Hæstiréttur íslands

Mál nr. 700/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Fjármögnunarleiga


                                     

Fimmtudaginn 6. nóvember 2014.

Nr. 700/2014.

Skollanes ehf.

(Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð. Fjármögnunarleiga.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem L hf. var heimilað að fá tilgreinda bifreið og vinnuvélar til atvinnurekstrar teknar með beinni aðfarargerð úr vörslum S ehf. og fengnar sér þar sem S ehf. hafði ekki staðið í skilum með greiðslur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum milli aðilanna. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt ítrekuðum fordæmum réttarins um hliðstæða samninga L hf. yrði að líta svo á að ákvæði samninganna um tengingu fjárhæðar leigu við gengi erlendra gjaldmiðla stönguðust ekki á við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Taldi Hæstiréttur S ehf. ekki hafa hrundið því að hann hefði staðið í skuld við L hf. þegar samningunum var rift og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að nánar tilgreind tæki yrðu tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengin sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði er greint frá fimm fjármögnunarleigusamningum, sem gerðir voru á tímabilinu 15. apríl 2005 til 13. desember 2007, ásamt síðari viðaukum við þá, en samninga þessa gerði Ásgeir Þór Hjaltason við varnaraðila um bifreið og vinnuvélar til atvinnurekstrar, sem varnaraðili leitar með máli þessu heimildar til að fá afhentar sér með beinni aðfarargerð. Samkvæmt skjali með yfirskriftinni: „Samkomulag um yfirtöku á fjármögnunarleigusamningum“ frá 11. ágúst 2009 tók sóknaraðili við réttindum og skyldum upphaflega leigutakans eftir þessum samningum. Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum Hæstaréttar í málum um hliðstæða samninga varnaraðila verður að líta svo á að ákvæði þessara fimm samninga um tengingu fjárhæðar leigu við gengi erlendra gjaldmiðla stangist ekki á við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varnaraðili lýsti yfir riftun samninganna í símskeyti til sóknaraðila 4. mars 2014 vegna vanskila á leigu, sem varnaraðili kveður hafa numið 54.694.927 krónum. Að teknu tilliti til þess, sem að framan greinir, hefur sóknaraðili ekki hrundið því að hann hafi staðið í skuld við varnaraðila þegar samningunum var rift. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Skollanes ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2014.

Aðfararbeiðni gerðarbeiðanda barst héraðsdómi 29. apríl 2014. Gerðarbeiðandi er Lýsing hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík, en gerðarþoli er Skollanes ehf., kt. [...], Fjallalind 151, Kópavogi. Málið var tekið til úrskurðar 17. september 2014.

Gerðarbeiðandi krefst dómsúrskurðar um að eftirtalin tæki verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda:

  • Hitachi ZX130W hjólagrafa, fastanr. EA-0293, árgerð 2005 ásamt fylgihlutum skv. reikningi: FSG 12 grjótkló, tiltskóflu og hraðtengi, skóflu 80 cm, skóflu 180 cm og skóflu 60 cm.
  • FSG-27 Demolition/sorting grab og Rotor 40.
  • Scania R500 8x4 4 öxla vörubifreið, fastanr. DB-H96, árgerð 2006 skv. reikningi.
  • Neuson TD9 grafa, fastanr. IM-1355, árgerð 2007
  • Kato HD143IIILC beltagrafa, fastanr. EB1491, árgerð 2007 ásamt fylgihlutum skv. reikningi: Engcon EC3032 rótortilt sn. M29945 (vörunr. M29945), Engcon RF32 hraðtengi sn. M299882 (vörunr. M299882), 1800mm skófla U/T type 7 sn. 57105 (vörunr. 57105) og 1200mm HD skófla með tönnum sn. 57382 (vörunr. 57382).

Þá krefst  gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola.

Gerðarþoli krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda.

I.

Meðal gagna málsins eru fimm svonefndir fjármögnunarleigusamningar milli málsaðila. Í fyrsta lagi samningur nr. 117572-575, dagsettur 15. apríl 2005, sbr. breytingar á samningnum 27. október 2008 og 13. maí 2009, þar sem samningurinn var meðal annars lengdur til 15. maí 2011. Í öðru lagi samningur nr. 130669-676, dagsettur 28. nóvember 2005, vegna viðbótar við samning nr. 117572-575. Í þriðja lagi samningur nr. 143158-159, dagsettur 22. ágúst 2007, sbr. breytingar á samningnum 27. október 2008 og 13. maí 2009 þar sem samningurinn var meðal annars lengdur til 15. nóvember 2013. Í fjórða lagi samningur nr. 143160-161, dagsettur 22. ágúst 2007, sbr. breyting á samningnum 13. maí 2009 þar sem samningurinn var meðal annars lengdur til 15. maí 2012. Í fimmta lagi samningur nr. 144853-862, dagsettur 13. desember 2007, sbr. breyting á samningnum 1. febrúar 2012 þar sem samningurinn var meðal annars lengdur til 15. ágúst 2013.

Framangreindir fjármögnunarleigusamningar voru yfirteknir af gerðarþola með samkomulagi þann 11. ágúst 2009. Samkvæmt yfirskrift allra samninganna eru þeir gengistryggðir.

