Hæstiréttur íslands
Mál nr. 309/1998
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Ómerkingarkröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 28. janúar 1999. |
|
Nr. 309/1998. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Árna Gunnarssyni (Andri Árnason hrl.) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur. Ómerkingarkröfu hafnað.
Á var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa notfært sér ástand X til að hafa við hana samræði gegn vilja hennar, þar sem hún hefði sofnað ölvuð í bifreið Á. Talið sannað að Á hefði haft samræði við X án samþykkis hennar og þannig gerst brotlegur við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fangelsisrefsing Á var þyngd frá héraðsdómi en skilorðsbinding refsingar þótti ekki koma til greina. Þá voru X dæmdar miskabætur úr hendi Á. Kröfu Á um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins var hafnað sem of seint fram kominni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Málinu var skotið til Hæstaréttar með stefnu 28. júlí 1998 að ósk ákærða til endurskoðunar samkvæmt a-, b- og c- liðum 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994, til sýknu af ákæruatriðum og endurskoðunar á bótaákvörðun héraðsdóms. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist, að refsing ákærða verði þyngd.
Í greinargerð sinni til Hæstaréttar krefst ákærði þess aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu kæranda verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann ómerkingar á héraðsdómi og heimvísunar málsins. Til þrautavara krefst hann endurskoðunar viðurlaga og bótaákvörðunar hins áfrýjaða dóms.
Hvorki í tilkynningu ákærða um áfrýjun 24. júlí 1998 né í áfrýjunarstefnu var þess getið, að óskað væri ómerkingar og heimvísunar samkvæmt d-lið 147. gr. laga nr. 19/1991. Krafa þessi er of seint fram komin og kemur ómerking og heimvísun ekki til álita nema ex officio.
Ákærða er gefið að sök að hafa haft samræði við kæranda, sem var 16 ára að aldri, er hún hafi sofið ölvunarsvefni í bifreið hans og því ekki getað spornað við verknaðinum. Eins og lýst er í héraðsdómi ber mikið á milli í framburðum þeirra um það hvað gerðist eftir að kærandi kom inn í bifreið ákærða, og liggur ekki ljóst fyrir hve langan tíma ökuferðin tók. Magn alkóhóls í blóði kæranda mældist 0,97 o/oo, en sýni var tekið um einni og hálfri klukkustund eftir að hún fór úr bifreiðinni. Samkvæmt framburði kæranda hafði hún drukkið nokkur glös af landa, veikt blönduðum, áður en hún fór að heiman. Vitni þau, sem báru um ástand hennar eftir að hún fór úr bílnum, fullyrða að hún hafi verið ölvuð, æst og grátandi. Ekki er ástæða til að rengja þann framburð hennar, að hún hafi verið þreytt og vansvefta og sofnað stuttu eftir að ökuferðin hófst. Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samræði við kæranda en fullyrðir, að það hafi verið að hennar vilja og hann hafi hætt um leið og hún sýndi mótþróa. Viðbrögð kæranda, er hún flýði út úr bifreiðinni klæðlítil og í mikilli geðshræringu, styðja framburð hennar um, að hún hafi vaknað við það, að ákærði var að hafa við hana samfarir. Er fallist á það með héraðsdómi, að sannað sé, að ákærði hafi notfært sér ölvun og svefndrunga kæranda til að hafa við hana samræði gegn vilja hennar.
Miðað við eðli og alvarleika brotsins þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Skilorðsbinding refsingarinnar þykir ekki eiga við.
Engra gagna nýtur í málinu um andlega líðan kæranda í kjölfar þessa verknaðar utan skýrslna læknis og hjúkrunarfræðings á neyðarmóttöku vegna nauðgunar og framburðar læknisins fyrir dómi. Ljóst er, að slíkur atburður og hér um ræðir er til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Þykir bótafjárhæðin hæfilega ákveðin 300.000 krónur, sem beri vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá verknaðardegi til uppsögu héraðsdóms og dráttarvexti samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og lögmannskostnað kæranda við að halda fram bótakröfu.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Árni Gunnarsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði K vegna ólögráða dóttur hennar, B, 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. september 1997 til 15. júní 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og kostnað við að halda fram bótakröfu eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. júní 1998.
Sigríður Jósefsdóttir saksóknari gaf út ákæru í máli þessu 24. mars sl., og var málið höfðað með birtingu hennar fyrir ákærða 4. apríl sl. Það var þingfest 24. apríl og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 29. maí sl.
Ákærður er Árni Gunnarsson, kt. 181268-5149, Hálsaseli 20 Reykjavík,
“fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 12. september 1997, í bifreið ákærða með skrásetningarnúmerinu HT 592, þar sem hún stóð á bifreiðastæði við Smyrlahraun í Hafnarfirði, notfært sér, að X fædd 1981, sem hann hafði boðist til að aka heim, hafði sofnað ölvuð í bifreiðinni, til að hafa við hana samræði gegn vilja hennar meðan hún svaf þungum svefni og gat af þeim sökum ekki spornað við verknaðinum.
Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40, 1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu X er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 750.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 12. september 1997 til greiðsludags, svo og málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.”
Svo segir í ákæruskjali.
Af hálfu ákærða var þess krafist við aðalmeðferð málsins aðallega að hann yrði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess var krafist aðallega að miskabótakröfu yrði vísað frá dómi, en til vara að ákærði yrði sýknaður af þeirri kröfu, en til þrautavara að fjárhæð miskabótakröfunnar yrði lækkuð verulega. Verjandi ákærða krafðist málsvarnarlauna samkv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Um málsatvik.
Kl. 0358 hringdi Bergþóra Berta Guðjónsdóttir, Arnarhrauni 20 Hafnarfirði, á Lögreglustöðina í Hafnarfirði og tilkynnti að stúlku hefði verið nauðgað við verslunina Arnarhraun, Arnarhrauni 21. Lögreglumenn fóru þegar á vettvang og hittu fyrir X, og segir í frumskýrslu lögreglunnar að hún hafi verið í miklu uppnámi. Sagði hún lögreglumönnum að sér hefði verið nauðgað. Hún var flutt á neyðarmóttöku vegna nauðgunar á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þar ræddi rannsóknarlögreglumaður við hana, og síðar um daginn var tekin af henni skýrsla.
