Hæstiréttur íslands

Mál nr. 164/2005


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. nóvember 2005.

Nr. 164/2005.

Ástþór Magnússon Wium

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Skaðabætur.

Á krafði íslenska ríkið um bætur vegna frelsissviptingar, sem hann sætti frá 23. til 26. nóvember 2002, í tilefni af orðsendingu, er laut að yfirvofandi hættu á hryðjuverkaárás, sem hann sendi yfir 1.200 viðtakendum en meðal þeirra voru lögregluyfirvöld og fjölmiðlar. Hafði hann verið sýknaður af ákæru þar sem honum var gefið að sök að hafa með orðsendingunni brotið gegn 120. gr. a almennra hegningarlaga. Talið var að í öndverðu hefði verið tilefni til að handtaka Á og beita gæsluvarðhaldi yfir honum í þágu rannsóknar málsins. Hins vegar komu ekki fram skýringar á þeirri töf, sem varð á því að skýrsla yrði tekin af vitni, sem Á hafði borið að kveikt hefði hjá sér hugmynd um þá ógn sem vofði yfir. Þá hafði ekkert komið fram um það hvenær lögregla hefði kannað nægilega þau gögn, sem fundust við húsleit, til að staðreyna að frekari heimildir byggju ekki að baki orðsendingunni. Þótti Á því hafa sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til og var fallist á að hann ætti rétt til bóta samkvæmt b. lið 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Voru bætur til hans ákveðnar 150.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2002 til 18. ágúst 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

I.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi lét Alþjóðastofnunin Friður 2000 frá sér fara orðsendingu í tölvupósti um kl. 19.30 föstudaginn 22. nóvember 2002, sem beint var til yfir 1.200 viðtakenda, meðal annars lögregluyfirvalda og annarra stjórnvalda, svo og fjölmiðla. Orðsendingin var svohljóðandi: „Við höfum rökstuddan grun um að ráðist verði gegn íslenskri flugvél með flugráni og eða sprengjutilræði. Við vitum ekki hvort þessi árás muni beinast gegn almennu flugi Icelandair eða Atlanta eða hvort bæði félögin verði skotmark. Tilræðið mun koma sem svar við þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að nota borgaralegar flugvélar íslenska flugflotans til flutninga á hergögnum eða hermönnum fyrir NATO í ólögmætu stríði gegn Írak. Rétt er að vara almenning til að ferðast með þessum flugfélögum á næstu dögum og vikum. Okkur finnst rétt að vekja athygli á þessu.“ Ekki var tilgreint frá hverjum orðsending þessi stafaði í nafni fyrrgreindra samtaka, en fyrir liggur að þar hafi verið að verki áfrýjandi, sem kveðst hafa verið stofnandi þeirra og talsmaður á þeim tíma, sem hér um ræðir.

Lögreglurannsókn hófst vegna þessarar orðsendingar skömmu eftir að hún var komin fram. Í tengslum við rannsóknina var áfrýjandi handtekinn nokkru eftir miðnætti 23. nóvember 2002, þar sem hann var staddur á veitingahúsi í Reykjavík. Samkvæmt skýrslu lögreglu um handtökuna beindist grunur að áfrýjanda um brot gegn 100. gr. a. og 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Kom fram í skýrslunni að áfrýjandi hafi verið ölvaður við handtöku og var ákveðið að vista hann í fangageymslu um nóttina. Að fengnum úrskurði dómara var gerð húsleit á heimili áfrýjanda, þar sem starfsemi áðurnefndra samtaka fór einnig fram, þá um nóttina og var henni fram haldið daginn eftir. Lagði lögregla þar hald á tölvubúnað, auk þess að afrita efni, sem varðveitt var í tölvum. Lögregluskýrsla var síðan tekin af áfrýjanda síðdegis 23. nóvember 2002, en að kvöldi þess dags krafðist ríkislögreglustjóri þess að áfrýjanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi og var hann þá leiddur fyrir dómara. Laust eftir miðnætti var kveðinn upp úrskurður um gæsluvarðhald yfir áfrýjanda, sem standa skyldi til 29. nóvember 2002. Áfrýjandi kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, sem felldi hann úr gildi með dómi í máli nr. 523/2002, sem kveðinn var upp 26. nóvember 2002.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur áfrýjanda 2. desember 2002, þar sem honum var gefið að sök að hafa brotið gegn 120. gr. a. almennra hegningarlaga með því að hafa dreift fyrrgreindri orðsendingu með „tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél, sem var til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna“. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2003 var áfrýjandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og var sá dómur staðfestur með dómi Hæstaréttar 19. febrúar 2004 í máli nr. 324/2003.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 18. ágúst 2004 til heimtu skaðabóta vegna frelsissviptingarinnar, sem hann sætti samkvæmt framansögðu frá 23. til 26. nóvember 2002.