Leigusali samkvæmt samningi nr. 117572-575 er gerðarbeiðandi í máli þessu, en gerðarþoli er tilgreindur Ásgeir Þór Hjaltason. Hið leigða er tiltekið Hitachi ZX130W hjólagrafa m/grjótkló, tiltskóflu og hraðtengi skv. reikningi seljanda nr. 3414, dags. 12. apríl 2005. Í 2. gr. þess samnings kemur fram að leigugrunnur er 9.160.000 krónur án vsk. en 11.404.200 krónur með vsk. Skipting leigugrunns í íslenskum krónum án vsk. er „tengd EUR kr. 3.664.000“, „tengd USD kr. 916.000“, „tengd JPY kr. 1.832.000“ og „tengd CHF kr. 2.748.000“. Gengi EUR er tilgreint 81,04 og fjárhæð í EUR 45.213. Gengi USD er tilgreint 62,88 og fjárhæð USD er 14.568. Gengi JPY er tilgreint 0,5860 og fjárhæð í JPY er 3.126.280. Gengi CHF er tilgreint 52,51 og fjárhæð CHF er 52.329. Samkvæmt 4. gr. samningsins er grunnleigutími frá 15. maí 2005 til 14. maí 2010. Þar er dagsetning fyrstu greiðslu 15. maí 2005 og fjöldi greiðslna 10. Í 5. gr. samningsins er greiðslutilhögun samningsins tilgreind nánar, en þar kemur fram að við undirritun skuli greiða 600.000 krónur í leigu tengda EUR, 150.000 krónur í leigu tengda USD, 300.000 krónur í leigu tengda JPY og 450.000 krónur í leigu tengda CHF, samtals án vsk. 1.500.000. Þá kemur fram að í maí og nóvember mánuðum ár hvert skuli í alls 10 skipti greiða 344.589 krónur í leigu tengda EUR, 88.375 krónur í leigu tengda USD, 164.781 krónu í leigu tengda JPY og 251.114 krónur í leigu tengda CHF, samtals án vsk. 848.859 krónur. Samkvæmt 6. gr. samningsins hefst mánaðarleg framhaldsleiga frá loknum grunnleigutíma 15. maí 2010. „Leiga tengd EUR“ er tilgreind 4.846 krónur, „leiga tengd USD“ 1.247 krónur, „leiga tengd JPY“ 2.306 krónur og „leiga tengd CHF“ 3.520 krónur. „Samtals leiga án vsk.“ er tilgreind 11.918 krónur. Í 10. gr. samningsins kemur fram undir heitinu „sérstakir skilmálar“ að leigutaki greiði hlutaleigu, 30.679 krónur, að gengi er m.v. samningsdag 13. apríl 2005 og eru Libor vextir á samningsdegi 1,47% auk 3,25% álags. Samningstími var lengdur tvívegis, annars vegar 27. október 2008 og hins vegar 13. maí 2009 og er lokadagsetning samningsins 15. maí 2011.

Leigusali samkvæmt samningi nr. 130669-676 er gerðarbeiðandi í máli þessu, en gerðarþoli er tilgreindur Ásgeir Þór Hjaltason. Hið leigða er tiltekið FSG-27 Demolition/sorting grab, Rotor 40 sn. 4200014 skv. reikningi seljanda nr. 4867, dags. 21. nóvember 2005. Í 2. gr. samningsins kemur fram að leigugrunnur 2.150.000 krónur án vsk. en 2.676.750 krónur með vsk. Skipting leigugrunns í íslenskum krónum án vsk. er „tengd EUR kr. 860.000“, „tengd USD kr. 215.000“, „tengd JPY kr. 430.000“ og „tengd CHF kr. 645.000“. Gengi EUR er tilgreint 73,67 og fjárhæð í EUR 11.674. Gengi USD er tilgreint 62,94 og fjárhæð USD er 3.416. Gengi JPY er tilgreint 0,5275 og fjárhæð í JPY er 815.166. Gengi CHF er tilgreint 47,63 og fjárhæð CHF er 13.542. Samkvæmt 4. gr. samningsins er grunnleigutími frá 15. maí 2006 til 14. maí 2010. Þar er dagsetning fyrstu greiðslu 15. maí 2006 og fjöldi greiðslna 8 alls. Í 5. gr. samningsins er greiðslutilhögun samningsins tilgreind nánar, en þar kemur fram að á 6 mánaða fresti skuli greiða í 8 skipti alls, 118.602 krónur í leigu tengda EUR, 30.627 krónur í leigu tengda USD, 56.909 krónur í leigu tengda JPY og 86.898 krónur í leigu tengda CHF, samtals án vsk. 293.036 krónur. Samkvæmt 6. gr. samningsins hefst mánaðarleg framhaldsleiga frá loknum grunnleigutíma 15. maí 2010. „Leiga tengd EUR“ er tilgreind 1.669 krónur, „leiga tengd USD“ 433 krónur, „leiga tengd JPY“ 796 krónur og „ leiga tengd CHF“ 1.219 krónur. „Samtals leiga án vsk.“ er tilgreind 4.117 krónur. Í 10. gr. samningsins kemur fram undir heitinu „sérstakir skilmálar“ að leigutaki greiði hlutaleigu, 51.965 krónur á gjalddaga 15. maí 2006, að gengi sé m.v. samningsdag 22. nóvember 2005 og eru Libor vextir á samningsdegi 1,85% auk 3,25% álags. Loks er tiltekið þar að samningur þessi er viðbót við samning nr. 117572.

Leigusali samkvæmt samningi nr. 143158-159 er gerðarbeiðandi í máli þessu, en gerðarþoli er tilgreindur Ásgeir Þór Hjaltason. Hið leigða er tiltekið Scania R 500, fnr. DB-H96, árg. 2006 skv. reikningi seljanda nr. 10931, dags. 20. ágúst 2007. Í 2. gr. þess samnings kemur fram að leigugrunnur 11.715.000 krónur án vsk. en 14.585.175 krónur með vsk. Skipting leigugrunns í íslenskum krónum án vsk. er „tengd JPY kr. 5.857.500“ og „tengd CHF kr. 5.857.500“. Gengi JPY er tilgreint 0,56871 og fjárhæð í JPY er 10.299.625. Gengi CHF er tilgreint 54,12271 og fjárhæð CHF er 108.226,29. Samkvæmt 4. gr. samningsins er grunnleigutími frá 15. nóvember 2007 til 14. nóvember 2012. Þar er dagsetning fyrstu greiðslu 15. nóvember 2007 og fjöldi greiðslna 10 alls. Í 5. gr. samningsins er greiðslutilhögun samningsins tilgreind nánar, en þar kemur fram að við undirritun skuli greiða 509.295 krónur í leigu tengda JPY og 509.295 krónur í leigu tengda CHF, samtals án vsk. 1.018.590 krónur. Þá kemur fram að á tímabilinu 15. nóvember 2007 til 14. nóvember 2012 skuli í 10 skipti greiða 588.538 krónur í leigu tengda JPY og 610.599 krónur í leigu tengda CHF, samtals án vsk. 1.199.137 krónur. Samkvæmt 6. gr. samningsins hefst mánaðarleg framhaldsleiga frá loknum grunnleigutíma 15. nóvember 2012. „Leiga tengd JPY“ 8.256 krónur og „leiga tengd CHF“ 8.603 krónur. „Samtals leiga án vsk.“ er tilgreind 16.859 krónur. Í 10. gr. samningsins kemur fram undir heitinu „sérstakir skilmálar“ að leigutaki greiði hlutaleigu, 131.242 krónur á gjalddaga 15. nóvember 2007, að gengi sé m.v. samningsdag 22. ágúst 2007 og eru Libor vextir á samningsdegi 2,02% auk 3,25% álags. Samningstími var lengdur tvívegis, annars vegar 27. október 2008 og hins vegar 13. maí 2009 og er lokadagsetning samningsins 15. nóvember 2013.

