Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2010


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Sjálfskuldarábyrgð


Fimmtudaginn 21. október 2010.

Nr. 116/2010.

Sigurður Örn Sigurðsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Skuldamál. Sjálfskuldarábyrgð.

A höfðaði mál þetta til heimtu skuldar úr hendi S á grundvelli yfirlýsingar hans 15. nóvember 2005 um sjálfskuldarábyrgð á láni. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að þrátt fyrir að sérstakt mat á greiðslugetu skuldara lánsins hefði ekki farið fram, samkvæmt samkomulagi milli samtaka bankastofnana, neytendasamtakanna og stjórnvalda um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, leiddi það ekki til ógildingar ábyrgðaryfirlýsingar S enda hefði mátt ráða af orðalagi yfirlýsingarinnar að S hefði tekist á hendur ábyrgðina þótt skuldarinn hefði ekki staðist sérstakt greiðslumat. S bar einnig fyrir sig að forveri A hefði vanrækt að láta S í té yfirlit yfir ábyrgðarskuldbindingar hans við bankann þar til í árslok 2008, tafir við innheimtutilraunir á hendur skuldara lánsins, forsendubrest og það að hann ætti skaðabótakröfu á hendur S sem hann gæti haft uppi til skuldajafnaðar í málinu, en Hæstiréttur féllst ekki á að framangreint leiddi til brottfalls ábyrgðarinnar. Í dómi Hæstaréttar segir einnig að S væri viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali og að honum hefði verið ljós sú áhætta sem hann tók með því að gangast í ábyrgðina. Væri því ekki fallist á að 36. gr. laga nr. 7/1936 ætti við í málinu. Var héraðsdómur staðfestur um greiðsluskyldu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur lækkað kröfu sína frá þeirri fjárhæð, sem honum var dæmd í héraði. Hann krefst þess nú að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.009.997 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann staðfestingar á málskostnaðarákvörðun héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi höfðaði mál þetta til heimtu skuldar úr hendi áfrýjanda á grundvelli yfirlýsingar hans 15. nóvember 2005 um sjálfskuldarábyrgð á láni að fjárhæð 6.000.000 krónur, sem greiða skyldi með 300 afborgunum á 25 árum. Lánið var einnig tryggt með 2. veðrétti í fasteign skuldara. Í texta ábyrgðaryfirlýsingarinnar segir meðal annars svo: ,,Undirritaðir ábyrgðarmenn lýsa því yfir að þeir hafi kynnt sér fræðslubækling bankans um ábyrgðir og skilja hvað felst í þessari ábyrgð. Undirritaðir ábyrgðarmenn lýsa því yfir að þeir hafi kynnt sér niðurstöður greiðslumats sem framkvæmt var á aðalskuldara/útgefanda ofangreinds skuldabréfs og að það bendir til að aðalskuldari/útgefandi geti ekki staðið við afborganir af skuldabréfinu. Þrátt fyrir það óska undirritaðir ábyrgðarmenn engu að síður að gangast í ábyrgð á skuldabréfinu.“

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína meðal annars á því að ábyrgðaryfirlýsingin sé ekki skuldbindandi fyrir hann þar sem ekki hafi verið sinnt fyrirvarslausri skyldu 3. gr. ,,Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga“ frá 1. nóvember 2001, sem getið er í héraðsdómi, um að fram færi mat á greiðslugetu skuldara. Þótt fyrir liggi að sérstakt mat á greiðslugetu skuldara lánsins hafi ekki farið fram, eins og reglur samkomulagsins kveða á um, hefur það ekki í för með sér ógildi ábyrgðaryfirlýsingar áfrýjanda, enda má ráða af orðalagi hennar að áfrýjandi hefði undirgengist ábyrgðina þótt skuldarinn hefði ekki staðist sérstakt greiðslumat. Er fallist á með héraðsdómi að hafna beri þessari málsástæðu.

