Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Slit
- Kröfulýsing
- Gagnaöflun
- Leiðbeiningarskylda dómara
- Tilkynning
|
|
Föstudaginn 1. febrúar 2013. |
|
Nr. 33/2013.
|
Ingólfshof ehf. (Örn Karlsson fyrirsvarsmaður) gegn Kaupþingi hf. (Hjördís E. Harðardóttir hrl.) |
Kærumál. Slit. Kröfulýsing. Gagnaöflun. Leiðbeiningarskylda dómara. Tilkynning.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að mótmæli I ehf. við afstöðu slitastjórnar K hf. til kröfu I ehf. kæmust að við slitameðferð K hf. Laut ágreiningur aðila einkum að því hvort I ehf. hafði verið nægjanlega tilkynnt um afstöðuna en hún hafði komið fram í ábyrgðarbréfi sem sent var á heimili fyrirsvarsmanns I ehf. Hafði bréfið verið borið út, enginn hist þar fyrir en skilin eftir tilkynning um ábyrgðarbréfið og hvar þess mætti vitja. Ekki var fallist á með I ehf. að ómerkja bæri hinn kærða úrskurð þótt K hf. hefði lagt fram skjöl við aðalmeðferð málsins, enda hafði gagnaöflun þá ekki verið lýst lokið. Þá var ekki fallist á að héraðsómari hefði vanrækt leiðbeiningarskyldu sína gagnvart fyrirsvarsmanni I ehf. Loks var því hafnað að slitastjórn K hf. hefði vanrækt að tilkynna I ehf. um afstöðu sína til kröfu I ehf. Varð I ehf. sjálft að bera áhættuna af því að hafa ekki vitjað bréfsins sem félaginu var sannanlega sent. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mótmæli hans við afstöðu varnaraðila til kröfu hans kæmust að við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að „taka málið upp aftur.“ Til vara er þess krafist að mótmæli sóknaraðila við afstöðu varnaraðila til kröfu hans komist að við slit varnaraðila. Þá er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili hefur einnig kært úrskurðinn fyrir sitt leyti með kæru 23. janúar 2013. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem hann krefst sér til handa á báðum dómstigum.
I
Kæra sóknaraðila barst héraðsdómi 3. janúar 2013, sem var síðasti dagur kærufrests, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæran barst Hæstarétti 16. sama mánaðar og því rann út frestur til að skila greinargerð til Hæstaréttar 23. þess mánaðar, sbr. 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991. Gagnkæra varnaraðila, sem barst þann dag, var því komin fram tímanlega, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 3. mgr. 153. gr. sömu laga. Átti héraðsdómur því ekki að beina því til varnaraðila að taka kæruna aftur, sbr. 1. mgr. 146. gr. laganna.
II
Aðalkrafa sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi verður skilin þannig að hann krefjist ómerkingar úrskurðarins þar sem annmarkar hafi verið á málsmeðferðinni í héraði. Til stuðnings þessu bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi lagt fram skjöl við aðalmeðferð málsins til að leiða í ljós að sóknaraðila hafi verið send tilkynning samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 þess efnis að kröfu hans við slit varnaraðila væri hafnað. Telur sóknaraðili að þetta fari í bága við 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því ákvæði skal dómari að jafnaði ekki ákveða hvenær þing verður háð til aðalmeðferðar máls fyrr en aðilar hafa lýst lokið öflun sýnilegra sönnunargagna. Þetta ákvæði er ekki fortakslaust og hafði gagnaöflun ekki verið lýst lokið fyrir aðalmeðferð málsins. Veldur þetta ekki því að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Í annan stað reisir sóknaraðili ómerkingarkröfu sína á því að hann hafi eftir að málið var tekið til úrskurðar komið á framfæri við héraðsdóm upplýsingum sem hefðu getað haft áhrif við sönnunarmat dómsins. Af þessu tilefni telur sóknaraðili að héraðsdómara hafi að réttu lagi borið á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991 að endurupptaka málið þar sem brestur hafi verið á skýrleika í yfirlýsingum aðila eða upplýsingum um málsatvik og telja hafi mátt brestinn stafa af því að dómari hefði ekki gætt nægjanlega að leiðbeiningum við aðila eða ábendingum til þeirra. Í því sambandi tekur sóknaraðili fram að ólöglærður fyrirsvarsmaður hafi sótt þing af hans hálfu og því hafi dómara borið að leiðbeina honum. Samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 ber dómara að leiðbeina aðila, sem er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur, um formhlið máls eftir því sem dómara virðist nauðsyn bera til. Í því fólst ekki að dómara bæri að leiðbeina fyrirsvarsmanni sóknaraðila um hvernig hann hagaði sönnunarfærslu og leitaðist við að færa sönnur fyrir umdeildum atvikum. Við aðalmeðferðina færði dómari til bókar að leiðbeiningarskyldu hefði verið gætt gagnvart fyrirsvarsmanni sóknaraðila og þar sem ekki hefur verið leitt í ljós að leiðbeiningar um formhlið máls hafi verið ófullnægjandi verður úrskurður héraðsdóms ekki ómerktur af þessum sökum.
