Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/1999


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Veikindaforföll
  • Laun


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 1999.

Nr. 280/1999.

Garðey ehf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

gegn

Viðari Zophoníassyni

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Sjómenn. Veikindaforföll. Laun.

V, sem var matsveinn á frystitogara G, slasaðist þegar hann datt um borð í skipinu. Farið var með V til læknis og var í fyrstu talið að hann hefði hlotið minni háttar áverka. Fór V í stutt frí en kom svo aftur til vinnu. Störfum hans hjá G lauk skömmu síðar er hann slasaðist í átökum við skipsfélaga sinn. Síðar kom í ljós að V hafði hlotið hryggbrot. Stefndi hann G og krafðist launa á þeim grundvelli að hann hefði orðið óvinnufær í skilningi sjómannalaga við byltuna. Talið var sannað að V hefði hryggbrotnað er hann féll í umrætt sinn og að hann hefði ekki verið fær um að gegna sjómennsku. Voru V því dæmdar bætur úr hendi G samkvæmt reglum sjómannalaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 1999. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar krafna stefnda og að málskostnaðar verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi slasaðist stefndi 13. mars 1995 við vinnu sína um borð í frystitogara áfrýjanda Andey SF 222. Var hann að sækja matföng í kæligeymslu í skipinu þegar hann missti fótanna í sjógangi með þeim afleiðingum að hann kastaðist aftur á bak í gegn um dyrnar og lenti á stigahandriði. Meiddist stefndi við þessa byltu.

Þegar slysið varð var skipið á leið til Vestmannaeyja. Er þangað var komið fylgdi skipstjórinn stefnda í sjúkrahús, þar sem röntgenmyndir voru teknar af honum, nánar tiltekið af lungum, brjósthrygg, höfuðkúpu og hálsliðum.

Í umsögn, sem læknir ritaði á rannsóknarbeiðni eftir myndatökuna, er tekið fram að brot á höfuðkúpu eða rifjum sé ekki sjáanlegt. Um hálsliði segir svo í umsögninni: „Ekkert athugavert við atlantoaxiallið. Sjö hálsliðir, sem allir hafa eðlilega lögun og stöðu hver til annars. Ekki merki um brot né skrið.“ Um brjósthrygg er þetta skráð: „Væg hægri sveigja um miðbik brjósthryggjarins, en allir liðbolir eru eðlilega háir og hafa eðlilega afstöðu hver til annars. Brot ekki sjáanlegt.” Ekki nýtur við frekari gagna frá lækninum eða sjúkrahúsinu um læknisskoðun, sem gerð var þennan dag, en að henni lokinni fékk stefndi að fara heim og tók hann sér samdægurs far með flugvél til Reykjavíkur.

Í byrjun veiðiferðar 28. mars 1995 tók stefndi að nýju við starfi sínu á Andey og gegndi því til 31. sama mánaðar, er skipinu var haldið til hafnar í Vestmannaeyjum. Þar var stefndi ásamt nokkrum félögum sínum á skemmtistað aðfaranótt 1. apríl. Kom til deilu með honum og öðrum skipverja af Andey og lyktaði henni með því stefndi sló félaga sinn í höfuðið með bjórkönnu eða glasi og slösuðust þeir báðir. Samkvæmt vottorði læknis á Sjúkahúsi Vestmannaeyja skarst stefndi við þetta á hægri hendi og blæddi mikið úr slagæð á að minnsta kosti tveimur stöðum. Stefndi var í þetta sinn lagður inn á sjúkrahúsið og lá þar í tvo daga, en þá óskaði hann eftir að fara í áfengismeðferð, sem mun hafa staðið í einn mánuð.

Eftir meðferðina hóf stefndi vinnu á Neskaupstað og var þar að eigin sögn við létta vinnu í júní og júlí 1995. Upplýsingar liggja ekki fyrir um hvenær hann hóf störf eftir það, en hann kveðst ekki hafa farið á sjó eftir þetta.

II.