Einnig er fallist á með héraðsdómi að það leiði ekki til brottfalls ábyrgðarinnar þótt ósannað sé að áfrýjandi hefði fengið yfirlit frá forvera stefnda um ábyrgðarskuldbindingar hans við bankann í lok hvers árs fyrr en í árslok 2008. Er sannað að áfrýjanda var orðið kunnugt um að skuldin væri í vanskilum síðla árs 2006. Þær tafir, sem urðu við innheimtutilraunir á hendur skuldara lánsins leiða heldur ekki til brottfalls ábyrgðarinnar.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína einnig á því að með hliðsjón af atvikum málsins sé ósanngjarnt og því andstætt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að hann sé skuldbundinn af ábyrgðaryfirlýsingunni. Áfrýjandi er viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali sem hefur reynslu af fasteignaviðskiptum og skjalagerð tengdri þeim. Honum var ljóst að skuldarinn myndi líklega ekki geta staðið við greiðslur afborgana af láninu og þar með ljós sú áhætta sem hann tók með því að gangast í framangreinda ábyrgð. Þá mátti honum vera ljóst að óvissa hlyti að vera um hvort nokkuð fengist upp í kröfuna af andvirði hinnar veðsettu fasteignar. Er þessi málsástæða hans því ekki á rökum reist og verður henni hafnað.

Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjandi hafi ekki sannað á hvaða réttmætu forsendum hann mátti byggja sem ákvörðunarástæðu fyrir því að hann gekkst í ábyrgð fyrir láninu og sem hafi brostið. Verður ábyrgð hans því ekki felld niður á þeim grundvelli að forsendur hans fyrir henni hafi brostið.

Loks hefur áfrýjandi ekki fært sönnur á að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda sem hann geti haft uppi til skuldajafnaðar í málinu. Er þeirri kröfu hans því hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um greiðsluskyldu áfrýjanda með þeirri breytingu sem stefndi hefur gert á höfuðstól kröfunnar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar er haft í huga að stefndi hefur lækkað kröfu sína með vísan til atvika, sem þegar höfðu orðið er hann höfðaði málið.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sigurður Örn Sigurðsson, greiði stefnda, Arion banka hf., 4.009.997 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2008 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2009.

Mál þetta höfðaði Nýi Kaupþing banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 20. mars 2009 á hendur Sigurði Erni Sigurðssyni, kt. 110759-3209, Neðstaleiti 28, Reykjavík.  Málið var dómtekið 9. nóvember sl.

Stefnandi krefst greiðslu á 6.374.391 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2007 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi máls­kostnaðar að mati dómsins. 

Stefndi krefst aðallega sýknu, til vara lækkunar á kröfum stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

Mál þetta varðar ábyrgðaryfirlýsingu er stefndi gaf út þann 15. nóvember 2005.  Þar tókst hann á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi sem Edda Hrönn Kristinsdóttir, kt. 050579-4419, hafði gefið út til stefnda.  Skuldabréfið var að höfuð­stól 6.000.000 króna, til 25 ára, með 300 jöfnum mánaðarlegum afborgunum.  Bréfið var með 2. veðrétti í fasteigninni Grenimelur 47 í Reykjavík.  Ábyrgð þessi skyldi gilda í fjögur ár frá útgáfudegi. 

Í ábyrgðaryfirlýsingu stefnda segir að Edda Hrönn Kristinsdóttir hafi ekki staðist greiðslumat.  Stefnandi lýsti því yfir fyrir dóminum að mat á greiðslufærni Eddu Hrannar hefði ekki farið fram. 

Í greinargerð stefnda er því haldið fram að hann hafi í ársbyrjun 2006 reynt að kanna stöðu umrædds skuldabréfs hjá stefnanda.  Hafi honum verið sagt að óheimilt væri að veita honum upplýsingar um stöðu skuldabréfsins, þar sem það væri honum óviðkomandi.  Nafn hans kæmi ekki fram í gagnagrunni um bréfið.  Þá hefði ábyrgð þessi ekki komið fram í yfirliti Reiknistofunnar um ábyrgðarskuldbindingar.  Slíkar skuldbindingar séu skráðar samkvæmt ákvæðum í Samkomulagi banka og sparisjóða um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, frá 1. nóvember 2001.  Þá bendir stefndi á að nú sé skylda að senda slíkrar tilkynningar, sbr. d. lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. 