Leigusali samkvæmt samningi nr. 143160-161 er gerðarbeiðandi í máli þessu, en gerðarþoli er tilgreindur Ásgeir Þór Hjaltason. Hið leigða er tiltekið Neuson TD9, fnr. IM-1355, árg. 2007 skv. reikningi seljanda nr. 10929, dags. 20. ágúst 2007. Í 2. gr. þess samnings er tiltekinn leigugrunnur að fjárhæð 900.000 krónur án vsk. en 1.120.000 krónur með vsk. Skipting leigugrunns í íslenskum krónum án vsk. er „tengd JPY kr. 450.000“ og „tengd CHF kr. 450.000“. Gengi JPY er tilgreint 0,56871 og fjárhæð í JPY er 791.264. Gengi CHF er tilgreint 54,12271 og fjárhæð CHF er 8.314,44. Samkvæmt 4. gr. samningsins er grunnleigutími frá 15. nóvember 2007 til 14. nóvember 2011. Þar er dagsetning fyrstu greiðslu 15. nóvember 2007 og fjöldi greiðslna 8 alls. Í 5. gr. samningsins er greiðslutilhögun samningsins tilgreind nánar, en á tímabilinu 15. nóvember 2007 til 14. nóvember 2011 skuli í 8 skipti greiða 60.614 krónur í leigu tengda JPY og 62.390 krónur í leigu tengda CHF, samtals án vsk. 123.004 krónur. Samkvæmt 6. gr. samningsins hefst mánaðarleg framhaldsleiga frá loknum grunnleigutíma 15. nóvember 2011. „Leiga tengd JPY“ 850 krónur og „leiga tengd CHF“ 879 krónur. „Samtals leiga án vsk.“ er tilgreind 1.729 krónur. Í 10. gr. samningsins kemur fram undir heitinu „sérstakir skilmálar“ að leigutaki greiði hlutaleigu, 11.043 krónur á gjalddaga 15. nóvember 2007, að gengi sé m.v. samningsdag 22. ágúst 2007 og eru Libor vextir á samningsdegi 2,02% auk 3,25% álags. Samningstími var lengdur þann 13. maí 2009 og er lokadagsetning samningsins 15. maí 2012.

Leigusali samkvæmt samningi nr. 144853-862 er gerðarbeiðandi í máli þessu, en gerðarþoli er tilgreindur Ásgeir Þór Hjaltason. Hið leigða er tiltekið Kato beltagrafa, fnr. EB1491, árgerð 2007 ásamt fylgihlutum: Engcon rótortilt sn. M29945, Engcon hraðtengi sn. M299882, skófla 1800mm U/T type 7 sn. 57105 og skófla með tönnum 1200mm HD sn. 57382 skv. reikningi seljanda nr. 293, dags. 12. desember 2007. Í 2. gr. þess samnings kemur fram að leigugrunnur 17.548.000 krónur án vsk. og  21.847.260 krónur með vsk. Skipting leigugrunns í íslenskum krónum án vsk. er „tengd JPY kr. 8.774.000“ og „tengd CHF kr. 8.774.000“. Gengi JPY er tilgreint 0,54233 og fjárhæð í JPY er 16.178.342. Gengi CHF er tilgreint 53,37309 og fjárhæð CHF er 164.389,96. Samkvæmt 4. gr. samningsins er grunnleigutími frá 15. febrúar 2008 til 14. febrúar 2013. Þar er dagsetning fyrstu greiðslu 15. febrúar 2008 og fjöldi greiðslna 10 alls. Í 5. gr. samningsins er greiðslutilhögun samningsins tilgreind nánar, en á tímabilinu 15. febrúar 2008 til 14. febrúar 2013 skuli í 10 skipti á sex mánaða fresti greiða 964.097 krónur í leigu tengda JPY og 1.001.064 krónur í leigu tengda CHF, samtals án vsk. 1.965.162 krónur. Samkvæmt 6. gr. samningsins hefst mánaðarleg framhaldsleiga frá loknum grunnleigutíma 15. febrúar 2013. „Leiga tengd JPY“ 13.522 krónur og „leiga tengd CHF“ 14.104 krónur. „Samtals leiga án vsk.“ er tilgreind 27.626 krónur. Í 10. gr. samningsins kemur fram undir heitinu „sérstakir skilmálar“ að leigutaki greiði hlutaleigu, 158.042 krónur á gjalddaga 15. febrúar 2008, að gengi sé m.v. samningsdag 13. desember 2007 og eru Libor vextir á samningsdegi 1,97% auk 3,25% álags. Samningstími var lengdur þann 1. febrúar 2012 og er lokadagsetning samningsins 15. ágúst 2013.

Í 12. gr. samning nr. 117572-575 segir að leigutaki geti ekki sagt upp leigusamningi þessum nema með eins mánaðar fyrirvara þegar mánuður er til loka grunnleigutíma. Sé honum ekki sagt upp með þeim hætti framlengist hann ótímabundið samkvæmt 6. gr.. Samkvæmt 12. gr. hinna samninganna fjögurra getur leigutaki ekki sagt leigusamningnum upp á grunnleigutíma, en að grunnleigutíma loknum framlengist samningurinn ótímabundið samkvæmt 6. gr. Leigutaki getur sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með 1 mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Samkvæmt 15. gr. samninganna er „Lýsing hf. eitt eigandi hins leigða“. Þá segir í 28. gr. samninganna að gerðarbeiðanda er „heimilt að rifta samningnum án fyrirvara vanefni eða brjóti leigutaki einhverja grein samningsins“ Í a) lið ákvæðisins segir: „Ef leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi þessum á umsömdum gjalddögum eða Lýsing hf. hefur orðið að greiða vangreiddar bætur, gjöld eða sektir sem skráður eigandi er ábyrgur fyrir gagnvart þriðja aðila, sbr. 22. gr. og 26. gr. samningsins.“ Þá segir jafnframt í  öllum samningunum nema samningi nr. 117572-575 að: „Vanskil eldri en 15 daga telst riftunarástæða.“

Gerðarbeiðandi lýsti yfir riftun fjármögnunarleigusamnings aðila með skeyti 4. mars 2014 og samkvæmt framlagðri útprentunum úr ökutækjaskrá er gerðarbeiðandi eigandi framangreindra tækja en gerðarþoli umráðamaður.

