Hæstiréttur íslands

Mál nr. 629/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Málsástæða


                                     

Föstudaginn 10. október 2014.

Nr. 629/2014.

 

Borverk ehf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

 

Kærumál. Aðfarargerð. Málsástæða.

Að beiðni L hf. var tilgreindur borvagn tekinn með beinni aðfarargerð úr vörslum Bs ehf. að Hringhellu 8 í Hafnarfirði í júní 2014. B ehf. krafðist ógildingar innsetningargerðarinnar þar sem beiðninni hefði verið beint að röngum aðila, Bs ehf., í stað B ehf., sem hafði verið með umráð borvagnsins og átt haldsrétt í honum vegna viðgerðarkostnaðar. Í hinum kærða úrskurði var aðfarargerð sýslumanns staðfest. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómi að B ehf. hefði ekki fært sönnur á að félagið hefði haft umráð borvagnsins á þeim tíma er umrædd innsetningargerð fór fram. Fyrir lá að húsaleigusamningur B ehf. um hluta fasteignarinnar að Hringhellu 8 hafði runnið sitt skeið á enda áður en innsetningargerðin fór fram auk þess sem lögheimili félagsins væri skráð að Kistumel 18 í Reykjavík. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar tefldi B ehf. fyrst fram þeirri málsástæðu að eftir lok leigusamningsins hefði hann framlengst ótímabundið í samræmi við 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga, kom þessi síðbúna málsástæða B ehf. ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti. Að þessu virtu var hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. september 2014 þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumannsins í Hafnarfirði 13. júní 2014 vegna nánar tilgreinds borvagns. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og aðfarargerðin ógilt. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var borvagn sá sem mál þetta snýst um tekinn úr vörslum Borunar og sprenginga ehf. að Hringhellu 8, Hafnarfirði, 13. júní 2014, en lögheimili og starfstöð þess félags er þar. Í úrskurðinum kemur enn fremur fram að húsaleigusamningur sóknaraðila og félagsins Dverghamra ehf. um hluta fasteignarinnar að Hringhellu 8 hafi runnið sitt skeið á enda 14. september 2013, áður en innsetningargerð sú sem krafist er ógildingar á, fór fram. Var því hafnað að sóknaraðili hefði fært sönnur á að hann hefði haft umráð borvagnsins á þeim tíma, en fyrir liggur að lögheimili sóknaraðila er að Kistumel 18, Reykjavík. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar tefldi sóknaraðili fyrst fram þeirri málsástæðu að eftir lok leigusamningsins hafi ,,hinn tímabundni leigusamningur ... framlengst í samræmi við 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994“ og lagði hann fram ,,staðfestingu“ nafngreinds lögmanns þar að lútandi. Þessi síðbúna málsástæða sóknaraðila, sem er ekki í samræmi við málatilbúnað hans í héraði, kemur ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

 Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Borverk ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. september 2014.

I.

Beiðni sóknaraðila barst Héraðsdómi Reykjaness 20. júní 2014. Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 29. ágúst 2014.

Sóknaraðili er Borverk ehf., kt. [...], Hringhellu 8, Hafnarfirði.

Varnaraðili er Lýsing hf., kt. [...], Ármúla 3, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að innsetningargerð nr. A-23-2014, er fór fram hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði 13. júní 2014, verði ógilt með dómi.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og innsetningargerð nr. A-23-2014, sem fram fór hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði 13. júní 2014, verði staðfest með dómi.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

II.

Málsatvik eru þau að með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 27. maí sl., var fallist á beiðni varnaraðila um afhendingu á borvagni af gerðinni Furukawa HCR 1200 ED, árgerð 2005, með skráningarnúmerinu GS 0059, úr vörslum gerðarþola, Borunar og sprenginga ehf. Við meðferð málsins bar gerðarþoli því við að hann hefði borvagninn ekki í sínum vörslum þar sem hann hefði farið með borinn í viðgerð og ekki haft efni á að greiða fyrir viðgerðina. Borvagninn væri því enn í vörslum Borverks ehf., sem annast hefði viðgerðina. Í áðurgreindum úrskurði héraðsdóms kemur fram að í málinu væri aðeins til úrlausnar hvort skilyrði væru til að veita gerðarbeiðanda heimild til að leita atbeina sýslumanns til að taka muninn, sem beiðnin sneri að, úr vörslum gerðarþola. Að veittri slíkri heimild yrði á það að reyna við framkvæmd innsetningargerðar hvort slíkar hindranir, sem gerðarþoli héldi fram að fyrir hendi væru, þ.e. haldsréttur, gæti staðið því í vegi að gerðarbeiðandi fengi muninn í sínar hendur.

