Hæstiréttur íslands
Mál nr. 563/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 30. október 2007. |
|
Nr. 563/2007. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri) gegn X (Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. október 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. nóvember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. október 2007.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...] pólskum ríkisborgara, til heimilis að [...], Selfossi, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 mánudaginn 5. nóvember n.k. á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að því verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að um kl. 03:30 aðfaranótt laugardagsins 27. október s.l. hafi lögregla verið kvödd að [...] á Selfossi eftir að kona í miklu uppnámi hefði tilkynnt að þrír Pólverjar væru að reyna að koma vilja sínum fram við hana. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi kærandi staðið í anddyri hússins ásamt þremur karlmönnum, en í húsinu munu búa 11 Pólverjar sem tengdir séu vina- og fjölskylduböndum og tali hvorki íslensku né ensku. Hafi fjórir þeirra verið handteknir á vettvangi en einum hafi verið sleppt að skýrslutöku lokinni. Tæknideild LRH hafi annast vettvangsrannsókn og þá hafi kærandi verið flutt á neyðarmóttöku. Hafi kærandi tjáð lögreglu á vettvangi að tveir Pólverjar hefðu nauðgað henni og teldi hún þá vera bræður. Kærði sé einn þeirra þriggja sem séu í haldi lögreglu grunaðir um ofangreindan verknað. Stangist framburður þeirra á í veigamiklum atriðum og sé mótsagnakenndur. Rannsókn málsins sé skammt á veg komin og hafi ekki verið teknar formlegar skýrslur af kæranda og vitnum, sem gætu verið á annan tug. Vegna tungumálaörðugleika sé mjög tímafrekt að yfirheyra kærðu og flest vitni. Þá eigi eftir að láta fara fram sakbendingu og einnig sé beðið eftir frumniðurstöðum úr rannsóknum á sýnum af kæranda og kærðu. Þá eigi eftir að samprófa aðila.
Af hálfu lögreglu er byggt á því að verið sé að rannsaka ætlað brot kærða á 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins sé viðamikil og á algjöru frumstigi og veruleg hætta sé á að kærði muni torvelda rannsóknina með því að reyna að hafa áhrif á vitni og/eða samseka. Það sakarefni sem hér um ræði varði fangelsisrefsingu ef sök sannast og standi því mjög mikilvægir almanna- og einkahagsmunir til þess að upplýsa málið. Sé gæsluvarðhalds krafist með vísan til alls ofanritaðs, svo og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Kærði er grunaður um kynferðisbrot gagnvart kæranda og getur háttsemi hans varðað hann fangelsisrefsingu allt að 16 árum ef sök sannast. Kærði neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja grun um aðild hans og annarra að kynferðisbroti gagnvart kæranda. Eftir er að yfirheyra hana nánar, svo og allmörg vitni. Þá ber nauðsyn til að láta fara fram sakbendingu og jafnframt þarf að samprófa aðila. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærði geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina, en rétt þykir að kærði sæti ekki gæsluvarðhaldi lengur en til fimmtudagsins 1. nóvember n.k. kl. 16:00.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 1. nóvember n.k. kl. 16:00.