Hæstiréttur íslands
Mál nr. 196/2002
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Skýrslutaka
- Miskabætur
- Ómerkingarkröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2002. |
|
Nr. 196/2002. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Börn. Kynferðisbrot. Skýrslutaka. Miskabætur. Ómerkingarkröfu hafnað.
X var ákærður fyrir kynferðismök við stjúpdóttur sína. Fallist var á mat héraðsdóms um að framburður stúlkunnar væri trúverðugur. Það að stúlkan reyndist smituð af tveimur kynsjúkdómum sem X gekk með var talið styðja að um kynferðismök hefði verið að ræða. Þá væri ekkert komið fram sem benti til að það mat héraðsdóms væri rangt að frásögn X um frumkvæði telpunnar að kynferðismökum að honum sofandi væri mjög ótrúverðug. Að þessu virtu var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu X og heimfærslu atferlis hans til refsiákvæða staðfest. Tekið var fram að X ætti sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar bæri að líta til þess að hann braut gegn mjög ungri telpu, 6-7 ára að aldri, sem var stjúpdóttir hans og undir umsjá hans á heimili þeirra. Brást hann þannig með öllu trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni. Atferli hans var gróft og náði yfir ekki skemmri tíma en eitt ár. Ljóst var af fyrirliggjandi gögnum að atferlið hafði valdið henni tjóni, sem hún kynni að búa lengi að, og mátti ákærða vera þetta ljóst. Óhjákvæmilegt væri einnig að hafa í huga framferði X eftir að upp um brotin komst en hann hefði ekki sýnt eftirsjá og reynt að varpa allri ábyrgð yfir á herðar telpunnar. Á hinn bóginn bæri að líta til þess að ákærði hefði ekki áður verið dæmdur fyrir brot gegn lögum. Með framanritað í huga þótti refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Með hliðsjón af greinargerðum sérfræðinga sem höfðu annast stúlkuna og þess að það var virt honum til stórfellds gáleysis að hann lét sig það engu skipta að hann var með kynsjúkdóm sem hætt væri við að smitaðist við athæfi hans var hann gerður bótaábyrgur á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dæmdur til að greiða stúlkunni 1.200.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2002 með skírskotun til heimildar í 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 37/1994, einvörðungu til endurskoðunar á ákvörðun refsingar til þyngingar og til greiðslu miskabóta til A, að fjárhæð 1.200.000 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann sýknu og frávísunar skaðabótakröfu en til þrautavara verulegrar mildunar refsingar, sem verði þá jafnframt skilorðsbundin, og lækkunar á dæmdum skaðabótum.
Ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, sem síðar verður að vikið.
I.
Upphaf máls þessa er kæra, sem félagsmálafulltrúi [...] sendi sýslumanninum á [...] með bréfi 29. janúar 2001 um ætlað kynferðislegt athæfi ákærða í máli þessu gagnvart stjúpdóttur sinni, sem fædd er 1993, en kæran er byggð á frásögn móður telpunnar. Er nánar greint frá efni kærunnar í héraðsdómi. Ákærði var boðaður til rannsóknardeildar lögreglunnar á [...] 31. janúar 2001 og kemur fram í skýrslu, er þá var gerð, að honum væri kunnugt tilefni skýrslutöku og jafnframt að tilgangur hennar væri fyrst og fremst að gefa honum kost á að tilnefna sér verjanda. Tók hann sér frest til þess og tjáði sig ekki um málið að svo stöddu.
Skýrsla var tekin í Barnahúsi af telpunni hinn 6. febrúar 2001 undir stjórn dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, þar sem mætt voru saksóknari, verjandi ákærða, réttargæslumaður brotaþola og fulltrúi félagsmálayfirvalda í [...]. Ragna Guðbrandsdóttir sálfræðingur, starfsmaður Barnahúss, tók skýrsluna og er greint frá henni í héraðsdómi.
Móðir telpunnar kom til yfirheyrslu hjá ríkislögreglustjóra 8. febrúar 2001 og staðfesti þar meðal annars það sem eftir henni var haft í kærubréfi.
Hinn 9. febrúar 2001 mætti ákærði til yfirheyrslu hjá ríkislögreglustjóra ásamt skipuðum verjanda sínum. Var honum kynnt tilefni yfirheyrslunnar, sem væri fram komin kæra á hendur honum fyrir kynferðisbrot gagnvart stjúpdóttur sinni. Kvað hann þessar ásakanir rangar. Var honum kynnt það sem fram hafði komið hjá sambúðarkonu hans við skýrslutöku daginn áður um aðkomu hennar að honum og dóttur hennar í rúmi á gamlaársdag 2000. Sagði hann þessa frásögn ranga og skýrði frá því að honum hefði orðið það á að halda fram hjá henni með sömu konunni þrisvar sinnum og hefði hann sagt henni frá því í októbermánuði 2000. Þau hafi rætt um að slíta samvistir og deilur hafi verið þeirra í milli um forræði sonar þeirra.
Við yfirheyrslu þessa var ákærða tjáð að rannsóknin væri enn á frumstigi og væri verið að afla gagna. Af þessum ástæðum yrði frekari spurningum ekki beint að honum að svo komnu máli. Jafnframt var aflað samþykkis hans til að gangast undir líkamsrannsókn.
Samkvæmt vottorði Jóns R. Kristinssonar barnalæknis og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalæknis 26. febrúar 2001 kom fram við rannsókn á telpunni hinn 7. sama mánaðar að hún var haldin tveimur kynsjúkdómum, kynfæravörtum (condyloma accuminata) og klamidíu (chlamydiu).
Við rannsókn á ákærða á húð- og kynsjúkdómadeild Landpítala háskólasjúkrahúss 13. febrúar 2001 kom í ljós að hann bar kynfæravörtur og samkvæmt vottorði Jóns Hjaltalíns Ólafssonar yfirlæknis deildarinnar 23. apríl 2001 er þar um smitandi kynsjúkdóm að ræða og er tími frá smiti þar til vörtur koma í ljós frá nokkrum vikum upp í eitt ár. Jafnframt kom í ljós að ákærði var einnig haldinn kynsjúkdómnum klamidíu.