Hinn 13. júní sl. tók sýslumaðurinn í Hafnarfirði fyrir að Hringhellu 8 í Hafnarfirði beiðni varnaraðila þessa máls um að áðurgreindur borvagn yrði tekinn úr vörslum gerðarþola, Borunar og sprenginga ehf. Fyrirsvarsmaður gerðarþola bar þá fyrir sig að sóknaraðili þessa máls, Borverk ehf., hefði haldsrétt í tækinu vegna viðgerðarkostnaðar. Fram kemur í framlögðu endurriti úr gerðabók sýslumanns að fyrirsvarsmanninum hafi þá verið bent á að verið væri að sækja tækið á skráð lögheimili gerðarþola, Borunar og sprenginga ehf., að Hringhellu 8. Fyrirsvarsmaðurinn kvað sóknaraðila þá vera með leigusamning um fasteignina að Hringhellu 8 og hefði þar aðsetur. Í endurriti úr gerðabók kemur fram að könnun fulltrúa sýslumanns á skráningu sóknaraðila í hlutafélagaskrá hafi leitt í ljós að sóknaraðili væri með skráð lögheimili og aðsetur að Kistumel 18 í Reykjavík og að skráð starfsemi félagsins væri sérhæfð byggingastarfsemi. Í endurritinu kemur og fram að tækið hafi verið fjarlægt af gerðarbeiðanda, þ.e. varnaraðila þessa máls, á þeim grundvelli að félagið, sem héldi því fram að það ætti haldsrétt í tækinu, væri hvorki með skráð aðsetur né lögheimili að Hringhellu 8 þar sem tækið væri staðsett, en það væri gerðarþoli hins vegar. Í beiðni sóknaraðila segir að við gerðina hafi gerðarþola ekki verið gefið færi á að leggja fram leigusamning, sem sýnt hefði fram á að starfstöð sóknaraðila væri að Hringhellu 8.

Fram kemur í gögnum málsins að fyrirsvarsmaður sóknaraðila, Borverks ehf. og áðurgreinds gerðarþola, Borunar og sprenginga ehf., er sá sami eða Sigurður Lyngberg Sigurðsson, en hann er stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi beggja félaganna.

III.

Sóknaraðili kveðst byggja aðild sína á 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, en hann hafi gífurlegra hagsmuna að gæta af gerðinni. Fram komi í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 27. maí sl., sem og í aðfararbeiðni varnaraðila að gerðarþoli, Borun og sprengingar ehf., hafi tilkynnt um haldsrétt sóknaraðila, auk þess sem fyrir hafi legið í málinu reikningur fyrir viðgerðarkostnaði og myndir af því sem gert hefði verið við borvagninn. Fulltrúa sýslumanns hafi því mátt vera ljóst að framkvæmd gerðarinnar væri ólögmæt. Jafnframt hafi gerðinni verið beint að röngum aðila, sbr. 73. gr. aðfararlaga, þar sem gerðarþoli hafi ekki haft umráð borvagnsins og ekki haft um langt skeið, en samkvæmt lagagreininni skuli beina kröfu að þeim sem hafi umráð þess sem krafa lúti að. Hafi fulltrúi sýslumanns átt að gæta þess áður en gerðin fór fram að henni væri beint að réttum aðila. Fulltrúi sýslumanns hafi virt að vettugi útskýringar og boð gerðarþola um gagnaframlagningu, sem sýnt hafi fram á að borvagninn væri á athafnasvæði sóknaraðila þessa máls þegar hann var fjarlægður, þrátt fyrir að sóknaraðili ætti haldsrétt í tækinu. Gerðin hafi því farið fram með ólögmætum hætti og beri að fella hana úr gildi.

Sóknaraðili kveður fulltrúa sýslumanns hafa sýnt af sér verulegt gáleysi í skilningi 97. gr. aðfararlaga við framkvæmd gerðarinnar, bæði með því að boða gerðarþola ekki til gerðarinnar með fyrirvara vegna kröfu varnaraðila þar um á grundvelli 2. tl. 3. mgr. 21. gr. laga um aðför, svo og með því að virða að vettugi skýringar gerðarþola og sóknaraðila um að Hringhella 8 væri jafnframt starfstöð sóknaraðila og haldsréttarhafa. Í sömu andrá og borvagninn var fjarlægður hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila verið á leið sinni að Hringhellu 8 með leigusamning sóknaraðila við eiganda fasteignarinnar, en fulltrúi sýslumanns hafi neitað að bíða til að sannreyna og skoða leigusamninginn. Þá sé það mat sóknaraðila að ekki hafi verið farið að meginreglum stjórnsýsluréttarins um að gæta jafnræðis á milli málsaðila og sinna rannsóknarskyldu, en einföld skoðun á leigusamningnum hefði leitt til þess að gerðin hefði ekki náð fram að ganga þar sem borvagninn hafi verið staddur á athafnasvæði sóknaraðila, viðgerðaraðilans, sem lýst hafi yfir haldsrétti í tækinu.