II.

Í skýrslunni, sem lögregla tók af áfrýjanda 23. nóvember 2002, skýrði hann þannig frá aðdraganda þess að hann sendi fyrrgreinda orðsendingu að hann hafi fengið „alls konar draumsýnir í sambandi við þessi mál“. Hann hefði séð í erlendum fjölmiðlum aðvaranir við því að ráðist yrði á þá, sem styddu „ólögmæt stríð gegn Írak eða Arabaþjóðum“. Honum hafi svo borist orðsending 22. nóvember 2002 í tölvupósti „með rökstuðningi, sem að lýsti því alveg nákvæmlega, hvers vegna íslenskar flugvélar yrðu núna skotmark, þær væru orðnar lögmætt skotmark eins og pósturinn orðaði það.“ Stjórnvöld hefðu kunngert að þau hefðu gert samninga við tvö íslensk flugfélög um að „nota borgaralegar flugvélar til flutnings á hergögnum.“ Gætu hryðjuverkamenn ekki skilið á milli þess hvenær þær flugvélar væru notaðar til að flytja hergögn eða farþega. Sagði áfrýjandi að ef „þessi samningur mun halda áfram að vera í gildi, þá hef ég grun um það að það muni verða ráðist á íslenska flugvél eða tilraun gerð til slíks og ef það tekst að þá verði hún sprengd í loft upp.“ Áfrýjandi kvaðst með einu símtali geta útvegað afrit af áðurnefndri orðsendingu, sem honum hafi borist í tölvupósti daginn áður og vistaður væri í tölvu hans, en sendandi hennar væri maður að nafni A og hefði henni verið dreift eftir svokölluðum póstlista, meðal annars til áfrýjanda.

Þegar áfrýjandi var leiddur fyrir dómara að kvöldi 23. nóvember 2002 var bókað eftir honum að hann viðurkenndi að hafa sent þá orðsendingu, sem varð tilefni til handtöku hans, og „kveðst hafa verið einn að verki og án samráðs við nokkurn. Hann kvaðst hafa byggt efni yfirlýsingarinnar á innsæi og upplýsingum víðsvegar að, svo sem fréttastofum og öðrum aðilum. Verið geti að upphaf textans hafi verið óheppilegt.“

Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvenær lögregla fékk í hendur orðsendinguna, sem áfrýjandi kvaðst hafa fengið senda í tölvupósti 22. nóvember 2002 frá A, en hún var svohljóðandi:

„Kæru vinir,

Ég legg til að eftirfarandi bréf verði sent forráðamönnum Flugleiða og Flugfélagsins Atlanta með samriti til fjölmiðla. Leita eftir athugasemdum og tillögum. Með kærri kveðju, [A].

Ágæti forstjóri. Á öftustu síðu Mbl. í dag er greint frá því að íslenska ríkið hafi gert „rammasamning“ við fyrirtæki yðar um flutninga í þágu hernaðaraðgerða á vegum NATÓ, ef til þeirra verður gripið, t.d. gegn Írak.