Í málinu liggur fyrir minnisblað Braga Guðbrandssonar forstöðumanns Barnaverndarstofu, sem hann segir ritað í beinu framhaldi heimsóknar ákærða til hans 26. febrúar 2001. Kemur þar fram að ákærði hafi greint honum frá vandræðum er hann væri kominn í vegna kæru um kynferðismisnotkun á stjúpdóttur sinni. Hafi hann verið kvaddur til skýrslutöku hjá lögreglu og hafi hún snúist um það er gerst hefði á gamlaársdag 2000. Hins vegar hefði hann nú vitneskju um að ræktast hafi tveir kynsjúkdómar hjá stúlkunni, sem hann taldi líklegt að hún hefði fengið frá sér. Lýsti hann síðan samkvæmt minnisblaðinu nokkrum tilvikum þar sem stúlkan hefði leitað á sig kynferðislega. Hafi þetta hafist á útmánuðum 1999 er hann kveðst hafa vaknað við sáðlát og þá orðið þess áskynja að stúlkan hafi haft við sig munnmök. Hafi þetta síðan endurtekið sig um veturinn alloft, ef til vill tíu sinnum alls. Ekki hafi einungis verið um munnmök að ræða. Hann hafi yfirleitt verið sofandi sjálfur eða á milli svefns og vöku þegar hún hafi hafið atlot sín og því ekki auðvelt að bregðast við þeim. Hann hafi þó ítrekað gert tilraunir til að fá hana til að hætta slíku athæfi og einnig hafi hann rætt þetta við sambúðarkonu sína og mág. Allt hafi komið fyrir ekki. Um sumarið 2000 hafi hann gripið til ráðstafana til að hún hætti þessu. Hann hefði lesið nýlega frásögn konu um sársauka sem hún hefði upplifað sem barn þegar maður hafði haft mök við hana í endaþarm. Kvaðst hann því hafa framkvæmt þennan verknað, en einungis í þetta eina skipti, í þeim tilgangi að gera stúlkuna afhuga sér. Það hafi þó ekki skilað tilætluðum árangri. Bragi Guðbrandsson kom fyrir dóm og staðfesti þar framangreinda frásögn sína.
Að áeggjan Braga leitaði ákærði til Óttars Guðmundssonar sérfræðings í geðlækningum og kom til hans í nokkur viðtöl. Í bréfi sérfræðingsins 10. júlí 2001 kveður hann ákærða hafa sagt sér frá kynferðislegum samskiptum sínum og telpunnar og er frásögn hans á svipaðan veg og fram kom hjá Braga Guðbrandssyni. Hafi verið um að ræða munnmök og mök í endaþarm. Hann neiti allri ábyrgð og segi að allt sem gerst hafi sé stúlkunni að kenna.
Sérfræðingurinn kom fyrir dóm með samþykki ákærða og staðfesti þar efnislega það sem fram hafði komið í umræddu bréfi. Aðspurður sagði hann að ákærði hefði verið í mikilli afneitun á sinni eigin ábyrgð. Afneitun með þessum hætti væri vel þekkt sem og að gerendur kenni brotaþolum um og telji að þeir séu sjálfir þolendur. Hann kvaðst hafa haft marga kynferðisbrotamenn í viðtölum og nokkra í langtímameðferð.
Hinn 11. maí 2001 kom telpan til skýrslutöku á ný í Barnahúsi. Var hún yfirheyrð af sama starfsmanni hússins og áður undir stjórn dómara og að viðstöddum saksóknara, verjanda og réttargæslumanni sínum. Í héraðsdómi er rakið það sem fram kom við skýrslutökuna.
Ákærði kom til yfirheyrslu vegna málsins hjá ríkislögreglustjóra 7. júní 2001 og skýrði þá frá nokkrum tilvikum um kynferðislegt samneyti sitt og telpunnar og var sú frásögn að miklu leyti í samræmi við það sem hann skýrði síðar frá fyrir dómi, eins og rakið er í héraðsdómi.
II.
Aðalkrafa ákærða um ómerkingu og heimvísun er á því reist að verulegir gallar hafi verið á rannsókn málsins. Er þar tiltekið að ekki hafi verið tekin skýrsla af ákærða fyrr en 7. júní 2001 og að telpan hafi ekki verið yfirheyrð á ný eftir að sú skýrsla lá fyrir, sem hefði verið fullt tilefni til með hliðsjón af því sem þar kom fram. Þá telur hann það andstætt grundvallarreglum um réttláta málsmeðferð að sami aðili, þ.e. Barnahús, sjái um skýrslutöku fyrir dómi af telpunni og sé með hana í meðferð sem stuðningsaðili að beiðni móður, sem upphaflega bar ákærða sökum. Meðferð og skýrslutaka í Barnahúsi sé og með endemum og verði ekki á þeim byggt, hvorki rannsóknarskýrslu Vigdísar Erlendsdóttur né skýrslum, er Ragna Guðbrandsdóttir tók af telpunni. Um hafi verið að ræða þrýsting á hana og leiðandi spurningar. Að lokum sé einnig ljóst að rannsóknaraðilar hafi ekkert gert til að afla gagna sem rennt gætu stoðum undir framburð ákærða, t.d. læknisfræðilegra gagna um svefnsjúkdóm, sem ákærði hafi lýst.
Að framan er því lýst hver framvinda rannsóknar máls þessa var hjá lögreglu. Eins og málið bar að þykir ljóst að nokkrum tíma þyrfti að verja til öflunar gagna og þykir það ekki hafa leitt til réttarspjalla þótt dregist hafi nokkuð að heildarskýrsla væri tekin af ákærða, en honum var fljótlega eftir að kæra lá fyrir kynnt efni hennar. Þá verður ekki á það fallist að nauðsynlegt eða rétt hefði verið að taka þriðju skýrsluna af telpunni eftir skýrslutöku af ákærða 7. júní 2001 og var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds og ákærða í þinghaldi 21. febrúar 2002 að ekki væri óskað eftir því að hún kæmi fyrir dóm. Skýrslur í Barnahúsi voru teknar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, af sérfróðum starfsmanni Barnahúss undir stjórn dómara. Ljóst er af myndböndum að telpunni leið illa á meðan á yfirheyrslum stóð og að henni var erfitt að tjá sig um málið. Hafa verður í huga að yfirheyrslur yfir svo ungum börnum eru vandmeðfarnar, enda um viðkvæm mál að ræða. Með hliðsjón af þessu og eftir skoðun á umræddum myndböndum verður ekki fallist á fullyrðingar af hálfu ákærða um að skýrslutökur af telpunni hafi verið óeðlilegar, en þær fóru fram að viðstöddum verjanda hans. Þá verður ekki talið að það horfi til réttarspjalla hér þótt telpan hafi farið í stuðningsviðtöl hjá öðrum sérfróðum starfsmanni Barnahúss.
