Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2011


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Lagaskil
  • Vextir


                                     

Fimmtudaginn 15. desember 2011.

Nr. 224/2011.

BCF LLP

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

gegn

Steingrími B. Erlingssyni

(Björn L. Bergsson hrl.)

og gagnsök

Skuldamál. Lagaskil. Vextir.

B krafði S um greiðslu helmings eftirstöðva skuldar vegna lögfræðiráðgjafar sem veitt hafði verið S ásamt öðrum manni í tengslum við viðskipti þeirra í Kanada. S bar því við að hann væri ekki persónulega ábyrgur fyrir greiðslu þóknunar þar sem hann hefði komið fram gagnvart B fyrir hönd tiltekins félags. Var það niðurstaða Hæstaréttar að S bæri sönnunarbyrði fyrir því að hann hefði gert áskilnað um að hann væri ekki persónulega ábyrgur fyrir greiðslu þóknunar til B. S var ekki talinn hafa fært sönnur á að hann hefði gert slíkan áskilnað og var því héraðsdómur staðfestur um greiðsluskyldu hans. Með vísan til forsendna héraðsdóms var dómurinn staðfestur um sýknu S af greiðslu dráttarvaxta af kröfunni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. maí 2011. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að gagnáfrýjanda verði aðallega gert að greiða honum dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en til vara vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr., sömu laga, í báðum tilvikum af 55.658 kanadískum dollurum frá 22. febrúar 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 31. maí 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, en til vara að „héraðsdómur verði staðfestur um sýknu gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda um greiðslu dráttarvaxta.“ Hann krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta á hendur gagnáfrýjanda og fyrrverandi viðskiptafélaga hans, Finni Birni Harðarsyni, 17. mars 2010. Í stefnu er kröfu aðaláfrýjanda lýst svo að hann sé kanadísk lögfræðistofa sem hafi annast ýmsa lögfræðiráðgjöf fyrir hina stefndu. Hafi verkefnin meðal annars falist í að stofna félagið Finnstein Holdings Inc., sem sé eignalaust skráð kanadískt firma og að undirbúa málssókn í Kanada. Við þingfestingu málsins lagði aðaláfrýjandi fram reikning, dagsettan 22. febrúar 2008, á hendur gagnáfrýjanda og Finni Birni. Reikningsfjárhæðin nam 111.315,57 kanadískum dollurum og var það upphafleg stefnufjárhæð málsins. Jafnframt lagði aðaláfrýjandi fram ítarlegar tímaskýrslur þar sem lýst var verkum þeim sem reikningurinn tók til. Fór vinnan samkvæmt skýrslunum fram á tímabilinu 13. nóvember 2007 til 4. febrúar 2008. Á þessum verktíma var stofnun fyrrgreinds félags að baki. Var vinnan sögð vera við undirbúning og rekstur gerðardómsmáls sem rekið hafi verið í Kanada í nafni nýstofnaða félagsins vegna ágreinings um kaup þess á tilgreindu fyrirtæki þar í landi.

Áður en málið gekk til dóms í héraði féll aðaláfrýjandi frá kröfu sinni á hendur Finni Birni þar sem samið hefði verið um uppgjör af hans hálfu á helmingi stefnukröfunnar. Stóð þá eftir helmingur upphaflegrar kröfu og beindist einungis að gagnáfrýjanda.

Gagnáfrýjandi lagði fram greinargerð af sinni hálfu 5. maí 2010. Þar krafðist hann aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu. Frávísunarkröfunni var hafnað með úrskurði héraðsdóms 4. nóvember 2010. Sýknukrafa gagnáfrýjanda var byggð á aðildarskorti. Kannaðist gagnáfrýjandi við að hafa átt viðskipti við aðaláfrýjanda fyrir hönd félags en ekki að aðaláfrýjandi hefði unnið verk sem gagnáfrýjandi væri persónulega í ábyrgð fyrir. Ef dómurinn yrði ekki við sýknukröfu á þessum forsendum, geti ábyrgð gagnáfrýjanda „ekki gengið lengra en til undirbúnings og stofnunar félagsins.“ Tímaskýrsla aðaláfrýjanda bendi ekki til þess að verið sé að innheimta fyrir þá vinnu enda hafi þegar verið búið að greiða fyrir hana. Þá tefldi gagnáfrýjandi fram mótmælum við fjárhæð hinnar umkröfðu þóknunar sem hann hefur fallið frá fyrir Hæstarétti.

