Hæstiréttur íslands

Mál nr. 111/2003


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Tekjuskattur
  • Útsvar
  • Bókhald
  • Framtalsbrot
  • Fyrning


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. desember 2003.

Nr. 111/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Halldóri Baldvinssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Tekjuskattur. Útsvar. Bókhald. Framtalsbrot. Fyrning.

H var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfu hans um að lækka bæri vangoldinn virðisaukaskatt og tekjuskattstofn var hafnað þar sem hann hafði ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings að hann hafi haft tiltekinn kostnað af sölu bifreiðanna sem um ræddi og minni tekjur af sölu þriggja þeirra. Með játningu H var jafnframt sannað að hann hefði gerst sekur um hafa látið undir höfuð leggjast að halda tilskilið bókhald vegna tilgreindrar starfsemi í samræmi við það sem lög áskilja og gera ársreikninga vegna hennar. Brotastarfsemin var talin samfelld og brotin því ófyrnd. Brot H voru stórfelld og vörðuðu verulegar fjárhæðir. Hins vegar hafði nokkur dráttur orðið á rannsókn málsins og H ekki sætt refsingu, sem hér skipti máli. Var refsing hans ákveðin fangelsi í sex mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið. Jafnframt var H dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð, 9.000.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en ella að refsing verði milduð.

I.

         Í málinu er ákærða nú gefið að sök í I. kafla ákæru að hafa látið undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattskyldrar atvinnustarfsemi hans í eigin nafni við innflutning og sölu á bifreiðum frá júlí til desember 1995 og að hafa skilað rangri skýrslu vegna greiðslutímabilsins janúar til febrúar 1996 og með þessu komið sér hjá að standa skil á innheimtum virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 1.922.581 króna. Er fjárhæð vangreidds skatts á einstökum greiðslutímabilum tilgreind í hinum áfrýjaða dómi. Þá er honum í II. kafla ákæru nú gefið að sök að hafa látið hjá líða að telja fram til skatts tekjur af áðurnefndri starfsemi á árinu 1995 á skattframtali 1996 og hafa vantalið tekjuskattsstofn um 5.597.175 krónur og komið sér þannig undan að greiða tekjuskatt og útsvar, samtals 2.249.834 krónur. Loks er hann í III. kafla ákæru sakaður um að hafa ekki haldið tilskilið bókhald og gert ársreikninga vegna umræddrar starfsemi árin 1995 og 1996, í samræmi við það sem lög áskilja. Eru ætluð brot ákærða, sem hann var sakfelldur fyrir í héraði og hér eru til meðferðar, nánar heimfærð í ákæru, eins og lýst er í héraðsdómi. 

         Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannssókn á bókhaldi og skattskilum í sjálfstæðri starfsemi ákærða og einkahlutafélagsins B 11. mars 1997, sem lauk með skýrslu 3. maí 2000. Beindist rannsóknin einkum að þeim þætti í starfsemi ákærða og félagsins sem laut að innflutningi og sölu á bifreiðum á árunum 1995 og 1996. Var hún einkum afmörkuð við skil á skattgögnum til skattyfirvalda, bókhald, tekjuskráningu og tekjuskráningargögn skattaðila, skattskylda veltu og virðisaukaskattskil, rekstrartekjur og möguleg rekstrargjöld svo og innskatt, eins nánar er getið í héraðsdómi. Er niðurstaða rannsóknarinnar varðandi eigin starfsemi ákærða nánar rakin þar. Með bréfi skattrannsóknarstjóra til ákærða 10. maí 2000 var honum tilkynnt um lok rannsóknarinnar og að á grundvelli fyrirliggjandi gagna hefði verið tekin ákvörðun um að senda málið embætti ríkisskattsjóra, sem tæki afstöðu til hugsanlegrar endurálagningar. Var ríkisskattstjóra sent bréf þess efnis sama dag. Jafnframt var ákærða tilkynnt í fyrrgreindu bréfi að fyrir lægi af hálfu skattrannsóknarstjóra að taka ákvörðun um refsimeðferð málsins og honum gefinn 30 daga frestur til að koma að athugasemdum. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til opinberrar rannsóknar með bréfi til ríkislögreglustjóra 26. júlí 2000 og var ákærða tilkynnt með bréfi sama dag um þá ákvörðun. Kom fram í báðum bréfunum að engar athugasemdir hafi borist frá ákærða.

         Ríkislögreglustjóri fór þess á leit í bréfi til skattrannsóknarstjóra 11. apríl 2001 að hann gerði nánari grein fyrir því hvort fyrir lægju frekari gögn hjá embættinu en fram hefðu komið um gjöld, eftir atvikum innskatt, sem ákærði kynni að hafa haft vegna þess rekstrar hans sem rannsóknin lyti að. Svar barst frá skattrannsóknarstjóra 18. apríl sama árs og kemur þar fram að í áðurnefndri skýrslu hans 3. maí 2000 hafi verið gerð tæmandi grein fyrir þeim gögnum, sem fyrir lágu hjá embættinu um kostnað vegna eigin rekstrar ákærða. Ekki væri hins vegar ósennilegt að starfsemin hafi kallað á útgjöld umfram þau, sem gögn lágu þá fyrir um hjá skattrannsóknarstjóra, enda þótt ákærði hafi engin frekari gögn lagt fram um þau útgjöld við rannsókn málsins eða komið með ábendingar um hvar slík gögn væri að finna.

         Í skýrslu ríkislögreglustjóra 20. apríl 2001 kemur fram að rannsókn hans hafi beinst að innflutningi ákærða á 117 bifreiðum í eigin nafni eða annarra á tímabilinu ágúst 1995 til og með desember 1996. Var nánar fjallað um innflutning og sölu hverrar bifreiðar í skýrslunni. Var niðurstaðan sú að ákærði hafi flutt inn og endurselt bifreiðarnar í eigin nafni, B ehf., G ehf., fjölskyldu sinnar eða annarra. Segir þar að rannsóknin hafi byggst á gögnum og upplýsingum, sem aflað hafi verið hjá skattrannsóknarstjóra, en þó hafi fjárhæðir samkvæmt rannsókn ríkislögreglustjóra í allnokkrum tilvikum verið mun lægri en hjá skattrannsóknarstjóra í ljósi þess að talsverður vafi hafi verið á því hvert hafi verið raunverulegt söluverð, enda ekki unnt að sannreyna það með óyggjandi hætti í bókhaldsgögnum. Kom fram í skýrslunni að ekkert bókhald hafi verið fært vegna eigin rekstrar ákærða á árunum 1995 og 1996 og reikningar og eða kvittanir vegna umræddra viðskipta ekki gefnar út í öllum tilvikum. Kaupendur hafi í sumum tilvikum borið um annað kaupverð en fyrirliggjandi reikningar báru með sér og ákærði hafi skýrt svo frá að söluverðið gæfi ekki endilega rétta mynd af raunverulegu söluverði, heldur einungis lántöku kaupandans. Hafi ákærði sagt að í þeim tilvikum hafi hann endurgreitt hluta lánsfjárhæðarinnar til viðkomandi kaupanda, án þess að leggja fram gögn um það uppgjör. Viðskiptin hafi að verulegu leyti farið í gegnum einkareikninga ákærða og eiginkonu hans og blandað hafi verið saman fjármálum þeirra persónulega, fjármálum ákærða vegna innflutnings og sölu bifreiða í eigin nafni eða annarra, fjármálum B ehf. og G ehf., sem hafi rekið A. Í ljósi þessa og gagna málsins verði ekki lesið úr bókhaldsgögnum hvert hafi verið raunverulegt söluverð hverrar bifreiðar.

