Print

Mál nr. 238/2017

Íslenska ríkið (Soffía Jónsdóttir lögmaður)
gegn
Kviku banka hf. (Eyvindur Sólnes lögmaður )
og gagnsök
Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Málshraði
  • Stjórnsýsla
  • Dráttarvextir
Reifun

Með úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar var virðisaukaskattur af þjónustu sem A hf. hafði keypt erlendis frá á árunum 2008-2011 endurákvarðaður. A hf. var sameinað V hf. á árinu 2014 og í lok árs 2017 var V hf. sameinað K hf. Í málinu krafðist K hf. þess aðallega að framangreindir úrskurðir yrðu felldir úr gildi, en til vara að dráttarvextir af kröfu Í yrðu felldir niður. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að ógildingarkrafa K hf. væri reist á því að málsmeðferðarreglur hefðu verið brotnar, bæði varðandi málshraða og leiðbeiningarskyldu. Þannig hefðu liðið rúm fjögur ár frá því ríkisskattstjóri sendi fyrsta fyrirspurnarbréf sitt og þar til úrskurður hans féll í málinu. Þá hefði ekki verið brugðist við tiltekinni fyrirspurn frá A hf. auk þess sem orðalag í fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra hefði verið misvísandi. Hæstiréttur vísaði til þess að úrskurður ríkisskattstjóra hefði fallið innan þeirra tímamarka sem sett væru fyrir endurákvörðun virðisaukaskatts í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Á hinn bóginn hefði orðið slíkur dráttur á afgreiðslu málsins að í bága hefði farið við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þótt slíkur dráttur væri ámælisverður gæti hann ekki einn og sér leitt til ógildingar úrskurðar ríkisskattstjóra. Þá var ekki fallist á með K ehf. að vanræksla á leiðbeiningarskyldu gæti leitt til þess að úrskurðirnir yrðu felldir úr gildi, enda hefði A hf. borið ótilkvöddu að gera ríkisskattstjóra grein fyrir kaupunum. Að því er varðaði kröfu K ehf. um að dráttarvextir yrðu felldir niður vísaði Hæstiréttur til þess að krafa Í um dráttarvexti væri reist á skýrum og ótvíræðum lagaákvæðum. Af þeim sökum og þar sem málskot eða deila um skattskyldu frestaði hvorki gjalddaga skattsins né leysti undan viðurlögum við vangreiðslu hans var kröfu K ehf. hafnað. Þá var ekki heldur fallist á með K ehf. að fella ætti niður hluta dráttarvaxta vegna fyrningar, enda hefði skattkrafan ekki stofnast fyrr en við uppkvaðningu úrskurðar ríkisskattstjóra og reiknaðist fyrningarfrestur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda frá því tímamarki. Var Í því sýknað af kröfu K ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2017. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnandi málsins í héraði, Virðing hf., áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. júní 2017. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, var það félag sameinað Kviku banka hf. 9. nóvember sama ár undir nafni þess síðarnefnda, sem tekið hefur við aðild að málinu hér fyrir dómi sem gagnáfrýjandi. Hann krefst þess aðallega að felldir verði úr gildi úrskurðir yfirskattanefndar 3. júní 2015 og ríkisskattstjóra 19. desember 2014 „þannig að álagning virðisaukaskatts ... árin 2008, 2009, 2010 og 2011, verði óbreytt.“ Til vara krefst hann þess að dráttarvextir að fjárhæð 23.668.690 krónur verði felldir niður, en að því frágengnu að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

 Ríkisskattstjóri lagði með bréfi 22. október 2010 fyrir Auði Capital hf., sem mun hafa sameinast Virðingu hf. á árinu 2014, að láta í té upplýsingar og skýringar vegna aðkeyptrar þjónustu erlendis frá á árunum 2008 og 2009 ásamt því sem af væri árinu 2010. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skyldi sá, sem kaupir erlendis frá þjónustu sem upp er talin í 10. tölulið 1. mgr. 12. gr. laganna til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi, greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar. Þar sem meginstarfsemi félagsins félli utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts yrði ekki séð að undanþáguákvæði 2. mgr 35. gr. laganna ætti við. Bæri kaupanda slíkrar þjónustu samkvæmt 3. mgr. sömu greinar ótilkvöddum að gera ríkisskattstjóra grein fyrir kaupunum. Í svari félagsins 11. nóvember 2010 var tekið fram að virðisaukaskattur hafi ekki verið greiddur af fjárhæð reikninga erlendra þjónustusala en hugsanlegt væri að einhver sérfræðiþjónusta gæti fallið undir ákvæði virðisaukaskattslaga. Tilgreindi félagið þrjá erlenda viðsemjendur sína og óskaði eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvort greiða skyldi virðisaukaskatt af þjónustu þeirra.

Með bréfi ríkisskattstjóra 16. júlí 2012 var lagt fyrir félagið að láta í té greinargóðar skýringar á allri aðkeyptri erlendri þjónustu á árunum 2008, 2009, 2010 og 2011 og þá ekki aðeins þeirri sem félagið teldi að félli undir fyrrnefnd ákvæði laga um virðisaukaskatt. Jafnframt var beðist velvirðingar á þeirri töf sem orðið hafi á málinu, en hún var skýrð með því að athugun ríkisskattstjóra á því hvað teldist skattskyld þjónusta samkvæmt ákvæðinu hefði tafist. Félagið svaraði bréfinu með tölvupósti 4. október 2012 og fylgdi honum skjal þar sem tilgreind var aðkeypt erlend þjónusta á umbeðnu tímabili. Með bréfi 1. nóvember sama ár greindi ríkisskattstjóri frá því að svo virtist sem nánar tiltekin sérfræðiþjónusta félli undir fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988, þar sem hún hafi að minnsta kosti nýst hér á landi að hluta. Var lagt fyrir félagið að sýna fram á að svo væri ekki. Í svari félagsins 19. sama mánaðar kom meðal annars fram í hvaða skyni tiltekin erlend þjónusta hafi verið keypt.

