Hæstiréttur íslands

Mál nr. 8/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Ráðningarsamningur
  • Laun


Föstudaginn 25. febrúar 2011.

Nr. 8/2011.

Kaupþing banki hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Ríkharði Daðasyni

(Ragnheiður M. Ólafsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Ráðningarsamningur. Laun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkennd var krafa R við slit K hf. og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa R var tilkomin vegna starfa hans fyrir K hf. og var um vangoldin laun á árinu 2008 og laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í ráðningarsamningi aðila frá  23. janúar 2004 var m.a. kveðið á um 450.000 króna grunnlaun R á mánuði. Á öðrum ársfjórðungi 2005 mun R hafa farið að fá árangurstengdar aukagreiðslur frá K hf. sem námu föstu hlutfalli af heildartekjum deildarinnar sem hann starfaði við. K hf. mun hafa ákveðið í febrúar 2007 að breyta tilhögun aukagreiðslna á þann hátt að þær yrðu framvegis inntar af hendi í tveimur áföngum fyrir hvert ár og að jafnframt yrðu rofin tengslin milli þeirra og tekna sem deildin aflaði fyrir K hf. Þá var á aðalfundi K hf. í mars 2007 samþykkt starfskjarastefna, þar sem meðal annars var ákveðið að greiðsla kaupauka væri háð því skilyrði að arðsemi eigin fjár félagsins væri meiri en 15%. Í júlí 2007 gerðu aðilar með sér samning um „sérstakt fyrirkomulag vegna bónusgreiðslna“ þar sem m.a. var kveðið á um að greiða skyldi starfsmanni 80% af bónus á þeim dögum sem tilgreindir væru í ráðningarsamningi en 20% voru nefnd „frestaður bónus“. Í málinu laut ágreiningur aðila einkum að því hvort komist hefði á ótímabundinn samningur í febrúar  2007 um að heildarlaun K á mánuði skyldu að meðaltali nema 2.400.000 krónum sem K hf. myndi standa skil á annars vegar með mánaðarlegri útborgun grunnlauna og hins vegar kaupaukagreiðslum. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að þótt heildargreiðslur sem R fékk frá K hf. hefðu þegar frá leið orðið verulega hærri en grunnlaunin sem tilgreind voru í ráðningarsamningi aðila hafi ekki verið gerður nýr skriflegur ráðningarsamningur með ákvæði um slík launakjör. Ekki yrði séð að nokkuð hefði staðið því í vegi að gerður yrði skriflegur samningur um hækkun á föstum mánaðarlaunum R hefði K hf. viljað taka á sig óskilyrta skuldbindingu um hana til frambúðar. Í stað þess að gera það bætti K hf. laun R með aukagreiðslum sem inntar voru af hendi með nokkru millibili og ekki annað séð en að R hefði verið því samþykkur. Á árinu 2007 fór útborgun þessara aukagreiðslna eftir fyrrnefndum samningi um „sérstakt fyrirkomulag vegna bónusgreiðslna“ sem aðilarnir gerðu í júlí á því ári. Var talið ósannað gegn andmælum K hf. að samningur hefði komist á um að R fengi til viðbótar grunnlaunum greiðslur, sem lytu öðrum reglum en þeim sem giltu almennt um kaupaukagreiðslur úr hendi K hf. Þá var ekki haldið fram í málinu að arðsemi eigin fjár K hf. hafi náð því 15% lágmarki sem áskilið var í starfskjarastefnu félagsins sem skilyrði kaupaukagreiðslna. Þegar af þeim sökum var hafnað viðurkenningu á kröfu R við slit K hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2010, þar sem viðurkennd var krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 21.267.049 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst að hafnað verði að viðurkenna kröfu varnaraðila og honum gert að greiða sér málskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðili, sem er hagfræðingur að mennt, ráðningarsamning við sóknaraðila 23. janúar 2004. Í samræmi við ákvæði samningsins mun varnaraðili hafa í byrjun starfað í greiningardeild sóknaraðila, en færst síðar á árinu 2004 til starfa í deild markaðsviðskipta, þar sem hann fékkst við verðbréfamiðlun. Í samningnum var liður með yfirskriftinni „launakjör og hlunnindi“, þar sem sagði að varnaraðili fengi 450.000 krónur í grunnlaun á mánuði og yrði ekki greitt fyrir yfirvinnu nema sérstaklega yrði samið um það, en sóknaraðili legði honum til farsíma og greiddi fyrir notkun hans. Samkvæmt skýrslu varnaraðila fyrir héraðsdómi fór hann á öðrum ársfjórðungi 2005 að fá árangurstengdar aukagreiðslur frá sóknaraðila, sem hafi numið föstu hlutfalli af heildartekjum deildarinnar sem hann starfaði við, og hafi hann síðan fengið þær á þriggja mánaða fresti. Sóknaraðili hafi ákveðið í febrúar 2007 að breyta tilhögun aukagreiðslna á þann hátt að þær yrðu framvegis inntar af hendi í tveimur áföngum fyrir hvert ár, í ágúst á viðkomandi ári og í febrúar á því næsta, og yrðu jafnframt rofin tengslin milli þeirra og tekna, sem deildin aflaði fyrir sóknaraðila. Varnaraðili kvaðst hafa lýst óánægju með þessar breytingar, en um líkt leyti hafi honum borist atvinnutilboð frá öðru fjármálafyrirtæki, þar sem gert hafi verið ráð fyrir hærri launum en hann fékk frá sóknaraðila. Hann hafi greint frá þessu tilboði í samtali við yfirmann sinn, Ingvar Vilhjálmsson, sem hafi óskað eftir stuttum fresti til að bregðast við því, en Ingvar hafi síðan gert varnaraðila boð um að honum yrðu tryggð heildarlaun, sem næmu að lágmarki 2.400.000 krónum á mánuði. Þetta hafi varnaraðili samþykkt. Á þessum tíma hafi grunnlaun hans verið þau sömu og kveðið var á um í áðurnefndum ráðningarsamningi að teknu tilliti til breytinga, sem stöfuðu af kjarasamningum, og hafi svo verið áfram þar til í ágúst 2008, þegar þau hafi hækkað í 700.000 krónur á mánuði eftir einhliða ákvörðun sóknaraðila.