Í apríl 1997 leitaði stefndi til Braga Guðmundssonar sérfræðings í bæklunarsjúkdómum. Samkvæmt vottorði hans kom í ljós við segulómskoðun 5. maí 1997 samfall á 4. og 5. brjósthryggjarlið.

Bogi Jónsson bæklunarskurðlæknir ritaði vottorð um stefnda 10. mars 1998, en ekki kemur fram hvenær læknirinn skoðaði hann. Segir meðal annars í vottorðinu að gerð hafi verið segulómun af brjósthrygg, sem sýni brot á 4. og 5. brjósthryggjarlið með lækkun á framvegg sömu liða og brot á efri endaplötu þeirra. Í vottorði 29. desember 1998 greinir sami læknir svo frá að hann hafi þá fengið í hendur röntgenmyndir, sem teknar voru 13. mars 1995. Þessar myndir staðfesti hryggbrot, sem segulómun hafi einnig sýnt, þótt hún hafi verið gerð síðar. Þessi læknir hefur ekki komið fyrir dóm og staðfest vottorðin.

Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fyrir dóm heilsugæslulæknir, sem stefndi hafði leitað til í maí 1995. Voru honum sýndar röntgenmyndirnar frá 13. mars 1995. Kvað hann alveg ljóst á annarri myndinni að 4. hryggjarliður hafi orðið fyrir áverka og væri liðurinn kýttur saman. Kvað læknirinn það afdráttarlausa skoðun sína að mistök hefðu orðið við skoðun röntgenmyndarinnar í Vestmannaeyjum á sínum tíma. Læknirinn var spurður hvort unnt væri að sjá af myndunum að brotið hafi verið nýtt 13. mars 1995. Kvað hann erfitt að segja ákveðið um það, en sér virtist það hafa verið nýtt þegar myndirnar voru teknar.

Áfrýjandi heldur fram, að ekki sé sannað að ranglega hafi verið lesið úr röntgenmyndunum í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja daginn, sem slysið varð. Í framangreindri umsögn, sem læknir ritaði eftir myndatökuna, kom að vísu fram að beinbrot væru ekki sjáanleg. Síðar hafa tveir læknar látið það álit í ljós að sjúkrahúslækninum hafi að þessu leyti yfirsést. Áfrýjandi hefur ekki aflað gagna, sem hnekki áliti síðastnefndra lækna og verður því að leggja til grundvallar að stefndi hafi hlotið áverkana á 4. og 5. brjósthryggjarlið við slysið 13. mars 1995.

III.

Stefndi leitaði 21. mars 1995 til heilsugæslulæknis, sem vottaði að hann hefði þá verið slæmur í baki, en farið hægt skánandi. Þá liggja fyrir tvö vottorð frá öðrum heilsugæslulækni, þar sem fram kemur að stefnda hafi verið ráðlagt að fara í sjúkraþjálfun í maí 1995. Í vottorði sjúkraþjálfara 11. september 1995 segir að stefndi hafi verið í meðferð hjá honum frá 19. maí 1995, en með hléum. Við fyrstu komu hafi stefndi verið „alveg fixeraður í brjóstbaki og tekinn af verkjum.“ Þjálfunarmeðferðin hafi beinst að því að minnka bólgur og verki og liðka bak og háls. Árangur hafi verið þokkalegur, hreyfing sé mun liðugri og verkir í hvíld minni. Stefndi þoli þó illa álag á háls, herðar og brjóstbak. Í vottorðinu er að öðru leyti ekki getið um hvenær eða hversu oft stefndi hafi verið í meðferð hjá sjúkraþjálfaranum.

