Hæstiréttur íslands
Mál nr. 356/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Lögsaga
- Dómstóll
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 356/2002. |
Sigurður R. Þórðarson Björn Erlendsson Vilhjálmur A. Þórðarson Hákon Erlendsson og Jón Ársæll Þórðarson (Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn Bandaríkjum Norður Ameríku (enginn) |
Kærumál. Lögsaga. Dómstólar. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Máli S, B, V og J gegn Bandaríkjum Norður Ameríku var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að stefndi sætti ekki lögsögu íslenskra dómstóla.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2002.
Mál þetta er höfðað með réttarstefnu útgefinni þann 9. apríl 2001, birtri fyrir stefnda, stjórn Bandaríkja Norður-Ameríku, þann 17. og 19. apríl s.á. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. júní 2001 og dómtekið sama dag. Það var endurupptekið og dómtekið á ný 1. nóvember s.á.
Stefnendur eru eigendur jarðanna Eiðis I og II á Langanesi, Norður Þingeyjarsýslu, Sigurður R. Þórðarson, kt. 260745-3959, Glaðheimum 8, Reykjavík, Björn Erlendsson, kt. 210545-3529, Aðallandi 15, Reykjavík, Vilhjálmur A. Þórðarson, kt. 050342-3529, Háteigsvegi 40, Reykjavík, Hákon Erlendsson, kt. 210150-4719, Kambaseli 28, Reykjavík og Jón Ársæll Þórðarson, kt. 160950-4399, Framnesvegi 68, 107 Reykjavík.
Dómkröfum stefnenda er beint að stjórn Bandaríkja Norður-Ameríku og til fyrirsvars er stefnt Mr. George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, The White House, 1600 Pennsylvania Ave., NW 20500, Washington, D.C., USA, Mr. Colin Powel, utanríkisráðherra, Office of the Secratary, United States Departement of State, 7th Floor, 2201 C Street, NW, Washington, DC 20520, USA og Mr. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, Office of the Secratary, United States Departement of Defense, The Pentagon, Washington DC 20301-1155, USA, öllum f.h. stjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnenda eru sem hér segir:
Að stefnda verði gert skylt með dómi að fjarlægja úrgang með spilliefnum og mannvirkjarusl sem er í og á jörð á Heiðarfjalli (Hrollaugsstaðarfjalli) í landi Eiðis I og II á Langanesi, á svæði, sem afmarkast á yfirborði af þessum hnitum sem Bandaríkjaher noti: 1) N 7352.095.52, E 499.927.88, 2) N 7351.500, E 500.300, 3) N 7351.180, E 500.500, 4) N 7350.500, E 500.500, 5) N 7350.500, E 499.500, 6) N 7351.500, E 499.500 og 7) N 7351.902.34, E 499.500, samkvæmt uppdrætti merktum "Headquarters Iceland Defense Force, Station H-2, agreed area boundary, 17 March 1960, LGS", og teikningu merktri "US Naval Station, H-2 Site Plan dwg: 568-E-690", að viðlögðum dagsektum kr. 150.000 fyrir hvern dag sem framkvæmd við að fjarlægja úrgang og spilliefni af eigninni dregst.
Að stefnda verði gert að greiða stefnendum málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðili, stjórn Bandaríkja Norður-Ameríku, hefur ekki látið málið til sín taka.
Málavextir
Stefnendur gera grein fyrir atvikum máls og ástæðum málssóknar í stefnu.
Þar segir að með bréfi til íslenska utanríkisráðuneytisins, dags. 23. mars 1954, hafi bandarísk stjórnvöld beðið íslensk stjórnvöld um að afla fyrir sig heimilda á landsvæði sem á kortum og skjölum Bandaríkjahers sé nefnt H-2 svæðið á Langanesi, og hafi í framhaldi af því verið undirritaður samningur milli utanríkisráðuneytisins og umboðsmanns eigenda Eiðis I og II um leigu á landi á Hrollaugsstaðafjalli (hér eftir nefnt Heiðarfjall) þann 3. maí 1954 og aftur um viðbótarland samtals 156 ha. þann 10. desember 1960. Heimildar á landsvæði sem hafi borið að afla fyrir bandaríska varnarliðið, sbr. 2. gr. varnarsamnings milli Bandaríkja Norður-Ameríku og lýðveldisins Íslands frá 5. maí 1951, hafði þá verið aflað, sbr. bréf bandaríska varnarliðsins til íslenskra stjórnvalda, dags. 23. mars 1954, 9. ágúst 1954, 17. ágúst 1954, og fundargerðir Varnarmálanefndar, dags. 17. ágúst 1954, 19. apríl 1955, 10. maí 1955 og 17. maí 1955.
Fram kemur að tilkynning um að heimilda á landsvæði hafi verið aflað fyrir bandaríska varnarliðið hafi verið send í erindisbréfi til bandaríska varnarliðsins frá íslenska utanríkisráðuneytinu þann 17. maí 1955. Í erindisbréfinu hafi bandaríska varnarliðinu verið greint frá því í hverju heimildir væru fólgnar á hinu leigða landi. Þar hafi hvergi verið getið um heimild til urðunar á úrgangi eða geymslu á honum, hvorki fyrir né eftir að heimiluðum afnotum lyki. Gert hafi verið ráð fyrir í leigusamningi að skólpi yrði veitt til sjávar en úr því hafi ekki orðið og hafi allt skólp verið losað á hinu leigða landi. Í erindisbréfinu hafi verið skýrt getið um hvaða réttindi og skyldur bandaríska varnarliðið hefði haft á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli.
Fram kemur að íslenska ríkið hafi hvergi komið nærri framkvæmdum á svæðinu og þegar komið hafi að því að framfylgja ákvæðum leigusamningsins hafi það verið Bandaríkjamenn sjálfir sem ábyrgðarmenn og notendur eignarinnar sem framfylgdu þeim, svo sem t.d. að vinna það verk að girða hið leigða landsvæði og bera kostnað af því, sbr. fjölda bréfa og fundargerða þar um frá 1958 og 1959, en í landleigusamningnum segi: "Leigutaki lofar að girða svæðið með einangrunargirðingu". Bandaríska varnarliðinu hafi ítrekað verið bent á samningsskyldu sem þeir hefðu samkvæmt samningnum, sbr. bréf Björns Ingvarssonar lögreglustjóra, dags. 28. apríl 1958.
Þegar bandarísk stjórnvöld hafi ákveðið að hætta rekstri ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafi Bandaríkjamenn verið spurðir að því hvort þeir vildu að H-2 svæðinu yrði haldið í leigu áfram til síðari tíma fyrir framtíðarnot varnarliðsins, sbr. fundargerð hjá varnarmálanefnd (Defense Council), dags. 24, febrúar 1970. Bandaríkjamenn hafi þá svarað, "að eins og sakir standi nú, þá væri engin nauðsyn fyrir ríkisstjórn Íslands að halda svæðinu í leigu áfram fyrir varnarliðið". Nokkru síðar eða þann 7. júlí sama ár hafi Bandaríkjamenn síðan kynnt hinn svokallaða “afsalssamning” fyrir íslenskum stjórnvöldum, en í honum hafi öllum stjórnarskrárvernduðum skaðabótakröfuréttindum landeigenda verið afsalað, og hafi samningurinn síðan verið undirritaður. Í framhaldi af fundinum 24. febrúar 1970 hafi leigusamningi við landeigendur verið sagt upp einhliða frá 1. september 1970. Þetta hafi verið gert með bréfi, dags. 5. mars 1970, frá utanríkisráðuneytinu til landeigenda. Landleiga hafi verið greidd fram til 1. mars 1971.