Fyrir liggur í málinu að aðilarnir gerðu í júlí 2007 samning um „sérstakt fyrirkomulag vegna bónusgreiðslna“. Í upphafi samningsins sagði að hann varðaði „fyrirkomulag bónusgreiðslna, einnar eða fleiri, sem starfsmanni kunna að vera greiddar í samræmi við ráðningarsamning starfsmanns eða samkvæmt öðrum samningi milli starfsmanns og vinnuveitanda, hvort sem slík bónusgreiðsla byggist á einhliða ákvörðun Kaupþings eða á fyrirfram skilgreindum viðmiðum.“ Þar kom meðal annars fram að greiða ætti starfsmanni 80% af „bónusi ... á þeim dögum sem tilgreindir eru í ráðningarsamningi eða öðrum samningi milli starfsmanns og vinnuveitanda“, en 20% voru nefnd frestaður bónus, sem ætti að verja til kaupa á hlutabréfum í sóknaraðila fyrir gangverð þeirra á hverjum tíma með fjórðungs afslætti. Sá hluti skyldi renna í svonefndan bónuspott starfsmannsins og greiðast þaðan út með afhendingu hlutabréfa í þremur jöfnum árlegum áföngum. Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila fékk hann útborgaðar samtals 9.200.000 krónur vegna aukagreiðslna fyrir fyrri helming ársins 2007 auk þess sem 2.300.000 krónur hafi farið í bónuspott hans, en vegna síðari helmings ársins hafi útborgun numið 8.000.000 krónum og 2.000.000 krónur runnið í pottinn. Af þeim fjárhæðum, sem hafi farið í bónuspottinn, hafi hann síðan fengið 469.448 krónur greiddar út í ágúst 2008. Vegna fyrri helmings ársins 2008 hafi hann á hinn bóginn aðeins fengið 4.000.000 krónur í aukagreiðslu, sem hafi öll komið til útborgunar 1. september á því ári. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst varnaraðili hafa kvartað undan því að hafa ekki fengið greidda 1. ágúst 2008 uppbót, sem svaraði því sem vantaði upp á að mánaðarlaun hans næmu 2.400.000 krónum, en hvorki hafi hann fengið skýringar á greiðsludrætti né ástæðu þess að fjárhæðin, sem um síðir var greidd, hafi ekki reynst hærri en hér um ræðir.

Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Eftir að lögum nr. 161/2002 hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, var sóknaraðila skipuð slitastjórn, sem gaf út innköllun til kröfuhafa. Varnaraðili, sem mun hafa verið sagt upp störfum hjá sóknaraðila 29. október 2008 og tekið 17. nóvember sama ár við starfi hjá Nýja Kaupþingi banka hf., nú Arion banka hf., lýsti kröfu á hendur sóknaraðila 30. desember 2009. Með kröfulýsingunni leitaði varnaraðili í fyrsta lagi greiðslu á svokölluðum frestuðum bónus frá árinu 2007, að eftirstöðvum samtals 3.830.552 krónur, og í öðru lagi vangoldnum launum á árinu 2008. Í þeim efnum taldi hann mánaðarlaun sín að réttu lagi hafa átt að vera 2.400.000 krónur frá ársbyrjun til loka nóvember, samtals 26.400.000 krónur, en á því tímabili hafi hann fengið greiddar alls 6.232.951 krónu í grunnlaun ásamt orlofsuppbót og áðurnefndar 4.000.000 krónur í aukagreiðslu, þannig að eftir stæðu 16.167.049 krónur að viðbættum 1.616.705 krónum vegna framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Þá gerði varnaraðili í þriðja lagi kröfu um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti, samtals 7.200.000 krónur auk 720.000 króna vegna framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, en til frádráttar kæmu laun vegna sama tímabils frá nýjum vinnuveitanda, alls 2.100.000 krónur. Krafa varnaraðila var því alls um greiðslu á 27.434.306 krónum ásamt 3.813.408 krónum í dráttarvexti til 22. apríl 2009, sem hann taldi með reikniskekkju nema samtals 31.247.715 krónum. Kröfu þessari lýsti hann sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Slitastjórn hafnaði kröfunni með öllu í skrá um lýstar kröfur og mótmælti varnaraðili þeirri afstöðu. Ekki tókst að jafna ágreining um viðurkenningu kröfunnar og vísaði slitastjórnin honum 10. maí 2010 til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest 22. júní sama ár. Í greinargerð fyrir héraðsdómi féll varnaraðili frá þeim liðum í kröfu sinni, sem vörðuðu frestaðan bónus frá árinu 2007 og dráttarvexti af honum, og lækkaði hún af þeim sökum í 26.847.370 krónur. Í hinum kærða úrskurði var höfuðstóll kröfunnar með leiðréttingu á reikniskekkju tekinn til greina að frátöldum liðum vegna framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, samtals 2.336.705 krónum, en dráttarvextir fram til 22. apríl 2009, sem varnaraðili taldi nema 3.243.615 krónum af öðrum liðum, voru ekki meðal þess, sem tekið var tillit til í niðurstöðu úrskurðarins um að krafa varnaraðila væri viðurkennd með fjárhæðinni 21.267.049 krónur. Fyrir Hæstarétti unir varnaraðili við þessa niðurstöðu.

II

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði lýtur ágreiningur aðilanna einkum að því hvort komist hafi á ótímabundinn samningur í febrúar 2007 um að heildarlaun varnaraðila á mánuði skyldu að meðaltali nema 2.400.000 krónum, sem sóknaraðili myndi standa skil á annars vegar með mánaðarlegri útborgun grunnlauna og hins vegar kaupaukagreiðslum. Til stuðnings því að um þetta hafi verið samið hefur varnaraðili vísað til yfirlýsingar áðurnefnds Ingvars Vilhjálmssonar frá 7. september 2009, sem nánar er getið í hinum kærða úrskurði. Þessa yfirlýsingu staðfesti Ingvar í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi með þeim orðum að varnaraðili hafi komið til sín í september 2009 og farið yfir „þessa málavexti“, sem hann hafi kannast við og fundist sjálfsagt að undirrita yfirlýsinguna, því þetta hafi verið sinn „skilningur á málinu á þeim tíma.“

Um þetta ágreiningsefni er þess að gæta að á aðalfundi sóknaraðila 16. mars 2007 var samþykkt starfskjarastefna, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Kaupaukagreiðslur eiga sér einungis stað þegar Kaupþing banki hefur náð 15% arðsemi eigin fjár. Kaupaaukagreiðslur til annarra en forstjóra og stjórnarformanns eru ákvarðaðar af forstjóra í samráði við stjórnarformann og framkvæmdastjóra starfsmannasviðs. Greiðslu á tilteknu hlutfalli af kaupaukagreiðslum umfram ákveðna upphæð er frestað í þrjú ár og fjárhæðin tengd við gengi hlutabréfa í bankanum. Greiðslan er þó háð því grunnskilyrði að viðkomandi starfsmaður sé áfram starfandi innan samstæðunnar.“ Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst varnaraðili hafa heyrt af því kerfi að greiðsla á kaupauka tengdist „15% eiginfjár markmiðaávöxtun bankans“, en um þetta hafi þó aldrei verið rætt við sig eða gerður fyrirvari um greiðslur með tilliti til þess.