Við rannsókn og meðferð málsins voru leidd vitni, sem ákærði tilgreindi í framburði sínum til styrktar frásögn sinni og lá vætti þeirra fyrir héraðsdómi við endanlegt sönnunarmat. Ekki þykir skipta máli hér að læknisfræðilegra gagna um ætlaða svefnsýki ákærða var ekki aflað af hálfu rannsóknaraðila og verður þá einnig að líta til þess að ákærði hefur sjálfur ekki talið það ómaksins vert að leggja fram í málinu gögn um meðferð sína hjá lækni af þessu tilefni.
Samkvæmt framansögðu er hafnað ómerkingar- og heimvísunarkröfu ákærða.
III.
Í ákæru er byggt á lýsingum ákærða sjálfs hjá lögreglu um kynferðismök hans við stjúpdóttur sína, sem hann lýsti síðan á svipaðan veg fyrir dómi. Hins vegar hafði hann jafnframt sagt að telpan hefði í öllum tilvikum átt upptökin að þessu að sér sofandi og hann stöðvað hana er hann vaknaði.
Svo sem áður er fram komið var tvívegis tekin skýrsla af telpunni í Barnahúsi og liggja fyrir myndbönd af þeim. Í fyrra skiptið tjáði hún sig nánast ekkert um málið, en í hið síðara komu fram ýmis atriði, sem styðja það að kynferðislegt athæfi hafi átt sér stað, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Kom meðal annars fram að ákærði hefði sagt að hún mætti ekki segja frá, hvernig þau lékju sér og að hann hefði stungið upp á þessum leik. Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hann hafi á einhverju stigi beðið hana að segja ekki frá.
Ekki verður á það fallist með héraðsdómi að það dragi úr sönnunargildi síðari skýrslu stúlkunnar að hún hafði áður verið yfirheyrð. Allt að einu taldi héraðsdómur framburð hennar trúverðugan og er fallist á það mat.
Til stuðnings því að um kynferðismök hafi verið að ræða er einnig að telpan reyndist við læknisrannsóknir smituð af tveimur kynsjúkdómum, sem ákærði gekk með og er á það fallist með héraðsdómi að hafið sé yfir allan vafa að hún hafi smitast af honum.
Í sönnunarmati sínu telur héraðsdómur frásögn ákærða um frumkvæði telpunnar að kynferðismökum að honum sofandi mjög ótrúverðuga. Þegar litið er til alls þess í heild, sem fyrir liggur í málinu, er ekkert fram komið, er bendir til þess að þetta mat sé rangt, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994.
Að þessu virtu verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu atferlis hans til refsiákvæða staðfest.
Ákærði á sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að hann braut gegn mjög ungri telpu, 6 - 7 ára að aldri, sem var stjúpdóttir hans og undir umsjá hans á heimili þeirra. Brást hann þannig með öllu trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni. Atferli hans var gróft og náði yfir ekki skemmri tíma en eitt ár. Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum að atferlið hefur valdið henni verulegu tjóni, sem hún kann að búa lengi að, og mátti ákærða vera þetta ljóst. Óhjákvæmilegt er einnig að hafa í huga framferði ákærða eftir að upp um brotin komst, sbr. 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hann hefur ekki sýnt eftirsjá og reynt að varpa allri ábyrgð yfir á herðar telpunnar. Á hinn bóginn ber að líta til þess að ákærði hefur ekki áður verið dæmdur fyrir brot gegn lögum.
Með framanritað í huga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
IV.
Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 1.200.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. nóvember 2001 til greiðsludags samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Til stuðnings kröfunni er vísað bæði til a. og b. liða 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.
Í héraðsdómi er rakin skýrsla Vigdísar Erlendsdóttur, sálfræðings og forstöðumanns Barnahúss, um meðferð telpunnar þar og niðurstöður hennar. Fyrir héraðsdóm kom einnig Dagbjörg Birna Sigurðardóttir, sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum og almennum geðlækningum, sem átti viðtal við telpuna. Lýsti hún greinilegri vanlíðan hennar og taldi hana sýna töluverð áfallastreitueinkenni, sem sérfræðingurinn taldi stafa af kynferðisbroti gagnvart telpunni.
Samkvæmt vottorði barna- og unglingageðdeildar Landspítala, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, lá telpan á deildinni frá 8. apríl til 7. júní 2002. Einnig hefur verið lögð fyrir Hæstarétt greinargerð Hrefnu Ólafsdóttur, félagsráðgjafa og sérfræðings í meðferð með börn, unglinga og fjölskyldur, sem stundaði telpuna á deildinni og átti við hana samtals 17 viðtöl. Segir þar meðal annars að í fyrstu viðtölum hafi hún sýnt mörg merki um að hafa orðið fyrir áfalli og vera með áfallastreituröskun. Hún hafi einnig verið með önnur einkenni, sem oft hrjái unga þolendur kynferðislegrar misnotkunar, en þau séu einna helst neikvæð sjálfsmynd, markaleysi í samskiptum, að finna til eigin vanmáttar og óeðlileg kynferðisleg hegðan miðað bæði við aldur og þroska. Í niðurstöðukafla greinargerðarinnar segir að á grundvelli þess hve skammtímaeinkenni vegna hinnar kynferðislegu misnotkunar séu mikil megi leiða að því líkur að langtímaeinkenni verði einnig mikil. Sé í rannsóknum talað um að þolendur kynferðislegrar misnotkunar þurfi að takast á við einkenni hennar á breytingartímum í lífi sínu. Það megi því augljóst vera að telpan eigi eftir að takast á við afleiðingar hinnar kynferðislegu misnotkunar á þroskaárum sínum allt fram á fullorðinsár.
