Hæstiréttur íslands

Mál nr. 246/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsvist


Þriðjudaginn 3

 

Þriðjudaginn 3. júlí 2001.

Nr. 246/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsvist.

Gæsluvarðhaldsfanginn X kærði þá ákvörðun héraðsdómara að synja honum um heimild til að útvega sér sjálfur fæði og senda póst í gegnum tölvu. Var ákvörðunin reist á 108. gr. laga nr. 19/1991 og reglugerð nr. 179/1992 um gæsluvarðhaldsvist. Í dómi Hæstiréttar kemur fram, að í a. lið 1. mgr. 108. gr. nefndra laga sé meðal annars kveðið á um að gæsluföngum sé heimilt að útvega sér sjálfir og taka við fæði. Þrátt fyrir heimild dómsmálaráðherra til að setja nánari reglur um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar í reglugerð, sbr. 3. mgr. 108. gr. laganna, þótti slíkt reglugerðarákvæði ekki geta staðið framar eða breytt inntaki skýrrar lagaheimildar. Fallist var á kröfu X um að útvega sér sjálfur fæði í gæsluvarðhaldsvist, en að öðru leyti var kröfum hans hafnað. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2001, þar sem kröfum varnaraðila um tiltekin atriði varðandi tilhögun gæsluvarðhaldsvistar var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að honum verði heimilað að útvega sér sjálfur fæði í gæsluvarðhaldsvist og heimilaður takmarkaður aðgangur til póstsendinga í gegnum tölvu.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði sætir varnaraðili gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vegna gruns um fíkniefnalagabrot. Öllum takmörkunum á réttindum hans sem gæslufanga hefur verið aflétt. Hann gerði athugasemdir við framkvæmd gæsluvarðhaldsins með bréfi til Fangelsismálastofnunar ríkisins 28. maí 2001. Tóku þær meðal annars til þess að hann óskaði eftir að útvega sér sjálfur fæði og að sér yrði tryggður takmarkaður aðgangur til sendingar pósts í gegnum tölvu. Var erindi hans hafnað. Varnaraðili bar fyrrgreindar kröfur sínar undir héraðsdómara 26. júní 2001 á grundvelli 4. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Héraðsdómari hafnaði þeim með hinum kærða úrskurði.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 skulu gæsluvarðhaldsfangar sæta þeirri meðferð, sem nauðsynleg er til þess að gæslan komi að gagni og góð regla haldist í gæslunni, en varast skal að beita þá hörku eða harðýðgi. Um gæsluna gilda annars þær reglur, sem fram koma í a. til f. lið ákvæðisins. Í a. lið er kveðið á um að gæsluföngum sé heimilt að útvega sér sjálfir og taka við fæði og öðrum persónulegum nauðsynjum, þar á meðal fatnaði. Þrátt fyrir heimild dómsmálaráðherra til að setja nánari reglur um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar í reglugerð, sbr. 3. mgr. 108. gr. nefndra laga, geta slík reglugerðarákvæði ekki staðið framar eða breytt inntaki skýrrar lagaheimildar. Ekki hefur verið sýnt fram á að varnaraðili hafi misnotað lagaheimild þessa. Að þessu athuguðu verður ekki fallist á það með héraðsdómara að höfnun Fangelsismálastofnunar á beiðni varnaraðila um að útvega sér sjálfur fæði hafi verið réttmæt.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um kröfu varnaraðila um heimild til að senda póst í gegnum tölvu.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er heimilt að útvega sér sjálfur fæði í gæsluvarðhaldsvist.

Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2001.

Árið 2001, fimmtudaginn 28. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigurði Halli Stefánssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi:

Verjandi kærða X, kt. […],  krefst úrskurðar með vísan til 75. gr. laga nr. 19/1991.