Þótt heildargreiðslur, sem varnaraðili fékk frá sóknaraðila, hafi þegar frá leið orðið verulega hærri en grunnlaunin, sem tilgreind voru í ráðningarsamningi þeirra frá 23. janúar 2004, var ekki gerður nýr skriflegur ráðningarsamningur með ákvæði um slík launakjör. Ekki verður séð að nokkuð hefði staðið því í vegi að gerður yrði skriflegur samningur um hækkun á föstum mánaðarlaunum varnaraðila, hefði sóknaraðili viljað taka á sig óskilyrta skuldbindingu um hana til frambúðar. Í stað þess að gera það bætti sóknaraðili launakjör varnaraðila með aukagreiðslum, sem inntar voru af hendi með nokkru millibili, og verður ekki annað séð en að því hafi varnaraðili verið samþykkur. Á árinu 2007 fór útborgun þessara aukagreiðslna eftir fyrrnefndum samningi „um sérstakt fyrirkomulag vegna bónusgreiðslna“, sem aðilarnir gerðu í júlí á því ári, en ákvæði hans voru í samræmi við framangreinda starfskjarastefnu sóknaraðila meðal annars að því er varðar svokallaðan frestaðan bónus. Sóknaraðili stóð heldur ekki að verki eins og hann væri bundinn af samningi um að mánaðarlaun varnaraðila skyldu nema 2.400.000 krónum þegar hann innti af hendi 1. september 2008 kaupaukagreiðslu, sem hvergi nærri svaraði til slíkra launakjara og greidd var að auki síðar en varnaraðili kveður samning þeirra hafa staðið til. Að þessu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að ósannað sé gegn andmælum sóknaraðila að samningur hafi komist á um að varnaraðili fengi til viðbótar grunnlaunum greiðslur, sem lytu öðrum reglum en þeim sem giltu almennt um kaupaukagreiðslur úr hendi sóknaraðila. Því hefur ekki verið borið við í málinu að náðst hafi „15% arðsemi eigin fjár“ sóknaraðila á árinu 2008, sem samkvæmt starfskjarastefnu hans var frumskilyrði þess að kaupaukagreiðslur yrðu ákveðnar handa starfsmönnum. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfu varnaraðila hafnað.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hafnað er viðurkenningu á kröfu varnaraðila, Ríkharðs Daðasonar, að fjárhæð 21.267.049 krónur við slit sóknaraðila, Kaupþings banka hf.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2010.

I

Mál þetta sem þingfest var 22. júní 2010 var tekið til úrskurðar 16. nóvember 2010.  Sóknar­aðili er Ríkharður Daðason, Sunnuvegi 33, Reykjavík, en varnaraðili er Kaup­þing banki hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 26.847.370 krónur verði viður­­kennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrota­skipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila.  Þá krefst sóknaraðili þess að dráttarvextir af kröf­unn­i frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa sam­kvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.  Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.  Þá krefst sókn­ar­aðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila í febrúar 2004 en aðilar undirrituðu ráðningar­samn­ing 23. janúar 2004.  Til að byrja með vann sóknar­aðili við ýmis störf á grein­ingar­deild varnaraðila en síðar hóf hann störf við markaðsviðskipti hjá varnaraðila. Yfir­­mað­ur sóknar­aðila var Ingvar Vilhjálmsson, þáverandi framkvæmdastjóri mark­aðs­­við­skipta.

Voru grunnlaun sóknaraðila samkvæmt ráðningarsamningi 450.000 krónur á mánuði og ekki skyldi greitt fyrir yfirvinnu nema sérstaklega væri um það samið.  Laun sókn­ar­­aðila hækkuðu í samræmi við kjarasamninga.  Á árinu 2007 voru föst mánaðar­laun sóknaraðila orðin 504.753 krónur og á haustmánuðum 2008 voru föst laun hans orðin 700.000 krónur á mánuði.

Frá árinu 2005 fékk sóknaraðili reglulegar árangurstengdar bónusgreiðslur ofan á föstu launin.  Kveður sóknaraðili að þessar árangurstengdu greiðslur hafi greiðst árs­fjórð­ungslega sem hlutfall af tekjum hlutabréfamiðlunar bankans.  Í febrúar 2007 hafi varnaraðili breytt hvatakerfi sínu þannig að tenging við tekjur deildarinnar hafi verið afnumin og hafi árangurstengdar greiðslur með því orðið ógagnsærri og greiddar út á 6 mánaða fresti.  Hafi starfsmönnum þó verið lofað að tekjur þeirra yrðu aldrei lægri en í eldra kerfi.

Sóknaraðili kveðst hafa gert munnlegan samning við yfirmann sinn í mars 2007 þess efnis að heildarlaun sóknaraðila skyldu ekki vera lægri en 2.400.000 krónur á mánuði.  Hafi ástæða þessa verið sú að sóknar­aðila hafi boðist starf annars staðar og hafi varnaraðili ekki viljað missa hann úr starfi.  Hafi hinn munnlegi samningur verið ótímabundinn og aftur­virk­ur og tekið gildi frá og með 1. janúar 2007.  Hafi sóknaraðila áfram verið greiddar 504.753 á mánuði en til að heildarlaun hans yrðu að minnsta kosti 2.400.000 krónur á mánuði hafi tvisvar verið greiddar 11.500.000 krónur að frádregnum svokölluðum frestuðum bónus.  Reyndar hafi greiðslurnar verið óreglulegri á árinu 2007.  Þannig hafi sóknaraðila til að mynda verið greiddar 3.500.000 krónur 1. apríl 2007 og síðan hafi það sem upp á hafi vantað verið greitt í ágúst.  Hafi aðilar gert með sér sérstakt samkomulag um að seinni uppbótargreiðslan á árinu 2007 yrði 10.000.000 króna vegna fjölskylduaðstæðna þar sem sóknaraðili hafi ekki getað unnið alla þá yfirvinnu sem óskað hafi verið eftir á því tímabili. 

Varnaraðili kveður að framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, yfirmaður sóknaraðila, hafi gert munnlegt samkomulag við sóknaraðila í marsmánuði 2007 um að bónusgreiðslur á árinu 2007 myndu tryggja honum tiltekin heildarlaun á því ári.  Hafi samkomulag þetta hins vegar verið tímabundið.  Þá hafi í júlí 2007 jafnframt verið gerður skriflegur samningur við sóknaraðila um sérstakt fyrirkomulag vegna bónus­greiðslna.  Samkvæmt samningnum hafi fyrirkomulag bónusgreiðslna verið með þeim hætti að 80% bónussins hafi verið greidd starfsmanni á tilgreindum dögum, en 20% hans verið frestað til kaupa á hlutum í varnaraðila og farið í svokallaðan bónuspott starfs­mannsins.  Frestaður bónus hafi verið greiddur úr bónuspottinum á svonefndum frest­unar­greiðslu­dögum og hafi verið greitt út í hlutum í varnaraðila.  Hafi bónusinn að jafnaði verið greiddur út tvisvar á hverju ári.