Með bréfi 19. júní 2014 til Virðingar hf. óskaði ríkisskattstjóri eftir enn frekari upplýsingum ásamt afritum af reikningum og öðrum gögnum, sem og nánari skýringum á því meðal annars í hverju veitt þjónusta hafi falist og hvernig hún hafi nýst. Var beðist afsökunar á því hve dregist hafi að taka afstöðu til fyrri skýringa félagsins, en töfin meðal annars skýrð með starfsmannabreytingum. Virðing hf. veitti með bréfi 12. september 2014 svör við spurningum ríkisskattstjóra, en gerði jafnframt athugasemdir við hve langan tíma meðferð málsins hafi tekið hjá embættinu.

Með bréfi 21. nóvember 2014 boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun fjárhæða virðisaukaskatts af þjónustu sem gagnáfrýjandi hafi keypt erlendis frá á árunum 2008, 2009, 2010 og 2011. Jafnframt boðaði ríkisskattstjóri að beitt yrði 10% álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Í bréfinu var beðist velvirðingar á því að tafir hafi orðið á því að tekin væri afstaða til framlagðra gagna og skýringa, en tafirnar voru sagðar hafa stafað af ýmsum ástæðum, meðal annars bið eftir niðurstöðu yfirskattanefndar í sambærilegum málum. Virðing hf. mótmælti fyrirhugaðri endurákvörðun með bréfi 15. desember 2014. Með úrskurði 19. sama mánaðar hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði sá stofn, sem Virðingu hf. bar að miða virðisaukaskattskil við, um 28.702.059 krónur vegna ársins 2008, 50.732.136 krónur vegna ársins 2009, 33.503.578 krónur vegna ársins 2010 og 29.400.179 krónur vegna ársins 2011. Skyldu til viðbótar reiknast dráttarvextir af gjaldföllnum virðisaukaskatti samkvæmt 28. gr. laga nr. 50/1988. Ríkisskattstjóri féll á hinn bóginn frá áður boðaðri beitingu álags. Virðing hf. kærði úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar sem kvað upp úrskurð í málinu 3. júní 2015. Hafnaði nefndin kröfum félagsins að öðru leyti en því að hún féllst á þrautavarakröfu þess sem sneri að því að eftir gildistöku laga nr. 121/2011 hafi Auði Capital hf. ekki borið að greiða virðisaukaskatt vegna þjónustu sem félagið keypti erlendis frá og fékk afhenta rafrænt. Lækkaði stofn til virðisaukaskatts Virðingar hf. samkvæmt því um 24.719.547 krónur á síðasta uppgjörstímabili ársins 2011.

II

Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega að úrskurður yfirskattanefndar 3. júní 2015 og úrskurður ríkisskattstjóra 19. desember 2014 verði felldir úr gildi. Hann heldur því þó ekki fram að úrskurðir þessir séu haldnir efnislegum annmörkum en reisir kröfu sína um ógildingu þeirra á því að brotnar hafi verið málsmeðferðarreglur, bæði varðandi málshraða og leiðbeiningaskyldu. Eins og að framan segir má rekja upphaf málsins til bréfs ríkisskattstjóra 22. október 2010 sem Auður Capital hf. svaraði 11. nóvember sama ár. Ríkisskattstjóri lauk málinu með úrskurði 19. desember 2014 eða rúmum fjórum árum eftir að fyrirspurnarbréf hans var sent. Samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 nær heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts til skatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Ljóst er að úrskurður ríkisskattstjóra féll innan þeirra tímamarka. Á hinn bóginn varð slíkur dráttur á afgreiðslu málsins að í bága fór við ákvæði 1. mgr 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar á þeim drætti. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að Auði Capital hf. eða Virðingu hf. hafi á nokkru stigi verið tilkynnt að tafir yrðu á málsmeðferð. Þessi dráttur, þótt ámælisverður sé, getur þó ekki einn og sér leitt til ógildingar úrskurðar ríkisskattstjóra, enda er ágreiningslaust að ekki séu efnislegir annmarkar á þeim úrskurði að teknu tilliti til þeirrar breytingar sem fólst í úrskurði yfirskattanefndar. Gagnáfrýjandi telur ríkisskattstjóra hafa vanrækt leiðbeiningarskyldu sína, sbr. 1. mgr 7. gr stjórnsýslulaga, með því annars vegar að hafa ekki brugðist við ósk Auðar Capital hf. í bréfi 11. nóvember 2010 um álit á því hvort tiltekin aðkeypt erlend þjónusta teldist nýtt hér á landi og hins vegar með misvísandi orðalagi í fyrirspurnarbréfi 22. október sama ár. Ekki verður fallist á að slíkt geti leitt til þess að umræddir úrskurðir verði felldir úr gildi enda var Auði Capital hf. skylt að sinna ótilkvöddu skyldum sínum samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988.

Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að dráttarvextir að fjárhæð 23.668.690 krónur verði felldir niður. Eins og að framan er rakið er kveðið á um það í 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 að sá sem skyldur er til greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 1. mgr. sömu greinar skuli ótilkvaddur gera ríkisskattstjóra grein fyrir kaupum á þjónustu í sérstakri skýrslu. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt skýrslu skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga. Sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skal samkvæmt 1. mgr. 28. gr. sömu laga greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Krafa um þá dráttarvexti sem gagnáfrýjandi krefst að niður verði felldir var þannig reist á skýrum og ótvíræðum lagaákvæðum. Af þeim sökum og þar sem málskot eða deila um skattskyldu frestar hvorki gjalddaga skattsins né leysir undan nokkrum viðurlögum við vangreiðslu hans samkvæmt 6. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 verður varakröfu gagnáfrýjanda hafnað.

Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á þrautavarakröfu gagnáfrýjanda og dráttarvextir af endurákveðnum virðisaukaskatti frá fyrri tíma en 19. desember 2010, samtals 4.964.481 króna, felldir niður þar sem krafa um þá var talin fyrnd. Um þetta verður að líta til þess að krafa aðaláfrýjanda um greiðslu virðisaukaskatts getur orðið til með tvennu móti. Fullnægi gjaldandi lagaskyldu sinni til að skila virðisaukaskattskýrslu með fullnægjandi upplýsingum sem byggja má skattfjárhæð á verður skattkrafan til við skilin óháð því hvort skilunum fylgi greiðsla. Bregðist gjaldandi á hinn bóginn þessari lagaskyldu þarf atbeina stjórnvalds til að ákveða fjárhæð skattkröfunnar. Þegar svo stendur á stofnast skattkrafan þegar ríkisskattstjóri hefur tekið nauðsynlega ákvörðun um greiðsluskyldu gjaldandans og tilkynnt honum um ákvörðunina, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. nóvember 2013 í máli nr. 368/2013. Fyrir liggur að Auður Capital hf. stóð ekki skil á skýrslum vegna kaupa á þjónustu erlendis frá fyrir einstök uppgjörstímbil virðisaukaskatts samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988. Krafa aðaláfrýjanda um greiðslu skattsins stofnaðist því ekki fyrr en með úrskurði ríkisskattstjóra 19. desember 2014. Aðaláfrýjandi gat fyrst átt rétt til efnda kröfunnar við stofnun hennar og reiknast fyrningarfrestur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda því frá uppkvaðningu úrskurðar ríkisskattstjóra. Breytir engu þar um þó að í sérreglu 28. gr. laga nr. 50/1988 sé kveðið á um að við útreikning dráttarvaxta skuli miðað við fyrra tímamark. Samkvæmt því var enginn hluti kröfu aðaláfrýjanda fyrndur og verður hann því sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Kviku banka hf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2016.

Mál þetta sem höfðað var 25. apríl 2016 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 15. nóvember 2016. Málið var endurupptekið og endurflutt 17. janúar sl. samkvæmt fyrirmælum 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefnandi er Virðing hf., Borgartúni 29, 105 Reykjavík og stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar frá 3. júní 2015 nr. 159/2015 og jafnframt verði felldur úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra frá 19. desember 2014 þannig að álagning virðisaukaskatts stefnanda árin 2008, 2009, 2010 og 2011, verði óbreytt.

Til vara er þess krafist að dráttarvextir að fjárhæð 23.668.690 krónur verði felldir niður.

Til þrautavara er þess krafist að dráttarvextir vegna áranna 2008 og 2009 að fjárhæð 4.964.481 króna verði felldir niður.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.

I.

Þann 22. október 2010 óskaði ríkisskattstjóri upplýsinga frá stefnanda sem þá hét Auður Capital hf., um aðkeypta þjónustu erlendis frá og virðisaukaskattskil í því sambandi. Stefnandi sendi upplýsingar til ríkisskattstjóra 12. nóvember 2010, með bréfi dagsettu 11. sama mánaðar. Fram kom í bréfinu að stefnandi teldi að tilteknir reikningar gætu fallið undir þá sérfræðiþjónustu þar sem áskilið er að kaupandi þjónustunnar skuli sjálfur skila virðisaukaskatti. Var í bréfinu sérstaklega óskað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvort greiða skyldi skatt af þessari tilteknu þjónustu. Enn fremur var sérstaklega óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort þjónustan teldist samt sem áður nýtt að hluta hér á landi. Ef niðurstaðan yrði sú að þessir reikningar bæru íslenskan virðisaukaskatt þá var óskað eftir því að fá að greiða hann án álags.

Þessum beiðnum stefnanda um leiðbeiningar vegna skattskila var ekki svarað beint af hálfu ríkisskattstjóra. Embættið sendi hins vegar aðrar fyrirspurnir með bréfum 16. júlí og 1. nóvember 2012 sem stefnandi svaraði 4. október og 19. nóvember 2012. Í bréfinu frá júlí var vísað til fyrra bréfs frá 2010 og svarbréfs stefnanda. Nú var óskað eftir upplýsingum um alla aðkeypta erlenda þjónustu stefnanda fyrir árin 2008, 2009, 2010 og 2011, en ekki einungis þá sem stefnandi teldi falla undir 12. og 35. gr. laga nr. 50/1988. Beðist var velvirðingar á því að töf hefði orðið á málinu, sem stafaði að sögn af því að útfærsla á því hvað teldist virðisaukaskattsskyld þjónusta í þessum efnum hefði lengi verið í skoðun hjá embættinu.

Næstu samskipti stefnanda og ríkisskattstjóra voru ekki fyrr en 19. júní 2014 þegar ríkisskattstjóri óskaði eftir frekari upplýsingum. Í bréfinu tekur ríkisskattstjóri það fram að bréfið sé ritað í framhaldi af bréfum til Auðar Capital hf. á árunum 2010 og 2012. Aftur var beðist afsökunar vegna tafa á afgreiðslu málsins, nú með þessum orðum: „Beðist er afsökunar á því hvað dregist hefur að taka afstöðu til skýringa félagsins en vegna starfsmannabreytinga og flutninga féll málið milli stafs og hurðar.“

Stefnandi svaraði þessu erindi með bréfi 12. september 2014 og gerði jafnframt alvarlega athugasemd við þann „gríðarlega langa tíma sem ríkisskattstjóri hafi tekið“ í að skoða málið.

Það var svo 21. nóvember sama ár sem ríkisskattstjóri tilkynnti stefnanda að hann hefði í hyggju að endurákvarða fjárhæðir virðisaukaskatts af erlendri þjónustu á árunum 2008, 2009, 2010 og 2011.

Ríkisskattstjóri útskýrði í bréfi sínu frá 21. nóvember 2014, að málið hefði tafist þar sem á skoðunartímanum hefðu fallið tveir úrskurðir yfirskattanefndar sem mótað hefðu viðhorf embættisins. Stefnandi andmælti fyrirhuguðum breytingum með bréfi 15. desember 2014.

Ríkisskattstjóri kvað síðan upp úrskurð sinn þann 19. desember 2014. Hann fól í sér að virðisaukaskattur stefnanda var hækkaður á öllum tímabilum fyrir utan eitt á fyrrgreindum árum. Álagsheimild samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 var ekki beitt. Dráttarvextir voru hins vegar reiknaðir frá gjalddaga hvers virðisaukatímabils sem hækkað var.

Stefnandi kærði úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar með bréfi dags. 30. janúar 2015 sem kvað upp úrskurð sinn 3. júní 2015 í málinu nr. 159/2015. Nefndin staðfesti úrskurð ríkisskattstjóra með þeirri breytingu, að fallist var á þrautavarakröfu stefnanda og virðisaukaskattur lækkaður um 24.719.547 krónur.

II.