Þann 6. desember 2006 krafðist Glitnir banki hf. uppboðs á fasteigninni að Grenimel 47.  Var byggt á skuldabréfi sem tryggt var með þriðja veðrétti, á eftir báðum skuldabréfum stefnanda.  Greiðsluáskorun hafði verið birt veðþola, Eddu Hrönn, í Danmörku.  Gekk uppboðsmál þetta sinn gang og fór fram framhald uppboðs þann 19. nóvember 2007.  Bauð stefnandi þar 50.000.000 króna í eignina, en uppboðið féll niður þar sem það var árangurslaust, enda dugði boðið ekki til að ljúka kröfum er voru rétthærri en kröfur Glitnis banka, sem var einn gerðarbeiðandi. 

Mál vegna þeirrar skuldar, sem hér er rætt um ábyrgð á, var höfðað í mars 2007.  Var stefnan birt í Lögbirtingablaði.  Var fallist á kröfur stefnanda með dómi 15. júní 2007.  Fjárnám var gert í fasteigninni 6. september 2007 og var krafist uppboðs í framhaldi af því. 

Fasteignin var seld nauðungarsölu 14. mars 2008.  Ekkert fékkst upp í kröfu stefnanda á 2. veðrétti af söluverði eignarinnar, 51.000.000 króna.  Stefndi var kaupandi eignarinnar, en hann hafði átt næsthæsta boð.  Hæstbjóðandi stóð ekki við boð sitt. 

Stefnandi átti einnig skuldabréfið er hvíldi á 1. veðrétti.  Fékk hann greiddar samtals 49.730.094 krónur upp í þá skuld.  Samkvæmt úthlutunargerð kom ekkert upp í kröfu stefnanda á 2. veðrétti, kröfu þá sem fjallað er um í þessu máli. 

Stefnda var birt greiðsluáskorun vegna skuldabréfsins þann 1. júlí 2008. 

Friðrik Stefán Halldórsson gaf skýrslu við meðferð málsins.  Hann var starfs­maður stefnda á þeim tíma sem hér skiptir máli, sat m.a. í lánanefnd. 

Hann sagði að foreldrar Eddu Hrannar hefðu ekki getað fengið lán í bank­anum, en faðir hennar hefði fengið sig til að veita lán með því að stefndi væri til­búinn til að ábyrgjast þetta lán.  Það hefði verið til viðbótar láni sem nam 80% af verð­mæti íbúðarinnar.  Hafi lánið verið samþykkt með þessu skilyrði.  Fjallað hefði verið um málið í lánanefnd bankans.  Friðrik kvaðst ekki þekkja neitt til tengsla stefnda við fjölskyldu Eddu Hrannar. 

Friðrik sagði að stefndi Sigurður hefði vitað að Edda Hrönn hefði ekki staðist greiðslumat.  Þá hefði ekki verið framkvæmt greiðslumat vegna þessa láns.  Hann kvaðst hafa haft samband við föður Eddu Hrannar og stefnda eftir að til vanskila kom. 

Stefndi Sigurður Örn gaf skýrslu við aðalmeðferð.  Hann kvaðst hafa kynnst föður Eddu Hrannar.  Hann hefði aldrei hitt hana sjálfa og ekki talað við hana fyrr en lánið var komið í vanskil, þá hafi hann hringt til hennar þar sem hún var í Danmörku.  Hann kvaðst hafa verið tilbúinn að taka á sig ábyrgðina enda hefði Edda staðist greiðslumat vegna lánsins á 1. veðrétti.  Hann hefði ekki tekið eftir því sem segir í yfirlýsingunni um að Edda hefði ekki staðist greiðslumat.  Hann sagði að hann hefði aldrei undirritað ábyrgðaryfirlýsinguna ef hann hefði vitað að ekki hefði verið framkvæmt greiðslumat. 

