Hæstiréttur íslands

Mál nr. 383/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Brotaþoli
  • Fyrning
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. febrúar 2006.

Nr. 383/2005.

Y

(Sif Konráðsdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Skaðabætur. Brotaþoli. Fyrning. Gjafsókn.

Í september 2002 lagði Y fram kæru á hendur M fyrir kynferðisbrot, sem hann átti að hafa framið gegn henni á árunum 1985 til 1989. Skýrsla var fyrst tekin af M í maí 2003 og ákæra gefin út í september sama ár. M var sýknaður af refsikröfu þar sem brot hans voru talin fyrnd og bótakröfu Y á hendur honum vísað frá dómi. Y krafði Í um skaðabætur þar sem hún taldi að rekja mætti sýknuna til þess að óhæfilegur dráttur hefði orðið á rannsókn málsins, sem leiddi til þess að M hefði ekki verið kynnt sakarefnið fyrr en brotin voru fyrnd. Talið var ósannað að Y hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum enda hefði ekki verið tekin afstaða til þess í refsimálinu hvort M hefði gerst sekur um þá háttsemi, sem hann var ákærður fyrir. Y byggði enn fremur á því að aðgerðarleysi lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart sér. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lögreglan hafi mátt gera ráð fyrir að Y hafi a.m.k. verið orðin 9 ára þegar tvö tilvik, sem ákært var út af, áttu sér stað. Hún varð 9 ára 13. maí 1988 og áleit lögreglan því að sakir væri ekki fyrndar, þegar skýrsla var tekin af M 7. maí 2003. Þá var talið að sá dráttur, sem varð á rannsókn málsins, gæti ekki breytt neinu um niðurstöðu þessa máls. Var þar vísað til þess að ekki varð með vissu ráðið af framburði Y fyrir dómi í refsimálinu hvenær M átti, áður en Y náði 9 ára aldri, að hafa síðast brotið gegn henni. Yrði því að gera ráð fyrir að brotin hefðu eftir sem áður verið talin fyrnd þó að lögregluskýrsla hefði verið tekin fyrr af M. Í var því sýknað af kröfu Y.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. ágúst 2005. Hún krefst þess, að stefndi greiði sér 4.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. október 2004 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

 

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi höfðaði ríkissaksóknari mál á hendur nafngreindum manni, M, fyrir kynferðisbrot gegn áfrýjanda með ákæru 22. september 2003. Ákært var fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003. Voru brotin talin framin á árunum 1985 til 1989. Þess var krafist, að ákærði yrði dæmdur til refsingar auk þess sem áfrýjandi krafðist skaðabóta úr hans hendi að fjárhæð 3.500.000 krónur. Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða 5. janúar 2004 var ákærði sýknaður af refsikröfu, þar sem brot hans voru talin fyrnd, og bótakröfu vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar 29. apríl 2004 var niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda bóta þar sem hún telur að rekja megi sýknu M til þess, að óhæfilegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins, sem leiddi til þess, að honum var ekki kynnt sakarefnið fyrr en brot hans voru fyrnd. Áfrýjandi telur, að lögreglan hafi brugðist skyldum sínum og það leitt til þess, að hún fékk ekki tjón sitt bætt. Reisir áfrýjandi kröfu sína annars vegar á því, að M hefði hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn sér og verið dæmdur til að greiða miskabætur hefði lögreglan staðið rétt að málum, og er krafa hennar um 3.500.000 krónur reist á því. Hins vegar reisir hún kröfu sína á því, að athafnaleysi lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart sér, og er krafa hennar um greiðslu 1.000.000 króna reist á þeirri málsástæðu.

Stefndi heldur því fram, að engu réttarsambandi hafi verið til að dreifa milli áfrýjanda og stefnda, sem bótaskylda geti verið reist á, og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 178/2001 í dómasafni réttarins 2001, bls. 4390. Þá byggir hann og á því, að í áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 29. apríl 2004 hafi því ekki verið slegið föstu, að M hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hann var ákærður fyrir. Ekki sé því unnt í bótamáli á hendur stefnda að leggja til grundvallar, að M hafi gerst brotlegur gagnvart áfrýjanda og að bætur hefðu verið dæmdar í sakamáli á hendur honum.