Upplýsingar um sjúkrasögu stefnda vorið og sumarið 1995 eru ófullkomnar, en af gögnum þeim, sem nú voru rakin, verður þó ráðið að stefndi hafi þá ekki verið fær um að stunda starf sitt sem matsveinn á skipi áfrýjanda. Ekki er fram komið að stefndi hafi leitað læknis í júní, júlí eða ágúst 1995, en í vottorði síðastnefnds heilsugæslulæknis 12. september sama ár, er stefndi talinn „óvinnufær til sjós sem og annarrar erfiðisvinnu“ vegna slyssins 13. mars 1995. Þótt eigi verði séð af vottorði þessu, hvort læknirinn skoðaði sjúklinginn þá, þykir mega leggja til grundvallar að stefndi hafi ekki verið fær um að stunda vinnu sem sjómaður í fimm mánuði frá slysinu. Hefur sú niðurstaða einnig nokkra stoð í framburði þessa læknis fyrir dómi, en hann lýsti við það tækifæri hversu lengi menn væru almennt að jafna sig eftir beinbrot eins og þau, sem stefndi hlaut. Er því fallist á að stefndi hafi öðlast rétt til launa í veikindaforföllum í alls fimm mánuði, sbr. 1. og 3. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Garðey ehf., greiði 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Viðars Zophoníassonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dóm­þinginu af Viðari Zophoníassyni, kt. 050663-2999, óstaðsettur í hús í Reykjavík, á hendur Garðey ehf., kt. 650777-0189, Krosseyrarvegi 15, Höfn Hornafirði.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 986.492 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  334.246 krónum frá 13. apríl 1995 til 28. apríl 1995, en af 226.090 krón­um frá þeim degi til 13. maí 1995, en af 560.896 krónum frá þeim degi til 7. júní 1995, en af 523.896 krónum frá þeim degi til 13. júní 1995, en af 629.896 krónum frá þeim degi til 13. júlí 1995, en af  735.896 krónum frá þeim degi til 13. ágúst 1995, en af 841.896 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Frá dómkröfum dragist innborganir stefnda 108.156 krónur þann 28. apríl 1995 og 36.440 krónur þann 7. júní 1995.

Til vara gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða 986.492 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og tilgreint er í aðalkröfu að teknu tilliti til til­­greindra innborgana 108.156 krónur þann 28. apríl 1995 og 36.440 krónur þann 7. júní 1995, eða samtals 144.796 krónur auk greiðslna frá þriðja aðila í júlí og ágúst 1995, 85.285 krónur, þann 1. júlí 1995 og 85.285 krónur þann 1. ágúst 1995.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk 24,5% virð­is­aukaskatts á tildæmda málflutningsþóknun, samkvæmt framlögðum máls­kostn­að­ar­reikn­ingi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefn­anda, en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega.  Þá krefst stefndi máls­kostn­aðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 15. febrúar sl.  Mál­ið var endurupptekið í dag með vísan til 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 og endurflutt þar sem stefn­andi gerði nánari grein fyrir dómkröfum sínum.   Málið var dómtekið

 

II.

Stefnandi var matsveinn á skipi stefnda Andey SF-222.  Hinn 13. mars 1995 varð stefn­andi fyrir slysi um borð í skipinu.  Slysið varð með þeim hætti að stefnandi, sem var að ná í matvæli í kæli skipsins, kastaðist á hurð er ólag reið yfir skipið.  Við það opn­aðist hurðin og stefnandi kastaðist yfir á handrið handan hurðarinnar og hlaut lík­ams­tjón af.  Farið var með stefnanda á Heilsugæslustöð Vestmannaeyja og var stefn­andi sendur heim til sín til Reykjavíkur að lokinni rannsókn þar.  Stefnandi fór til heim­ilislæknis síns hinn 21. mars 1995 og segir svo í framlögðu vottorði um komu hans: „Kemur með mjög óljósar kvartanir segist eiga að koma til að meta sig eftir vinnu­slys.  Mun hafa dottið í miklum veltingi úti á sjó fyrir viku síðan (frystitogari Vest­mannaeyj.)  Var þar tekinn þar [svo] til skoðunar og röntgenmyndaður þar hátt og lágt.  Hann mun hafa fengið högg á hnakkann og rotast örstutta stund.  Er á bólgu­eyð­andi lyfjum og legið að mestu heima.  Er slæmur í bakinu en þó samt skánandi.  Við skoðun þá er hann allur kófsveittur og virðist mjög spenntur og stífur.  Hann segir þetta vera áfengislöngun sem hann ráði við.  Mér finnst eitthvað búa hér undir en næ ekki neinum töku á sjúkling.  Hann á að fara út á sjó 24/3 og getur verið 3ja vikna túr.  Hann verður að ákveða það sjálfur.  Ég mundi bakka hann ef hann væri frá vinnu og þá væri hann tekinn í meðferð útaf bakinu á meðan.”