Þann 30. júní 1970 annars vegar og 7. júlí og 18. september 1970 hins vegar, hafi eins og fyrr segir verið undirritaðir samningar milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda. Í þeim samningum hafi íslensk stjórnvöld tekið yfir byggingar og aðrar betrumbætur á Heiðarfjalli og réttindum verið afsalað. Í samningunum hafi ekkert verið getið um úrgang og annað mannvirkjarusl sem farið hafi í áframhaldandi geymslu á svæðinu. Þessir samningar hafi ekki verið gerðir við löglega eigendur eignarinnar og íslensk stjórnvöld hafi ekki verið umboðsmenn eigenda eða málsvarar þeirra við þessar samningsgerðir og hafi eigendum ekki einu sinni verið kunnugt um samninginn fyrr en 4. apríl 1990. Verði af því ráðið að embættismenn utanríkisráðuneytisins hafi viljandi reynt að halda samningum leyndum fyrir landeigendum. Landeigendur hafi fengið ljósrit af samningnum í maí 1990 hjá þáverandi forsætisráðherra, Steingrími Hermannssyni.
Samkvæmt fundargerð varnarmálanefndar frá 7. júlí 1970 hafi bandarísk stjórnvöld kynnt og komið á framfæri þessum samningum og beðið um að þeir yrðu gerðir. Í fundargerð segi: "Eftir að hafa farið yfir samninginn óskaði íslenski formaðurinn eftir því að fá að vita hvort ákvæðið í II. gr. í samningi frá 7. júlí 1970, þar sem ríkisstjórn Íslands afsalar öllum kröfum íslenskra ríkisborgara á hendur Bandaríkjunum fyrir persónulegan skaða eða vegna eignatjóns, sé virk frá því að eignin var tekin í notkun eða hvort líta beri svo á að ákvæðið sé virkt frá þeim degi er undirritun fer fram eða hvort ákvæðið sé afturvirkt frá annari dagsetningu. Lieutenant Comanander Crane svaraði að ákvæðið í II. gr. væri virkt frá undirritun samningsins þann 7. júlí 1970 en ekki afturvirkt".
Frá 1. september 1970 hafi bandarísk stjórnvöld verið með úrgang og annað mannvirkjarusl í geymslu, samningslaust, heimildarlaust og ólöglega inni á einkaeign á Eiði á Langanesi. Eignin hafi ekki verið tekin löglegu eignarnámi. Þegar landleigusamningur hafi runnið út 1. september 1970 hafi bandarísk stjórnvöld misst öll réttindi sín til að vera á svæðinu, bæði með mannskap, úrgang í geymslu og annað mannvirkjarusl.
Árin 1971-1974 hafi fyrri landeigendur gert munnlegar athugasemdir nokkrum sinnum og beðið um úrbætur og leiðréttingar hjá Sigurði Jónssyni, hreppstjóra Sauðaneshrepps, og Jóhanni Skaptasyni, sýslumanni Þingeyjasýslu, vegna ástandsins á Heiðarfjalli. Núverandi landeigendur hafi áfram gert athugasemdir frá miðju ári 1974 og beðið um úrbætur og leiðréttingar.
Þann 10. apríl 1974 hafi núverandi eigendur, þeir Björn Erlendsson, Hákon Erlendsson, Jón Ársæll Þórðarson, Sigurður R. Þórðarson og Vilhjálmur A. Þórðarson, keypt eignina Eiði. Í kaupsamningi segi m.a: "Til viðbótar því sem fram kemur í þessum kaupsamningi vil ég undirritaður benda á að mál Varnarliðsins á Heiðarfjalli í landi Eiðis vegna ástandsins og viðskilnaðarins þar eru óleyst og óuppgerð. Viðskilnaðurinn og ástandið er óviðunandi. Eignin er þar í notkun í heimildarleysi og án nokkurs samnings. Leigusamningi var einhliða sagt upp 5. mars 1970 en eignin áfram í notkun. Þið kaupendur verðið að fylgja þessum málum eftir. Búið er að lofa úrbótum en ekki er staðið við þau loforð. Framsel ég hér með allan rétt okkar til ykkar kaupenda í þessu sambandi". (Undirritað af Jóhanni Gunnlaugssyni). Afsal fyrir jörðinni hafi seljendur gefið út 30. nóvember 1974. Afsalinu hafi verið þinglýst 28. janúar 1975 af seljendum og án undirskriftar kaupenda.
Eins og komið hafi ítrekað fram í forsögu málsins og samkvæmt því sem forsvarsmenn utanríkisráðuneytisins hafi staðfest við landeigendur, þá hafi íslensk stjórnvöld ekki talið sig bera ábyrgð á núverandi og áframhaldandi ástandi og hafi vísað til þess að íslensk stjórnvöld hafi sagt upp ábyrgðum og heimildum á landinu árið 1970 eftir að bandarísk stjórnvöld hafi svarað neitandi fyrirspurn frá Varnarmálanefnd um hvort halda ætti heimildum fyrir þau áfram á eigninni. Þann 17. desember 1996 hafi utanríkisráðuneytið ritað landeigendum bréf og tjáð þeim að málinu væri lokið af þeirra hálfu. Ekki hafi verið aflað heimilda að nýju eftir 1970, né hafi verið gerðar aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að í té yrði látin aðstaða.
Fram kemur að landeigendur hafi hafið undirbúningsvinnu og rannsóknir í fiskeldi strax í apríl árið 1974. Þeir hafi með fiskeldi og fiskirækt í huga stofnsett hlutafélagið Naustin hf. þann 16. janúar 1975, sem hafi staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum og mannvirkjagerð til undirbúnings iðnaðarframleiðslu bleikjuseiða til bleikjueldis og laxagönguseiða til hafbeitar í stórum stíl með nýtingu lindarvatns á svæðinu. Naustin hf. leigi jörðina til fiskeldis en núverandi not stefnda útiloki þá starfsemi. Undirbúningsvinna, rannsóknir og tilraunaverkefni sem hafi lofað góðu um niðurstöður hefðu verið í gangi í 15 ár, þveröfugt við það sem hafi gerst hjá mörgum öðrum, en það hafi verið mikið gagnrýnt hversu lítil vinna og fjármagn hefði farið í undirbúning og rannsóknir í fiskeldi. Þátttaka erlendra samstarfsaðila hafi verið tryggð þegar tilvist úrgangshauganna á fjallinu yfir vatnsbólum kom í ljós þann 13. júlí 1989.
Á tímabilinu júní til ágúst árið 1974 hafi farið fram svokölluð “hreinsun” á fjallinu sem framkvæmd hafi verið af Sölu varnarliðseigna á vegum utanríkisráðuneytisins, niðurrif á húsum og fleiru, en á árunum 1970-1971 hafi áður verið rifin hús og rusl urðað. Eitthvað af því hafi verið hirt en mikið af því verið urðað á svæðinu án nokkurs leyfis landeigenda og hafi öll framkvæmdin farið fram án vitundar þeirra og án samráðs við þá. Á þessum tíma hafi landeigendur aðeins dvalið tímabundið á Eiði. Hafi menn farið þar inn á einkaeign með stórvirkar vinnuvélar í algjöru heimildarleysi. Hafi svæðið litið verr út eftir þessa aðgerð sem borið hafi merki þess að menn væru fyrst og fremst að hirða eitthvað nýtilegt en væru ekki að hreinsa. Sala varnarliðseigna hafi svo fengið hreppstjóra Sauðaneshrepps til að taka verkið út. Ekkert samband hafi verið haft við löglega eigendur og hafi hreppstjórinn heldur ekkert umboð haft frá þeim til úttektarinnar né verið málsvari eða umboðsmaður eigenda á nokkurn hátt við framkvæmdina.