II.

Hinn 27. september 2002 lagði áfrýjandi fram kæru til lögreglustjórans í Reykjavík á hendur M fyrir kynferðisbrot, sem hann hefði framið gegn sér á árunum 1985 til 1989, er hún var á aldrinum 6 til 10 ára. Málið var framsent sýslumanninum í Bolungarvík 3. október 2002 og síðan framsent sýslumanninum á Ísafirði 27. nóvember sama ár til rannsóknar. Rannsókn málsins hófst 11. desember og voru í þeim mánuði og janúar 2003 teknar skýrslur af vitnum og gagna aflað. Skýrsla var hins vegar fyrst tekin af M 7. maí 2003. Fyrningarfrestur gagnvart honum var því ekki rofinn fyrr en þann dag, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing fyrir háttsemi þá, sem M var gefin að sök, gat numið fangelsi allt að 12 árum, en um fyrningu slíkra brota gilti á þeim tíma ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga., sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981,  þannig að sök fyrntist á 15 árum. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, eins og þau hljóðuðu þá, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, hófst fyrningarfrestur á þeim degi sem refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Eins og að framan greinir var fyrningarfrestur rofinn 7. maí 2003, þegar skýrsla var fyrst tekin af ákærða vegna þessa máls, og eru því öll brot, sem framin kunna að hafa verið fyrir 7. maí 1988 fyrnd.

Áfrýjandi er fædd 13. maí 1979 og var því að verða 9 ára gömul þann 7. maí 1988. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu bar áfrýjandi, að M hefði hætt að brjóta gegn sér, þegar hún var 9 eða 10 ára gömul. Í skýrslu sinni fyrir dómi var hún ekki alveg viss um, að hún hafi verið orðin 9 ára, þegar M braut síðast gegn henni. Verður ekkert tilvik með vissu tímasett eftir 7. maí 1988. Vafi um þetta var metinn M í hag, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var M því, eins og að framan greinir, sýknaður í héraði og bótakröfu vísað frá dómi, og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar  29. apríl 2004.

Samkvæmt 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrntist bótakrafa áfrýjanda á hendur M á 10 árum. Þegar áfrýjandi lagði fram kæru á hendur M var því ekki unnt að fá kröfuna dæmda nema skilyrði 16. gr. laganna væri uppfyllt. Samkvæmt því ákvæði verður sakamaður ekki dæmdur bótaskyldur vegna refsiverðrar háttsemi, ef bótakrafan er fyrnd, nema því aðeins að hann hafi verið „dæmdur fyrir glæp”. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 29. apríl 2004, þar sem staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sýknu M, var ekki tekin afstaða til þess hvort M hefði gerst sekur um þá háttsemi, sem hann var ákærður fyrir, eins og gert var í héraði. Það er því ekki unnt að líta svo á, að hann hafi verið sakfelldur í málinu. Er því ósannað, að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni á þeim grundvelli, sem hún byggir öðrum þræði á.

III.

Eins og áður greinir reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn enn fremur á því, að aðgerðarleysi lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart sér.

Lýst er hér að framan að áfrýjandi kærði M til lögreglu 27. september 2002, en það var fyrst 7. maí 2003 að skýrsla var tekin af M, og eru því öll brot, sem kunna að hafa verið framin fyrir 7. maí 1988 fyrnd.

Í skýrslu sinni fyrir lögreglu sagði áfrýjandi að flest atvikin hefðu átt sér stað er hún var 6 til 10 ára, það er á árunum 1985 til 1989. Í ákæru voru meðal annars tilgreind tvö tilvik þar sem M átti að hafa brotið gegn áfrýjanda og sagði áfrýjandi í lögregluskýrslu sinni, að hún hafi  verið 9 eða 10 ára, þegar það gerðist. Samkvæmt því mátti lögreglan gera ráð fyrir, að áfrýjandi hafi að minnsta kosti verið orðin 9 ára, þegar þessi atvik áttu sér stað. Hún varð 9 ára 13. maí 1988 og hefur lögregla gefið þá skýringu, að hún hafi talið að sakir væru ekki fyrndar, þegar skýrsla var tekin af M 7. maí 2003. Fyrir dómi sagði áfrýjandi aftur á móti, að hún héldi að hún hefði verið yngri en 8 ára er annað tilvikið gerðist og að hún myndi ekki eftir því hvað hún var gömul þegar hitt tilvikið átti sér stað.