Meint nauðgun átti sér stað í Daihatsu fólksbifreið, sem lagt hafði verði á móts við spennistöð við Smyrlahraun, spölkorn frá versluninni Arnarhrauni. Tvö vitni voru að því er stúlkan X kom hlaupandi frá bifreiðinni suður Smyrlahraun að versluninni. Hún var illa til reika, klæðlaus að mestu að neðanverðu, en fötin að ofanverðu fráflakandi. Hún var grátandi og kallaði á hjálp. Ungur sonur nefndrar Bergþóru Bertu vakti móður sína með þeim orðum að verið væri að nauðga stúlku fyrir utan húsið.
Meðan verið var að stumra yfir X á gangstétt við verslunina Arnarhraun ók meintur brotamaður á Daihatsu bifreiðinni brott. Bifreiðin og eigandi hennar, ákærði í máli þessu, fundust daginn eftir, þ.e. um kl. 1730 föstudaginn 12. september. Ákærði játaði við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa haft kynmök við X, en með hennar vilja.
Framburður X og ákærða fyrir lögreglu.
X gaf skýrslu fyrir rannsóknarlögreglunni í Hafnarfirði sama dag kl 1440. Hún sagði svo frá að hún hefði farið á dansleik á vegum Flensborgarskóla á veitingastaðinn Astro í Austurstræti í Reykjavík. Hún hefði verið á dansleiknum til klukkan rúmlega tvö, en þá hefði henni sinnast við kunningja á ballinu og ákveðið að fara ein heim. Hún kvaðst hafa verið nokkuð undir áhrifum áfengis, eftir að hafa drukkið bæði landa og bjór. Hún hefði verið þreytt og liðið illa andlega.
X kvaðst hafa gengið sem leið liggur frá Astro í Lækjargötu. Þar fyrir framan veitingastaðinn Tunglið hefði bíll verið stöðvaður. Ökumaður hefði verið einn í bílnum og hefði hann boðið henni far. Hann hefði spurt hana hvert hún væri að fara og sagst geta skutlað henni, þar sem hann væri sjálfur á leið í Garðabæ.
X sagði í lögregluskýrslunni að ökumaður hefði ekkert talað við sig frekar á leiðinni. Fljótlega eftir að hún kom í bílinn hefði hún sofnað í framsætinu. Þegar hún hefði vaknað aftur, hefði hún verið ein í bílnum og þá verið búið að breiða yfir hana teppi og setja kodda undir höfuð henni. Bíllinn hefði ekki verið í gangi, og kvaðst hún hafa séð að hún var stödd „einhvers staðar fyrir utan bæinn fyrir framan stórt hvítmálað járnhlið og hjá því var mikill trjágróður og hefði hún ekkert hús séð.“ Síðan segir frá því í skýrslunni að X hafi kannað bílinn nokkuð að innanverðu og gat lýst hlutum sem í honum voru. Hún kvaðst hafa séð að á miðju stýrishjóli var „broskall“og að í hanskahólfi voru margir boðsmiðar á veitingastaðinn Írland. Að því búnu segir í skýrslunni orðrétt:
„X... segist hafa verið vakandi þegar ökumaðurinn kom aftur í bílinn og telur hún að hann hafi ekki verið lengi í burtu. Sagðist ökumaðurinn hafa verið að heimsækja vin sinn og síðan ræddu þau ekkert frekar saman. Hún segir að ekið hafi verið eftir malarvegi nokkra stund og fannst henni að dempararnir væru lélegir í bílnum. X... segist hafa sofnað fljótlega aftur og reiknað með þvX að þau væru á leið X Hafnarfjörð.
X... segist hafa vaknað aftur við það að ökumaðurinn var að hafa við hana samfarir. Hafði hann náð að klæða hana úr að neðanverðu án þess að hún rumskaði, en hún var fullklædd að ofan, þ.e. X brjóstahaldara, bol, vesti og leðurjakka. Um leið og hún áttaði sig á því sem var að gerast segist X... hafa [orðið] mjög skelkuð og kallað á hjálp og barist um á hæl og hnakka. Hefði hún bæði sparkað og lamið frá sér, en maðurinn hefði haldið áfram að hafa samfarir við hana. Segist X... vera viss um að hann hafði sáðlát og að því loknu settist hann upp og sagði henni að slappa af. Þá segist X... hafa gripið það sem hún sá af fötunum sínum á gólfinu í bílnum og náð að hlaupa út. Segist hún hafa hlaupið og kallað á hjálp og fljótlega hefði fólk komið henni til aðstoðar.
X... segir að maðurinn hafi reynt að grípa í sig þegar hún fór út úr bílnum og sennilega hefur ein tala rifnað af leðurjakka hennar við það. Hún er ekki viss um það hvort maðurinn hafi farið út úr bílnum á eftir henni, en hann ók í burtu í miklum flýti um leið og fólkið kom henni til aðstoðar.”
Ákærði gaf skýrslu fyrir rannsóknarlögreglunni í Hafnarfirði að kvöldi föstudagsins 12. september 1997. Í skýrslunni er þetta haft eftir honum:
“Kærði segist vera saklaus af nauðgun eða misneytingu.
Kærði viðurkennir að hafa ekið stúlku, sem sagðist heita X..., frá Lækjargötu í Reykjavík til Hafnarfjarðar.
Aðspurður um það hvort kærði hafi haft samfarir við X... í bílnum s.l. nótt þá svarar kærði eftirfarandi: “Ég viðurkenni að hafa sett liminn ínn í leggöng hennar einu sinni, en dregið hann út aftur þegar hún sýndi mótþróa. Ég fékk sáðlát um leið og ég dró liminn út og tel ég að ekkert sæði hafi farið inn í hana. Ég tel að ekki hafi verið um eiginlegar samfarir að ræða þar sem samfarahreyfingar voru ekki hafnar þegar ég hætti.”
Kærði segist hafa stöðvað fyrir framan veitingastaðinn Tunglið um kl. 02:00 s.l. nótt og farið út úr bílnum Hann segist hafa gefið sig á tal við Í... þar sem hún stóð á miðri götunni. Skömmu seinna hefði hann ekið framhjá sama stað aftur og þá hefði X... gefið honum merki um að stöðva og beðið hann um far í Hafnarfjörðinn. X... var greinilega undir áhrifum áfengis, en virtist ekki ofurölvi.