Þá segir í vottorði sama læknis dags. 28. mars 1995:„Vinnuslys:  Viðar hringdi utan af sjó 28/3.  Þarf að fá áverkavottorð.  Ég búinn að fá gögn frá Vestmannaeyjum.  Þarf að fá lýsingu á slysinu frá bátsmanni eða stýrimanni og hann mun koma með ljós­rit af því næsta þegar hann kemur inn eftir u.þ.b. 3 vikur.

Stefnandi kvaðst hafa þurft að fara út á sjó hinn 28. mars 1995 illa á sig kominn, þar sem hann hefði ekki haft vottorð um óvinnufærni sína af völdum slyssins frá 15. mars.  Stefndi kvað stefnanda hafa komið aftur til starfa um borð í Andey hinn 28. mars 1995, án nokkurs þrýstings frá stefnda.  Skipið var á veiðum fram til 31. mars er leitað var hafnar í Vestmannaeyjum vegna veðurs.  Um kvöldið fóru skipverjar út að skemmta sér saman og lenti stefnandi þar í ryskingum við skipsfélaga sinn og hlaut meiðsli af.  Stefnandi kom ekki aftur til starfa hjá stefnda eftir þann atburð.

 

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi orðið fyrir slysi er hann var við vinnu sína um borð í Andey SF-222 þann 13. mars 1995 og hafi sannanlega verið frá vinnu af þeim sökum. 

Í lögum nr. 35/1985 sé skýrlega kveðið á um að verði sjómaður fyrir slysi við störf sín um borð í skipi skuli hann fá fjarvistir af völdum slyssins bættar svo lengi sem hann sé óvinnufær af ástæðum er slysið varði en þó ekki lengur en 2 mánuði.  Stefn­andi kveðst vísa á bug þeim fullyrðingum stefnda um að stefnandi eigi ekki bóta­rétt, þar sem hann hafi slasast í ryskingum 31. mars 1995.  Umrætt slys hafi orðið 13. mars 1995 og röntgenmyndir frá þeim tíma sýni að slysið hafi valdið stefnanda var­an­legu og tímabundu fjártjóni sem og læknisfræðilegu tjóni.

Stefnandi kveðst gera kröfur á hendur stefnda á grundvelli 1. mgr. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 35/1985.  Kveðst hann við kröfugerð sína taka mið af launum sem hann hafi fengið greidd í mars 1995, en þar hafi hann unnið fyrstu 13 daga mánaðarins og fengið launauppgjör fyrir tímabilið frá 2. mars 1995 til 24. mars sama ár.  Þá hafi hann nauð­ugur þurft að fara til sjós dagana 28. mars til 31. mars 1995 og fengið greitt fyrir þá daga 36.440 krónur.  Alls hafi stefndi því fengið greiddar 315.325 krónur fyrir mars­mánuð.  Við þetta bætist réttur hans til framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð sem sé 6% og hafi vinnuveitandi átt að greiða 18.921 sem framlag á móti stefnanda í mars­mánuði 1995.  Stefnandi kveðst gera kröfu um tveggja mánaða laun, eða 668.292 krónur.  Frá dragist sá hluti af marslaununum, sem þegar hafi verið greiddur, samtals 144.796 krónur fyrir 17 daga í marsmánuði.  Stefnandi kveður uppgjör stefnda til stefn­anda hafa farið fram 28. apríl 1995 með greiðslu á 108.156 krónum og 7. júní 1995 með krónum 36.440.  Í báðum þessum tilvikum sé gengið út frá því að skilað hafi verið öllum frádráttarliðum til réttra aðila svo sem ríkissjóðs vegna skatta, stétt­ar­félags og lífeyrissjóðs.  Þá kveður stefnandi að samkvæmt 3. mgr. 36. gr. fyrrgreindra laga skuli stefnandi njóta næstu þrjá mánuði á eftir kauptryggingar.  Kveður stefnandi að miðað sé við að kauptrygging sé 25.000 krónur á viku eða 300.000 krónur í þrjá mánuði auk 6% framlags atvinnuveitanda í lífeyrissjóð eða 18.000 krónur.

