- Ávana- og fíkniefni
- Refsilögsaga
- Þjóðaréttur
- Handtaka
|
Fimmtudaginn 3. desember 2009. |
Nr. 509/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Peter Rabe (Ólafur Örn Svansson hrl.) Rúnari Þór Róbertssyni og(Þorsteinn Einarsson hrl.) Árna Hrafni Ásbjörnssyni(Sveinn Andri Sveinsson hrl. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) |
Ávana- og fíkniefni. Refsilögsaga. Þjóðaréttur. Handtaka.
P, R og Á var ásamt þremur öðrum mönnum gefið að sök stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 55.116,65 g af amfetamíni, 53.889,65 g af kannabis og 9.432 MDMA töflum, en efni þessi hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin hafi verið flutt áleiðis til Íslands frá Belgíu með skútu, en slöngubát hafi verið siglt til móts við hana og bátarnir mæst á hafi úti innan við 30 sjómílur suðaustur af landinu, þar sem efnin hafi verið flutt milli báta, og hafi slöngubátnum síðan verið siglt með efnin til Djúpavogs. Þaðan hafi efnin verið flutt yfir í bifreið og henni ekið áleiðis til Selfoss, en lögregla stöðvað hana við Höfn og lagt hald á efnin. Ákærðu voru sakfelldir í héraði og voru brot þeirra talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. P, sem er hollenskur ríkisborgari, krafðist þess fyrir Hæstarétti að málinu yrði vísað frá héraðsdómi þar sem íslenska ríkið brysti lögsögu yfir honum eins og atvikum málsins væri háttað. Af gögnum málsins var ljóst að P var leigutaki og skipstjóri skútunnar, sem skráð var í Belgíu. Þá var óumdeilt að skútunni hefði ekki verið siglt inn í 12 mílna landhelgi Íslands. Talið var að virða yrði háttsemi þeirra sex manna, sem ákærðir voru í málinu fyrir verkskipta aðild að fíkniefnainnflutningi, sem eina heild. Í skilningi 173. gr. a. almennra hegningarlaga hefði brotið verið fullframið þegar efnin voru flutt inn í landhelgi Íslands. Ætlað brot P yrði ekki skilið frá þætti annarra ákærðu í málinu. Af þeim sökum væri það liður í háttsemi sem ætlað var að hafa afleiðingar hér á landi og næði því íslensk refsilögsaga til þess samkvæmt 7. gr. almennra hegningarlaga. Þá var talið að skilyrðum til töku skútunnar á úthafinu hefði verið fullnægt með hliðsjón af 111. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Þannig mætti hefja eftirför þótt skip hefði ekki komið inn í landhelgi strandríkis ef einhver af bátum þess væri staddur innan hennar. Í þessum efnum yrði að jafna til báts hins erlenda skips báti sem sendur væri til móts við það frá strandríki í því skyni að fremja brot innan landhelgi þess í samvinnu við þá sem um borð í skipinu væru. Var frávísunarkröfu P því hafnað. Með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur og P og R gert að sæta hvor um sig fangelsi í 10 en Á í 9 ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2009 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu og upptöku fíkniefna, en refsing ákærðu þyngd.
Ákærði Peter Rabe krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að refsing verði milduð.
Ákærðu Rúnar Þór Róbertsson og Árni Hrafn Ásbjörnsson krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Með ákæru 9. júlí 2009 var ákærðu ásamt þremur öðrum mönnum gefið að sök stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 55.116,65 g af amfetamíni, 53.889,65 g af kannabis og 9.432 MDMA töflum, en efni þessi hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin hafi verið flutt áleiðis til Íslands frá Belgíu með skútunni Sirtaki, en slöngubát af gerðinni Valiant hafi verið siglt til móts við hana og bátarnir mæst 18. apríl 2009 á hafi úti innan við 30 sjómílur suðaustur af landinu, þar sem efnin hafi verið flutt milli báta, og hafi slöngubátnum síðan verið siglt með efnin til Djúpavogs. Þaðan hafi efnin verið flutt yfir í bifreiðina KJ-023 og henni ekið áleiðis til Selfoss, en lögregla stöðvað hana við Höfn og lagt hald á efnin.
Ákærði Peter Rabe reisir aðalkröfu sína á því að íslenska ríkið bresti lögsögu yfir honum eins og atvikum málsins sé háttað. Ákærði er hollenskur ríkisborgari og er hann ekki búsettur hér á landi. Af gögnum málsins er ljóst að hann var leigutaki og skipstjóri skútunnar Sirtaki, sem skráð er í Belgíu. Óumdeilt er að í umræddri ferð var skútunni ekki siglt inn í 12 mílna landhelgi Íslands samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, en í ákæru er við það miðað að fíkniefnin hafi verið færð yfir í áðurnefndan slöngubát utan landhelgi og flutt með honum til lands. Laust eftir miðnætti 19. apríl 2009 hófst leit að skútunni úr lofti, jafnframt því sem varðskip var sent í veg fyrir hana. Flugvél Landhelgisgæslunnar tilkynnti kl. 12.43 þann dag að skútan, er sigldi undir belgískum fána, væri fundin á 63o05,6 norður og 10o42,3 vestur, sem er austan miðlínu milli Íslands og Færeyja og því í færeyskri efnahagslögsögu. Skútan sigldi undir vélarafli í átt til Færeyja og sinnti ekki ítrekuðum fyrirmælum um að stöðva eða snúa til Íslands. Færeyskum yfirvöldum var tilkynnt um komu varðskipsins inn í færeyska efnahagslögsögu kl. 19.17 þennan dag og veittu þau varðskipinu heimild til að stöðva för skútunnar og færa hana til hafnar á Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins veitti flugvél Landhelgisgæslunnar skútunni eftirför uns varðskipið kom að hlið hennar kl. 22.19, en dönsk flugvél tók þó við eftirförinni um tíma meðan íslenska vélin tók eldsneyti. Þegar varðskipið náði skútunni var hún stödd um 66 sjómílur vestnorðvestur af Mykinesi í Færeyjum. Í framhaldi af því leituðu varðskipsmenn ásamt lögreglu uppgöngu í skútuna og reyndust ákærðu vera þar um borð. Skútunni var síðan snúið til Íslands, en ákærðu handteknir.
Í 7. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið á um að sé refsing að einhverju leyti bundin að lögum við afleiðingar verknaðar skuli litið svo á að verkið sé einnig unnið þar sem þessar afleiðingar gerast eða er ætlað að koma fram. Í máli þessu eru sex menn ákærðir fyrir verkskipta aðild að innflutningi verulegs magns fíkniefna til Íslands og verður að virða háttsemi þeirra sem eina heild, en í skilningi 173. gr. a. almennra hegningarlaga var brotið fullframið þegar efnin voru flutt inn í landhelgi Íslands. Ætlað brot ákærða Peters Rabe verður ekki skilið frá þætti annarra ákærðu í málinu. Af þeim sökum var það liður í háttsemi sem ætlað var að hafa afleiðingar hér á landi og nær því íslensk refsilögsaga til þess samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði, sbr. einnig 1. tölulið 4. gr. sömu laga.
Samkvæmt 111. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 má veita erlendu skipi óslitna eftirför þegar yfirvöld strandríkis hafa góða ástæðu til að ætla að skipið hafi brotið lög og reglur þess ríkis. Eftirför verður að hefja þegar erlenda skipið eða einhver af bátum þess er innan landhelgi ríkisins sem eftirför veitir og má því aðeins halda henni áfram utan landhelginnar að eftirförin hafi verið óslitin. Samkvæmt þessu má hefja eftirför þótt skip hafi ekki komið inn í landhelgi strandríkis ef einhver af bátum þess er staddur innan hennar. Í þessum efnum verður að jafna til báts hins erlenda skips báti sem er sendur til móts við það frá strandríki í því skyni að fremja brot innan landhelgi þess í samvinnu við þá sem um borð í skipinu eru. Þar sem leit að skútunni Sirtaki hófst án tafar, fyrrgreindur slöngubátur var innan landhelgi Íslands bæði þegar leitin hófst og þegar flugvél Landhelgisgæslunnar fann skútuna og eftirförin var eftir það óslitin úr lofti og á hafi uns varðskipsmenn fóru um borð í skútuna og sneru henni til Íslands var skilyrðum til töku hennar á úthafinu fullnægt. Eftirförin og taka skútunnar var í fullu samráði og samvinnu við færeysk yfirvöld, en skútan var tekin í færeyskri efnahagslögsögu alllangt utan færeyskrar landhelgi. Samkvæmt því sem að framan segir var ekki þörf á að leita heimildar fánaríkis skútunnar til að grípa til viðeigandi ráðstafana samkvæmt 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988. Að öllu þessu gættu verður frávísunarkröfu ákærða Peter Rabe hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að því er varðar sakfellingu ákærðu, heimfærslu brota þeirra til refsiákvæða og ákvörðun refsingar á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærðu, Peter Rabe, Rúnars Þórs Róbertssonar og Árna Hrafns Ásbjörnssonar, skal draga gæsluvarðhaldsvist, sem þeir hafa hver um sig sætt óslitið frá 20. apríl 2009.