Hinn 9. október 2008 ákvað Fjármálaráðuneytið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipa bank­an­um skila­nefnd í samræmi við ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 128/2008.  Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög.  Upphafsdagur slita­með­ferðar var 22. apríl 2009.  Varnaraðili gaf út innköllun til skuld­heimtu­manna sem birtist í fyrra sinni í Lögbirt­inga­blaði 30. júní 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember 2009. 

Með bréfi 29. október 2008 var sóknaraðila sagt upp störfum hjá varnaraðila og starf­aði hann áfram þar til hann hóf störf hjá Nýja Kaupþingi banka hf. (nú Arion banka hf.) samkvæmt ráðningarsamningi 17. nóvember 2008. 

Er óumdeilt að sóknaraðili fékk greitt í samræmi við hinn munnlega samning á árinu 2007 en ekki á árinu 2008 þar sem varnaraðili taldi samning aðila eingöngu vera vegna ársins 2007.   Þá liggur fyrir að laun hafa verið gerð upp við sóknaraðila vegna ársins 2008 miðað við að umræddur munnlegur samningur sé ekki í gildi.  Þá voru laun sóknaraðila í uppsagnarfresti ekki greidd af hálfu varnaraðila þar sem sóknaraðili vann á uppsagnarfresti hjá Nýja Kaupþingi banka hf. og voru laun hans þar 700.000 krónur á mánuði, þ.e. sömu grunnlaun og sóknaraðili hefði haft hjá varnaraðila.

Með kröfulýsingu 30. desember 2009 lýsti sóknaraðili kröfum að fjárhæð 31.247.715 krónur ásamt dráttarvöxtum til slitastjórnar varnaraðila samkvæmt 6. gr. laga nr. 44/2009, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002.  Með bréfi 10. janúar 2010 tilkynnti slita­stjórn varnaraðila að kröfu sóknaraðila væri hafnað.  Á kröfuhafafundi 29. janúar 2010 var afstöðu slitastjórnar til kröfu sóknaraðila mótmælt.  Haldinn var fundur vegna ágreinings um kröfuna 23. mars 2010 og framhaldsfundur 25. mars sama ár.  Sóknar­aðili féll frá þeim hluta kröfu sinnar sem laut að greiðslu frestaðs bónuss að fjárhæð 3.830.552 krónur en að öðru leyti reyndist ekki unnt að jafna ágreining um kröfuna og var þeim ágreiningi vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi slitastjórnar varnar­aðila 10. maí 2010 sem móttekið var 17. maí 2010.

Lýtur ágreiningur aðila að því hvort krafa sóknaraðila sé réttmæt og skuldbindandi gagnvart varnaraðila og ef svo er hver fjárhæð hennar sé og hvernig skipa skuli henni í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila.

III

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hið munnlega samkomulag sem hann hafi gert við þáverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta varnaraðila, Ingvar Vilhjálmsson, í mars 2007, sé bindandi fyrir varnaraðila.  Samkvæmt samningum hafi sóknaraðila borið að fá að minnsta kosti 2.400.000 krónur í mánaðarlaun.  Hafi sam­komu­lag þetta verið staðfest með sérstakri yfirlýsingu þar að lútandi.  Þá hafi samn­ing­urinn verið gerð­ur af þess til bærum aðila og hafi vinnuframlag sóknaraðila verið í samræmi við um­samið endurgjald.

Á því sé byggt að engin lagaleg rök hafi komið fram hjá varnaraðila fyrir því hvernig honum sé stætt að hafna forgangskröfu sóknaraðila enda ljóst að skilyrði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um hann.  Í fundargerð vegna ágreiningsfundar aðila sem haldinn hafi verið 23. mars 2010 tiltaki slitastjórn varnaraðila að ekki sé hægt að sam­þykkja lág­marks­laun fyrir 6 mánaða tímabil meðal annars vegna þess að ekki liggi fyrir end­an­legt vinnuframlag að baki þeirri kröfu.  Fullyrðingum þessum sé alfarið hafnað og sé í raun óskiljanlegt hvernig hægt sé að halda slíku fram enda séu ráðn­ingar­­samn­ing­ar ávallt samningar um tiltekin lágmarkslaun.  Ljóst sé að mikið vinnu­fram­lag liggi að baki þessari kröfu og séu laun í samræmi við markaðsaðstæður.  Sam­ið hafi verið um sann­gjörn laun og hafi sóknaraðili skilað af sér þeim störfum sem af honum hafi verið krafist. 

Falli krafa sóknaraðila að öllum skilyrðum 112. gr. laga nr. 21/1991 en ljóst sé að kraf­an sé um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins sem hafi fall­ið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag, sbr. 1. tölulið 1. mgr.  Taki ákvæði þetta einnig til hlunninda launamanns.  Launakjör sóknaraðila hafi verið ákveð­­in og samþykkt af varnaraðila og sé slík ákvörðun bindandi fyrir varnaraðila nú og sé krafa sóknaraðila því gild.  Sérstök athygli sé vakin á því að launakröfur sóknar­aðila hafi ekki verið háðar mati varnaraðila heldur hafi hér verið um að ræða lág­marks­­laun fyrir vinnuframlag.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi viðurkennt breytingu á launakjörum sóknaraðila í fram­­kvæmd, ekki eingöngu með því að greiða uppbótargreiðslur á árinu 2007, heldur einnig með því að hækka ekki föst mánaðarleg grunnlaun hans.  Frá því að sóknar­aðili hafi hafið störf hjá varnaraðila hafi mánaðarlaun hans hækkað í samræmi við kjara­samn­inga VR.  Þessar hækkanir komi hins vegar ekki til framkvæmda ef laun­þeg­um sé tryggður betri réttur úr hendi vinnuveitanda síns.  Þar sem samkomulag aðila á árinu 2007 um 2.400.000 krónur í heildarlaun hafi tryggt sóknaraðila betri rétt en hin 5,5% launaþróunartrygging VR, þá hafi mánaðarleg grunnlaun sóknaraðila verið óbreytt á árinu 2008.  Að mati sóknaraðila sýni þetta að varnaraðili hafi litið á sam­komu­lag aðila sem samning um heildarlaun.