Sigurður sagðist aldrei hafa átt nein samtöl við Friðrik Halldórsson um þetta lán, það væri rangt hjá Friðrik.  Þá kvaðst hann hafa vitað af uppboðstilraun að kröfu Glitnis banka.  Hann hafi þá stöðugt verið að biðja stefnanda að gæta hagsmuna sinna við uppboðið. 

Sigurður kvaðst vera viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á ábyrgð stefnda samkvæmt framangreindi yfirlýsingu.  Hann segir að skuldin samkvæmt bréfinu hafi verið gjaldfelld 1. nóvember 2006.  Þá hafi eftirstöðvar þess numið 6.374.391 krónu.  Hann vísar til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða. 

Við aðalmeðferð málsins mótmælti stefnandi málatilbúnaði stefnda.  Hann kvað stefnda ekki vera neytanda í viðskiptum við sig, en hann sé lærður viðskipta­fræðingur og löggiltur fasteignasali.  Hann kvaðst hafa staðið eðlilega að innheimtu kröfunnar gagnvart útgefanda bréfsins.  Hún hefði verið flutt úr landi og ekki fundist í Danmörku.  Því hefði verið farin sú leið að höfða mál með birtingu stefnu í Lög­birtingablaði. 

Stefnandi sagði að lög nr. 32/2009 ættu ekki við.  Þá mótmælti hann þeim full­yrðingum stefnda að honum hefði verið neitað um upplýsingar um stöðu skuldarinnar.  Hann mótmælir því að hann hafi sýnt af sér tómlæti.  Starfsmaður sinn, Friðrik Halldórsson, hafi margoft haft samband við stefnda út af þessari skuld.  Þá bendir hann á að ábyrgðinni hafi verið markaður ákveðinn gildistími.  Þá mótmælir stefnandi því að stefndi hafi orðið fyrir tjóni.  Þá sé ekki aðstöðumunur með aðilum. 

Stefnandi mótmælti kröfu um riftun.  Telur hann að stefndi hefði þurft að gagnstefna til að koma slíkri kröfu að, sbr. 28. gr. laga nr. 91/1991.  Þá hafi hann ekki vanefnt samning aðila á nokkurn hátt.  Loks mótmælti stefnandi þeirri fullyrðingu stefnda að hann hafi ekki vitað um getuleysi skuldara til að greiða.  Stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni.  Þá vísaði hann til 7. og 12. gr. innheimtu­laga nr. 95/2008. 

Við málflutning breytti stefnandi vaxtakröfu sinni þannig að hann krafðist ekki vaxta fyrr en frá 1. júlí 2007, í stað nóvember 2006, en til vara frá síðara tímamarki.  Vísaði hann til 5. gr. laga nr. 38/2001. 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að ekki hafi stofnast til ábyrgðarskuldbindingar sinnar.  Stefnanda hafi borið, í samræmi við 3. gr. samkomulags banka og sparisjóða og Neytendasamtakanna frá 1. nóvember 2001, að meta greiðslufærni skuldara og kynna stefnda niðurstöðu matsins.  Þetta hafi ekki verið gert.  Sér hafi heldur ekki verið veittar upplýsingar um fjárhagsstöðu útgefanda bréfsins.  Vegna þessa sé ábyrgðin ógild. 

Þá byggir stefndi á því að ábyrgðin hafi fallið niður.  Vísar hann hér til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og áðurnefnds samkomulags frá 2001, einkum 5. gr.  Samkvæmt 7. gr. laganna beri að tilkynna ábyrgðarmanni vanefndir lántaka.  Þá beri samkvæmt 5. gr. samkomulagsins að veita ábyrgðarmanni upp­lýsingar um skuldbindingar hans eftir að til ábyrgðar er stofnað.  Þá skuli um hver ára­mót tilkynna um kröfur sem viðkomandi er í ábyrgð fyrir.  Ennfremur beri að tilkynna um vanskil.  Sér hafi verið neitað um upplýsingar um stöðu lánsins í ársbyrjun 2006.  Þá hafi sér ekki verið sent áramótayfirlit.  Sér hafi loks verið tilkynnt um ábyrgðina 1. júlí 2008.  Þá hafi verið of seint fyrir sig að gæta hagsmuna sinna. 