Landeigendur hafi haldið áfram að kvarta yfir ástandinu, sem hafi verið algjörlega óviðunandi, en í bréfi frá Páli Ásgeiri Tryggvasyni hjá utanríkisráðuneytinu til landeigenda, dags. 11. mars 1976, segi m.a: "Ráðuneytið er sammála Sölu varnarliðseigna um að fullnægjandi landhreinsun á landi jarðarinnar Eiði haft þegar farið fram og því sé ástæðulaust að ríkissjóður kosti þar frekari hreinsun".
Áfram hafi verið kvartað yfir ástandinu og í bréfi, dags. 15. janúar 1981 segi Helgi Ágústsson, skrifstofustjóri hjá utanríkisráðuneytinu: "Ráðuneytið skýrir yður frá því að það tekur ekki kröfu yðar varðandi frekari hreinsun á jörðinni Eiði til greina".
Á árunum 1982-1984 hafi verið uppi áætlanir um að byggð yrði ný ratsjárstöð á Heiðarfjalli. Málalok hafi orðið þau að valið var annað fjall í grenndinni fyrir þá stöð.
Á árunum 1986 og 1987 hafi utanríkisráðuneytið fengið skáta og unglinga á vegum björgunarsveitar frá nærliggjandi bæ, Þórshöfn, til að tína saman í hrúgur lauslegt yfirborðsrusl svo sem olíutunnur o.fl. Ekkert samráð hafi verið haft við löglega eigendur vegna þess máls. Síðar hafi verið beðið um að fá að urða þetta en því hafi verið neitað af landeigendum og þess krafist að það yrði fjarlægt af fallinu. Það sem ekki hafi fokið af því út í buskann nú þegar hafi ekki enn verið fjarlægt af eigninni.
Áfram hafi verið kvartað yfir ástandinu og í bréfi til umboðsmanns Alþingis, dags. 26. ágúst 1988 hafi Þorsteinn Ingólfsson hjá utanríkisráðuneytinu sagt: "Varnarmálaskrifstofan telur sig ekki hafa neinum skyldum að gegna við núverandi landeigendur vegna ástands landsvæðisins". Fram kemur að Þorsteinn hafi haldið því fram í bréfinu að landeigendur hafi keypt landið 30. nóvember 1974 en hið rétta sé að eignin hafi verið keypt 10. apríl 1974.
Áfram hafi verið kvartað yfir ástandinu og hafi orðið að samkomulagi milli utanríkisráðuneytisins og landeigenda að farið yrði á fjallið til að gera úttekt á svæðinu þann 13. júlí 1989. Saman hafi komið á fjallinu fulltrúar utanríkisráðuneytisins, landeigendur, lögmaður landeigenda, fulltrúi björgunarsveitarinnar á Þórshöfn, fulltrúi náttúruverndarráðs, fulltrúi náttúruverndarnefndar Norður-Þingeyjasýslu og fyrrum starfsmaður ratsjárstöðvarinnar. Við þá úttekt hafi fyrrum starfsmaður skýrt frá því að allur úrgangur frá ratsjárstöðinni hafi verið grafinn og skilinn eftir leyndur í gryfjum á hábungu fjallsins og hafi hann sýnt viðstöddum sjálft úrgangssvæðið sem sé um 1,5 - 2 ha að stærð. Hafi hann skýrt mönnum frá því að allur úrgangur frá herstöðinni hafi verið urðaður þarna, bæði úrgangsolíur, rafgeymar o.fl., óflokkað án nokkurra öryggis-ráðstafana. Þetta hafi komið mönnum algjörlega á óvart. Engin annar nærstaddra hafi virst hafa haft hugmynd um þetta. Bandarísk hernaðaryfirvöld hafi síðan ekki viljað afhenda landeigendum upplýsingar um það hvers konar rusl sé grafið á Heiðarfjalli.
Uppgötvun úrgangsins í júlí 1989 hafi orðið til þess að landeigendur hafi orðið að endurskoða áætlanir sínar um áframhaldandi vatnsbúskap, fiskeldi og matvælaframleiðslu undir haugunum á fjallinu, sem stunduð hafi verið um 15 ára skeið með góðum árangri en ærnum tilkostnaði og fjárfestingum. Ástæða þess hafi ekki síst verið sú að erlendir samstarfsaðilar hafi ekki talið sig geta haldið áfram starfsemi undir úrgangshaugunum fyrr en allur úrgangur hefði verið fjarlægður og sannreynt hefði verið að engin umhverfisspillandi efni hefðu lekið úr haugunum niður í vatnsleiðandi jarðlög, sbr. bréf þeirra, dags. 30. nóvember 1989. Ekki hafi heldur þótt verjandi að fara út í frekari vinnu eða fjárfestingar á meðan óvarinn úrgangurinn væri enn í geymslu ofan við vatnsból.
Ákvörðun hafi síðan verið tekin um að hætta öllum fjárfestingum og allri starfsemi í vatnsbúskap, fiskeldi og matvælaframleiðslu á svæðinu þar til úrgangur og spilliefni hefðu verið fjarlægð.
Þess er getið að í bréfum, dags. 12. og 13. júní 1990, frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra til utanríkisráðuneytisins, umhverfismálanefndar Heiðarfjalls og Ólafs Péturssonar hjá Hollustuvernd ríkisins, segi m.a: "má telja víst að sigvatn frá sorphaugum ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli berist í grunnvatn. Afleiðingar þessa ráðast af innihaldi sorphaugsins og sigvatns, og stefnu og hraða grunnvatns".
Fram kemur að rannsóknir og sýnatökur á yfirborði sorphauganna, sem tekin hafi verið í ágúst og nóvember 1991, undir stjórn National Toxic Campaign Fund í Boston í Bandaríkjunum, hafi sýnt eitraða þungmálma og úrgangsolíur bæði í jarðvegs- og vatnssýnum.
Fram kemur að í rannsóknum Hollustuverndar ríkisins á vegum umhverfisráðuneytisins á lindum í hlíðum Heiðarfjalls þann 18.-19. ágúst 1993, hafi mælst blý í drykkjarvatnsbóli landeigenda. Magn blýs hafi mælst 0,0059 mg per lítra sem sé 18% yfir hæstu leyfilegum mörkum blýs í drykkjarvatni samkvæmt nýjum staðli US Environmental Protection Agency og lögum sem sett hafi verið á Bandaríkjaþingi þann 24. maí 1994 á vegum Department of Health and Human Services. Samkvæmt þeim og tilmælum Food and Drug Administration í Washington-borg skuli hæsta leyfilega magn blýs í drykkjarvatni vera 0,005 mg per lítra, sbr. lög nr. 5 U.S.C., 552(a), 1 CFR 51, 21 CFR 103.35(d)(3)(v).