Ákærðu greiði hver fyrir sitt leyti málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Ólafs Arnar Svanssonar, Þorsteins Einarssonar og Sveins Andra Sveinssonar, 498.000 krónur til hvers. Ákærðu greiði sameiginlega annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 226.753 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2009.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 9. júlí 2009 á hendur:
,,Peter Rabe, hollenskum ríkisborgara, fæddum 19. október 1964,
dvalarstaður: Fangelsið Litla-Hrauni,
Rúnari Þór Róbertssyni, kennitala 220868-3629,
Flétturima 15, Reykjavík,
Árna Hrafni Ásbjörnssyni, kennitala 181079-3049,
dvalarstaður: Fangelsið Litla-Hrauni,
Jónasi Árna Lúðvíkssyni, kennitala 250379-4719,
Laugarnesvegi 106, Reykjavík,
Halldóri Hlíðari Bergmundssyni, kennitala 140477-4439,
Hringbraut 119, Reykjavík, og
Pétri Kúld Péturssyni, kennitala 040381-5039,
Sunnuvegi 13, Selfossi,
fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, framið á árinu 2009, með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 55.116,65 g af amfetamíni, 53.889,65 g af kannabis og 9.432 MDMA töflum til Íslands, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru flutt áleiðis til Íslands frá Belgíu með skútunni Sirtaki og var slöngubát af gerðinni Valiant siglt til móts við hana og hittust bátarnir á hafi úti þann 18. apríl innan við 30 sjómílur suð- austur af landinu og voru efnin þar flutt milli báta og slöngubátnum siglt með efnin til Djúpavogs. Þaðan voru efnin flutt yfir í bifreiðina KJ-023 og þeim ekið áleiðis til Selfoss þar sem til stóð að geyma efnin þar til þau yrðu sótt og afhent óþekktum aðila. Lögregla stöðvaði bifreiðina við Höfn og haldlagði efnin.
1. Ákærði Peter Rabe skipulagði innflutning fíkniefnanna er hann fékk meðákærðu Rúnar Þór og Árna Hrafn til ferðarinnar, móttók efnin erlendis og ásamt meðákærðu Rúnari Þór og Árna Hrafni flutti fíkniefnin sjóleiðis með skútunni áleiðis að strönd Íslands. Ennfremur afhentu þeir meðákærðu Jónasi Árna og Halldóri Hlíðari efnin á hafi úti, í því skyni að þeir flyttu efnin í land, en þeir höfðu þá siglt til móts við skútuna.
2. Ákærði Rúnar Þór flutti fíkniefnin ásamt meðákærðu Árna Hrafni og Peter áleiðis að strönd Íslands. Ennfremur afhentu þeir meðákærðu Jónasi Árna og Halldóri Hlíðari, efnin á hafi úti, í því skyni að þeir flyttu efnin í land, en þeir höfðu þá siglt til móts við skútuna á báti.
3. Ákærði Árni Hrafn flutti fíkniefnin ásamt meðákærðu Rúnari Þór og Peter áleiðis að strönd Íslands. Ennfremur afhentu þeir meðákærðu Jónasi Árna og Halldóri Hlíðari, efnin á hafi úti, í því skyni að þeir flyttu efnin í land, en þeir höfðu þá siglt til móts við skútuna á báti.
4. Ákærði Jónas Árni sigldi ásamt meðákærða Halldóri Hlíðari á slöngubáti til móts við skútuna þar sem þeir móttóku fíkniefnin frá meðákærðu Peter, Rúnari Þór og Árna Hrafni og fluttu þau á Djúpavog þar sem meðákærði Pétur Kúld tók við þeim í því skyni að flytja þau áfram til Selfoss. Ákærði hugðist síðar taka á ný við efnunum á Selfossi og afhenda til óþekktra aðila.
5. Ákærði Halldór Hlíðar sigldi ásamt meðákærða Jónasi Árna á slöngubáti til móts við skútuna og móttóku þeir fíkniefnin frá meðákærðu Peter, Rúnari Þór og Árna Hrafni og fluttu þau í land á Djúpavogi þar sem meðákærði Pétur Kúld tók við þeim.
6. Ákærði Pétur Kúld veitti fíkniefnunum móttöku á Djúpavogi frá meðákærðu Jónasi Árna og Halldóri Hlíðari og flutti áleiðis til Selfoss í bifreiðinni KJ-023 en var stöðvaður af lögreglu. Ákærði hugðist geyma efnin á Selfossi uns meðákærði Jónas Árni tæki við þeim á ný.
Háttsemi ákærðu telst varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Upptökukröfur:
Krafist er upptöku á 55.116,65 g af amfetamíni, 53.889,65 g af kannabis og 9.432 MDMA töflum samkvæmt heimild 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
Ennfremur er þess krafist að ákærða Halldóri Hlíðari verði gert að sæta upptöku á 0,47 g af amfetamíni sem fannst við húsleit á heimili hans sunnudaginn 19. apríl 2009, samkvæmt heimild 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Einnig er krafist upptöku á 12 ml af anabólískum stungulyfjum sem fundust við sömu húsleit, þar af 6 ml af lyfinu Sustanon, 4 ml af lyfinu Primobolan og 2 ml af lyfinu Testosteron, sem voru ólöglega flutt til landsins eða ólöglega seld hérlendis, samkvæmt heimild í 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2008, 4. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963.“
Verjandi ákærða Peters Rabe krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Rúnars Þórs Róbertssonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Árna Hrafns Ásbjörnssonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Jónasar Árna Lúðvíkssonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Þess krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun að mati dómsins, verði greidd úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Halldórs Hlíðar Bergmundssonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Péturs Kúld Péturssonar krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundinn og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Samkvæmt lögregluskýrslu, dagsettri 22. apríl 2009, var upphaf lögregluafskipta máls þessa er einstaklingur hringdi í lögreglu og greindi frá tilkynningu sem honum hafði borist frá sjófaranda sem staddur var á skipi fyrir austan land þar sem hann hafði séð til ferða skútu sem stefndi á Papey eða Berufjörð. Í skýrslunni er lýst viðbrögðum lögreglu við þessu en í framhaldinu unnu að málinu mörg lögregluembætti auk Landhelgisgæslu. Fylgst var með komu slöngubátsins til Djúpavogs kl. 23.40 hinn 18. apríl sl. Sama dag var ákærði Pétur Kúld stöðvaður á bifreiðinni KJ-023 og við leit í bifreiðinni fundust fíkniefnin sem í ákæru greinir. Eftir þetta voru ákærðu Jónas Árni og Halldór Hlíðar handteknir þar sem þeir óku bifreiðinni MI-378 frá Djúpavogi.
Í skýrslu Landhelgisgæslunnar, dagsettri 23. apríl 2009, er lýst leit að skútunni Sirtaki og síðar eftirför. Leiddi þetta til þess að lögreglumenn og varðskipsmenn fóru um borð í skútuna kl. 22.39 að kvöldi 19. apríl sl. Um borð í skútunni voru ákærðu Peter Rabe, Rúnar Þór og Árni Hrafn og voru þeir handteknir í kjölfarið.
Ákærðu Jónas Árni, Halldór Hlíðar og Pétur Kúld voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald 19. apríl sl. en ákærðu Peter Rabe, Rúnar Þór og Árni Hrafn hinn 20. apríl 2009 og hafa allir ákærðu sætt gæsluvarðhaldi síðan.
Undir rannsókn málsins hafa ákærðu Peter Rabe, Rúnar Þór og Árni Hrafn allir neitað sök. Undir rannsókninni játuðu ákærðu Jónas Árni, Halldór Hlíðar og Pétur Kúld aðild að málinu en allir kváðust hafa talið að efnin sem um er að ræða væru sterar.
Nú verður rakinn framburður ákærðu fyrir dómi og vitnisburður.
Ákærði Peter Rabe neitar sök. Hann kvaðst hafa tekið skútuna Sirtaki á leigu í Belgíu en tilgangurinn hafi verið að sigla henni í tveggja vikna fríi. Ákærði kvaðst hafa þekkt Rúnar Þór í nokkur ár en ekki kynnst Árna Hrafni fyrir ferðina en þessir menn hafi báðir farið með ákærða í siglinguna en Rúnar Þór hefði átt hugmyndina að leigu skútunnar en ákærði kvaðst hafa orðið að skrá sig sem leigutaka vegna kröfu leigusala þar um. Ákærði, sem var skipstjóri á skútunni, hafi ætlað að sigla skútunni til Norður-Skotlands en þar sem veður hafi verið mjög gott og vindur hagstæður hafi verið siglt til Færeyja. Í leigusamningnum fyrir skútuna segir að henni eigi að sigla á Norðursjó. Aðspurður hvers vegna siglt var út á Atlantshaf kvað ákærði ástæðuna þá að veðrið hefði verið svo gott að áætluð siglingaleið hefði breyst. Á áhafnarlista sem ákærði gaf upp er skútan var tekin á leigu eru skráðar þrjár konur. Hver um sig er skráð á sama heimilisfang og einhver hinna ákærðu í áhöfninni. Ákærði kvað ætlunina hafa verið að sækja konurnar til Hollands en þær hafi verið fylgikonur eins og ákærði bar. Tvær kvennanna bera íslensk nöfn. Aðspurður um hvar ákærði hefði fengið þessi nöfn upp gefin kvað hann það hafa verið hjá fylgiþjónustu í Hollandi. Hann kvað meðákærðu Rúnar Þór og Árna Hrafn hafa vitað um tilvist kvennanna en þeir hefðu ákveðið sameiginlega að hætta við að taka konurnar með. Ákærði lýsti siglingunni sem hófst í Belgíu. Í hollenskri landhelgi komu hollensk tollayfirvöld um borð í skútuna og hafi þau skoðað skútuna og athugað vegabréf áhafnarinnar. Tollverðirnir hefðu spurt um tilefni ferðarinnar og hefði þeim verið greint svo frá að áhöfn skútunnar væri á leið að sækja konur á nafngreindan áfangastað. Eftir að allt hefði reynst í lagi var siglt áfram í áttina til Skotlands og út á Atlantshaf. Siglt var í um 30 til 40 sjómílur frá Íslandi uns skútunni var snúið. Við siglinguna var notað innbyggt GPS siglingartæki um borð í skútunni. Auk þessa hafi þeir haft meðferðis GPS tæki til öryggis en Rúnar Þór eigi tækið. Ákærði kvað engin samskipti hafa verið við umheiminn meðan á siglingunni stóð. Hann kveðst ekki kannast við það að gervihnattasími hafi verið um borð í skútunni á siglingunni og hann kvaðst engin samskipti hafa haft símleiðis á skútunni. Ákærði var spurður um rannsóknargögn, sérstaklega gögn sem talin voru tengjast málinu, þar sem m.a. kemur fram að hinn 19. apríl sl. hafi verið hringt úr síma sem talinn var um borð í skútunni í símanúmer í Hollandi sem faðir ákærða hafði. Ákærði kvaðst ekki hafa hringt og kvað engan síma hafa verið um borð skútunni. Bornar voru undir ákærða ljósmyndir sem teknar voru af minniskorti úr myndavél sem fannst um borð i skútunni en á einni myndanna má sjá Irridium gervihnattasíma eins og segir í rannsóknargögnum. Ákærði kannaðist ekki við símann. Um borð í skútunni fundust umbúðir utan af talstöð, samskonar þeim sem fundust í bifreiðunum sem meðákærðu Jónas Árni og Pétur Kúld höfðu til umráða. Ákærði kvaðst ekki vita neitt um umbúðirnar. Um borð í skútunni fannst taska utan af fartölvu og snúrur tengdar henni. Ákærði kvaðst hafa tekið þetta með sér í ferðina en þessum munum hefði hann bjargað úr bruna er heimili hans brann en tölvubúnaður hans hafi þar brunnið. Aðspurður um það hvers vegna hann hefði ekki stöðvað siglinguna er Landhelgisgæslan gaf merki þar um kvaðst hann hafa fengið fyrirmæli um að koma aftur til Íslands en þar sem hann hefði aldrei komið til landsins hefði hann ekki séð ástæðu til þess að snúa hingað til lands. Hann hefði ekki lagt á flótta heldur hafi hann sagst ætla að sigla til Færeyja þar sem veður hefði verið slæmt. Landhelgisgæslan hefði ekki fallist á þetta.
