Hæstiréttur íslands

Mál nr. 110/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 20. febrúar 2012.

Nr. 110/2012.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Reynir Logi Ólafsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 15. mars 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með ákæru útgefinni 10. febrúar 2012 var varnaraðili ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa í tvígang skotið úr haglabyssu í átt að bifreið, án þess þó að hæfa ökumann eða farþega hennar, meðal annars með þeim afleiðingum að afturrúða bifreiðarinnar brotnaði og miklar skemmdir urðu á henni. Þá er varnaraðila einnig gefið að sök vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum úðavopn. Er háttsemi varnaraðila talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga, og 4. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998.

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili er undir sterkum grun um aðild að tilraun til manndráps og er ætlað brot þess eðlis að telja verður varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2012.

Ríkissaksóknari hefur gert þá kröfu, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærða, X, kennitala [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 15. mars nk., kl. 16:00.

Í greinargerð ríkissaksónara kemur fram að mál þetta hafi borist embættinu þann 7. febrúar sl. og með ákæruskjali, dagsettu 10. febrúar sl., hafi sakamál verið höfðað á hendur ákærða, X, fyrir tilraun til manndráps þann 18. nóvember 2011 vegna skotárásar sem átt hafi sér stað við [...] og á mótum [...] og [...] í [...]. Tveir aðrir menn séu einnig ákærðir í málinu. Um málavaxtalýsingu vísist nánar til meðfylgjandi ákæruskjals en brot ákærða séu heimfærð undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 4. mgr. 220. gr. sömu laga.

Einnig kemur fram að ákærði hafi sætt í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 29. nóvember 2011, fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, frá 22. desember sl. Ákærði sé nú á reynslulausn vegna fyrri dóms fyrir ofbeldisbrot, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 453/2007, en reynslulausnin hafi verið veitt honum þann 21. desember 2010. Verði hann sakfelldur sé ljóst að hann hafi rofið skilorð reynslulausnarinnar.

Um lagarök vísar ríkissaksóknari til þess að ákærði sé undir sterkum grun um að hafa framið það brot sem hann hafi nú verið ákærður fyrir. Brotið geti varðað allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans sé til meðferðar hjá dómstólum.

Með vísan til framangreinds sé þess beiðst að framangreind krafa nái fram að ganga.

Ákærði er undir rökstuddum grun um tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem getur varðað allt að 16 ára fangelsi.  Hefur ákæra verið gefin út á hendur honum vegna þess brots.  Brotið er þess eðlis að telja verður varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.  Hefur ákærði setið í gæsluvarðhaldi á þeim grundvelli frá 22. desember sl. Er ekkert það fram komið í málinu sem breytir því mati. 

Með vísan til framanritaðs er á það fallist með ríkissaksóknara, að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt, og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kennitala [...], [...], [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 15. mars nk., kl. 16:00.