Gerðarþoli mótmælti riftun samninganna með bréfi þann 24. mars 2014 með þeim rökum að riftun þeirra væri ólögmæt. Með bréfinu krafðist gerðarþoli þess jafnframt að umræddir samningar yrðu endurreiknaðir í samræmi við dómafordæmi íslenskra dómstóla. Með bréfi dagsettu 25. apríl 2014 hafnaði gerðarbeiðandi þeim kröfum gerðarþola.

II.

Gerðarbeiðandi kveðst hafa leigt gerðarþola framangreind tæki og samkvæmt fjármögnunarleigusamningunum hafi gerðarþoli átt að greiða gerðarbeiðanda tiltekið leigugjald út grunnleigutímann sbr. 4. og 5. gr. þeirra. Að þeim tíma loknum hafi gerðarþola borið að greiða gerðarbeiðanda tiltekið framhaldsleigugjald sbr. 6. gr. samninganna. Samkvæmt samningunum hafi leigugrunnar þeirra verið samsettir úr myntkörfu og hafi fjárhæðir þeirra verið tengdar erlendum myntum í tilgreindum hlutföllum

Gerðarbeiðandi byggir á því að fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar og vísar í því sambandi til IAS 17 – Alþjóðlegs reikningsskilastaðals sem gerðarbeiðandi kveður að hafi lagagildi hér á landi.

Þá vísar gerðarbeiðandi til þess að með dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, þar sem fjallað hafi verið um sambærilegan samning og þá samninga sem mál þetta sé sprottið af, hafi dómurinn staðfest að umþrættur fjármögnunarleigusamningur væri leigusamningur líkt og heiti hans hafi bent til og þar af leiðandi hafi ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki þótt girða fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Gerðarbeiðandi telur með vísan til téðs dóms og eftir­farandi máls­ástæðna að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðfararbeiðni gerðarbeiðanda nái fram að ganga.

Gerðarbeiðandi kveður að leigugreiðslur vegna framangreindra fjármögnunar­leigu­samninga hafi verið í vanskilum allt frá nóvember 2012. Hinn 3. mars 2014 hafi heildarvanskil gerðarþola vegna samninganna numið 54.468.503 krónum, að meðtöldum vöxtum og kostnaði, þó án lögfræðikostnaðar. Hafi gerðarþoli ekki orðið við ítrekuðum tilmælum um greiðslu vanskilanna og hafi því farið svo að gerðarbeiðandi rifti samningunum 4. mars 2014 með heimild í 28. gr. þeirra. Þar sem gerðarþoli hafi ekki staðið í skilum samkvæmt fjármögnunarleigu­samningunum og neitað að afhenda gerðarbeiðanda eignir sínar sé krafist umráða yfir tækjunum með tilvísun í 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

Kröfu um málskostnað styður gerðarbeiðandi við XXI. kafla laga um meðferð einka­mála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Gerðarbeiðandi kveður gerðina fara fram á ábyrgð gerðarbeiðanda, en á kostnað gerðarþola.

III.

Gerðarþoli byggir í fyrsta lagi á því að réttur gerðarbeiðanda sé svo óljós að úr honum verði ekki skorið með þeim gögnum sem byggt verði á í málum sem séu rekin samkvæmt 12. og 13. kafla laga nr. 90/1989. Gerðarþoli telur að til þess að fá úr því skorið hver sé réttarstaða gerðarbeiðanda þurfi að reka dómsmál, þar sem meðal annars yrði tekin skýrsla af fyrirsvarsmanni gerðarþola. Gerðarþoli vísar í þessu samhengi til ákvæða 1. og 2. mgr. 78. gr. sömu laga og byggir á því að réttindi gerðarbeiðanda séu ekki það skýr og ótvíræð að fallast beri á að aðför nái fram að ganga. Verulegur vafi sé bæði um réttindi gerðarbeiðanda samkvæmt umþrættum samningum og þær fjárhæðir sem gerðarbeiðandi kveður að gerðarþoli skuldi sér. Af þessum ástæðum beri að hafna kröfu gerðarbeiðanda.

Gerðarþoli vísar til þess að gengistrygging lánssamninga, svo sem mælt sé fyrir um í samningum málsaðila, sé óheimil samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Gerðarþoli byggir á því að umræddir samningar séu lánssamningar en ekki leigusamningar og þar af leiðandi séu ákvæði þeirra um gengistryggingu ólögmæt.  Gerðarbeiðandi hafi ekki fengist til að endurreikna samninganna í ljósi þessa en ekki sé deilt um að samningarnir séu gengistryggðir. Að mati gerðarþola sé líklegt að gerðarbeiðandi þurfi að endurgreiða gerðarþola fjárhæðir á grundvelli samninganna eða þá að endurútreikningur leiði í ljós að skuld samkvæmt þeim sé mun lægri en krafa gerðarbeiðanda hljóði á um. Gerðarþoli byggir á því að hann hafi aldrei gert leigusamning við gerðarbeiðanda. Málsaðilar hafi átt í viðskiptum í mörg ár og hafi viðskiptasamband þeirra gengið út á að gerðarbeiðandi hafi fjármagnað kaup á vinnuvélum sem gerðarþoli hafi nýtt sér í verktakastarfsemi sinni. Þegar gerðarþoli hafi viljað skipta um tæki eða selja hafi hann sjálfur selt það beinni sölu eða sett það upp í nýtt tæki. Hafi verðmæti tækis verið meira en eftirstöðvar þess láns sem á því hafi hvílt hafi mismuninum verið ráðstafað til gerðarþola og hafi gerðarþoli sjálfur gefið út reikninga vegna slíkra viðskipta. Gerðarþoli telur að hvorki alþjóða- reikningsskilastaðlar né nokkuð annað sem gerðarbeiðandi hafi lagt fram geti haggað þessu. Gerðarþoli telur jafnframt að slík gögn hafi enga þýðingu í þessu máli. Þá vísar gerðarþoli til þess að skilmálar þeirra samninga sem séu í gildi milli aðila endurspegli að um lánssamninga sé að ræða. Þá staðfesti viðskiptasaga málsaðila hið sama.