Með hliðsjón af framansögðu verður ákærði gerður bótaskyldur samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, þar sem segir að heimilt sé að láta þann greiða miskabætur, sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns. Samkvæmt a. lið sömu greinar skal hið sama gilda um þann, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni. Eins og áður er að vikið verður að telja hafið yfir allan vafa að telpan smitaðist af ákærða af tveimur kynsjúkdómum, er hann gekk með. Samkvæmt áðurgreindu vottorði barnalæknis og kvensjúkdómalæknis komu einkenni þessara sjúkdóma fram við skoðun á telpunni 7. febrúar 2001. Segir þar meðal annars að telpan hafi verið með útbreiddar kynfæravörtur á endaþarmssvæði og á kynfærum alveg að leggangaopi. Var gerð aðgerð í svæfingu 9. febrúar, þar sem vörtur voru fjarlægðar með lasergeislum. Telpan var síðan áfram í lyfjameðferð á sjúkrahúsinu vegna klamidíusýkingarinnar, og þurfti hún að hafa þvaglegg eftir laserbrennsluna til 19. febrúar, en 20. febrúar var hún útskrifuð af sjúkrahúsinu.
Samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi hafði hann tekið eftir því 2 3 árum áður en mál þetta kom upp að vörtur voru á getnaðarlim hans. Fyrst hafi verið aðeins ein, en síðan hafi þeim fjölgað og hélt hann að þær hefðu í lokin verið fjórar. Kvaðst hann ekkert hafa hugsað út í það að þetta væri eitthvað, sem gæti smitast við kynferðisleg samskipti.
Móðir telpunnar sagði við yfirheyrslu hjá lögreglu 8. febrúar 2001 að hún hafi vitað að ákærði hefði verið með eina til tvær vörtur á getnaðarlim sínum er þau hófu búskap, en þeim hafi síðan fjölgað. Hafi ákærði aldrei viljað gera neitt í þessu.
Ákærði vissi samkvæmt framansögðu um vörtur þær, er hann bar á kynfærum sínum, er hann framdi brot sín gagnvart barninu. Hann mátti gera sér grein fyrir því að um kynsjúkdóm væri að ræða, sem hætt væri við að smitaðist við athæfi hans. Verður að virða honum það til stórfellds gáleysis að hann lét sig þetta engu skipta og verður hann því gerður bótaábyrgur einnig á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.
Að þessu virtu þykir rétt að fallast á bótakröfu brotaþolans, þó þannig að upphafstími dráttarvaxta miðist við 22. nóvember 2001, er ákærða var birt bótakrafan.
Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.
Dæma ber ákærða til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 1.200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2001 til greiðsludags.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 3. apríl 2002.
Málið, sem þingfest var 23. nóvember 2001 og dómtekið var 21. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 19. október 2001 gegn X [...],
„fyrir kynferðisbrot með því að hafa, á árinu 2000, nokkrum sinnum haft kynferðismök við stjúpdóttur sína, A, [...], á heimili þeirra að [...], með því að láta telpuna taka getnaðarlim sinn í munn og sleikja, snerta kynfæri hennar með fingrum, leggja liminn að kynfærum telpunnar og viðhafa samfarahreyfingar og í eitt skipti reyna að stinga limnum í endaþarm hennar.
Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta sem hér segir:
1. Þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, nú að fjárhæð kr. 1.690 eða kr. 910 á dag, fyrir það tímabil þjáningabóta tjónþola sem metið verður af dómkvöddum matsmönnum í matsmálinu nr. M 6/2001, en til vara fyrir tímabil að mati dómsins.
2. Bóta fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga í samræmi við væntanlega niðurstöðu dómkvaddra matsmanna í matsmáli nr. M 6/2001 um miskastig tjónþola, en til vara að mati dómsins, allt að kr. 7.808.000.
3. Bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga í samræmi við væntanlega niðurstöðu dómkvaddra matsmanna í matsmálinu nr. M 6/2001 um örorkustig tjónþola og útreikning tryggingastærðfræðings á fjárhæð í samræmi við það mat.
4. Bóta fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga samkvæmt mati dómsins og í samræmi við væntanlegt álit dómkvaddra matsmanna í matsmálinu nr. M 6/2001 um framtíðarþörf tjónþola fyrir meðferð allt að kr. 500.000.
5. Miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga allt að kr. 1.200.000 samkvæmt mati dómsins.
Krafist er hækkunar fjárhæð í kröfuliðum 1 og 2 miðað við dómsuppsögudag samkvæmt 15. og 29. gr. skaðabótalaga.
Krafist er dráttarvaxta í öllum tilvikum frá dómsuppsögudegi eða fyrr að mati dómsins.
Krafist er bóta vegna kostnaðar af því að halda fram bótakröfu.
Loks er krafist dóms um þóknun réttargæslumanns.“
Af hálfu ákæruvaldsins er auk þess, sem fram kemur í ákæru, krafist að ákærða verði gert að greiða allan sakarkostnað.
Við munnlegan flutning málsins var fallið frá að svo stöddu þeim bótakröfum, sem fram koma í ákæru, að öðru leyti en því, að gerð sé krafa af hendi A um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, allt að kr. 1.200.000 eftir mati dómsins. Krafist er dráttarvaxta frá dómsuppsögudegi eða fyrr að mati dómsins. Þá gerir réttargæslumaðurinn kröfu um þóknun vegna réttargæslunnar.
Af hálfu ákærða eru gerðar þær kröfur, aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing ákærða verði svo væg sem lög leyfa. Verjandinn gerir kröfu um málsvarnarlaun og réttargæslulaun að mati réttarins.
Málavextir eru þeir, samkvæmt því, sem segir í bréfi félagsmálafulltrúa [...], til sýslumannsins [...], dagsettu 29. janúar 2001, að B, hafði símasamband við félagsmálafulltrúann þann 26. janúar 2001, „til að tilkynna meint kynferðislegt ofbeldi” af hálfu sambýlismanns hennar, ákærða í máli þessu, gagnvart dóttur hennar, A, en ákærði er stjúpfaðir hennar.
Að ósk félagsmálafulltrúans kom B samdægurs til viðtals við hann á skrifstofu hans.