Á leiðinni segist hann hafa rætt við X... um daginn og veginn. Hún hefði sagt að hún byggi á Álftanesi og leigði í Hafnarfirði og starfaði í P. Þá hafi X... virst niðurdregin og farið að gráta og hafi kærði spurt hana hvað væri að og í framhaldi af því hefði hún lagt höfuðið á öxl hans og hann reynt að hugga hana.
Á gatnamótum Hafnafjarðarvegar og Lyngáss hafi X... beðið hann að stöðva því hún þyrfti að fara út og kasta upp. Kærði segist hafa ekið út í kantinn og beðið í bílnum nokkra stund. Þegar X... kom aftur að bílnum þá var hún með buxurnar niður á hnjám. Þá segist kærði hafa farið út úr bílnum og aðstoðað X... við að taka upp um sig buxurnar þar sem hún hafði sest í framsætið.
Fram að þessu hafði X... ekki sagt hvert hún ætlaði í Hafnarfjörðinn. Þegar kærði ók af stað aftur segir hann að X... hafi hallað sér upp að öxl hans aftur og hefði kærði þá spurt hana hvar hún ætti heima í Hafnarfirði. Kærði segir að X... hafi svarað að hún ætti heima uppi á Holti og þegar kærði spurði nánar þá sagðist hún eiga heima í Hraununum. Þegar kærði gekk á hana frekar að segja sér hvar hún ætti heima þar svaraði X... að hún vildi ekki fara heim strax og bað hann að keyra eitthvert. Kærði segist hafa rúntað um Hafnarfjörðinn og hefði kærði látið vel að X... á meðan þ.e. stokið henni og lét hún sér það vel líka.
Kærði segist hafa stöðvað af tilviljun í Arnarhrauni við verslunina þar og hefði hann reynt að fá X... til að segja sér hvar hún ætti heima, en hún hefði endurtekið að hún vildi ekki fara heim. Þar sem þau voru stöðvuð fóru þau að kyssast og eitt leiddi af öðru og hefði hann strokið á henni brjóstin og hneppt frá henni blússunni og seinustu hnappanna hefði hún hneppt sjálf. Kærði segir að buxurnar hafi verið óhnepptar og þegar hann fór að strjúka henni þá lyfti hún sér upp þannig hafi [svo] hún farið úr annarri skálminni og hann aðstoðað við það. Segir kærði að X... hafi farið sjálf úr öðrum skónum og sett annan fótinn upp á mælaborðið eftir að hún hafði farið úr skónum og annarri buxnaskálminni. Kærði segir að X... hafi farið úr nærbuxunum, þ.e. með hægri fótinn um leið og hún fór úr skálminni, en nærbuxurnar hafi hangið við vinstri fótinn.
Kærði segir að þau hafi verið í framsætinu þegar þetta var og eftir að hún hafi sett annan fótinn upp á mælaborðið þá færði kærði sig fyrir framan [svo] hana og eins og fyrr segir náði að setja liminn inn. Strax og það gerðist þá sagði hún nei og ýtti honum frá og sagði að hann mætti þetta ekki. Kærði segist ekki hafa þvingað hana á nokkurn hátt og dregið sig strax til baka. Í framhaldi [af] þessu fór X... út úr bílnum og stendur þar í u.þ.b. hálfa mínútu grátandi og reyndi kærði þá að fá hana inn í bílinn aftur með fortölum. Hún sinni því ekki en teygði sig inn í bílinn og sótti skóinn sem hún hafði farið úr og bauðst kærði þá enn og aftur til að aka henni heim.
Kærði segist hafa heyrt X... öskra eitthvað og hlaupa í burtu. Hann segist þá hafa startað bílnum og ætlað að aka á eftir henni til að fá hana inn í bílinn aftur. Þegar hann kom fyrir hornið þar sem verslunin var þá sá hann að einhverjir tveir voru komnir X... til aðstoðar þar sem hún sat á hækjum sér við verslunarvegginn. Kærði segist hafa panikerað þegar þarna var komið sögu og ákveðið að fara beint heim.
Kærði ítrekar að öll samskipti hans og X... í bílnum hafi verið með hennar samþykki. Hún hafi kysst hann á móti og aðstoðað við að fara úr blússunni og buxunum. Þá neitar kærði því að hafa nokkurn tímann beitt X... ofbeldi af nokkru tagi til að koma fram vilja sínum. Þá segir kærði að X... hafi ekki verið ósjálfbjarga í bílnum sökum ölvunar.
Kærði segir að X... hafi aldrei sofnað í bílnum.
Kærði segist aldrei hafa skilið X... eina eftir í bílnum.
Kærði neitar að hafa búið um X... í teppi og sett kodda undir höfuðið á henni.“
X var yfirheyrð í annað sinn af rannsóknarlögreglu 19. september 1997 um það sem á milli bar í skýrslu hennar og ákærða. Hún hélt þar fast við fyrri framburð. Í síðari skýrslunni ber X þetta:
Hún hafi ekkert rætt við ákærða og ekkert upplýst um sína persónulegu hagi.
Hún hafi sofnað í framsæti bílsins fljótlega eftir að hún kom inn í hann og vaknað aftur þegar hún var ein í bílnum á ókunnum stað. Þá hafi verið búið að breiða yfir hana teppi og setja kodda undir höfðuð henni.
Það sé rangt að hún hafi ekki viljað fara heim heldur halda áfram að keyra. Henni hafi verið efst í huga að komast heim og fara að sofa.
Hún neitaði því að hafa farið út úr bílnum til að kasta upp.
Hún neitaði því að ákærði hefði látið vel að henni og hún látið sér það vel líka. Einnig að hún hefði aðstoðað hann við að klæða sig úr fötum og þá verið með fullri meðvitund.
Skýrslur X og ákærða fyrir dómi.
Fyrir dómi staðfesti X skýrslur þær er hún gaf fyrir lögreglu.
Hún kvaðst hafa farið frá Astro upp út kl. tvö, gengið í Lækjargötu. Hún hefði verið að ganga þar á gangstétt eða bílastæðum framan við gangstétt, þegar ákærða hefði borið að á bíl sínum. Hún hefði veifað til hans. Hún hefði skilið eftir veski sitt á Astro og verið peningalaus. Ákærði hefði ekki komið út úr bílnum. Hann hefði spurt hana hvert hún væri að fara, og hún hefði sagt honum að hún vildi fara að Móabarði 26 í Hafnarfirði. Hann hefði sagst vera á leiðinni í Garðabæ. Hún sagðist ekki hafa talað við neinn þarna í Lækjargötu og kannaðist ekki við að ákærði hefði komið tvisvar til hennar.