Talið verður að gagnáfrýjandi beri sönnunarbyrði fyrir því í málinu að hann hafi, er hann ásamt samstarfsmanni sínum leitaði eftir þjónustu aðaláfrýjanda, gert áskilnað um að hann væri ekki persónulega ábyrgur fyrir greiðslu þóknunar aðaláfrýjanda. Við rekstur málsins fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi lagt fram mikið af nýjum skjölum. Með þeim hefur hann ekki sannað að hann hafi gert slíkan áskilnað. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um skyldu gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda höfuðstól kröfu hans.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um vexti af kröfu aðaláfrýjanda. Þá verður dómurinn einnig staðfestur um málskostnað í héraði.

Miðað við þessi úrslit málsins, þar sem hvorki aðaláfrýjandi né gagnáfrýjandi ná fram kröfum sínum um breytingu á héraðsdómi, þykir rétt að hvor þeirra um sig skuli bera málskostnað sinn fyrir Hæstarétti. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. febrúar 2011.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 19. janúar sl., er höfðað 17. mars 2010.

Stefnandi er BCF llp, 1100 René-Lévesque Blvd, West, 25th Floor, Montréal, Québec H3B 5C9 Kanada.

Stefndi er Steingrímur Bjarni Erlingsson, Sólbraut 8, Seltjarnarnesi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 55.658,00 kanadíska dollara (CAD), með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. febrúar 2008 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

I

Í stefnu er því lýst að stefnandi sé kanadísk lögfræðiskrifstofa sem hafi annast ýmsa lögfræðiráðgjöf fyrir stefnda og Finn Björn Harðarson. Hafi verkefni stefnanda meðal annars verið að stofna félagið Finnstein Holdings Inc., sem sé eignalaust skráð kanadískt firma, og að undirbúa málssókn í Kanada. Á framlögðum reikningi sé nákvæm sundurliðum á kostnaði auk þess sem ítarleg vinnu- og tímaskýrsla gefi skilmerkilega mynd af því hvaða vinna og kostnaður liggi að baki fjárhæð reikningsins og einnig hvaða starfsmenn hafi komið að málinu. Um sé að ræða vinnu á tímabilinu frá 13. nóvember 2007 til 4. febrúar 2008. Þann 31. mars 2008 hafi stefnandi sent reikning útgefinn 22. febrúar það ár, að fjárhæð 111.315,57 kanadískir dollarar (CAD) sem ekki hafi verið sinnt. 24. nóvember 2008 hafi verið sent innheimtubréf, en skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Málið var upphaflega höfðað á hendur stefnda og Finni Birni Harðarsyni, en stefnandi féll frá kröfum á hendur Finni Birni 1. september 2010 og í þinghaldi 17. september sama ár upplýsti lögmaður stefnanda að inn á skuldina hafi verið greiddir 40.000 kanadískir dollarar þann 30. júní 2010.

Þann 4. nóvember 2010 var kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem hafnað var  frávísunarkröfu stefnda Steingríms Bjarna Erlingssonar.

II

Stefnandi kveður stefnda Steingrím Bjarna Erlingsson og Finn Björn Harðarson hafa verið stefnt til greiðslu skuldarinnar óskipt, enda hafi þeir báðir og sameiginlega komið að því að óska eftir lögfræðiþjónustu hjá stefnanda. Hvað varðar lagarök vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og kröfu um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um vexti og verðtryggingu.

III

Stefndi, Steingrímur Bjarni Erlingsson, byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Hann kveðst ekki kannast við að hafa fengið stefnanda það verk að veita sér lögfræðiráðgjöf. Stefndi kannist hins vegar við að hafa komið fram fyrir hönd félags en ekki að stefnandi hafi unnið verk sem stefndi væri persónulega í ábyrgð fyrir. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda af þessum sökum og fari svo ólíklega að stefndi verði talinn persónulega ábyrgur fyrir vinnu sem stefnandi kveðst hafa látið af hendi, geti slík ábyrgð ekki gengið lengra en til undirbúnings og stofnunar félagsins Finnstein Holdings Inc. Stefndi kveðst hafa greitt að fullu fyrir þá vinnu og umtalsvert meira. Tímaskýrsla stefnanda beri það með sér að ekki sé verið að innheimta fyrir þá vinnu enda hafi verið greitt fyrir hana.