III
Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði lýsti sóknaraðili 25. júní 2009 kröfu við slit varnaraðila. Í kröfulýsingunni kom fram að starfsstöð sóknaraðila væri að Krummahólum 2 í Reykjavík, en það mun hafa verið lögheimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila. Varnaraðili mun hafa sent sóknaraðila símskeyti á það heimilisfang 22. janúar 2010 þar sem fram kom að frestað hafi verið að taka afstöðu til kröfunnar. Varnaraðili hafnaði síðan kröfunni og sendi sóknaraðila tilkynningu þess efnis með bréfi 26. ágúst 2010, en þar kom fram að sú afstaða til kröfunnar teldist endanlega samþykkt ef henni yrði ekki andmælt í síðasta lagi á fundi til að fjalla um lýstar kröfur sem haldinn yrði 21. september sama ár, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Bréfið var sent varnaraðila með ábyrgðarpósti og liggur frammi í málinu yfirlit Íslandspósts um feril þeirrar sendingar. Samkvæmt því var árangurslaust reynt að afhenda bréfið á fyrrgreindu heimilisfangi en fyrirsvarsmaðurinn mun þá hafa verið fluttur. Bréfið var því framsent til afhendingar á nýju póstfangi að Klettagljúfri 4 í Ölfusi, en þangað hafði fyrirsvarsmaðurinn flutt lögheimili sitt. Samkvæmt fyrrgreindu yfirliti Íslandspósts var bréfið borið út 1. september 2010 en enginn hittist fyrir á heimili fyrirsvarsmannsins og mun þá hafa verið skilin eftir tilkynning um ábyrgðarbréfið og að þess mætti vitja á næsta pósthúsi. Einnig kemur fram að sú tilkynning hafi verið ítrekuð 8. sama mánaðar. Bréfsins var ekki vitjað og var það endursent varnaraðila 1. október 2010.
Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilda ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Í þeim kafla laganna segir í 2. mgr. 119. gr. að tilkynna skuli hlutaðeigandi kröfuhafa um afstöðu til kröfu með minnst viku fyrirvara ef ekki er fallist á kröfuna að öllu leyti. Skal sú tilkynning send með sannanlegum hætti og tekið skýrlega fram hvaða réttaráhrif það hefur ef afstöðunni er ekki mótmælt tímanlega, sbr. 3. mgr. 120. gr. laganna. Þessum áskilnaði um að senda tilkynningu með sannanlegum hætti var fullnægt með ábyrgðarsendingu enda liggja fyrir í málinu upplýsingar frá Íslandspósti um feril þeirrar sendingar. Verður sóknaraðili sjálfur að bera áhættuna af því að hafa ekki vitjað bréfsins sem honum var sannanlega sent. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að mótmæli sóknaraðila við afstöðu til kröfu hans komist ekki að við slit varnaraðila.