Í bréfinu segir, að B hafi skýrt svo frá, að á gamlársdag, 31. desember sl. hafi hana farið að gruna, að ekki væri allt með felldu um samskipti X við dóttur hennar, en áður hefði hana ekki grunað neitt óeðlilegt. Þennan dag kvaðst hún hafa fundið blóðugar nærbuxur af A og við það hafi vaknað grunur um að eitthvað væri að. Þennan sama dag um eða rétt eftir hádegi segist hún hafa komið inn í svefnherbergi þeirra og hafi X þá verið uppi í rúmi með A, en um leið og hún hafi komið inn hafi hún kallað til A, og spurt hvað hún væri að gera. Í sömu andrá sagði B, að X hefði snúið sér skyndilegan frá A og til veggjar. Nokkru síðar segir B, að X hafi farið eitthvað út. Hún hafi þá farið að ganga á A og spyrja hana um blóðið í brókinni. A hafi í fyrstu ekkert þóst vita um þetta, en síðan hafi hún farið að lýsa fyrir B, að ákærði hefði haldið saman á sér hnjánum eða lærunum og „hreyft sig mjög hratt”. B hafi þó skilist á A, að ákærði hefði ekki sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar („ekki inn í gatið”). B sagði, að A hefði einnig sýnt henni vörtur, sem hún hafi verið komin með á kynfæri, en X sé með sams konar vörtur við eða á kynfærunum. B sagði, að A hafi ekki sagst muna, hve oft svona eða svipaðir atburðir hafi gerst, en það hafi verið nokkrum sinnum. B sagði, að A hefði átt mjög erfitt með að tjá sig um þetta, hún hafi grátið mikið og stundum ekki getað sagt orðin, sem hún ætlaði að segja nema stafa þau.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði hafið sambúð með B, móður A, vorið 1995. A hafi þá komið á heimili ákærða með móður sinni, en sambúðinni hafi lokið eftir að þetta mál, sem hér er til meðferðar kom upp.
Ákærði skýrði svo frá, að skömmu eftir ársbyrjun 2000, hann mundi ekki dagsetningu nákvæmlega, hafi hann farið á [..] um nótt. Hann hafi komið heim um daginn, en B hafi þá verið að heiman við vinnu fram eftir kvöldi. Hann hafi séð um að koma börnunum í rúmið um kvöldið, en hann hafi síðan tekið með sér sæng og lagst frammi í stofu og horft þar á sjónvarp og beðið þess, að börnin sofnuðu. Hann hafi vaknað einhverju seinna við þá tilfinningu, að hann væri að fá kynferðislega fullnægingu, og hafi þá áttað sig á því, að A var að sleikja á honum kynfærin. Hann kvaðst hafa rifið hana af sér og spurt hana hvað hún væri að gera, skammað hana og rekið hana aftur inn í rúm.
Ákærði kvaðst ekki hafa haft kjark til að skýra B frá þessu þetta kvöld, en hann talaði við hana kvöldið eftir og sagði henni, að telpan hefði leitað á hann. Hann kvaðst ekki hafi farið út í nánari lýsingu á því, sem gerst hafði. Viðbrögð hennar voru mjög hörð og eitthvað á þá leið, hvort hann væri orðinn svo langt leiddur, að hann væri farinn að leita á barnið líka. Hann kvaðst hafa reynt að útskýra, að þannig væri þessu ekki farið, heldur hefði A leitað á hann. Hann hafði spurt B, hvað væri hægt að gera í málinu, hvort hún vildi tala við A og útskýra fyrir henni, að þetta mætti ekki gera. Þessu hafi B neitað og hefði þessi samræða endað með því, að B hafði sagt, að þetta væri hans vandamál.
Ákærði segir, að í apríl sama ár, hafi hann verið við viðgerðarvinnu í landi og verið jafnframt við áfengisdrykkju. Hann hafi komið heim um nóttina og fór að sofa í rúmi sínu og hafði B verið þar einnig. Hann hafa vaknað um morguninn við að búið var að taka getnaðarlim hans út úr brókinni og var hann reistur, en A hafi setið klofvega ofan á honum og verið skaka sér á limnum. Hann hafi rifið hana af sér og skammað hana en hún hafi ekki sagt neitt, en hann hafi rekið hana í burt úr rúminu. Ákærði kvaðst hafa reynt að ræða þetta við móðurina, en viðbrögðin hafi verið svipuð og í fyrra sinnið, að þetta væri hans vandamál.
Ákærði taldi, að líklega í júní eða júlí sama ár, hafi þetta komið upp aftur. Hann hafi í það skipti vaknað við það að morgni til, að A er að sleikja á honum kynfærin og hafi það í raun verið mjög keimlíkt fyrsta skiptinu. Hann hefði í raun vaknað við, að hún ætlaði að spretta upp og hafi ætlað að fara, en hann hafi argað á hana að koma aftur og hafi hann þá rætt þetta mjög ítarlega við hana, hvað væri rétt og rangt í þessu. Hann hafi óskað skýringa á því, hvers vegna hún gerði þetta. Hefði hún meðal annars gefið þá skýringu, að þetta væri gott, eða eitthvað í þá átt. Hann hefði sagt henni, að hún ætti heldur að fikta við sig sjálf. Hann hafi tekið af henni margfalt loforð um að gera þetta ekki aftur, þar sem hún vissi, að hann vaknaði ekki við þetta, sér í lagi ef hann hefði drukkið áfengi.