Ákærði Rúnar Þór neitar sök. Hann kvaðst hafa kynnst Peter Rabe í Danmörku á árinu 2005, er báðir sættu þar refsivist. Fyrr á þessu ári hefðu þeir rætt stofnun fyrirtækis og fundið húsnæði í því skyni í mars sl. Ákærði kvaðst hafa vitað að Peter Rabe væri mikill siglingamaður og hefði ákærði þá nefnt við hann að gaman væri að fara í siglingu á skútu. Ákærði kvað siglinguna hafa verið ákveðna eftir að húsnæði Peters Rabe í Hollandi brann. Peter hefði leigt skútuna Sirtaki í Belgíu og þeir Árni Hrafn farið með í siglinguna. Aðspurður um konurnar þrjár sem skráðar voru í áhöfn skútunnar kvað ákærði það hafa átt að vera gleðikonur. Hann kvaðst ekki vita hvaðan nöfnin komu en tvær kvennanna bera íslensk nöfn eins og rakið var. Hann hefði ekki gefið upp þessi nöfn. Hann lýsti siglingaleiðinni m.a. með ströndum Hollands þar sem tollgæslan hefði komið um borð. Hann kvaðst telja að leitað hefði verið þar þótt hann hefði ekki séð tollverðina t.d. leita í skápum en ákærði hefði verið beðinn um skilríki. Engin athugasemd var gerð og eftir afskipti tollgæslunnar ákváðu ákærðu að sleppa því að taka gleðikonurnar í borð um skútuna þar sem þeir hefðu ekki verið vissir um hvernig þær tækju misjöfnum veðrum. Siglt var um Norðursjó og að Shetlandseyjum. Þeir hefði haft góðan byr og gott veður og þeir þá ákveðið að sigla til Færeyja en það hefði verið ögrun að sögn ákærða. Þá var siglt að ströndum Ísland í um 40 sjómílna fjarlægð. Enginn slöngubátur hefði komið til móts við skútuna eins og lýst er í ákærunni og hann hefði ekki séð slíkan bát en ákærði kvaðst hafa verið á vakt er skútunni var vent og henni siglt frá Íslandsströndum á haf út. Hann kvað veður hafa verið mjög slæmt er Landhelgisgæslan bað um að skútunni yrði snúið og henni siglt til hafnar hér á landi. Á siglingunni kvaðst ákærði hafa séð tvær skútur. Aðra við Shetlandseyjar og hina við Færeyjar. Ákærði kvaðst hafa haft meðferðis GSM síma á skútunni en hann viti ekki um meðákærðu Peter Rabe og Árna Hrafn. Síminn hefði ekki verið notaður á siglingunni enda sambandslaus. Ákærða voru kynnt rannsóknargögnin varðandi ætluð símasamskipti við skútuna eftir að lagt var úr höfn í Belgíu uns ákærðu á skútunni voru handteknir. Hann kannaðist ekki við þau samskipti og kvað engan síma hafa verið um borð en rannsókn leiddi í ljós að síminn sem talinn var um borð í skútunni var með sama IMEI-númeri og Irridium gervihnattasími í eigu ákærða Rúnars Þórs. Ákærði kvaðst hafa átt slíkan síma en hann hefði brunnið með húsi Peters Rabe en þennan síma hefði hann m.a. notað í samskiptum við fjölskyldu sína, síðast í mars sl. að hann taldi. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að meðákærðu um borð í skútunni hefðu notað gervihnattasíma á siglingunni. Ákærði kvað siglingatæki hafa fylgt skútunni. Auk þess kvaðst hann hafa haft Garmin siglingatæki meðferðis en það hafi verið lítið notað og ekki siglt eftir því. Ákærði kannaðist ekki við umbúðir utan af talstöð sem fundust við leit í skútunni eins og áður var rakið. Ákærði kvaðst þekkja meðákærða Jónas Árna í gegnum annað mál og vinskapur hefði stofnast með þeim. Ákærði kvaðst ekki þekkja meðákærðu Halldór Hlíðar og Pétur Kúld. Ákærði var spurður um ljósmyndir á minniskorti sem fannst um borð í skútunni. Hann kvað hugsanlegt að hann hefði tekið þær. Hann muni það ekki.
Ákærði Árni Hrafn neitar sök. Hann kvaðst kannast við Rúnar Þór frá því hér á landi. Peter Rabe og Rúnar Þór hefðu fyrr á árinu leigt hús í Hollandi en ákærði þá búið í Danmörku. Þeir hafi haft samband við ákærða í því skyni að hann aðstoðaði þá við að gera húsið upp. Skömmu fyrir brottför sína frá Danmörku hefði húsið brunnið en ákærði hefði þrátt fyrir það haldið til Hollands enda verið búinn að kaupa farmiðann. Hann kvaðst hafa sagt konu sinni frá upphaflega erindinu til Hollands en ákveðið að segja henni ekki frá hinni breyttu áætlun, þ.e. að sigla. Ástæðuna kvað ákærði þá að hún hefði ,,lítið hjarta“ og hún hefði orðið dauðhrædd hefði hún frétt af siglingunni. Hann hefði ákveðið að fara með í siglinguna enda með siglingaréttindi og siglingareynslu. Peter tók skútuna á leigu í Belgíu. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um skráningu kvennanna í áhöfn skútunnar fyrr en þeir voru komnir á haf út en Peter hefði ekkert samband haft við sig áður vegna þessa. Ákærði kvaðst ekki vita hvernig Peter gat ritað íslensku nöfnin á áhafnalista skútunnar. Þeir hefðu siglt frá Belgíu út á Norðursjó en verið stöðvaðir af hollensku tollgæslunni sem kannaði skilríki áhafnarinnar. Veður var mjög gott og hafi þeir síðar ákveðið að sigla til Færeyja. Þar voru ákjósanlegar aðstæður til að sigla áfram í átt að ströndum Íslands sem úr varð og þeir siglt næst Íslandi í um 30 til 40 sjómílur. Þar var snúið við áður en skútan kom í íslenska landhelgi. Ákærði kvaðst ekki hafa séð gervihnattasíma í borð um skútunni. Honum voru kynnt rannsóknargögn varðandi ætlaða símanotkun um borð og samskipti skipverja við umheiminn. Hann neitaði að það hefði átt sér stað og enginn í áhöfninni notað slíkan síma. Aðspurður um umbúðir utan af talstöð sem fannst um borð í skútunni kvaðst ákærði ekki geta skýrt þær og ekki hafa séð umbúðirnar áður. Engin fartölva hefði verið um borð í skútunni. Ákærði kvaðst þekkja meðákærða Jónas Árna og skýrði hann þeirra kynni. Þá kvaðst hann þekkja meðákærða Pétur Kúld en báðir væru þeir ættaðir frá Selfossi. Hann kvaðst kannast við meðákærða Halldór Hlíðar og vita að hann sé ættaður úr Hveragerði og kvaðst hann muna óljóst eftir honum.