Þá sé einnig gerð krafa um greiðslu mismunar á launum sóknaraðila eftir hrun varnar­aðila og þeim launum sem hann hafi átti rétt á hjá varnaraðila.  Uppsagnarfrestur hafi verið á tímabilinu frá desember 2008 til febrúar 2009, samkvæmt gr. 11.2.3 í kjara­samn­ingi samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.  Sóknaraðila sé kunnugt um að öðrum starfsmönnum varnaraðila sem ráðnir hafi verið til Arion banka hf. hafi verið greidd­­ur mismunur launa þeirra í uppsagnarfresti og krefst sóknaraðili þess að hann njóti sömu réttinda á grundvelli meginsjónarmiða um jafnræði, enda hafi Hannes F. Hrólfs­­son, aðstoðarframkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar Nýja Kaup­þings banka hf., tjáð sóknaraðila þegar hann hafi sagt honum upp störfum og jafnframt ráðið hann til starfa hjá Nýja Kaupþingi banka hf., að allir þeir sem ráðnir hefðu verið frá varnaraðila sem fengju lægri laun en þeir áður hefðu haft, fengju greiddan mismun þessara launa á uppsagnarfresti.  Varnaraðili hafi kosið að nýta ekki starfskrafta sókn­ar­aðila í uppsagnarfresti og því hafi honum verið frjálst að ráða sig annað án þess að það myndi skerða kröfu hans á hendur varnaraðila enda hafi sóknaraðili ekki afþakkað laun sín og ráðning hans hafi verið ótímabundin.  Vangreidd laun í uppsagnarfresti séu því samtals að fjárhæð 5.820.000 krónur auk dráttarvaxta.

Umsamin laun sóknaraðila hafi ekki verið greidd á gjalddaga og teljist það því vanefnd varnaraðila á ráðningarsamningi aðila.  Breyti engu af hvaða ástæðu greiðslu­fall­ið stafi.  Af þeim sökum og í samræmi við þá meginskyldu atvinnurekanda að greiða launþega umsamin laun,  krefjist sóknaraðili þess að krafa hans verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 í bú varnaraðila.

Í samræmi við þetta sé krafa sóknaraðila reiknuð út með eftirfarandi hætti fyrir tíma­bil­ið 1. janúar - 30. nóvember 2008:

1. janúar - 31. júní 2008

Umsamin laun: (samkvæmt samkomulagi 2.400.000 x 6)

14.400.000

Greidd laun:              Launauppbót

4.000.000

mánaðarlegar greiðslur í sex mánuði 

3.028.518

Orlofsuppbót

18.400

Samtals:

7.046.918

Samtals (14.400.000 – 7.046.918)

7.353.082

Framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð

735.308

Samtals krafa fyrir tímabilið: 

8.088.389

1. júlí – 30. nóvember 2008

Umsamin laun (2.400.000 x 5):

12.000.000

Greidd laun:

júlí 

504.753

ágúst  

700.000

september

700.000

október

700.000

nóvember

581.280

Samtals:

3.186.033

Samtals: (12.000.000 – 3.186.033)

8.813.967

Framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð

881.397

Samtals krafa fyrir tímabilið:    

9.695.364

Samkvæmt framansögðu sé krafa vegna tímabilsins 1. janúar til 30. nóvember 2008 17.783.753 krónur.  Þá sé gerð krafa um greiðslu launa í uppsagnarfresti sem miði við 2.400.000 krónur á mánuði að frádregnum launum sóknaraðila hjá Nýja Kaupþingi banka hf. á sama tímabili.  Sú krafa reiknist með eftirfarandi hætti:

Laun í uppsagnarfresti:                                

(3 x 2.400.000)

7.200.000

Framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð

720.000

Frádráttur laun hjá Nýja Kaupþingi banka hf. (3 mán)

2.100.000

Samtals:

5.820.000

Sé krafist mótframlags varnaraðila vegna lífeyrissjóðsiðgjalda, 8% vegna skyldu­bund­ins framlags atvinnurekanda og 2% mótframlag atvinnurekanda vegna lífeyris­sparn­aðar eða samtals 10% af reiknuðum launum.

Þá sé krafist dráttarvaxta miðað við að laun sóknaraðila skyldu vera 2.400.000 krónur á hverjum mánuði að frádregnum greiddum launum og séu þeir reiknaðir frá lokum hvers tímabils eða um það leyti sem heildarlaun hafi átt að vera greidd.  Þá sé krafist dráttarvaxta af framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð frá lokum hvers tímabils.

IV

Varnaraðili kveður að hjá honum hafi verið í gangi ákveðið bónuskerfi sem ætlað hafi verið til þess að umbuna tilteknum starfsmönnum ef góður árangur næðist í starfsemi varnar­aðila á viðkomandi ári.  Kerfið hafi verið þannig uppbyggt að bónus hafi verið greidd­ur út tvisvar á ári, í febrúar og ágúst ár hvert.  Greiðslur á bónusum til starfs­manna hafi verið háðar því skilyrði að arðsemi eigin fjár hjá varnaraðila væri yfir 15% á viðkomandi árshelmingi, þ.e. janúar - júní vegna bónusgreiðslna í ágúst og júlí - desember vegna bónusgreiðslna í febrúar árið eftir.  Hvernig bónus hafi verið útdeilt til starfsmanna hafi verið ákveðið í samráði við forstjóra bankans á Íslandi, Ingólf Helgason, framkvæmdastjóra starfsmannasviðs, Svala Björgvinsson, og framkvæmda­stjóra þess sviðs sem viðkomandi starfsmaður hafi starfað hjá.  Hafi fjárhæð bónus­greiðslu til hvers og eins starfsmann þannig verið ákveðin í hvert og eitt skipti af fyrr­greind­um aðilum.

Hafi bónusgreiðslur til starfsmanna nánast undantekningarlaust verið háðar því skilyrði að arðsemi eigin fjár bankans væri yfir 15% fyrstu sex mánuði ársins og svo síðari sex mán­uði ársins og jafnframt háðar mati á frammistöðu þess sviðs sem starfs­maður hafi starf­að á sem og frammistöðu viðkomandi starfsmanns á því tímabili.  Samn­ingar sem vikið hafi frá fyrrgreindum meginreglum hafi því verið algjör undan­tekning og þá vegna sérstakra aðstæðna.

Sóknaraðili hafi gert munnlegt samkomulag við Ingvar Vilhjálmsson, fyrrverandi fram­­kvæmda­stjóra yfir markaðsviðskiptum hjá varnaraðila í mars 2007, um lágmarks bónus­greiðslur á árinu 2007.  Um hafi verið að ræða tímabundið samkomulag sem ein­göngu hafi gilt um greiðslu bónusa á árinu 2007.  Á árinu 2008 hafi samkomulagið verið niður fallið og hafi sóknaraðili fengið greiddan bónus á því ári sem tekið hafi mið af afkomu bankans og frammistöðu starfsmannsins eins og hefðbundið hafi verið og hafi bónusinn verið mun lægri en samkvæmt hinu niðurfallna samkomulagi og lægri en það sem sóknaraðili geri kröfu um.

