Hæstiréttur íslands
Mál nr. 854/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Flýtimeðferð
- Stjórnvald
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2015 |
|
Nr. 854/2014 |
Landvernd (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Landsneti hf. (enginn) |
Kærumál. Flýtimeðferð. Stjórnvald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu LV um að mál sem samtökin hugðust höfða á hendur L hf. sætti flýtimeðferð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2014 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð máls sem hann hyggst höfða gegn varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um flýtimeðferð málsins.
Varnaraðili hefur ekki átt þess kost að láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hyggst sóknaraðili með fyrirhugaðri málsókn krefjast þess aðallega að felld verði úr gildi kerfisáætlun varnaraðila fyrir árin 2014 til 2023, sbr. 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sem samþykkt hafi verið af stjórn varnaraðila 25. september 2014 og birt á vef hans 10. október það ár. Til vara krefst sóknaraðili þess að umrædd kerfisáætlun verði dæmd ólögmæt.
Með 8. gr. raforkulaga er kveðið á um að eitt fyrirtæki skuli annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna. Í því skyni að annast þau verkefni var varnaraðili stofnaður á árinu 2005 með heimild í lögum nr. 75/2004 um stofnun Landsnets hf., en samkvæmt 2. gr. þeirra laga er varnaraðila, á grundvelli framangreinds hlutverks, óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem honum er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum eða öðrum lögum. Þó er varnaraðila heimilt að reka raforkumarkað. Þá skyldi ríkissjóður Íslands vera eigandi alls hlutafjár í varnaraðila við stofnun þess og ráðherra skipa stjórn varnaraðila án tilnefningar, sbr. 3. gr. laganna. Með 5. gr. laga nr. 175/2011 var gerð breyting á 8. gr. raforkulaga er kvað á um að varnaraðili skyldi vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga eða fyrirtækja sem alfarið væru í eigu þessara aðila. Eigendur varnaraðila munu nú vera Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða.
II
Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 er skilyrði fyrir því að einkamál sæti flýtimeðferð að sá, sem óskar eftir því, hyggist höfða mál meðal annars vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds. Auk þess þarf að vera fyrir hendi brýn þörf á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans.
Til stjórnvalda teljast fyrst og fremst stofnanir ríkis og sveitarfélaga. Þó geta einnig fallið þar undir aðrir, svo sem hlutafélög, ef þeim hefur verið fengin opinber stjórnsýsla í hendur með lögum eða á grundvelli lagaheimildar, sbr. dóm Hæstaréttar 17. desember 2014 í máli nr. 800/2014.
Eins og áður er rakið var varnaraðili stofnaður á grundvelli sérstakra laga til að framfylgja lögboðnu hlutverki um flutning raforku. Í samræmi við þetta hlutverk sitt gerði varnaraðili framangreinda kerfisáætlun, sbr. 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. raforkulaga, sbr. og 5. tölulið 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga. Þá sagði í kerfisáætluninni að hún tæki mið af þriðju raforkutilskipun Evrópusambandsins nr. 2009/72. Einnig kemur fram í gögnum málsins að um væri að ræða framkvæmdaáætlun sem unnin væri samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Væri það gert í samræmi við úrskurð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 21. maí 2013 er jafnframt hafi fellt varnaraðila undir hugtakið stjórnvald samkvæmt 1. mgr. 3. gr. síðastgreindra laga.
Í 1. gr. laga nr. 105/2006 kemur fram það markmið þeirra að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Skuli það gert með umhverfismati tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana stjórnvalda sem líklegt sé að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfið. Þá segir í 3. gr. laganna að skipulags- og framkvæmdaáætlanir skuli vera undirbúnar eða samþykktar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra. Var sóknaraðili einn þeirra sem gerðu athugasemdir við matslýsingu kerfisáætlunarinnar í samræmi við ákvæði laganna sem eins og greinir í 12 gr. þeirra voru sett til að leiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001 um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið, sem vísað er til í lið 2i í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Að virtu framansögðu um hvernig til varnaraðila var stofnað samkvæmt lögum nr. 75/2004 og lögbundnu verksviði hans samkvæmt raforkulögum um gerð kerfisáætlunar sem unnin var að undangenginni umhverfisskýrslu samkvæmt lögum nr. 105/2006 telst varnaraðili í því samhengi sem hér um ræðir vera stjórnvald í merkingu 123. gr. laga nr. 91/1991.