Stofnunin Center for International Environmental law í Washington DC, útvegaði landeigendum skjöl um málið frá bandaríska hernum á grundvelli "Freedom of Information Act", sbr. bréf bandaríska aðmírálsins í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, dags. 12. maí 1992. Á meðal skjalanna séu samningar frá 7. júlí og 18. september 1970. Skjölin hafi borist landeigendum í byrjun október 1993. 25% skjalana hafi verið sögð trúnaðarmál og hafi ekki verið afhent. Áður hafi Bandaríkjamenn lýst því yfir að þeir væru tilbúnir að afhenda landeigendum þessi skjöl, þ.e. 75% skjalanna sem ekki væru trúnaðarmál, en gegn hárri greiðslu.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hafi ritað yfirmanni bandaríska varnarliðsins bréf þann 11. ágúst 1992, þar sem segi: "Að mati heilbrigðisnefndar Þórshafnarsvæðis er frágangurinn á Heiðarfjalli gróft brot á ofangreindum ákvæðum. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra krefst þess að þessi ákvæði verði uppfyllt og að varnarliðið fjarlægi þann úrgang sem það skildi eftir á Heiðarfjalli þegar það hætti starfssemi þar". Í því sambandi hafi verið vísað í heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, greinar 14.1., 16.1 og 46.1. Enn fremur hafi verið bent á lög nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, greinar 27.4, 27.5 og 27.6. Þessu bréfi hafi ekki verið svarað.
Fram kemur að málið hafi verið kært til ríkissaksóknara þann 19. april 1993 vegna meintra brota á 257. og 2. og 3. mgr. 259. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940. Ríkissaksóknari, Hallvarður Einvarðsson, hafi vísað málinu frá, sbr. bréf dags. 3. september 1993 er segi: "Eigi er dregið í efa að umbjóðendur yðar hafa orðið fyrir ómældu fjárhagstjóni vegna máls þessa, en úr því álitaefni verður að skera í einkamáli". Kvartað hafi verið yfir meðferð ríkissaksóknara á málinu til umboðsmanns Alþingis þann 31. ágúst 1994, en umboðsmaður Alþingis hafi ekki treyst sér til þess að taka málið upp.
Meðferð ríkissaksóknara á málinu hafi verið kærð til dómsmálaráðuneytisins þann 23. september 1994 og málið ítrekað við dómsmálaráðuneytið þann 12. febrúar 1995. Svar hafi borist frá dómsmálaráðuneytinu, dags. 2. maí 1995, og erindinu verið synjað. Vísað hafi verið í rök ríkissaksóknara, að utanríkísráðuneytið hafi sagt í áliti sínu til ríkissaksóknara að frágangur varnarliðsins á sorpi á Heiðarfjalli hafi verið í samræmi við gildandi venjur og reglur þess tíma. Þá hafi málið verið kært til Rannsóknarlögreglu ríkisins þann 7. desember 1994, sem hafi vísað málinu frá með bréfi, dags. 21. desember 1994, á þeim grundvelli, að ríkissaksóknari hafi vísað málinu frá og að sú ákvörðun væri bindandi fyrir Rannsóknarlögreglu ríkisins. Málið hafi aftur verið kært til Ríkislögreglustjóra þann 17. mars 1999 í ljósi nýrra upplýsinga og gagna og enn fremur á öðrum grundvelli en áður. Ríkislögreglustjóri hafi vísað málinu til Ríkissaksóknara sem aftur hafi algerlega hafnað að aðhafast nokkuð í því.
Utanríkismálanefnd Alþingis hafi tekið málið upp á fundi í Pentagon þann 12. maí 1994 og beðið um upplýsingar. Erindinu hafi að sögn nefndarmanna verið vel tekið þá, en því síðan svarað skriflega þann 15. nóvember 1994 af Bandaríkjamönnum á neikvæðum nótum og vísað í samninginn frá 7. júlí 1970. Landeigendur hafi ritað utanríkismálanefnd Alþingis bréf þann 24. febrúar 1996 og beðið um upplýsingar og gögn í málinu. Í svari nefndarinnar þann 11. mars 1996 hafi komið fram að ekki væri unnt að verða við þeim óskum þar sem gögnin væru trúnaðarmál. Hafi landeigendum verið vísað á ráðuneytið.
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hafi óskað eftir því við umhverfisráðuneytið með bréfum, dags. 13. júní 1994 og síðar, að Bandaríkjaher yrði krafinn um upplýsingar um ruslahaugana á Heiðarfjalli. Þann 29. mars 1995 hafi þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, ritað varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, William J. Perry, bréf þar sem raktir hafi verið málavextir og innt eftir skýringum á tilvist úrgangs með spilliefnum og jafnframt hafi verið hvatt til þess að náð yrði samkomulagi við landeigendur. Bréfinu hafi verið svarað 22. júní 1995 af H.W. Gehman, Jr., varaflotaforingja og hafi hann vísað á íslenska utanríkisráðuneytið. Hins vegar hafi umhverfisráðuneytið ritað svæðisnefnd um heilbrigðiseftirlit á Norðurlandi eystra bréf þann 10. september 1996 og talið á grundvelli álits frá Hollustuvernd ríkisins, að ekkert hafi komið fram sem gæfi vísbendingu um alvarlega mengun á Heiðarfjallssvæðinu. Hollustuvernd hafi ætlað að taka sýni til þess að staðreyna mengun en landeigendur hafi ekki viljað samþykkja það. Staðreyndin hafi hins vegar verið sú að landeigendur hafi ekki getað sætt sig við vinnubrögðin. Þeir hafi viljað nákvæma og vísindalega rannsókn sem m.a. myndi leiða í ljós hvaða efni væru í haugunum en Hollustuvernd hafi viljað sýnatöku utan hauganna en þá væri tilviljunum háð hver útkoman yrði. Svör landeigenda hafi átt sér nokkra forsögu en þeir hefðu fengið bréf frá virtu belgísku fyrirtæki þann 27. mars 1990, þar sem lýst hafi verið aðferðum við að kanna mengun á svæðinu. Stefnendur hafi viljað fara eftir þessum aðferðum en í bréfi umhverfisráðuneytisins til landeigenda, dags. 17. júlí 1991, hafi verið talað um að það væri óæskilegt og varasamt að grafa upp haugana á Heiðarfjalli.
Landeigendur hafi einnig ritað William J. Perry varnarmálaráðherra um málið þann 9. desember 1995. Hvorki því bréfi né bréfi frá 9. mars 1996 hafi verið svarað.
Landeigendur hafi ritað utanríkisráðuneytinu bréf, dags. l. janúar 1997, og beðið um upplýsingar í samræmi við upplýsingalög nr. 50/1996. Landeigendur hafi nær eingöngu fengið skjöl sem þeir höfðu þegar undir höndum, en aftur á móti hafi þeir ekki fengið skjöl er vörðuðu samskipti bandarískra og íslenskra stjórnvalda í málinu og landeigendur hefðu lagt mikla áherslu á að fá.
Þá hafi Hreppsnefnd Þórshafnarhrepps ritað utanríkisráðuneytinu bréf þann 5. júlí 2000 og beðið um að ráðuneytið sæi til þess að eigandi úrgangsins á Heiðarfjalli fjarlægði hann af fjallinu. Í svari ráðuneytisins 28. ágúst 2000 hafi komið fram að það teldi að nægjanleg hreinsun hefði farið fram en utanríkisráðherra hafi lýst vilja sínum til þess að fara á svæðið og kynna sér aðstæður þar.