Gerðarþoli byggir á því að viðskiptasamband gerðarbeiðanda og fyrirsvars­manns gerðarþola, Ásgeirs Þórs Hjaltasonar, hafi hafist í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Nefndur Ásgeir Þór hafi þá verið í viðskiptum við Lind hf. sem hafi verið svokallað eignaleigufyrirtæki. Meðal tækja sem Ásgeir Þór hafi keypt á þessum tíma og Lind hf. hafi fjármagnað hafi verið beltisgrafa af gerðinni JCJS 240 L, með skráningarnúmerið EB-0250. Til tryggingar skuldinni hafi Ásgeir Þór sett gröfuna að veði með tryggingarbréfi 15. september 1992. Í tryggingarbréfinu komi fram að það sé sett til tryggingar skilvísri greiðslu á leigugreiðslum við Lind hf. Þá komi þar fram að umrædd grafa sé eign Ásgeirs Þórs og undir bréfi hafi verið ritað: „f.h. leigutaka og eiganda gröfunnar“. Með yfirlýsingu 10. ágúst 2009 hafi því verið lýst yfir að tryggingarbréfið væri eftirleiðis með sama hætti til tryggingar öllum skuldbindingum gerðarþola við gerðarbeiðanda. Gerðarþoli telji að þetta sé skýrt merki um það að frá fyrstu tíð hafi verið litið svo á að svonefndir leigutakar séu í raun eigendur þeirra muna sem fjármögnunarleigusamningar hafi verið gerðir um og að engin breyting hafi orðið á viðskiptasambandi aðila hvað þetta varði.

Gerðarþoli byggir á því að samningur nr. 117572 sé í raun lánssamningur sem klæddur hafi verið í búning leigusamnings enda beri hann nær engin einkenni hefðbundins leigusamnings. Í 16. gr. almennra skilmála samningsins komi fram að leigutaki hafi valið hið leigða og annast skoðun þess fyrir hönd gerðarbeiðanda. Umrædd tæki hafi verið keyptir af Íshlutum ehf. Hinn svonefndi leigutaki, Ásgeir Þór, hafi því valið tækin sjálfur samkvæmt því sem hafi hentað hans rekstri og gerðarbeiðandi séð um fjármögnun þeirra. Gerðarbeiðandi hafi sjálfur ekki verið í samskiptum við seljanda tækjanna. Þá komi fram í framangreindu ákvæði samningsins að gerðarbeiðandi taki enga ábyrgð á leigumuninum og að leigutaki skuli greiða leigu, þrátt fyrir að hann sé óánægður með leigumuninn eða ef leigu munurinn hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki hafi reiknað með. Með vísan til þessa hafi ætlaður eigandi hlutarins, gerðarbeiðandi, hafnað allri hefðbundinni eigendaábyrgð og afsalað henni til leigutaka. Gerðarþola þykir þetta ákvæða gefa til kynna að ekki sé um að ræða hefðbundið samband leigusala og leigutaka.

Gerðarþoli vísar til þess að í 17. gr. samningsins komi fram að leigutaki beri áhættu af því ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrnar, eftir að áhættan hefur flust frá seljanda til kaupanda samkvæmt lögum nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Gerðarþoli telur að þrátt fyrir framangreinda lagatilvísun hafi í raun verið átt við núgildandi lög um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Gerðarþoli byggir á því að þessi skilmáli samningsins sé ekki í samræmi við hefðbundna skilmála leigusamninga almennt. Lög um lausafjárkaup eigi ekki við um leigða muni, t.d. reglur laganna um áhættuskipti. Leigjanda beri aldrei áhættuna af því ef hið leigða ferst, skemmist eða rýrnar, nema hugsanlega ef tjónið sé af hans völdum. Í samningi aðila sé þó enginn slíkur fyrirvari. Þetta sé ótvírætt merki um að litið hafi verið á að gerðarþoli væri í raun eigandi hinna undirliggjandi muna og skyldi taka áhættuna af því sjálfur ef hið selda færist. Gerðarþoli kveður hlutverk gerðarbeiðanda hafi aðeins verið að það að lána fyrir muninum og ef hið selda færist skyldi gerðarþoli engu að síður standa skil á allri samningsfjárhæðinni.

Gerðarþoli bendir á að í 19. gr. samningsins sé að finna sérstakt ákvæði undir liðnum „vanefndir seljanda“. Gerðarþoli kveður seljanda munarins vera þriðji aðili, Íshlutir ehf., en það félag sé ekki aðili samningsins. Umrætt ákvæði sé flókið og bein afleiðing þess að klæða hafi átt lánssamning í búning leigusamnings. Þannig sé mælt fyrir um það að ef kaupverð hins selda sé lækkað, s.s. vegna galla, skyldi leiga munarins lækka til samræmis við það. Þetta sé óháð því hvort gallinn hafi áhrif á notagildi munarins fyrir leigutaka. Þá segir að sé kaupum rift, þ.e. ef gerðarbeiðandi rifti kaupum við seljanda, komi endurgreiðsla kaupverðsins frá Íshlutum ehf. til frádráttar kröfu gerðarbeiðanda á hendur leigutaka. Gerðarþoli telur þetta ákvæði óvenjulegt fyrir leigusamning, þ.e. að ef sú staða kæmi upp að gerðarbeiðandi sem leigusali og eigandi tækisins, þyrfti að rifta samningi við seljanda þess og skila því, myndi gerðarbeiðandi samt eiga kröfu á leigutakann um leigugreiðslur. Gerðarþoli kveður að ef upp kæmi þessi aðstaða fælist í henni vanefnd leigusala gagnvart leigutaka. Augljóst þyki að þarna sé verið að reyna láta líta þannig út sem gerðarþoli sé leigutaki hjá gerðarbeiðanda, þegar réttarstaðan sé í raun sú að gerðarbeiðandi sé milliliður til málamynda og kallaður leigusali.

Í 21. gr. samningsins séu jafnframt ákvæði sem renni stoðum undir að ekki sé um leigusamning að ræða. Þannig sé mælt fyrir um það að verði tjón á tækinu þannig að ekki svari kostnaði að gera við það, komi þrír kostir til greina. Í fyrsta lagi að keypt yrði annað sambærilegt tæki, dugi vátryggingarbætur fyrir því. Í öðru lagi að keypt yrði sambærilegt tæki ef ekki muni meira en 10% á verði þess og vátryggingarbótum. Í þriðja lagi ef leigutaki óski ekki eftir framlengingu á samningnum eða ef kaupverð nýs hlutar sé meira en 10% umfram vátryggingarbætur tjónsmunar, skuli fara fram uppgjör á samningnum samkvæmt 30. gr. hans. Segi að vátryggingarbætur dragist þá frá kröfu gerðarbeiðanda eða renni til leigutaka, ef uppgjör á samningnum hafi þegar farið fram. Gerðarþoli telur að þetta ákvæði mæli gegn því að um leigusamning sé að ræða. Leigutaki samkvæmt leigusamningi yrði aldrei skuldbundinn til að greiða leigu út samningstímann, ef tjón yrði á leigumun og ef hann myndi eyðileggjast, t.d. vegna óhappatilviks. Vátryggingarbætur vegna slíks tjóns yrðu hvorki látnar ganga upp í skuld leigutaka við leigusala né greiddar leigutakanum beint. Í ákvæðinu sé þó mælt fyrir um þetta og að vátryggingarbætur sem séu umfram eftirstöðvar leigusamningsins  greiddar leigutaka. Þetta ákvæði sé því í raun staðfestingu þess að umþrættur samningur kveði á um það að gerðarþoli sé í raun eigandi tækis og skuli eignast það í lok samningstímans eða fá þær bætur sem kunni að verða greiddar vegna þess.