Verði niðurstaðan sú að stefndi sé persónulega ábyrgur fyrir kröfunni, án þess að gerð hafi verið grein fyrir því í stefnu, sé þess krafist að fjárhæð kröfunnar verði lækkuð verulega. Í stefnu sé ekki rakið í hverju lögfræðiþjónustan hafi verið fólgin eða hvaða árangri hún hafi skilað. Bendi stefndi á að félagið sem stefnandi hafi unnið fyrir sé Finnstein Holdings Inc. Það sé eignalaust félag enda hafi hin ætlaða lögfræðilega ráðgjöf ekki skilað neinum árangri. Verði stefndi talinn bera ábyrgð á greiðslu fyrir lögfræðilega ráðgjöf, sem unnin hafi verið fyrir félagið, áskilji stefndi sér rétt til að krefjast skaðabóta vegna alls þess tjóns sem félagið hafi orðið fyrir vegna lélegrar ráðgjafar af hálfu stefnanda.

Stefndi kveðst telja fjárhæð kröfunnar fara langt umfram það sem hafi mátt vænta sérstaklega í ljósi þess að enginn árangur hafi verið af verkinu. Krafan sé að mati stefnda bersýnilega ósanngjörn og hafi stefnandi sem sérfræðingur gengið allt of langt í því að auka umfang verksins án þess að vara stefnda við. Í stefnu sé ekki tilgreint eftir hvaða lögum lögskipti aðila skuli fara en stefndi vísi í þessu sambandi m.a. til 6. og 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Kröfum stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sé sérstaklega mótmælt enda sé krafa stefnanda í erlendri mynt. Dráttarvextir samkvæmt íslenskum lögum séu byggðir á þeirri forsendu að krafa sé í íslenskum krónum. Byggt sé á því að ósanngjarnt teljist að gera kröfu um dráttarvexti samkvæmt íslenskum lögum á kröfu í erlendri mynt enda séu dráttarvextir í Kanada mun lægri en íslenskir dráttarvextir.

IV

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Robert Korne, gaf skýrslu fyrir dómi, svo og Finnur Björn Harðarson. Greindi Robert Korne frá því að stefndi og Finnur Björn Harðarson hefðu ráðið lögfræðistofuna BCF til að aðstoða þá við að kaupa hlutabréf í kanadísku sjávarútvegsfyrirtæki. Það hafi verið í febrúar 2007 eða þar um bil og vinna lögfræðistofunnar í þeirra þágu hefði staðið yfir í rúmlega níu mánuði í samstarfi við Finn Björn, stefnda Steingrím Bjarna og Landsbankann, sem hafi verið lánveitandi. Samningaferlið um hlutabréfakaupin hafi verið allt hið erfiðasta og gagnaðilar og lögmenn þeirra hafi verið mjög erfiðir viðfangs. Langan tíma hafi tekið að loka málinu. Samkomulag náðist um ýmis atriði en á elleftu stundu hafi gagnaðila snúist hugur og hafnað samkomulagi sem gert hafði verið. Í máli Robert Korne kom einnig fram að yfirfærsla hluta í fyrirtækinu hafi verið erfið, meðal annars vegna þess að hana hafi átt að framkvæma í tveimur áföngum. Hluta af bréfunum átti að kaupa árið 2007 en hluta fimm árum síðar. Þetta hafi þýtt að málsaðilar hafi orðið að eiga með sér samstarf í nokkur ár. Í október 2007 hafi kaupendur hlutanna samþykkt allt sem sneri að yfirfærslu þeirra, en í lok sama mánaðar hafi seljandi hætt við og gengið frá samningi um kaupin. Þá hafi verið rætt um hvað gera skyldi næst og eftir að umtalsverðum tíma hafði verið eytt í vangaveltur um framhald málsins hafi sú leið verið valin að leita sátta til að vernda réttindi umbjóðenda skrifstofunnar. Tilnefndur hafi verið fulltrúi þeirra Finns Björns og Steingríms Bjarna í gerðardóm þriggja manna. Niðurstaðan hafi orðið að gagnaðili þeirra hafi greitt þeim bætur. Í framhaldi af því hafi þeir neitað að greiða reikning lögmannsstofunnar fyrir þjónustuna sem veitt hafi verið  við sáttaferlið.