         Fram kemur í yfirliti, sem byggt var á þeim gögnum sem skattrannsóknarstjóri hafði aflað og afhent ríkislögreglustjóra og fylgdi skýrslu þess síðarnefnda 20. apríl 2001, að vanframtalin skattskyld velta vegna umræddra bifreiðaviðskipta í eigin starfsemi ákærða hafi numið 51.239.980 krónum vegna júlí til desember 1995 og janúar til febrúar 1996. Vangoldinn virðisaukaskattur fyrir sömu tímabil hafi numið 4.438.188 krónum og hafi þá verið tekið tillit til mögulegs innskatts að fjárhæð 6.717.023 krónur vegna júlí til desember 1995 og 1.398.550 krónur vegna janúar og febrúar 1996, eða samtals 8.115.573 krónur. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra var vanframtalin skattskyld velta hins vegar 103.761.691 króna og vangoldinn virðisaukaskattur 15.186.386 krónur að teknu tilliti til mögulegs innskatts að fjárhæð samtals 10. 235.231 króna.

         Ákærði var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra í maí 1997 og desember 1999.  Hann kvaðst hafa hagað innflutningi bifreiðanna ýmist með þeim hætti að hann hafi keypt erlendis bifreið fyrir tiltekinn kaupanda eða keypt hana sjálfur. Í fyrrgreindum tilvikum hafi hann ýmist fengið greiðslu inn á reikning sinn eða kaupandinn afhent honum greiðslu, sem hann hafi haft með sér utan. Greiðslan hafi ýmist verið fyrir heildarsöluverði bifreiða eða eingöngu kaupverði þeirra erlendis. Sagði hann sölureikninga hafa legið til grundvallar uppgjöri virðisaukaskatts og þeir gefnir út í hans nafni. Kvaðst hann mundu kanna hvort hann hefði þessi gögn undir höndum og koma þeim til skila innan fárra daga. Í skýrslutökum hjá ríkislögreglustjóra 11. maí 2001 og 14. júní sama árs var hann yfirheyrður um einstakar bifreiðar líkt og áður hjá skattrannsóknarstjóra og gerði hann ýmsar athugasemdir varðandi fyrirliggjandi upplýsingar um sumar þeirra.

         Með bréfi ríkislögreglustjóra 24. ágúst 2001 til skattrannsóknarstjóra var þess farið á leit í ljósi framburðar ákærða að bókhaldsgögn hans yrðu könnuð frekar og nánar tiltekin gögn að því er tilgreindar bifreiðar varðaði afhent ef þau fyndust. Í svarbréfi skattrannsóknarstjóra 10. september sama árs var þess getið að þau bókhaldsgögn, sem hald var lagt á við rannsókn málsins hafi varðað B ehf. og G ehf., en ekki hafi verið lagt hald á nein gögn frá ákærða. Með bréfinu fylgdu frekari gögn um sölu á 47 tilgreindum bifreiðum, meðal annars gögn um söluverð og skattframtöl kaupenda og seljenda. Í ljósi þessara nýju gagna fór fram af hálfu ríkislögreglustjóra endurskoðun á fyrri niðurstöðum varðandi ætlað söluverð og rekstrartekjur ákærða. Í skýrslu ríkislögreglustjóra 30. okóber 2001 var gerð grein fyrir þeim niðurstöðum. Samkvæmt þeim lækkaði vanframtalin skattskyld velta í 18.933.453 krónur vegna júlí til desember 1995 og 3.108.434 krónur vegna janúar til febrúar 1996, eða samtals 22.041.887 krónur. Var kostnaður talinn nema 13.336.278 krónum vegna fyrra tímabilsins, en 1.362.003 krónum vegna þess síðara og vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn vegna tekjuársins 1995 því talinn nema 5.597.175 krónum. Vangoldinn virðisaukaskattur lækkaði í 1.494.706 krónur vegna júlí til desember 1995 og í 427.875 krónur vegna janúar til febrúar 1996, eða samtals í 1.922.581 krónu, að teknu tilliti til mögulegs innskatts að fjárhæð 3.143.985 krónur vegna fyrra tímabilsins og 333.691 krónu vegna þess síðarnefnda, eða samtals 3.477.676 krónur. Ríkislögreglustjóri gaf út ákæru í málinu 20. september 2002. Var hún að því er eigin starfsemi ákærða varðar, sem hér er til umfjöllunar, byggð á framangreindum niðurstöðum rannsóknar hans. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 15. október sama árs og dómur kveðinn upp 29. janúar 2003. Var ákærði sýknaður af ætluðum brotum sem vörðuðu B ehf., eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi. Unir ákæruvaldið við þá niðurstöðu og er hún því ekki til umfjöllunar í Hæstarétti.

II.

         Ákærði hefur játað sakargiftir samkvæmt I. og II. kafla ákæru að öðru leyti en því að hann telur að fjárhæðirnar séu of háar. Þannig hélt hann því fram við þingfestingu málsins í héraði að skattskyld velta vegna tímabilsins september til október 1995 ætti að nema 3.716.977 krónum og vangoldinn virðisaukaskattur fyrir sama tímabil 509.656 krónum. Að sama skapi ætti skattskyld velta vegna janúar til febrúar 1996 að nema 1.325.301 krónu og vangoldinn virðisaukaskattur fyrir sama tímabil 221.523 krónum. Ákærði hefur enga grein gert fyrir þessum fjárhæðum. Fyrir Hæstarétti heldur hann því annars vegar fram að söluverð fimm tilgreindra bifreiða sé reiknað of hátt, en hins vegar að almennt hafi ekki hafi verið tekið tillit til flutningskostnaðar og skráningargjalda við rannsókn ríkislögreglustjóra, sem ákæran byggist á. Beri því að lækka virðisaukaskatt og tekjuskattstofn.

         Fram er komið að því er varðar tvær þessara bifreiða að þær hafa engin áhrif á skattskil ákærða þar sem ekki var ráð fyrir því gert í rannsókninni að ákærði hefði haft tekjur af sölu þeirra. Stendur þá eftir ágreiningur um söluverð þriggja bifreiða, T,  R og Y, og kostnað vegna sölu þeirra. Verður nú gerð nánari grein fyrir sölu þeirra og gögnum er fyrir liggja um hana.

         S var skráður innflytjandi bifreiðarinnar T samkvæmt  aðflutningsskýrslu 7. nóvember 1995, en samkvæmt gögnum frá seljanda hennar, Grosse & Riedel GmbH í Þýskalandi, keypti ákærði bifreiðina af fyrirtækinu 17. október 1995. Meðal málsskjala er greiðslukvittun sem ber með sér að S hafi greitt ákærða 1.105.000 krónur fyrir bifreiðina 3. október 1995. Í niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra og ríkislögreglustjóra var á því byggt að ákærði hefði selt S bifreiðina á 1.105.000 krónur. Var sú niðurstaða reist á áðurnefndri kvittun og þeim framburði S við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra að hann hafi greitt ákærða innflutningsverð bifreiðarinnar, sem hann taldi að hefði numið þessari fjárhæð, en auk þess hafi hann sjálfur greitt öll gjöld af henni. Við áðurnefnda endurskoðun ríkislögreglustjóra 30. október 2001 var gert ráð fyrir því að mögulegur kostnaður við sölu bifreiðarinnar hefði numið 503.690 krónum, sem var innkaupsverð samkvæmt aðflutningsskýrslu. Ákærði gerði engar athugasemdir við þessar niðurstöður í skýrslu sinni hjá ríkislögreglustjóra 14. júní 2001. Í vörn hans fyrir dómi er því hins vegar haldið fram að hann hafi sjálfur greitt allan kostnað vegna innflutnings bifreiðarinnar. Fyrir héraðsdómi kvaðst hann telja þennan kostnað nema 898.591 krónu, en við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti 1.162.019 krónum. Við rannsóknina hafi einvörðungu verið tekið tillit til tollverðs bifreiðarinnar en ekki vörugjalds, skráningargjalds, flutningskostnaðar og „þóknunar til ákærða“. Hafi því miðað við það, sem ákærði hélt fram fyrir Hæstarétti, orðið tap á sölunni, en ekki gróði, og hann því hvorki átt að greiða virðisaukaskatt né vantalið fram til skatts tekjur af sölu þessarar bifreiðar. Í skýrslu sinni fyrir dómi hélt ákærði því fram að þóknun hans fyrir söluna hafi verið innifalin í áðurnefndu söluverði, en nefndi ekki í því sambandi tiltekna fjárhæð. Fram kom í skýrslu S fyrir dómi að hann hafi keypt bifreiðina af ákærða á 1.105.000 krónur. Hún hafi verið flutt inn á hans nafni, en honum hafi aldrei verið kunnugt um hvert innkaupsverð hennar var. Ákærði hefur engin gögn lagt fram því til staðfestingar að söluverð bifreiðarinnar hafi verið annað og lægra en áðurnefnd kvittun ber með sér. Hann hefur heldur ekki sýnt fram á að hann hafi sjálfur haft meiri kostnað af sölu hennar en þegar hefur verið tekið tillit til. 

