Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
|
|
Mánudaginn 20. ágúst 2001: |
|
Nr. 281/2001. |
Steinar Smári Guðbergsson(Eyvindur G. Gunnarsson hdl.) gegn Útgerðarfélaginu Skuld ehf. (Othar Örn Petersen hrl.) |
Kærumál. Endurupptaka.
Við þingfestingu máls á hendur S 14. mars 2001 var ekki mætt af hans hálfu. Var málið þá þegar tekið til dóms og stefna árituð af héraðsdómara um aðfararhæfi 15. sama mánaðar. Áður en kom til boðaðs fjárnáms hjá S leitaði þáverandi lögmaður hans eftir endurupptöku málsins með bréfi til héraðsdóms 30. apríl 2001, sem barst réttinum 3. maí sama árs. Fram kom í bréfinu að S hefði 29. mars 2001 orðið kunnugt um úrslit fyrrgreinds máls. Talið var að við þá yfirlýsingu væri S bundinn samkvæmt meginreglu 45. gr. laga nr. 91/1991, þótt S hefði í kæru til Hæstaréttar borið því við að hafa fyrst fengið vitneskju um úrslit málsins 2. maí 2001. Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. sömu laga gat S leitað eftir endurupptöku málsins innan þriggja mánaða frá því að stefna í því var árituð um aðfararhæfi, en beiðni þurfti þó að berast dómara innan mánaðar frá því S varð kunnugt um málsúrslit. Með því að sá frestur var liðinn er bréf S barst dóminum var endurupptökukröfu hans hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. júlí 2001. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku máls varnaraðila á hendur honum, en um úrskurðinn kveðst sóknaraðili fyrst hafa fengið vitneskju 11. júlí sl. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín um endurupptöku verði tekin til greina og varnaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Samkvæmt gögnum málsins höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila með stefnu 20. febrúar 2001, sem var birt fyrir þeim síðarnefnda 21. sama mánaðar. Í málinu, sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 14. mars 2001, krafðist varnaraðili greiðslu á 2.069.531 krónu með dráttarvöxtum frá 4. nóvember 2000 til greiðsludags og málskostnaði. Sóknaraðili mætti ekki við þingfestingu málsins og var það þegar tekið til dóms. Mun stefna í málinu hafa verið árituð af héraðsdómara 15. mars 2001 um aðfararhæfi dómkrafna varnaraðila. Varnaraðili krafðist í framhaldi af þessu fjárnáms hjá sóknaraðila með beiðni til sýslumannsins í Keflavík 20. mars 2001. Var boðun til gerðarinnar birt 2. maí 2001 og fór hún síðan fram að sóknaraðila fjarstöddum 15. sama mánaðar. Áður en til þessa kom leitaði þó lögmaður, sem þá gætti hagsmuna sóknaraðila, eftir endurupptöku málsins með bréfi til Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2001, sem barst dóminum 3. maí sama árs. Í bréfinu var þess getið að sóknaraðila hafi 29. mars 2001 orðið kunnugt um úrslit máls varnaraðila á hendur honum.
Í kæru til Hæstaréttar ber sóknaraðili því við að hann hafi fyrst fengið vitneskju um úrslit máls varnaraðila gegn sér með birtingu boðunar til fjárnámsgerðar 2. maí 2001. Í beiðni um endurupptöku málsins, sem reyndar var dagsett þremur dögum fyrr, var sem áður segir ótvírætt tekið fram að sóknaraðila hafi orðið kunn málsúrslit 29. mars 2001. Við þá yfirlýsingu er sóknaraðili bundinn samkvæmt meginreglu 45. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. sömu laga gat sóknaraðili leitað eftir endurupptöku málsins innan þriggja mánaða frá því að stefna í því var árituð um aðfararhæfi dómkrafna varnaraðila, en beiðni þurfti þó að berast dómara innan mánaðar frá því að sóknaraðila varð kunnugt um málsúrslit. Eins og áður greinir barst beiðni sóknaraðila ekki dóminum fyrr en 3. maí 2001. Samkvæmt framansögðu var frestur þá liðinn til að koma fram þeirri beiðni. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Steinar Smári Guðbergsson, greiði varnaraðila, Útgerðarfélaginu Skuld ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2001
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar í dag er byggt á endurupptökubeiðni Steinars Smára Guðbergssonar, kt. 030867-4839, til heimilis að Þórustöðum í Vogum. Leitar hann eftir endurupptöku máls sem þingfest var þann 14. mars sl. Stefnandi máls þess var Útgerðarfélagið Skuld ehf., kt. 421199-2059, en stefndi var Steinar Smári Guðbergsson sá sem áður er getið. Þar sem útivist varð af hálfu stefnda var málið dómtekið og þann 15. mars 2001 var stefnan árituð af héraðsdómara. Í þinghaldi fyrr í dag reifuðu málsaðilar málið og kom þar fram að af hálfu varnaraðila var því mótmælt að endurupptaka málsins næði fram að ganga.
Af þessum sökum er ljóst að skilyrðum 137. gr. laga nr. 91/1991 er ekki fullnægt og verður dómari því óhjákvæmilega að synja um endurupptöku vegna þess að í kröfu sóknaraðila kemur fram að honum voru kunnug málsúrslit þegar þann 29. mars sl.
Eins og máli þessu er háttað þykir dómara nægilegt að varnaraðili fái 10.000 krónur í málskostnað.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu sóknaraðila, Steinars Smára Guðbergssonar um endurupptöku er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Útgerðarfélaginu Skuld ehf., 10.000 krónur í málskostnað.
Sveinn Sigurkarlsson