Ákærði sagði, að enn hefði komið fyrir atvik, hann minnti, að það hefði verið í september sama ár. Hann hafði verið að vinna um nóttina og hafi komið heim undir morgun og lagst inn í rúm og farið að sofa. Hann hafi vaknað rétt fyrir hádegi og hafa legið á vinstri hlið. A hafi legið á vinstri hlið og þétt upp að honum og hafði tekið getnaðarlim hans út úr brókinni og tekið niður brókina af sjálfri sér. Hún hafi legið það þétt upp að honum, að limurinn hafi legið milli læra hennar og uppvið kynfæri hennar. Hún hefði viðhaft einhvers konar samfarahreyfingar svo að hann mundi nuddast við hana. Þegar hann hafi vaknað kvaðst hann hafa spurt hana hvað hún væri að gera og hvort hún hefði ekki verið búin að lofa honum einhverju öðru. Hefði hann verið mjög höstugur við hana. Hún hefði legið kyrr. Hann hafi nú lagt aðra hendina á mjöðm hennar dregið sig aðeins frá henni og ýtt limnum í átt að klofinu eða rassinum, endaþarmi eða kynfærum, eða þarna á milli og ýti svolítið á. Sagði hann að verið gæti að hann hefði snert endaþarm og kynfæri hennar með limnum. A hafi þá farið að skæla og taldi ákærði að það mundi hafa stafað af því, henni hafi ekki litist á hversu grimmdarlegur hann hafi verið. Hann hefði skammað hana mikið og allt að því misst stjórn á sér af reiði og hefði hann hrist hana þannig að hún hafi farið gráta. Nánar aðspurður sagði ákærði að tilgangur sinn með þessu hefði verið að setja liminn í átt að rassi hennar og í þeim tilgangi að meiða hana til að gera hana afhuga sér. Hefði hann rámað í, að hafa lesið grein um konu, sem hefði sætt kynferðislegri misnotkun og hefði lýst því, hversu sárt hafði verið þegar höfð voru við hana endaþarmsmök. Hefði tilgangur hans verið að gera stúlkuna afhuga sér með þessum hætti. Hann hefði um leið og hann gerði þetta gert sér grein fyrir því, að hann hefði nú snúið dæminu við þannig, að hann væri farinn að gera eitthvað við hana og dregið sig til baka. Borinn var undir ákærða hluti skýrslu, sem hann hafði gefið fyrir lögreglu þann 19. júlí 2001, þar sem segir: „Þá minntist ég þessarar umræddu blaðagreinar og setti aðra hendina ofan á mjöðmina á henni og beindi reistum limnum að endaþarmi hennar og þrýsti honum fast að endaþarminum. Ég fann ekki að limurinn færi inn í endaþarminn.” Ákærði sagði, að þessi lýsing væri það sem hann væri að segja nú.
Sérstaklega aðspurður sagði ákærði, að í öll skipti, sem hér hefur verið lýst, hafi limur hans verið stífur, en þó einna síst í síðastnefnda skiptið. Þá sagði ákærði, að hann hefði verið undir áhrifum áfengis í öll skiptin nema það fyrsta.
Ákærði sagði frá því, að hann hefði sagt mági sínum, [..], frá því sem gerst hafði og leitað hjá honum ráða um hvað hann gæti gert. Þetta hefði hann gert fyrst áður en þeir fóru saman til [...] í apríl 2000, en einnig í þeirri ferð. Ekki mundi ákærði, hvað [...] hefði ráðlagt honum annað en að þyrfti að útskýra þetta ítarlega fyrir henni og skamma hana fyrir það.
Ákærði sagði frá því aðspurður, að honum hefði ekki verið kunnugt um að hann væri haldinn kynsjúkdómum, fyrr en í rannsókn þessa máls. Hann sagði, að tveimur árum áður, hefði hann tekið eftir því, að alveg upp við rótina uppi í hárum, var eitthvað, sem líktist fæðingarbletti, aðeins útstandandi og líktist vörtum. Þetta hefði ekki angrað hann neitt og hann gerði sér ekki grein fyrir að um gæti verið að ræða kynsjúkdóm. Hann hefði ekki leitað læknis út af þessu. Hann kvaðst ekki hafa vitað um neitt sem héti kynfæravörtur og hann hefði ekki gert sér grein fyrir því, að þarna væri um eitthvað að ræða, sem hann hefði getað smitað telpuna með.
B gaf skýrslu fyrir dómi og skýrði svo frá, að hún hefði hafið sambúð með ákærða 1995 og eigi þau tvö börn saman, en fyrir hafi hún átt A. Hún sagði, að fyrst hefði vaknað grunur um kynferðisbrot að hana minnti um jólaleytið 1999, þegar A hefði sagt henni frá því, að ákærði hefði verið inni hjá henni og setið í rúminu hjá henni en ekki gat hún greint frá því, hvað hann hefði gert, en vitnið sagði, að hún hefði verið mjög sár út í hann. Vitnið sagðist einhverju seinna hafa reynt að tala um þetta við ákærða, en hann hefði ekki kannast við að hafa leitað á telpuna og leystist þessi umræða upp í rifrildi þeirra á milli. Næst hafi málið borið á góma á gamlársdag 2000. Þá hefði A kvartað undan því, að hún fyndi til og bað vitnið hana þá að sýna sér hvar það væri Þá hefði A sýnt henni vörtur á kynfærum sínum, en einnig hafði komið frá henni blóð í nærbuxur hennar. Vitnið sagði frá því, að þennan sama dag hafi hún komið inn í herbergi þeirra, þar sem ákærði lá í rúminu, og hafði A þá skriðið upp í til hans. Ákærði lá upp við vegginn og hún lá við hlið honum. Um leið og vitnið kom inn í herbergið og hafði sagt: „A, hvað ertu að gera?”, hafði ákærði snúið sér snöggt til veggjar. Telpan hafði komið þá út, og í framhaldi af þessu hafði A sýnt henni vörturnar.
Vitnið ræddi fyrra atvikið við vinkonu sína, [...].
Vitnið sagði, að einhvern tíma hefði ákærði haft orð á því, að honum þætti óþægilegt, hvernig A kæmi fram við hann, en þessi umræða hefði ekki snúist um neitt kynferðislegt. Að öðru leyti taldi vitnið, að ekki hefði orðið neitt úr þessu samtali frekar en hinu fyrra og hefði það sömuleiðis snúist upp í reiði. Vitnið sagðist ekki hafa orðið þess vör að A hefði verið með neina kynferðislega tilburði við ákærða. Vitnið sagði, að samband telpunnar og ákærða hefði að einhverju leyti einkennst af samkeppni við bróður hennar um athygli.
Vitnið sagði aðspurt, um það, hvort breytingar hefðu orðið á A á þessum tíma, að þær hefðu orðið, til dæmis þegar hún var að byrja í skóla. Hún hefði alltaf verið henni erfið og verið sár út í vitnið, ef henni fannst vitnið ekki vera eins og hún vildi. Vitnið taldi engan vafa leika á því, að þetta mál hefði haft mikil áhrif á líðan hennar og lýsti hún því svo, að hún sæti oft ein og segðist bara vilja deyja og hefði allt á hornum sér.