Verði ekki falllist á kröfu sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðarinnar kveðst sóknaraðili munu krefjast skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna tjónsins, þ.á m. fyrir að hafa orðið af greiðslu fyrir viðgerð á borvagninum úr hendi eiganda hans, gerðarbeiðanda, en viðgerðarkostnaður hafi numið rúmum tíu milljónum króna.

Hvað lagarök varðar kveðst sóknaraðili, auk þess sem að framan greinir, vísa til meginreglna kröfuréttar um haldsrétt, laga um aðför nr. 90/1989, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna kröfuréttar. Sóknaraðili kveður málskostnaðarkröfuna byggja á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

Varnaraðili kveðst byggja varnir sínar í málinu á því að sóknaraðili hafi ekki haft umráð yfir borvagninum þegar innsetningargerðin fór fram og geti því ekki borið fyrir sig haldsrétt. Framagreint leiði til þess að staðfesta beri innsetningargerðina.

Fyrir liggi að lögmaður varnaraðila hafi ásamt fulltrúa sýslumannsins í Hafnarfirði hinn 13. júní síðastliðinn farið að Hringhellu 8 í Hafnarfirði, sem sé skráð lögheimili og starfsstöð gerðarþola, Borunar og sprenginga ehf., og tekið borvagninn með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola í samræmi við úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 27. maí 2014, en borvagninn hafi verið að finna á lóðinni við Hringhellu 8 í Hafnarfirði. Varnaraðili kveður sóknaraðili þessa máls hins vegar vera með skráð lögheimili og aðsetur að Kistumel 18 í Reykjavík.

Varnaraðili kveður sóknaraðila þessa máls ekki vera með neina lögformlega tengingu við Hringhellu 8 í Hafnarfirði, þar sem borvagninn hafi verið að finna, enda sýni engin opinber skráning fram á slíkt. Sóknaraðili vísi máli sínu til stuðnings til húsaleigusamnings um atvinnuhúsnæði, sem sé ekki lengur í gildi og hafi runnið út 14. september 2013. Í ljósi framangreinds geti sóknaraðili því ekki talist hafa haft umráð yfir borvagninum. Á hinn bóginn sé félagið Borun og sprengingar ehf. með lögheimili, aðsetur og starfsstöð að Hringhellu 8 í Hafnarfirði og verði því að telja að það félag hafi farið með umráð borvagnsins er innsetningargerðin var framkvæmd.

Þar sem varnaraðili telji sig hafa sýnt fram á að sóknaraðili hafi ekki haft umráð yfir borvagninum þegar innsetningargerðin fór fram, heldur Borun og sprengingar ehf., telji varnaraðili einsýnt að sóknaraðili geti ekki borið fyrir sig haldsrétt og því beri að staðfesta innsetningargerðina þar sem hún hafi verið lögmæt og beinst að umráðamanni borvagnsins.

Varnaraðili kveðst byggja á því að skilyrði haldsréttar hafi ekki verið uppfyllt þegar innsetningargerðin fór fram 13. júní sl. Skilyrði þess að unnt sé að bera fyrir sig haldrétt sé að viðkomandi hafi muninn í vörslum sínum. Þar sem sóknaraðili hafi ekki verið með borvagninn í vörslum sínum þegar innsetningargerðin fór fram geti hann ekki borið fyrir sig haldsrétt.

Auk framangreinds kveðst varnaraðili benda á að skráð starfsemi sóknaraðila sé byggingarstarfsemi. Ósannað sé að sóknaraðili hafi nokkurn tímann annast viðhald sérhæfðra vinnuvéla. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafi ekki notið haldsréttar í borvagninum, í fyrsta lagi þar sem borvagninn hafi ekki verið í umráðum sóknaraðila þegar innsetningargerðin fór fram, í öðru lagi þar sem skráð starfsemi sóknaraðila sé ekki fólgin í því að sinna viðgerðum á tækjum og í þriðja lagi þar sem sóknaraðili sé ekki með skráða starfsstöð, aðsetur eða lögheimili þar sem borvagninn hafi verið að finna. Verði því að telja að sóknaraðili geti ekki borið fyrir sig haldsrétt í borvagninum og beri því að staðfesta aðfarargerðina.

Komist dómurinn að því að sóknaraðila hafi verið heimilt að bera fyrir sig haldsrétt við innsetningargerðina kveðst varnaraðili telja að það eigi ekki að leiða til þess að ógilda beri aðfarargerðina heldur að staðfesta hana. Þar sem varnaraðili sé réttmætur eigandi borvagnsins og hafi með innsetningargerðinni eingöngu verið að framfylgja úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sé ekkert tilefni til þess að ógilda eða breyta innsetningargerðinni þrátt fyrir haldsréttinn. Þar sem um sé að ræða fjárkröfu vegna ætlaðrar viðgerðar ætti réttur sóknaraðila að vera tryggður á grundvelli reglna skaðabótaréttar, sbr. 16. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.