Við undirrituð bendum vinsamlega yður á, að þeir sem taka þátt í atriði, þ.m.t. með flutningum í þágu hernaðar, verða sjálfkrafa lögmæt skotmörk árása. Þetta myndi einnig eiga við um flugvélar og áhafnir fyrirtækis yðar. Þessi staða kæmi upp án tillits til þess hvort stríðið sjálft er lögmætt eða ei. Þegar stríð er háð í trássi við grundvallarreglur þjóðaréttar, t.d. ef um einhliða stríðsaðgerðir eins ríkis eða sjálfskipaðs hóps ríkja er að ræða, eða stríð sem er háð án ótvíræðra heimildar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, teljast slíkar aðgerðir alþjóðaglæpir og þátttakendur í þeim ótýndir glæpamenn. Hlutdeild viljugra þátttakenda í slíku stríði samsvarar aðild að hryðjuverkum.

Við viljum benda á, að aðilar víða um heim, sem eru mótfallnir hnattrænum yfirgangi Bandaríkjanna og NATÓ og hvaða borgaralegir aðilar veita stríðsaðilum þjónustu. Til þess að koma í veg fyrir hugsanlegar árásir á eigur og starfsfólk flugfélags yðar af hálfu aðila sem hafa getu og vilja til að fremja slíkar árásir, hvetjum við yður að hafna hverskyns þjónustu við stríðsaðgerðir gegn fjarlægum þjóðum eða ríkjum.

Erindi okkar er ekki skrifað í hótunarskyni, enda teljum við okkur friðarsinna og andstæðinga ofbeldis. Erindi þetta er skrifað vegna ótta okkar um að íslensk fyrirtæki setji öryggi starfsmanna sinna og annarra Íslendinga í óþarfa hættu með því að gerast aðilar að stríðsaðgerðum stórþjóða.

[A].“

Lögregla tók skýrslu af A síðdegis mánudaginn 25. nóvember 2002. Framangreind orðsending var þá borin undir hann og kannaðist hann við að hafa sent hana 20 til 25 viðtakendum, meðal annars áfrýjanda. Væri um að ræða uppkast að bréfi til forráðamanna Flugleiða hf. og Flugfélagsins Atlanta hf., sem hann hafi samið vegna fréttaflutnings um að ríkisstjórnin hefði gert samninga við þessi félög um hergagnaflutninga í tengslum við hugsanleg hernaðarátök í Mið-Austurlöndum. Hafi það aldrei verið ætlun sín að áfrýjandi notfærði sér þetta uppkast á þann hátt, sem hann hafi greint frá í lögregluskýrslu.

III.

Með áðurgreindri orðsendingu, sem áfrýjandi dreifði 22. nóvember 2002 í nafni Alþjóðastofnunarinnar Friðar 2000, var hermt að hann hefði rökstuddan grun um að flugrán eða sprengjutilræði yrði beint gegn flugvél á vegum Flugleiða hf. eða Flugfélagsins Atlanta hf. vegna ráðagerða ríkisstjórnarinnar um að leggja til slíkar vélar til að flytja hergögn eða hermenn í stríði gegn Írak. Af hljóðan orðsendingarinnar var nærtækt að álykta að sendandi hennar kynni að hafa heimildir fyrir því að í undirbúningi væri óhæfuverk af þeim toga, sem þar greindi. Var því ríkt tilefni til að lögregla brygðist við þessari orðsendingu með því að handtaka áfrýjanda og gera leit í húsakynnum hans og samtakanna, sem hann kom fram fyrir. Af því, sem fram kom í lögregluskýrslu af áfrýjanda daginn eftir handtöku hans, mátti að vísu ráða að líklegast væri að efni orðsendingarinnar væri hugarburður hans, sem styddist ekki við heimildir um þær yfirvofandi aðgerðir, sem þar um ræddi. Vegna alvarleika þess, sem áfrýjandi hafði gefið þar til kynna, var þó full ástæða til að svipta hann áfram frelsi til þess að kanna nánar það, sem finnast kynni við húsleit, og taka skýrslur af öðrum, meðal annars A, sem áfrýjandi hafði borið að kveikt hefði hjá sér hugmynd um þá ógn, sem í orðsendingunni var fjallað um. Eins og atvikum þessum var háttað var því réttmætt tilefni til að beita gæsluvarðhaldi yfir áfrýjanda. Þótt hann hafi verið dæmdur sýkn af þeim sakargiftum, sem hann var síðar borinn af þessu tilefni, verða honum ekki dæmdar bætur vegna handtöku eða þess að honum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í öndverðu, enda hafði hann sjálfur valdið þeim aðgerðum, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og henni var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999.