Sóknaraðili verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir en málskostnaður í héraði fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ingólfshof ehf., greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 6. desember sl., var þingfest 31. janúar 2012.
Sóknaraðili er Ingólfshof ehf., kt. 440697-2329, Klettagljúfri 4, Þorlákshöfn.
Varnaraðili er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að mótmæli hans við afstöðu varnaraðila til kröfu hans, með tilvísunarnúmerið 20100106-1424, komist að við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.
Málsatvik
Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar hjá varnaraðila, vék félagsstjórn frá störfum og skipaði varnaraðila skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. bráðabirgðaákvæðis II við þau lög. Varnaraðili gaf út innköllun til kröfuhafa sem birtist í fyrra sinni í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 30. desember 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfu fyrir slitastjórn varnaraðila á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem er byggð á meintri bótaábyrgð varnaraðila vegna nauðungarsölu á þinglýstri eign sóknaraðila. Nemur lýst fjárhæð samtals 21.435.680 krónum. Ekki var tekin afstaða til kröfu sóknaraðila fyrir kröfuhafafund sem haldinn var 29. janúar 2010 og með símskeyti til sóknaraðila frá 22. janúar 2010 var sóknaraðila tilkynnt um að frestað hafi verið að taka afstöðu til kröfu hans og yrði ekki um hana fjallað á þeim kröfuhafafundi. Jafnframt kom fram í skeyti þessu að skrá yfir lýstar kröfur yrði aðgengileg þeim sem lýst hefðu kröfu á hendur bankanum 22. janúar 2010 og tilkynnt um notandanafn og lykilorð. Þá var í símskeytinu minnt á rétt kröfuhafa til að koma að mótmælum, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
Varnaraðili tók afstöðu til kröfu sóknaraðila og sendi sóknaraðila ábyrgðarbréf, dags. 26. ágúst 2010, þar sem varnaraðili hafnaði kröfu sóknaraðila. Einnig kemur fram í bréfi þessu að afstaða varnaraðila teljist endanleg, ef andmæli við afstöðunni berist ekki fyrir kröfuhafafund 21. september 2010, eða í síðasta lagi á fundinum. Fyrir liggur í málinu ljósrit af umslagi bréfs varnaraðila og ferill ábyrgðarbréfs þessa hjá Póstinum. Þá liggur fyrir að ekki tókst að afhenda ábyrgðarbréfið á því heimilisfangi sem sóknaraðili hafði tilgreint, þar sem fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafði þá flutt til Þorlákshafnar. Var þá bréfið áframsent og borið út 1. september 2010, en ekki tókst að afhenda það á þáverandi lögheimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila í Þorlákshöfn. Var því skilin eftir tilkynning um ábyrgðarbréf á heimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila, sem þá var að Klettagljúfri 4, Þorlákshöfn, sem sækja mætti á næsta pósthús. Fyrir liggur að fyrirsvarsmaður sóknaraðila vitjaði ekki bréfsins sem tilkynningin laut að og var bréfið endursent varnaraðila.
Fyrirsvarsmaður sóknaraðila kveðst ekki hafa fengið bréf þetta og sendi varnaraðila bréf 15. febrúar 2011, þar sem hann mótmælti afstöðu varnaraðila þar sem honum hefði ekki borist fyrrgreint bréf. Varnaraðili sendi sóknaraðila bréf 17. mars 2011 og ítrekaði afstöðu sína og vísaði til þess að afstöðubréf hefði verið borið út á lögheimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila.