Stefnandi hefur sundurliðað kröfu sína svo í stefnu:

1.

Höfuðstóll I.

 

 

 

laun skv. 36.gr. 1. mgr.

 

 

 

m. v. marslaun stefnanda, 2 mán.

 

kr.630.650

2.

Framlag atvinnurekanda

 

 

 

6% í lífeyrissjóð, 2 mán.

 

kr.  37.842

3.

Höfuðstóll II.

 

 

 

laun skv. 36. gr. 3. mgr.

 

 

 

sem kauptrygging

 

 

 

kr. 25.000,- pr. viku í 12 vikur

 

kr.300.000

4.

Framlag atvinnurekanda

 

 

 

6% í lífeyrissjóð af kauptrygg.

 

kr.  18.000

5.

Innborgað skv. launaseðli 28.4.1995  

 

 

 

14/3 – 28/3

kr.   108.156

 

 

Innborgað skv. launaseðli

 

 

 

á dskj. nr. 33  

kr.   36.440

 

 

 

   kr.  144.596

kr.986.492

 

Stefnandi kveðst gera kröfu um vexti á umrædd laun er tekið hafi verið tillit til inn­borgana.

Stefnandi kveðst byggja varakröfu sína á sömu málsástæðum og aðalkröfu.  Vara­krafan byggi á því að aðalkrafan verði viðurkennd þó með þeim breytingum að tekjur sem stefnandi hafi aflað sér með afleysingarvinnu við matreiðslu hjá Glæsi á Nes­kaup­stað samtals 170.571 króna, sem skiptist að jöfnu milli mánaðanna júní og júlí 1995 og hafi verið greiddar þann 1. júlí 1995 85.285 krónur og 1. ágúst 1995 85.285 krónur.

Stefnandi byggir málskostnaðarkröfu sína á því, að stefndi hafi ekki fallist á neins konar greiðsluskyldu gagnvart stefnanda þrátt fyrir ítarlega útlistun á því að um laga­skyldu sé að ræða varðandi uppgjör bóta, sem taki mið af launum, svo sem stefnu­krafan sé fram sett. 

Um lagarök vísar stefnandi til sjómannalaga nr. 35/1985 og kjarasamninga sjó­manna.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 4. tl. 129. gr. sömu laga.

Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum.

Kröfu um virðisaukaskatt á tildæmdan málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauð­syn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi þegar fengið fullt end­ur­gjald vegna starfs síns hjá stefnda og hafi hann átt einhvern frekari rétt þá hafi hann misst hann sökum aðgerðarleysis.

Stefndi mótmælir sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum í stefnu að stefnandi hafi orðið að fara nauðugur til sjós dagana 28. mars til 31. mars 1995.  Stefnandi hafi að eigin mati verið orðinn vinnufær þann 28. mars 1995 og hafi hann þá komið aftur til starfa um borð í Andey án nokkurs þrýstings frá stefnda.