Hafi Svali Björgvinsson mætt til skýrslutöku hjá slitastjórn varnaraðila á grundvelli 81. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hinn 26. apríl 2010.  Þar hafi hann staðfest að þeir aðilar hjá varnaraðila sem komið hafi að ákvörðun og útgreiðslu bónusa til sóknaraðila, þ.e. Ingólfur Helgason, Svali Björgvinsson og Ingvar Vilhjálms­son, hafi verið sammála um að í ágúst/september 2008 þegar kom að greiðslu bónusa fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 hefði ekki verið í gangi neitt sérstakt samkomulag við sóknaraðila sem tryggja ætti honum tiltekinn lágmarksbónus. Hafi sóknaraðili því fengið greiddan bónus sem tekið hafi mið af afkomu bankans og frammi­stöðu starfsmannsins.  Í því sambandi bendi varnaraðili á það sem haft sé eftir Svala Björgvinssyni í fyrrgreindri skýrslutöku þegar hann var spurður um hvort hann kannaðist við að gert hefði verið bindandi munnlegt samkomulag við sóknaraðila, „…við bónusúthlutun 2008, sem er þá… umræðan er þá í júní, júlí og hugsanlega fram í ágúst 2008.  Að Ríkharður fær bónus sem er lægri heldur en það sem hann hafði ætlað, skv. þessu samkomulagi.  Þá var farið yfir þetta og þá var það metið svo að samkomulagið var útrunnið, hefði ekkert verið loforð til framtíðar heldur það ætti að renna út og ætti ekki að gilda áfram.  Á þeim tíma var ég að skoða… Það var ekki til neitt skriflegt um þetta. Þetta var þá samtal sem Ingvar Vilhjálmsson átti við Ríkharð um það að þetta yrði loforð í ákveðinn tíma en ekki til framtíðar.  Og þá miðað við 12 mánuði eins og almenna reglan“.

Í ljósi þessa framburðar sé fyrirliggjandi yfirlýsingu Ingvars Vilhjálmssonar sérstak­lega mótmælt sem rangri og án nokkurs sönnunargildis.  Sönnunarbyrði fyrir því að kom­ist hafi á munnlegur samningur milli sóknaraðila og varnaraðila um tiltekin lág­marks­kjör til handa sóknaraðila, sem gilda hafi átt til frambúðar og væru ekki háð skilyrð­um um tiltekna arðsemi eigin fjár hjá varnaraðila eða mati á frammistöðu sókn­ar­aðila, hvíli alfarið á sóknaraðila.

Hefði samkomulagið átt að gilda ótímabundið og vera breyting á launakjörum sóknar­aðila til frambúðar og tryggja honum tiltekin launakjör án tillits til afkomu varnaraðila eða frammistöðu sóknaraðila, umfram það sem leiði af lögum eða kjarasamningum eða venjum í bankanum, sé ljóst að gengið hefði verið frá samkomulaginu af þar til bærum aðilum með formlegum hætti.  Samkomulagið hefði því verið staðfest skrif­lega, til dæmis í formi viðauka við ráðningarsamning sóknaraðila og gert innan mán­að­ar frá því að breytingin skyldi koma til framkvæmda í samræmi við 1.10.2. gr. kjarasamnings milli VR og Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2004 sem náð hafi til sóknaraðila sem félagsmanns í VR á þessum tíma.  Það hafi hins vegar ekki verið gert sem bendi eindregið til þess að umrætt samkomulag hafi ekki átt að gilda til frambúð­ar.  Sóknaraðila hefði verið í lófa lagið að óska eftir slíkri skriflegri staðfestingu hefði hann talið að samkomulagið ætti að gilda ótímabundið.  Þessu til viðbótar leggi varnar­­aðili áherslu á að greiðsla bónusa til starfsmanna hafi nánast undantekn­ingar­laust verið háð því að fyrirframgefið arðsemismarkmið næðist, þ.e. 15% arðsemi eigin fjár.  Ljóst sé að greiðsla bónusa fyrir tímabilið júlí – desember 2008, sem hefði kom­ið til greiðslu í febrúar 2009, hafi verið háð því arðsemis­mark­miði.  Megi öllum vera það ljóst og sé óumdeilt að það markmið hafi ekki náðst eftir fall bankans í október 2008.  Sé ljóst að gríðarlegt tap hafi verið á rekstri bankans á árinu 2008 og ekki síst á síðari sex mánuðum ársins.  Skjóti það því skökku við að sóknaraðili fari fram á bónus fyrir störf sín hjá varnaraðila á sama tímabili og varnaraðili hafi lent í greiðsluþroti og verið tek­inn yfir af Fjármálaeftirlitinu.

Þá sé rétt að benda á að á árinu 2007 hafi verið ákveðið launaskrið og hafi greiðsla bónusa náð hámarki það ár hjá flestum fjármálafyrirtækjum á Íslandi enda afkoma flestra þeirra mjög góð það ár.  Afkoma flestra ef ekki allra fjármálafyrirtækja á Ís­landi hafi versnað til muna á árinu 2008 og hafi því ekki verið óeðlilegt að bónus­greiðsl­ur til starfsmanna yrðu mun lægri í samræmi við versnandi afkomu fyrirtækj­anna.

Grunnlaun sóknaraðila hafi verið 504.753 krónur 1. febrúar 2008, er kjarasamningur milli VR/LÍV og Samtaka atvinnulífsins hafi tekið gildi.  Samkvæmt grein 1.2.1. í kjarasamningnum skyldi grunnhækkun launa við gildistöku samningsins vera 5,5% fyrir þá starfsmenn sem voru í starfi hjá launagreiðanda 1. janúar 2007.  Þar sem sóknar­aðili hafi starfað hjá varnaraðila á þeim tíma hafi hann átt rétt á 5,5% grunn­hækk­un launa, eða að mánaðarlaun hans yrðu hækkuð um 27.761 krónu.  Mánaðarlaun sóknaraðila hafi hins vegar verið hækkuð um 195.247 krónur eða 38,5% á árinu 2008, úr 504.753 krónum í 700.000 krónur á mánuði.  Nemi launahækkunin hærri fjárhæð en sóknaraðili hefði fengið frá varnaraðila miðað við 5,5% launhækkun fram að þeim tíma sem launahækkunin hafi tekið gildi 1. ágúst 2008.  Fullyrðingu lögmanns sóknaraðila um að mánaðarleg grunnlaun sóknaraðila hafi verið óbreytt á árinu 2008 sé því hafnað sem rangri.  Launahækkun sóknaraðila í ágúst 2008 bendi enn frekar til þess að varnaraðili hafi litið á samkomulagið sem ágreiningur standi um sem niður fallið.  Geti varnaraðili því ekki talist hafa viðurkennt í framkvæmd að sam­komu­lagið væri gildandi samningur um heildarlaun, líkt og sóknaraðili haldi fram.

Þegar sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum í október 2008 hafi föst mánaðarlaun hans verið 700.000 krónur og hafi hann átt rétt á þeirri fjárhæð á mánuði á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá varnaraðila.  Sóknaraðili hafi unnið hjá Nýja Kaupþingi banka hf. á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá varnaraðila í desember 2008, janúar 2009 og febrúar 2009, fyrir 700.000 krónur á mánuði.  Á þriggja mánaða uppsagnar­fresti hafi sóknaraðili því samtals haft 2.100.000 krónur í laun frá Nýja Kaupþingi banka hf. sem sé sama fjárhæð og hann hefði fengið vegna vinnu í þágu varnaraðila á sama tíma.  Fullyrðingu lögmanns sóknaraðila um að vangreidd séu laun á uppsagnar­fresti sé því hafnað sem rangri.  

