Hæstiréttur íslands

Mál nr. 238/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útivist
  • Niðurfelling máls


                                                         

Þriðjudaginn 24. ágúst 1999.

Nr. 238/1999.

Anna Kristrún Jónsdóttir

(Haraldur Blöndal hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

Kærumál. Útivist. Niðurfelling máls.

Talið var að ákvæði b. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði ekki skilið svo að það tæki ekki til þinghalds sem boðað hafði verið til í því skyni að kveða upp úrskurð um atriði varðandi rekstur máls. Var staðfestur úrskurður héraðsdómara um að fella mál A gegn Í niður vegna útivistar A frá slíku þinghaldi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 1999, þar sem mál sóknaraðila gegn varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að boða aðila að nýju til þinghalds og kveða þar upp úrskurð um kröfu varnaraðila um frávísun málsins. Til vara krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að boða aðila að nýju til þinghalds, en til þrautavara að málskostnaður verði felldur niður í héraði. Hún krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst kærumálskostnaðar, en gerir ekki aðrar kröfur fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var málið tekið þar fyrir 18. maí 1999 að viðstöddum lögmönnum aðila og því frestað til 25. sama mánaðar til uppkvaðningar úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila. Síðastnefnt þinghald var ekki sótt af hálfu sóknaraðila, en til þess var þó boðað með lögmætum hætti, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga nr. 91/1991. Ákvæði b. liðar 1. mgr. 105. gr. sömu laga verður ekki skilið svo að það taki ekki til þinghalds, sem boðað hefur verið til í því skyni að kveða upp úrskurð um atriði varðandi rekstur máls. Var héraðsdómara því rétt að fella málið niður.

Áður en málið var fellt niður í héraði hafði varnaraðili tekið til varna og látið flytja það munnlega um frávísunarkröfu. Að því virtu eru ekki efni til að verða við þrautavarakröfu sóknaraðila. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur, en rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 1999.

 Hinn 18. maí sl. var málinu frestað til þessa dags klukkan 14.30. Útivist hefur orðið af hálfu stefnanda þar sem enginn hefur sótt þing af hálfu hans nú þegar klukkan er 14.45.

Fella ber málið niður. Af hálfu stefnda er krafist málskostnaðar. Fallist er á þá kröfu og er málskostnaður ákveðinn 60.000 krónur.

Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

 Málið er fellt niður.

 Stefnandi, Anna K. Jónsdóttir, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 60.000 krónur í málskostnað.