         Samkvæmt aðflutningsskýrslu 1. febrúar 1996 var E skráður innflytjandi bifreiðinnar R, en gögn frá áðurnefndum seljanda í Þýskalandi sýna að ákærði keypti bifreiðina af fyrirtækinu 23. janúar 1996. Var innkaupsverð hennar samkvæmt aðflutningsskýrslu 451.900 krónur. Í skýrslu sinni hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst E hafa greitt ákærða 970.000 krónur fyrir bifreiðina, en sú greiðsla hafi tekið til erlends kaupverðs hennar, flutningsgjalds og vörugjalds. Engin gögn liggja hins vegar fyrir um þessi kaup. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra var á því byggt að söluverðið hafi verið 970.000 krónur. Ákærði gerði engar athugasemdir við þessar niðurstöður í skýrslu sinni hjá ríkislögreglustjóra 14. júní 2001. Í skýrslu ríkislögreglustjóra 30. október 2001 var gert ráð fyrir því að mögulegur kostnaður við sölu bifreiðarinnar hafi numið 705.717 krónum, en sú fjárhæð er byggð á tollverði hennar og vörugjaldi. Var innskattur hækkaður í samræmi við það. Fram kom í skýrslu E fyrir dómi að ákærði hafi gengið frá skjölum varðandi innflutning bifreiðarinnar og reiknað skatta og gjöld af henni fyrir sig. Hafi hann greitt fyrir bifreiðina um 1.500.000 krónur að meðtöldum sköttum og gjöldum. Síðar í yfirheyrslunni sagði hann að hann hafi litið svo á að hann væri sjálfur að flytja inn bifreiðina með aðstoð ákærða, sem hafi fengið einhverja þóknun fyrir, en nánar aðspurður kvaðst hann ekki muna hver sú þóknun var. Í skýrslu ákærða fyrir dómi kvaðst hann hafi fengið 50.000 krónur í þóknun vegna bifreiðarinnar. Ákærði gerði engar athugasemdir við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra og ríkislögreglustjóra um að hann hefði selt E bifreiðina fyrir 970.000 krónur. Framburður kaupandans um viðskiptin með bifreiðina er á reiki og engin gögn liggja fyrir í málinu sem stutt getur þá síðbúnu fullyrðingu ákærða að hann hafi eingöngu fengið umrædda þóknun vegna þessara viðskipta. Verður samkvæmt framansögðu við það miðað að ákærði hafi selt E umrædda bifreið fyrir þá fjárhæð, sem á var byggt við rannsókn málsins. Ákærði hefur ekki lagt fram nein gögn um frekari kostnað af sölu hennar en þegar hefur verið tekið tillit til.                     

         Samkvæmt aðflutningsskýrslu 25. janúar 1996 var ákærði skráður innflytjandi bifreiðinnar Y. Innkaupsverð hennar var samkvæmt aðflutningsskýrslu 417.032 krónur. Fram kom við rannsókn skattrannsóknarstjóra að ákærði var fyrsti skráði umráðamaður bifreiðarinnar frá 2. janúar 1996 til 26. sama mánaðar, en þá var G ehf. skráður eigandi hennar til 1. febrúar sama árs en C frá þeim tíma. C kvaðst í yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra hafa keypt bifreiðina af ákærða á 1.250.000 krónur, en samkvæmt afsali til C 1. febrúar 1996 var seljandinn G. ehf. og söluverðið 1.250.000 krónur, sem greitt var með tiltekinni bifreið og 1.065.000 krónum í peningum. Í skýrslu sinni hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst ákærði hafa selt C bifreiðina á 1.250.000 krónur. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra var á því byggt að söluverðið hafi verið það sama og fram kemur í afsalinu og framburði C og ákærða. Í skýrslu sinni hjá ríkislögreglustjóra 14. júní 2001 kvaðst ákærði hins vegar hafa flutt bifreiðina inn í eigin nafni en í raun fyrir G ehf. og það félag hafi einvörðungu greitt sér kostnaðarverðið. Félagið hafi síðan selt C bifreiðina. Hagnaður af sölunni hafi því ekki runnið til sín heldur félagsins. Hann kvað skattrannsóknarstjóra hafa lagt hald á öll gögn vegna viðskipta sinna við G ehf. Ákærði skýrði frá á sama veg fyrir dómi. Fram kom hins vegar í rannsókn skattrannsóknarstjóra að engin gögn hafi fundist vegna þessara viðskipta. Við nánari rannsókn ríkislögreglustjóra 30. október 2001 var gert ráð fyrir því að mögulegur kostnaður við sölu bifreiðarinnar hafi numið 656.286 krónum, en sú fjárhæð er byggð á samanlögðu tollverði hennar, 468.776 krónum, og vörugjaldi, 187.510 krónum. C sagðist ekki muna í skýrslu sinni fyrir dómi hver hefði selt sér bifreiðina, en vísaði í afsal þar um. Hann staðfesti að hafa greitt fyrir hana það verð sem fram kom í afsalinu. Vitnið F kvaðst fyrir dómi hafa verið framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins G, sem rekið hafi A á þeim tíma sem umrædd viðskipti fóru fram. Vitnið kannaðist ekki við viðskiptin með bifreiðina. Ljóst er að ákærði flutti bifreiðina inn í eigin nafni og var samkvæmt gögnum málsins skráður umráðamaður hennar frá 2. janúar 1996 til 26. sama mánaðar en frá þeim tíma var G ehf. skráður eigandi hennar í fjóra daga, eða þar til C keypti bifreiðina. Ákærði skýrði svo frá við rannsókn skattrannsóknarstjóra að hann hafi selt C bifreiðina. Hins vegar mun C hafa svarað fyrirspurn skattrannsóknarstjóra á þann veg að G ehf. hafi selt sér bifreiðina. Fram er komið að ákærði starfaði á þessum tíma á A, en þar hafði hann jafnframt aðstöðu fyrir sjálfstæða starfsemi sína við innflutning og sölu bifreiða. Eins og að framan segir flutti ákærði inn bifreiðina í eigin nafni og var fyrsti skráði umráðamaður hennar. Hann hefur engin frekari gögn lagt fram um að hann hafi í raun keypt bifreiðina fyrir G ehf. og að söluhagnaður hafi runnið til félagsins. Hann hefur heldur ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings að hann hafi haft frekari kostnað af sölunni en þegar hefur verið tekið tillit til.

         Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á þá málsvörn ákærða að lækka beri vangoldinn virðisaukaskatt og tekjuskattstofn að því er tekur til áðurnefndra þriggja bifreiða, enda var það á færi ákærða sjálfs að afla gagna um frekari kostnað af sölu þeirra eða um þóknun hans, ef því var að skipta. Fram er komið að rannsóknaraðilar skoruðu ítrekað á ákærða að leggja fram slík gögn. Eins og fyrr segir heldur ákærði því einnig fram að lækka beri vangoldinn virðisaukaskatt og tekjuskattstofn vegna sölu og innflutnings ákærða á öðrum bifreiðum, sem sakarefnið lýtur að, þar sem almennt hafi ekki hafi verið tekið tillit til flutningskostnaðar og skráningargjalda við rannsókn ríkislögreglustjóra, sem ákæran byggist á. Ákærði hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þessari kröfu sinni og verður því ekki fallist á þessa málsvörn hans. 