Stefnandi byggir á því að svo verulegur dráttur hafi orðið á málsmeðferð ríkisskattstjóra í málinu að brotið hafi í bága við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að ákvarðanir skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þannig hafi liðið um fjögur ár frá fyrsta fyrirspurnarbréfi þar til afstaða ríkisskattstjóra lá fyrir. Þær skýringar sem ríkisskattstjóri hafi gefið séu með öllu ófullnægjandi.

Stefnandi telur ekki hægt að gera þá kröfu til sín að hann hafi mátt vita hvernig fara ætti með virðisaukaskattskilin þegar ríkisskattstjóri sjálfur hafi ekki vitað það og þurft að bíða úrskurða yfirskattanefndar.

Þá telur stefnandi að ríkisskattstjóri hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar með drætti á svörum og misvísandi orðalagi í fyrirspurnarbréfi sínu. Stefnandi kveður embættið hafa gengist við þessu í kröfugerð sinni til yfirskattanefndar frá 23. mars 2015.

Stefnandi hafi óskað sérstaklega eftir leiðbeiningum frá ríkisskattstjóra vegna skattskila, með bréfi 11. nóvember 2010, en því hafi ekki verið sinnt fyrr en afstaða ríkisskattstjóra lá fyrir með boðunarbréfi dags. 21. nóvember 2014.

Fram komi í úrskurði yfirskattanefndar að almennt leiði brot á reglum um tímafresti og leiðbeiningarskyldu, hvorri um sig og einni sér ekki til ógildingar stjórnvalds-úrskurðar. Hér sé hins vegar brotið gegn báðum þessum reglum en stefnandi hafði sýnt sérstakan vilja til að skila virðisaukaskatti samkvæmt réttri túlkun ríkisskattstjóra. Enn fremur sé til þess að líta að ríkisskattstjóri virtist ekki vita sjálfur hvernig með ætti að fara. Hann hafi því ekki getað veitt leiðbeiningar og af þeim sökum tafið málið.

Til vara er þess krafist að dráttarvextir að fjárhæð 23.668.690 kr. verði felldir niður.

Dráttarvextir nema samkvæmt greiðslukvittun til stefnanda 25.546.553 krónum. Þegar yfirskattanefnd í úrskurði sínum nr. 159/2015 lækkaði höfuðstól virðisaukaskatts þá hafi í framhaldi af úrskurðinum verið endurgreiddir dráttarvextir að fjárhæð 1.877.863 krónur. Varakrafa stefnanda nemi því 23.668.690 krónum.

Ríkisskattstjóri hafi endurákvarðað virðisaukaskatt stefnanda þann 19. desember 2014 vegna virðisaukaskattstímabila á árunum 2008, 2009, 2010 og 2011. Þar sem virðisaukaskattstímabil voru liðin hafi verið reiknað álag vegna síðbúinnar greiðslu og síðan reiknaðir dráttarvextir á ógreiddan virðisaukaskatt. Dráttarvextir hafi verið reiknaðir frá gjalddaga viðkomandi tímabils og því í reynd reiknaðir aftur í tímann.

Yfirskattanefnd hafi tekið fram að dráttur á málinu hafi farið í bága við málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi ríkisskattstjóri beðist afsökunar á honum. Þrátt fyrir þetta og þegar ríkisskattstjóri gat ekki sinnt lögbundinni leiðbeiningarskyldu sinni, hafi hann ákveðið með úrskurði 19. desember 2014 að hækka virðisaukaskatt á aðkeyptri þjónustu erlendis frá, á framangreindum virðisaukaskattstímabilum.

Ríkisskattstjóri hafi þó fellt niður álag samkvæmt 6. mgr. 27. gr. en skilyrði þess sé að skattaðili færi fram gildar ástæður til málsbóta.

Stefnandi hafi ávallt viljað hafa skattamál sín í lagi en ríkisskattstjóri hafi ekki getað svarað spurningum um uppgjörshætti.

Það hafi því verið verulegur vafi um hvernig skyldi fara með þetta mál skattalega. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 282/2015, hafi verið felld niður vanefndaviðurlög vegna staðgreiðslu þar sem „allnokkur réttaróvissa“ hafði verið uppi um álitaefnið og tekið undir það að verulegur vafi hafi leikið á því hvernig bæri að standa að staðgreiðsluskilum vegna þeirra atvika er í málinu greindi. Vanefndaviðurlögin sem felld voru niður voru dráttarvextir, sem nefnast álag 2 í staðgreiðslulögum.

Stefnandi bendir á að í tilvísuðum úrskurði hafi ríkisskattstjóri haft uppi þau rök í málinu, gegn niðurfellingu álags, að skattaðili málsins hefði ekki óskað eftir leiðbeiningum frá ríkisskattstjóra um hvernig bæri að haga skattskilum. Það sjónarmið eigi ekki við í þessu máli þar sem stefnandi gerði einmitt það.

Það er andstætt lögum að mati stefnanda að stjórnvöld geti hvort sem er af ásetningi eða fyrir gáleysi tafið mál og vegna dráttar á málinu beitt vanefndaúrræðum eins og dráttarvöxtum. Niðurstaðan verði þá sú að stjórnvöld hagnist beinlínis á því að tefja mál eins og kostur er. Dráttarvextir séu almennt vegna vanefnda en hér sé ekki um slíkt að ræða.

Gjalddagi kröfu sé sá dagur þegar kröfuhafi getur krafist greiðslu. Ríkisskattstjóri hefði getað krafist greiðslunnar á gjalddaga hvers virðisaukaskattstímabils þegar embættið var sjálft að bíða eftir fordæmi yfirskattanefndar. Það lá ekki fyrir fyrr en með úrskurði 283/2013, sem ríkiskattstjóri vísar til, sem var kveðinn upp 18. september 2013 en boðun ríkisskattstjóra hafi þó ekki borist fyrr en 21. nóvember 2014. Það geti ekki verið vanefnd þegar kröfuhafi veit sjálfur ekki hver krafan er og meginreglan sé sú að ef atvik, sem varða kröfuhafa, valda greiðsludrætti, verði skuldari ekki skyldugur til að greiða dráttarvexti.