III
Í kerfisáætlun varnaraðila sagði að grunnforsendur hennar væru „raforkuspá og rammaáætlun“ en einnig væri mikilægt að horfa til þróunar markaðar og þess hvar raforkan væri notuð á landinu. Hafi þessar forsendur verið notaðar til að stilla upp þremur sviðsmyndum til 10 ára. Hin fyrsta, svokölluð núllsviðsmynd, gerði eingöngu ráð fyrir þróun almenns álags í samræmi við raforkuspá, en hinar tvær fyrir nýtingu virkjanakosta úr orkunýtingarflokki rammaáætlunar og mismunandi umfangi, 50% eða 100% uppsetts afls virkjanakosta. Fyrir hinar síðari tvær sviðsmyndir hafi verið stillt upp mismunandi álagsdreifingartilfellum. Þá var í samantekt kerfisáætlunarinnar vísað til þess að um væri að ræða „spá um nauðsynlega uppbyggingu flutningskerfisins til að tryggja að flutningsfyrirtæki og stjórnvöld hefðu fulla sýn yfir þörf fyrir uppbyggingu kerfisins og að flutningsfyrirtækið gæti annast raforkuflutninginn.“ Loks sagði í samantektinni að tíðkast hafi að í kerfisáætlun væri inntaksgrein sem greindi frá málefnum tengdum flutningskerfinu og uppbyggingu þess. Að þessu sinni væri fjallað um samanburð á loftlínum og jarðstrengjum. Síðast hafi verið fjallað um þetta málefni í kerfisáætlun árið 2008 og þessi mál verið til skoðunar hjá varnaraðila frá því og umræða í samfélaginu farið hátt. Því hafi verið talið nauðsynlegt að fjalla um þessi mál á nýjan leik. Þá var tiltekið í áætluninni að hún yrði endurskoðuð árlega og væri einnig gert ráð fyrir að hið sama gilti um umhverfisskýrslu.
Úrræði XIX. kafla laga nr. 91/1991 felur í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum laganna. Er því fallist á með héraðsdómi að skýra beri ákvæði 1. mgr. 123. gr. þeirra þröngri lögskýringu. Eins og áður greinir eru í III. kafla raforkulaga raktar skyldur varnaraðila við raforkuflutning og kerfisstjórnun. Samkvæmt 5. tölulið 3. mgr. 9. gr. laganna lýtur kerfisáætlun að spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Umrædd kerfisáætlun tekur til 10 ára, þótt gert sé ráð fyrir að hún sæti reglulega endurskoðun. Að virtu því sem að framan er rakið um efni áætlunarinnar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún feli í sér slíka tilgreinda ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem varði hagsmuni hans á þann hátt að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir flýtimeðferð sem rakin hafa verið. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2014.
I
Með bréfi, dagsettu 4. desember 2014, fór Magnús Óskarsson hdl. þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Landvernd, Þórunnartúni 6 í Reykjavík, hyggst höfða á hendur Landsneti hf., Gylfaflöt 9 í Reykjavík, sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með tölvubréfi sem barst dómstjóra 9. desember sama ár var þess krafist að kveðinn yrði upp úrskurður ef synjað yrði um útgáfu stefnunnar, sbr. 3. mgr. 123. gr. fyrrnefndra laga.
II
Landsnet hf. er félag sem stofnað var til með heimild í lögum nr. 75/2004. Er tilgangur félagsins að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga nr. 65/2003. Í 9. gr. raforkulaga er fjallað um skyldur flutningsfyrirtækis, m.a. segir í 5. tölulið 3. mgr. að í rekstri flutningskerfis felist að sjá til þess að fyrir liggi spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Í greinargerð með frumvarpi til raforkulaga segir um þennan tölulið að spá um raforkuþörf sé til þess ætluð að fyrirtækið geti sem best sinnt flutningshlutverki sínu. Spár um uppbyggingu flutningskerfisins séu nauðsynlegar til að tryggja að flutningsfyrirtækið og stjórnvöld hafi fulla yfirsýn yfir þörf fyrir uppbyggingu kerfisins og flutningsfyrirtækið geti annað raforkuflutningum. Í framlögðum gögnum kemur fram að Landsnet hf. útbýr þessa áætlun árlega.
III
Samkvæmt gögnum málsins snýst deila aðila um kerfisáætlun Landsnets hf. fyrir árin 2014 til 2023, en sú áætlun var unnin á grundvelli áðurnefnds 5. tölul. 3. mgr. 9. gr. raforkulaga. Telur stefnandi að áætlunin sé ólögmæt og krefst þess aðallega að hún verði felld úr gildi, en til vara að viðurkennt verði að áætlunin sé ólögmæt. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf er á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni, verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra það þröngri lögskýringu.
Dómkröfur stefnanda í hinu fyrirhugaða máli miða annars vegar að því að kerfisáætlunin verði felld úr gildi og hins vegar að því að viðurkennt verði að hún sé ólögmæt. Kerfisáætlunin er áætlun um framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku. Þrátt fyrir að hún kunni að marka stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda verður ekki séð að í kerfisáætluninni sem slíkri felist ákvörðun eða athöfn stjórnvalds. Þá er Landsnet hlutafélag samkvæmt lögum nr. 2/1995 og er því ekki um stjórnvald að ræða í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga um meðferð einkamála. Af þessu leiðir að ekki eru skilyrði til að mál þetta verði rekið sem flýtimeðferðarmál samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli Landverndar gegn Landsneti hf. og synjað um útgáfu stefnu í málinu.