Samtökin Landvernd hafi ritað utanríkisráðuneytinu bréf 5. júlí 2000 með fyrirspurnum um frágang úrgangs varnarliðsins á Heiðarfjalli og í svarbréfi ráðuneytisins 6. október 2000 hafi komið fram að ráðuneytið teldi ekki að nokkuð væri athugunarvert við ástand mála á Heiðarfjalli.
Stefnendur hafi ritað sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Barböru J. Griffiths, bréf þann 26. júní 2000 og 11. október 2000 þar sem gerð hafi verið krafa til þess að Bandaríkin leiðréttu það ástand sem á væri komið með geymslu úrgangs með spilliefnum á Heiðarfjalli. Einnig hafi Madeleine Albright utanríkisráðherra Bandaríkjanna verið sent bréf sama efnis er hún hafi verið á ferð á Íslandi 29. september 2000. Engin svör hafi borist við þessum bréfum.
Er þess getið að málið hafi komið til kasta Alþingis á 125. löggjafarþingi er 2 þingmenn Vinstri-grænna hafi lagt fram þingsályktunartillögu um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu (þskj. 650). Tillagan hafi ekki fengið afgreiðslu á því þingi.
Þess er getið að í ratsjárstöð Bandaríkjahers á Gunnólfsvíkurfjalli sé enginn úrgangur urðaður á fjallinu. Allur úrgangur sé fluttur á brott til geymslu annars staðar eins og raunar hafi verið gert við fjarskiptastöð Bandaríkjahers á Hrauni við Grindavík árin 1954-1969. Árið 1989 hafi bandaríska varnarliðið lagt fram um 9 milljónir Bandaríkjadala til byggingar nýrrar vatnsveitu fyrir Keflavík og Keflavíkurflugvöll þar sem grunur hafi leikið á að vatnsból Bandaríkjamanna væru orðin menguð vegna spilliefna. Þessi árangur hafi náðst með samningi (memorandum), dags. 17. júlí 1989. Í júlí 1991 hafi bandaríska varnarliðið staðið fyrir hreinsunum á Straumnesfjalli á Vestfjörðum, þar sem varnarliðið hafi áður rekið ratsjárstöð. Þegar bandaríska lóranstöðin á Sandi á Snæfellsnesi hafi verið lögð niður hafi það verið skoðun utanríkisráðuneytisins að gengið yrði frá eins og komið var að. Þá skilmála hafi Bandaríkjamenn samþykkt ef á myndi reyna. Á Sandi hafi úrgangi heldur ekki verið komið fyrir kerfisbundið á eigninni. Hann hafi allur verið fluttur á brott.
Þegar eigendur Eiðis hafi farið fram á að fá upplýsingar um málið hjá íslenska utanríkisráðuneytinu, hafi þeim verið vísað á bandaríska varnarliðið, sbr. það sem áður hafi komið fram og bréf utanríkisráðuneytisins til landeigenda, dags. 12. júní 1991. Þegar eigendur hafi svo snúið sér til þangað hafi þeim verið vísað til baka á utanríkisráðuneytið samkvæmt samningi sem þeir hafi gert við yfirmann varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sbr. áðurnefnt bréf yfirmanns bandaríska varnarliðsins, dags. 23. febrúar 1993.
Stefnendur hafi margsinnis farið fram á að Bandaríkjaher og íslensk stjórnvöld létu fjarlægja úrgang og spilliefni af Heiðarfjalli en því hafi jafnan verið hafnað. Þá hafi stefnendur reynt að kæra geymslu þessarra efna til íslenskra lögregluyfirvalda án nokkurs árangurs. Ennfremur hafi stefnendur reynt að fá Bandaríkjaher til þess að afla heimilda fyrir landi því sem herinn hafi notað undir spilliefni og úrgang en ekki hafi verið orðið við því. Stefnendur hafi höfðað mál til þess að fá skyldu bandarískra stjórnvalda til öflunar heimilda viðurkennda en því máli hafi verið vísað frá dómi (sjá, dóm Hæstaréttar í dómasafni ár 1998, bls. 374 ).
Fram kemur að stefnendum hafi ekki verið kunnugt um hversu djúpt í jörð efni úr úrgangshaugum hafi komist með sigvatni, en blý yfir leyfilegu hámarki í drykkjarvatni, hafi mælst í vatnslind u.þ.b. 200 metrum neðan við úrgangshauga og langt utan þess svæðis sem skilgreint sé með ofangreindum hnitum. Afleiðing af fyrrgreindum notum bandarískra stjórnvalda sé að eigendur geti ekki nýtt jörðina áfram í fiskeldi og matvælaframleiðslu, með úrgang frá Bandaríkjaher ofan við vatnsból og svæðið. Að bandarísk stjórnvöld séu því með báðar jarðirnar Eiði I og II í óbeinni notkun eða að umráð hafi verið tekin af löglegum eigendum hvað þetta atriði varði.
Við endurupptöku málsins á dómþingi 1. nóvember 2001 lögðu stefnendur fram viðbótarupplýsingar þar sem áréttað var að stefna í málinu hafi réttilega verið birt forseta og tveimur ráðherrum stjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku. Hafi það verið gert með löglegum fyrirvara að íslenskum lögum, sem teljist einn mánuður samkvæmt 3. tl. 91. gr. laga nr. 91/1991, og einnig með löglegum fyrirvara samkvæmt þjóðréttarvenju, sbr. tilvitnað bréf frá bandaríska sendiráðinu til utanríkisráðuneytis Íslands. Í því bréfi hafi ráðuneytinu verið bent á að birta bæri samkvæmt diplómatískum leiðum sem stefnendur hafi reynt í tvígang. Í fyrra skiptið hafi utanríkisráðuneytið tekið sér of langan umhugsunarfrest áður en stefnan hafi verið afhent en í síðara skiptið hafi ósk um áframsendingu stefnu verið hafnað. Sendiráði Bandaríkjanna hafi þá verið gert viðvart og þar sem það hafi neitað viðtöku hafi stefnendur aðeins átt þá leið færa að láta birta stefnu fyrir forseta Bandaríkjanna, sem æðsta handahafa framkvæmdavalds, einnig utanríkisráðherra þar sem tíðkist að þjóðarétti að birta honum stefnu f.h. ríkis og jafnframt hafi varnarmálaráðherra verið stefnt þar sem þær stofnanir sem undir hann heyri beri ábyrgð á geymslu úrgangsins á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli. Þessum þremur aðilum hafi öllum verið löglega stefnt samkvæmt vottorði stefnuvotta í Washington D.C., á vegum fyrirtækis í New York sem sérhæfi sig í stefnum og hafi það verið gert áður en 60 dagar voru til þingfestingardags.