Verði fallist á að við uppsögn sóknaraðila í október 2008 hafi verið í gildi skuldbind­andi munnlegt samkomulag um tiltekin lágmarkskjör honum til handa þá geri varnar­aðili ekki ágreining um að sú fjárhæð sem honum beri njóti rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.  Varnaraðili hafni því hins vegar að heildarlaun sóknaraðila geti numið þeirri fjárhæð sem sóknaraðili telji vangoldin.  Sóknaraðili hafi verið að meðal­tali með 1.978.236 krónur á mánuði í laun á árinu 2007 að teknu tilliti til þess að 20% af bónusgreiðslum sóknaraðila hafi verið frestað til kaupa í hlutum í varnaraðila og ráð­­staf­að í svokallaðan bónuspott, í samræmi við ákvæði 2b. í samningi sem gerður hafi verið við varnaraðila um sérstakt fyrirkomulag vegna bónusgreiðslna í júlí 2007.

Verði talið að sóknaraðili eigi vangoldin laun hjá varnaraðila vegna þess hluta ársins 2008 sem hann hafi starfað hjá varnaraðila geti hann ekki átt rétt á hærri launum en hann hafi fengið fyrir störf hjá varnaraðila á árinu 2007.  Varnaraðili telur því ekki forsendur fyrir öðru en að heildarlaun sóknaraðila vegna starfa fyrir varnaraðila á árinu 2008 taki mið af meðaltalslaunum hans á árinu 2007 og geti í mesta lagi verið  21.760.596 krónur eða 1.978.236 krónur á mánuði.  Taki það til þess tímabils á árinu 2008 sem sóknaraðili hafi verið í starfi hjá varnaraðila eða frá janúar fram til loka nóvembermánaðar.

Sóknaraðili hafi fengið samtals 11.402.399 krónur í laun á fyrrgreindu tímabili á árinu 2008.  Verði talið að fyrrgreint samkomulag hafi enn verið í gildi við uppsögn sóknar­aðila, geti vangreidd laun fyrir tímabili janúar – nóvember 2008 í mesta falli verið 10.358.197 krónur en ekki 17.783.753 krónur líkt og sóknaraðili haldi fram að sé vangoldið vegna tímabilsins.    

Þótt svo fari að fallist verði á að við uppsögn sóknaraðila í október 2008 hafi verið í gildi skuldbindandi munnlegt samkomulag milli aðila þá hafni varnaraðili því í öllum tilvikum að sóknaraðili geti átt rétt á bónusgreiðslum á uppsagnarfresti.

Ljóst sé og óumdeilt að grundvöllur munnlega samkomulagsins hafi verið að sóknar­aðili fengi greiddan ákveðinn bónus tvisvar á ári.  Því til staðfestingar megi benda á að hluti greiðslu til sóknaraðila hafi farið fram í formi hlutabréfa í svokallaðan bónuspott.  Þá sé einnig ljóst að grundvallarskilyrði þess að greiddur sé út bónus til starfsmanna í fyrirtækjum að fyrirtækin skili hagnaði og séu í rekstri.  Við fall sóknaraðila og skipun skilanefndar yfir bankanum í október 2008 hafi sú forsenda brugðist hjá varnaraðila.  Þá liggi einnig fyrir hjá varnaraðila að vinnuframlag starfs­manna hafi verið grund­vall­ar­­skilyrði þess að þeir kæmu til greina við úthlutun bónusgreiðslna.  Bónus­greiðslur hafi ekki verið inntar af hendi til starfsmanna sem látið höfðu af störfum við út­greiðslu bónusa.  Sóknaraðili geti því ekki gert kröfu um bónusgreiðslur fyrir tíma­bil í upp­sagn­ar­fresti enda hafi hann sannanlega engum störfum sinnt fyrir varnaraðila á þeim tíma.

Geti því ekkert réttlætt þá kröfu sóknaraðila að fá greiddan bónus fyrir tímabil sem hann hafi ekki verið að störfum fyrir varnaraðila.  Þá megi og benda á að umræddur bónus hefði ekki gjaldfallið fyrr en eftir úrskurðardag þegar varnaraðili hafi verið kom­inn í slitameðferð.  Ljóst sé að sóknaraðili beri sem fyrr alla sönnunarbyrði fyrir því að honum geti borið að fá greiddan bónus frá varnaraðila á því tímabili sem hann hafi sinnt störfum hjá Arion banka hf. áður Nýja Kaupþingi banka hf.

Þá sé einnig vísað til þess að í samningi aðila um svokallaðan bónuspott komi fram að forsenda þess að sóknaraðili fái úthlutað úr pottinum sé að hann sé enn að störfum hjá varnaraðila við úthlutun á þriggja ára tímabili.  Megi því segja að með því hafi sóknar­aðili fallist á, að minnsta kosti að hluta til, að bónusgreiðslur varnaraðila til hans væru háðar vinnuframlagi hans fyrir bankann og því skilyrði að hann væri enn að störfum fyrir hann.

Af framangreindu sé ljóst að munnlegt samkomulag sem gert hafi verið við sóknar­aðila í mars 2007 hafi verið niður fallið þegar sóknaraðila var sagt upp störfum og sé ekki skuldbindandi gagnvart varnaraðila.  Því beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila um vangoldin laun á árinu 2008 og laun á þriggja mánaða uppsagnarfresti, er taki mið af fyrrgreindu samkomulagi.

 Kröfu sína um málskostnað styður varnaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Sé málið flutt á grundvelli XXIV. kafla  laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. sömu laga.

V

Í máli þessu liggur fyrir og er óumdeilt að yfirmaður sóknaraðila, Ingvar Vilhjálms­son, framkvæmda­stjóri markaðsviðskipta varnaraðila, gerði munnlegan samning við sóknar­aðila í mars 2007 um ráðningarkjör.  Greinir aðila á um inntak samningsins en óumdeilt er að samkomulag var um að sóknaraðili fengi greiddan bónus til að tryggja honum tiltekin heildarlaun.  Sóknaraðili kveður samninginn hafa verið þess efnis að honum yrðu tryggð að lágmarki 2.400.000 krónur í laun á mánuði og að samningurinn hafi verið ótímabundinn.  Varnaraðili kveður samninginn einungis hafa verið til eins árs, vegna launa árið 2007.  Þá telur varnaraðili að verði talið að samningur þessi hafi verið ótímabundinn hefðu laun sóknaraðila ekki átt að vera hærri á árinu 2008 en þau voru á árinu 2007.

