Hæstiréttur íslands

Mál nr. 767/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


                                     

Fimmtudaginn 3. janúar 2013.

Nr. 767/2012.

Lögreglustjórinn á Eskifirði

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána 260 daga eftirstöðvar fangelsisrefsinga, sem honum hafði verið veitt reynslulausn á, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 20. desember 2012 þar sem varnaraðila var gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem honum var gerð samkvæmt þremur nánar tilgreindum dómum. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 20. desember 2012.

Með beiðni, dags. 19. desember 2012, hefur lögreglustjórinn á Eskifirði krafist þess að X, kt. [...], [...],[...], en með dvalarstað að [...],[...], hér eftir nefndur kærði, verði með úrskurði dómara gert að afplána 260 daga eftirstöðvar sex mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. október 2008, tveggja mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Vesturlands, uppkveðnum 18. júní 2009 og 18 mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Austurlands, uppkveðnum 16. júní 2010, sem hann fékk reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins, frá 29. ágúst 2011.

Skipaður verjandi kærða krefst þess að kröfunni verði hafnað. Til vara er þess krafist að í stað úrskurðar um afplánun eftirstöðva fangelsisrefsingar verði beitt öðrum vægari úrræðum, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins hafi kærða verið veitt skilorðsbundin reynslulausn frá 29. ágúst 2011, í tvö ár, á 260 daga eftirstöðvum sex mánaða fangelsisrefsingar [sic], skv. ofannefndum dómum.

Reynslulausnin hafi verið veitt með því almenna skilyrði að kærði gerðist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum og því sérskilyrði að kærði yrði háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar ríkisins eða annars aðila sem hún ákveddi.

Lögreglan á Höfn hafi nú á nokkrum dögum upplýst fjögur þjófnaðarmál gegn kærða sem öll séu framin á skilorðsbundnum reynslulausnartíma.

Mál 007-2012-56468, varði þjófnað á nýlegri Lenovo fartölvu úr herbergi í [...] að [...],[...] 3. eða 4. október sl. Kærði hafi dvalið á farfuglaheimilinu á þessum tíma og strax verið grunaður um verknaðinn. Lögreglan hafi fundið umrædda fartölvu á dvalarstað kærða á [...], ásamt þýfi úr neðangreindum málum. Kærði hafi neitað að tjá sig við lögreglu um hvort hann hafi stolið tölvunni.

Mál 031-2012-3650 varði þjófnað kærða á tveimur bjöllum, hvor að andvirði um 3.000 krónur, úr [...] í [...], en þeim hafi kærði stolið er hann var á leið um [...] þann 3. desember sl., á leið sinni til [...]. Kærði hafi játað háttsemina, en bjöllunum segist hann hafa stungið á sig er hann kom við í [...] á venjulegum afgreiðslutíma.

Mál 028-2012-3599, varði þjófnað kærða á tölvu, tölvuskjá og fylgihlutum úr [...]skóla þann 5. desember sl., en kærði hafi þá brotið upp glugga á skólanum að nóttu til og stolið umræddum munum, sem nýir kosti 117.500 krónur, nú í haust.

Mál 028-2012-3714, varði þjófnað kærða úr sameign á heimili móður sinnar og dvalarstað sínum, að [...]. Þar sé kærði grunaður um að hafa stolið 10 pökkum af núðlum, Expresso kaffivél, blandarakönnu, hrærivélaskál ásamt fylgihlutum og tveimur jólahúsum með ljósaperum í, frá eigendum efri hæðar fasteignarinnar. Hafi lögreglu verið tilkynnt um þetta þann 15. desember sl., en daginn eftir hafi kærði skilað hinu stolna til réttra eigenda ásamt bréfi þar sem hann biðjist afsökunar á að hafa stolið þessu.

Í framhaldi af  innbrotinu í [...]skóla hafi kærði verið handtekinn á [...]og hafi hann nú játað þjófnaðina í [...] og úr [...]skóla, en neitað að tjá sig um þjófnaðinn í [...]. Þýfið úr þessum þremur málum hafi allt fundist á heimili kærða. Samtals sé verðmæti þess sem kærði sé grunaður um að hafa stolið áætlað 253.400 krónur, skv. samantekt lögreglunnar, auk þýfis í máli 028-2012-3714, en ekki sé vitað um verðmæti þess.