Þá kom fram hjá Robert Korne að allur kostnaður skrifstofunnar til október 2007 hafi verið greiddur. Greiddur hafi verið einn reikningur í janúar 2008, 200.000 kanadískir dollarar og annar í mars 2008, 335.000 kanadískir dollarar. Hluti af þessum kostnaði hafi verið kostnaður vegna vinnu tveggja annarra lögmannsstofa sem hafi aðstoðað stefnanda. Þá greindi Robert Korne frá því að sá reikningur sem ágreiningur væri um væri eingöngu fyrir vinnu stefnanda við undirbúning málaferla og meðferð málsins fyrir gerðardómi. Hann staðfesti að þeim Finni Birni og Steingrími Bjarna hefði verið gerð grein fyrir því í upphafi að kostnaður við málshöfðun eða gerðadómsleiðina gæti auðveldlega munið 300.000 kanadískum dollurum. Hann kvað umbjóðendur sína hafa á þessum tíma litið svo á að þeir ættu ekki aðra kosti en að fara þá leið sem farin var. Einnig kom fram að það hafi aldrei verið rætt um að félögin Finnstein Holdings Inc. eða 4449622 Canada Inc. myndu greiða fyrir þjónustu lögmannsstofunnar. Hann sagði félögin ekki hafa skipt máli við yfirfærslu hlutabréfanna eða viðskiptin yfirleitt. Hann gat þess einnig að það hefði aldrei verið samþykkt að félag sem ekki væri annað en „skel“ myndi bera ábyrgð á kostnaði sem yrði vegna þjónustunnar. Aðspurður sagði Robert Korne ekki vita nákvæmlega hvaða fjárhæð hefði verið greidd í bætur til Steingríms og Finns, en kvaðst hafa heyrt nefnda 900.000 kanadíska dollara, sem hann taldi vera mjög háar bætur. Þá taldi hann að vinna lögmannsstofunnar hefði án nokkurs vafa nýst umbjóðendum þeirra við að ná bótum frá gagnaðila þeirra.     

Vitnið, Finnur Björn Harðarson, bar fyrir dómi að hann og stefndi, Steingrímur Bjarni, hefðu unnið saman í Kanada í fjögur eða fimm ár í sjávarútvegi og hefðu í sameiningu beðið um lögfræðiþjónustu hjá stefnanda. Vitnið staðfesti að umdeildur reikningur væri vegna vinnu lögfræðistofunnar við að undirbúa málaferli, en áður hefði verið reynt að kaupa sjávarútvegsfyrirtæki en reikningar fyrir þá vinnu væru greiddir. Vitnið greindi frá því að hann og stefndi hefðu leitað eftir skaðabótum frá seljendum bréfanna og fengið 900.000 kanadíska dollara sem hefðu verið fullar bætur vegna þess tjóns sem þeir hafi orðið fyrir, fyrir utan einhverja tíma í eigin vinnu þeirra Steingríms Bjarna.

Vitnið taldi að vinna stefnanda hefði nýst við það að ná skaðabótunum og að hann og stefndi hefðu ráðið hvernig skaðabótunum hafi verið ráðstafað. Það hefði aldrei staðið til að bæturnar rynnu til Finnstein Holdings af því að það fyrirtæki hefði aldrei verið stofnað og hefði það verið ástæðan fyrir því að hann hefði samið um sinn hluta skuldarinnar. Þá kom fram hjá vitninu að hann og Steingrímur Bjarni hefðu verið upplýstir um það í upphafi að það gæti kostað milli 200.000 og 300.000 kanadíska dollara að fara með málið fyrir dóm. Kostnaðurinn hefði verið innan þeirra marka og því hefði ekkert verið við hann að athuga. Samkomulag hefði orðið í málinu og því megi ætla að vinna stefnanda hafi nýst við að ná bótum af þeim sem ætlaði að selja hlutabréfin. Vitnið bar að það hefði sjálft greitt þann hluta af reikningum sem þegar væri greiddur. Verk lögmannsstofunnar hefði verið unnið fyrir vitnið og Steingrím Bjarna persónulega til að ná skaðabótum af þeim aðila sem hefði ætlað að selja þeim hlutabréfin.

V

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu á 55.658,00 kanadískum dollurum (CAD) fyrir lögfræðiþjónustu. Um er að ræða helming kröfu samkvæmt reikningi sem stefnandi gaf út þann 22. febrúar 2008 á hendur stefnda og Finni Birni Harðarsyni. Fyrir liggur að Finnur Björn Harðarson samdi um kröfuna fyrir sitt leyti og greiddi stefnanda 40.000 kanadíska dollara 30. júní 2010.