Framkomin krafa er gerð vegna synjunar á  erindi, dags. 28. maí 2001, er laut að tilteknum réttindum nefnds gæsluvarðhaldsfanga.  Í bréfi verjandans, sem barst dóminum 26. þ.m., segir að kærði hafi verið handtekinn 16. apríl s.l. vegna gruns um innflutning ólöglegra fíkniefna.  Hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 17. apríl en sú vist síðan verið framlengd til 13. júní með dómi Hæstaréttar 7. maí og síðan á ný með úrskurði þessa dóms 13. júní og þá til 25. júlí  n.k.  Að fyrsta úrskurðinum uppkveðnum hafi kærði verið fluttur í Fangelsið á Litla Hrauni og látinn sæta öllum þeim takmörkunum sem 108. gr. laga nr. 19/1991 heimili í b – e lið en heimsóknarbanni ættingja hafi verið aflétt 27. apríl.  Öllum takmörkunum á réttindum hafi síðan verið aflétt samhliða því að úrskurðað hafi verið um kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr.  108. gr. laga nr. 19/1991.

Verjandi kærða gerði athugasemdir um framkvæmd gæsluvarðhalds hans með bréfi, dags. 28. maí 2001, til Fangelsismálastofnunar ríkisins.  Þær tóku m.a. til eftirfarandi atriða:

a)  Að honum skuli ekki vera heimilað að taka á móti gestum í klefa sínum.

b)  Hann óski eftir að útvega sér sjálfur fæði en foreldrar hans hafi í hyggju að útvega honum þann mat sem hann óski eftir að fenginni heimildinni.

c)  Hann óski eftir að sér verði tryggður takmarkaður aðgangur til sendingar pósts í gegnum tölvu.

Svarbréf er dagsett 29. maí 2001 og verður greint frá afstöðu stofnunarinnar til framangreinds:

a)  Vísað er til þess að 44. gr. reglugerðar nr. 179/1992 hafi verið breytt með reglugerð nr. 177/1997 þar sem sú breyting hafi verið sett inn að gæsluvarðhaldsfangar taki á móti gestum í sérstöku heimsóknarherbergi sé það fyrir hendi.  Slíkt heimsóknarherbergi sé til staðar í Fangelsinu Litla Hrauni og sé það notað í stað heimsókna í klefa fanga.  Föngum sé því ekki gefinn kostur á heim­sóknum í klefa sína.

b)  Gæsluvarðhaldsfanga sé heimilt að útvega sér sjálfur fæði sbr. 28. gr. reglugerðar nr. 179/1992.  Hins vegar sé tekið fram að forstöðumenn fangelsa geti takmarkað eða bannað að fangi fái sent fæði sé hætta á  að það raski góðri reglu eða öryggi í fangelsinu.  Aðstæður séu þannig í Fangelsinu Litla Hrauni að lausagæslu­fangar séu vistaðir án afgerandi aðskilnaðar frá afplánunarföngum.  Með vísun til nefnds ákvæðis hafi slíkum beiðnum lausagæslufanga verið hafnað þar sem það sé talið geta raskað góðri reglu og öryggi innan fangelsisins vegna þess að aðrir fangar hafi ekki þessi sömu réttindi.

c)  Í reglugerð nr. 179/1992 sé fjallað um bréfaskipti í VII. kafla.  Með bréfaskiptum sé þar átt við rituð bréf á bréfsefni sem send séu með póstþjónustu í umslagi.  Ekki sé í reglugerðinni eða öðrum lögum eða reglugerðum talað um sendingu gagna með rafrænum hætti.  Þá telji Fangelsismálastofnun ófært að heimila þess háttar notkun þar sem eftirlit með slíkum sendingum sé erfitt og í raun ófram­kvæmanlegt.

Af hálfu kærða eru framangreindar synjanir Fangelsismálastofnunar ríkisins bornar undir dóminn á grundvelli 4. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.

Fangelsismálastjóri gaf skýringar fyrir dóminum.

Varðandi heimsóknir til fanga þá skýrir hann svo frá að á Litla-Hrauni séu sérstök heimsóknarherbergi og gildi það jafnt um afplánunarfanga sem aðra að einungis sé heimilt að taka á móti gestum í þessum herbergjum.