Eins og áður kom fram tók lögregla ekki skýrslu af A fyrr en nærri tveimur sólarhringum eftir að áfrýjandi hafði getið hans við skýrslugjöf. Engar skýringar hafa komið fram af hálfu stefnda á þessari töf, sem var í engu samræmi við þann alvarleika, sem lögregla virðist hafa litið háttsemi áfrýjanda, en með skýrslu A fékkst að mestu staðfest á hvaða grunni þær getsakir hvíldu, sem áfrýjandi hafði borið upp í orðsendingu sinni. Ekkert hefur komið fram um það hvenær lögregla hafði kannað nægilega þau gögn, sem fundust við húsleit, til að staðreyna að frekari heimildir byggju ekki að baki gerðum áfrýjanda. Að þessu virtu verður að líta svo á að áfrýjandi hafi sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til og á hann rétt til bóta af þeim sökum samkvæmt b. lið 176. gr. laga nr. 19/1991. Í ljósi allra atvika og þá einkum þess stóra þáttar, sem áfrýjandi átti sjálfur í aðdraganda þeirra aðgerða, sem lögregla greip til gagnvart honum, eru bætur hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Ber stefnda að greiða þá fjárhæð með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Ástþóri Magnússyni Wium, 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2002 til 18. ágúst 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2005.

             Mál þetta var höfðað 18. ágúst 2004 og dómtekið 7. þ.m.

Stefnandi er Ástþór Magnússon Wium, Vogaseli 1, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. nóvember 2002 til að liðnum einum mánuði frá birtingu bótakröfunnar en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi 29. september 2004.

 Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og máls­kostnaðar úr hendi hans en til vara að umkrafin bótafjárhæð verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.

I

Föstudaginn 22. nóvember 2002, kl. 19.29, barst ríkislögreglustjóra svofelldur tölvupóstur frá alert @peace2000.org með tilgreindu efni:  “Vörum við sprengju­tilræði gegn íslenskri flugvél”:

“Við höfum rökstuddan grun um að ráðist verði gegn íslenskri flugvél með flugráni og eða sprengjutilræði.  Við vitum ekki hvort þessi árás muni beinast gegn almennu flugi Icelandair eða Atlanta eða hvort bæði félögin verði skotmark.  Tilræðið mun koma sem svar við þeim ráðagerðum ríkisstjórnarinnar að nota borgaralegar flugvélar íslenska flugflotans til flutninga á hergögnum eða hermönnum fyrir NATO í ólögmætu stríði gegn Írak.  Rétt er að vara almenning til að ferðast með þessum flugfélögum á næstu dögum og vikum.  Okkur finnst rétt að vekja athygli á þessu.

Alþjóðastofnunin Friður 2000

www. Peace 2000.org”

 