Sóknaraðili hefur máli sínu til stuðnings lagt fram yfirlýsingu frá fyrrum yfirmanni sín­um hjá varnaraðila, Ingvari Vilhjálmssyni, sem gerði hið munnlega samkomulag við hann.  Í yfirlýsingunni kemur fram að grunnlaun sóknaraðila yrðu óbreytt en af­komu­tenging launa hans fæli í sér að heildarlaun hans skyldu að lágmarki vera 2.400.000 krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2007 og að samningurinn væri ótíma­bund­inn.  Staðfesti Ingvar fyrir dómi að samningurinn hefði verið þessa efnis.  Vitnið Svali Björgvinsson, fyrrverandi starfsmannastjóri hjá varnaraðila, bar fyrir dómi að hann myndi eftir að Ingvar Vilhjálmsson, yfirmaður sóknaraðila, hefði komið til sín og sagt sér frá því að gert hefði verið ákveðið samkomulag við sóknaraðila um að honum yrðu tryggð ákveðin lágmarkslaun með því að bæta grunnlaunin með bónus en hann mundi ekki hver fjárhæðin hefði verið og kvaðst hafa litið svo á ekki ætti að greiða samkvæmt samkomulaginu eftir árið 2007.  Vitnið Ingólfur Helgason, fyrrver­andi for­stjóri varnaraðila, bar fyrir dómi að hann kannaðist við að gert hafi verið sam­komu­lag við sóknaraðila þar sem honum hefðu verið tryggð ákveðin lágmarkslaun en kvaðst ekki muna fjárhæðirnar.  Þá kvaðst hann efast um að samningurinn hefði átt að vera ótímabundinn með öllu en hann vissi ekki til hve langs tíma samningurinn hafi verið gerður.

Fyrir liggur að gerður var skriflegur ráðningarsamningur við sóknaraðila þegar hann hóf störf hjá varnaraðila þar sem laun hans voru tilgreind.  Höfðu þau hækkað nokkuð frá undirritun samningsins fram til þess tíma er honum var sagt upp störfum hjá varn­ar­aðila í október 2008 eða úr 450.000 krónum í 700.000 krónur.  Í grein 1.10.2 í kjara­samn­ingi VR og SA frá 2004 sem gilti um ráðningarsamband aðila, sagði að breytingar á ráðningarkjörum umfram það sem leiði af lögum eða kjarasamningum skuli staðfesta skriflega, sbr. samkomu­lag aðila vinnumarkaðarins frá 10. apríl 1996 um skyldu vinnuveitanda að ganga frá skriflegum ráðningarsamningum eða skriflegri staðfestingu ráðningar við starfsmenn sem gert var með tilvísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. tilskipun 91/533/EBE.  Sú skylda að staðfesta skriflega breyt­ing­ar á ráðningarkjörum sóknaraðila hvíldi á varnaraðila sem vinnuveitanda en hann brást þeirri skyldu sinni og verður hann að bera hallann af sönnunarskorti á því hvert efni samningsins var.  Hefur varnaraðila ekki tekist að hnekkja því sem fram kemur í ótvíræðri yfirlýsingu Ingvars Vilhjálmssonar um efni hins munnlega sam­komu­lags og þykir ekkert fram komið í málinu sem rýrir sönnunar­gildi þeirrar yfirlýs­ingar.  Þykir sóknaraðili því hafa sýnt fram á það svo óyggjandi sé að ótímabundinn samn­ingur hafi komist á milli aðila þar sem sóknaraðila voru tryggð heildarlaun sem vera skyldu að lágmarki 2.400.000 krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2007.

Þar sem því hefur verið slegið föstu að lágmarkslaun sóknaraðila hafi átt samkvæmt framangreindum samningi að vera 2.400.000 krónur verður ekki fallist á það með varn­ar­aðila að laun sóknaraðila á árinu 2008 takmarkist við fjárhæð þeirra launa sem hann hafði á árinu 2007 enda liggur fyrir að launin hans á því ári voru skert vegna minna vinnu­framlags af hans hálfu, en ekki er ágreiningur um að sóknaraðili hafi fengið greidd laun árið 2007 samkvæmt samningi aðila að teknu tilliti til minna vinnuframlags af hans hálfu.  Þá liggur ekkert annað fyrir en að sóknaraðili hafi skilað fullu vinnuframlagi á árinu 2008.

Eins og rakið hefur verið voru laun sóknaraðila samkvæmt ráðningarsamningi og hinum munnlega samningi samsett, annars vegar grunnlaunin og hins vegar hin svo­kall­aða afkomutengda bónusgreiðsla.  Eins og mál þetta liggur fyrir var bundið í samningi aðila hver lágmarkslaunin og þar með bónusgreiðslan væru að meðaltali á mánuði og var varnaraðili bundinn af því að greiða þá fjárhæð að lágmarki.  Var lág­marks­bónusgreiðslan því hvorki afkomutengd né háð ákvörðun varnaraðila nema að því leyti sem hún kynni að vera hærri en sem næmi lágmarksfjárhæðinni og hafði varnaraðili því ekki forræði á því að lækka hana eða fella hana niður ef honum sýndist svo.  Þá bera launaseðlar sóknaraðila vegna 2007 og 2008 með sér að af bónus­greiðsl­um þeim sem sóknaraðili fékk greiddar úr hendi varnaraðila voru greidd lífeyris­sjóðs­ið­gjöld, stéttarfélagsgjöld og staðgreiðsla opinberra gjalda.  Verða heildargreiðslur sókn­ar­aðila samkvæmt ráðningarsamningi og hinum munnlega samningi því talin laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Þá er óumdeilt að sóknarðaðili átti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti og með hliðsjón af því sem að framan er rakið um fjárhæð launa sóknaraðila verður að fallast á að hann hafi átt rétt á þeim greiðslum í þá þrjá mánuði sem uppsagnarfresturinn varði að frádregnum þeim launum sem hann hafði annars staðar á sama tíma.  Með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 er sú krafa sóknaraðila forgangs­krafa.

Varðandi kröfu sóknaraðila um greiðslu framlags í lífeyrissjóð þá hefur sóknaraðili ekki rökstutt hvernig hann getur átt aðild að slíkri kröfu og verður því að hafna henni.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður krafa sóknaraðila tekin til greina með eftirfarandi hætti:

Umsamin laun                                                 ( janúar til nóvember 2008)

26.400.000

Greidd laun á árinu 2008

-10.232.951

Laun í uppsagnarfresti

7.200.000

Greidd laun á uppsagnarfresti

-2.100.000

Samtals                                                            

21.267.049

Dráttarvextir af kröfunni frá 22. apríl 2009 eru eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðis­auka­skatts.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Þröstur Ríkharðsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Krafa sóknaraðila, Ríkharðs Daðasonar, að fjárhæð 21.267.049 krónur er viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings banka hf.  Dráttarvextir af kröfunni frá 22. apríl 2009 er eftirstæð krafa.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.