Stefndi segir að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu, sbr. 7. gr. laga nr. 32/2009.  Þá sé vanræksla stefnanda veruleg og leiði samkvæmt 2. mgr. 7. gr. til þess að ábyrgðin sé fallin niður. 

Stefndi fullyrðir að ef stefnandi hefði fullnægt tilkynningarskyldu sinni, hefði hann getað tryggt að krafan hefði greiðst að fullu við nauðungarsölu fasteignarinnar.  Stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti um hagsmuni stefnda, hafi hann með fram­göngu sinni fyrirgert rétti sínum samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni. 

Stefndi segir að stefnandi hefði getað tryggt greiðslu kröfunnar að fullu á fyrra uppboðinu, sem fór fram í nóvember 2007.  Stefnandi hafi eytt miklum tíma í að höfða almennt einkamál á hendur skuldara, þrátt fyrir að hann hefði í höndum veð­skuldabréf með beinni nauðungarsöluheimild.  Þetta hafi tafið framgang málsins og hindrað að fullnusta kröfunnar fengist af veðinu.  Stefndi tekur fram að hann hafi upplýst stefnanda um heimilisfang skuldarans í Danmörku.  Markaðsvirði íbúðarinnar hafi verið mun hærra í nóvember 2007, heldur en í mars 2008. 

Stefndi segir að sér hafi aldrei verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar af­borganir.  Hann hafi fyrir tilstilli Glitnis banka komist að því í mars 2007 að lánið væri í vanskilum.  Þá hafi stefnandi synjað um viðtöku greiðslu er hann hafi boðið fram 13. mars 2007.  Kveðst stefndi hafa boðist til að greiða inn á vörslureikning stefnanda sem næmi vanskilum og greiðslum á afborgunum beggja lána stefnanda, gegn því að fasteigninni yrði afsalað til sín að loknu uppboði.  Hafi hann beðið um að því yrði flýtt. 

Þá telur stefndi að sú vanræksla stefnanda sem áður er lýst leiði til þess að honum sé ekki heimilt að gjaldfella lánið í heild, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. 

Verði ekki á framangreint fallist telur stefndi að með hliðsjón af þeim atriðum sem rakin hafa verið, beri að telja ábyrgðina óskuldbindandi þar sem hún sé ber­sýnilega ósanngjörn, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936. 

Stefndi telur að forsendur sínar fyrir því að takast á hendur ábyrgð á skuldinni hafi brostið.  Lýsir hann yfir riftun ábyrgðarskuldbindingar sinnar.  Vísar hann til óskráðra reglna um brostnar forsendur og verulegrar vanefndar stefnanda. 

Stefndi kveðst nefna sem dæmi að hann hafi mátt treysta því að greiðslugeta skuldara hefði verið metin og að hann hefði staðist matið.  Þá myndi hann eiga þess kost að gæta réttar síns og stefnandi myndi standa eðlilega að innheimtu. 

Þá segir stefndi að það hafi verið ótvíræð forsenda af sinni hálfu og jafnframt ákvörðunarástæða, að framkvæmt hefði verið greiðslumat vegna lánsins sem stefnandi hafði veitt vegna 1. veðréttar. 

Stefndi kveðst ekki hafa tekið sérstaklega eftir því ákvæði í ábyrgðar­yfirlýsingunni þar sem segir að skuldari hafi ekki staðist greiðslumat.  Honum hafi enda ekki verið bent sérstaklega á það.  Þá hafi ekkert greiðslumat legið fyrir.  Telur stefndi samninginn ógildan samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. 