Stefnandi bendir á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en þar segi að sé ekki samið um gjalddaga kröfu þá sé heimilt að reikna dráttarvexti þegar mánuður er liðinn frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um skuldina. Það sé ekki fyrr en 19. desember 2014 sem ríkisskattstjóri kveður upp úrskurð sinn. Stefnandi vísar til dóms Hæstaréttar frá 7. nóvember 2013 í máli nr. 368/2013, þar sem fjallað sé um það hvenær skattkrafa stofnast, en það hafi verið talið hafa gerst þegar ríkisskattstjóri tók ákvörðun í máli.

Almennt sé það svo við endurákvörðun tekjuskatts að krafan falli ekki í gjalddaga fyrr en 10 dögum eftir að ákvörðun er tekin og í eindaga 30 dögum síðar, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003. Það skiptir því ekki öllu máli þótt skattyfirvöld dragi slíkar ákvarðanir. Annað sé uppi þegar um virðisaukaskatt sé að ræða. Í þessum máli sé t.d. ákvarðaður virðisaukaskattur vegna ársins 2008 á árinu 2014 og dráttarvextir þá reiknaðir í sex ár.

Stefnandi telur að með því að ríkisskattstjóri hafi fellt niður álag samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 í máli stefnanda felist viðurkenning á sök ríkisskattstjóra við þessa skattframkvæmd.

Sömu efnisrök eigi við um niðurfellingu dráttarvaxta vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Ríkisskattstjóri hafi viðurkennt að tafir hafi m.a. stafað af því að beðið hafi verið eftir niðurstöðu yfirskattanefndar í sambærilegum málum. Því sé um að ræða óljósa skattframkvæmd sem leiða ætti til þess að vanefndaúrræðum yrði ekki beitt. Hér vísi stefnandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 282/2015 og dóms Hæstaréttar frá 5. febrúar 1998, í máli nr. 224/1997. 

Stefnandi telur að 28. gr. laga um virðisaukaskatt, um að sé virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga, sbr. 24. gr., skuli greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er, gildi ekki. Reglan gildi þannig ekki þegar krafa verður til vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra, sbr. lokamálsgrein 49. gr. laganna.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að dráttarvextir vegna áranna 2008 og 2009 að fjárhæð 4.964.481 króna verði felldir niður vegna fyrningar.

Þann 19. desember 2014 hafi verið tekin ákvörðun um hækkun virðisaukaskatts vegna tímabila á árunum 2008 og 2009 og reiknaðir dráttarvextir frá gjalddaga hvers tímabils fyrir sig.

Samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, sé almennur fyrningar-frestur kröfu fjögur ár. Það sé því of seint fyrir ríkissjóð að innheimta dráttarvexti vegna áranna 2008 og 2009 eftir 19. desember 2014 þegar ákvörðun ríkisskattstjóra liggur fyrir. Dráttarvextir sem ákvarðaðir voru þann 19. desember 2014 vegna 2008 og 2009 hafi því verið fyrndir.

Fyrningarfrestur reiknist frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda, sbr. 2. gr. laga nr. 150/2007. Ríkisskattstjóri gat ekki átt þessa kröfu fyrr en hann vissi sjálfur hver krafan yrði. Ekki sé því hægt að fara lengra aftur í tímann en fjögur ár með kröfu um dráttarvexti.

Stefnandi vísar um lagarök til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 7. og 9. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, auk meginreglna kröfuréttar.

Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Stefndi bendir dómnum á atriði er gætu leitt til frávísunar án þess að gera um það kröfu. Þannig byggi stefnandi einvörðungu á því að formreglur hafi verið brotnar við málsmeðferðina. Hann virðist því sætta sig við tilvísaða úrskurði efnislega og hafi þess vegna ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um ógildingarkröfu sína.

 

Hvað varði vara- og þrautavarakröfu hafi stefna verið birt rúmu ári eftir að stefnandi greiddi þá vexti sem hann nú krefjist að fá fellda niður með dómi. Ekki sé krafist endurgreiðslu dráttarvaxta heldur sé þess krafist að þeir verði felldir niður. Hagsmunir sem stefnandi kann að hafa haft af því að fá dóm um niðurfellingu dráttarvaxta séu því ekki lengur fyrir hendi, enda hafi stefnandi þegar innt þessa skyldu af hendi. Skorti því á skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni og beri að vísa varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda sjálfkrafa frá dómi.

Stefnandi telur ekki merkjanlegt af stefnu málsins að það sé tilgangur sinn með málshöfðuninni að fá hnekkt efnislegri niðurstöðu yfirskattanefndar, heldur sá einn að fá úrskurðum yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra hnekkt á þeim grundvelli að við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra hafi ekki verið gætt að formreglum 7. gr. og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engar málsástæður sé að finna í stefnu sem lúta að því að fá efnisniðurstöðu úrskurða ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar hnekkt.

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að engir þeir annmarkar séu á úrskurðum yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra sem varðað geta ógildi þeirra.

Fyrir liggi að mál stefnanda var til meðferðar hjá ríkisskattstjóra um fjögurra ára skeið áður en ákvörðun var tekin í því og hún tilkynnt stefnanda. Heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts nái til síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Endurákvörðun á virðisaukaskattskilum stefnanda hafi því farið fram innan lögmælts frests.

Í dómaframkvæmd hafi brot stjórnvalda gegn almennum málshraðareglum og ákvæðum um lögmælta fresti ekki verið talin leiða til þess að ómerkja beri ákvarðanir þeirra, ef slík brot hafa ekki áhrif á niðurstöðu máls. Í málinu sé ekki deilt um efnislega niðurstöðu skattyfirvalda um skattskyldu stefnanda skv. 1. og 3. mgr. 35. gr. sbr. 10. tölulið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1998. Beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Málsástæðum stefnanda er varði meint brot gegn 1. mgr. 7. gr. laga nr. 37/1993 er mótmælt á sama grundvelli. Hafi það misfarist með einhverjum hætti hjá ríkisskattstjóra að leiðbeina stefnanda liggi fyrir að þau vanhöld hafa ekki leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu í máli stefnanda. Þá bar stefnanda, ótilkvöddum, að standa skil á virðisaukaskattsskýrslu til ríkisskattstjóra og greiða virðisaukaskatt vegna kaupa á þjónustu erlendis frá, í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988.