Ákærði Jónas Árni neitar því að hafa staðið að innflutningi fíkniefna til landsins eins og ákært er út af. Hann kvaðst hafa talið að um stera væri að ræða og mun minna magn en kom í ljós er töskurnar voru sóttar í farið sem flutti þær hingað til lands. Ákærði kvað málavexti vera þá að um mánaðarmót mars apríl sl. hafi íslenskur karlmaður sett sig í samband við ákærða vegna þessa máls. Úr varð að þeir hittust í Hollandi og ræddu þeir stöðu ákærða sem á þeim tíma hugðist flytja inn bíla til landsins. Sami maður hafi kynnt ákærða fyrir manni sem heiti Rabe en það væri ekki sami maður og ákærði Peter Rabe. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vita hvort og þá hvernig maðurinn sem kynntur var fyrir ákærða ytra tengdist málinu. Íslenski karlmaðurinn hafi spurt hvort ákærði ætti enn slöngubát sem hann hefði átt en ákærði greint frá því að hann hefði selt bátinn. Maðurinn hafi þá spurt ákærða hvort hann vantaði ekki vinnu meðan hann dveldi á Íslandi en ákærði var þá á leið hingað til lands. Ákærði kvaðst fús til þess enda hefði hann verið peningalítill. Þá hefði maðurinn borið upp erindið og spurt hvort ákærði væri reiðubúinn að aðstoða við að koma fjórum til fimm töskum af sterum hingað til lands. Maðurinn hefði lýst því hvernig ákærði ætti að taka á móti töskunum fyrir suð-austan land og flytja í land og hafi hann átt að fá 7500 evrur fyrir sinn þátt. Eftir að ákærði kvaðst fús til þessa hefði maðurinn greint honum frá skipulaginu og fengið honum í hendur hnit þar sem efnin yrðu afhent utan 12 mílna landhelginnar, auk tímasetninga í þessu skyni. Þá hefði maðurinn afhent ákærða símakort í gervihnattasíma sem hann síðar notaði til að hafa samskipti við farið sem flutti efnin. Ákærði átti að hringja í skipið og athuga hvort símarnir virkuðu og fleira. Símtölin við skipið voru stutt eins og rannsóknargögn beri með sér en ákærða voru kynnt þau gögn og spurður út í símtölin sem skráð eru. Hann kvaðst hafa greint viðsemjanda sínum frá því að hann yrði að fá aðstoð við þetta þar sem að hann ætti ekki lengur slöngubátinn. Maðurinn sagði að ákærði yrði að útvega sér aðstoðarmenn sjálfur sem hann treysti fullkomlega. Skömmu eftir páska hefði ákærði tekið að undirbúa verkið og athuga verð á gistingu, bát með kerru, bíl með krók og fleira. Þá hafði ákærði haft samband við Halldór Hlíðar og greint honum frá því að ferðin austur á land yrði skemmti- og veiðiferð. Þá hafi ákærði leigt bátinn sem lýst er í ákærunni. Hann hafi síðan haft samband við Pétur Kúld en hann sagðist hafa rætt við þessa tvo meðákærðu m.a. vegna þess að hann vissi að báðir voru peningaþurfi eins og ákærði. Hann kvaðst ekki hafa greint þeim frá því hvað til stæði enda taldi hann útilokað að fá þá með vissu þeir hver raunverulegur tilgangur ferðarinnar austur var. Hann kvað þessa meðákærðu góða og heiðarlega drengi og hann sjái mjög eftir því að hafa sagt þeim ósatt og farið með þá eins og hann gerði. Ákærði kvað þá Halldór Hlíðar hafa farið saman austur á land en Pétur Kúld komið daginn eftir. Hann lýsti aðgerðum þeirra á Djúpavogi og undirbúning við sjósetningu slöngubátsins. Þeir hefðu farið í verslun og m.a. keypt olíu. Föstudagskvöldið 17. apríl sjósettu þeir slöngubátinn og prófuðu. Laugardagsmorguninn 18. apríl hefðu þeir siglt út fyrir Papey og verið allir þrír um borð. Þá fyrst hefði ákærði borið upp erindið við meðákærðu Halldór Hlíðar og Pétur Kúld og greint þeim svo frá að hann ætlaði að sækja 4 til 5 töskur af sterum og flytja í land eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað meðákærðu hafa brugðið en hann kvaðst hafa boðið þeim 75.000 króna greiðslu hvorum fyrir aðstoðina. Pétri hefði fundist fjárhæðin of lág. Úr varð að ákærði lofaði hvorum um sig 250.000 krónum fyrir aðstoðina. Einnig hafi borið á góma að útvega Pétri mótorhjól. Halldór hefði haft hug á því að fá greitt í sterum. Þetta hefði ekki verið rætt meira þarna en þeir haldið í land. Seinni part sama dags hefðu þeir Halldór farið út á bátnum en Pétur orðið eftir í landi. Um kvöldmatarleytið hefðu þeir komið á slöngubátnum á fyrirfram ákveðinn stað og að farinu sem flutti efnið. Er í ljós kom að töskurnar voru mun fleiri en áður hafði verið rætt kvaðst ákærði hafa orðið reiður og haft orð á þessu við einn mannanna sem voru á skipinu. Sá hefði sagt að það skipti ekki máli, innihaldið væri það sama og rætt hefði verið þ.e. sterar. Aðspurður kvað ákærði ekki hafa verið gott að hætta við á þessari stundu og því ekki haft mikið val. Hvorugur þeirra Halldórs hefði kannað innihald tasknanna. Eftir að hafa tekið töskurnar um borð í slöngubátinn hefðu þeir Halldór hringt í Pétur og þeir mælt sér mót á ákveðnum stað. Þar voru töskurnar fluttar úr bátnum og í bifreið sem Pétur hafði til umráða. Hann kvað Pétri hafa brugðið er hann sá hve töskurnar voru margar. Pétur hefði síðan farið í burtu með töskurnar en komið aftur á sama stað þar sem ein taskan hefði gleymst. Ákveðið var að Pétur kæmi töskunum fyrir í ákveðnu húsi á Selfossi en þangað átti síðan að sækja töskurnar, en ákveðið var að ákærði hringdi og léti vita hvar töskurnar væru niður komnar. Ákærði kvaðst aðeins hafa haft orð viðsemjenda síns fyrir því að í töskunum væru sterar. Hann kvað manninn hafa vitað afstöðu sína til fíkniefna sem hann væri mjög mótfallinn og maðurinn hefði vitað að ákærði hefði verið ófáanlegur til verksins ef hann hefði vitað hvers kyns var. Hann kvaðst hafa talið manninn vera vin sinn og kunningja og ekki grunað að hann gengi svona á bak orða sinna. Ákærði kvaðst hafa beðið Pétur og Halldór að skilja farsíma eftir er þeir fóru austur á land. Þetta hefði verið hluti fyrirmæla sem ákærði fékk ytra í sambandi við skipulagninguna. Hann kvaðst því hafa keypt tvo síma sem aðeins átti að nota í þessu skyni. Ákærði hefði haft annan símann en Pétur Kúld hinn. Þá kvaðst ákærði hafa notað gervihnattasíma sinn til samskipta við farið sem flutti efnið til landsins en ákærði vildi ekki staðfesta hvers kyns skipt var um að ræða. Hann kvaðst sá eini sem notaði gervihnattasímann sem hafði samband við flutningsfarið. Hann kvað skipverjana á flutningsfarinu hafa verið fleiri en tvo en vildi ekki tjá sig nánar þar um. Ákærði kvaðst hafa verið beðinn um að kaupa mótorolíu fyrir skipið sem kom með efnin. Hann hefði keypt olíuna hjá N1 og afhent hana þegar hann móttók töskurnar. Ákærði kvaðst hafa fengið afhentar tvær talstöðvar hjá viðsemjenda sínum og hafi það verið talstöðvarnar sem fundust í bifreið ákærða en hin í bifreið Péturs Kúld.
Ákærði Jónas Árni kaus að svara ekki spurningum um það hvers konar far hann fór til móts við til að taka við efnunum. Hann kvaðst heldur ekki vilja nafngreina viðsemjandann. Ástæðuna kvað hann þá að maðurinn hefði lokkað sig til verksins og farið á bak við hann með því að afhenda fíkniefni en ekki stera. Auk þessa hafi sér verið gefið til kynna í gæsluvarðhaldinu, eftir að einangruninni létti, að sér væri hollast að þegja og segja ekki til mannsins sem hér um ræðir. Ákærði kvaðst í þessu ljósi hafa ákveðið að nafngreina manninn ekki en maðurinn hafi ekki verið um borð í flutningsfarinu.
Ákærði Jónas Árni kvaðst hafa hitt Rúnar Þór og Pétur Kúld í Hollandi fyrr á þessu ári og Árna Hrafn í Danmörku. Hann kvaðst aldrei hafa hitt meðákærða Peter Rabe.