Krafa stefnda um sýknu af kröfu stefnanda er meðal annars byggð á aðildarskorti. Heldur stefndi því fram að hann hafi ekki persónulega óskað eftir þjónustu hjá stefnanda, heldur hafi hann komið fram fyrir hönd félags og væri vinna stefnanda unnin í þágu félags en ekki fyrir hann persónulega. Stefnandi hafnar þessu og hefur bent á að aldrei hefði komið til greina að félög, jafnvel óstofnuð, yrðu greiðendur þjónustunnar, enda hefði hún verið persónulega í þágu stefnda og Finns Björns Harðarsonar. Svo sem staðfest er með framburði vitnisins Finns Björns Harðarsonar óskuðu hann og stefndi eftir lögfræðiaðstoð stefnanda til að heimta skaðabætur frá aðila sem ætlaði að selja þeim hlutbréf í kanadísku sjávarútvegsfyrirtæki en hætt við söluna á síðustu stundu. Á framlögðum reikningi stefnanda, útgefnum 22. febrúar 2008 og vinnuskýrslu með honum má sjá að stefndi og Finnur Björn Harðarson áttu símafundi og önnur samskipti við starfsmenn stefnanda meðal annars vegna vinnu stefnanda við val milli þeirra leiða að höfða mál á hendur seljanda hlutabréfanna eða leggja ágreining þeirra fyrir gerðardóm. Er þessi þjónusta starfsmanna stefnanda skilmerkilega skráð á vinnuskýrslu sem fylgir reikningum og verkkaupar þar skráðir stefndi og Finnur Björn Harðarson. Þá er framlagður reikningur stílaður á stefnda og Finn Björn Harðarson og enn fremur á Finn Björn vegna félaganna Finnstein Holdings Inc og 4449622 CANADA Inc. Ekkert liggur fyrir um tilveru nefndra félaga annað en að meining stefnda og Finns Björns um að stofna þau vegna hlutbréfakaupa og þátttöku þeirra í rekstri hins kanadíska fyrirtækis hefðu kaupin orðið að veruleika. Þá liggur fyrir að stefndi og Finnur Björn fengu skaðabætur vegna þess að hætt var við að selja hlutabréfin og er ekkert annað fram komið í málinu en að umræddar skaðabætur hafi runnið til stefnda og Finns Björns Harðarsonar persónulega. Enn fremur liggur fyrir að umdeildum reikningi stefnanda var ekki mótmælt af stefnda, hvorki greiðsluskyldu né tímafjölda eða einingarverði hans, fyrr en með greinargerð stefnda, dagsettri 1. maí 2010. Að mati dómsins þykir nægilega sannað í málinu að stefndi hafi ásamt Finni Birni Harðarsyni óskað eftir lögfræðiþjónustu stefnanda af framangreindu tilefni í eigin nafni. Stefndi hefur þannig ekki rennt viðhlítandi stoðum undir þá staðhæfingu sína að hann hafi í samskiptum við starfsmenn stefnanda komið fram fyrir hönd félags og óskað eftir lögfræðiþjónustu í þágu félags sem myndi greiða fyrir þjónustuna. Verður samkvæmt því að hafna kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts.

Stefndi byggir enn fremur á því að fjárhæð kröfu stefnanda sé langt umfram það sem hafi mátt vænta og vísar stefndi til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, 6. og 28. gr., í því sambandi svo og til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Lög um þjónustukaup gilda um samninga um kaup á þjónustu sem veitt er neytendum í atvinnuskyni gegn endurgjaldi. Með neytanda er í lögunum átt við einstakling sem kaupir þjónustu og kaupin eru ekki í atvinnu eða í tengslum við starf hans. Samkvæmt 6. gr. laganna ber seljanda þjónustu að veita upplýsingar um hagkvæmni þjónustunnar fyrir neytanda og um kostnað. Þá kemur fram í 28. gr. laganna að greiða skuli sanngjarnt verð fyrir þjónustu með hliðsjón af því eðli og umfangi vinnu, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu. Fram er komið að stefndi hefur verið fjögur til fimm ár í rekstri í Kanada og að beðið hafi verið um þjónustu stefnanda í tengslum við starfsemi stefnda. Samkvæmt því eiga lög um þjónustukaup ekki við um viðskipti stefnda og stefnanda. Fram kom hjá vitninu Finni Birni að honum og stefnda, Steingrími Bjarna, hefði verði gerð grein fyrir í upphafi að kostnaður af málarekstri eða sáttameðferð gæti munið 200-300.000 kanadískum dollurum. Í því ljósi verður ekki fallist á þau sjónarmið stefnda að fjárhæð kröfu stefnanda sé hærri en vænta mátti. Þykir varakrafa stefnda um verulega lækkun á kröfum stefnanda ekki koma til álita í málinu.

