustjóra því teknar til greina eins og þær eru fram settar.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. júlí kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.