Með bréfi 8. ágúst 2011 til varnaraðila ítrekaði sóknaraðili mótmæli sín við afstöðu slitastjórnar varnaraðila. Varnaraðili svaraði bréfi þessu með bréfi 7. október 2011, þar sem ítrekað var að afstaða slitastjórnar væri endanleg í ljósi skýrra fyrirmæla 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili undi ekki þeirri afstöðu og var haldinn fundur til jöfnunar ágreinings um kröfuna 24. nóvember 2011, en ekki reyndist unnt að jafna ágreining aðila og vísaði því varnaraðili til dómsins þeim ágreiningi hvort afstaða varnaraðila til kröfunnar teldist endanleg eða hvort mótmæli sóknaraðila við afstöðunni kæmust að.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður að samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sé skýrt að afstöðu skiptastjóra skuli senda með sannanlegum hætti. Sóknaraðili mótmælir því að sending bréfs í ábyrgðarpósti sé fullnægjandi. Tilkynning sett inn um bréfalúgu á lögheimili fyrirsvarsmanns um að ábyrgðarbréf liggi á pósthúsi sé ekki nægjanleg birting. Engin gögn finnist um þessa tilkynningu. Þá hafi varnaraðili valið að senda afstöðubréf sitt með ábyrgðarbréfi. Engin staðfesting liggi fyrir um innihald slíks bréfs. Hægt sé að senda tómt bréf í ábyrgðarpósti, en vandaðra hefði verið að birta innihald bréfsins á sama hátt og við stefnubirtingu. Ekki sé unnt að gera minni kröfur við birtingu afstöðubréfs en við birtingu stefnu samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 83. gr. þeirra laga sé birting stefnu ekki lögmæt nema hún sé birt fyrir stefnda eða einhverjum sem bær er til að taka við stefnunni. Þá bendir sóknaraðili á að slitastjórn varnaraðila hafi sent símskeyti 22. janúar 2010, þar sem tilkynnt var að slitastjórnin hefði frestað að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi staðið í þeirri trú að hann fengi örugga tilkynningu um hvenær afstaða væri tekin til kröfu hans. Sú háttsemi slitastjórnar varnaraðila að nota ónákvæmari aðferð við boðun á síðari fund, sé því á þeirra ábyrgð og óskuldbindandi fyrir sóknaraðila. Því telur sóknaraðili að tilkynning frá varnaraðila um að kröfunni væri hafnað hafi ekki verið birt honum á lögmætan hátt og því beri að taka mótmæli sóknaraðila til greina.
Við aðalmeðferð málsins féll sóknaraðili frá málsástæðum er varða réttmæti kröfu hans.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili hefur fallið frá kröfu sinni um frávísun málsins.
Varnaraðili bendir á að hann hafi tilkynnt sóknaraðila um afstöðu sína til kröfu hans í fullu samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann hafi sent sóknaraðila bréf 26. ágúst 2010, þar sem m.a. hafi verið tekið skýrlega fram hverjar afleiðingar það hefði ef afstöðu slitastjórnar yrði ekki mótmælt á kröfuhafafundi 21. september 2010. Hafi bréfið verið sent með ábyrgðarpósti á heimilisfang sem gefið hafði verið upp í kröfulýsingu. Þar hafi enginn verið til að veita bréfinu viðtöku.