Þá telur stefndi að hann hafi eignast gagnkröfu á hendur stefnanda sem sé jafn há og stefnukrafan.  Með því að láta skuldara ekki gangast undir greiðslumat og kynna það stefnda, vanrækja upplýsinga- og tilkynningaskyldu gagnvart stefnda og fram­göngu við uppboðsmálið, hafi stefnandi valdið stefnda tjóni.  Sér hafi ekki verið gefinn kostur á að greiða, þá hafi greiðsluboði sínu verið hafnað.  Stefndi vísar hér til 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.  Söluandvirði fasteignarinnar hefði dugað til greiðslu skuldarinnar hefði eðlilega verið staðið að innheimtu og uppboð ekki orðið árangurs­laust hið fyrra sinnið.  Af þessu leiði að framganga stefnanda hafi bakað stefnda tjón, sem nemi fjárhæð þeirrar kröfu sem stefnda hefur verið stefnt til að greiða.  Telur stefndi sig eiga þessa gagnkröfu og lýsir yfir skuldajöfnuði. 

Því er lýst nánar í greinargerð sem stefndi telur vanrækslu á upplýsingaskyldu.  Segir hann að sér hafi verið tjáð að handvömm við skráningu bréfsins hjá starfsmanni stefnanda hafi orðið til þess að ábyrgðar hans var ekki getið.  Til þessa megi m.a. rekja þá staðreynd að sér hafi ekki verið kunnugt um að lánið væri í vanskilum fyrr en það var orðið of seint að gæta réttar síns.

Stefndi mótmælir kröfu um dráttarvexti.  Sér hafi ekki verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun.  Því verði hann ekki krafinn um dráttarvexti eða innheimtukostnað. 

Þá telur stefndi að stefnanda hafi ekki verið unnt að gjaldfella lánið í heild gagnvart sér.  Byggir hann hér á lögum nr. 32/2009, 3. og 4. mgr. 7. gr. 

Forsendur og niðurstaða

Stefndi hefur í málatilbúnaði sínum vitnað margoft til laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.  Lög þessi tóku gildi 4. apríl 2009, stuttu eftir að málið var þingfest.  Um gildi laganna gagnvart eldri ábyrgðarskuldbindingum er sett sú almenna regla í 12. gr. að þau gildi, með tilgreindum undantekningum.  Hins vegar er ekki unnt að beita ákvæðum laganna til að meta aðgerðir eða aðgerðaleysi stefnanda áður en lögin tóku gildi.  Þannig verður ekki byggt á 7. gr. laganna um tilkynningar til ábyrgðar­manns, þar sem mál hafði verið höfðað og honum því tilkynnt um vanskilin er lögin tóku gildi.  Þá verður að meta heimild stefnanda til gjaldfellingar lánsins gagnvart stefnda eftir þeim reglum er giltu er hann var krafinn um greiðslu allrar fjár­hæðarinnar. 

Þegar stefndi gekkst undir ábyrgðina var í gildi Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.  Markmiðum reglnanna er lýst í 1. gr. þeirra og eru þau ljóslega að draga úr fjölda þeirra tilvika þar sem einstaklingar takast á hendur ábyrgðir á fjárhagsskuldbindingum annarra aðila.  Það athugast að stefndi er einstakl­ingur, en hann kaus við undirritun yfirlýsingarinnar að tilgreina að hann væri við­skipta­fræðingur og löggiltur fasteignasali.  Tilgangur þeirrar tilgreiningar er ekki augljós, en ekki verður lagt til grundvallar að útgáfa yfirlýsingarinnar hafi verið liður í atvinnurekstri stefnda. 

Sú staðreynd að stefndi er löggiltur fasteignasali leiðir til þess að stefnandi ber ekki sömu skyldur til að upplýsa hann og aðra einstaklinga sem gangast undir ábyrgðir á skuldum annarra.  Stefndi hlaut að gera sér grein fyrir því að veðskuldabréf það sem hann ábyrgðist stæði í veðröð á eftir hárri skuld.  Væri því ekki ólíklegt að á persónulega ábyrgð útgefanda og ábyrgðarmanns reyndi.  Í yfirlýsingu hans sagði berum orðum að skuldari hefði ekki staðist greiðslumat.  Er þýðingarlaust fyrir stefnda að segja að hann hafi ekki lesið þennan hluta textans.  Þá stoðar hann ekki að benda á að honum hafi verið ókunnugt um að aðalskuldarinn, Edda Hrönn Kristinsdóttir, stundaði ekki launavinnu. 

