Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Meðalganga
- Aukameðalganga
|
|
Þriðjudaginn 13. janúar 2004. |
|
Nr. 1/2004. |
A og B (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn C og (Ólafur Ragnarsson hrl.) D (enginn) |
Kærumál. Meðalganga. Aukameðalganga.
A og B kröfðust þess að þeim yrði heimiluð aukameðalganga í forsjármáli C og D. Með vísan til þess að barn C og D hefði verið í umsjá A og B frá fæðingu þess og að þau hefðu í samræmi við viljayfirlýsingu D leitað til dómsmálaráðuneytis eftir leyfi til að ættleiða barnið þóttu þau hafa sjálfstæða hagsmuni að lögum af því að úrslit forsjármálsins yrði á þann veg sem D krefðist. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi og þeim heimiluð aukameðalganga í forsjármálinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2003, þar sem sóknaraðilum var synjað um aukameðalgöngu í forsjármáli, sem varnaraðilinn C hefur höfðað gegn varnaraðilanum D. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 403/1992 í dómasafni réttarins 1992, bls. 1804. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þeim heimiluð aukameðalganga. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn C krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði eins og málið væri eigi gjafsóknarmál þar sem honum hafi verið veitt gjafsókn í héraði í málinu með bréfi dómsmálaráðuneytis 19. desember 2003.
Varnaraðilinn D hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði lýtur ágreiningur máls þessa að heimild sóknaraðila til aukameðalgöngu í forsjármáli varnaraðila til að styðja kröfur varnaraðilans D. Halda sóknaraðilar því fram að þau hafi brýna og sjálfstæða hagsmuni af því að varnaraðilinn D fái forsjá barns hennar og varnaraðilans C og geti staðið við viljayfirlýsingu sína frá 4. apríl 2003 þar sem hún fól þeim umsjá barnsins frá fæðingu þess með það að markmiði að þau myndu ættleiða það og ala upp sem sitt eigið. Í nefndri yfirlýsingu var enn fremur tekið fram að það væri ætlun varnaraðilans D að staðfesta samþykki til ættleiðingar barnsins fyrir starfsmanni sýslumanns eða dómsmálaráðuneytis þremur mánuðum eftir fæðingu barnsins í samræmi við 8. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar.
Í málinu liggur fyrir að barn varnaraðila hefur verið í umsjá sóknaraðila frá fæðingu þess 4. apríl 2003. Þá hafa sóknaraðilar í samræmi við fyrrnefnda viljayfirlýsingu leitað til dómsmálaráðuneytis eftir leyfi til að ættleiða barnið en þeirri umsókn hefur verið frestað þar til dómur gengur í forsjármálinu. Í ljósi þessa þykja sóknaraðilar hafa sjálfstæða hagsmuni að lögum af því að úrslit forsjármálsins verði á þann veg sem varnaraðilinn D krefst. Að framangreindu virtu verður úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsmálaráðuneytið hefur veitt varnaraðilanum C gjafsókn fyrir héraðsdómi. Fer um gjafsóknarkostnað hans í héraði samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Sóknaraðilum, A og B, er heimiluð aukameðalganga í forsjármáli varnaraðila, C og D.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðilans C í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Elínborgar J. Björnsdóttur héraðsdómslögmanns, 75.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2003.
Í málinu er deilt um heimild til meðalgöngu í forsjármáli réttarins nr. [...]: C gegn D, sem höfðað var 18. nóvember 2003.
Meðalgöngusök var höfðuð 9. desember 2003 og ágreiningur um heimild til þeirrar málshöfðunar tekinn til úrskurðar í gær. Meðalgöngustefnendur eru hjónin A og B [...]. Meðalgöngustefndu eru C og D.
Meðalgöngustefnendur krefjast þess að þeim verði heimiluð aukameðalganga í forsjármálinu nr. [...] og að stefnda í því máli, D, verði sýknuð af þeirri kröfu stefnanda, C, að honum verði með dómi falin forsjá dóttur hans og stefndu, fæddrar [...] 2003. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hans hendi.