Varnaraðili vekur athygli á að í athugasemdum frumvarps sem síðar varð að gjaldþrotalögum nr. 21/1991 segi um 119.-120. gr. að reglur ákvæðanna séu í nær öllum atriðum sama efnis og ákvæði 108.-110. gr. gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Það hafi því ekki verið ætlun löggjafans að breyta umræddum lagaákvæðum efnislega með setningu laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 6/1978, hafi skiptastjóra, í þeim tilvikum er hann hafi ekki viðurkennt kröfu að fullu, borið að tilkynna viðkomandi kröfuhafa um afstöðu sína með ábyrgðarbréfi, eða á annan jafntryggilegan hátt. Með vísan til þess sé því ljóst að sóknaraðila hafi verið tilkynnt um afstöðu varnaraðila með sannanlegum hætti líkt og áskilið sé í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Þá sé ekki unnt að fallast á þá staðhæfingu sóknaraðila að tilkynning inn um bréfalúgu á lögheimili sóknaraðila, um að ábyrgðarbréf bíði hans á næsta pósthúsi, teljist ekki sannanleg tilkynning í skilningi 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi upphaflega sent umrætt ábyrgðarbréf á það heimilisfang sem sóknaraðili hafi greint frá í kröfulýsingu sinni, þ.e. á Krummahóla 2, Reykjavík. Í ljós hafi hins vegar komið að lögheimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila hafði þá verið flutt að Klettagljúfri 4, Ölfusi, en sóknaraðili hafi hins vegar ekki upplýst varnaraðila um að hann væri fluttur. Hafi þá verið gerð tilraun til þess að afhenda sóknaraðila ábyrgðarbréfið með afstöðutilkynningunni á hinu nýja lögheimili fyrirsvarsmanns hans, en án árangurs, þar sem enginn hafi verið þar til að veita því viðtöku. Hafi þá ekki verið annað unnt en að skilja eftir tilkynningu á heimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila, um að ábyrgðarbréf biði í næsta pósthúsi. Slík framkvæmd sé í fullu samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi verið kveðið á um það í þágildandi 108. gr. laga nr. 6/1978 að afstöðutilkynningar skyldi senda með ábyrgðarpósti. Þegar viðtakendur slíkra tilkynninga séu ekki staddir á lögheimili sínu til að veita ábyrgðarbréfum viðtöku verði að telja fullnægjandi að skilja eftir tilkynningu líkt og gert hafi verið umrætt sinn. Útilokað sé að láta varnaraðila bera hallann af því aðgerðarleysi sóknaraðila að vitja ekki ábyrgðarbréfsins á pósthúsi. Á því verði sóknaraðili að bera ábyrgð sjálfur.
Þá hafnar varnaraðili því að honum hafi borið að tilkynna sóknaraðila um afstöðu sína til kröfunnar með símskeyti. Í framangreindum ákvæðum laga nr. 21/1991 sé ekki áskilið að tilkynningar séu sendar með símskeyti heldur að þær séu sendar með sannanlegum hætti og sending í formi ábyrgðarbréfs uppfylli þau skilyrði. Það að varnaraðili hafði áður sent sóknaraðila tilkynningu með símskeyti breyti hér engu um.
Þá bendir varnaraðili á að tilkynningarskylda 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki í eðli sínu eins og birting stefnu í einkamáli sbr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verði þeim ekki jafnað saman. Varnaraðili bendir á að honum hafi borið að taka sjálfstæða afstöðu til kröfu sóknaraðila og tilkynna honum um afstöðuna með sannanlegum hætti innan ákveðinna tímamarka, sem og hafi verið gert. Varnaraðila hafi ekki verið skylt að birta tilkynninguna í skilningi 83. gr. laga nr. 91/1991 líkt og sóknaraðili fullyrði í greinargerð sinni, enda hefði það þurft að koma skýrt og ótvírætt fram í lögum nr. 21/1991 ef ætlun löggjafans hefði verið sú að leggja þess háttar skyldu á skiptastjóra þrotabúa. Á varnaraðila hvíli engar lagalegar skyldur til að sannreyna hvort afstöðutilkynningum sé í raun veitt móttaka og enn síður hvíli sú skylda á varnaraðila að tilkynna kröfuhöfum um afstöðu sína til krafna með atbeina sérstakra stefnuvotta. Sú tilkynningarskylda sem lög nr. 21/1991 mæli skýrlega fyrir um geti ekki náð lengra en að senda tilkynningu um afstöðu með ábyrgðarbréfi með viku fyrirvara, sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. apríl 1987 í máli nr. 117/1987.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili að slitastjórn hafi farið í einu og öllu að þeim skyldum sem kveðið er á um í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, þegar sóknaraðila hafi verið tilkynnt um afstöðu varnaraðila.
Varnaraðili hafnar því að taka beri mótmæli sóknaraðila frá 15. febrúar 2011 til greina. Hann ítrekar að hann hafi tilkynnt sóknaraðila um afstöðu sína til kröfu hans í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðila hafi þannig verið sent ábyrgðarbréf 26. ágúst 2010 með tilkynningu um afstöðu varnaraðila til kröfu hans, auk þess sem þar hafi verið tekið fram með skýrum hætti hverjar afleiðingar það hefði ef afstöðunni yrði ekki mótmælt í síðasta lagi á kröfuhafafundi 21. september 2010. Kröfuhafafundur, þar sem m.a. var fjallað um afstöðu til kröfu sóknaraðila, hafi verið haldinn 21. september 2010 og hafi sóknaraðili því haft nægjanlegt svigrúm og tíma til þess að bregðast við og andmæla afstöðu varnaraðila í samræmi við ákvæði 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Hér verði að hafa í huga að á tímabilinu frá því að afstaða varnaraðila til kröfunnar hafi verið tilkynnt sóknaraðila og þar til fyrrnefndum kröfuhafafundi lauk, hafi afastaðan ekki verið endanleg, í skilningi 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Á þeim tíma hafi sóknaraðili því getað mótmælt afstöðu varnaraðila, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, þar sem hann hafði fengið aðgang að vefsvæði varnaraðila og hafi því getað með auðveldum hætti kynnt sér kröfuskrá varnaraðila. Í þeirri tilkynningu hafi komið fram hvenær næsti kröfuhafafundur yrði haldinn og hafi sóknaraðili því mátt eiga von á tilkynningu fyrir þann fund. Þar sem enginn hafi verið staddur á lögheimili sóknaraðila til að veita bréfum viðtöku hafi sóknaraðili getað kynnt sér afstöðu til kröfunnar á vefsvæði varnaraðila. Afleiðingar af tómlæti sóknaraðila í þessu sambandi séu þær sem kveðið er á um í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. að afstaða til kröfunnar sé endanleg. Niðurstaðan sé því ekki einungis bindandi fyrir sóknaraðila heldur einnig varnaraðila. Í ákvæði 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 felist hlutlæg og ófrávíkjanleg lagaregla og verði sóknaraðili að bera hallann af eigin aðgerðarleysi.
Ef fallist yrði á kröfu sóknaraðila, þótt hann hefði virt að vettugi fyrirmæli 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, væri brotið gegn meginreglu laganna um jafnræði kröfuhafa. Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að ekki beri að taka til greina mótmæli sóknaraðila, sem lögð hafi verið fram löngu eftir kröfuhafafund 21. september 2010, við slitameðferð varnaraðila.
Niðurstaða
Í máli þessu er einungis til úrlausnar ágreiningur aðila um hvort mótmæli sóknaraðila við afstöðu varnaraðila til kröfu hans komist að við slitameðferð varnaraðila.
Óumdeilt er að varnaraðili sendi fyrirsvarsmanni sóknaraðila símskeyti stílað á fyrirsvarsmann sóknaraðila, 22. janúar 2010, til heimilis að Krummahólum 2, Reykjavík, með tilkynningu um frestun á afstöðu til kröfu sóknaraðila. Í símskeytinu, sem óumdeilt er að fyrirsvarsmaður sóknaraðila fékk, kemur fram að kröfuskrá varnaraðila muni verða á lokuðu svæði fyrir kröfuhafa og gefið upp notendanafn og lykilorð sóknaraðila.