Stefndi kveður stefnanda hafa orðið óvinnufæran aðfaranótt 1. apríl 1995 við það að skerast á höndum eftir að hafa brotið glas á höfði skipsfélaga síns á skemmtistað þá nótt.  Stefnandi eigi ekki rétt til launa úr hendi stefnda vegna þeirrar óvinnufærni sbr. 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga.  Stefnandi hafi ekki sagt upp starfi sínu heldur látið sig hverfa og ekki komið aftur til starfa hjá stefnda eftir að hann hafi verið gróinn sára sinna.  Stefndi kveður stefnanda hafa valdið sér tjóni með framferði sínu aðfaranótt 1. apríl 1995, þar sem tafir hafi orðið á því að skipið kæmist á sjó vegna fjarveru stefn­anda.  Útvega hafi þurft nýjan matsvein í stað stefnanda og fljúga með hann frá Höfn í Horna­firði.  Af þeim sökum hafi skipið ekki farið á sjó fyrr en 2. apríl 1995.

Þá mótmælir stefndi sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum stefnanda um að hann eigi rétt á frekari launum vegna slyssins 13. mars 1995, en hann hafi þegar feng­ið greidd úr hendi stefnda.  Stefnandi hafi fengið greidd slysalaun í fjarveru sinni frá skipinu eftir slysið.  Stefnandi hafi verið orðinn vinnufær og komið aftur til starfa 28. mars 1995 og starfað þar til 31. mars sama ár.  Stefnandi kveðst ekki vita til þess að staðið hafi á því að stefnandi fengi greiddar þær bætur, sem hann hafi átt rétt á vegna slyssins 13. mars 1995, hjá vátryggjanda stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf.

Stefnanda hafi orðið óvinnufæran 1. apríl 1995 eftir að hafa brotið glas á höfði vinnu­félaga síns í ölæð og við það skorið sig alvarlega á höndum.  Sú óvinnufærni og af­leiðingar þeirra áverka veiti ekki rétt til greiðslu veikindalauna samkvæmt 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga og verði stefnandi að bera það tjón sjálfur.  Samkvæmt fyrr­greindri grein eigi skipverji ekki rétt á launum þann tím sem hann sé ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla, sem hann hafi sjálfur bakað sér af ásetningi eða stór­felldu gáleysi.  Telur stefndi það atferli stefnanda, að grípa glas og brjóta á höfði skips­félaga síns með þeim hætti sem stefnandi hafi gert verði ekki skýrt með öðru en ásetn­ingi eða í það minnsta stórfelldu gáleysi, sem geri það að verkum að stefnandi njóti ekki launa vegna óvinnufærninnar samkvæmt 4. mgr. 36. gr. sjómannalaga.

Til vara byggir stefndi á því að sýkna beri vegna tómlætis stefnanda.  Stefnandi hafi engar athugasemdir gert eða kröfur um frekari launagreiðslur úr hendi stefnda fyrr en fyrir tæpum tveimur árum eftir að hann hætti störfum hjá stefnda með bréfi lög­manns stefnanda, þar sem gerðar voru kröfur um viðbótagreiðslu slysalauna í 4,5 mán­uði eða til 13. ágúst 1995.  Ef stefnandi verði talinn eiga rétt til frekari greiðslna úr hendi stefnda vegna slyss þess sem hann varð fyrir 13. mars 1995 krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og að stefnanda verði í hæsta lagi reiknuð laun fyrir það tímabil sem tilgreint sé í læknisvottorði dags. 2. maí 1995.  Krefst stefndi þess að laun verði ekki reiknuð til lengri tíma en 2. maí að frádregnum þeim tíma sem stefnandi var óvinnufær vegna áverkanna, sem hann hlaut á skemmti­staðn­um Calypso. 

Þá gerir stefndi þá kröfu að dráttarvextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá þing­fest­ing­ardegi stefnu.

Um lagarök vísar stefndi til 27., 28. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og kjara­samn­inga Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Kröfu um vexti byggir stefndi á 9. og 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála.

 

V.