Þegar var gerður reki að rannsókn.  Með því að hringja í síma stefnanda var komist að því hvar hann var; á Sport Kaffi, Þingholtsstræti 5, Reykjavík  Starfsmenn ríkislögreglustjóra fóru þangað og var stefnandi fenginn til að koma út fyrir veitinga­staðinn þar sem honum var tilkynnt að hann væri handtekinn, kl. 0.40 þá um nóttina.  Farið var með hann í skrifstofur ríkislögreglustjóra við Skúlagötu og kl. 1.30 var honum fenginn réttargæslumaður af lögmannavakt.  Í handtökuskýrslu Sveins Ingi­bergs Magnússonar, lögreglufulltrúa í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sem hann staðfesti fyrir dómi, segir m.a. :  “Grunur um brot á 100. gr. a sbr. 168. gr. oml., framið föstudaginn 23. nóvember kl. 19.29 Vogaseli 1, Reykjavík.”  Í skýrslunni segir að leitað hafi verið að húslyklum á hinum handtekna utan við Vogasel 1.  Stefnandi hafi óskað eftir að hafa samband við vandamann, rússneska stúlku sem hafi verið með honum á Sport Kaffi, og hafi Sveinn Ingiberg talað við hana utan við Vogasel 1 kl 2.55.  Stefnandi hafi kl. 3.20 þá um nóttina verið vistaður í klefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113.  Að lokum segir í skýrslunni:  “Hefur ekki verið yfirheyrður nú kl. 13.30 þegar þessi skýrsla er rituð vegna ölvunarástands.”

Fram er komið að framangreind orðsending var send til 1246 viðtakenda, þ.á m. til ráðherra, alþingismanna, ýmissa embættismanna og fjölmiðla.

Stefnandi var færður til yfirheyrslu hjá lögreglu kl. 17.36  laugardaginn 23. nóvember og stóð hún til kl. 18.33 að viðstöddum verjanda hans.  Samkvæmt skýrslunni kvaðst stefnandi hafa samið og sent framangreinda orðsendingu daginn áður.  Hann hafi gert það vegna draumsýna sinna eða innsæis og í tilefni fréttaflutnings í erlendum fjölmiðum um að hugsanlega yrði ráðist á þá, sem styðji “ólögmætt stríð gegn írak eða Arabaþjóðum”, auk þess sem honum hafi borist frá nafngreindum manni tölvupóstur þar sem rökstutt væri hvers vegna íslenskar flugvélar “yrðu núna skotmörk” vegna ákvarðana íslenskra stjórnvalda.  Að yfirheyrslu lokinni var stefnandi vistaður að nýju í fangageymslu frá kl. 20.25 til 22.06 er hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ríkislögreglustjóri hafði krafist þess, með vísun til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. desember 2002 kl. 16.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra með gæsluvarðhaldskröfunni segir m.a. að lögreglan teldi að efni tölvupóstsin væri til þess fallið að valda almennum ótta og óöryggi fyrir flugsamgöngur.  Það hvernig póstinum hefði verið dreift benti til þess að megin tilgangurinn væri ekki að aðvara lögreglu þrátt fyrir að hann bæri með sér að sendandi hefði upplýsingar um að ráðist yrði gegn íslensku flugfélagi.  Ætluð brot kynnu að varða við 100. gr. a og c, 168. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.  Héraðsdómur Reykjavíkur hefði nóttina áður úrskurðað um heimild lögreglu til leitar að Vogaseli 1 sem og um skyldu Íslandssíma hf. til að upplýsa lögreglu um hver væri eigandi póstfangsins alert@peace2000.org, húsleit hafi farið fram að Vogaseli 1 “í nótt og dag” og hafi lögregla lagt hald á gögn úr tölvum sem þar hefðu fundist og nokkuð af tölvubúnaði.  Ríkissaksóknara hafi verið gerð grein fyrir málinu og hafi hann lýst því yfir að hann teldi það vera grafalvarlegt og að hann styddi þá ákvörðun að krefjast gæsluvarðhalds yfir stefnanda í þágu rannsóknar málsins.   Málið væri enn á frumstigi og mundi lögregla á næstu dögum rannsaka hverjir kynnu hugsanlega að vera meðsekir stefnanda   Ekki hafi náðst að yfirheyra vitni, sem kynnu að hafa upplýsingar um málið, og ekki hafi gefist tími til að leita í tölvubúnaði stefnanda hvort þar kynnu að finnast upplýsingar sem styddu þær fullyrðingar sem fram kæmu í tölvupóstinum.