Sama gildi sé samningnum rift samkvæmt 28. gr. hans eða honum sagt upp í lok leigutíma en óheimilt sé að segja samningnum upp fyrr en grunnleigutími sé liðinn. Í þeim tilfellum skuli fara fram uppgjör í samræmi við 30. gr., rétt eins og ef tækið yrði fyrir tjóni. Í öllum þessum tilvikum skuli draga verðmæti tækis frá skuld leigutaka, þ.e. eftirstöðvum samningsins út allan samningstímann og greiða gerðarþola það sem eftir standi. Gerðarþoli telur að ef um væri að ræða leigusamning gæti engin slík skuld verið til staðar við leigusala. Samningnum væri þá einfaldlega lokið. Í samningi aðila kæmi fram að hinn svonefndi leigutaki á hins vegar rétt á því að fá greitt allt matsandvirði/söluandvirði tækisins, að frádregnum eftirstöðvum skuldar við gerðarbeiðanda.

Gerðarþoli vísar til þess að í lok 30. gr. samningsins sé tekið fram að myndist hagnaður hjá gerðarbeiðanda við framangreindar aðstæður geti gerðarbeiðandi greitt slíkan hagnað inn á aðrar kröfur eða leigusamninga sem séu í gildi milli sömu aðila. Líkt og áður hafi verið ítrekað kveði samningurinn á um að verðmæti tækis umfram eftirstöðvar samning skuli greitt leigutaka enda eign hans. Gerðarbeiðanda sé þó heimilt að ráðstafa slíku umframverðmæti inn á aðrar skuldir leigutaka við leigusala sem og aðra leigusamninga. Gerðarþola þykir þetta staðfesting á því að umframverðmæti samnings sé aldrei eign gerðarbeiðanda sem þó yrði að ætla ef um leigusamning væri að ræða. Gerðarþoli telur vandséð hvernig unnt sé að greiða fjármuni inn á aðra leigusamninga, þ.e. ef slíkir samningar séu í raun leigusamningar, því almennt sé ekki greitt inn á leigusamninga á miðjum samningstíma til lækkunar á þeim.

Að framangreindum samningsákvæðum virtum telur gerðarþoli ljóst að samningurinn beri öll einkenni þess að vera lánssamningur þar sem leigutaki sé í raun og veru eigandi þess tækis sem samningurinn fjalli um en leigusali fjármögnunaraðila sem eigi ekki rétt á öðru en að fá greidda útlagða fjármögnun til baka með vöxtum og kostnaði. Ljúki samningstímanum, farist tækið eða sé samningnum rift eigi leigutaki í öllum tilvikum rétt á verðmæti tækisins, eftir atvikum vátryggingarbótum, að frádregnum eftirstöðvum samningsins. Gerðarþoli byggir á því að til málamynda séu aðilar máls kallaðir leigusali og leigutaki sem og að gerðarbeiðandi sé sagður eigandi tækisins. Samningurinn sé samkvæmt þessu lánssamningur sem hafi að geyma ólögmætt ákvæði um gengistryggingu sem sé óskuldbindandi fyrir gerðarþola. Réttindi gerðarbeiðanda um að fá afhent tækið samkvæmt samningnum sé í samræmi við framangreint alls ekki skýr og ótvíræð. Því beri að hafna beiðni gerðarbeiðanda.

Hvað varðar samninga nr. 143158, 143160 og 144853 bendir gerðarþola á að þeir samningar séu allir eins, en lítillega frábrugðnir orðalagi samnings nr. 117572 en þó ekki efnislega. Gerðarþoli telur að framangreindir samningar séu jafnframt lánssamningar og eigi sömu málsástæður hér við og að framan sé gert grein fyrir vegna samnings nr. 117572. Samningarnir hafi að geyma ákvæði um gengistryggingu sem sé ólögmætt og  því ekki skuldbindandi fyrir gerðarþola.

Af hálfu gerðarþola er á því byggt, líkt greint hafi verið að framan, að viðskiptasamband gerðarbeiðanda og gerðarþola eigi sér langa sögu. Þau viðskipti hafi gengið út á það að gerðarbeiðandi hafi fjármagnað vinnuvélar fyrir Ásgeir Þór Hjaltason, fyrirsvarsmann gerðarþola, sem hann hafi þarfnast í rekstri sínum hverju sinni. Árið 2009 hafi gerðarþoli tekið yfir umþrætta samninga. Á þessu tímabili hafi verið keyptur fjöldi vinnuvéla og tækja. Ásgeir Þór hafi í öllum tilvikum ákveðið hvaða tæki skyldu keypt en gerðarbeiðandi hafi ekki komið að þeim ákvörðunum. Fjárhæðir í samningunum hafi tekið mið af kaupverði tækis hverju sinni, ásamt fjármögnunarkostnaði. Gerðarbeiðandi hafi greitt seljanda vinnuvélar eða tækis kaupverðið og gert svo í framhaldi fjármögnunarleigusamning við Ásgeir Þór, sem hafi síðan endurgreitt gerðarbeiðanda þá fjárhæð með reglulegum afborgunum til fyrirfram ákveðins tíma. Inni í þeirri greiðslu hafi verið gert ráð fyrir vöxtum og kostnaði. Alkunna þyki að vextir séu ekki greiddir af leigugreiðslum og sé það til marks um að samningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar.

Gerðarbeiðandi hafi sent gerðarþola reglulega svonefnt áramótayfirlit um stöðu samninganna hverju sinni. Umrædd yfirlit hafi tilgreint upprunalegan höfuðstól og eftirstöðvar hvers samningsins í fjárhæðum. Gerðarþoli ber því við að það sé ekki gert vegna leigusamninga en sé hefðbundið fyrir lánssamninga. Þá hafi verið tilgreint svonefnt lokagjald samningsins. Gegn greiðslu þessa lokagjalds hafi samningurinn átt að vera uppgreiddur. Gerðarþoli kveðst oft hafa greitt gerðarbeiðanda slíkt lokagjald vegna annarra samninga og síðan fengið afsöl fyrir tækjum. Gerðarbeiðandi beri því sönnunarbyrði fyrir því að þessi afsöl í kjölfar uppgreiðslu á samningi hafi verið breyting á samningi aðila en ekki meginreglan og samkvæmt samningi aðila.