 Í ljósi framburðar áfrýjanda fyrir dómi verður að telja, að framangreindur dráttur á rannsókn málsins, sem ekki hefur verið réttlættur, hefði engu breytt um niðurstöðu máls þessa. Þótt lögregluskýrsla hefði verið tekin fyrr af M ræður það ekki úrslitum. Áfrýjandi gat ekki fullyrt, að eitthvert þeirra brota, sem ákæra tók til, hefði verið framið eftir að hún varð 9 ára gömul. Af framburði hennar fyrir dómi varð heldur ekki með vissu ráðið hvenær M átti, áður en áfrýjandi náði 9 ára aldri, að hafa síðast brotið gegn henni. Verður því að ætla að brotin hefðu eftir sem áður verið talin fyrnd, enda allur vafi metinn M í hag, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt framansögðu verður að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda og er niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti dæmist eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Y, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2005.

             Mál þetta, sem dómtekið var 10. maí 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, kt. [...], Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, með stefnu sem birt var 4. október 2004.

             Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.500.000 kr. auk dráttarvaxta frá 12. október 2004 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

             Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

 

Helstu málavextir eru að ríkissaksóknari höfðaði mál á hendur nafngreindum aðila fyrir kynferðisbrot gegn stefnanda með ákæru 22. september 2003.  Ákærða var gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og þeim var breytt með 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, með nánar tiltekinni háttsemi gagnvart stefnanda.  Samkvæmt ákæru var um að ræða eitt brot framið 1985 eða 1986 og eitt brot framið 1988 eða 1989, en að öðru leyti var ákærði sakaður um að hafa margsinnis á árunum 1985 til 1989 fengið stefnanda til tiltekinna kynferðisathafna með sér.

             Málið var dómtekið í héraði 24. nóvember 2003 og dómur kveðinn upp 5. janúar 2004.  Í forsendum fyrir niðurstöðu segir:

 

         Háttsemi ákærða varðar við 1. mgr. 2002. gr. almennra hegningarlaga...  Á þeim tíma sem háttsemin var framin varðaði hún við 1. mgr. 200. gr., sbr. 202 gr. almennra hegningarlaga.  Ber samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga að dæma eftir núgildandi ákvæði, en háttsemin varðar allt að 12 ára fangelsi í báðum tilvikum, en samkvæmt 202. gr. almennra hegningarlaga, eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 40/1992, skyldi þó beita vægari hegningu að tiltölu.

         Dómurinn telur að miða verði við að fyrningu hafi verið slitið 7. maí 2003, er ákærði kom fyrir lögreglu og var kynnt kæra Y.  Fyrningarfrestur telst frá þeim degi er háttsemi ákærða lauk, sbr. þágildandi ákvæði 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981.  Um lengd frestsins ber að beita þágildandi ákvæði 81. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981.  Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. þess ákvæðis fyrnist sök á 10 árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 10 ára fangelsi, en á 15 árum ef þyngsta refsing við broti er 16 ára fangelsi eða lengra tímabundið fangelsi, sbr. 4. tl. sömu mgr.  Brot ákærða varðar allt að 12 ára fangelsi eins og áður greinir og fyrnist sök því á 15 árum.  Upphaf fyrningarfrests verður samkvæmt þessu að miða við 7. maí 1988.

         Dómurinn telur að líta beri á háttsemi ákærða sem samfelld brot, þannig að sök vegna einstakra tilvika teljist ekki fyrnd nema háttseminni í heild hafi lokið fyrir upphaf fyrningarfrests.