Dómari féllst á kröfu um gæsluvarðhald með úrskurði uppkveðnum kl. 0.05 sunnudaginn 24. nóvember en þó þannig að því var markaður tími allt til föstudagsins 29. nóvember 2002 kl. 16.  Fulltrúi ríkislögreglustjóra kynnti kærða að fyrirkomulag gæsluvarðhaldsvistar yrði samkvæmt b-, c-, d- og e-liðum 108. gr. laga nr. 19/1991. Verjandi mótmælti öllum þessum liðum sem nauðsynjalausum og krafðist úrskurðar um það atriði.  Dómari ákvað að taka ágreiningsefni fyrir í sérstöku þinghaldi kl. 14 sama dag.  Stefnandi var að nýju fluttur á Litla-Hraun en var síðan viðstaddur þinghald um framangreindan ágreining.  Þá lýsti fulltrúi ríkislögreglustjóra yfir að fallið væri frá kröfu um fjölmiðlabann samkvæmt e-lið 108. gr. laga nr. 19/1991 og dómari úrskurðaði að kröfu stefnanda máls þessa um að tilhögun gæsluvarðhalds­vistarinnar yrði án takmörkunar samkvæmt b-, c- og d-liðum 108. gr. laga nr. 19/1991 væri hafnað.

Mánudaginn 25. nóvember voru teknar skýrslur af tveimur vitnum.  Sam­kvæmt skýrslu Jóns Lárussonar lögreglufulltrúa, gerðri þriðjudaginn 26. nóvember 2002 kl. 14.58, var þá lokið skoðun hans á  tölvubúnaði í eigu stefnanda.  Þar segir að hann hafi fengið til rannsóknar tvær PC fartölvur í eigu stefnanda, sem hafi verið haldlagðar af starfsmönnum ríkislögreglustjóra á heimili stefnanda og starfsstöð Friðar 2000 að Vogaseli 1.  Niðurstöðum er lýst í skýrslunni.

Stefnandi kærði gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar sem felldi hann úr gildi með dómi uppkveðnum þriðjudaginn 26. nóvember 2002 (mál nr. 523/2002).  Sama dag kl. 14.55 var stefnandi mættur á skrifstofu ríkislögreglustjóra til yfirheyrslu.  Honum var í upphafi kynnt að fyrir nokkrum mínútum hefði ríkislögreglustjóranum borist upplýsingar frá Hæstarétti um framangreinda dómsniðurstöðu.  Hann lýsti sig engu að síður reiðubúinn til að gefa lögreglu skýrslu sem hann gerði síðan að viðstöddum verjanda sínum.

Þann 2. desember 2002 gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur stefnanda þar sem honum var gefið að sök hegningarlagabrot “með því að hafa, föstudaginn 22. nóvember 2002, í nafni samtakanna Alþjóðastofnunin Friður 2000, Vogaseli 1, Reykja­vík, dreift í tölvupósti frá starfsstöð samtakanna til fjölda viðtakenda, þeirra á meðal starfsmanna lögreglu, Flugmálastjórnar, flugfélaganna Atlanta hf., Flugleiða hf. og fjölmiðla, tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél, sem var til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna, svohljóðandi:  “. . .”  Háttsemi stefnanda (ákærða) var talin varða við 120. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 16/1990 og 2. gr. laga nr. 41/1973.  Þess var krafist að stefnandi yrði dæmdur til refsingar og með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga var þess jafnframt krafist að stefnanda og Alþjóðastofnuninni Friði 2000, sem stefnandi væri forsvarsmaður fyrir, yrði gert að þola upptöku á tiltekinni fartölvu og netþjóni.  Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.  Stefnandi var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins með dómi 4. júlí 2003.  Hæstiréttur staðfesti þann dóm með dómi uppkveðnum 19. febrúar 2004 (mál nr. 324/2003).