Stefndi hefur mótmælt kröfu stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á kröfu hans í erlendri mynt. Byggir stefndi á því að dráttarvextir samkvæmt íslenskum lögum séu byggðir á þeirri forsendu að krafan sé í íslenskum krónum og ósanngjarnt sé að krefjast dráttarvaxta samkvæmt íslenskum lögum á kröfu í erlendri mynt. Stefnandi hafnar þessu og bendir á að samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu komi skýrt fram að greiða skuli dráttarvexti ef ekki er greitt á réttum tíma og ef ekki hefur verið samið um annað gildi 1. mgr. 6. gr. laganna um dráttarvexti. 

Með lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu var afnumin sérregla sem áður gilti samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt. Við það er miðað að um dráttarvexti af slíkum kröfum fari samkvæmt almennum reglum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að framangreindum lögum nr. 38/2001 er ástæðan sögð vera að þær aðstæður að baki sérreglu þágildandi 11. gr. laga nr. 25/1987 um dráttarvexti af peningakröfum í erlendri mynt, þ.e. rýrnum krónunnar gagnvart flestum erlendum gjaldmiðlum, séu ekki lengur til staðar. Þá er sérstaklega vísað til þess að ósanngjarnt geti verið að hæð dráttarvaxta af kröfu í erlendri mynt fari eftir íslenskum lögum, enda taki hæð dráttarvaxta mið af styrkleika krónunnar á hverjum tíma. Þá er enn fremur sérstaklega áréttað í athugasemdunum að ekki sé sjálfgefið að afnám sérreglunnar leiði sjálfkrafa til þess að um dráttarvexti af kröfum í erlendri mynt fari samkvæmt sömu reglum og um dráttarvexti af peningakröfum í íslenskum krónum, þ.e. 6. gr. frumvarpsins. Aðra niðurstöðu kunni að leiða af reglum alþjóðlegs einkamálaréttar. Unnt sé að semja um að beita skuli lögum tiltekins ríkis til lausnar ágreiningi meðal annars um reglur hvaða ríkis skuli lagðar til grundvallar við útreikning á dráttarvöxtum, að öðrum kosti skera reglur alþjóðlegs einkamálaréttar úr um hvaða lög gilda, þar á meðal um útreikning dráttarvaxta.

Í máli því sem hér er til úrlausnar hefur ekki verið samið um það eftir reglum hvaða ríkis skuli með fara við útreikning dráttarvaxta, en fyrir liggur að stefnandi hefur valið að reka málið eftir íslenskum lögum og var því lýst yfir við munnlegan flutning málsins að stefndi hefði ekkert við það að athuga að öðru leyti en því að hann samþykkti ekki að greiða dráttarvexti samkvæmt íslenskum lögum á kröfu stefnanda, enda væru þeir honum óhagstæðir. Af framangreindum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og ákvæði 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar leiðir að ekki eru skilyrði til að beita ákvæðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og á stendur, enda hefur viðskiptasamband stefnanda og stefnda sterkari tengsl við Kanada en Ísland og hin umþrætta krafa er til komin vegna þjónustu sem stefnandi veitti stefnda í Kanada. Fellst dómurinn þannig á það með stefnda að skilyrði skorti að lögum til að dæma dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 á kröfu stefnanda í kanadískum dollurum. Í málinu er ekki upplýst um hæð sambærilegra vaxta í Kanada og verður stefnandi að bera hallann af því. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Af sömu ástæðum þykir ekki unnt að vera við kröfu stefnanda um vexti á stefnukröfuna samkvæmt 4. gr. laganna.

Með vísan til niðurstöðu málsins og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til ferðakostnaðar, þóknunar til túlks og þýðanda, svo og virðisaukaskatts.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Steingrímur Bjarni Erlingsson, greiði stefnanda, BCF llp, 55.658,00 kanadíska dollara (CAD) og 1.000.000 króna í málskostnað.

Stefndi er sýkn af kröfu stefnanda um dráttarvexti í máli þessu.