Verði stefndi sýknaður af aðalkröfu stefnanda, kveðst stefndi vart sjá að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um varakröfu sína og þrautavarakröfu, þar sem hann hafi þegar greitt endurákvarðaðan virðisaukaskatt í samræmi við úrskurð ríkisskattstjóra. Kröfugerð stefnanda sýnist því vera röng að þessu leyti og feli í sér ómöguleika þar sem dráttarvextir sem þegar hafa verið greiddir verði ekki felldir niður með dómi. Því beri að vísa þessum kröfum sjálfkrafa frá dómi á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Verði varakröfu og þrautavarakröfum stefnanda ekki vísað frá dómi byggir stefndi sýknukröfu sína af varakröfu stefnda aðallega á þeirri málsástæðu að ákvörðun dráttarvaxta á vangoldinn virðisaukaskatt stefnanda sé í samræmi við skýr fyrirmæli 28. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 nái heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar virðisaukaskatts til skatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Óumdeilt sé að ríkisskattstjóri gætti að framangreindum tímamörkum í málinu. Þá liggi fyrir að samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 28. gr. ber virðisaukaskattsskuld dráttarvexti sé hún ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga. Þau lagafyrirmæli séu eðlileg enda um vörsluskatt að ræða. Loks sé tekið fram í 6. mgr. 29. gr. að áfrýjun eða deila um skattskyldu fresti ekki gjalddaga skattsins né leysi undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Samkvæmt almennum lögskýringarreglum gangi dráttarvaxtaákvæði virðisaukaskattslaganna framar almennum ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Í dómaframkvæmd sé litið svo á að þegar um er að ræða innheimtu og skil á vörslusköttum þurfi ekki atbeina stjórnvalds til að ákveða fjárhæð skatta, heldur sé gjaldanda ætlað að skila skýrslu sem byggja má skattfjárhæð á og standa síðan skil á greiðslu í samræmi við það. Þegar svo standi á verði skattkrafa til þegar skattþegn skilar skýrslu með fullnægjandi upplýsingum, óháð því hvort greitt sé um leið, en jafna megi slíkum skýrsluskilum til viðurkenningar gjaldanda á skattfjárhæðinni. Stefnandi hafi skilað inn virðisaukaskattsskýrslum á þeim uppgjörstímabilum sem um ræði og staðið skil á greiðslu virðisaukaskatts í samræmi við þær, sbr. 1. mgr. 24. gr. og 1. og 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988. Þau skattskil hafi ekki verið rétt þar sem virðisaukaskattur vegna kaupa stefnanda á þjónustu erlendis frá var ekki allur talinn fram. Skattskil stefnanda hafi verið leiðrétt með úrskurði ríkisskattstjóra 19. desember 2014. Málsástæðu stefnanda að gjalddagi virðisaukaskattsskuldar hans sé 19. desember 2014 sé því mótmælt sem rangri.

Í bréfi ríkisskattstjóra til stefnanda 22. október 2010 komi skýrlega fram að ríkisskattstjóri hafi talið þá starfsemi stefnanda, sem fólst í kaupum á þjónustu erlendis frá, falla undir 1. og 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988. Þá liggi fyrir að í kjölfar fyrirspurnarbréfs skattstjóra hafi stefnandi farið sérstaklega yfir skattframkvæmd sína líkt og fram kemur í svarbréfi hans 12. september 2014. Eins og stefnandi leggi málið fyrir dóm liggi fyrir að ekki sé ágreiningur um skattskyldu hans, né fjárhæð virðisaukaskattsskyldrar aðkeyptrar þjónustu frá árinu 2008 til 31. október 2011. Að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar annars vegar og frumkvæðisskyldu stefnanda samkvæmt 3. mgr. 35. gr. hins vegar hefði stefnandi átt að skila virðisaukaskatti vegna kaupa á þjónustu erlendis frá með fyrirvara, teldi hann vafa leika á réttmæti skattskyldu sinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 sé hvert uppgjörstímabil virðisaukaskatts tveir mánuðir og skuli skattaðili í lok hvers uppgjörstímabils greiða ótilkvaddur þann virðisaukaskatt sem honum ber að greiða samkvæmt lögunum. Í 28. gr. laganna sé kveðið á um skilyrðislausa skyldu til að greiða dráttarvexti ef ekki eru staðin rétt skil á virðisaukaskatti. Enga heimild sé að finna í lögunum til að fella niður dráttarvexti.

Tilvísun stefnanda til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 282/2015 hefur að mati stefnda ekki fordæmisgildi við úrlausn á máli stefnanda. Virðist þess misskilnings gæta í stefnu að yfirskattanefnd hafi með þeim úrskurði fellt niður dráttarvexti. Samkvæmt úrskurðinum, sem birtur er á vef nefndarinnar, komi þvert á móti fram að um hafi verið að ræða álag sem lagt er á samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þar að auki hafi málavextir verið af allt öðrum toga; annars vegar hafi reynt á samspil álagsbeitingar gagnvart launþegum og hins vegar gagnvart launagreiðanda þeirra. Ekkert álag hafi verið lagt á stefnanda.

Sýknukrafa stefnda af þrautavarakröfu stefnanda er á því byggð að endurákvörðun á virðisaukaskatti stefnanda sé innan þeirra tímamarka sem greinir í 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Skylt sé að ákvarða dráttarvexti ef vanhöld verða á greiðslu virðisaukaskatts, sbr. 1. mgr. 28. gr. Samkvæmt 5. mgr. 29. gr. leysi deila um skattskyldu ekki undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. Í dómaframkvæmd haldist dráttarvextir skv. fyrirmælum 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 undantekningarlaust í hendur við undirliggjandi skattkröfu. Enda væri það óeðlilegt að skattaðili gæti séð sér hag í því að skila ekki inn virðisaukaskattsskýrslu til skattyfirvalda eða skila inn skýrslu með ófullnægjandi upplýsingum á gjalddaga án viðurlaga í formi dráttarvaxta, sérstaklega þegar haft sé í huga að virðisaukaskattur er vörsluskattur sem innheimtuaðila ber að skila í ríkissjóð.

Krafa um málskostnað úr hendi stefnanda er studd við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Ekki verður fallist á að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að um aðalkröfu hans sé fjallað. Ljóst er þannig að mati dómsins að ef fallist er á kröfuna geti það haft þýðingu fyrir stefnanda, burtséð frá því hverrar náttúru þær málsástæður sem teflt er fram henni til stuðnings eru, eða hvaða úrræði mögulega byðust stefnanda í þeirri stöðu.