Varnaraðili kveðst mótmæla sem röngum fullyrðingum sóknaraðila um að Hringhella 8 í Hafnarfirði sé athafnarsvæði og starfsstöð sóknaraðila og að gerðarþoli, þ.e. Borun og sprengingar ehf., hafi ekki haft umráð borvagnsins.

V.

Í máli þessu byggir sóknaraðili ógildingarkröfu sína á því að aðfararbeiðni varnaraðila hafi verið beint að röngum aðila, Borun og sprengingum ehf., í stað sóknaraðila, sem farið hafi með umráð áðurgreinds borvagns og átt haldsrétt í honum vegna viðgerðarkostnaðar.

Eins og fram kemur í gögnum málsins var innsetningarbeiðni varnaraðila, nr. A-23/2014, tekin fyrir hjá sýslumanninum í Hafnarfirði föstudaginn 13. júní síðastliðinn og beindist beiðnin að fyrirtækinu Borun og sprengingum ehf. Við gerðina var farið að lögheimili og starfstöð þess félags að Hringhellu 8 í Hafnarfirði, en borvagninn var að finna á lóð þeirrar fasteignar og var tækið fjarlægt þaðan af varnaraðila.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að fyrirtækið sé með aðsetur að Hringhellu 8 í Hafnarfirði. Því til stuðnings hefur sóknaraðili lagt fram húsaleigusamning sóknaraðila um fasteignina, dagsettan 14. september 2012. Samkvæmt ákvæðum áðurgreinds húsaleigusamnings var hann tímabundinn til eins árs, þ.e. frá 15. september 2012 til 14. september 2013, og hafði því runnið sitt skeið á enda þegar þegar innsetningargerðin fór fram. Þá hefur sóknaraðili lagt fram greiðsluseðil frá HS veitum hf. til sóknaraðila vegna kaupa á orku, en á greiðsluseðlinum er heimilisfang sóknaraðila tilgreint að Hringhellu 8. Einnig hefur sóknaraðili lagt fram útprentun af vefsíðunni ja.is þar sem heimilisfang sóknaraðila er tilgreint að Hringhellu 8.

Samkvæmt útprentun úr hlutafélagaskrá er sóknaraðili með skráð lögheimili og aðsetur að Kistumel 18 í Reykjavík, en dagsetning samþykkta félagsins er 20. október 2005. Með vísan til þess þykir ósannað að raunverulegt aðsetur félagsins sé að Hringhellu 8 og breytir í þeim efnum engu þótt heimilisfang félagsins kunni að vera tilgreint á þeim stað hjá því orkufyrirtæki, sem sóknaraðili skiptir við eða í símaskrá. Verður því ekki fallist á að sóknaraðili hafi haft umráð yfir borvagninum þegar innsetningargerðin fór fram. Skilyrði haldsréttar eru því þegar af þeirri ástæðu ekki fyrir hendi, en auk framangreinds hefur í málinu engin grein verið gerð fyrir þeirri fjárkröfu sem sóknaraðili kveðst eiga á hendur eiganda eða umráðamanni borvagnsins vegna viðgerðarkostnaðar og hafa engin gögn verið lögð fram í málinu henni til sönnunar.

Samkvæmt framlagðri útprentun úr hlutafélagaskrá er félagið Borun og sprengingar ehf. með skráð lögheimili að Hringhellu 8 í Hafnarfirði þaðan sem títtnefndur borvagn var fjarlægður af varnaraðila. Var borvagninn því í umráðum þess félags og var því rétt að beina aðfarargerðinni að félaginu sem gerðarþola, sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför skal í úrskurði héraðsdóms kveðið á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar, samkvæmt því sem við á hverju sinni. Með vísan til þess og samkvæmt öllu framangreindu ber að staðfesta aðfarargerð nr. A-23/2014, er fór fram hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 13. júní 2014, þar sem borvagn af gerðinni Furukawa HCR 1200 ED, árgerð 2005, skráningarnúmer GS 0059, var tekinn úr vörslum gerðarþola, Borunar og sprenginga ehf., að kröfu varnaraðila.

Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga um aðför á varnaraðili rétt til málskostnaðar úr hendi gerðarþola, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er aðfarargerð nr. A-23/2014, er fór fram hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 13. júní 2014 þar sem borvagn af gerðinni Furukawa HCR 1200 ED, árgerð 2005, skráningarnúmer GS 0059, var tekinn úr vörslum gerðarþola, Borunar og sprenginga ehf., að kröfu varnaraðila, Lýsingar hf.

Sóknaraðili, Borverk ehf., greiði varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.