         Samkvæmt framansögðu er sannað að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er nú að sök gefin í I. og  II. kafla.

         Í III. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að halda tilskilið bókhald vegna áðurnefndrar starfsemi í samræmi við það sem lög áskilja og gera ársreikninga vegna hennar. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra segir að ákærði hafi ekkert bókhald fært í sjálfstæðri starfsemi sinni vegna rekstraráranna 1995 og 1996. Í skýrslu hans í maí 1997 hjá því embætti er eftir honum haft að bókhald hafi ekki verið fært vegna sjálfstæðrar starfsemi ákærða. Við þingfestingu málsins í héraði 28. október 2002 neitaði ákærði að hafa gerst sekur um áðurnefnd brot samkvæmt III. kafla ákæru. Við aðalmeðferð þess 17. desember 2002 kvaðst hann ekki hafa haldið bókhald, en hann „reiknað með“ að endurskoðandi hans hefði gert það. Er honum var kynntur framburður sinn um þetta hjá skattrannsóknarstjóra og niðurstaða þess embættis taldi hann að sá framburðar væri réttur. Er því sannað með játningu ákærða að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er nú sakaður um í III. kafla ákæru.

III.

         Virðisaukaskattsbrot ákærða, sem fjallað er um í I. kafla ákæru, varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, en brot hans samkvæmt II. kafla við 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1995, sbr. nú 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Vanskil ákærða á virðisaukaskatti vegna þeirra greiðslutímabila, sem rakin eru í ákæru, námu samtals 1.922.581 krónu og vanskil tekjuskatts og útsvars vegna gjaldáranna 1995 og 1996 voru samtals 2.249.834 krónur. Vanskil ákærða á  virðisaukaskatti, tekjuskatti og útsvari námu því samtals 4.172.415 krónum og verða þau til þess að í heild teljast brot hans meiri háttar. Verða þessi brot hans því jafnframt færð undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

         Ákærði vanrækti af stórkostlegu hirðuleysi að halda tilskilið bókhald og gera ársreikninga vegna atvinnustarfsemi sinnar árin 1995 og 1996. Hefur hann því einnig brotið gegn 1. og 5. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald með áorðnum breytingum, sbr. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ekki eru  skilyrði til að sakfella hann fyrir brot gegn ákvæðum laga nr. 144/1994 um ársreikninga.

         Ákærði reisir sýknukröfu sína einkum á því að brot hans séu fyrnd, þar sem óeðlilegar tafir hafi verið á rannsókna málsins og meðferð þess. Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru eru samkynja og náðu samfellt yfir greiðslutímabilin frá júlí 1995 til og með febrúar 1996 og var brotastarfsemin því samfelld. Ákærði skilaði inn virðisaukaskattskýrslu fyrir síðasta greiðslutímabilið 11. júní 1996, en hún var röng.  Ber því að miða við að brotastarfsemi hans hafi lokið þann dag. Telst fyrningarfrestur samkvæmt því hefjast þegar brotastarfseminni lauk, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Á sama hátt verður að líta á brot ákærða á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og bókhaldslögum sem samfellda brotastarfsemi.

         Samkvæmt 5. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, eins og þeirri málsgrein var breytt með lögum nr. 111/1992, og 6. mgr. 108. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 með áorðnum breytingum, sbr. nú 110. gr. laga nr. 90/2003, fyrnist sök samkvæmt 107. gr. laganna, nú 109. gr. síðarnefndra laga, á sex árum miðað við upphaf rannsóknar, enda verði ekki um óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Á sama hátt fyrnast sakir samkvæmt 4. mgr. 41. gr. laga nr. 145/1994, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995,  á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra eða ríkislögreglustjóra eða hjá löglærðum fulltrúum þeirra, gegn manni sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.

         Ákærði var yfirheyrður af löglærðum fulltrúa skattrannsóknarstjóra 6. maí 1997 og var þá ofangreindur 6 ára fyrningarfresturinn rofinn, enda beindist rannsóknin þá strax að þeirri brotastarfsemi ákærða, sem fjallað er um í málinu. Rannsókn skattrannsóknarstjóra stóð yfir í um þrjú ár, en hún beindist einnig að ætluðum brotum ákærða vegna sölu á bifreiðum í nafni B ehf. Þá liðu rúm tvö ár frá því að málinu var vísað til ríkislögreglustjóra 26. júlí 2000 og uns ákæra var gefin út 20. september 2002. Þótt fallast megi á að töluverður dráttur hafi orðið á rannsókn málsins hjá skattyfirvöldum og lögreglu verður ekki talið að þær tafir hafi verið slíkar að áhrif hafi á fyrningu sakar, enda voru brot ákærða umfangsmikil og rannsókn seinlegri þar sem ákærði hélt ekki bókhald. Brot hans voru því ófyrnd, þegar málið var þingfest í héraði 15. október 2002. Eins og fyrr segir voru brot ákærða stórfelld og vörðuðu verulegar fjárhæðir. Hins vegar ber að líta til þess að nokkur dráttur var á rannsókn málsins og ákærði hefur ekki sætt refsingu, sem hér skiptir máli. Að öllu þessu athuguðu er refsing hans ákveðin fangelsi í sex mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar, eins og nánar greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærði dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð, 9.000.000 krónur, og komi fangelsi í fjóra mánuði í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

         Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Ákærði, Halldór Baldvinsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

         Ákærði greiði 9.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í fjóra mánuði.

         Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins  Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2003.

Málið höfðaði Ríkislögreglustjórinn með ákæru útgefinni 20. september 2002 á hendur ákærða Halldóri Baldvinssyni, [ . . . ].

 

“I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattsskýrslu vegna virðisaukaskattskyldrar starfsemi hans við innflutning og sölu á bifreiðum frá júlí – desember 1995 og hafa skilað rangri skýrslu vegna tímabilsins janúar til febrúar 1996 í eigin nafni og hafa skilað virðisaukaskattsskýrslum með röngum fjárhæðum virðisaukaskattsskyldrar veltu og virðisaukaskatts vegna allra uppgjörstímabila ársins 1996 vegna sölu ákærða á bifreiðum í nafni B ehf., kt. 620296-2609, sem hann var daglegur stjórnandi fyrir og hafa með þessu komið sér og félaginu undan að standa Tollstjóranum í Reykjavík og sýslumanninum í Hafnarfirði skil á innheimtum virðisaukaskatti, í samræmi við það sem lög áskilja, samtals að fjárhæð kr. 2.965.054 og sundurliðast sem hér greinir;

 

Vegna virðisaukaskattsnúmers 23560 í nafni ákærða

 

Uppgjörstímabil:                   Vantalin skattskyld                                              Vangoldinn

                                                velta:                                                                      virðisaukaskattur:

 

Árið 1995

Júlí-ágúst                                               kr.            8.011.325                                                kr.            380.044

September-október                              kr.            5.805.661                                                kr.            727.106

Nóvember-desember                           kr.            5.116.467                                                kr.            387.556

                                                                kr.      18.933.453                                                    kr.     1.494.706

                                                                                                               

Árið 1996

Janúar-febrúar                                      kr.            3.108.434                                                kr.            427.875

                                                                kr.            3.108.434                                                kr.            427.875

 

Vegna virðisaukaskattsnúmers 49963 í nafni B ehf.