Ákærði Halldór Hlíðar neitar að hafa staðið að innflutningi fíkniefnanna til landsins eins og ákært er út af. Hann hafi talið að málið varðaði innflutning stera. Ákærði kvað Jónas Árna hafa haft samband við sig á þriðjudegi eða miðvikudegi fyrir ferð þeirra austur á land og hafi hann boðið sér í veiði- og skemmtiferð og til að æfa köfun. Þeir Jónas Árni urðu samferða austur á bifreið sem Jónas Árni ók. Á föstudeginum hittu þeir Pétur Kúld sem þá var kominn á Djúpavog seinni hluta dags og þeir hefðu sjósett slöngubátinn og farið út til veiða. Daginn eftir, laugardaginn 18. apríl, vöknuðu ákærðu allir snemma og fóru í siglingu á bátnum fyrir hádegi og komu í land um hádegisbil. Ákæðri hefði lagt sig en verið vakinn laust fyrir klukkan 16 til að fara aftur út á sjó en í þessa ferð tóku þeir með búnað til köfunar. Í þessari ferð voru þeir Jónas Árni tveir og ákærði þá fyrst heyrt um töskurnar sem til stóð að sækja. Jónas Árni hefði greint frá því að hann væri að sækja 4 til 5 töskur sem innihéldu hormónalyf. Sigla hafi átt til móts við skútu. Ákærði kvaðst ekki hafa verið ánægður með þetta og þeir hafi deilt um þetta á útsiglingunni. Að lokum hefði hann látið til leiðast og ekki getað annað úr því sem komið var. Hann kvað ekki hafa verið samið um greiðslu til sín fyrir þetta. Siglt hafi verið til móts við skútu sem flutti töskurnar sem síðan reyndust mun fleiri en áður var um rætt. Ákærði kvað sér hafa brugðið og Jónas Árni hefði orðið mjög reiður vegna þessa en hann kvaðst ekki hafa heyrt hvað Jónasi Árna og áhöfn skútunnar fór á milli. Halldór staðfesti að hafa séð meðákærðu Peter Rabe og Árna Hrafn í skútunni en hann kvaðst ekki hafa séð Rúnar Þór. Það hafi verið Árni Hrafn sem einkum sá um að afhenda töskurnar um borð í slöngubátinn. Hann kvað þá Jónas Árna síðan hafa siglt slöngubátnum í land þar sem Pétur var fyrir og töskurnar voru síðan færðar í bifreið sem Pétur hafði til umráða. Hann kvað Pétri hafa brugðið er hann sá hvað töskurnar voru margar en ákærði kvaðst ekki vita hvenær Pétur fékk að vita hvað til stóð. Þeir Jónas Árni hefðu síðan siglt frá og aftur í land og gengið frá búnaðinum. Hjá lögreglunni lýsti ákærði brúnni yfirbyggingu skútunnar en fyrir dóminum kvaðst hann ekki viss um þetta
Ákærði Halldór Hlíðar kvaðst hafa treyst Jónasi Árna, vini sínum, varðandi það að í töskunum hafi verið hormónar og ekki hugleitt annað. Hann kvaðst hafa ákveðið að aðstoða við að upplýsa málið og greina satt og rétt frá því sem hann vissi um málið þar sem hann hefði orðið bæði sár og reiður er í ljós kom að hann hafði verið blekktur.
Ákærði Halldór Hlíðar kvað olíu hafa verið keypta hjá N1 og hún flutt um borð í skútuna er töskurnar voru sóttar. Ákærði kvað einu samskiptin sem hann varð vitni að við skútuna hafa átt sér stað er þeir Jónas Árni voru nýlagðir af stað til móts við skútuna. Það símtal hafi verið stutt en notaður hafi verið gervihnattasími. Hann hafi ekki séð önnur samskipti við skútuna. Ákærði kvað Jónas Árna hafa beðið sig um að hafa ekki farsíma meðferðis austur á land, ferðin hafi átt að vera ,,strákaferð“ og hann ekki viljað truflun. Jónas Árni hefði aldrei rætt við sig um hverjir væru skipverjar á skútunni.
Ákærði Pétur Kúld neitar að hafa staðið að innflutningi fíkniefna til landsins eins og ákært er út af. Hann hafi talið að innflutningurinn varðaði stera. Ákærði kvað Jónas Árna hafa boðið sér í veiði- og skemmtiferð í vikunni sem þeir fóru austur á land. Ákærði kvaðst hafa tekið vel í þetta og hafi hann komið austur á Djúpavog að morgni föstudagsins 17. apríl. Þann dag hittust þrír ákærðu fyrir austan og sjósettu bátinn seinni hluta dags og héldu til veiða. Ákærði kvað Jónas Árna hafa afhent sér síma sem nota átti í ferðina og beðið sig um að taka ekki með annan farsíma. Daginn eftir, laugardaginn 18. apríl, voru þeir ákærði, Jónas Árni og Halldór Hlíðar þrír á bátnum nærri Papey er Jónas Árni sagði þeim erindi sitt austur á land og að hann væri að sækja 4 til 5 töskur sem innhéldu stera. Hann kvað Halldór hafa viljað fá greitt í sterum. Ákærði kvaðst hafa talið töskurnar innihalda stera og kvaðst hann hafa talið málið saklaust þótt hann viti að innflutningur stera á þennan hátt sé ólöglegur. Ákærði kvaðst hafa ákveðið að taka þátt í þessu, en hann hafi átt að fá 250.000 krónur fyrir sína þátttöku eða mótorhjól. Meðákærði Jónas Árni bar efnislega á sama veg um þetta. Ákærði kvaðst hafa verið atvinnulaus og peningalítill og slegið til en hans hlutverk hai verið það sem lýst er í ákærunni, þ.e. að taka við töskunum úr slöngubátnum eins og hann gerði og koma töskunum fyrir á ákveðnum stað á Selfossi. Ákærði kvað sér hafa verið mjög brugðið er hann sá fjölda tasknanna sem meðákærðu komu með í land á slöngubátnum. Hann kvaðst hafa verið búinn að koma sér í aðstæður sem hann gat ekki bakkað út úr og tekið töskurnar í bílinn. Ein taska hefði gleymst og hann þá snúið við og sótt hana og ekið áleiðis til Selfoss uns hann var handtekinn með töskurnar í bílnum. Aðspurður um það hvort hann hefði aldrei leitt hugann að því að töskurnar kynnu að innihalda annað en stera kvaðst ákærði hafa viljað sem minnst vita og viljað drífa sig á Selfoss til að losa sig við töskurnar. Hann kvaðst hafa treyst Jónasi Árna um að þetta væru sterar, en þeir Jónas Árni væru góðir vinir.
Vitnið Elvar Óskarsson lögreglufulltrúi skýrði fyrir dóminum vinnu sína og samstarf lögregluembætta við rannsóknina. Hann vann ásamt fleirum við upphaf rannsóknar málsins á Djúpavogi og staðfesti fyrir dóminum skjöl þar að lútandi. Elvar lýsti því er lögreglan fylgdist með er töskurnar sem í ákæru greinir voru færðar úr slöngubátnum í bifreiðina KJ-023, en akstur bifreiðarinnar var stöðvaður nærri Höfn í Hornafirði þar sem ákærði Pétur Kúld var handtekinn. Elvar lýsti því hvernig fylgst var með ferðum ákærðu Jónasar Árna og Halldórs Hlíðar á Djúpavogi uns þeir voru handteknir. Hann lýsti því að lögreglan ásamt fulltrúa frá eiganda skútunnar Sirtaki hefðu tekið olíusýni af vél skútunnar þar sem hún lá innsigluð í höfninni á Djúpavogi.
Vitnið Kjartan Ægir Kristinsson rannsóknarlögreglumaður skýrði og staðfesti að hafa skoðað sjókort sem fannst í bifreiðinni MI-378 vegna málsins. Hann skýrði hnit sem fram koma á sjókorti og eru af hafsvæði fyrir austan land. Þá skýrði hann vinnu sína við gerð skýrslna, beggja dagsettra 29. júní 2009, varðandi hnit á slöngubát sem undir rannsókn málsins var talinn hafa verið notaður við flutning fíkniefnanna sem hér um ræðir. Hnitin eru fundin úr staðsetningatæki sem fannst við leit í bifreiðinni MI-378, bifreið ákærða Jónasar Árna. Í tækinu voru vistaðir punktar sem vitnið vann úr gögnum frá tæknirannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Einn punktur var vistaður í tækinu og var það talinn mætingarstaður slöngubátsins og skútunnar Sirtaki. Þá teiknaði vitnið á kort feril slöngubátsins eftir tækinu og skýrði hann þetta nánar. Áætlaður mætingarstaður slöngubátsins og skútunnar er færður inn eftir áætlun sem Landhelgisgæslan vann. Hnit eru sett inn á kortið eftir upplýsingum frá skipverjum um borð í þremur skipum á þessum slóðum sem kváðust hafa séð til skútunnar. Kjartan skýrði hvernig unnt var að sjá af gögnunum er slöngubáturinn var nánast kyrrstæður á stað þar sem talið var að bátarnir hefðu hist. Hann kvað skipverjana sem hann ræddi við hafa verið undrandi á því að sjá skútu á þessum stað á þessum árstíma. Þess vegna hefði einn þeirra haft samband við lögreglu vegna málsins. Enginn skipverjanna sá nema eina skútu á þessum slóðum. Vitnið staðfesti að gögn sem sögð eru frá Landhelgisgæslunni meðal ganga málsins væru þaðan komin. Hann skýrði vinnu sína með gögnin.
Vitnið Kristján Friðþjófsson rannsóknarlögreglumaður skýrði og staðfesti vinnu sína við myndflettingu er ákærði Halldór Hlíðar Bergmundsson benti á ákærðu Peter Rabe og Árna Hrafn Ásbjörnsson sem áhafnarmeðlimi á skútunni.
Vitnið Kristinn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður skýrði að minniskort hefði fundist í skútunni Sirtaki er henni var siglt til Belgíu en kortinu var komið í hendur lögreglu. Hann lýsti myndunum af minniskortinu en sjá megi hvenær myndirnar voru teknar en þær voru teknar meðan ákærði Peter Rabe hafði skútuna á leigu. Kristinn lýsti því að könnuð hafi verið nöfn kvennanna sem skráðar voru í áhöfn skútunnar. Engin þeirra hefði búið á uppgefnu heimilisfangi. Hollensk yfirvöld hefðu ekki fundið konuna sem skráð var til heimilis á sama stað og ákærði Peter Rabe. Íslensku nöfnin virtust ekki til í þjóðskrá og ekki hjá dönskum yfirvöldum þar sem konurnar sem báru íslensk nöfn voru skráðar til heimilis á sömu stöðum og ákærðu Rúnar Þór og Árni Hrafn á sitthvorum staðnum í Kaupmannahöfn. Nöfnin virðist þannig tilbúin. Kristinn skýrði rannsókn sína á minnislykli í eigu ákærða Peters Rabe þar sem var að finna leiðbeiningar um það hvernig tengja ætti GPS tæki við fartölvu. Hann kvað ákærða Halldór Hlíðar hafa aðstoðað lögreglu við að upplýsa málið og aðstoð hans hefði verið mikilvæg.