         Afar erfitt er að slá því föstu hvenær brot sem greind eru í 2. tl. ákæru hafi síðast verið framin.  Y lýsir því að þau tilvik hafi verið um fimm til tíu og framin á þeim tíma sem hún var 6-7 ára, alveg til þess að hún var 9-10 ára.  Aðspurð hvort hún hafi verið orðin níu ára kvaðst hún ekki muna það, en bróðir sinn, sem er fæddur [...] 1987, hafi verið orðinn um eins árs gamall eða svo.  Atvik, sem í 1. tl. ákæru greinir, telur hún hafa gerst er hún var 6-7 ára gömul.  Hún kveðst ekki muna hve gömul hún var er atvik í [...] átti sér stað, en telur að bróðir sinn hafi líklega verið fæddur þá.  Atvik sem greinir í 3. tl. ákæru telur hún hafa gerst þegar hún var yngri en átta ára gömul.

         Y er fædd [...] 1979 og var hún því tæplega 9 ára gömul er fyrningarfrestur byrjar að líða.  Þrátt fyrir framburð hennar um að hún hafi líklega verið orðin 9-10 ár gömul er háttsemi ákærða samkvæmt 2. tl. ákæru lauk, verður að líta til þess að ekkert tilvik verður með vissu tímasett eftir upphaf fyrningarfrestsins og að Y er ekki alveg viss um að hún hafi verið orðin níu ára.  Vafa um þetta verður að meta ákærða í hag.  Dómurinn telur því að sök hans sé fyrnd.  Ber því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins, sbr. 6. mgr. 82. gr. almennra hegningalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981.

         Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 má dæma um bótakröfu þrátt fyrir að ákærði hafi verið sýknaður af framangreindri ástæðu, að því tilskildu að skilyrði bótaskyldu séu fyrir hendi.  Dómurinn telur að heimild 16. gr. laga nr. 14/1905, sem kveður á um að dæma megi bætur þótt krafa sé fyrnd ef sakamaður er dæmdur fyrir glæp, verði ekki beitt þegar svo háttar til að sýknað er af refsikröfu vegna sakarfyrningar.  Af þessum sökum verður að vísa bótakröfunni frá dómi.

 

             Málinu var af hálfu ákæruvaldsins skotið til Hæstaréttar 7. janúar 2004 og þess krafist að ákærði yrði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing.  Í dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 29. apríl 2004 segir m.a.:

 

Háttsemi sú, sem ákærða er gefin að sök, hefði á umræddum tíma varðað við 202 gr., sbr. 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga.  Refsing samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu gat numið fangelsi allt að 12 árum, en við broti gegn því fyrrnefnda skyldi beita vægari hegningu að tiltölu.  Verður að líta svo á að um fyrningu slíkra brota hafi þá gilt ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 81. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, og sök þannig fyrnast á 15 árum.  Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga, eins og þau hljóðu þá, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, hófst fyrningarfrestur á þeim degi, sem refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk.  Breytingu, sem gerð var á þessu ákvæði með 2. gr. laga nr. 63/1989 og leiddi til síðara upphafsmarks fyrningarfrests á kynferðisbrotum gegn börnum yngri en 14 ára, verður ekki beitt í tilvikum, þar sem fresturinn var byrjaður að líða fyrir gildistöku þeirra laga, sbr. meginreglu 2. gr. og 2. gr. a. almennra hegningarlaga.  Stúlkan, sem hér átti í hlut, kom fyrir lögreglu 27. september 2002 og gaf skýrslu, þar sem hún bar fyrrgreindar sakir á ákærða.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að frekari aðgerðir við rannsókn hafi byrjað 11. desember 2002, þegar móðir stúlkunnar gaf skýrslu fyrir lögreglu.  Skýrsla var á hinn bóginn fyrst tekin af ákærða vegna þess 7. maí 2003.  Ekki hefur verið borið við í málinu að rannsóknarhagsmunir eða atvik, sem varðað geta ákærða hafi verið rofin fyrr en á síðastgreindum degi, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.  Verður þannig fallist á með héraðsdómi að ætluð brot ákærða, sem framin kunna að hafa verið fyrir 7. maí 1988, séu fyrnd.

         Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi var stúlkan, sem ákærði er sakaður um að hafa brotið gegn, ekki afdráttarlaus um að eitthvert þeirra ætluðu brota, sem ákæra tekur til, hafi verið framið eftir að hún náði 9 ára aldri í maí 1988.  Samkvæmt því og með vísan til meginreglu 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður að fallast á þá niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms að sakir, sem ákærði er borinn, séu fyrndar.  Verður niðurstaða hins áfrýjað dóms því staðfest.

 

Stefnandi byggir á því að rannsókn lögreglu hafi verið verulega ábótavant.  Ekki hafi verið gætt að reglum um fyrningu sakar við refsingu við rannsókn málsins með þeim afleiðingum að sakir á hendur sakborningi fyrntust.  Óhóflegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins.  Stefnandi hafi lagt fram kæru á hendur sakborningi 27. september 2002.  Hafi lögreglunni þegar í stað borið skylda til að hefja rannsókn.  Rannsókn hafi hins vegar fyrst hafist 11. desember 2002 þegar móðir stefnanda gaf skýrslu.  Brýnt hafi verið að kynna sakborningi fram komnar sakir beint í kjölfar kærunnar til þess að rjúfa fyrningu.  Hafi lögreglunni mátt vera þetta ljóst vegna þess að stefnandi gat ekki verið fullviss um að hún hefði verið búin að eiga tíu ára afmæli þegar síðasta brotið sem ákært var fyrir var framið.  Eins og á stóð hafi það verið brot á málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að draga í tæpa átta mánuði að taka skýrslu af sakborningi.  Hafi stefnandi af þeim sökum orðið fyrir fjárhagslegu tjóni er stefnda beri að bæta henni.

             Þá er byggt á því að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega áður en ákæra var gefin út.  Stefnanda hafi verið synjað um að gefa frekari skýrslur í málinu er varðaði tilvik er sakborningur misnotaði hana þegar hún var tíu ára gömul.  Ekki hafi verið unnt að taka tillit til þess þar sem ekki hafi verið ákært fyrir það.  Þá hafi láðst að taka skýrslu af sambýlismanni móður stefnanda, A, en A hafi borið við skýrslutöku hjá lögreglunni, eftir að dómur gekk í málinu í héraði, að hann hefði ásamt móður stefnanda verið erlendis eftir að stefnandi átti tíu ára afmæli eða nánar tiltekið haustið 1988, en þá hafi stefnandi og bróðir hennar, B, 14 mánaða gamall, gist saman á heimili ákærða.  Rannsókn lögreglu hafi því ekki verið í samræmi við kröfur sem gerðar eru samkvæmt 68. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, um að leita eftir og finna vitni sem ætla má að geti borið um þau atriði er máli skipta.  Þá hafi greinargerð A, ellegar skýrsla er hann gaf hjá lögreglu, ekki verið lögð fram við meðferð málsins í Hæstarétti og ekki gerð krafa um heimvísun málsins skv. d. lið 1. mgr. 147. gr. laga nr. 19/1991, þó að vitnisburður hans gæfi ótvírætt tilefni til þess.  Þetta athafnaleysi saksóknar sé brot á 27. gr. laga nr. 19/1991 og andstætt  rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993.

             Hefði rétt verið staðið að rannsókn og meðferð málsins, er staðhæft, að ákærði hefði hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn stefnanda.  Jafnframt hefði hann verið dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. áður 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Tjón stefnanda sé bein afleiðing ólögmætrar og saknæmrar rannsóknar málsins er ríkið beri ótvírætt skaðabótaábyrgð á eftir almennu sakarreglunni sem og reglum um vinnuveitendaábyrgð.

             Kröfufjárhæð stefnanda á hendur stefnda er greind sem sambærileg kröfu um miskabætur á hendur ákærða í opinbera málinu, þ.e. 3.500.000 kr.  Þá er og vísað til þess að rannsókn lögreglu og meðferð málsins hafi í sjálfu sér falið í sér ólögmæta meingerð gegn stefnanda sem íslenska ríkið beri skaðabótaskyldu á samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er krafist miskabóta til viðbótar að fjárhæð 1.000.000 kr. þess vegna.