 

Uppgjörstímabil:                   Vantalin skattskyld                                              Vangoldinn

                                                velta:                                                                      virðisaukaskattur:

Árið 1996

Janúar-febrúar                                      kr.            -698.962                                 kr.              14.879

Mars-apríl                                              kr.            5.095.765                                                kr.            520.003

Maí-júní                                                 kr.               282.598                                                kr.            -24.589

Júlí-ágúst                                               kr.            4.860.293                                                kr             238.495

September-október                              kr.            -467.219                                 kr.            267.363

Nóvember-desember                           kr.              -298.488                                                kr.              26.322

                                                                kr.        8.773.978                                                    kr.     1.042.473

Samtals:                                                kr.      30.815.865                                                kr.     2.965.054

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39. 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

 

II. Fyrir brot á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og almennum hegningarlögum, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram til skatts tekjur hans af sjálfstæðri atvinnustarfsemi á árinu 1995 á skattframtali 1996 og hafa vantalið tekjuskattsstofn á skattframtali 1997 vegna ársins 1996 og hafa látið undir höfuð leggjast að skila skattframtali fyrir Behf. 1997 vegna ársins 1996, og að hafa með því vantalið tekjuskattsstofn sinn á skattframtali 1996 um 5.597.175 og vantalið við skattskil 1997 tekjuskattsstofn hans sjálfs og B ehf. um kr. 1.289.987 og hafa með þessu komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars um kr. 2.249.834 og hafa komið sér og B ehf. undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð kr. 425.675 og sundurliðast sem hér segir:

 

A. Vanframtalið á skattframtali ákærða 1996.

 

Tekjuárið 1995

Vanframtaldar tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi:                                     kr.            18.933.453

Vanframtalin rekstrargjöld:                                                                 kr.      -13.336.278

Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn:                                                   kr.              5.597.175 Tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 33,15                                                        kr.              1.855.463 Útsvar, útsvarsprósenta 8,40                                                                                             kr.                 470.162 Persónuafsláttur                                                                                                                kr.                      –75.791 Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:                                           kr.            2.249.834

 

B. Vanframtalið á framtali ákærða 1997 og ekki talið fram vegna B ehf. 1997                   

 

Tekjuárið 1996

Vanframtaldar tekjur af atvinnustarfsemi ákærða og B ehf:           kr.      65.695.112

Vanframtalin rekstrargjöld ákærða og B ehf:                                    kr.    –61.405.185

Áætlaður tekjuskattstofn af skattstjóra vegna B ehf:                                     kr       -3.000.000

Vanframtaldir tekjuskattsstofnar ákærða og B ehf:                                           kr.        1.289.927

Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 33,00                                kr.          425.675

 

Brot ákærða samkvæmt A. lið teljast varða við 1. mgr. 107. gr.  laga nr. 75, 1981, um tekju og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 42, 1995, 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4, 1995, um tekjustofna sveitarfélaga og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

 

Brot ákærða samkvæmt B. lið teljast varða við 1. og 2. mgr. 107. gr. laga nr. 75, 1981, sbr. 1. gr. laga nr. 42, 1995, og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

 

III. Fyrir bókhaldsbrot, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að halda tilskilið bókhald vegna atvinnustarfsemi sinnar árin 1995 og 1996 í eigin nafni og í nafni B ehf., árið 1996  í samræmi við það sem lög áskilja, og gera ársreikninga vegna starfsseminnar.

 

Telst þetta varða við 1. og 5. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145, 1994, um bókhald, 1. tölulið 1. mgr. 83. gr. sbr. 82. gr. laga nr. 144, 1994, um ársreikninga, sbr. 1. og 3. gr. laga nr. 37, 1995 um breytingu á þeim lögum, og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr., 1. gr. laga nr. 39, 1995.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.

 

                Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og hefur hann gert þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu og til þrautavara er þess krafist að ákærður hljóti þá vægustu refsingu sem lög leyfi. Þá er þess krafist að allur kostnaður verði lagður á ríkissjóð þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Sveins Andra Sveinssonar, hrl.

 

                Málavextir.

               

                Ákærði starfaði á árunum 1995 og 1996 við innflutning og sölu á bifreiðum, ásamt almennri bifreiðasölu með notaðar bifreiðar. Starfsemi hans var m.a í nafni B ehf. og G ehf. Ákærði hafði starfsstöð hjá F á A við Miklatorg í Reykjavík. Einkahlutafélagið B ehf. var stofnað af F og K eiginkonu ákærða þann 22. febrúar 1996. Stjórn félagsins var skipuð þeim sömu einstaklingum. B ehf. var stofnað til að sjá um sölu og innflutning á bifreiðum. B ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta  þann 28. október 1998 og var skiptum lokið þann 19. mars 1999. G ehf. var stofnað af F árið 1994. G ehf. var stofnað til að sjá um rekstur A. G ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 24. júní 1998 og var skiptum lokið þann 30. desember 1998.

Skattrannsóknarstjóra ríkisins barst þann 14. febrúar 1997 tilkynning frá skattstjóranum í Reykjavík á grundvelli 7. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og 6. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt vegna gruns um skattsvik ákærða. Í tilkynningunni kom fram að hjá skattstjóra væru fyrirliggjandi upplýsingar er sýna að ákærði og eiginkona hans virðast hafa staðið í stórfelldum viðskiptum með bifreiðar á árunum 1995 og 1996. Ekki hafi verið gerð grein fyrir tekjum af umræddum viðskiptum í skattframtali gjaldársins 1996 og þá voru þau ekki á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum ákærða hófst þann 11. mars 1997 með því að fjórir starfsmenn hans lögðu leið sína að starfsstöð ákærða á A við Miklatorg í þeim tilgangi að fá afhent til rannsóknar bókhald og önnur gögn er vörðuðu rekstur ákærða. Á starfsstöðinni voru ákærða afhent tvö bréf þar sem tilkynnt var að rannsókn væri hafin á bókhaldi og skattskilum ákærða sjálfs sem og einkahlutafélagsins B ehf. rekstrarárin 1995 og 1996. Jafnframt var farið fram á afhendingu á færslubókum, bókhaldsgögnum og fylgiskjölum svo og öllum öðrum gögnum er vörðuðu reksturinn, framangreint rekstrartímabil.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins afmarkaðist við rekstrartímabilið 1995 og 1996 og beindist aðallega að innflutningi og sölu notaðra og nýrra bifreiða. Rannsóknin beindist ekki að þeim þætti rekstrarins sem snýr að almennri bifreiðasölu með notaðar bifreiðar. Rannsóknin leiddi í ljós að ákærði skilaði skattayfirvöldum skattframtölum fyrir gjaldárin 1996 og 1997 vegna rekstraráranna 1995 og 1996. Skattframtölin voru bæði undirrituð af ákærða og eiginkonu hans. Ársreikningur var ekki meðfylgjandi skattframtali gjaldársins 1996 en yfirlit vegna kaupa og sölu bifreiða fylgir skattframtali gjaldársins 1997. Ekki voru staðin skil á skattframtali gjaldársins 1997 vegna rekstrarársins 1996 fyrir hönd B ehf. Ákærði skilaði skattayfirvöldum virðisaukaskattsskýrslum fyrir tvö fyrstu uppgjörstímabil rekstrarársins 1995 og fyrir öll uppgjörstímabil rekstrarársins 1996. Virðisaukaskattsskýrslum var skilað fyrir öll uppgjörstímabil  rekstrarársins 1996 fyrir hönd B ehf. Virðisaukaskattsskýrslur vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní eru undirritaðar af F, vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst er undirrituð af ákærða og vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember eru undirritaðar af eiginkonu ákærða. Þegar skoðaðir voru bankareikningar ákærða og eiginkonu hans annars vegar og bankareikningur B ehf. hins vegar kom í ljós að heildarinnborganir á viðkomandi reikninga árin 1995 og 1996 námu kr. 203.251.253. Af þessum rúmu tvöhundruð milljónum voru innborganir á reikning B ehf. kr. 3.591.658 eða einungis tæp 2%. Þannig virðast sölutekjur innfluttra bifreiða að mestu leyti hafa verið lagðar inn á bankareikninga ákærða sjálfs og eiginkonu hans. Engin gögn né upplýsingar voru fyrirliggjandi um uppgjör þessara viðskipta á milli ákærða og einkahlutafélagsins B ehf. Ekki var unnt að greina á milli annars vegar sjálfstæðrar starfsemi ákærða og hinsvegar atvinnurekstrar hans í nafni einkahlutafélagsins B ehf. Þannig var allur innflutningur bifreiða og sala á þeim hvort sem viðskiptin voru gerð í nafni ákærða, í nafni tiltekinna annarra einstaklinga honum tengdum eða í nafni einkahlutafélaga honum tengdum í reynd þáttur í sjálfstæðri starfsemi ákærða.