Vitnið Þorbjörn Jóhannesson rannsóknarlögreglumaður lýsti leit sinni í skútunni Sirtaki. Þar hafi m.a. fundist taska utan af fartölvu og snúrur henni tengdar. Engin fartölva hefði fundist. Hann staðfesti að umbúðir utan af talstöð hefðu fundist en engin talstöð fundist í skútunni. Þá lýsti Þorbjörn leit í bifreið sem ákærði Jónas Árni hafði til umráða. Þar hefði m.a. fundist sjókort, plast utan af Irridium símkorti og Garmin staðsetningartæki.
Vitnið Magnús Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður tók þátt í leit í bifreiðinni KJ-023, bifreið ákærða Péturs Hlíðar. Í bifreiðinni fannst m.a. Akai talstöð og staðfesti vitnið að komi það fram í skýrslu að talstöðin hafi fundust þar, sé það rétt í skýrslunni, þótt hann reki ekki minni til þess nú.
Vitnið Einar Valsson skipherra lýsti afskiptum Landhelgisgæslunnar og eftirför eftir skútunni Sirtaki. Hann staðfesti og skýrði skýrslu Landhelgisgæslunnar um þetta. Hann lýsti aðferðum sem notaðar voru við að reikna áætlaða staðsetningu skútunnar eftir að áætlaður mætingastaður skútunnar og slöngubátsins lá fyrir. Flugvél Landhelgisgæslunnar hafi síðan fundið skútuna og fyrirskipað að henni yrði siglt til Íslands sem ekki var orðið við, en þau fyrirmæli hefðu ítrekað verið gefin án þess að þeim væri sinnt. Fyrst hefði skipstjóri skútunnar sagt að hann væri með skútuna á leigu og þyrfti að skila henni og stöðvaði því ekki siglinguna og síðar hefði hann borið fyrir sig slæmu veðri og sjólagi en hann hefði í samskiptum við flugvélina samþykkt að koma við í Færeyjum. Dönsk flugvél leysti vél Landhelgisgæslunnar af hólmi tímabundið meðan sótt var eldsneyti. Síðar sigldi varðskipið í veg fyrir skútuna og að lokum fóru menn frá lögreglu og Landhelgisgæslu um borð í skútuna eftir að erlendum skipstjóra skútunnar var tilkynnt um það, en hann hafði ekki athugasemdir fram að færa. Þegar þetta átti sér stað var skútan stödd 66 sjómílur vest-norð-vestur af Mikinesi í Færeyjum en upplýsingar lágu fyrir um það að haft hafi verið samband við færeysk yfirvöld sem kváðu Landhelgisgæsluna hafa haft fulla heimild til þess að stöðva för skútunnar og færa hana til hafnar á Íslandi. Einar kvað hafa verið svipast um eftir skútum á leitarsvæðinu en er skútan Sirtaki var fundin beindust aðgerðir að því að stöðva för hennar. Aðrar skútur sáust ekki á þessum tíma.
Vitnið Snorri Birgisson rannsóknarlögreglumaður staðfesti að hafa skoðað stillingar á talstöðvum sem fundust í bifreiðum ákærðu Jónasar Árna og Péturs Kúld. Er kveikt var á talstöðvunum hafi þær báðar verið stilltar á rás 8. Snorri skoðaði einnig umbúðir utan af talstöð sem fundust um borð í Sirtaki. Þar hafi einnig verið leiðbeiningar fyrir sams konar talstöðvar og fundust í bifreiðunum sem áður var vikið að. Ekki var unnt að ráða af umbúðunum hvort þær voru utan af einni eða tveimur talstöðvum. Þá staðfesti Snorri að við leit í bifreið ákærða Jónasar Árna hefði m.a. fundist gervihnattasími, plast utan af símkortum slíks síma og GPS gervihnattamóttakari. Snorri staðfesti og skýrði skýrslu sem hann ritaði, dagsett 12. júní sl., eftir að hafa skoðað minniskort sem fannst í Sirtaki. Hann kvað lögreglumennina sem leituðu í skútunni hafa staðfest að myndirnar af minniskortinu væru af skútunni Sirtaki, auk þess sem dagsetningar sýni hvenær myndirnar væru teknar. Hann kvað eina ljósmyndanna sýna mynd af því sem hann kvaðst viss um að væri Irridium gervihnattasími. Snorri kvað vélarolíu af skútunni Sirtaki og olíu af sömu tegund og ákærðu keyptu á Djúpavogi hafa verið senda til samanburðarrannsóknar í gegnum N1. Sýnin hafi verið send til rannsóknar hjá Esso erlendis. Þar hafi verið staðfest að olían um borð í skútunni og olían sem keypt var á Djúpavogi væru sama olíutegund.
Vitnið Haukur Sigmarsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti að við leit i bifreið ákærða Jónasar Árna hafi fundist talstöð og hleðslutæki fyrir talstöð.
Vitnið Húnbogi Jóhannsson rannsóknarlögreglumaður skýrði og staðfesti skýrslu sem hann vann og tengist símasamskiptum. Húnbogi skýrði hvernig IMEI-númer Irridium símans um borð i skútunni hafa reynst vera númer síma sem systir ákærða Rúnars Þórs var skráð fyrir, en rannsókn hafi leitt í ljós að ákærði Rúnar Þór hafi verið rétthafi og notandi símans. Aflað var upplýsinga um notkun símans til 27. mars 2009. Þar hafi komið í ljós að síminn var notaður til að hafa samband við vini og ættingja ákærða Rúnars Þórs. Notkun símans hafi síðan hafist aftur 7. apríl sl. en þá hafi verið komið annað Irridium númer í sama síma og er það númerið sem talið var notað um borð í skútunni og í samskiptum við gervihnattasíma sem ákærði Jónas Árni notaði hér á landi. Húnbogi skýrði að reynt hefði verið að hringja úr símanum sem talinn var hafa verið um borð í Sirtaki í föður ákærða Peters Rabe hinn 19. apríl 2009. Hann kvað þetta hafa verið rannsakað og í ljós hafi komið að reynt hafi verið að hringja í föður ákærða Peters Rabe úr símanum. Húnbogi kvað skýrslu sína unna upp úr gögnum frá símafyrirtækjum hér á landi.
Vitnið Sigurður Jónsson kvaðst hafa verið um borð í skipinu Hrafni Sveinbjarnasyni fyrir austan land hinn 18. apríl sl. er hann sá til ferða skútu um kl. 17.50 um 29 sjómílur suð-austur af Papey. Hann kvaðst ekki hafa séð auðkennisfána á skútunni en haft á orði við viðmælenda sinn í síma á þessum tíma að honum hefði fundist skrýtið að sjá skútu á þessum árstíma. Skútan hefði stefnt hingað til lands. Hann kvaðst ekki hafa séð aðra skútu á þessum slóðum. Sigurður kvaðst hafa verið á sjó í yfir 20 ár og ekki áður séð skútu þarna á þessum árstíma. Þetta hefði komið á óvart.
Vitnið Jón K. Valdimarsson lögreglumaður kvaðst ásamt fleirum hafa farið um borð í Sirtaki hinn 20. apríl sl. er ákærðu sem voru í áhöfn skútunnar voru handteknir. Hann lýsti aðstæðum en veður var slæmt og lýsti hann því. Hann lýsti því er hann hékk á bekkverki skútunnar er hann missti fótanna. Þetta endaði með því að Rúnar Þór aðstoðaði hann við að komast umborð í skútuna.
Vitnið Þorbjörn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður vann og skýrði og staðfesti fyrir dóminum skýrslu sína, dagsetta 26. júlí 2009, um staðsetningu gervihnattasíma samkvæmt upplýsingum frá Irridium í Bandaríkjunum. Hann skýrði að rannsóknin hefði leitt í ljós að aðeins einn gervihnattasími hefði verið í sambandi við gervihnattasíma í landi en það er síminn sem grunur var um að væri í borð í skútunni Sirtaki. Þorbjörn vísaði til framburðar undir rannsókninni um nær dagleg samskipti gervihnattasíma sem ákærði Jónas Árni notaði í landi við skútuna Sirtaki. Vegna þessa fékkst í Bandaríkjunum heimild til að skoða staðsetningu símans sem ákærði Jónas Árni var í samskiptum við. Þorbjörn skýrði kort sem hann vann eftir þessum upplýsingum frá Bandaríkjunum en samkvæmt kortinu megi fylgja slóð skútunnar frá strönd Hollands 11. apríl 2009 og að ströndum Íslands. Þorbjörn staðfesti að hann hefði unnið skýrslurnar upp úr gögnum frá Bandaríkjunum sem fylgja. Þorbjörn kvað plastkort utan af símkorti merkt Irridium hafa fundist í fórum ákærðu Peter Rabe og Jónasar Árna. Hann lýsti tilraunum lögreglu til að finna út hvar kortin hefðu verið keypt, einkum vegna þess að símanúmerin séu mjög lík, og undir rannsókninni hafi verið talið að kortin hefðu af þessum sökum verið keypt á sama tíma og væru úr sömu seríu. Hann lýsti því að franskt fyrirtæki hefði selt kortin en ekki hefði unnist tími til að afla upplýsinga um það hvert kortin hefðu verið send til sölu. Hann lýsti því að bæði símkortin sem hér um ræðir hefðu verið opnuð og gerð virk sama dag, 6. apríl 2009, og bæði símkortin renni út sama dag. Annað símkortanna var í síma sem fannst í fórum ákærða Jónasar Árna og sá sími hafi borið IMEI-númerið sem fram komi í rannsóknargögnum og enginn annar sími hafi sama IMEI-númer. Hitt símakortið var talið hafa verið í símanum um borð í Sirtaki en honum hafi að líkindum verið hent í sjóinn.