Meðalgöngustefndi, C, krefst þess að synjað verði um kröfu meðalgöngustefnenda um aukameðalgöngu í nefndu forsjármáli og að þeim verði gert að greiða honum málskostnað.
Meðalgöngustefnda, D, samþykkir fyrir sitt leyti að meðalgöngustefnendum verði heimiluð aukameðalganga í forsjármálinu.
I.
Meðalgöngustefndi og meðalgöngustefnda áttu í ástarsambandi sumarið 2002, sem upp úr slitnaði um haustið. Meðalgöngustefnda var þá barnshafandi og ól hún meybarn [...] 2003. Meðalgöngustefnda var kunnugt um getnað og fæðingu barnsins og hafði þær upplýsingar frá meðalgöngustefndu að hann væri líklegur faðir þess. Eftir fæðinguna vildi hún ekki kenna barnið við meðalgöngustefnda og fól meðalgöngustefnendum umsjá barnsins strax eftir fæðingu þess. Liggur fyrir í málinu skrifleg yfirlýsing hennar 4. apríl 2003 þar sem fram kemur að sú ráðstöfun sé gerð með það markmið í huga að meðalgöngustefnendur ættleiði barnið og ali það upp sem sitt eigið til fullorðinsaldurs. Hefur barnið frá þeim tíma verið í umsjá meðalgöngustefnenda, en meðalgöngustefnandi B og meðalgöngustefnda eru bræðrabörn. Telpan, sem um ræðir, er nú rúmlega 8 mánaða gömul.
Með bréfi 9. maí 2003 tilkynnti lögmaður meðalgöngustefnda meðalgöngustefnendum að þingfest yrði dómsmál 14. maí til viðurkenningar á faðerni hans að telpunni og að í framhaldi yrði krafist forsjár telpunnar, ef í ljós kæmi að hann væri faðir hennar. Dómsmálaráðuneytinu var kunngert um þessa stöðu mála 13. sama mánaðar, en svo virðist sem meðalgöngustefnendur hafi þá verið búnir að hefja máls á því að ættleiða telpuna. Ráðuneytinu barst formleg beiðni frá meðalgöngustefnendum um ættleiðinguna 9. júlí og var málið sett í biðstöðu á meðan óleyst væri úr faðernismálinu. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness [...] nóvember 2003 í máli nr. [...] var staðfest að meðalgöngustefndi væri faðir telpunnar. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu höfðaði meðalgöngustefndi sama dag umrætt forsjármál og krefst þess í málinu að honum verði með dómi falin forsjá telpunnar. Meðalgöngustefnda tók til varna í því máli og krefst sýknu af nefndri dómkröfu.
II.
Meðalgöngustefnendur byggja kröfu sína um heimild til aukameðalgöngu í forsjármálinu á 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en telja verði ljóst að þau hafi brýna hagsmuni af því að úrlausn forsjármálsins verði á þann veg að meðalgöngustefnda fari áfram ein með forsjá telpunnar og geti þannig staðið við þá viljayfirlýsingu sína frá 4. apríl 2003 um að afhenda telpuna meðalgöngustefnendum til ættleiðingar, en fyrir þeirri ráðstöfun liggi samþykki hennar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar. Kröfu sinni til stuðnings vísa meðalgöngustefnendur enn fremur til þeirrar grunnreglu barnaréttarins að við ákvarðanir tengdar barni skuli bestu hagsmunir þess ávallt hafðir að leiðarljósi. Telpan, sem um ræðir, hafi alist upp hjá þeim frá fæðingu og hafi engin tengsl við kynforeldra sinna. Verði fallist á forsjárkröfu meðalgöngustefnda geti slík ákvörðun því haft alvarlegar og varanlegar afleiðingar í för með sér, enda búi telpan við gott atlæti, í öruggu umhverfi og hjá þeim einu foreldrum, sem hún þekki.
III.