Fram kom undir rekstri málsins að í reynd hafi það verið foreldrar aðal­skuldarans sem keyptu umrædda íbúð, þó svo að kaupin og veðsetningar allar hafi verið gerðar í nafni dóttur þeirra.  Kom enda fram hjá stefnda að hann hefði aldrei rætt við Eddu Hrönn, heldur einungis föður hennar.  Lítil grein var að öðru leyti gerð fyrir tengslum þeirra eða ástæðu þess að stefndi gekkst undir ábyrgðina, sem er allhá.  Verður að gera ráð fyrir því að stefndi hafi vitað að Edda Hrönn var í raun ekki kaupandi íbúðarinnar.  Verður því ekki fallist á með stefnda að sú staðreynd að formlegt greiðslumat var ekki framkvæmt leiði til þess að yfirlýsing hans verði metin ógild frá upphafi. 

Á það verður að fallast að mistök við skráningu hjá stefnanda hafi leitt til þess að stefnda voru hvorki sendar tilkynningar um vanskil, né yfirlit um áramót, sem til­greindu ábyrgðarskuldbindingu þessa.  Á hinn bóginn er ósannað að stefnda hafi verið neitað um upplýsingar um skuldina.  Af skýrslum fyrir dómi, m.a. stefnda sjálfs, er augljóst að hann vissi fullvel um skuldbindingu sína og að hann fylgdist með tilraunum Glitnis banka til að fá eignina selda nauðungarsölu.  Hefur stefndi því ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessara mistaka við skráningu. 

Vissulega má fallast á að umrædd krafa hefði getað greiðst að fullu við fyrri nauðungarsölutilraunina.  Til þess hefði þó einhver þurft að gera hærra boð, en stefndi hefur ekki sýnt fram á að sýslumaður hafi gert mistök er hann taldi að krafa stefnanda myndi ekki greiðast að fullu.  Þá verður stefnanda ekki gefin sök á að hann hafði þá ekki aflað sér nauðungarsöluheimildar.  Hefur stefndi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi vanrækt að gæta réttar síns og þar með stefnda.  Þótt aðrir aðilar hafi þurft styttri tíma til að koma fram kröfum sínum, hefur ekki verið sýnt fram á vanrækslu stefnanda.  Verður krafa stefnanda heldur ekki lækkuð vegna þess að hugsanlega hefði mátt frá greitt upp í hana við nauðungarsöluna, hefði hún ekki orðið árangurslaus.  Loks á stefndi ekki neins konar skaðabótakröfu á hendur stefnanda. 

Stefnandi hefur ekki sýnt af sér slíkt tómlæti að áhrif hafi á réttarstöðu aðila. 

Boð stefnda um greiðslu í mars 2008 var skilyrt og hefur synjun viðtöku því ekki réttaráhrif.  Gjaldfelling hefur því gildi gagnvart stefnda. 

Stefndi hefur ekki rökstutt hvers vegna beitt skuli 36. gr. samningalaga í þessu tilviki.  Þá hefur hann ekki skýrt forsendur sínar fyrir því að gangast undir ábyrgðina og því hefur hann heldur ekki sýnt fram á að þær séu brostnar eða hafi verið rangar.  Sú staðhæfing að það hafi verið forsenda að greiðslumat hafi verið framkvæmt vegna lánsins á 1. veðrétti er ótrúverðug í ljósi þess að stefnda var kunnugt um að Edda Hrönn var í raun ekki kaupandi íbúðarinnar, heldur faðir hennar. 

Verður því að taka til greina kröfu stefnanda.  Ekki er að sjá að innheimtu­kostnaði hafi verið bætt við kröfuna.  Þrátt fyrir að sjá megi af atvikum að stefnda var snemma fullkunnugt um vanskilin, verða dráttarvextir dæmdir frá þeim degi er mán­uður var liðinn frá því að formleg greiðsluáskorun var birt stefnda, þ.e. frá 1. ágúst 2008. 

Stefnda verður gert að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndi, Sigurður Örn Sigurðsson, greiði stefnanda, Nýja Kaupþingi banka hf., 6.374.391 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2008 til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.