Óumdeilt er að stefnandi varð fyrir slysi við vinnu sína úti á sjó hinn 13. mars 1995.  Samkvæmt framlögðum röntgenmyndum og læknisvottorðum hryggbrotnaði stefnandi í því slysi.  Samkvæmt fyrrgreindum vottorðum og framburði læknis fyrir dómi, voru áverkar þessir með þeim hætti að stefnandi hefði átt að vera óvinnufær í nokkra mánuði eftir slysið og liggur fyrir að stefnandi hefur ekki enn náð sér eftir það. Hins vegar las læknir, sem tók á móti stefnanda eftir slysið og lét röntgenmynda stefnanda, ekki rétt út úr röntgenmyndunum og sá ekki brotið á hryggnum.  Hvorki stefnandi né heimilislæknir sem stefnandi leitaði til nokkrum dögum eftir slysið gerðu sér því grein fyrir meiðslum stefnanda og fór stefnandi aftur til vinnu sinnar 28. mars 1995 eftir að hafa legið nokkra daga heima.  Þar sem meiðsli stefnandi voru slík að þau leiddu til óvinnufærni hans átti stefnandi rétt á launum samkvæmt 36. gr. laga nr. 35/1985.   Þó svo stefnandi hafi, af fyrrgreindum ástæðum, komið til vinnu sinnar aftur og hlotið skurð á hendi við það að brjóta glas á höfði skipsfélaga síns, er skipið var í landlegu í Vestamannaeyjum hinn 31. mars 1995 og ekki komið til vinnu eftir það, verður ekki talið að þau meiðsl stefnanda firri hann rétt til launa vegna fyrri meiðsla samkvæmt 36. gr. laga nr. 35/1985. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á það með stefnda, að stefnandi hafi tapað rétti sínum vegna  tómlætis, enda liggur ekki annað fyrir en að stefn­andi hafi haldið kröfu sinni með eðlilegum hætti til laga eftir að honum urðu ljósar afleiðingar slyssins.

Samkvæmt framansögðu ber því stefnda að greiða stefnanda laun í tvo mánuði auk kauptryggingar í 3 mánuði, að frádregnum launagreiðslum sem stefnandi fékk þann tíma frá stefnda og einnig með vinnu í landi, en fjárhæðum hefur ekki verið mót­mælt af hálfu stefnda.  Með vísan til þess sem að framan er rakið verður varakrafa stefnanda því tekin til greina

Ber stefnda því að greiða stefnanda 986.492 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxta­­laga nr. 25/1987, af 334.246 krónum frá 13. apríl 1995 til 28. apríl 1995, en af 226.090 krónum frá þeim degi til 13. maí 1995, en af 560.890 krónum frá þeim degi til 7. júní 1995, en af 523.896 krónum  frá þeim degi til 13. júní 1995, en af  629.896 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1995, en af 544.611 krónum frá þeim degi til 13. júlí 1995, en af 650.611 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1995, en af 565.326 krónum frá þeim degi til 13. ágúst 1995, en af 671.326 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frá­­dregnum innborgunum þann 28. apríl 1995 108.156 krónur, 7. júní 1995 36.440 krónur, 1. júlí 1995, 85.285 krónur og 1. ágúst 1995, 85.285 krónur, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Samkvæmt þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda máls­kostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Garðey ehf., greiði stefnanda, Viðari Zophoníassyni, 986.492 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxta­­laga nr. 25/1987, af 334.246 krónum frá 13. apríl 1995 til 28. apríl 1995, en af 226.090 krónum frá þeim degi til 13. maí 1995, en af 560.890 krónum frá þeim degi til 7. júní 1995, en af 523.896 krónum  frá þeim degi til 13. júní 1995, en af  629.896 krónum frá þeim degi til 1. júlí 1995, en af 544.611 krónum frá þeim degi til 13. júlí 1995, en af 650.611 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 1995, en af 565.326 krónum frá þeim degi til 13. ágúst 1995, en af 671.326 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frá­­dregnum innborgunum þann 28. apríl 1995 108.156 krónur, 7. júní 1995 36.440 krónur, 1. júlí 1995, 85.285 krónur og 1. ágúst 1995, 85.285 krónur.

Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.