Dómurinn telur heldur ekki efni til að frávísa varakröfu stefnanda af þeim sökum að krafist er niðurfellingar á dráttarvöxtum sem þegar hafa verið greiddir og stefnandi hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá um kröfuna fjallað. Til sanns vegar má hins vegar færa að dómsorð sem yrði í samræmi við þá kröfugerð myndi í raun ekki fela í sér aðfararhæfan dóm fyrir vöxtunum. Hins vegar verður að telja ljóst hver tilgangur stefnanda með kröfugerðinni er og það megi einnig vera stefnda ljóst. Verður vart séð að stefndi gæti hafnað endurgreiðslu dráttarvaxta ef endanlegur dómur gengi um niðurfellingu þeirra. Um þessi sjónarmið má til dæmis vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 665/2016.

Lögmaður stefnanda staðfesti við aðalmeðferð málsins að ekki sé byggt á því að þeir úrskurðir sem, með aðalkröfu málsins, er krafist ógildingar á séu haldnir efnisannmörkum; að þeir feli í sér ranga niðurstöðu að lögum. Einvörðungu sé byggt á því að formreglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar. Annars vegar hafi málshraðareglan verið gróflega brotin og hins vegar hafi skort á leiðbeiningar frá ríkisskattstjóra til stefnanda. Saman leiði þessi brot til þess að ógilda beri úrskurðina.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skal taka ákvarðanir í stjórnsýslumálum svo fljótt sem unnt er. Meginreglan hefur þó verið talin sú að brot á málshraðareglu stjórnsýsluréttar leiði eitt og sér ekki til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Sérstaklega á það við þegar sýnt þykir að dráttur á máli hafi ekki leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu til skaða fyrir málsaðila.

Fallast verður á með stefnanda að dráttur málsins hafi verið óhóflegur og þær skýringar sem á honum hafa verið gefnar langt í frá fullnægjandi.

Brot ríkisskattstjóra á 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga getur á hinn bóginn ekki talist jafn stórfellt og brot hans á 1. mgr. 9. gr. laganna. Sá skortur á leiðbeiningum sem vísað er til er og nokkuð samofinn broti á málshraðareglunni sbr. framangreint. Þannig má rekja hluta þess dráttar sem á málinu varð til þess að ríkisskattstjóri sjálfur virðist hafa talið rétt að bíða tveggja úrskurða yfirskattanefndar og ekki virðist gerður ágreiningur um það í málinu að réttarstaðan hefði verið um margt óljós áður en nefndin kvað upp sína úrskurði. Við mat á því hvort leiðbeiningarskyldu hafi verið gætt telur dómurinn einnig óhjákvæmilegt að hafa í huga stöðu stefnanda.

Þrátt fyrir að réttaróvissa hafi ríkt á sviðinu hefði ríkisskattstjóra með réttu borið að tilkynna stefnanda um stöðu málsins á hverjum tíma, hvað stæði afgreiðslu á fyrirspurnum hans fyrir þrifum og hvenær vænta mætti niðurstöðu, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en það gerði embættið ekki nema með afar stopulum hætti og braut því jafnframt gegn þeirri reglu.

Líkt og gildir um brot á málshraðareglunni hefur verið talið að brot á leiðbeiningarskyldu leiði alla jafnan ekki til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun. Hefur það verið orðað svo að töluvert þurfi að koma til svo vanræksla stjórnvalds á leiðbeiningarskyldu leiði til ógildingar. Hvað þetta verður hefur einnig hér verið horft til þess hvort brot á reglunni hafi leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu til skaða fyrir málsaðila.

Dómurinn fellst á að það geti leitt til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun ef brotin er fleiri en ein málsmeðferðarregla við málsmeðferð fyrir stjórnvaldi, það er að til ógildingar geti komið þótt brot á hverri og einni reglu sem um ræðir megni ekki að leiða til ógildingar.

Í ljósi þess hins vegar að stefnandi hefur sjálfur lýst því yfir að hann telji enga efnisannmarka á tilvísuðum úrskurðum og niðurstöðu um skattskyldu samkvæmt þeim því rétta, verður ekki séð að efni séu til að líta svo á að framangreindir hnökrar, sem vissulega voru á meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra, séu af þeim meiði að leiða eigi til ógildingar. Verður aðalkröfu stefnanda því hafnað. 

-------

Stefnandi gerir þá kröfu til vara að dráttarvextir að fjárhæð 23.668.690 krónur verði felldir niður. Eins og að framan greinir telur dómurinn að orðalag kröfugerðarinnar girði ekki fyrir efnisumfjöllun um hana.

Óumdeilt er í málinu að samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar virðisaukaskatts til skatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Ekki er heldur gerður ágreiningur um að ríkisskattstjóri hafi haldið þessi tímamörk.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laganna ber virðisaukaskattsskuld dráttarvexti sé hún ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga. Þá er kveðið á um það í 6. mgr. 29. gr. að áfrýjun eða deila um skattskyldu fresti ekki gjalddaga skattsins né leysi undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans.

Í 3. mgr. 35. gr. er svo ákvæði um að skattskyldur aðili skuli ótilkvaddur gera ríkisskattstjóra grein fyrir kaupum á þjónustu, á sérstakri skýrslu, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt skýrslu skal svo skilað til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga.

Af lögum nr. 50/1988 verður ráðið að það tjói ekki skattaðila að gera ágreining um skyldu sína til að greiða virðisaukaskatt og komast þannig hjá greiðslu. Með sama hætti verður því slegið föstu að skattaðili geti ekki komið sér tímabundið undan greiðslu með því að bera við réttaróvissu. Verður þannig ekki betur séð en að áhættan af slíku ástandi sé öll lögð á hinn skattskylda aðila. Af framangreindum ákvæðum og lögunum í heild verður og ráðið að löggjafinn hefur ákveðið að víkja í raun frá þeim meginreglum kröfuréttar sem gilda um dráttarvexti og gjalddaga kröfu.

Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði stefnanda en að hann fallist á að hinir kærðu úrskurðir hafi falið í sér endurákvörðun virðisaukaskatts. Í slíkum tilvikum hefur verið talið að heimilt sé að reikna dráttarvexti aftur í tímann á grundvelli framangreindra ákvæða sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 450/2001 þar sem segir: „Engin heimild stóð til að færa aftur í tímann gjalddaga þessa virðisaukaskatts eins og ef um endurákvörðun hans hefði verið að ræða.“ Ekki er fallist á að tilvísuð fordæmi sem stefnandi hefur bent á og varða staðgreiðslu skatta geti haft grundvallarþýðingu við úrlausn þessa máls.

Þá er heldur ekki fallist á að sjónarmið í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 368/2013 eigi að leiða til þess að fallist verði á varakröfu stefnanda. Í dómnum er gerður greinarmunur annars vegar á sköttum sem þarfnast aðkomu stjórnvalds, þ.e. þurfi ákvörðun stjórnvalds til, og þá stofnist skattkrafan þegar stjórnvaldið hefur tilkynnt greiðanda um ákvörðunina, og hins vegar á sköttum þar sem ekki þarf atbeina stjórnvalds, heldur stofnast krafan með skýrsluskilum gjaldanda, enda felist viðurkenning gjaldanna á kröfunni í skilunum. Dómurinn telur ekki að hægt sé að koma sér hjá þessum meginreglum með því að skila ekki skýrslum og gera ágreining um skattinn. Þá fjallar tilvísaður dómur um nauðasamninga og hvenær krafa teljist stofnast m.t.t. þess hvort hún verði felld undir nauðasamning eða standi utan hans.

Dómurinn fellst á með stefnanda að mjög bagalegt sé að undir þessum kringumstæðum geti verulegur dráttur á máli fyrir stjórnvaldi leitt til þess að dráttarvextir verði mun hærri en eðlilegt væri. Engin ákvæði laganna kveða hins vegar á um undanþágu á framangreindum skyldum gjaldenda og stefnandi hefur ekki bent á næg lagarök til stuðnings því að undir vissum kringumstæðum gildi framangreind ákvæði ekki, m.a. ef óeðlilegar tafir verða á endurákvörðun eins og sannanlega í þessu máli. Því verður, eins og fyrr segir, litið svo á að áhætta af slíku sé ætíð lögð á hinn skattskylda aðila og honum beri þá, til að forðast dráttarvexti, að skila skýrslum og greiða umdeildan skatt á gjalddögum en ætti þá endurkröfu á ríkissjóð ef síðar kæmi í ljós að greiðslur væru umfram skyldu.

Því verður varakröfu stefnanda einnig hafnað.

-------

Þrautavarakrafa stefnanda byggir á því að dráttarvextir vegna áranna 2008 og 2009 verði felldir niður þar sem þeir hafi verið fyrndir. Stefndi telur að samkvæmt dómaframkvæmd haldist dráttarvextir ætíð í hendur við undirliggjandi skattkröfu. Óeðlilegt sé að skattaðili geti séð sér hag í því að skila ekki inn virðisaukaskattsskýrslu eða gefið ranga skýrslu, án viðurlaga í formi dráttarvaxta enda um vörsluskatt að ræða.

Ekkert sérstakt ákvæði er um þetta í lögum nr. 50/1988 og stefndi hefur ekki sýnt fram á framangreint, þ.e. að vextir fyrnist ekki vegna krafna sem þessara. Dómurinn telur það og frekar óeðlilegt, án þess að það skipti grundvallarmáli, að skattaðila sé gert að greiða dráttarvexti allt að sex ár aftur í tímann þegar drátt á máli megi rekja til þess sem leggur skattinn á eins og hér horfir við.

Því verður lagt til grundvallar að um þetta atriði gildi fyrningarlög nr. 150/2007 en þau tóku gildi 1. janúar 2008. Samkvæmt þeim fyrnast vextir samkvæmt meginreglu 3. gr. á fjórum árum. Því verður að fallast á með stefnanda að hluti þeirra vaxta sem hann greiddi í upphafi árs 2015 hafi verið fyrndir.

Af framlögðum gögnum málsins má ráða að umkrafin fjárhæð, 4.964.481 króna, sé vegna dráttarvaxta frá 5. júní 2008 til 19. desember 2010, þ.e. fjórum árum áður en úrskurður ríkisskattstjóra féll. Kröfugerðin miðast hins vegar samkvæmt orðanna hljóðan við 2008 og 2009. Dómurinn telur að um misritun hljóti að vera að ræða í stefnu miðað við gögn málsins og fjárhæðina, enda tekur stefnandi það fram í umfjöllun um málsatvik í stefnu að tímabilið sé ofangreint þ.e. til 19. desember 2010. Þetta má og ráða mjög skýrt af gögnum málsins og hefur því ekki þurft að gera stefnda erfiðara um vik að verjast kröfunni, en stefndi hefur í engu mótmælt umræddri fjárhæð eða lengd fyrningarfrests, þ.e. ef litið yrði svo á að lög nr. 150/2007 giltu. Í þessu sambandi má líta til þess að stefnandi hefði allt eins getað gert kröfuna án þess að vísa í henni til tiltekinna gjaldaára. Það vekur athygli dómsins að svo virðist sem ósamræmi sé á milli þeirra dráttarvaxta sem voru raunverulega greiddir sbr. varakröfu stefnanda og þrautavarakröfu. Þar sem sá mismunur virðist stefnanda í hag verður ekki talin ástæða til að fjalla frekar um það atriði enda hefur stefndi, eins og fyrr segir, ekki mótmælt fjárhæðinni. 

Með vísan til umfjöllunar um hugsanlega frávísun á varakröfu stefnanda verður talið að hægt sé að fella dóm á þrautavarakröfu hans.

Því er það niðurstaða málsins að fallist er á þrautavarakröfu stefnanda um niðurfellingu á dráttarvöxtum að fjárhæð 4.964.481 krónu.

Eftir þessum úrslitum málsins þykir stefnandi eiga rétt á hluta af málskostnaði sínum úr hendi stefnda. Þykir hann hæfilegur 1.000.000 króna.

Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján Gunnar Valdimarsson héraðsdómslögmaður og af hálfu stefnda Soffía Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður.  

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Felldir eru niður dráttarvextir sem stefndi íslenska ríkið innheimti af stefnanda Virðingu hf., að fjárhæð 4.964.481 krónu.

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.