Við rannsóknina kom í ljós að bifreiðar voru gjarnan seldar á milli ákærða og einkahlutafélaga honum tengd svo og til félaga hans, maka og ættingja. Þetta virðist vera gert í þeim tilgangi einum að gera það erfiðara að rekja sölu bifreiðanna til ákærða. Þá kom í ljós fjöldi tilvika þar sem söluverð var rangt tilgreint á sölureikningum, í öðrum tilvikum voru veruleg frávik frá viðmiðunarverðum án sjáanlegra skýringa. Þá voru reikningar oft ekki gerðir eða þeir rangfærðir. Samkvæmt þessu þurfti við rannsóknina að leitast við að ákvarða söluverð bifreiðanna m.a. út frá upplýsingum frá kaupendum, hlutlægum sönnunargögnum m.a. frá lögreglu og öðrum gögnum og upplýsingum.

Niðurstöður rannsóknarinnar um þau atriði er lúta að ákærunni voru þær að ákærði hefði ekki nema að litlu leyti gert skattayfirvöldum grein fyrir sölu sinni á innfluttum bifreiðum í innsendum skattgögnum. Ákærði vanframtaldi rekstrartekjur sínar vegna umræddra tekjuára um samtals kr. 158.205.557. Þá voru möguleg rekstrargjöld ákærða vegna umræddra tekjuára vanframtalin um kr. 108.532.105. Skattskyld velta ákærða vegna umræddra tekjuára var vanframtalin um samtals kr. 103.761.691 og virðisaukaskattur um samtals kr. 25.421.617. Þá var mögulegur innskattur vanframtalinn að fjárhæð kr. 10.235.231. Þá leiddi rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins það í ljós að bókhald hafði hvorki verið fært vegna sjálfstæðrar starfsemi ákærða né vegna B ehf. Einnig var vörslu bókhaldsgagna áfátt. Ekki var ljóst hvaða gögn lágu til grundvallar innsendum virðisaukaskattsskýrslum eða innsendu rekstraryfirliti með skattframtali 1997.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins skýrði ákærði frá því að allur innflutningur á bifreiðum hvort sem innflutningurinn hafi verið í hans nafni, eiginkonu hans eða B ehf. hafi í reynd verið í hans höndum. Daglegur rekstur félagsins og ákvarðanatökur hafi einnig verið í hans höndum. Varðandi skil á skattgögnum kom fram hjá ákærða að gerð skattframtala hans hafi verið í höndum hans sjálfs. Til grundvallar uppgjöri og skilum á virðisaukaskatti vegna sjálfstæðrar starfsemi hans lágu sölureikningar en vegna félagsins lágu til grundvallar innkaupareikningar og sölureikningar. Varðandi færslu bókhalds kom fram hjá ákærða að ekkert bókhald hafi verið fært vegna sjálfstæðrar starfsemi hans en að I löggiltur endurskoðandi hafi séð um færslu bókhalds vegna B ehf.

Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins lágu fyrir í skýrslu dags. 3. maí 2000. Áður hafði ákærða og Halldóri Jónssyni hdl. skiptastjóra í þrotabúi B ehf. verið send skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsóknina með bréfum dags. 21. janúar 2000. Var þeim þá gefinn 30 daga frestur til að tjá sig um efni skýrslunnar áður en skattrannsóknarstjóri ríkisins tæki ákvörðun um framhald málsins. Í bréfi dags. 24. janúar 2000 frá Halldóri Jónssyni hdl. skiptastjóra í þrotabúi B ehf. kemur fram sú afstaða hans að ákærði beri alla ábyrgð á félaginu. Ekki voru gerðar athugasemdir við efni skýrslunnar. Engin andmæli bárust frá ákærða vegna skýrslunnar þrátt fyrir að umbeðnir frestir til að skila athugasemdum hafi verið veittir. Skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins var síðan þann 10. maí 2000 send ríkisskattstjóra til endurákvörðunar. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins endurákvarðaði ríkisskattstjóri 28. desember 2001 álagningu opinberra gjalda og virðisaukaskatt ákærða. Áður hafði ákærða verið veittur frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaðar skattbreytingar. Engar athugasemdir bárust frá ákærða innan veitts frests.

Með bréfi dags. 10. maí 2000 var ákærða tilkynnt um að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins væri lokið. Þá var ákærða jafnframt bent á að hann kynni að hafa bakað sér refsiábyrgð vegna brota á lögum sem upplýst voru við rannsóknina. Var vísað til 1. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 361/1995 um skattrannsóknir o.fl. um að  fyrir lægi hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að taka ákvörðun um refsimeðferð málsins í samræmi við ákvæði 41. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald með áorðnum breytingum, 108. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum, 41. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum og 31. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum. Ákærða var í bréfinu gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar, en í því fælist m.a. að hann geti óskað þess að skattrannsóknarstjóri ríkisins falli frá refsimeðferð, að málið yrði sent yfirskattanefnd til úrlausnar eða að því verði vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans til opinberrar saksóknar. Ákærða var veittur 30 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð en engin andmæli bárust frá ákærða og tók skattrannsóknarstjóri ríkisins að loknum frestinum ákvörðun um að vísa málinu til ríkislögreglustjóra sem var svo gert með bréfi dags. 26. júlí 2000.

Í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjavíkur dags. 13. október 2000 í máli ákæruvaldsins gegn ákærða þar sem hann var sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins voru gerðar breytingar á niðurstöðum skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Breytingarnar leiddu til þess að tekjur (skattskyld velta) voru lækkaðar um kr. 9.340.955, rekstrargjöld um kr. 10.779.851 og útskattur um kr. 2.288.534.

Í rannsókn ríkislögreglustjóra var stuðst við skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og einnig var aflað frá honum frekari gagna. Í framhaldi af gagnaöfluninni voru teknar skýrslur af ákærða og gögnin borin undir hann. Eftir að hafa dregið saman það sem fram kom við rannsóknina var það mat rannsóknara að lækka umtalsvert niðurstöðufjárhæðir  skattrannsóknarstjóra ríkisins. Aðallega var það vegna þess að erfitt var að ákvarða söluverð bifreiðanna. Var talið rétt að ákærði nyti vafans um þetta efni.

Við skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra skýrði ákærði frá því að hann hafi borið ábyrgð á innflutningi allra þessara bifreiða á árunum 1995 og 1996 en ekki eiginkona hans eða F. Hann hafi annast daglega fjármálastjórn B ehf. og að fjármálum hans persónulega og fjármálum B ehf. kunni að einhverju leyti að hafa verið blandað saman. Ákærði gat ekki gefið skýringar á því hversvegna virðisaukaskattsskýrslum hafi ekki verið skilað vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi hans vegna uppgjörstímabilanna júlí til og með desember 1995. Þá gerði ákærði í nokkrum tilvikum athugasemdir við niðurstöður ríkislögreglustjóra varðandi söluverð eða önnur atriði vegna innflutnings á bifreiðunum. Ákærði kvaðst ekki muna hvort bókhald hafi verið fært vegna sjálfstæðrar starfsemi hans en hann telur að I löggiltur endurskoðandi hafi séð um færslu bókhalds vegna B ehf.

 

Verður nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.

 

Ákærði kvaðst hafa vitað að til hafi staðið að stofna einkahlutafélagið B ehf. en hann hafi hinsvegar ekki komið beint að stofnun félagsins. Staða hans hjá félaginu hafi verið að sjá um innflutning á bifreiðum frá Þýskalandi. Hann hafi oft farið til Þýskalands vegna þessa. Í sumar þessar ferðir hafi F farið með honum. Ákærði kvað fleiri hafa komið að sölu bifreiðanna eftir að þær voru komnar til landsins m.a. F og aðrir sölumenn hjá A. Varðandi þátt F og K eiginkonu hans í rekstri félagsins kvað ákærði að K hafi ekki komið beint að daglegum rekstri félagsins en að F hafi hinsvegar komið beint að rekstrinum. F hafi einnig ásamt sér haft samskipti við I sem hafi aðstoðað þá við að fylla út virðisaukaskattsskýrslur fyrir félagið. Ákærði kvaðst hafa afhent I bókhaldsgögn til að fylla út skýrslurnar vegna þess að I var með starfsstöð í Hafnarfirði og þangað hafi ákærði oft farið vegna tollafgreiðslu bifreiðanna.

Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu þar sem hann hafi haldið því fram að rekstur félagsins og ákvarðanatökur hafi verið í hans höndum kvaðst ákærði hafa átt við að hann hafi tekið allar ákvarðanir er vörðuðu innflutning á bifreiðum. Þá hafi hann á þeim tíma ekki viljað blanda F og eiginkonu sinni of mikið inn í málið.

Spurður um af hverju sölutekjur bifreiðanna hafi að mestu leyti verið lagðar inn á bankareikninga hans og eiginkonu hans, kvað hann það hafa verið til að auðvelda fyrir kaupum á bifreiðum í Þýskalandi.

Aðspurður um framburð F fyrir dómi varðandi stöðu ákærða hjá félaginu og þar sem fram kom að reksturinn hafi verið á herðum ákærða, kvað ákærði hann vera rangan. Þá hafi F verið fullkunnugt um að það hafi verið rekstur hjá félaginu enda hafi hann keypt bíla af félaginu og undirritað virðisaukaskattsskýrslur fyrir félagið.

Ákærði kvaðst ekki geta lagt fram nein gögn vegna þeirra bifreiða þar sem hann telur söluverð bifreiðanna hafa verið ákvarðað of hátt við rannsóknina né vegna þeirra kostnaðarliða sem til hafi fallið við innflutning á bifreiðunum til landsins og hann vill láta taka tillit til.  Í málinu báru í þessu sambandi 12 menn vitni, sem voru kaupendur bifreiðanna eða tendust þeim.

Vitnið F kvaðst hafa rekið A við Miklatorg. Þar starfaði ákærði einnig ásamt því við innflutning og sölu á bifreiðum. Einkahlutafélagið B ehf. var stofnað til að sjá um þann rekstur. Vitnið kvaðst ekkert hafa komið nálægt þeim rekstri. Reksturinn hafi verið á herðum ákærða. Hann útilokar þó ekki að hafa skrifað undir virðisaukaskattsskýrslur eða að hafa skilað bókhaldsgögnum til endurskoðanda.

Vitnið I, löggiltur endurskoðandi kvaðst fyrst hafa komið að einkahlutafélaginu B ehf. í gegnum F. Hann hafi m.a. aðstoðað við fylla út virðisaukaskattsskýrslur fyrir félagið. Hann kvaðst hafa fengið sölureikninga og innkaupareikninga frá ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa fært bókhald fyrir félagið enda viti hann ekki til þess að það hafi verið fært enda hafi rekstur þess staðið stutt.

               

                Niðurstaða

                Í I. og II. kafla ákærunnar er ákært fyrir brot á lögum um virðisaukaskatt, lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og almennum hegningarlögum.               

                Ákærði hefur að hluta til játað þá verknaði sem hann er sakaður um. Varðandi lið I. í I. kafla ákærunnar viðurkennir hann að hafa framið virðisaukaskattsbrot sem varðar virðisaukaskattsnúmer 23560 þó þannig að það sé lægri fjárhæð að því er varðar árið 1995, tímabilið september-október eigi vantalin skattskyld velta að vera kr. 3.716.877 og vangoldin virðisaukaskattur kr. 509.656. Fyrir árið 1996 sé vantalin skattskyld velta kr. 1.325.301 og vangoldin virðisaukaskattur kr. 221.523. Ákærði neitar hins vegar að bera ábyrgð á vanskilum á virðisaukaskatti vegna B ehf. enda hafi hann ekki verið í forsvari fyrir félagið. Varðandi II. kafla ákærunnar játar hann a-lið en að fjárhæðin sé lægri eða kr. 1.382.780. Vanframtaldar tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi eigi að vera kr. 16.846.679 og því eigi vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn að vera kr. 3.510.401, tekjuskattur miðað við prósentur kr. 1.163.698 og útsvar miðað við útsvarsprósentu kr. 294.873. Ákærði treystir sér hins vegar ekki til að taka afstöðu til b-liðarins þar sem ekki sé sundurliðað það sem varði annars vegar ákærða persónulega og hins vegar B ehf.

                Ákærði stundaði á árunum 1995 og 1996 innflutning og sölu á bifreiðum og var einkahlutafélagið B ehf. stofnað 22 febrúar 1996 til að sjá um þann rekstur. Í rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram að ekki var hægt að greina á milli annars vegar sjálfstæðrar starfsemi ákærða og hins vegar atvinnurekstrar hans í nafni einkahlutafélagsins B ehf. Sölutekjur innfluttra bifreiða virðast að mestu leyti hafa verið lagðar inn á bankareikninga ákærða sjálfs og eiginkonu hans en ekki inn á bankareikning B ehf. Í skýrslu sinni hjá lögreglu sem ákærði gaf þann 10. maí 2001 kom fram hjá ákærða að rekstur félagsins og ákvarðanatökur hafi verið í hans höndum. Þannig hafi fjármálum hans persónulega og fjármálum B ehf. að einhverju leyti verið blandað saman. Fyrir dómi dró hann verulega úr þessum fullyrðingum og kvaðst hafa átt við að hann hafi tekið allar ákvarðanir er vörðuðu innflutning á bifreiðum en ekki varðandi sölu bifreiðanna eða annan rekstur. Fram kom hjá vitninu F fyrir dómi að rekstur félagsins hafi verið á herðum ákærða. Þá kom fram hjá vitninu  I fyrir dómi að hann hafi haft samband við ákærða varðandi rekstur félagsins.

Ákærði sá um innflutning og tollafgreiðslu bifreiðanna. Þá kom hann að sölu þeirra og sölutekjur voru að mestu leyti lagðar inn á bankareikning hans og eiginkonu hans. Hann hafði einnig samband við I varðandi uppgjör og skil á virðisaukaskatti fyrir félagið. Af öllu framangreindu má ráða að ákærði hefur verið hinn eiginlegi stjórnandi B ehf. og haft með höndum daglegan rekstur, fjármálastjórn og ákvarðanatöku hjá félaginu varðandi innflutning og sölu á bifreiðum sem hann stundaði.  Engu að síður verður ekki litið fram hjá því að B ehf. er löglega stofnað einkahlutafélag, sem lýtur stjórn löglega kosinnar félagsstjórnar og hefur verið skráð í hlutafélagaskrá.  Í stjórn félagsins var F, sem jafnframt er með prókúruumboð sem framkvæmdastjóri, en í varastjórn var eiginkona ákærða, K og voru þau stofnendur félagsins.  Ekki verður séð eða er fram komið að ákærður hafi átt hlut í félaginu.  Þó að ákærður hafi haft sterka stöðu í félaginu svo sem að framan er rakið verður samt að líta svo á að það sem hann gerir f.h. félagsins sé á ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra félagsins, sem ber ábyrgð á hinum daglega rekstri þ.á.m. skattskilum og bókhaldi þess, enda fram komið, að það er F, stjórnarmaður félagsins og prókúruhafi, sem hefur samband við I endurskoðanda og felur honum að fylla út virðisaukaskattsskýrslur fyrir félagið. Ekki hefur verið lögð fram nein samþykkt frá stjórn félagsins, þar sem ákærða er heimilað að taka bindandi ákvarðanir fyrir það í mikilvægum málum.  Í málinu verður því ekki lögð refsiábyrgð á ákærða fyrir þau skattalaga og bókhaldsbrot, sem hann er sakaður um í sambandi við rekstur B ehf.