X bar að hún hefði ekki verið mjög drukkin, en mjög þreytt og vansvefta. Nóttina áður hefði hún verið að hjálpa vinkonu sinni við að breyta íbúðinni sem þær vinkonur bjuggu í. Hún kvaðst hafa drukkið landa um kvöldið, þrjú glös af veikri blöndu, en ekki bjór, eins og segir í skýrslu hennar fyrir lögreglu. Hún hefði farið af skemmtuninni í Astro af því að henni hefði sinnast við frænda sinn; hún orðaði það svo að hún „hefði farið í fýlu“.
X lýsti reynslu sinni umrædd nótt mjög á sama veg og fyrir lögreglu. Hún hefði fallið í svefn fljótlega eftir að ákærði ók af stað. Hún hefði þó ekki verið fast sofandi, en meira eins og milli svefns og vöku þegar hún rankaði við sér „einhvers staðar utan bæjar“, að hún taldi. Þegar ákærði hefði ekið þaðan hefði hún fallið í svefn.
Hún kvaðst hafa vaknað við að ákærði hefði verið á milli fóta sér, legið á hnjánum í sætinu. Hefði verið búinn að leggja niður sætið sem hún sat í. Hún hefði verið svo klædd, að hún var í buxum og nærbuxum, sokkum og skóm að neðan, en að ofanverðu í leðurjakka, í hnepptu vesti innan undir, í stuttermabol undir því og í brjósthaldara. Ákærði hefði verið „búinn að opna mig alla að framan og taka mig úr að neðan“. Hún hefði vaknað, orðið „rosalega hissa fyrst. Svo varð ég rosalega hrædd.“ Ákærði hefði verið að reyna að tala við sig. Hún hefði ekkert viljað hlusta á hann. Hún hefði brotist um, lamið til ákærða, spurt hvað hann væri virkilega að gera. Síðan hefði hún gripið það sem hún gat af fötum sínum og rokið út úr bílnum. Hún kvaðst ekki muna nein orð, minnir að hann hafi kallað eitthvað á eftir sér. Hún hafi hlaupið eftir götunni og kallað á hjálp. Hún kvaðst ekki vita hvort hann hefði reynt að fá sig til að koma inn í bílinn aftur. Hún mundi ekki til þess að útvarp hefði verið í gangi í bílnum, sagðist ekki hafa tekið eftir því hvort þar var spiluð músík.
X tók fram að hún hefði ekki vitað hvar hún var þegar hún vaknaði í bílnum.
Í skýrslu sem Rannveig Pálsdóttir læknir tók af X á neyðarmóttöku Slysadeildar var haft eftir X að ákærði hefði slegið hana í hægri kinn. X kannaðist ekki við að hafa sagt þetta. Þá var í sömu skýrslu haft eftir vitninu að ákærði hefði notað munnvatn sitt til að bleyta kynfæri hennar. Hún var fyrir dómi spurð hvernig hún hefði ályktað að ákærði hefði gert þetta. X svaraði að han hefði verið blautur á puttunum. Hún var þá spurð hvernig hún hefði séð það. Vitnið svaraði að hann hefði haldið um lærið á sér. „Ég var öll blaut á lærinu.“ Hún sagði og aðspurð að einhver tími, einhverjar sekúndur, hefði liðið frá því hún vaknaði og þangað til hún brást við aðförum ákærða. X sagði aðspurð að ákærði hefði káfað á kynfærum hennar. „Fyrst varð ég svo rosalega hrædd og þorði ekki að hreyfa mig. Svo vaknaði ég. Ég varð svo hissa, ég vildi ekki trúa þessu.“ Ákærði hefði verið að hafi við hana samfarir.
X ítrekaði í skýrslu sinni fyrir dóminum að hún og ákærði hefðu ekkert rætt saman í bílnum á leiðinni. Hún hefði ekki farið út úr bílnum á leiðinni.
Ákærði staðfesti fyrir dómi skýrslu sína sem hann gaf fyrir lögreglu. Hann gerði athugasemd við þá frásögn sína að X hefði verið grátandi þegar hún fór út úr bílnum frá honum í Smyrlahrauni. Hann sagði fyrir dómi að sig minnti að hún hefði ekki grátið.
Ákærði bar fyrir dómi að það hefði verið einhvern tíma á bilinu tvö til þrjú um nóttina sem hann tók X upp í bíl sinn, þó nær kl. tvö. Hann hefði stansað tvisvar í Lækjargötu, fyrst til að kaupa sér gos í sjoppunni Læk, og þá hefði X verið þar, og þau hefðu talað lítilega saman. Hann hefði svo farið einn rúnt og komið aftur. Þá hefði hún staðið á götunni og veifað. Hún hafi þá spurt hvert hann væri að fara og hann þá sagt henni að hann væri á leið upp í Breiðholt, og hann hafi boðist til að skutla henni í Hafnarfjörð. Hún hefði sagt sér að hún ætti heima í Hafnarfirði.
Ákærði sagði að þau X hefðu spjallað saman á leiðinni og þá hefði hún sagt honum að hún ætti heima á Álftanesi, en leigði í Hafnarfirði og ynni í P.
Ákærði ítrekaði það sem fram kemur í skýrslu hans fyrir lögreglu, að X hefði ekki viljað segja honum hvar hún ætti heima í Hafnarfirði. Hún hefði svarað spurningum hans um þetta með því að segja að hún vildi ekki fara heim og með því að biðja hann aftur og aftur að aka aðeins lengur, aðeins í viðbót.
Ákærði viðurkenndi að hafa sett lim sinn inn í leggöng stúlkunnar X. Það hefði verið með hennar vilja. Hann kvaðst ekki hafa legið ofan á henni. Hún hefði verið í farþegasæti, sem hefði verið hallandi. Hún hefði lyft upp mjöðmum og sparkað af sér skóm. Hann hefði lagst yfir í farþegasætið og legið þar á hnjánum og hún verið með annan fótinn uppi á mælaborði.