Varðandi heimild til að útvega sér sjálfur fæði skýrir hann svo frá að í Fangelsinu Litla-Hrauni eins og í öðrum fangelsum sé heimilt að senda fæði til gæsluvarðhaldsfanga sem séu í einangrun en ekki til annarra og gildi þetta jafnt um afplánunarfanga sem aðra.

Varðandi rétt til notkunar "rafpósts" skýrir hann svo frá að internettengingar hafi ekki verið leyfðar í Fangelsinu Litla-Hrauni fremur en öðrum fangelsum. Það sé vegna þess að ekki sé hægt að koma við eftirliti á sama hátt eins og um venjulegar póstsendingar væri að ræða.

Við fyrirtöku málsins féll verjandi kærða frá hinni fyrstu af framangreindum kröfum. Fulltrúi lögreglustjóra krafðist þess v/Fangelsismálastofnunar ríkisins að kröfunum yrði hafnað.

Hér á eftir verður greint frá helstu röksemdum verjanda kærða varðandi hvort framantalinna atriða jafnframt því að dómurinn tekur afstöðu til ágreiningsefnanna (fylgt verður sömu röðun eftir stafliðum).

b)  Verjandinn vísar til þess að heimild gæsluvarðhaldsfanga til að taka við fæði sé ótvíræð skv. a lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 og skorti 28. gr. reglu­gerðar nr. 179/1992 lagastoð.

Samkvæmt a lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 er gæsluföngum heimilt að útvega sér sjálfir og taka við fæði. Skv. 3. mgr. sömu greinar skal dómsmálaráðherra setja nánari reglur um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar í reglugerð, þar á meðal um nánari framkvæmd þeirra atriða sem í 1. mgr. getur. Setning reglugerðar nr. 179/1992 styðst við þessa lagaheimild. Í 2. mgr. 28. gr. hennar segir að gæsluvarðhaldsfanga sé heimilt að útvega sér og taka við fæði en forstöðumaður fangelsis geti takmarkað eða bannað að fangi fái sent fæði ef hætta þykir á að það raski góðri reglu eða öryggi í fangelsinu. Fangelsismálastjóri hefur upplýst að í Fangelsinu Litla-Hrauni eins og í öðrum fangelsum sé heimilt að senda fæði til gæsluvarðhaldsfanga sem séu í einangrun en ekki til annarra og gildi þetta jafnt um afplánunarfanga sem aðra. Með vísan til þessa er fallist á að höfnun Fangelsismálastofnunar ríkisins hafi verið réttmæt þar sem annars kynni reglu og öryggis innan fangelsins vera raskað.

c)  Krafan er sett fram með vísan til þeirra raka sem búi að baki VII. og VIII. kafla reglugerðar nr. 179/1992 og d lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.

Í d lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 segir að gæslufangar megi senda og taka við bréfum og öðrum skjölum. Þó geti sá sem rannsókn stýri látið athuga efni bréfa eða annarra skjala og kyrrsett þau ef nauðsyn ber til í þágu rannsóknar. Í VII. kafla reglugerðar nr. 179/1992 eru ákvæði um bréfaskipti. Skv. 55. gr. er gæsluvarðhalds­fanga heimilt að taka við bréfum og öðrum skjölum. Skv. 59. gr. getur sá sem stýrir rannsókn látið athuga efni bréfs eða annarra skjala áður en þau eru afhent gæsluvarðhaldsfanga eða sent frá honum. Í tilvitnuðum lögum og reglugerð er ekkert ákvæði að finna um sendingar pósts í gegnum tölvu, "rafpóst". Eigi verður séð að efni séu til lögjöfnunar að þessu leyti og dóminum er ekki ljóst hvers umbúnaðar væri þörf til þess að viðhlítandi eftirliti væri við komið. Er ekki fallist á að kærði eigi kröfu á því að komið verði á þeim búnaði sem til þarf til að fullnægja óskum hans.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða úrskurðar þessa sú að kröfum þeim sem verjandi kærða hefur sett fram af hans hálfu er hafnað.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Framangreindum kröfum kærða, X, er hafnað.