Vitnið Herbert Herbertsson smurolíuráðgjafi kom fyrir dóminn og skýrði rannsókn sem fram fór á innsigluðu smurolíusýni og nýrri ónotaðri olíu. Hann hvað sér hafa verið greint frá því að tilgangur rannsóknarinnar hefði verið sá að athuga hvort um sömu olíutegund hefði verið að ræða. Hann skýrði niðurstöður um að svo virðist sem um sömu olíutegund væri að ræða.
Niðurstaða
Inngangskafli ákæru.
Ákærðu Peter Rabe, Rúnar Þór og Árni Hrafn hafa allir neitað sök. Áður er lýst leigu skútunnar Sirtaki í Belgíu og skráningu áhafnar og því að skútunni hafi átt að sigla um Norðursjó. Framburður ákærða Peter Rabe og að hluta framburður ákærðu Rúnars Þórs og Árna Hrafns um breytta siglingaáætlun er ótrúverðugur. Framburður þessara þriggja ákærðu um skráningu kvennanna þriggja á skútuna er einnig ótrúverðugur. Það sem síðar gerðist bendir til þess að skráning kvennanna á skútuna hafi verið í því skyni að leyna raunverulegum tilgangi siglingarinnar.
Áður var rakin rannsókn á símanotkun Irridium farsímans með IMEI-númeri síma í eigu eða umráðum ákærða Rúnars Þórs. Samkvæmt framburði ákærða Jónasar Árna notaði hann Irridium farsíma sinn í samskiptunum við aðilana sem fluttu fíkniefnin hingað til lands. Ákærði Jónas Árni kvaðst hafa fengið símakortið í Irridium símann hjá aðila sem fékk hann til verksins. Samkvæmt rannsókn sem vitnið Þorbjörn Sigurðsson rannsóknalögreglumaður vann og skýrði og staðfesti fyrir dómi voru símakortin í Irridium síma ákærða Jónasar Árna og í símanum með IMEI-númeri síma ákærða Rúnars Þórs virkjuð sama dag og renna út sama dag. Númerin eru mjög lík bæði eru með 12 tölustöfum og eru eins utan síðasti tölustafurinn. Þá skýrði Þorbjörn rannsóknargögn frá Bandaríkjunum sem sýna staðsetningu á Irridium síma ákærða Rúnars Þórs á leið skútunnar Sirtaki allt frá ströndum Hollands og áfram hingað til lands. Tímasetning símanotkunarinnar kemur heim og saman við siglingu skútunnar Sirtaki hingað til lands samkvæmt framburði ákærðu í áhöfn skútunnar og er einnig í samræmi við framburð ákærða Jónasar Árna um símasamband hans við farið sem flutti fíkniefnin til landsins.
Ákærðu Peter Rabe, Rúnar Þór og Árni Hrafn hafa allir neitað tilvist Irridium gervihnattasíma um borð í skútunni á siglingu hennar til landsins.
Fyrir liggur minniskort úr myndavél sem fannst í skútunni og hefur ákærði Rúnar Þór talið hugsanlegt að hann hafi tekið myndirnar þótt hann myndi það ekki. Á einni myndanna má sjá síma og verður ekki betur séð en að það sé gervihnattasími en vitnið Snorri Birgisson rannsóknarlögreglumaður kvaðst viss um að síminn sem hér um ræðir sé Irridium gervihnattasími. Við skoðun mynda á minniskortinu má sjá fjölda mynda sem teknar voru um borð í skútunni Sirtaki frá því að lagt var úr höfn í Belgíu í apríl sl. áleiðis hingað til lands. Má þar sjá áhöfnina og myndir teknar af höfrungum en ákærði Rúnar Þór bar hjá lögreglunni að hafa tekið þær myndir. Af gögnunum sést hvenær myndirnar voru teknar eins og vitnin Snorri Birgisson og Kristinn Sigurðsson rannsóknarlögreglumenn báru. Tökutími myndanna sem lýst var kemur heim og saman við tímann er skútunni var siglt til landsins.
Ákærði Halldór Hlíðar hefur borið að ákærðu Peter Rabe og Árni Hrafn hafi verið um borð í skútunni þangað sem töskurnar voru sóttar.
Auk þess sem nú hefur verið rakið tengir ýmislegt fleira ákærðu í áhöfn skútunnar við aðra ákærðu í málinu svo sem kunningsskapur eins og lýst var. Þá fundust um borð í skútunni Sirtaki umbúðir utan af sams konar talstöðvum og fundust í bifreiðum sem ákærðu Pétur Kúld og Jónas Árni höfðu til umráða, en ákærði Jónas Árni kvað manninn sem fékk hann til verksins hafa afhent sér talstöðvarnar. Þá fannst í fórum ákærðu Jónasar Árna sjókort og hnit þar sem ætlað var að afhending efnanna færi fram. Þá báru ákærðu Jónas Árni og Halldór Hlíðar um olíu sem keypt var á Djúpavogi og flutt um borð í skútuna er töskurnar voru sóttar. Fyrir liggur rannsókn og samanburður á olíunni á vél skútunnar og olíu sömu tegundar og sú sem keypt var á Djúpavogi og flutt var um borð í skútuna. Rannsóknin bendir til þess að um sams konar olíu sé að ræða. Þessi niðurstaða ásamt fleiru styður framburð ákærðu Jónasar Árna og Halldórs Hlíðar um olíukaupin en hefur ekki úrslitaáhrif við mat á trúverðugleika framburðar þessara tveggja ákærðu.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið og að virtum öðrum gögnum málsins er það mat dómsins að framburður Jónasar Árna, Halldórs Hlíðar og Péturs Kúld sé trúverðugur, svo langt sem framburður hvers og eins um sig nær. Ekkert er fram komið í gögnum málsins sem hrekur framburð þeirra varðandi flest sem málið varðar utan neitun ákærðu Peters Rabe, Rúnars Þórs og Árna Hrafns. En það er mat dómsins að framburður hinna þriggja síðasttöldu sé ótrúverðugur og í ósamræmi við flest sem fram er komið í málinu og verður niðurstaða málsins ekki reist á framburði þeirra.
Að öllu ofanrituðu virtu og að virtum rannsóknargögnum málsins og vitnisburði lögreglumannanna sem komu fyrir dóminn og staðfestu rannsókn sína, með framburði ákærðu Jónasar Árna, Halldórs Hlíðar og Péturs Kúld, en gegn neitun ákærðu Peter Rabe, Rúnars Þórs og Árna Hrafns er sannað að ákærðu hafi allir gerst sekir um háttsemi þá sem lýst er í inngangskafla ákærunnar ,,að hafa staðið saman að innflutningi“ fíkniefnanna sem þar greinir hingað til lands til söludreifingar í ágóðaskyni. Að mati dómsins er augljóst að jafn mikið magn fíkniefna og hér um ræðir er ætlað til söludreifingar. Þáttur ákærðu í atburðarásinni í heild er hins vegar misjafn sem og ásetningsstig og verður vikið að því síðar.
Ákæruliðir 1 til 3.
Ekkert liggur fyrir í málinu um það að ákærði Peter Rabe hafi skipulagt innflutning fíkniefnanna. Þótt hann hafi leigt skútuna Sirtaki í Belgíu nægir það ekki til þess að unnt sé að sakfella hann, gegn neitun, fyrir skipulagninguna á þann hátt sem í þessum ákærulið greinir. Þá liggur heldur ekkert fyrir um það að hann hafi fengið meðákærðu Rúnar Þór og Árna Hrafn til ferðarinnar. Þótt líklegt sé að ákærði Peter Rabe hafi einhvern tíma í heildaratburðarásinni móttekið fíkniefnin ytra liggur ekkert fyrir um það að hann hafi móttekið efnin erlendis ásamt meðákærðu Rúnari Þór og Árna Hrafni. Ber að sýkna ákærða Peter Rabe af þessum hluta þessa ákæruliðar. Hins vegar er sannað, á sama hátt og rakið var að ofan, að hlutur ákærða Peters Rabe er sá sem lýst er í niðurlagi 1. liðar ákæru, þ.e. að hann flutti fíkniefnin áleiðis að strönd Íslands og afhenti þau ásamt meðákærðu Rúnari Þór og Árna Hrafni eins og lýst er í 1. lið ákæru.
Þáttur ákærðu Rúnars Þórs og Árna Hrafns samkvæmt ákæruliðum 2 og 3 er sannaður á sama hátt og að ofan greinir.
Ákæruliðir 4 til 6.
Ákærðu samkvæmt þessum ákæruliðum hafa allir borið að efnislýsing samkvæmt þessum ákæruliðum sé rétt utan ákærði Jónas Árni sem kvaðst ekki hafa ætlað að taka við fíkniefnunum á Selfossi og afhenda óþekktum aðila eins og lýst er í niðurlagi 4. töluliðar ákærunnar. Þessir þrír ákærðu hafa allir borið að þeir hafi talið efnin sem um ræðir hafa verið stera.
Með skýlausri játningu ákærðu Jónasar Árna, Halldórs Hlíðar og Péturs Kúld, er sannað að þeir hafi, hver um sig, framið þá háttsemi sem í þessum ákæruliðum greinir utan að ósannað er gegn neitun ákærða Jónasar Árna að hann hafi ætlað að taka við fíkniefnunum á Selfossi og afhenda óþekktum aðila. Er hann sýknaður af þeim hluta ákæruliðar 4. Á sama hátt liggur ekkert fyrir um það að ákærði Pétur Kúld hafi ætlað að geyma fíkniefnin á Selfossi uns meðákærði Jónas Árni tæki við þeim á ný eins og lýst er í niðurlagi 6. töluliðar ákærunnar og er niðurstaðan ekki á því byggð að svo hafi verið, sbr. áðurgreinda niðurstöðu varðandi ákærða Jónas Árna.