Gerðarþoli vísar til þess þó svo tilgreindur sé ákveðinn samningstími í samningunum og að honum loknum myndi hefjast svonefnd framhaldsleiga hafi reyndin verið sú að gerðarþoli hafi jafnan greitt af samningi út samningstíma eða greitt samning upp auk lokagjalds og fengið í kjölfarið tækinu afsalað til sín. Því hafi svokölluð framhaldsleiga aldrei hafist. Ástæða þessa sé sú að ákvæði um framhaldsleigu hafi verið til málamynda og hluti af því að læða lánssamning í búning leigusamnings.

Gerðarþoli byggir á því að aðilar hafi samið um það í hverju einasta tilviki, að þegar höfuðstóll samnings, eða eftirstöðvar hans, væru uppgreiddar, skyldi gerðarþoli eignast það tæki er samningurinn hafi fjallað um. Þessu til stuðnings vísar gerðarþoli til þess að framhaldsleiga hafi aldrei hafist á þeim tækjum sem gerðarbeiðandi hafi áður fjármagnað fyrir gerðarþola. Samningar hafi ýmist verið greiddir upp með lokagjaldi eða eftirstöðvar þeirrar greiddar fyrir lok samnings. Í báðum tilvikum hafi gerðarþoli eignast viðkomandi tæki, án þess að um það hafi verið gerður sérstakur samningur eða skilmálabreyting. Með vísan til þess telur gerðarþoli að um lánssamninga sé að ræða, þar sem gerðarbeiðandi hafi ekki átt kröfu til annars en að fá samningsfjárhæðir greiddar. Gerðarbeiðandi beri sönnunarbyrði fyrir því að þau viðskipti sem hafi farið fram á þann veg sem að framan sé lýst hafi verið breyting á samningi aðila.

Gerðarþoli kveður að skilmálabreytingar sem gerðar hafi verið í október 2011 á þremur samninganna staðfesti að um lánssamninga sé að ræða, eða í öllu falli hafi falist í þeirri skilmálabreytingu að samningarnir séu nú lánssamningar. Í þeim breytingum sé vísað til tiltekinnar greiðsluáætlunar. Skýrt komi fram í þeirri greiðsluáætlun að þegar við hana yrði staðið yrðu eftirstöðvar samningsins 0 krónur. Í skjalinu séu greiðslur gerðarþola til gerðarbeiðanda titlaðar sem afborganir.

Þá bendir gerðarþoli á að gerðarbeiðandi hafi ekki eignfært umræddar vélar og tæki í reikningum sínum. Hafi gerðarbeiðandi talið sig vera eiganda þeirra mætti ætla að hann hefði gert slíkt. Þyki þetta vísbending um það hvernig gerðarbeiðandi virti viðskiptasamband aðila. Gerðarþoli byggir á því að sá reikningsskilastaðall sem gerðarbeiðandi hafi lagt fram hafi enga þýðingu í þessu máli. Staðallinn hafi ekki átt við um reikningsskil gerðarþola og sennilega ekki gerðarbeiðanda heldur. Að minnsta kosti sé það ósannað. Aðeins félögum skráðum á markaði og vátryggingarfélögum sé skylt að nota þessa reikningsskilastaðla og breyti þeir engu fyrir viðskiptasamband aðila þessa máls.

Þegar allt framangreint sé virt með tilliti til þess hvort um sé að ræða lánssamninga eða leigusamninga, er það mat gerðarþola að samningarnir beri efnislega öll einkenni lánssamnings umfram leigusamning. Þegar litið sé til þess hvernig málsaðilar hafi framkvæmt samninganna og átt viðskipti sín á milli geti ekki leikið vafi á því að efnislega sé um lánssamninga að ræða. Ekki hafi farið fram endurútreikningur á samningunum og því með öllu óljóst hvort gerðarbeiðandi eigi þau réttindi sem hann krefst. Því beri að hafna kröfu gerðarbeiðanda.

Gerðarþoli vísar til þess að gerðarbeiðandi hafi rift umræddum samningum með yfirlýsingu 4. mars 2014. Í riftunaryfirlýsingunni komi fram að ógreidd fjárhæð sé 54.694.927 krónur. Þar segi jafnframt að gjaldfallin leiga og/eða kostnaður þar af sé 47.721.583 krónur. Þá séu dráttarvextir tæplega 7 milljónir króna. Loks komi fram að gerðarþoli skuldi gerðarbeiðanda alls 70.245.702 krónur. Gerðarþoli bendir á að sú fjárhæð stemmi ekki við neinar aðrar tölur. Ekki sé unnt að sjá hvernig gerðarbeiðandi fái þá fjárhæð út. Gerðarþoli hafi mótmælt riftunaryfirlýsingunni og fjárhæðinni sem tilgreind sé í henni. Gerðarþoli vísar til þess að aðeins eitt skjal sé lagt fram sem sundurliðun á kröfu gerðarbeiðanda og sé því mótmælt sem röngu og villandi.

Um lagarök vísar gerðarþoli einkum til laga nr. 90/1989 um aðför og meginreglna í samninga- og körfurétti. Um málskostnað vísar gerðarþoli til 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Krafa gerðarbeiðanda lýtur að því að fá umráð tilgreindra vinnuvéla og tækja frá gerðarþola. Ágreiningur milli aðila snýr að lögmæti umþrættra samninga, efndir þeirra og réttarsamband aðila að öðru leyti.

Gerðarbeiðandi hefur lagt fram fimm fjármögnunarleigusamninga milli aðila sem og breytingar á þeim, afrit af alþjóð­legum reikningsskilastaðli IAS-17, yfirlit yfir skuldastöðu gerðarþola við gerðarbeiðanda miðað við 3. mars 2014, afrit riftunaryfirlýsingar sem gerðarbeiðandi beindi til gerðarþola 4. mars 2014, útprentanir úr vinnuvélaskrá og ökutækjaskrá, dags. 25. apríl 2014, útprentun úr fyrirtækjaskrá, dags. 25. apríl 2014, upplýsingar með ársreikningi gerðarþola fyrir reikningsárinu 2009 og 2012 og þann samning sem deilt var um og dæmt um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 653/2011. Gerðarþoli hefur meðal annars lagt bréf milli málsaðila, dags. 24. mars 2014 og 25. apríl 2014, reikninga Ásgeirs Þórs Hjaltasonar vegna sölu á tæki í samningi við gerðarbeiðanda, dags. 22. júlí 2005 og 15. ágúst 2007, tryggingarbréf dags. 15. september 1992, áramótstöður fjármögnunarleigusamninga, gögn um viðskipti með Volvo bifreið milli málsaðila, reikning gerðarþola sem seljanda vegna Volvo bifreiðarinnar, dags. 3. ágúst 2007, ýmis afsöl gerðarþola til gerðarbeiðanda við uppgreiðslu samninga, skilmálabreytingar dags. 25. október 2011, reikning dags. 15. ágúst 2007, og reikning dags. 9. ágúst 2007 ásamt tilkynningu um eigendaskipti og afsal.