Þá er loks vísað til framlagðs bréfs frá sendiherra Bandaríkjanna, er segi m.a. að Heiðarfjallssvæðinu hafi verið skilað ríkisstjórn Íslands samkvæmt samningi gerðum 1970. Komi þar fram að vegna þess að íslenska ríkisstjórnin hafi samþykkt að taka við svæðinu samkvæmt þeim samningi, falli öll málefni svæðisins undir utanríkisráðuneytið. Hið andstæða hafi komið fram í viðtali við utanríkisráðherra í Fréttablaðinu þar sem hann segi það ekki skyldu íslenskra stjórnvalda að hreinsa til á Heiðarfjalli: Það séu bandarísk stjórnvöld sem hafi haft þær skyldur og það hafi verið gert í samræmi við þær kröfur sem þá hafi tíðkast. Reyndin sé hins vegar sú að svæðið hafi aldrei verið hreinsað og því síður í samræmi við kröfur sem þá hafi verið, t.d. þar sem allur úrgangur og spillefni séu enn í geymslu á svæðinu, án nokkurra öryggisráðstafanna, en íslenska ríkið hafi greint landeigendum frá því að málinu væri lokið af þess hálfu.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Stefnendur telja að ólögleg not Bandaríkjahers af einkaeignum á Heiðarfjalli í landi Eiðis I og II á Langanesi undir geymslu á þúsundum tonna af herstöðvarúrgangi, sem innihaldi spilliefni og “annað mannvirkjarusl” séu viðvarandi, áframhaldandi og heimildarlaus með öllu. Geymslan fari fram í vatnsleiðandi jarðlögum, ofan vatnsbóla, án nokkurra öryggisráðstafana. Eiturefni frá geymslustað fari í vatnsból landeigenda. Eignir stefnenda séu í notkun stefnda án nokkurs samnings. Engra heimilda hafi verið aflað af hálfu Bandaríkjahers eða íslenskra stjórnvalda fyrir þeirra hönd til þess að nýta megi landsvæðið né hafi verið gerðar aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að í té verði látin aðstaða samkvæmt 2. gr. varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951, sbr. lög nr. 110/1951. Ábyrgðum og heimildum samkvæmt leigusamningum frá 3. maí 1954 og l0. desember 1960 hafi verið sagt upp einhliða af leigutaka frá og með 1. september 1970. Þessi fasteign falli ekki lengur undir heimiluð svæði samkvæmt varnarsamningnum og að Bandaríkjaher njóti ekki úrlendisréttar varðandi svæðið eða notkun eignarinnar síðan 1970.
Stefnendur telja nærveru spilliefna sannaða þar sem þau séu sýnileg á yfirborði úrgangshauga og fyrrverandi starfsmenn Íslenskra aðalverktaka hafi staðfest að spilliefni hafi verið grafin í jörðu í stórum stíl. Allur úrgangur frá ratsjárstöðinni hafi verið settur óflokkaður í jörð á hábungu fjallsins.
Stefnendur hafi ætíð haldið því fram að aðilar í utanríkisráðuneytinu væru ekki á nokkurn hátt málsvarar eða umboðsaðilar þeirra sem löglegra eigenda jarðanna og hafi aldrei verið það. Öll mál varðandi fjarlægingu á úrgangi eða hreinsun Heiðarfjalls séu mál stefnda en ekki í umsjón eða verkahring íslenska ríkisins, sem hafi ekki umráð eða lögsögu á svæðinu eða í málinu síðan 1. september 1970. Augljóst virðist af samningum og fyrirliggjandi upplýsingum að bandarísk stjórnvöld hafi leynt íslensk stjórnvöld því að um úrgang og spilliefni hafi verið að ræða á Heiðarfjalli.
Telja stefnendur að afsal íslenska ríkisins fyrir sína hönd og íslenskra ríkisborgara á rétti til bóta á hendur Bandaríkjunum vegna persónulegs skaða eða vegna eignatjóns sem upp gæti komið vegna nota á eigninni, sbr. 2. gr. samningsins frá 7. júlí 1970, geti með engu móti leyst stefnda undan ábyrgð gagnvart stefnendum á meintri ólögmætri og leyndri notkun landsins eftir samningsgerðina og reyndar ekki fyrir hana heldur. Fyrirsvarsmönnum stefnda hafi ætíð verið ljóst eða mátt vera ljóst að afsal réttinda landeigenda samkvæmt samningnum frá 7. júlí 1970 hafi verið óskuldbindandi fyrir stefnendur.
Þegar landeigendur hafi leitað eftir samkomulagi um málið hafi embættismenn íslenska utanríkisráðuneytisins sagt þeim að fara í mál við íslenska ríkið, og m.a. hafi verið bent á að það yrði gert á grundvelli 2. tl. 12. gr. viðbætis við varnarsamninginn um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra. Af 2. mgr. 12. gr. viðbætisins verði þó ekki ráðið að íslenska ríkið hafi tekið á sig ábyrgð á tjóni sem Bandaríkjaher sjálfur valdi íslenskum ríkisborgurum. Greinin nái til tjóns af völdum liðsmanna í Bandaríkjaher, sbr. 1. gr. viðbætis með varnarsamningnum, en ekki til skyldu hersins eða bandarískra stjórnvalda til þess að fara að íslenskum lögum.
Stefnendur kveða bandarísk stjórnvöld vísa ítrekað í samning frá 7. júlí og 18. september 1970 og í bréfi, dags. 30. júlí 1990, frá sendiherra Bandaríkjanna segi m.a.: "Since this site was accepted by the Government of Iceland pursuant to 1970 agreement." Vel megi því vera að ríkisstjórn Íslands hafi tekið á sig einhverja ábyrgð gagnvart Bandaríkjamönnum með þessum samningi en hún geti ekki svipt landeigendur á Íslandi rétti til að gera kröfur á hendur Bandaríkjastjórn um að hún fjarlægi rusl sem herir hennar hafi komið fyrir í jörð til geymslu og spilli fyrir nýtingu eignarinnar og rétti til þess að leita til íslenskra dómstóla með slíka kröfu.
Stefnendur telja að lýðveldið Ísland geti ekki með samningum við Bandaríkin svipt þá umráðum eignar sinnar eða rétti til að nýta eignina efnislega. Vísa þeir til 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Um lagarök að öðru leyti vísa stefnendur í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, sbr. lög nr. 33/1944, 21. gr., er banni afsal á landi með milliríkjasamningum, og 72. gr., um friðhelgi eignaréttar, sbr. lög nr. 97/1995. Jafnframt vísa stefnendur til óskráðra reglna eignaréttar um lögvernd eignarréttinda og eignarréttar. Þá vísa stefnendur til 5. gr. varnarsamningsins, sbr. lög nr. 110/1951, “um að ekkert ákvæði varnarsamningsins skuli túlkað þannig að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum”. Not stefnda hafi valdið tjóni og verulegum óþægindum og séu brot á 257. gr. og 2. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig er af hálfu stefnenda vísað í lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, gr. 14.1., reglugerð um mengunarvarnaeftirlit nr. 786/1999 og lög um náttúruvernd nr. 44/1999, m.a. 44. gr. Að “með athöfnum sínum og athafnaleysi sé stefndi að brjóta gegn nefndum lögum og reglugerðum en íslensk yfirvöld hafi ekki haft löngun til þess að stemma stigu við því”. Stefnendur eigi því ekki annars úrkosta en að höfða mál til þess að knýja fram jákvæðar athafnir af hálfu stefnda.
Samkvæmt 34. gr. laga nr. 91/1991 megi sækja mál vegna fasteignar í þeirri þinghá þar sem hún er. Stefnendur hafi engu að síður kosið að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 33. gr. um að íslenska ríkið verði sótt fyrir dómi í Reykjavík og ákvæðum 4. mgr. 32. gr. vegna staðsetningar sendiráðs Bandaríkjanna.