Ekki er við annað að styðjast en framburð ákærðu Jónasar Árna, Halldórs Hlíðar og Péturs Kúld um að þeir hafi talið töskurnar innihalda stera, en allir hafa borið efnislega á sama veg um það frá upphafi. Þessir ákærðu létu sér hins vegar í léttu rúmi liggja hvað töskurnar sem um ræðir innihéldu og enginn þeirra gekk úr skugga um hvert innihaldið var. Það gerðu þeir heldur ekki er þeir sáu að töskurnar voru ekki 4 eða 5 heldur 18 talsins. Að þessu virtu og málavöxtum í heild eins og þeir hafa verið raktir að framan er það mat dómsins að virða beri háttsemi og huglæga afstöðu ákærðu í sem líkindaásetning og eru ákærðu Jónas Árni, Halldór Hlíðar og Pétur Kúld allir sakfelldir í samræmi við það.
Fyrir liggja matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettar 11. maí og 8. júlí 2009 þar sem staðfest er að sýnin sem send voru til greiningar séu fíkniefni þeirrar tegundar sem í ákæru greinir.
Brot ákærðu varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga eins og lýst er í ákærunni.
Ákærðu stóðu saman að innflutningi mikils magns fíkniefna hingað til lands í söluskyni. Saknæmi verknaðarins tekur m.a. mið af efnismagni og efnistegund fíkniefnanna en flutt voru til landsins rúm 55 kg af amfetamíni, 9.432 MDMA-töflur og tæp 54 kg af hassi og er efnismagnið samkvæmt þessu mjög mikið. Þáttur ákærðu er misjafn en niðurstaða dómsins er sú að þáttur ákærðu Peter Rabe, Rúnars Þórs og Árna Hrafns sé jafn en mismunandi refsivist þessara þriggja ákærðu skýrist af ólíkum sakaferli.
Eins og ákærðu Jónas Árni, Halldór Hlíðar og Pétur Kúld lýstu málavöxtum er ljóst að þáttur ákærða Jónasar Árna er sýnu mestur er þáttur þessara þriggja ákærðu er virtur. Ákærði Jónas Árni fékk ákærðu Halldór Hlíðar og Pétur Kúld til verksins og var í sambandi við innflutningsaðila efnisins. Misjöfnum þætti ákærðu Jónasar Árna og Halldórs Hlíðar er ekki lýst í ákærunni þar sem ætluðum hlut þeirra er lýst efnislega á sama veg. Verður við það að sitja við ákvörðun refsingar. Misjöfn refsivist þessara tveggja ákærðu skýrist einkum af mikilvægi framburðar ákærða Halldórs Hlíðar varðandi það að upplýsa aðild annarra í brotinu, sbr. 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærðu Jónas Árni, Halldór Hlíðar og Pétur Kúld kærðu sig kollótta um efnismagnið og efnistegund eins og rakið var en öllum hlaut þeim að vera ljóst að efnið var flutt til landsins í söluskyni.
Brot allra ákærðu eru stórfelld.
Ekki liggur fyrir erlent sakavottorð ákærða Peter Rabe. Hins vegar liggur fyrir endurrit dóms sem hann hlaut í Noregi 3. júlí 2003, fangelsi í 5 ár fyrir innflutning og vörslur á rúmum 48 kílóum af hassi. Við refsiákvörðun hans er höfð hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. og 5. tl. 1. mgr. sömu lagagreinar til refsiþyngingar. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 ár.
Ákærði Rúnar Þór hlaut 18 mánaða fangelsi í Danmörku 30. mars 2005 fyrir fíkniefnasmygl. Við refsiákvörðun hans er höfð hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og af 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, allt til refsiþyngingar. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 ár.
Ákærði Árni Hrafn hefur frá árinu 2000 gengist undir 4 lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Þá hlaut hann sektardóm á árinu 2005 fyrir fíkniefnalagabrot. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar og þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 9 ár.
Ákærði Jónas Árni hlaut fyrst dóm á árinu 1995 fyrir líkamsárás. Þá hlaut hann dóm á árinu 1998 fyrir líkamárás, eignarspjöll, umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Hann hlaut síðast refsidóm á árinu 2000 fyrir líkamsárás. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til þyngingar refsingar. Ákærði Jónas Árni hefur greint ítarlega frá sínum þætti í málinu en ekki viljað nafngreina einstaka aðila eins og rakið var og hann hefur ekki heldur viljað bera um afhendingu efnanna umfram það sem hann hefur gert. Ekki er unnt að draga skýringar hans á þessari afstöðu í efa og hann telji sig þannig hafa gildar ástæður fyrir afstöðu sinni. Hann hefur hinsvegar með framburði sínum upplýst ýmislegt í málinu m.a. um þátt annarra og er það virt honum til hagsbóta við refsiákvörðun, sbr. 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða Jónasar Árna hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 ár.
Ákærði Halldór Hlíðar hefur frá árinu 2000 gengist undir eina viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot og lögreglustjórasekt fyrir fíkniefnalagabrot auk þess að hafa hlotið 2 dóma fyrir umferðarlagabrot, síðast á árinu 2005. Við refsiákvörðun er höfð hliðsjón af hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til þyngingar refsingar. Framburður ákærða Halldórs Hlíðar, sem hefur játað brot sitt á þann hátt sem rakið var, hefur hins vegar skipt miklu máli við að upplýsa aðild annarra að brotinu og er þetta virt til refsilækkunar, sbr. 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða þykir þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár.
Ákærði Pétur Kúld hefur ekki áður hlotið refsingu. Við ákvörðun refsingar hans er höfð hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til þyngingar refsingar. Ákærði hefur hins vegar játað brot sitt eins og rakið var og er það virt til refsilækkunar. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3½ ár.
Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivist allra ákærðu óslitið gæsluvarðhald hvers um sig frá 19. apríl 2009 að því er varðar ákærðu Jónas Árna, Halldór Hlíðar og Pétur Kúld en frá 20. apríl 2009 að því er varðar ákærðu Peter Rabe, Rúnar Þór og Árna Hrafn í öllum tilvikum til dagsins í dag.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skulu upptæk dæmd þau fíkniefni sem í ákærunni greinir og nánar er lýst í dómsorði.
Ákærði Halldór Hlíðar sæti upptöku á 0,47 g af amfetamíni og 12 ml af anabólískum stungulyfjum. Vísað er til heimilda í ákæru vegna þessarar upptöku.
Ákærðu greiði óskipt 954.129 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði Peter Rabe greiði verjanda sínum Ólafi Erni Svanssyni hæstaréttarlögmanni 2.116.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Rúnar Þór greiði verjanda sínum Þorsteini Einarssyni hæstaréttarlögmanni 1.618.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Árni Hrafn greiði verjanda sínum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni héraðsdómslögmanni 1.967.100 krónur í málsvarnarlaun og 34.200 vegna aksturskostnaðar sem hefur verið greiddur. 348.600 krónur af málsvarnarlaunum til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns hafa þegar verið greiddar.
Ákærði Jónas Árni greiði verjanda sínum Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni 1.618.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Halldór Hlíðar greiði verjanda sínum Jóni Egilssyni héraðsdómslögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Pétur Kúld greiði verjanda sínum Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun.
Þóknun lögmanna er í öllum tilvikum fyrir vinnu þeirra undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Við ákvörðun þóknunar hefur í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Jón Finnbjörnsson og Sigríður Ólafsdóttir.
Dómsorð:
Ákærðu Peter Rabe og Rúnar Þór Róbertsson sæti hvor um sig fangelsi í 10 ár.
Ákærði, Árni Hrafn Ásbjörnsson, sæti fangelsi í 9 ár.
Ákærði,
Jónas Árni Lúðvíksson, sæti fangelsi í 5 ár.
Ákærði, Halldór Hlíðar Bergmundsson, sæti fangelsi 3 ár.
Ákærði, Pétur Kúld Pétursson, sæti fangelsi í 3½ ár.
Frá refsivist allra ákærðu skal draga óslitið gæsluvarðhald hvers um sig frá 19. apríl 2009 að því er varðar ákærðu Jónas Árna, Halldór Hlíðar og Pétur Kúld en frá 20. apríl 2009 að því er varðar ákærðu Peter Rabe, Rúnar Þór og Árna Hrafn í öllum tilvikum til dagsins í dag.
Upptæk eru dæmd 55.117,12 g af amfetamíni, 53.889,65 g af kannabis og 9.432 MDMA töflur og 12 ml af anabólískum stungulyfjum.
Ákærðu greiði óskipt 954.129 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði Peter Rabe greiði verjanda sínum Ólafi Erni Svanssyni hæstaréttarlögmanni 2.116.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Rúnar Þór greiði verjanda sínum Þorsteini Einarssyni hæstaréttarlögmanni 1.618.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Árni Hrafn greiði verjanda sínum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni héraðsdómslögmanni 1.967.100 krónur í málsvarnarlaun en 348.600 krónur af málsvarnarlaununum hafa þegar verið greiddar. Auk þessa greiði ákærði Árni Hrafn 34.200 vegna annars útlagðs sakarkostnaðar.
Ákærði Jónas Árni greiði verjanda sínum Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni 1.618.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Halldór Hlíðar greiði verjanda sínum Jóni Egilssyni héraðsdómslögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Pétur Kúld greiði verjanda sínum Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun.
Við ákvörðun þóknunar hefur í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts.