Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-222

Fossar markaðir hf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson lögmaður)
gegn
Norðurvör ehf. og Selsvöllum ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Hlutafélag
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 10. júlí 2019 leita Fossar markaðir hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 26. júní sama ár í málinu nr. 391/2019: Norðurvör ehf. og Selsvellir ehf. gegn Fossum mörkuðum hf. Vísar leyfisbeiðandi í því sambandi til 1. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Norðurvör ehf. og Selsvellir ehf. leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um dómkvaðningu tveggja manna samkvæmt XII., sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 til að meta verðgildi nánar tiltekins fjölda hluta í leyfisbeiðanda en hluti þessa kveður hann tilheyra gagnaðilum. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda en með fyrrnefndum úrskurði hafnaði Landsréttur henni. Leitar leyfisbeiðandi kæruleyfis til að fá þeirri niðurstöðu hnekkt.

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að leita leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.