Svo fallist verði á kröfu um beina aðfarargerð skulu réttindi gerðarbeiðanda vera svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 78. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna skal héraðsdómari að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla samkvæmt áðursögðu. Með vísan til framangreinds er í máli þessu ekki heimilt að taka afstöðu til ágreinings aðila að öðru leyti en varðandi rétt til umráða yfir framangreindum vélum og tækjum og verður ekki úr öðrum ágreiningi aðila skorið í máli, sem rekið er á grundvelli 78. gr. laganna. Af skráningu umræddra vinnuvéla og tækja í vinnuvéla- og ökutækjaskrá sem og í fjármögnunarleigusamningum aðila verður ekki annað ráðið en að gerðarbeiðandi sé sannarlega eigandi þeirra og að þau hafi verið leigð gerðarþola á grundvelli þeirra skilmála sem í samningum aðila greinir. Þykir í þessu sambandi ekki hafa þýðingu þótt gerðarbeiðandi færi ekki þá muni, sem hann leigir út, sem eignir í ársreikningi sínum. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu gerðarþola að hafna beri kröfu gerðarbeiðanda þar sem rétttindi gerðarbeiðanda séu hvorki skýr né ljós.

Óumdeilt er í málinu að gerðarþoli hefur verið í vanskilum með umkrafið leigugjald samkvæmt samningunum allt frá því í nóvember 2012. Vegna þess, og með stoð í 28. gr. samninganna, rifti gerðarbeiðandi samningunum með bréfi 4. mars 2014. Samkvæmt gögnum málsins námu vanskil gerðarþola þann 3. mars 2014, 54.468.503 krónum, að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Gerðarþoli mótmælti riftunarkröfu gerðarbeiðanda og fjárhæðinni sem tilgreind er í riftunaryfirlýsingunni með bréfi 24. mars 2014. Gerðarþoli hefur þó ekki gert gerðarbeiðanda grein fyrir afstöðu sinni um hverjar umsamdar greiðslur á grund­velli samnings aðila ættu að vera og boðið fram greiðslu samkvæmt því, sbr. til hliðsjónar dómar Hæstaréttar Íslands frá 11. febrúar 2013 í máli nr. 37/2013 og frá 16. júní 2010 í máli nr. 315/2010. Ágreiningur aðila um endurútreikning samkvæmt samningunum og um nákvæma skuldastöðu gerðarþola haggar ekki, eins og hér á stendur, rétti gerðarbeiðanda til að krefjast þess að hin umbeðna gerð fari fram, enda verður ekki talið varhugavert að hún nái fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

Gerðarþoli byggir að meginstefnu á því að umræddir samningar séu samkvæmt efni sínu lánssamningar og að ákvæði þeirra um gengistryggingu sé ólögmæt í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um sé að ræða lánssamninga sem gerðarbeiðandi hafi kosið að klæða í búning leigusamninga. Þá byggir gerðarþoli á því að ákvæði samninganna verði að virða í heild sinni í samræmi við aðra samninga aðila og viðskiptasögu þeirra. Öllu framangreindu mótmælir gerðarbeiðandi sem röngu.

Hér háttar þannig til að samningar þeir sem mál þetta varða eru sambærilegir þeim samningi sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011. Í forsendum þess dóms var meðal annars vísað til þess að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Þá væri í samningi málsaðila fjallað um leigu og áfrýjandi þar ítrekað nefndur leigusali. Einnig var til þess vísað að áfrýjanda hafi verið heimilt að reikna leigugjald til samræmis við breytingar sem kynnu að verða af millibankavöxtum í erlendum gjaldmiðlum, að stefnda bæri sem leigutaki áhættu af því að hið leigða færist, skemmdist eða rýrnaði og honum væri að auki skylt að greiða fjárhæð, sem svaraði til leigu til loka samningstíma að frádregnu matsverði hins leigða, ef samningnum yrði rift.

Ekki er um það deilt að gerðarþoli átti frumkvæði að gerð samninganna, valdi umrædd tæki og vélar og leitaði til gerðarbeiðanda um fjármögnun þeirra. Þó verður ekki ráðið af framlögðum gögnum að aðilar hafi samið svo um að gerðarþoli myndi eignast hina leigðu muni, eins og á er byggt af hans hálfu. Liggur því ekki annað fyrir, eins og í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar, en að samið var um að þegar grunnleigutíma lyki hafi átt að stofnast ótímabundinn samningur gegn verulega lægra gjaldi, sem gerðarþola var heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, líkt og nánar er mælt fyrir um í samningum aðila. Þá er kveðið á um í samningunum að þeim megi aðeins breyta með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að samningunum hafi verið breytt að því leyti, sem hér skiptir máli, með þeim hætti sem mælt er fyrir um í skilmálum samninganna. Samkvæmt þessu verður ekki annað lagt til grundvallar í málinu en að samningar aðila hafi verið fjármögnunarleigusamningar, líkt og heiti þeirra bendir jafnframt til. Fyrri viðskipti fyrirsvarsmanns gerðarþola við gerðarbeiðanda breyta hér engu um, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 3. apríl 2014 í máli nr. 717/2013. Fullyrðingar gerðarþola um að umræddir samningar séu lánssamningar en ekki fjármögnunarleigusamningar eru því ósannaðar og samrýmast ekki gögnum málsins. Fellst dómurinn á það með gerðarbeiðanda að um samskonar lögskipti sé að ræða og í dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011, þannig að um sé að ræða leigusamninga sem heimilt var að binda gengi erlendra gjaldmiðla.

Með hliðsjón af greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á gerðarbeiðandi rétt til málskostnaðar úr hendi gerðarþola, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur. 

Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin umbeðna gerð má fara fram.

Gerðarþoli, Skollanes ehf., greiði gerðarbeiðanda, Lýsingu hf., 250.000 krónur í málskostnað.