 

Stefndi byggir á því að sýkna beri af öllum kröfum stefnanda þar sem engu réttarsambandi sé til að dreifa þeirra í milli sem stofnað geti til bótaskyldu.

             Vísað er til þess að forræði rannsóknar í kjölfar kæru hafi verið á hendi lögreglu og undir eftirliti og í samráði við ríkissaksóknara sem æðsta handhafa ákæruvalds á þann hátt sem mælt sé fyrir í lögum nr. 19/1991 svo og 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.  Hvíli sú skylda á ákæruvaldi og lögreglu að hlutast til um að mál séu rannsökuð og þeim síðan lokið svo fljótt sem kostur sé og með þeim hætti sem eðlilegt geti talist.  Í þessu efni verði að taka mið af stöðu ríkissaksóknara samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 sem æðsta handhafa ákæruvalds og tilgangi lögreglurannsóknar, sbr. 67. gr. laganna.

             Til rannsóknar hafi verið, hvort framin hefðu verið brot gegn 202. gr. almennra hegningalaga, sem sæta myndu opinberri ákæru.  Eina réttarsambandið milli stefnanda og ákæruvaldsins hafi verið að stefnandi átti þess kost að setja fram bótakröfu í máli gegn sakborningi, sbr. Hrd. nr. 178/2001.

             Þá er byggt á því að ósannað sé að stefnandi hefði komið fram bótakröfu á hendur ákærða eða að ætlað tjón stefnanda geti stafað af vanrækslu lögreglu eða meðferð ákæruvalds.

             Vísað er til þess að ekkert í málsgögnum eða dómi Hæstaréttar nr. 32/2004 frá 29. apríl 2004 styðji fullyrðingu stefnanda um að rannsókn lögreglu hafi verið ábótavant eða að óhóflegur dráttur hafi orðið á henni.

             Stefndi hafnar því að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1992 hafi átt við, enda hafi ekki verið um stjórnvaldsákvörðun í skilningi þeirra laga að ræða.  Rannsóknarreglur stjórnsýslulaga hafi ekki átt við enda geymi ákvæði laga nr. 19/1991 strangari málsmeðferðarreglur en stjórnsýslulögin mæla fyrir um.

             Áréttað er að ekki sé víst að ákærði hefði hlotið dóm fyrir kynferðisbrot þó staðið hefði verið að rannsókn málsins með öðrum hætti en gert var.  Skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til skaðabóta úr hendi stefnda hafi ekki verið fyrir hendi.

             Til stuðnings kröfu sinni til vara um að bætur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður vísar stefndi til dómaframkvæmda.  Þá er mótmælt upphafstíma dráttarvaxta.

 

Ályktunarorð:  Stefnandi byggir á því að hefði af hálfu ákæruvaldsins rétt verið staðið að rannsókn og meðferð kynferðisbrots gagnvart stefnanda er stefnandi kærði hefði stefnanda verið dæmdar miskabætur.  Stefnandi eigi því réttmæta kröfu á skaðabótum frá íslenska ríkinu eftir almennu sakarreglunni sem og reglum um vinnuveitendaábyrgð.  Ekki verður fallist á þetta.

             Ekkert sérstakt réttarsamband skapaðist á milli stefnanda og íslenska ríkisins við það að rannsókn var hafin út af kæru stefnanda.  Bótakrafa stefnanda á hendur kærða breytti því ekki.  Ekki er sú skylda lögð á ákæruvaldið við meðferð opinberra mála að hraða því að kynna kærðum sakarefni til að koma í veg fyrir fyrningu á einkaréttarkröfu, sbr. XX. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

             Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

             Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu en um gjafsóknarkostnað stefnanda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

             Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

 

             Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Y.

             Málskostnaður fellur niður

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Herdísar Hallmarsdóttur hrl., 450.000 krónur.