Vitnið sagðist hafa vitað af vörtum á ákærða frá því að þau hófu sambúð, en þær höfðu ekki verið ræddar neitt sérstaklega þeirra á milli, enda hefði vitnið aldrei fengið þær.
Vitnið sagði, að hún hefði enn einhver samskipti við ákærða, enda væri slíkt óhjákvæmilegt, barnanna vegna. A hefði einnig hitt ákærða. Lýsti vitnið viðbrögðum hennar svo: „Hún klínir sig alveg upp við hann.” Samt vilji hún ekki eftir því sem vitnið best veit tala við hann í síma og kallar hann ekki lengur pabba sinn.
Vitnið segir, að A hafi orðið fyrir miklum áhrifum af öllu þessu og sérstaklega aðspurð um það, hvort málareksturinn í framhaldi af atvikunum með ákærða, hafi haft áhrif, segir hún, að A sé í rosalegum feluleik í þessu sambandi. Þannig megi enginn vita, að hún sé að fara í Barnahús af því að þetta sé svo viðkvæmt fyrir henni.
Vitnið, A, var yfirheyrð tvisvar sinnum fyrir dómi, sem settur var í Barnahúsi, 6. febrúar 2001 og 11. maí sama ár. Í fyrra viðtalinu kom lítið sem ekkert efnislegt fram, en í því síðara tjáði vitnið sig lítið eitt um sakarefnið, þó mest með því að kinka kolli eða hrista höfuðið.
Meðal annars sem fram kom í framburði hennar var, að ákærði hefði sagt við hana: „Þú mátt ekki segja hvernig við leikum okkur”, en hún sagðist samt hafa sagt það. Þá kom fram hjá henni að ákærði hefði stungið upp á leiknum. Þá mátti lesa það út úr framburðinum, að ákærði hefði komið við klof hennar. Þá kom fram hjá henni, að hún hefði verið í fötum þegar þetta gerðist, en ákærði hefði snert hana innan við fötin.
Eftir þetta voru svör vitnisins við spurningum að mestu höfuðhreyfingar, sem svör við ítarlegum spurningum sálfræðingsins, en lesa mátti út úr þessum svörum hennar, að ákærði hefði einnig komið við klof hennar með typpinu og að stundum hafi hún fundið til þegar hann gerði það. Þá kom fram hjá vitninu, að ákærði hefði ekki farið með typpið inn í kynfæri hennar.
Rétt er að taka fram, að myndbandsupptakan af skýrslu stúlkunnar er þannig úr garði gerð að andlit hennar er lítill hluti af myndfletinum og andlitsdrættir og svipbrigði sjást ekki eða mjög ógreinilega.
Sú aðferð við skýrslutökuna að halda áfram yfirheyrslunni öðru sinni, þar sem ekki náðist sá árangur sem stefnt var að í fyrra skiptið leiðir til þess, að sönnunargildi skýrslunnar af stúlkunni A er mjög takmarkað.
Fram hefur farið rannsókn á ákærða með tilliti til kynsjúkdóma. Reyndist hann samkvæmt vottorði Jóns Hjaltalín Ólafssonar, yfirlæknis húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítalans, frá 23. apríl 2001, hafa kynfæravörtur (condyloma accuminata). Um er að ræða vörtur sem koma aðallega á kynfærin og eru orsakaðar af veirum. Þetta er smitandi kynsjúkdómur. Þá sýndi rannsóknin að ákærði hafði einnig kynsjúkdóminn klamydíu. Reyndist ákærði vera smitaður af bakteríu, sem tilheyrir undirflokknum D3a.
Þá fór einnig fram skoðun á brotaþola, A.
Í vottorði Jóns R. Kristinssonar, barnalæknis og Þóru F. Fischer, kvensjúkdómalæknis, dagsettu 26. febrúar 2001, um A, segir: „[...] og síðar í vottorðinu: „Niðurstaða rannsóknarinnar er, að stúlkan greindist með tvo kynsjúkdóma, conyloma acuminata og Chlamydiu.”
Í vottorði sömu lækna, dagsettu 8. júní 2001, segir: „Kynmök eru nánast undantekningalaust ástæða fyrir condyloma- og Chlamydiusmiti á kynfærum barna sem eru eldri en 2ja-3ja ára gömul. Varðandi greiningu á Chlamydiu í undirflokka fylgir hér með afrit af svari frá Rannsóknarstofu Landspítalans, sýklafræðideild.”
Með vottorðinu fylgdu niðurstöður stofngreiningar Chlamydia trachomatis.
Fram kemur í niðurstöðunni [...]. Stofn í viðkomandi sýnum reyndist vera: Serotypa: D og Arfgerð: D3a.
Í framburði dr. Jóns Hjaltalín Ólafssonar, kom fram að kynfæravörtur eða condyloma acuminata, sé veirusjókdómur, sem mjög erfitt sé að lækna að fullu. Chlamydia sé bakteríusjúkdómur, sem tiltölulega auðvelt sé að lækna með lyfjum en gæti þó haft þær afleiðingar að valda bólgum í eggjaleiðurum hjá konum og þessar bólgur geti valdið ófrjósemi. Þar kom einnig fram, að sjúkdómar þessir smitist nánast eingöngu við kynmök. Hann hafði aldrei heyrt um að börn smitist af Chlamydiu af móður við fæðingu nema þá í augu. Þá sagði hann, að bæði vörtur og Chlamydia smitist fyrst og fremst við að kynfæri snerti kynfæri. Læknirinn upplýsti, að mun meiri líkur væru fyrir því, að ungt fólk, einkum ungar stúlkur, smituðust af vörtum þessum.