Dómur Hæstaréttar frá 28. janúar 1998 í máli landeigenda gegn bandarískum stjórnvöldum, varnarliði Bandaríkjanna og íslenska ríkinu til vara útiloki ekki að stefnendur höfði mál þetta gegn Bandaríkjum Norður-Ameríku. Eldra málið hafi snúist um kröfu landeigenda um að bandarísk stjórnvöld öfluðu sér heimilda á Heiðarfjalli til afnota fyrir geymslu á hernaðarúrgangi. Í dómi Hæstaréttar segi, að í varnarsamningnum séu engin ákvæði um það að bandarísk stjórnvöld eða varnarlið Bandaríkjanna á Íslandi skuli sæta lögsögu íslenskra dómstóla um ágreining sem að slíku kann að lúta. Krafa í þessu máli sé allt annars eðlis eins og að framan hafi verið rakið. Þess beri að geta að engin ákvæði séu heldur um það í varnarsamningnum að bandarísk stjórnvöld eða varnarlið Bandaríkjanna skuli ekki sæta lögsögu íslenskra dómstóla um ágreining í máli sem þessu. Stefnendur telja einnig að til úrslitayfirráða Íslands yfir íslenskum málefnum skv. 5. gr. varnarsamningsins eigi að telja lögsögu íslenskra dómstóla í íslenskum málefnum svo og úrslitayfirráð löglegra íslenskra eigenda yfir málefnum einkaeigna sinna á Íslandi.
Af hálfu stefnenda er vísað til þess að eignarréttur íslenskra þegna sé rétthærri úrlendisrétti Bandaríkjanna á Íslandi og þar sem bandaríski herinn og þar með bandarísk stjórnvöld hafi hér fasta starfsstöð og virði ekki rétt fasteignareiganda á Íslandi verði þau að þola dóm hér á landi um að hirða eignir sínar og úrgang af og úr jörð stefnenda.
Þótt það sé meginregla samkvæmt þjóðarétti að stjórnvöld í einu landi verði ekki sótt fyrir dómi í öðru landi séu almennt viðurkenndar undanþágur frá þeirri reglu. Ör þróun hafi orðið í þjóðarétti á síðustu áratugum í þá veru að auka undantekningar enda sé starfsemi ríkja ekki eingöngu bundin við beitingu réttinda þeirra sem ríkis (jus imperii) heldur hafi einnig aukist hvers kyns starfsemi á sviði verslunar og samskipta með einkaréttarlegu ívafi í öðrum ríkjum og gildi þá réttur vettvangsríkisins (jus gestiorum). Ekki hafi verið lögfestar reglur um þetta hér á landi en í Bandaríkjunum hafi verið sett lög, "The Foreign Sovereign Immunities Act of 1976", sem afmarki þessar reglur og í þeim komi m.a. fram að erlent ríki verði ekki undanþegið lögsögu bandarískra dómstóla ef mál varði fasteign í Bandaríkjunum eða lögskipti sem varði eignir þar og fram fari á bandarísku umráðasvæði. Með því að bandarískur borgari eða lögaðili gæti stefnt íslenska ríkinu fyrir dómstól í Bandarikjunum vegna sams konar kröfu og hér sé höfð uppi, telja stefnendur að eðli máls samkvæmt eigi gagnkvæmni og jafnræði að ríkja. Með sama hætti geti þeir því stefnt Bandaríkjunum fyrir dóm á Íslandi.
Vegna framangreindrar undanþágureglu þjóðaréttar gildi um réttarsambandið almennar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar þar sem krafa stefnenda sé einkaréttarlegs eðlis þótt gagnaðilinn sé ríki. Stefnendur telja mikilvægt að krafa þeirra sé ekki skaðabótakrafa vegna tjóns eða krafa þess eðlis sem hugsanlega gæti fallið undir meðferðarreglur varnarsamningsins, heldur krafa um skyldu til athafnar sem stefnda beri einum skylda til að framkvæma. Stefnendur telja að um nýtingu eignar hér á landi geti aðeins verið fjallað af íslenskum dómstólum og að unnt sé að stefna bandarískum stjórnvöldum sem aðila í málinu og þá verði bandarísk stjórnvöld ekki undanþegin lögsögu í slíkum efnum samkvæmt 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eða samkvæmt þjóðarétti. Ekkert ákvæði sé um það í varnarsamningnum að íslenskir borgarar geti ekki stefnt bandarískum stjórnvöldum fyrir dóm á Íslandi en hins vegar séu ákvæðin um greiðsluskyldu ríkisins vegna skaðabóta til íslenskra borgara bersýnilega hugsuð sem hægðarauki fyrir þá.
Stefnendur telja nýtingu stefnda á landi stefnenda vera óheimila samkvæmt íslenskum lögum og því eigi stefnendur lögvarða kröfu um að fjarlægður verði af eign þeirra sá úrgangur sem til óþurftar sé og skaða fyrir stefnendur.
Að mati stefnenda komi fyrning ekki til álita í þessu máli þar sem hið ólögmæta ástand sé áframhaldandi og eigi heldur tómlæti af hálfu stefnenda sem hafi barist látlaust fyrir hreinsun af hálfu stefndu og síðar fjarlægingu úrgangs eftir að ljóst hafi orðið á árinu 1989 að um stórfellda og leynda geymslu á úrgangi og mannvirkjarusli hafi verið að ræða. Barátta stefnenda hafi aðeins mætt sinnuleysi af hálfu stefnda en gífurleg áhersla hafi verið lögð á það í Bandarikjunum að leiðrétta svipuð mál þar, m.a. vegna spillefna frá síðustu heimsstyrjöld.
Þar sem stefndi sé með eign stefnenda í áframhaldandi og viðvarandi heimildarlausri og ólöglegri notkun undir geymslu á úrgangi og öðru mannvirkjarusli og um sé að ræða nytjastuld, sem valdi stefnendum tjóni og verulegum óþægindum, þá geri stefnendur þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til greiðslu dagsekta fjarlægi stefndi ekki úrganginn. Stórfelldir hagsmunir séu í húfi fyrir stefnendur, atvinnulegir, félagslegir og fjárhagslegir, og til þess að dómur um kröfu stefnenda hafi einhver áhrif sé nauðsynlegt að ákvarða háar dagsektir. Gerð sé krafa um kr. 150.000 sem sé ekki há fjárhæð þegar litið sé til annarra mála um þau efni og verði að telja hverfandi hagsmuni í húfi miðað við hagsmuni stefnenda. Um heimild til dagsekta vísa stefnendur til 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Við endurupptöku málsins komu stefnendur að viðbótarröksemdum í málinu. Að vegna fullyrðinga sendiherrans um að á árinu 1970 hafi landsvæðinu á Heiðarfjalli verið skilað ríkisstjórn Íslands með milliríkjasamningi, beri að taka fram að sá samningur hafi ekki falið í sér yfirtöku íslensku ríkisstjórnarinnar á niðurgröfnum og leyndum úrgangi og spilliefnum. Íslenska ríkið hafi ekki viljað taka á sig ábyrgð á ástandinu, en í samningum sé hins vegar afsalað réttindum eigenda. Samningur þessi hafi ekki verið eiginlegur milliríkjasamningur sem ætlað hafi verið að breyta rétti á milli ríkjanna eða hafa þau áhrif að annað ríkið skyldi leyst undan skyldum að alþjóðlegum einkamálarétti. Þeir aðilar er málið varði mest, landeigendur, hafi enga vitneskju fengið um samninginn fyrr en rúmum tveimur áratugum síðar. Að sama skapi vísa stefnendur til þess að Bandaríkjamenn hafi verið að hreinsa til eftir sig og fjarlægja rusl á öðrum svæðum.
