Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-298

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður) og Y (Andrés Már Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ólögmæt nauðung
  • Barnaverndarlagabrot
  • Hlutdeild
  • Lögjöfnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 25. nóvember 2020 leitar Y leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 30. október sama ár í máli nr. 532/2019: Ákæruvaldið gegn X og Y, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með beiðni 22. desember 2020 leitaði jafnframt X leyfis til að áfrýja dóminum fyrir sitt leyti, en dómurinn var birtur henni 24. nóvember sama ár. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á beiðnirnar.

Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda X fyrir ólögmæta nauðung, sbr. 1. mgr. 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með því að hafa veist að A með nánar tilgreindum hætti. Þá var leyfisbeiðandinn Y sakfelld fyrir hlutdeild í áðurnefndum brotum, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Refsing leyfisbeiðanda X var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði og refsing leyfisbeiðanda Y fangelsi í þrjátíu daga en fullnustu refsingar þeirra beggja var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Leyfisbeiðendum var jafnframt gert að greiða A miskabætur.

Leyfisbeiðandinn Y telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Niðurstaðan hafi almenna þýðingu við skýringu á hlutdeildarbrotum, einkum um lægri mörk slíkra brota og hlutdeildarbrot á grundvelli athafnaleysis. Auk þess geti niðurstaða Hæstaréttar meðal annars haft almenna þýðingu um lægri mörk ásetnings. Þá telur hún að málið hafi jafnframt almenna þýðingu um skýrleika ákæruskjala og hæfi dómara og sækjanda. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi og efni, enda hafi hún meðal annars verið sakfelld fyrir aðra og meiri háttsemi en í ákæru greini auk þess sem háttsemi hennar hafi ekki falið í sér hlutdeild í broti leyfisbeiðanda X.

Leyfisbeiðandinn X telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Hún byggir einkum á því að niðurstaða Landsréttar sé  röng um að háttsemi hennar falli undir brotalýsingu 1. mgr. 225. gr. almennra hegningarlaga. Þá sé ekki rétt að hún hafi sýnt A yfirgang eða ruddalegt athæfi í skilningi 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga eða ógnandi og vanvirðandi framkomu í skilningi 1. mgr. sama ákvæðis. Þá byggir hún á því að málið hafi fordæmisgildi um beitingu á 1. mgr. 225. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem málið varði mikilsverða hagsmuni hennar.

Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að leyfisbeiðnirnar lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Því er beiðnum um áfrýjunarleyfi hafnað.