Meðalgöngustefndi telur að synja beri um heimild til aukameðalgöngu í forsjármálinu milli hans og meðalgöngustefndu, enda sé slík meðalganga óheimil samkvæmt samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem meðalgöngustefnendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn forsjármálsins og geti ekki átt aðild að því máli samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003, einkum V. kafla laganna.
IV.
Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Skal hann þá stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að honum verði leyfð meðalgangan og annað hvort dæmt sakarefnið (aðalmeðalganga) eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður (aukameðalganga).
Af ákvæðinu er ljóst að það meginskilyrði er sett fyrir höfðun meðalgöngusakar að úrslit viðkomandi dómsmáls skipti þriðja mann máli „að lögum.“ Í máli því sem hér er til meðferðar er sú staða uppi að meðalgöngustefndi, C, hefur höfðað forsjármál á hendur barnsmóður sinni, meðalgöngustefndu D og krefst þess í því máli að skipan forsjár með dóttur þeirra, fæddri [...] 2003, verði breytt á þann veg að forsjá telpunnar verði færð frá móður til föður. Meðalgöngustefnda heldur uppi vörnum í forsjármálinu og krefst sýknu af nefndri dómkröfu. Verði sú krafa tekin til greina felur niðurstaða í forsjármálinu í sér að meðalgöngustefnda fer áfram ein með forsjá telpunnar, eins og verið hefur frá fæðingu hennar. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt hún hafi með samkomulagi við meðalgöngustefnendur falið þeim umsjá eða einhvers konar fóstur barnsins. Meðferð forsjármálsins lýtur efnisreglum barnalaga nr. 76/2003. Í 34. og 35. gr. laganna er mælt fyrir um það hvernig með skuli fara þegar foreldra greinir á um forsjá barns, en þá sker dómari úr málinu með dómi, náist ekki sátt um forsjána. Í lögunum er hvorki að finna beina né óbeina heimild fósturforeldra til að hafa afskipti af meðferð forsjármáls fyrir dómi. Hins vegar er tekið fram í 4. mgr. 29. gr. laganna að tilvitnuð ákvæði og önnur, sem þar eru talin, geti eftir atvikum átt við „um aðra en foreldra sem fara með forsjá barns samkvæmt lögum þessum ...“ Samkvæmt framansögðu eiga þau ákvæði ekki við um meðalgöngustefnendur. Þau eiga því ekki rétt til að ganga inn í forsjármálið og eiga ekki aðild að því á grundvelli barnalaga.
Af gögnum málsins er ekki ljóst á hvaða lagagrunni öðrum meðalgöngustefnendur gætu reist réttindi sín til afskipta af meðferð forsjármálsins, en þau réttindi eru hvorki varin af ákvæðum um fósturforeldra í barnaverndarlögum nr. 80/2002 né ákvæðum laga nr. 130/1999 um ættleiðingar. Breytir engu í því sambandi áðurnefnd viljayfirlýsing meðalgöngustefndu 4. apríl 2003. Við úrlausn þess ágreiningsefnis, sem hér er til meðferðar, skipta heldur ekki máli sjónarmið meðalgöngustefnenda um að þau séu betur til þess fallin en meðalgöngustefndu að ala önn fyrir telpunni, en niðurstaða í forsjármálinu mun ráðast af því hvort kynforeldranna telst hæfara til að fara með forsjána, með tilliti til þess hvað telpunni er fyrir bestu. Er enda grundvallarréttur hvers barns að fá að alast upp hjá kynforeldri sínu, öðru eða báðum, nema í þeim tilvikum þegar leitt er í ljós að þeir séu óhæfir í forsjárhlutverkinu.
Samkvæmt framansögðu ber að taka kröfu meðalgöngustefnda, C, til greina og synja um aukameðalgöngu í forsjármáli því sem hann hefur höfðað á hendur meðalgöngustefndu, D. Þrátt fyrir þau málsúrslit þykir eftir atvikum rétt að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri þessa máls.
Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.
ÚRSKURÐARORÐ:
Meðalgöngustefnendum, A og B, er synjað um meðalgöngu í forsjármálinu nr. [...]: C gegn D.
Málskostnaður fellur niður.