                Við rannsókn og meðferð málsins kom fram hjá ákærða að gerð skattframtala hans hafi verið í höndum hans sjálfs. Ekki voru staðin skil á skattframtali gjaldársins 1997 vegna rekstrarársins 1996 fyrir hönd B ehf. Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi sjálfur séð um uppgjör og skil á virðisaukaskatti vegna sjálfstæðrar starfsemi hans, en I hafi séð um það fyrir félagið. Ekki voru staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum nema fyrir hluta þeirra uppgjörstímabila sem rannsóknin náði til. Tölulegar niðurstöður voru byggðar á bókhaldsgögnum sem ákærði afhenti I hverju sinni. Virðisaukaskattsskýrslur fyrir félagið voru síðan ýmist undirritaðar af ákærða, F eða eiginkonu ákærða.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi í ljós að ákærði hafði ekki nema að litlu leyti gert skattayfirvöldum grein fyrir sölu sinni á innfluttum bifreiðum í innsendum skattgögnum. Þá leiddi rannsóknin í ljós að skráð viðskipti voru ótrúverðug og tekjuskráning marklaus.

                Gerð hefur verið grein fyrir því með hvaða hætti starfsmenn skattrannsóknarstjóra ríkisins fundu út niðurstöðufjárhæðir sínar sem lagðar hafa verið til grundvallar í málinu. Ákærði hefur mótmælt þessum niðurstöðum og að þær verði lagðar til grundvallar í málinu heldur eigi í þeim efnum að fara eftir játningu hans. Byggir hann mótmæli sín einkum á því að söluverð nokkurra bifreiða hafi í rannsókninni verið ákvarðað of hátt. Þegar virtir eru framburðir þeirra 12 vitna sem báru um þetta efni verður að telja að frekari gögn skorti til að söluverði þeirra verði breytt til lækkunar.  Þá byggir hann á því að taka þurfi tillit til ýmissa kostnaðarliða eins og flutningskostnaðar og skráningarkostnaðar sem til féll við innflutning á bifreiðunum til landsins. Engin frekari gögn hafa þó verið lögð fram af hálfu ákærða önnur en óljósir útreikningar.  Engu að síður er ljóst, að þessi kostnaður fellur á hverja innflutta bifreið, og ekki eru ábendingar um þessi kostnaður sé innifalinn í innflutningsverði bifreiðanna og þykir rétt að ákærði njóti vafans um þetta við refsiákvörðun í málinu o g reikningar um þennan kostnað hafi glatast..

Í rannsókn ríkislögreglustjóra var stuðst við skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og einnig var aflað frá honum frekari gagna. Niðurstöður rannsóknar ríkislögreglustjóra voru að lækka umtalsvert niðurstöðufjárhæðir skattrannsóknarstjóra ríkisins. Aðallega var það vegna þess að erfitt var að ákvarða söluverð bifreiðanna. Var talið rétt að ákærði nyti vafans um þetta efni. Að öllu framangreindu verður ekki talið varhugavert að leggja til grundvallar niðurstöðufjárhæðir skattrannsóknarstjóra ríkisins með  síðari breytingum ríkislögreglustjóra.

Brot samkvæmt I. og II. kafla ákæru verður að virða heildstætt sem samfellda brotastarfsemi og þykja þau þá með vísun í dóm Hæstaréttar nr.18/2001 ófyrnd. Samkvæmt öllu framangreindu þykir sannað að ákærði hefur vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar. framið þau brot sem lýst er í I. kafla ákæru vegna virðisaukaskattsnúmers 23560 og II. kafla A í ákæru og eru þau þar rétt færð til refsiákvæða. 

Í II. kafla B ákæru er ákærður sakaður um að hafa vantalið tekjur á framtal  1997 bæði fyrir atvinnustarfsemi sína og B ehf. án þess að það sé sundurliðað og skilið á milli hvað sé vegna hans persónulega og hvað vegna B ehf.  Þegar höfð er hliðsjón af því sem að framan getur um að ákærður beri ekki refsiábyrgð á vanskilum skatta og bókhaldi vegna B ehf. þykir verða að vísa þessum lið ákærunnar frá dómi.

Í III. kafla ákærunnar er ákært fyrir brot gegn bókhaldslögum og lögum um ársreikninga. Ákærði hefur haldið því fram að bókhald sitt persónulega hafi verið í lagi en að hann beri ekki ábyrgð á bókhaldi B ehf. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi það í ljós að bókhald hafði hvorki verið fært vegna sjálfstæðrar starfsemi ákærða né vegna B ehf. Þá var ekki gerður ársreikningur. Fram kom hjá vitninu I fyrir dómi að hann hafi m.a. aðstoðað við fylla út virðisaukaskattsskýrslur fyrir félagið. Hann hafi við það verk fengið sölureikninga og innkaupareikninga frá ákærða. Hann hafi hins vegar ekki fært bókhald fyrir félagið enda viti hann ekki til þess að það hafi verið fært enda hafi rekstur þess staðið stutt. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi það einnig í ljós að vörslu bókhaldsgagna var áfátt. Þannig liggur ekki fyrir hvaða gögn liggja til grundvallar innsendum virðisaukaskattsskýrslum né innsendu rekstraryfirliti með skattframtali 1997.

Ákærður þykir samkvæmt því sem áður er rakið ekki bera ábyrgð á bókhaldi B ehf. og er því sýknaður af því broti í III. kafla ákæru er varðar B ehf..

Hins vegar  þykir sannað að ákærði hefur vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar framið þau brot sem lýst er í III. kafla ákæru og þar eru rétt færð til refsiákvæða.

 

                Ákvörðun refsingar ákærða

                Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til sakaferils ákærða en hann hefur ekki áður sætt refsingu svo áhrif hafi við úrlausn þessa máls. Einnig verður að líta til þess að dráttur hefur orðið á meðferð málsins í höndum skattayfirvalda og lögreglu án þess að séð verði,  að ákærði hafi á neinn hátt tafið fyrir málinu.

                Vangoldinn virðisaukaskattur  vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi ákærða nemur kr. 1.922.581,- og vangreiddur tekjuskattur og útsvar telst vera 1.844.064,- þegar tekið hefur verið tillit til flutningskostnaðar og skráningargjalda til lækkunar.

                Sekt ákærða þykir því með hliðsjón af ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1987 sbr. 3. gr. laga nr. 42/1955 og 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum hæfilega ákveðin kr. 8.500.000 og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.

                Brot ákærða verða að teljast meiriháttar í merkingu 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 39/1995 0g lög nr,82/12998 og ber því jafnframt að dæma hann samkvæmt því ákvæði og lögum nr. 145/1994 og lögum nr. 144/1994 sbr. lög nr.37/1995 í fangelsi í 4 mánuði, en þegar virt er hversu mikill dráttur hefur orðið á meðferð málsins og þegar og er litið til annarra atvika þess, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærður almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga sbr. lög nr. 22/1955.

                Dæma ber að ákærður greiði allan kostnað sakarinnar að 2/3 hlutum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hrl. Sveins Andra Sveinssonar sem ákveðast 400.000 krónur, svo og  þóknun vegna réttargæslu á rannsóknarstigi málsins kr. 486.500,-, sem þegar hefur verið lagt út fyrir, en að öðru leyti greiðist kostnaður þessi úr ríkissjóði.

                Tafir á dómsuppsögu eru vegna anna dómara o.fl..

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson, fulltrúi Ríkislögreglustjórans.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Ákærður, Halldór Baldvinsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og niður skal hún falla að liðnum 3 árum haldi ákærður almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. lög nr. 22/1955.

                Ákærður greiði 8.500.000 krónur í sekt og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms þessa.

                Ákærður er sýknaður af refsikröfu vegna vanskila á virðisaukaskatti að fjárhæð 2.965.054 krónur vegna B ehf.

                Refsikröfu vegna brota sem getur um í II. kafla B í ákæru er vísað frá dómi.

                Ákærður greiði 2/3 hluta alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða hrl. Sveins Andra Sveinssonar 400.000 krónur svo og þóknun vegna réttargæslu á rannsóknarstigi 486.500 krónur sem þegar hefur verið lagt út fyrir, en að öðru leyti greiðist kostnaðurinn úr ríkissjóði.