Vigdís Erlingsdóttir, sálfræðingur og forstöðumaður Barnahúss, hafði A til meðferðar og gaf skýrslu um þá meðferð og athugun. Skýrslunni lýkur með samantekt og áliti, þar sem segir:
„A uppfyllir greiningarskilyrði áfallastreitu 309.81 Posttraumatic Stress Disorder) en hún sýnir einkenni a) endurupplifana (truflandi minningar um atvikið, hugsanir, ímyndir, skynjanir, ítrekaðir draumar um atvikin), b) hliðrunar (hliðrun við hugsunum, tilfinningum eða umræðu sem tengist atvikinu, minnkaður áhugi á eða þátttaka í athöfnum, firring frá öðru fólki) og c) aukinnar örvunar (pirringur eða reiðiköst, einbeitingarerfiðleikar) Sjálfsmat telpunnar er lágt, hún er döpur, áhyggjufull og á í erfiðleikum með samskipti við aðra, m.a. vegna tortryggni og skapsveiflna. Hún hefur sektarkennd vegna atvikanna.
Eftirtaldir þættir veita forspá um hversu vel börn sem þolað hafa kynferðisofbeldi munu ná sér af afleiðingum ofbeldisins: a) Stuðningur innan fjölskyldu/viðbrögð fjölskyldunnar þegar barnið segir frá ofbeldinu, b) fjölskyldutengsl gerandans við þolandann. Náin tengsl milli geranda og þolanda (ss. stjúpföður og dóttur) hefur jafnan alvarlegri afleiðingar fyrir þolandann en ef gerandinn er einhver sem barnið ber takmarkað traust til. Ef gerandinn er einhver sem barnið treystir, er það líklegt til að auka sektarkennd barnsins og gera því erfitt fyrir að treysta fólki á nýjan leik , c) hversu lengi hefur ofbeldið varað. Ef ofbeldið hefur varað lengi eru meiri líkur á því að barnið hafi hlotið varanlegan skaða. Við slíkar aðstæður má ætla að þau einkenni sem barnið fær festist í sessi og verði þrálátari, d) hversu alvarlegt var ofbeldið. Tilraunir til innþrengingar í leggöng, munn eða endaþarm valda jafnan alvarlegri einkennum en vægari áreitni.
Ljóst er að A hefur þörf fyrir áframhaldandi meðferð. Ætla má að hún muni eiga við langvinnan vanda að etja vegna misnotkunarinnar sem hún varð fyrir og óvíst hvort hún nái sér nokkurn tíman að fullu.”
Niðurstaða:
Ákærði hefur játað, að hafa í fjórum tilvikum, í ársbyrjun 2000, í apríl 2000, í júní eða júlí 2000 og haustið 2000 haft kynmök við A. Í því atviki, sem varð haustið 2000, játaði ákærði, að hafa reynt endaþarmsmök við telpuna í þeim tilgangi að meiða hana eða hrekkja.
Til stuðnings þessari frásögn er það litla, sem telpan, A, hefur sagt frá í skýrslu fyrir dómi þann 11. maí 2001. Hún sagði þá að ákærði hefði komið við klof hennar innan klæða með fingrum. Þá kom einnig fram hjá henni að hann hefði einnig komið við klof hennar með lim sínum og oftar en einu sinni. Mátti lesa það úr framburði hennar að hann hefði ekki farið inn í leggöng. Þá kom fram hjá henni, að henni hefði liðið illa á meðan á þessu stóð, en ekki fundið til nema stundum. Telpan var mjög treg til frásagnarinnar, en telja verður, þrátt fyrir þá annmarka sem voru á skýrslutökunni og áður er getið, óhætt að leggja trúnað á það, sem hún sagði um samskipti hennar og ákærða.
Ákærði hefur haldið því fram, að í öll skiptin hafi þessi kynmök, sem lýst er að ofan, orðið að frumkvæði telpunnar og hafi hún hafið þessi mök að honum sofandi og hann vaknað við að þau væru hafin. Sú staðhæfing hans, að stúlkan hafi átt frumkvæðið að kynferðismökunum og byrjað þau meðan hann svaf þykir vera mjög ótrúverðug og fær ekki stuðning í framburði telpunnar, og ber að hafna henni. Má slá því föstu að ákærði hafi átt allt frumkvæði að þeim og stýrt þeim að öllu leyti.
Þá verður að telja hafið yfir allan vafa, að telpan hafi smitast af þeim tveimur kynsjúkdómum, sem hún greindist með og eru þeir sömu og ákærði ber. Þá hefur komið fram, að Chlamydiusýkingin er af sjaldgæfri undirtegund, sem er hin sama hjá þeim báðum. Fram hefur komið hjá sérfræðingi á þessu sviði, að smit þessara sjúkdóma, sem fram koma í kynfærum verði aðeins við snertingu kynfæris við kynfæri, sem styður þá enn frekar, að ákærði hafi átt kynmök með þeim hætti við telpuna.
Telst þannig sannað, að ákærði hafi gerst sekur um brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru og eru þar rétt fært til refsiákvæða.
Samkvæmt sakavottorði dagsettu 27. júlí 2001 hefur ákærði ekki gerst sekur um nein þau brot, sem ítrekunarverkun hafa í þessu máli.
Þykir hæfileg refsing ákærða, X, vera fangelsi í 18 mánuði.
Brotaþolinn, A, hefur orðið fyrir miskatjóni, sem fram hefur komið við sjálfa framningu brotanna, og kemur einnig fram í afleiðingum brotanna, eins og þeim er lýst hér að ofan í skýrslu sálfræðings. Þá verður að hafa í huga miskatjón, sem brotaþoli hefur orðið við vegna smits af kynsjúkdómum þeim, sem lýst er í læknisvottorðum þeim, sem rakin hafa verið. Með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999 verður ákærði dæmdur til að greiða A miskabætur, sem ákveðast 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá dómsuppkvaðningu til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og þóknun fyrir réttargæslu á rannsóknarstigi 400.000 krónur til skipaðs verjanda ákærða, Arnar Clausen, hrl., og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur, hrl. 200.000 krónur.
Dóm þennan dæma Logi Guðbrandsson, dómstjóri, ásamt meðdómsmönnunum, Frey Ófeigssyni, dómstjóra og Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögskilinn tíma vegna veikinda í röðum dómara.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði, AS, kr. 1.000.000 í miskabætur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá dómsuppkvaðningu til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og þóknun fyrir réttargæslu á rannsóknarstigi 400.000 krónur til skipaðs verjanda ákærða, Arnar Clausen, hrl., og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur, hrl. 200.000 krónur.