Kærði segi í framburðarskýrslu sinni sem hann hafi gefið eftir þjófnaðinn í [...]skóla að hann hafi verið undir áhrifum lyfja og áfengis og ekki vitað hvort hann væri að koma eða fara, svo mikil hafi víman verið og það sama komi fram í afsökunarbréfi hans í máli 3714.

Lögreglan á [...] hafi miklar áhyggjur að því að kærði haldi uppteknum hætti nú þegar hann sé kominn austur á [...] og telji mjög slæmt að hafa hann ráfandi undir áhrifum áfengis eða lyfja um götur bæjarins að nóttu til, eins og verið hafi frá því að hann kom austur hinn 3. desember sl. Lögreglan hafi ekki mannafla til að halda uppi eftirliti að nóttu til, svo dögum skipti, eins og þyrfti að gera við þessar aðstæður.

Ákæruvaldið telji að kærði hafi með framangreindri háttsemi brotið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar og fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi  framið þá háttsemi sem að ofan er lýst og sem talin sé varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn þessu ákvæði geti samkvæmt refsiramma ákvæðisins varðað fangelsi allt að 6 árum og uppfylli því skilyrði síbrotagæslu [sic].

Um lagarök sé af hálfu ákæruvaldsins byggt á 2. mgr. 65 gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga. Eins og áður segi telji lögreglan að sterkur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi framið öll þau brot sem að ofan er lýst og með því hafi hann rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar. Þá sé einnig uppfyllt það skilyrði ofangreindrar lagagreinar að um sé að ræða afbrot sem varðað geti 6 ára fangelsi.

Niðurstaða:

Í málinu hefur verið lagt fram bréf Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 12. desember sl., þar sem fram kemur að kærða hafi þann 29. ágúst 2011 verið veitt reynslulausn skilorðsbundið í tvö ár af 260 daga eftirstöðvum sex mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt dómi héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. október 2008, tveggja mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Vesturlands, uppkveðnum 18. júní 2009 og 18 mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Austurlands, uppkveðnum 16. júní 2010, sem hann fékk reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins, frá 29. ágúst 2011. 

Kærði hefur fyrir lögreglu játað innbrotsþjófnað í [...]skóla 5. desember sl., sbr. mál lögreglu nr. 028-2012-3599, sem og þjófnað úr [...] 3. desember sl., sbr. mál nr. 031-2012-3650. Staðfesti hann þetta fyrir dómi og jafnframt að hafa í heimildarleysi fjarlægt muni úr geymslu að [...], sbr. mál nr. 028-2012-3714. Kærði kaus að tjá sig ekki um sakargiftir við skýrslutöku hjá lögreglu vegna máls nr. 007-2012-56468, varðandi þjófnað á fartölvu á [...] í [...] 3. eða 4. október sl. Kvaðst hann fyrir dómi kannast við að hafa dvalið á umræddu [...] en ekki reka minni til þess hvernig tölvan, sem fannst við húsleit á heimili hans, hafi komist í hans hendur.

Með hliðsjón af framanrituðu verður fallist á það með lögreglustjóra að sterkur grunur liggi fyrir um að kærði hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga og að öðrum skilyrðum þess lagaákvæðis sé fullnægt til þess að unnt sé að taka kröfu lögreglustjórans til greina. Ekki eru lagaskilyrði til þess að fallast á varakröfu þá sem verjandi kærða hefur uppi, enda er enga lagastoð að finna í lögum nr. 49/2005 fyrir því að beita þeim úrræðum sem kveðið er á um í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála í stað úrskurðar um afplánun eftirstöðva refsingar skv. 2. mgr. 65. gr. fyrrgreindu laganna. Ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans eins og í úrskurðarorði greinir.

Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal afplána 260 daga eftirstöðvar sex mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. október 2008, tveggja mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Vesturlands, uppkveðnum 18. júní 2009 og 18 mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi héraðsdóms Austurlands, uppkveðnum 16. júní 2010, sem hann fékk reynslulausn af með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins, frá 29. ágúst 2011.