II

Krafa stefnanda er reist á því að hann hafi að ósekju sætt frelsissviptingu frá 23. til 26. nóvember 2002 eða í um fjóra sólarhringa og allan tímann í einangrunarvist.  Gæsluvarðhaldið og sú einangrun, sem stefnandi hafi sætt, hafi haft í för með sér fyrir hann andlega þjáningu og miska sem hann eigi rétt á að fá bætt að svo miklu leyti sem það sé unnt með greiðslu miskabóta.  Hafa beri í huga í þessu sambandi að stefnandi sé þekkt persóna í íslensku þjóðlífi.  Um árabil hafi hann unnið að friðarmálum og tvívegis boðið sig fram til embættis forseta Íslands.

Um lagarök er af hálfu stefnanda vísað til XXI. kafla laga nr. 19/1991, sér í lagi 175. gr. og 176. gr,  Einnig til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. gr. og 8. gr. laga nr. 97/1995, svo og til 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Af hálfu stefnda er aðalkrafa hans á því byggð að ekki sé fullnægt skilyrðum fyrir bótaskyldu hans. 

Varakrafa stefnda er reist á því, sbr. 175. gr. laga nr. 19/1991, að eigin sök stefnanda sé veruleg, hann hafi sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á og hafi mátt vera ljóst að það gæti haft alvarlegar afleiðingar að senda tölvupóst með því efni sem um er fjallað í máli þessu.

III

Í þinghaldi við fyrirtöku gæsluvarðhaldkröfu yfir stefnanda var bókað að hann mótmæli kröfunni og reifi sjónarmið sín.  “Hann viðurkennir að hafa sent tölvupóstinn og kveðst hafa verið einn að verki og án samráðs við nokkurn.  Hann kvaðst hafa byggt efni yfirlýsingarinnar á innsæi og upplýsingum víðsvegar að, svo sem frétta­stofum og öðrum aðilum.  Verið geti að upphaf textans hafi verið óheppilegt.”

Í dómi Hæstaréttar 26. nóvember 2002 í máli nr. 523/2002 segir:  “. . . Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti hefur lögreglan nú gert leit í húsakynnum og tölvubúnaði áðurnefndrar stofnunar eða samtaka og jafnframt tekið skýrslur af manni, sem samkvæmt opinberum skrám telst forsvarsmaður stofnunarinnar, einum starfsmanni hennar og fyrrnefndum manni, sem varnaraðili kvað hafa sent sér tölvupóst, svo og af varnaraðila.  Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti segir að rannsókn málsins sé nú langt komin.  Þótt fallast megi á að framangreind orðsending hafi efni sínu samkvæmt gefið tilefni til þess að varnaraðili yrði sviptur frelsi og leit gerð í húsakynnum samtaka, sem orðsending hans var sögð stafa frá, verður að líta til þess að sóknaraðili hefur í engu rökstutt fyrir Hæstarétti hvers vegna efni geti verið til að svipta varnaraðila frelsi lengur en nú er orðið á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.”

Handtaka stefnanda og gæsluvarðhald vegna aðgerða hans sjálfs hlutu stoð af 1. mgr. 97. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 84/1996, og a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Stefnandi sætti ekki gæsluvarðhaldi að ósekju,  gæsluvarðhaldsvistin var ekki lengri en nauðsyn bar til vegna rannsóknarinnar, sem unnið var að án undandráttar, og aðgerðir réttarvörsluaðila voru ekki framkvæmdar á hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.  Miska­bótakrafa stefnanda hlýtur þannig ekki stoð af ákvæðum 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, 5. mgr. 67. gr. stjórnar­skrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1955, eða 5. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.  Tilvísun af hálfu stefnanda í 70. gr. stjórnarskrárinnar á ekki við um efni málsins.

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun  lögmanns hans, Hilmars Ingi­mundar­sonar hæstaréttarlögmanns, 240.000 krónur.  

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Ástþórs Magnússonar Wium.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutningslaun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 240.000 krónur.