Ákærði taldi sig ekki hafa haft „eiginlegt samræði“ við stúlkuna. Eitthvað hefði komið fyrir hjá henni um leið og hann hefði stungið lim sínum inn. Þá um leið hefði hún sagt: „Nei, nei, nei!“ Ákærði kveðst þá hafa hætt samförum. X hefði orðið æst og opnað bíldyrnar. Hann hefði farið yfir í bílstjórasætið. Hún hefði stigið út með buxur og nærbuxur á hægri fæti og skóinn. Hún hefði verið eitthvað að kalla. Hann hefði beðið hana að koma inn aftur og láta sig vita hvar hún ætti heima. Þá hefði hún teygt sig inn í bílinn aftur og náð í skóinn og labbað burt eða skokkað. Hún hefði verið í skyrtu, vesti og jakka að ofan. Búið hefði verið að hneppa þeim flíkum frá. Hann hefði þá ákveðið að setja bílinn í gang og aka á eftir henni til að reyna að fá enn uppgefið hvar hún ætti heima. Hann hefði ekki heyrt hana hrópa á hjálp, einungis heyrt að hún kallaði eitthvað. Útvarpið í bílnum hefði verið í gangi. Hann hefði ekið út að horni verslunarhússins. Þar hefði manneskja verið komin yfir X. „Þá varð ég hræddur og fór í panik og náttúrlega bara panikera.“ Síðan kvaðst ákærði hafa ekið heim til sín.
Nánar spurður um hljómlistina í útvarpi bílsins, sagði ákærði að hún hefði verið í meðallagi hátt stillt, hvorki hátt né lágt.
Ákærði var spurður hver hefði klætt stúlkuna X úr skóm. Hann sagði að það hefði hún gert sjálf. Þá var hann spurður hvort hún hefði reimað frá sér skóna. “Það held ég ekki, hún bara sparkaði skónum af sér.”
Ákærði kvaðst aðspurður ekki alveg gera sér grein fyrir tímanum sem X hefði verið í bílnum hjá honum. Hann kvaðst geta áætlað að það hefði veri u.þ.b. klukkustund, í mesta lagi 70 80 mínútur.
Ákærði ítrekaði fyrir dóminum að X hefði aldrei sofnað í bifreið hans, að hann hefði aldrei skilið hana eftir eina í bílnum og hann endurtók sögu sína um að þau hefðu stansað á leiðinni og hún farið þá út úr bílnum.
Hann sagði aðspurður að sér hefði ekki dottið í hug að láta X út úr bílnum, fyrst hún sagði ekki til heimilis, og ekki heldur að leita hjálpar hjá lögreglu.
Réttarlæknisfræðileg rannsókn.
Sem fyrr segir var farið með X á neyðarmóttöku Slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur. Rannveig Pálsdóttir læknir tók þar af henni skýrslu og rannsakaði hana. Í skýrslu sem ber yfirskriftina Frásögn sjúklings er haft eftir X að ákærði hafi spurt hana í Lækjargötunni hvert hún væri að fara. Hún hefði þá sagst vera að fara í Hafnarfjörð. Hann hafi þá sagst vera á leið í Garðabæ og boðist til að skutla henni. Þá kemur m.a. fram í frásögninni að hún hafi vaknað við að ákærði lá ofan á henni, og þegar hún hafi reynt að ýta honum ofan af sér, hafi hann slegið hana á hægri kinn. Eins atriðis úr frásögn þessari er getið hér að framan.
Niðurstöður sína dregur læknirinn saman í þessum orðum: „Kemur í fylgd lögreglunnar í Hafnarfirði. Er miður sín í byrjun, situr í hnipri og hefur greinilega orðið fyrir áfalli. Jafnar sig furðufljótt , gefur skýra sögu. Við skoðun sjást byrjandi marblettir á handleggjum, roði og eymsli efst á spöng. Olíublettir á höndum. Flúrskin neg., ekki sjást sæðisfrumur við smásjárskoðun sýni tekin til nánari rannsóknar. Tekin eru sýni ve. kynsjúkdóma og hún fær sýklalyf. Þungunarpróf neg., fær neyðargetnaðarvörn. Skoðun og frásögn stúlkunar styðja mjög vel hvort annað.“
Á öðrum stað í skýrslu sinni kemst læknirinn að þeirri niðurstöðu að “roði og byrjandi mar” á upphandleggjum sé „áverki eftir fingur, verið haldið!“
X kom aftur til skoðunar á neyðarmóttöku Slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur 9. desember 1997. Í skýrslu læknisins, Rannveigar, um þá endurkomu segir m.a. um andlegt ástand hennar: „Opin, en fegrar hlutina enn. Er með “sállíkamleg einkenni” frá meltingarfærum. Hefur ekki unnið úr áfallinu enn ekki tilbúin.“
Rannveig Pálsdóttir læknir kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.
Í gögnum málsins kemur fram að blóðsýni sem tekið var á Slysadeild var notað til alkóhólákvörðunar í blóði X. Reyndist alkóhólmagnið vera 0,97 o/oo. Samkvæmt skýrslu Rannveigar Pálsdóttur læknis var blóðsýnið tekið kl. 0530.
Ýmis lífsýni voru tekin úr X, m.a. sýni úr leggöngum. Einnig voru tekin blóðsýni úr ákærða. Sýni þessi voru send Rannsókastofu Háskólans í meinafræði og þaðan til rannsóknar til Rettsmedisinsk Institutt við Háskólann í Osló. Í lokaálitsgerð Gunnlaugs Geirssonar prófessors er lokaniðurstaða orðuð svo: “Niðurstöðurnar samrýnast því að Árni Gunnarsson eigi sæði það, sem fannst í leggöngum þolanda og eru líkurnar fyrir því að finna mann með sama DNA-mynstri minni en 0.001%.”
Skýrslur vitna fyrir lögreglu og dómi.
Freydís Dögg Magnúsdóttir,fædd 1981, gaf skýrslu fyrir lögreglu og fyrir dómi. Hún átti leið um Smyrlahraun ásamt vinkonu sinni, að hún taldi um kl. 0345. Þær gengu fram hjá bifreið ákærða þar sem hún stóð í Smyrlahrauni, skammt frá versluninni Arnarhrauni. Vitnið bar að það hefði heyrt lágværa hljómlist berast frá bifreiðinni. Móða hefði verið á gluggum og ekki unnt að sjá hvað átti sér stað inni í bifreiðinni. Vitnið taldi sig þó sjá að þar væru tvær manneskju, en gat ekki borið um í hvaða stellingu þær voru. Taldi vitnið þessar manneskjur hefðu verið aftur í bifreiðinni. Vitnið taldi að þar hefði verið fólk í ástarleik. Vitnið sem býr þarna í grennd taldi að ekki mætti gera ráð fyrir umferð gangandi fólks þarna að nóttu til. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu sagði vitnið svo frá að það hefði um kl. 04.05, þegar það var komið heim til sín, heyrt kallað á hjálp. Það hefði þá farið út á svalir, en ekki heyrt frekari köll og þá talið að sér hefði misheyrst. Vitnið mundi fyrst ekki eftir þessu fyrir dómi, en kannaðist við að þetta væri rétt, þegar það hafði lesið yfir skýrsluna.
Inga Hanna Gabríelsdóttir, fædd 1981, gaf skýrslu fyrir lögreglu 12. september 1997. Hún á heima á Arnarhrauni 24 Hafnarfirði. Hún var á skemmtun Flensborgarskóla í Astro í Reykjavík, og kom að henni lokinni í rútubíl að Lækjarskóla í Hafnarfirði. Þaðan gekk hún heim til sín í fylgd kunningja síns, Smára Freys Smárasonar, f. 1981. Í lögregluskýrslunni, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, er þessi frásögn höfð eftir Ingu Hönnu: „Þegar hún var á Smyrlahrauni og gekk það til austurs, og var að nálgast Arnarhraunið, hafi hún veitt athygli stúlku, sem kom hlaupandi suður Smyrlahraunið og stöðvaði við verslunina á Arnarhrauni 21. Þar hafi hún og Smári talað við stúlkuna, sem var illa til reika og í miklu uppnámi. Hún hafi verið grátandi og sagt að henni hafi verið nauðgað. Rétt í því hafi komið fólksbifreið frá [svo] sömu leið og stúlkan og hafi hún þá hrópað, þetta er bíllinn og í honum væri maðurinn, sem nauðgaði henni. . . . .
. . . .Þegar hún kom að stúlkunni þá hafi hún verið með jakka yfir sér og í einum sokk, með brjóstahaldara hangandi við sig, en að öðru leyti hafi hún verið fatalaus. Hún hafi haldið á einhverju af fötum.
Mætta segir að fljótlega hafi komið kona á vettvang, frá húsi þarna í nágrenninu og hafi hún verið búin að hringja á lögregluna, sem kom fljótlega á staðinn.“
Fram kom hjá vitninu að því virtist stúlkan vera allmikið ölvuð. Vitnið kvaðst ekki þekkja stúlkuna, hefði aldrei séð hana áður. Að lokum segir í skýrslunni:
„Mætta segir að stúlkan hafi greinilega ekki vitað hvar hún var stödd. Hún hafi sagt við sig að hún hafi verið á leiðinni heim til sín og hélt hún að hún væri stödd í Garðabæ. Hún hafi fullyrt það að henni hafi verið nauðgað og eftir því hvernig hún leit út og hugarástandi hennar efaðist mætta ekki um að það hafi gerst.“
Vitnið Inga Hanna Gabríelsdóttir staðfesti þessa skýrslu sína fyrir dómi. Framburður hennar fyrir dóminum var mjög á sama veg. Þar kom fram að X hefði komið hlaupandi eins og hún væri að flýja. Hún hefði verið í jakkanum sínum, en búið hefði verið að draga bolinn hennar upp fyrir brjóst og brjóstahaldarann líka. Hún hefði haldið á afganginum af fötunum sínum, verið allsnakin á neðan. Hún hefði verið hágrátandi og varla getað talað. Hún hefði kallað á hjálp. Bílnum sem stúlkan hefði sagt að nauðgarinn væri í hefði verið ekið mjög hratt burtu.
Um framburð vitnisins Bergþóru Bertu Guðjónsdóttur, f. 1955, fyrir lögreglu er fyrr getið að nokkru. Hún kom fyrir dóminn og gaf þar skýrslu mjög á sama veg og fyrir lögreglu og staðfesti fyrri skýrslu. Í framhaldi af því að vitnið Bergþóra Berta hringdi í lögreglu fór hún út á götu til að aðstoða stúlkuna, “en þegar hún kom nær sá hún að þarna var um að ræða tvær stúlkur og var önnur að aðstoða hina, en strákur á reiðhjóli stóð aðgerðalaus skammt frá. Bergþóra segir að stúlkan sem verið var að aðstoða hafi sagt að sér hefði verið nauðgað. Segist Bergþóra hafa séð að hún var undir áhrifum áfengis og miklu losti að því er virtist og grét mikið. Bergþóra segir að stúlkan hefi verið í fötum þegar hún kom að, en verið að hneppa að sér blússunni.”
Fyrir dóminum bar vitnið að sonur sinn Hörður hefði vakið sig með orðunum: „Mamma, mamma, það er verið að nauðga stelpu hérna fyrir utan.“ Hún kvaðst hafa stokkið upp og út í glugga og heyrt öskur í einhverri stúlku og séð manneskju bogra yfir annarri og strák standa álengdar. Vitnið hringdi þá í lögreglu. Fór síðan út til aðstoðar. Vitnið sagði að stúlkan sem stumrað var yfir hefði verið grátandi, hún hefði virst vera drukkin og í sjokki.Vitnið kvaðst hafa talað við stúlkuna. Hún hefði sagt: „Mér var nauðgað, mér var nauðgað.“ Hún hefði ekki áttað sig á að hún væri í Hafnarfirði, hefði ekki vitað hvar hún væri. Vitnið sá ekki bíl aka brott, en var sagt að bíll meints nauðgara væri farinn. Vitnið kvaðst hafa trúað stúlkunni.
Hörður Ólafsson,fæddur 1985, sonur Berþóru Bertu Guðjónsdóttur, kom fyrir lögreglu og dóm sem vitni. Hann vakti móður sína sem fyrr er getið. Í lögregluskýrslu hans segir: „Hörður kvaðst hafa vaknað við það að einhver var að kalla á hjálp og heyrði hann að það var kallað nokkrum sinnum mjög hátt. Segist hann hafa vakið bróður sinn fyrst og leit síðan út um gluggann til að aðgæta hvað væri á seyði. Þá segist hann hafa séð að eitthvað var um að vera við verslunarhúsið og heyrði að stúlka kallaði að sér hefði verið nauðgað.
Hörður segist hafa farið strax í framhaldi af því og vakið móður sína, sem síðan fór stúlkunni til aðstoðar.“
Fyrir dóminum bar vitnið Hörður mjög á líkan veg og fyrir lögreglu, m.a. að hann hefði vaknað við öskur og köll á hjálp. Hann kvaðst hafa heyrt að stúllkan hefði kallað að sér hefði verið nauðgað.
Smári Freyr Smárason var sem fyrr segir í fylgd með Ingu Hönnu Gabríelsdóttur. Hann gaf skýrslu fyrir lögreglu og dómi. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu kvaðst hann hafa verið staddur á Smyrlahrauni við Klettahraun þegar hann skyndilega hafi „heyrt að stúlka kallaði mjög hátt á hjálp nokkrum sinnum og hefði hann séð hvar hún var stödd við verslunina Arnarhraun. Mætti segist hafa verið á hjóli og fór hann þegar stúlkunni til aðstoðar og var hann kominn að henni aðeins á undan Ingu Hönnu. Segist mætti hafa spurt stúlkuna að því hvað hefði gerst og sagði hún að henni hefði verið nauðgað. Var stúlkan í mikilli geðshræringu og einnig virtist hún vera undir áhrifum áfengis.“
Vitnið staðfesti lögregluskýrsluna fyrir dóminum. Það sagði fyrir dómi að Inga Hanna hefði komið strax að aðstoða stúlkuna, klæða hana í. Stúlkan hefði verið hágrátandi. Vitnið sagðist hafa séð bifreið koma úr Smyrlahrauninu og aka brott. Ökumaður hefði „gefið í“. Vitnið minnti að stúlkan hefði verið hlaupandi þegar það sá hana fyrst.
F, vinur X, kom fyrir dóm sem vitni. Hann staðfesti að hann hefði verið X og vinkonu hennar, P, til aðstoðar við að breyta íbúð hinnar síðarnefndu næstu nótt fyrir skemmtunina í Astro. X hefði þá búið hjá P á M Hafnarfirði. „Ég held þær hafi ekki farið að sofa alla nóttina,“ sagði vitnið, „alla vega ekki X...“. X hefði sagt sér frá því daginn eftir. Sjálfur hefði hann verið þeim til hjálpar til kl. eitt eða tvö um nóttina. Hann kvaðst hafa umgengist X... mikið á þessum tíma. Vitnið kvaðst hafa farið með X á skemmtunina á Astro að kvöldi næsta dags. Vitnið staðfesti að X... hefði sinnast við frænda sinn og „rauk svo bara í burtu“, kvaðst muna mjög vel eftir rifrildi þeirra. Þau hefðu þá setið í bíl fyrir utan Astro. Eftir að hann hefði verið kominn heim um nóttina, hefði P hringt til sín og þau hefðu farið saman á neyðarmóttöku Slysadeildar til að ná í hana og koma henni heim.
Rannveig Pálsdóttir læknir gaf skýrslu fyrir dómi. Hún staðfesti þær skýrslur sem hún hafði ritað um komu og endurkomu X... á neyðarmóttöku Slysadeildar. Hjá henni kom m.a. þetta fram fyrir dóminum: Vitnið kvaðst enga ástæðu hafa til að rengja frásögn X..., hvorki við fyrstu komu hennar né endurkomu. Um roða og byrjandi mar á upphandleggjum X... sagði vitnið að oft væri erfitt eftir svona stuttan tíma að fá marbletti fram, en þessir áverkar hefðu verið eins og eftir fingur. Þar væri þó um ágiskun að ræða. Slíkir áverkar sæjust sjaldan nema eftir fingur. Um roða og eymsli á spöng ytri kynfæra X... sagði vitnið, að slíkur áverki gæti komið af samförum þegar kynfæri blotnuðu ekki, en hann gæti líka verið eftir aðra hluti, stóla eða eitthvað sem nuddaði, einhvers konar núning. Slíkur áverki gæti líka komið þegar þreifað væri á kynfærum. Hann sæist ekki mjög lengi eftir samfarir, nokkra klukkutíma. Vitnið sagði að enginn áverki hefði verið á X... á kinn. Ekkert annað en þetta benti til þvingaðra samfara, en slíkur áverki gæti stafað af eðlilegum samförum.
Forsendur og niðurstöður.
Að mati dómenda hefur X í máli þessu verið sjálfri sér samkvæm í framburði sínum fyrir lögreglu, í skýrslu sinni á neyðarmóttöku Slysadeildar og í framburði fyrir dómi, um öll meginatriði máls. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu sagði ákærði að X hefði spjallað við sig á leiðinni frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Hún hefði sagt að hún ætti heima á Álftanesi, leigði í Hafnarfirði og ynni í P. X hefur staðfastlega borið að hún hafi ekkert talað við ákærða, en þó sagt honum að hún vildi fara að M í Hafnarfirði, þar sem hún dvaldist. Engin skýring hefur fram komið á því hvers vegna X ætti ekki að hafa viljað fara heim til sín í Hafnarfirði eða hvers vegna hún hefur ekki viljað segja frá dvalarstað sínum þar, ef hún hefur spjallað við ákærða og sagt honum frá heimili sínu á Álftanesi og vinnustað sínum.
X sagði þegar í skýrslu sinni fyrir lögreglu að hún hefði kannað bifreið ákærða að innan nokkuð meðan hún var ein í henni. Hún nefndi m.a. hluti í hanskahólfi hennar, sem voru þar þegar lögregla rannsakaði bílinn. Styður þetta frásögn X.
Athuga ber að ákærði og X þekktust ekkert og að á þeim var mikill aldursmunur. Einnig er á það að líta ákærði tók á sig verulegan krók með því að aka X suður í Hafnarfjörð, ef hann ætlaði sér upp í Breiðholt, eins og hann hefur borið.
X var undir áhrifum áfengis aðfaranótt 12. september 1997. Öll vitni sem nærri henni komu, svo og ákærði, bera um ölvun hennar. Hún var þó samkvæmt alkóhólrannsókn á blóðsýni úr henni ekki mjög drukkin. (Alkóhólmagn 0,97 o/oo, en ath. ber að blóðsýni var tekið kl. 0530) Hún var hins vegar vansvefta og þreytt. Framburður hennar um að hún hefði vakað næstliðna nótt við að aðstoða vinkonu sína við að breyta íbúðinni sem þær bjuggu í fær stuðning af vætti F. Styður þetta þann framburð X að hún hafi sofnað í bifreið ákærða.
Samkvæmt vætti Ingu Hönnu Gabríelsdóttur sem fyrst kom X til aðstoðar við verslunina Arnarhraun, vissi X ekki hvar hún var stödd, hélt sig vera stadda í Garðabæ. Vitnið Bergþóra Berta Guðjónsdóttir bar einnig fyrir dóminum að X hefði verið illa áttuð, hún hefði ekki vitað að hún væri í Hafnarfirði. Dómendur líta svo á að ekki hafi getað hjá því farið að X hefði vitað hvar hún var stödd ef hún hefði verið vakandi í bíl ákærða síðasta spölinn í akstrinum að Smyrlahrauni í Hafnarfirði. Styður þetta frásögn X um að hún hafi verið sofandi er bifreiðinni var ekið í Smyrlahraun.
Samkvæmt framburði ákærða fyrir lögreglu og dómi hafði hann samræði við X, þ.e.a.s. hann setti getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar. Af réttarlæknisfræðilegri rannsókn málsins er sannað að hann felldi sæði í leggöng stúlkunnar, þó að draga megi þá ályktun bæði af framburði ákærða og vætti X, að samræðið hafi staðið stutt.
X flýði út úr bifreið ákærða og frá henni í mikilli geðshræringu, klæðlaus að neðan og fráflakandi að ofanverðu. Hún kallaði hástöfum á hjálp og hrópaði að sér hefði verið nauðgað. Vitnin Inga Hanna Gabríelsdóttir, Smári Freyr Smárason, Hörður Ólafsson og Bergþóra Berta Guðjónsdóttir bera um þetta, og skýrsla og framburður vitnisins Rannveigar Pálsdóttur er þessu til staðfestu. Að mati dómenda er afar ósennilegt að X hefði brugðist við með svo yfirþyrmandi geðshræringu, ef hún hefði hafið samfarir með ákærða af fúsum vilja, eins og hann heldur fram. Geðshræring stúlkunnar og hjálparköll bera því sterklega vitni að hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli.
Við rannsókn á neyðarmóttöku Slysadeildar kom í ljós byrjandi mar á báðum upphandleggjum X. Samkvæmt mati vitnisins Rannveigar Pálsdóttur læknis, gæti þetta bent til þess að henni hefði verið haldið, þó að það verði ekki fullyrt. Einnig komu í ljós roði og eymsli efst á spöng kynfæra, og taldi læknirinn þar um núningsáverka að ræða. Varhugavert er að leggja mikið upp úr áverkum þessum, en dómendur telja þó að fremur en hitt styrki þeir frásögn X að hún hafi mátt þola samræði gegn vilja sínum.
Ákærði ók brott af vettvangi í Smyrlahrauni, og bera vitni að hann hafi ekið hratt. Sjálfur segist hann hafa „panikerað“. Varla hafði hann til þess ástæðu, ef samskipti hans og X voru með felldu að hans áliti. Dómendur telja varhugavert að leggja mikið upp úr þessu atriði máls út af fyrir sig, en álíta þó að fremur veiki það framburð ákærða um að háttsemi hans gagnvart X hafi verið með eðlilegu móti.
Ákærði var handtekinn um kl. 1730 daginn eftir, þ.e. 12. september. Hann gat því haft nægan tíma til að taka úr bíl sínum sönnunargögn, svo sem teppi og kodda.
Að öllu framanrituðu virtu telja dómendur að komin sé fram lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi notað sér ölvun og svefndrunga X til að hafa við hana samræði gegn vilja hennar meðan hún var sofandi eða í svefnrofum, áður en hún hafði komist til þeirrar vitundar að hún gæti spornað við þeim. Með þessari háttsemi gerðist ákærði brotlegur við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992, svo sem talið er í ákæru.
Ákvörðun refsingar.
Ákærði er 29 ára gamall. Hann hefur frá árinu 1987 7 sinnum sætt refsingu, 6 sinnum undirgengist sátt fyrir dómi og einu sinni verið dæmdur, í öll skiptin fyrir brot á umferðarlögum. Síðast hinn 16. mars 1998 gekkst hann undir sátt vegna ölvunaraksturs, 47.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði. Ber að ákvarða honum í þessu máli hegningarauka skv. 78. gr., sbr. 77. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómendur telja refsingu ákærða hæfilega ákveðna 10 mánaða fangelsi, en rétt þykir þeim að fullnustu 7 mánaða af þeirri refsivist verði frestað og að sá hluti refsingarinnar falli niður að liðnum þremur árum frá lögbirtingu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Bótakrafa.
Í málinu gerir Þórdís Bjarnadóttir hdl. f.h. H, vegna ólögráða dóttur hennar, X, kröfu um miskabætur og málskostnað. Miskabótakrafan er að fjárhæð kr. 750.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. september 1997 til greiðsludags.
X á rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja dómendum þær hæfilega ákveðnar kr. 400.000. Rétt er að dæma ákærða til að greiða vexti af þeirri fjárhæð skv. 7. gr. vaxtalaga frá 12. september 1997 til dómsuppsögu, en dráttarvexti skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 er rétt að dæma ákærða til að greiða X kostnað hennar vegna lögmannsaðstoðar, þ.e. lögmannsþóknun Þórdísar Bjarnadóttur hdl. vegna máls þessa, sem skal vera 50.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Dæma ber ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarka Diego hdl., sem skulu vera 100.000 krónur auk virðisaukaskatts, og 100.000 krónur í saksóknarlaun í ríkssjóð.
Dóm þennan kveða upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómendurnir Guðmundur L. Jóhannesson og Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómarar.
D ómsorð:
Ákærði, Árni Gunnarsson, sæti 10 mánaða fangelsi. Fresta skal fullnustu 7 mánaða þeirrar refsingar, og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum þremur árum frá lögbirtingu dóms þessa, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarka Diego hdl., 100.000 krónur auk virðisaukaskatts, og 100.000 krónur í saksóknarlaun í rískissjóð.
Ákærði greiði H , vegna ólögráða dóttur hennar, X, kr. 400.000 með vöxtum af þeirri fjárhæð skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. september 1997 til dómsuppsögu, en dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði H vegna X, 50.000 krónur í lögmannskostnað auk virðisaukaskatts.