Eignirnar Eiði I og II hafi ekki verið seldar við gerð afsals 30. nóvember 1974, heldur með kaupsamningi 10. apríl s.á. í því ástandi sem þær hafi þá verið. Hafi kaupendur þá þegar kynnt sér ástand eignanna og sætt sig við að öllu leyti svo sem staðfest hafi verið með undirskrift. Síðar útgefið afsal beri að skoða sem einhliða viðurkenningu seljanda á að kaupandi hafi uppfyllt samningsskyldur. Það hljóti því einkum að vera mál kaupenda að segja til um hvaða eign þeir keyptu, hvaða ástand hafi verið átt við og hvað þeir hafi sætt sig við, en ekki annarra aðila sem ekkert hafi komið að kaupunum. Núverandi eigendur hafi því eignast jörðina í því ástandi sem hún var í við eigendaskipti 10. apríl 1974, og efni afsals skuldbindi ekki eigendur til þess að sætta sig við ástand sem ekki hafi þá verið vitað um, svo sem niðurgrafinn úrgang og spillefni sem hvorki seljendur né kaupendur hafi vitað um fyrr en á árinu 1989, enda gangi afsalið ekki út á afsal vegna ástands á Heiðarfjalli. Vandamál vegna yfirborðsrusls sem seljendur hafi kvartað yfir við sýslumanninn á Húsavík frá árinu 1971, hafi verið rædd sérstaklega við söluna í apríl 1974 og réttindi til að gera kröfur í þeim efnum hafi fluttst yfir til kaupenda. Þegar seljendur hafi gert afsalið hafi það eingöngu verið milli eigenda og seljenda, en ákvæðið um ástand sé óviðkomandi öðrum aðilum og eigi ekki við um ástandið á Heiðarfjalli vegna áframhaldandi nota varnarliðsins eða utanríkisráðuneytisins þar fyrir rusl og hugsanlegar kröfur eigenda í framtíðinni. Megi ekki túlka yfirlýsingu fyrri eigenda í afsali svo að eitthvert afsal hafi farið fram á hugsanlegum síðari kröfuréttindum eigenda gagnvart fyrrgreindum aðilum, slík réttindi hafi þeir öðlast með kaupsamningi. Yfirlýsing seljanda sé aðeins um að kaupendur hafi sætt sig við tiltekin atriði gagnvart seljendum. Kaupendur hafi kynnt sér ástand eignarinnar og sætt sig við að öllu leyti gagnvart seljendum en hvorki kaupendur né seljendur hafi verið sáttir við ástandið á svæði varnarliðsins. Það hafi ætíð staðið til hjá kaupendum að halda áfram kröfum gagnvart utanríkisráðuneytinu eða varnarliðinu vegna ástandsins á H-2 svæðinu á Heiðarfjalli og biðja um leiðréttingar og úrbætur viðvíkjandi ástandi á svæði því sem bandaríski herinn hafi verið með í áframhaldandi notkun. Það hafi seljendur vitað um, sbr. vottfesta yfirlýsingu fyrri eigenda frá 30. janúar 1991, er varði atriði er snúi að þriðja aðila. Þórshafnarhreppur hafi stutt landeigendur í kröfum þeirra um að stefndi fjarlægi úrgang og rusl með spilliefnum af Heiðarfjalli og hafi margítrekað gert þá kröfu til Bandaríkjanna að þetta yrði fjarlægt úr jörðu. Þetta sýni að það séu ekki aðeins sérhagsmunir stefnenda að slíkir brottfluttningar fari fram heldur einnig almanna- hagsmunir, svo sem sjá megi af tilvitnuðum lagaákvæðum í stefnu.
Stefnendur gera loks kröfu um að stefnda verði gert að greiða stefnendum allan málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum reikningi, auk lögbundins virðisaukaskatts á málskostnaðarfjárhæðina, sbr. ákvæði laga nr. 50/1988 og laga nr. 119/1989, en stefnendur teljist ekki virðisaukasskattskyldir aðilar.
Niðurstaða
Stefnendur þessa máls beina kröfum sínum að stjórnvöldum erlends ríkis, stjórn Bandaríkja Norður-Ameríku. Vegna þeirrar meginreglu þjóðaréttar um úrlendisrétt ríkja, að eitt ríki sæti ekki dómslögsögu annars ríkis, er nauðsynlegt að taka afstöðu til sjónarmiða um lögsögu áður en tekin er frekari efnisleg afstaða til krafna og málsástæðna stefnenda í málinu.
Af hálfu stefnenda er því haldið fram að stjórn Bandaríkja Norður-Ameríku njóti ekki úrlendisréttar fyrir íslenskum dómstólum í máli er varði framangreindar ætlaðar athafnir Bandaríkjahers á landi stefnenda. Íslenskir dómstólar hafi því eins og á standi lögsögu til þess að taka mál þetta til efnislegrar meðferðar og eftir atvikum leggja umkrafðar athafnaskyldur á stefnda. Er af hálfu stefnenda einkum byggt á því að ríkjandi sjónarmið í þjóðarétti leiði til þess að þau lögskipti sem hér sé um að tefla teljist einkaréttarlegs eðlis og varði eignarrétt og umráðarétt stefnenda á landi sínu. Er af hálfu stefnenda enn fremur vísað til gagnkvæmnissjónarmiða og rökum leitt að því að í öðrum ríkjum sjái þess stað að dómstólar þar kunni að áskilja sér lögsögu yfir erlendum ríkjum í tilteknum einkaréttarlegum lögskiptum.
Í 2. málslið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir, að dómstólar hafi vald til að dæma mál allra þeirra sem geta verið aðilar nema undantekningar séu gerðar í lögum eða samkvæmt þjóðarétti. Að sama skapi segir í 1. mgr. 24. gr. sömu laga, að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu.
Í 2. gr. varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951, var kveðið svo á, að Ísland myndi afla heimildar á landsvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té yrði látin aðstaða samkvæmt samningum, og bæri Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða gjald fyrir það, en í 12. gr. 2. mgr. viðbætis við varnarsamninginn er fjallað sérstaklega um hversu fari með kröfur, aðrar en samningskröfur, vegna verknaða manna í liði Bandaríkjanna, sem af hlýst tjón á eignum manna eða stofnana á Íslandi eða tjón á lífi eða limum manna þar, nema varðandi kröfur samkvæmt 1. mgr. d-liðar.
Í varnarsamningnum eru engin ákvæði um að stjórn Bandaríkja Norður-Ameríku skuli sæta lögsögu íslenskra dómstóla um ágreining á borð við þann sem hér er fyrir dómi. Reglur alþjóðalaga hafa heldur ekki þótt leiða til slíkrar niðurstöðu í íslenskum rétti, sbr. dóma Hæstaréttar 1961: 613 og 1998: 374. Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnenda að málatilbúnaður í þessu máli teljist eðlisólíkur síðargreindu máli frá sjónarhóli íslensks réttar varðandi úrlendisrétt erlendra ríkja fyrir íslenskum dómstólum. Ber því samkvæmt framangreindum forsendum að vísa máli þessu sjálfkrafa frá dómi. Málskostnaður dæmist ekki.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna dómarans og umfangs málsins.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi
Málskostnaður dæmist ekki.