Varnaraðili sendi fyrirsvarsmanni sóknaraðila ábyrgðarbréf, dagsett 26. ágúst 2010, á sama heimilisfang. Í ábyrgðarbréfi þessu er tilkynnt sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfunni og einnig er þar vakin athygli á rétti kröfuhafa til að koma að mótmælum sínum og hverju það varði, komi engin mótmæli fram í síðasta lagi á boðuðum fundi, 21. september 2010. Í gögnum málsins liggur fyrir að á því heimilisfangi fannst viðtakandi ekki. Var bréfið því áframsent þar sem í ljós hafði komið að fyrirsvarsmaður sóknaraðila var fluttur að Klettagljúfri 4, Þorlákshöfn. Samkvæmt framlögðu búsetuvottorði Þjóðskrár var lögheimili fyrirsvarsmanns sóknaraðila á þeim tíma þar. Var bréfið borið út þangað, en enginn hittist fyrir til að veita bréfinu viðtöku og var því skilin þar eftir tilkynning um að ábyrgðarbréf biði á næsta pósthúsi. Sú tilkynning var, samkvæmt yfirliti frá Póstinum, ítrekuð 8. september 2010, en bréfsins var aldrei vitjað á pósthús. Er því ljóst að bréfið var sent innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið svo á um að tilkynningar um afstöðu til krafna skuli senda með sannanlegum hætti, þar sem skýrlega sé rakið hverjar afleiðingar það hafi ef afstöðu skiptastjóra verði ekki mótmælt á skiptafundi, sbr. 3. mgr. 120. gr. laganna. Í athugasemdum frumvarps sem síðar varð að lögum nr. 21/1991 segir um 119.-120. gr. að reglur þessara ákvæða séu í nær öllum atriðum sama efnis og ákvæði 108.-110. gr. gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Í 3. mgr. 108. gr. laga nr. 6/1978 var kveðið svo á um að ef skiptastjóri viðurkenndi ekki kröfu að fullu bæri honum að tilkynna viðkomandi kröfuhafa um þá afstöðu með ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggilegan hátt. Tilkynning um afstöðu samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 með ábyrgðarbréfi til kröfuhafa telst samkvæmt framangreindu hafa verið send með tryggilegum og sannanlegum hætti, en varnaraðila verður ekki um það kennt að sóknaraðili vitjaði ekki ábyrgðarbréfsins, þar sem tilkynnt var um afstöðu til kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili kaus að senda tilkynningu um afstöðu með eins tryggilegum hætti og unnt var og í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þ.e. með ábyrgðarbréfi, sem borið er út til kröfuhafa. Á honum hvíldi engin skylda til að senda sóknaraðila tilkynningu með símskeyti jafnvel þótt hann hafi áður sent sóknaraðila tilkynningu um frestun afstöðu til kröfu hans með símskeyti. Enn síður verður því fundin stoð í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að á honum hafi hvílt sú skylda að láta birta afstöðutilkynningu með svipuðum hætti og stefnu í einkamáli. Réttaráhrif birtingar stefnu og birtingar afstöðutilkynningar slitastjórnar eða skiptastjóra eru gerólík og verður ekki jafnað saman.
Þá verður og að líta til þess að sóknaraðila var kunnugt um að hann gæti leitað eftir afstöðu til kröfunnar á vefsvæði varnaraðila, en honum hafði verið sent notandanafn og lykilorð til aðgangs að vefsvæðinu.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat dómsins að tilkynning slitastjórnar varnaraðila um afstöðu til kröfu sóknaraðila hafi verið send með sannanlegum hætti í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Mótmæli sóknaraðila við afstöðu varnaraðila til kröfu hans bárust ekki varnaraðila fyrr en eftir kröfuafafund 21. september 2010, en um afleiðingar þess að mótmæli berist ekki í síðasta lagi á þeim fundi er fjallað í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Þar segir að komi ekki fram mótmæli við afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu í síðasta lagi á fundi sem haldinn er til að fjalla um skrá um lýstar kröfur, teljist afstaða skiptastjóra endanlega samþykkt.
Samkvæmt framangreindu fá mótmæli sóknaraðila við afstöðu varnaraðila til kröfu hans ekki komist að við slitameðferð varnaraðila og er afstaða slitastjórnar um að hafna kröfunni því endanleg.
Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu verður hvor aðili dæmdur til að bera sinn kostnað af málinu.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið fyrirsvarsmaður hans, Örn Karlsson.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Feldís Lilja Óskarsdóttir héraðsdómslögmaður.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, Ingólfshofs ehf., um að mótmæli hans við afstöðu varnaraðila til kröfu hans komist að við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings hf., er hafnað.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.